Hoppa yfir valmynd
5. desember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 17/2012

Fimmtudaginn 5. desember 2013

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir, formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 27. janúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 4. janúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 6. febrúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 17. febrúar 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 27. febrúar 2012 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti 12. mars 2012.

 

I. Málsatvik

Kærandi er 45 ára. Hún er fráskilin og á 7 ára dóttur. Þær búa hjá móður kæranda að B götu nr. 103 í sveitarfélaginu C. Kærandi er ljósmyndari að mennt. Hún er nú atvinnulaus en starfaði áður sem verktaki í eigin nafni. Kærandi fær greiddar atvinnuleysisbætur sem nema 166.136 krónum á mánuði en auk þess fær hún barnabætur að fjárhæð 24.366 krónur.

Kærandi bjó í Frakklandi með barnsföður sínum áður en hún flutti til Íslands. Þegar heim kom fékk hún starf hjá X útgáfufélagi. Sumarið 2007 hófust fjárhagserfiðleikar hennar. Hún átti í kostnaðarsömum málaferlum við barnsföður sinn vegna forræðis dóttur þeirra. Síðan var starfshlutfall hennar hjá X lækkað í 50% og þá fóru fjármálin úr böndunum. Í lok júlí 2011 missti kærandi starfið og hefur verið atvinnulaus síðan.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 18.746.001 króna og þar af falla 8.179.244 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Kröfur sem falla utan samnings eru námslán að fjárhæð 9.252.430 krónur og kröfur vegna vangoldins virðisaukaskatts að fjárhæð 1.314.327 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað 2007 til 2008 meðal annars vegna myndavéla- og bifreiðakaupa.

Kærandi lagði inn umsókn sína um greiðsluaðlögun 29. október 2010 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 4. janúar 2012 var umsókn hennar hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar með tilliti til skattskulda, sbr. d. lið 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Fram kemur í kæru að niðurstaða umboðsmanns skuldara sé kærð. Verður að skilja það svo að kærandi krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi ítrekar ástæður fjárhagserfiðleika sinna og lætur þess getið að hún ætlist til þess að fyrirliggjandi ákvörðun verði endurskoðuð. Kærandi kveðst hafa snúið sér til umboðsmanns skuldara vegna fjárhagserfiðleika sinna með von um aðstoð við lausn þeirra. Í þessu samhengi telji hún í hæsta máta óeðlilegt að embætti umboðsmanns skuldara geti krafist þess að kærunefndin úrskurði í málinu á sama hátt og umboðsmaður gerði.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Ákvæðið hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 10/2011.

Umboðsmaður tiltekur að í málinu liggi fyrir að töluverðar skattskuldir hvíli á kæranda, þar með talin skuld vegna vangoldins virðisaukaskatts. Kærandi gæti þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Af gögnum frá innheimtumanni ríkissjóðs verði ráðið að kærandi skuldi 1.314.327 krónur vegna virðisaukaskatts áranna 2008 til 2011. Af þeirri fjárhæð byggist 207.585 krónur á áætlun en 1.106.742 krónur á álagningu. Einnig hvíli á kæranda skuldir að fjárhæð 162.514 krónur vegna vanskila hennar á tryggingagjaldi og skuldir vegna vanskila á þing- og sveitarsjóðsgjöldum að fjárhæð 892.753 krónur. Nemi þessar skuldir samtals 2.369.594 krónum og verði því að telja vanskil kæranda á opinberum gjöldum veruleg.

Að mati umboðsmanns er fjárhagur kæranda mjög erfiður vegna mikilla skulda. Samkvæmt skattframtali 2011 sé eina eign kæranda bifreið að verðmæti 663.390 krónur. Því telji umboðsmaður eignir kæranda óverulegar að teknu tilliti til skulda.

Umboðsmaður álítur að ekki verði hjá því komist að líta til þeirrar ábyrgðar sem hafi hvílt á kæranda að standa skil á vörslusköttum og þeim sektum sem hún gæti átt yfir höfði sér fyrir að láta hjá líða að gera þeim skil. Telja verði fjárhæð virðisaukaskattsskuldarinnar verulega háa, auk þess sem ljóst sé að skuldir kæranda séu mun meiri en eignir. Því þyki ófært að líta þannig á að skuldbindingar kæranda séu smávægilegar með hliðsjón af fjárhag kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu sé það mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi bakað sér skuldbindingu svo einhverju nemi miðað við fjárhag hennar með háttsemi sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu. Þyki því af þessum sökum óhæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Þá bendir umboðsmaður á að á aðilum í atvinnurekstri hvíli sérstök skylda til að sjá til þess að vörslusköttum sem innheimtir séu í starfseminni sé skilað í ríkissjóð. Þessir aðilar séu þannig ábyrgir fyrir skilum á umræddum sköttum. Brjóti þeir gegn þessum skyldum liggi við því refsing svo sem rakið sé í ákvörðun umboðsmanns. Vörslusköttum beri að skila í lok lögákveðinna uppgjörstímabila í samræmi við ákvæði laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og laga um tryggingagjald nr. 113/1990. Einnig hafi kæranda borið að greiða þing- og sveitarsjóðsgjöld í samræmi við reglur laga um tekjuskatt nr. 90/2003 og sérlaga sem gildi um þau gjöld.

Að mati umboðsmanns hefur fjárhagsstaða almennt ekki áhrif á skyldu til að standa skil á vörslusköttum eða refsiábyrgð sem henni tengist, né heldur skyldu skattgreiðenda til að greiða þing- og sveitarsjóðsgjöld á lögákveðnum tíma. Um sé að ræða vörslufé og gjöld sem greiða beri í ríkissjóð en ekki lánsfé. Slíku fé sé aðeins heimilt að ráðstafa í samræmi við þær reglur sem tilgreindar séu í viðkomandi lögum.

Umboðsmaður gerir því næst grein fyrir f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem fram komi að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar þar sem óhæfilegt þyki að veita hana þar sem skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Einnig vísar umboðsmaður til g-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem fram komi að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar þar sem óhæfilegt þyki að veita hana þar sem skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Umboðsmaður telur þá háttsemi að láta undir höfuð leggjast að standa skil á vörslusköttum til ríkissjóðs almennt ámælisverða, enda sé um lögbrot að ræða sem varði refsingu. Með sama hætti verði að telja þá háttsemi kæranda ámælisverða að láta undir höfuð leggjast að greiða þing- og sveitarsjóðsgjöld svo sem lagaskylda stendur til. Ennfremur verði að telja að kröfur á hendur kæranda vegna vanskila á nefndum opinberum gjöldum séu þess eðlis og tilurð þeirra með þeim hætti að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra, sbr. f- og g-liði 2. mgr. 6. gr. lge. Þyki þessi skilningur staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 13/2011.

Ljóst sé að 12,64% af skuldum kæranda séu til komnar vegna vanskila hennar á opinberum gjöldum. Telja verði að fjárhagserfiðleikar kæranda verði samkvæmt því að nokkru leyti raktir til atvika sem kærandi ber sjálf ábyrgð á með háttsemi sinni.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til d-liðar, en þar er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Ákvæði d- liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskyldu að skuldbindingarnar nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara.

Þær skuldbindingar sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru vangoldnir vörsluskattar; virðisaukaskattur að fjárhæð 1.314.327 krónur sem nemi 7% af heildarskuldum kærenda.

Að mati kærunefndarinnar er skattskuld kæranda út af fyrir sig all há. Við mat á því hvort aðstæður d– liðar 2. mgr. 6. gr. lge. séu fyrir hendi telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Eigna- og skuldastaða kæranda var eftirfarandi árin 2008 til 2010 samkvæmt gögnum málsins:

  2008 2009 2010
Ráðstöfunartekjur pr. mán. kr. 427.605 285.171  
Skuldir alls kr. 11.177.694 11.559.628 25.857.651
Inneignir kr. 459.605 258.796 96.617
Ökutæki kr. 819.000 737.100 663.390
Eignir alls kr. 1.278.605 995.896 760.007
Nettó eignastaða kr. -9.899.089 -10.563.732 -25.097.644

Af framangreindu má sjá að kærandi er í raun eignalaus þar sem eignastaða hennar er neikvæð. Á þeim tíma er hún stofnaði til skuldar á vörslusköttum var eignastaða hennar sömuleiðis neikvæð. Verður skattskuld kæranda ekki talin smávægileg með hliðsjón af því.

Kærandi hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan. Eins og á stendur í máli þessu og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009 eru skuldir þessar verulegar miðað við fjárhag kærenda, sé litið til tekna kæranda, greiðslugetu og nettó eignastöðu. Í ljósi þess verður að telja að þær skuldir kæranda sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu svo háar miðað við fjárhag hennar að ekki sé hæfilegt að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar.

Með vísan til alls þessa  er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum