Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 143/2013

Fimmtudaginn 13. febrúar 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Lára Sverrisdóttir og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir.

Þann 13. september 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 2. september 2012 þar sem felld var niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar.

Með bréfi 24. september 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 24. október 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 31. október 2013 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda við greinargerð umboðsmanns bárust með bréf 12. nóvember 2013.

Með bréfi 20. nóvember 2013 óskaði kærunefndin eftir afstöðu umboðsmanns skuldara vegna athugasemda kæranda. Viðbótargreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 22. nóvember 2013. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við viðbótargreinargerð umboðsmanns skuldara. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1961. Hún býr ásamt tveimur uppkomnum börnum sínum í eigin húsnæði að B götu nr. 2 í sveitarfélaginu C. Kærandi er öryrki og hefur verið óvinnufær frá árinu 1994. Hún fær mánaðarlegar greiðslur frá Tryggingastofnun sem nema 172.673 krónum.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. mars 2012 var umsókn kæranda til greiðsluaðlögunar samþykkt. Fram kemur í ákvörðun umboðsmanns skuldara að helstu skuldbindingar kæranda megi rekja til kaupa á húsnæði að B götu nr. 2, sveitarfélaginu C. Afborganir af húsnæðinu hafi hækkað mikið auk þess sem annar kostnaður hafi fallið á kæranda, meðal annars vegna fasteignagallamáls og ábyrgðarskuldbindinga.

Samkvæmt gögnum málsins eru heildarskuldir kæranda 27.211.653 krónur og falla þær allar innan samnings samkvæmt 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Samkvæmt umsókn kæranda nema eignir hennar 21.466.720 krónum.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. maí 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. mars 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Var henni skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Með bréfi umsjónarmanns 8. nóvember 2012 tilkynnti hann umboðsmanni skuldara að kærandi hefði ekki sinnt skyldu sinni samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. um samráð við umsjónarmann eða hlýtt fyrirmælum. Heildstætt mat umsjónarmanns væri að fram hefðu komið upplýsingar sem hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli 15. gr. lge., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. september 2013 var heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld niður. Byggðist sú ákvörðun á því að kærandi hefði ekki sinnt tilskildu samráði við umsjónarmann samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. þar sem hún hefði ekki skilað bifreiðinni X til kröfuhafa. Heimild kæranda var því felld niður með vísan til 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi talið það forsendu þess að bifreiðinni X yrði skilað að gerð væri grein fyrir væntanlegri greiðslubyrði vegna hennar. Það hafi ekki verið gert. Nú hafi verið bætt úr þessu og verði bifreiðinni skilað 13. september 2013. Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Í greinargerð kæranda 12. nóvember 2013 kemur meðal annars fram að henni hafi aldrei verið gerð grein fyrir afleiðingum þeim sem 20.000 króna skuldbinding á mánuði gæti haft með hliðsjón af þeim miklu skuldum sem væru fyrir hendi. Öllum hafi verið kunnugt um að dóttir kæranda hefði umráð bifreiðarinnar og greiddi af henni. Að þetta hafi gert veg greiðsluaðlögunar ófæran yrði að teljast sérstakt. Bifreiðinni hafi nú verið skilað.

Kærandi tekur fram að allar skuldir nema skuldir vegna fasteignar hafi verið í skilum nánast allt tímabilið áður en sótt hafi verið um greiðsluaðlögun. Kæranda hafi síðan verið bannað að greiða af bifreiðinni eftir að sótt hafi verið um greiðsluaðlögun.

Kærandi tekur fram að fjárhagsvandi hennar stafi af kaupum hennar á fasteign árið 2005 en eignin hafi reynst gölluð. Fasteignin þarfnist verulegra endurbóta til að teljast íbúðarhæf en það kosti mikla fjármuni. Kærandi treysti sér hvorki til að leggja fram þetta fé né inna af hendi fullnaðargreiðslu fyrir gallaða eign. Kærandi hafi gert margar tilraunir til að ná samkomulagi við seljanda eignarinnar en án árangurs.

Í framhaldgreinagerð kæranda 12. desember 2013 kemur fram að í ljósi nýrra aðstæðna, meðal annars vegna aðgerða stjórnvalda um höfuðstólslækkanir húsnæðislána og frestana á nauðungarsölum, óski kærandi eftir því að niðurfelling á greiðsluaðlögun verði endurskoðuð.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar segir að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki staðið við eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skulda, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna sinna að öðru leyti, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. Ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laga skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé helsta markmið greiðsluaðlögunarsamninga að einstaklingum í verulegum fjárhagserfiðleikum sé gert kleift að koma jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu svo raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar í náinni framtíð. Ef umsjónarmanni eigi að vera unnt að gera drög að raunhæfu frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun, verði að leggja þær skyldur á skuldara að hann leggi fram þau gögn sem óskað sé eftir og skipta máli við gerð þess. Auk þess skuli umsækjandi veita liðsinni sitt sé þess þörf, enda skuli umsjónarmaður semja frumvarp í samráði við skuldara. Athafnaskylda umsækjanda að þessu leyti sé leidd af ákvæði 1. mgr. 16. gr. lge.

Umsjónarmaður hafi lagt frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings fyrir kröfuhafa 20. júlí 2012. Kröfuhafar hafi ekki samþykkt frumvarpið. Áður hafi umsjónarmaður boðið kæranda á fund 2. apríl 2012 þar sem umsjónarmaður hafi komist að þeirri niðurstöðu að kæranda bæri að skila bifreiðinni X til kröfuhafa. Þann 11. og 12. júlí 2012 hafi kærandi verið innt eftir því hvort bifreiðinni hefði verið skilað í samræmi við fyrirmæli umsjónarmanns. Kærandi kvaðst ekki hafa skilað bifreiðinni en kvaðst mundu gera það hið fyrsta. Þann 9. ágúst 2012 hafi borist andmæli frá kröfuhafa þar sem fram hafi komið að bifreiðinni hefði ekki verið skilað. Samkvæmt skráningu sé kærandi enn skráð umráðamaður bifreiðarinnar.

Kærandi hafi ekki sinnt tilskildu samráði við umsjónarmann þrátt fyrir ítrekuð loforð þar um. Ljóst sé af samskiptum við kröfuhafa að skil á umræddri bifreið sé forsenda þess að gengið verði til samninga af þeirra hálfu. Að þessu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins sé heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld úr gildi samkvæmt 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge.

Auk þess telji umsjónarmaður ágreining uppi um eignarhald kæranda að fasteign að B götu nr. 2 og að ekki náist samningar á milli kæranda og kröfuhafa að öllu óbreyttu.

Í viðbótargreinargerð umboðsmanns skuldara 22. nóvember 2013 kemur fram að kærandi hafi ákveðið að skila ekki bifreiðinni áður en frumvarp var lagt fyrir kröfuhafa. Hún hafi því ekki sinnt samstarfi við umsjónarmann. Engu breyti þótt kærandi hafi nú brugðist við tilmælum umsjónarmanns þar eð heimild hennar til greiðsluaðlögunar hafi þegar verið felld niður. Embættið fallist ekki á þann rökstuðning kæranda að hún hafi ekki verið nægilega upplýst og vísar í bréf umsjónarmanns því til stuðnings, auk bréfs embættisins til kæranda 19. ágúst 2013 sem kærandi hafi heldur ekki brugðist við fyrr en heimild hennar til greiðsluaðlögunar hafði verið felld niður.

Umboðsmaður skuldara bendir aukinheldur á að kærandi sé ekki afsalshafi að fasteigninni að B götu nr. 2 og ríki ágreiningur um eignarheimild á milli afsalshafa og kæranda. Ekki sé mögulegt að útbúa frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings ef eignir og skuldir kæranda liggi ekki fyrir með skýrum hætti. Ekki falli innan verksviðs umboðsmanns skuldara að leysa úr deilum varðandi einstaka skuldir, svo sem umrædda deilu um afsal fasteignar. Umboðsmaður skuldara vísar til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 234/2012 þar sem fjallað var um slíkan erindisrekstur og vísað til þess að umboðsmaður skuldara hefði ekki lagaheimildir til að aðstoða skuldara þegar svo hátti til.

Fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar byggist 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lge. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. skal umsjónarmaður, eins fljótt og auðið er eftir að kröfulýsingarfrestur er liðinn, gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Frumvarpið skal samið í samráði við skuldara.

Mál þetta snýr að því að kærandi hafi ekki sinnt skyldu sinni í samráði við umsjónarmann þar sem hún hafi látið undir höfuð leggjast að skila inn bifreiðinni X til kröfuhafa þrátt fyrir ítrekuð loforð þar um. Telur umboðsmaður skuldara að sú háttsemi kæranda varði við 1. mgr. 16. gr. lge.

Að mati kærunefndarinnar fellur framangreind háttsemi ekki undir 1. mgr. 16. gr. lge. vegna þess að slíkri háttsemi er ekki lýst í ákvæðinu. Það ákvæði laganna sem kemur til álita þegar skuldari er ekki sjálfur eigandi hlutar er b-liður 12. gr. lge. sem kveður á um að skuldari skuli, meðan hann leiti greiðsluaðlögunar, segja upp leigusamningum og öðrum samningum um útgjöld í framtíðinni sem ekki tengjast vöru og þjónustu sem er nauðsynleg honum eða heimili hans til lífsviðurværis eða eðlilegs heimilishalds. Sé skuldari hins vegar eigandi bifreiðar getur umsjónarmaður ákveðið að selja eign skuldara að undangengnu sérstöku mati samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. Eins og málið liggur fyrir hefur þessi annmarki þó ekki úrslitaþýðingu í málinu.

Samkvæmt opinberri skráningu bifreiðarinnar hafði kærandi umráð yfir henni frá 10. nóvember 2007 til 7. nóvember 2013. Kærandi skilaði því bifreiðinni til kröfuhafa undir rekstri málsins hjá kærunefndinni.

Endurskoðun æðra stjórnvalds á ákvörðunum lægra setts stjórnvalds á grundvelli stjórnsýslukæru tekur til allra þátta ákvörðunarinnar. Breyttar aðstæður eftir að umboðsmaður skuldara hefur tekið ákvörðun kunna því eftir atvikum að vera tilefni til þess að kærunefnd komist að annarri niðurstöðu í úrskurði sínum. Í máli þessu er synjun umboðsmanns skuldara meðal annars byggð á því að kærandi hafi ekki skilað bifreið sem hún hafði umráð yfir til kröfuhafa.

Í ljósi þess að kærandi hefur nú skilað umræddri bifreið er það niðurstaða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að þessar breyttu forsendur hafi þau áhrif að fella beri úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar.

Úrskurður umboðsmanns skuldara virðist einnig byggður á þeirri forsendu að ágreiningur sé um eignarhald á fasteigninni að B götu nr. 2 og að ekki náist samningar milli kæranda og kröfuhafa að öllu óbreyttu. Í 18. gr. lge. eru fyrirmæli um hvernig með skuli fara ef samningur hefur ekki tekist um greiðsluaðlögun eftir ákvæðum IV. kafla laganna. Lagagreinina verður að skilja þannig að við þessar aðstæður beri umsjónarmanni að gefa skuldara kost á því að lýsa því yfir að hann vilji leita nauðasamninga í því skyni og eftir atvikum greiðsluaðlögunar fasteignaverðkrafna á íbúðarhúsnæði. Samkvæmt lagagreininni skal umsjónarmaður þá innan tveggja vikna taka rökstudda afstöðu til þess í skriflegri greinargerð hvort hann mæli með því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á, en áður skal hann gefa skuldaranum kost á að endurskoða frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun í ljósi athugasemda sem lánardrottnar gerðu við það. Það er því í höndum umsjónarmanns með greiðsluaðlögunarumleitunum að reyna að ná samningum við kröfuhafa og meta hvort það hafi tekist eða ekki. Það er þannig hvorki í höndum umboðsmanns skuldara né kærunefndar að skera úr um hvort samningar hafi eða muni nást við kröfuhafa eða að endurskoða það mat umsjónarmanns. Sé það niðurstaða umsjónarmanns með greiðsluaðlögun að samningar náist ekki við kröfuhafa er honum rétt að setja málið í þann farveg sem kveðið er á um í 18. gr. laganna. Þar sem það var ekki gert kemur ekki til þess að kærunefndin fjalli frekar um þennan þátt málsins.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A til greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum