Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 47/2012

Fimmtudaginn 13. febrúar 2014

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 24. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 31. janúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 7. mars 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 20. mars 2012.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi 23. mars 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 23. október 2012. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru hjón bæði fædd 1976. Þau búa ásamt þremur börnum sínum í 192,8 fermetra eigin íbúð. Kærandi B leigir einnig íbúðarhúsnæði á Grænlandi vegna tímabundinna starfa sinna þar.

Kærandi B starfar hjá Y A/S og fær mánaðarlega útborgaðar um 438.390 krónur. Kærandi A er menntuð leikskólakennari, starfar sem deildarstjóri á leikskóla og fær mánaðarlega útborgaðar 213.920 krónur. Einnig fá kærendur barnabætur að fjárhæð 28.137 krónur á mánuði. Alls nema því mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kærenda um 680.447 krónum.

Að mati kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til þess er félag í eigu kæranda B, Z ehf., varð gjaldþrota. Hafi þau þurft að taka á sig skuldbindingar vegna félagsins og tekið fyrir því lán. Einnig hafi tekjumissir í kjölfar gjaldþrotsins leitt til skuldasöfnunar. Eftir þetta hafi kærandi B starfað í eigin nafni og hafi það gengið vel fram að efnahagshruninu árið 2008. Í kjölfar hrunsins hafi þau verk sem hann hafi verið að vinna við stöðvast sem og greiðslur fyrir þau. Hafi verkefnastaða kæranda B ekki verið góð næstu ár og kveðst hann hafa orðið fyrir töluverðri tekjulækkun á sama tíma og greiðslubyrði lána hafi hækkað mikið. Hafi þetta einnig leitt til þess að hann hafi ekki getað staðið skil á sköttum, þar á meðal virðisaukaskatti og launatengdum gjöldum.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 77.423.374 krónur og falla þar af 7.917.733 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skulda var stofnað á árunum 2005 og 2006.

Kærendur lögðu fram umsókn sína um greiðsluaðlögun 4. febrúar 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 31. janúar 2012 var umsókn þeirra hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Í kæru greina kærendur frá því að kæruefni sé d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. Biðji þau um endurskoðun á ákvörðun í ljósi nýrra gagna. Skilja verður þetta þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi með vísan til hinna nýju gagna.

Kærendur kveða skattskuldir sínar muni lækka um 4.391.165 krónur. Þau eigi eftir að semja við tollstjóra um greiðslur á því sem eftir standi af skuldinni. Þá muni dómsekt sennilega verða greidd með samfélagsþjónustu.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Við mat á því skuli taka tillit til nánar tilgreindra aðstæðna sem taldar séu upp í stafliðum ákvæðisins.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Í athugasemdum með 6. gr. lge. er fylgt hafi frumvarpi til laganna komi fram að ástæður sem taldar séu upp í 2. mgr. 6. eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vanda hans megi að einhverju eða öllu leyti rekja til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 sé refsivert ef skattskyldur maður afhendi ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskattskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hafi innheimt eða honum borið að innheimta. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum nemi heildarskuldbindingar kærenda 77.423.374 krónum en þar af nemi skuld vegna vangoldins virðisaukaskatts 4.488.830 krónum eða 5,8% af heildarskuldum kærenda. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum stafi virðisaukaskattskuldin frá árunum 2008 til 2011. Sé virðisaukaskattskuld frá árunum 2008 til og með 2009 byggð á innsendum skýrslum kæranda B til skattyfirvalda. Skuld frá árunum 2010 og 2011 sé byggð á áætlun skattyfirvalda og nemi hún um 3.046.260 krónum. Skattskuldir þessar séu vegna eigin atvinnurekstrar kæranda B en samkvæmt upplýsingum frá kærendum hafi hann ekki starfað í eigin nafni á árunum 2010 og 2011. Sé tekið tillit til þess séu skattskuldir samtals um 1.442.570 krónur eða um 1,9% af heildarskuldum kærenda.

Auk skattskuldar hafi kærandi B hlotið dómsekt að fjárhæð 2.439.000 krónur samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. X. Með dóminum hafi hann verið sakfelldur fyrir að hafa sem stjórnarformaður Þ ehf. brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Samkvæmt síðastnefnda ákvæðinu sé það meðal annars refsivert ef launagreiðandi afhendi ekki skilagreinar á réttum tíma eða inni ekki af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hafi haldið eftir eða honum borið að halda eftir. Af þessu leiði að þær skuldir sem stafi af háttsemi er varði refsingu nemi alls 3.881.570 krónum eða um 5% af heildarskuldum kærenda. Skuldir þessar séu frá árunum 2007 til 2009.

Samkvæmt upplýsingum á skattframtölum kærenda voru eignir þeirra og skuldir eftirfarandi á árunum 2007 til 2009:

  2007 2008 2009
Eignir 34.425.000 34.106.913 32.853.858
Skuldir 43.168.801 53.629.011 65.283.076
Nettóeignastaða -8.743.801 -19.522.098 -32.429.218

Á því tímabili sem dómsekt og vörsluskattskuldir hafi stofnast hafi nettóeign kærenda orðið neikvæð í vaxandi mæli. Hafi það að mestu leyti gerst vegna aukinnar lántöku og hækkunar lána. Nú sé eignastaða kærenda neikvæð um 48.719.584 krónur samkvæmt fyrirliggjandi gögnum en frá árslokum 2009 hafi eignastaða enn farið lækkandi vegna vanskila íbúðarlána og lækkunar á verðmæti eignar kærenda.

Kröfur sem tilkomnar séu með háttsemi er varði refsingu séu samtals að fjárhæð 3.881.570 krónur. Fjárhæðin verði út af fyrir sig að teljast verulega há og verði ekki ráðið af gögnum málsins að eignir kærenda nú eða á tímabilinu 2007 til og með 2009 séu eða hafi verið slíkar að kröfur þessar séu smávægilegar með hliðsjón af þeim. Það sé því mat umboðsmanns skuldara að skuldbindingar kærenda sem rekja megi til þeirrar háttsemi sem tilgreind sé í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. teljist ekki smávægilegar með hliðsjón af fjárhag kærenda.

Að því er varði ummæli kæranda B í kæru um að hann muni líklega greiða dómsekt að fjárhæð 2.439.000 krónur með samfélagsþjónustu, verði ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum að hann hafi óskað eftir að greiða sektina með þeim hætti svo sem áskilið er í lögum um fullnustu refsinga nr. 49/2005 en slík heimild sé bundin ýmsum skilyrðum. Færi svo að kærandi fengi slíka umsókn samþykkta, ætti hann samt sem áður eftir að afplána refsingu sína til þess að krafa ríkissjóðs um greiðslu sektar félli niður. Ekki verði þannig séð að það eitt að kærandi B telji sennilegt að hann fái að taka út refsingu sína með samfélagsþjónustu geti breytt niðurstöðu málsins.

Í kæru bendi kærendur á að skattskuld þeirra hafi lækkað um 4.391.165 krónur og að þau eigi eftir að semja við tollstjóra um greiðslu þeirra skulda sem eftir standi. Samkvæmt yfirliti tollstjóra 13. mars 2012 séu skattskuldir kæranda B nú 12.093.982 krónur og þar af nemi virðisaukaskattskuld samkvæmt innsendum skýrslum 1.442.570 krónum og dómsekt 2.439.000 krónum. Samtals nemi skuldir kærenda sem falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. 3.881.570 krónum og samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra hafi ekki verið samið um greiðslu þeirra. Verði umboðsmaður skuldara að taka mið af þeim opinberu gögnum sem fyrir liggi í málinu og nægi þar ekki yfirlýsing kærenda um að til standi að semja um skuldir.

Sé það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að kærandi B hafi bakað sér skuldbindingu sem varðað geti refsingu og sem einhverju nemi miðað við fjárhag kærenda. Þyki umboðsmanni skuldara því óhæfilegt að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar einkum með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er synjun byggð á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.

Fyrir liggur að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. X var kærandi B dæmdur til greiðslu 2.190.000 króna sektar í ríkissjóð vegna vangoldins virðisaukaskatts og vangoldinnar staðgreiðslu opinberra gjalda í rekstri félagsins Þ ehf. þar sem kærandi var stjórnarformaður. Einnig var hann dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar að fjárhæð 249.000 krónur og nemur skuld hans vegna dómsektarinnar því alls 2.439.000 krónum. Þá liggur fyrir að kærandi B skuldar vörsluskatta vegna þeirrar starfsemi sem hann hefur haft með höndum í eigin nafni. Hér verður að byggja á því að vörsluskattskuld kæranda B sé 1.442.570 krónur vegna vangoldins virðisaukaskatts á grundvelli innsendra skýrslna. Nemur því sú skuld kæranda B sem fellur undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. alls 3.881.570 krónum en ekki 4.488.830 krónum eins og fram kemur í ákvörðun umboðsmanns.

Við mat á því hvort aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. eru fyrir hendi telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kærenda neikvæð um ríflega 43.000.000 króna. Skuld kæranda B vegna dómsektar og ógreiddra vörsluskatta nemur eins og áður segir alls 3.881.570 krónum sem út af fyrir sig verður að telja mjög háa fjárhæð. Skuld þessi er nú 5% af heildarskuldum kærenda. Þetta er skuld sem ekki fellur undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi B hefur stofnað til þessarar skuldar með refsiverðri háttsemi eins og fram kemur í framangreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. X og eins og að framan greinir.

Eins og á stendur í máli þessu og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009 telur kærunefndin að fyrrnefnd skuld kæranda B, sem fellur undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge., sé svo veruleg miðað við fjárhag hans ef litið er til tekna hans og eignastöðu að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar. Breytir þá engu þótt kærandi telji dómsekt „sennilega“ verða greidda með samfélagsþjónustu þar sem ekki er upplýst hvort hann hefur óskað eftir samfélagsþjónustu og þá ekki hvort hann fullnægi skilyrðum þar um né að beiðni hans þar að lútandi hafi verið samþykkt.

Fyrir liggja upplýsingar um að skattskuldir kærenda hafi lækkað um 4.391.165 krónur vegna breytinga á álagningu. Lækkunin sem um ræðir er vegna útsvars og tekjuskatts og hefur því ekki áhrif á dómsekt eða vörsluskattskuld en þær skuldir eru grundvöllur ákvörðunar í máli þessu.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum