Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 10/2012

Fimmtudaginn 28. nóvember 2013

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir, formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 19. janúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 8. desember 2011 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 9. febrúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 5. mars 2012.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi 8. mars 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 3. október 2012. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru gift, 45 og 40 ára og búa í 223 fermetra raðhúsi sem þau leigja fyrir 220.000 krónur á mánuði. Á heimilinu búa einnig þrjú börn þeirra 11 til 17 ára gömul. Kærandi B á fasteign að C í sveitarfélaginu D.

Að mati kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til veikinda, tekjumissis og fasteignaviðskipta sem hafi farið illa. Kærandi B hafi orðið alvarlega veik árið 1998 og hafi þurft að gangast undir mikla og langvarandi læknismeðferð. Hún hafi verið óvinnufær síðan og ólíklegt sé að hún eigi afturkvæmt á vinnumarkað. Kærandi A hafi lent í bílslysi árið 2000 og hafi hann þá orðið óvinnufær. Á árunum 2003 til 2004 hafi heilsa hans þó batnað og hafi kærendur þá stofnað fyrirtækið X ehf. Heilsa hans hafi síðan versnað. Félag kærenda, X ehf., hafi lent í rekstrarerfiðleikum í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og sé nú gjaldþrota en skiptum hafi lokið í febrúar 2011. Nú telji A að erfitt verði fyrir sig að komast aftur út á vinnumarkað.

Kærendur hafi keypt fokhelda fasteign að C í sveitarfélaginu D árið 2007. Þau hafi tekið lán sem að hluta til hafi átt að nota til að greiða seljanda eignarinnar, en einnig til að kaupa húsnæði á Spáni og húsbíl. Að sögn kærenda hafi fasteignasalinn sem hafði milligöngu um kaupin á C látið allt andvirði lánsins renna til seljanda þeirrar eignar og hafi kærendur við það tapað talsverðum fjármunum. Þau hafi gert kröfu til bóta úr starfsábyrgðartryggingu fasteignasalans en kröfunni hafi verið hafnað. Nú sé eignin yfirveðsett og í nauðungarsölumeðferð.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 153.565.193 krónur og falla þar af 35.219.840 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun.

Kærendur eru bæði öryrkjar og fá greiddar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins Alls nema mánaðarlegar meðalbætur hvors um sig 163.733 krónum á mánuði. Áætlaðar barnabætur þeirra nema 42.915 krónum á mánuði og áætlaðar vaxtabætur 34.031 krónum á mánuði. Ráðstöfunartekjur þeirra samanlagt eru því 404.412 krónur á mánuði. Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 2. febrúar 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. desember 2011 var umsókn þeirra hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að umsókn um að leita greiðsluaðlögunar verði samþykkt enda hafi þau boðist til að sinna samfélagsþjónustu og taka þannig út þá refsingu sem þau hafi hlotið með dómi. Að mati kærenda teljist sektin uppgerð að samfélagsþjónustu lokinni og verði því ekki hluti heildarskulda.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til þess hvort að aðstæður sem tilgreindar eru í stafliðum ákvæðisins séu fyrir hendi. Þær ástæður sem taldar eru upp í 2. mgr. 6. gr. eigi það sammerkt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Vísað er til athugasemda við 2. mgr. 6. gr. Þar komi fram að þau atriði sem umboðsmaður skuldara skuli sérstaklega líta til við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita heimild til greiðsluaðlögunar miði að hluta við þágildandi ákvæði 1. mgr. 63. gr. d. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 enda sé nokkur reynsla komin á framkvæmd og dómvenju við beitingu þess. Umboðsmaður bendir á að ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé samhljóða ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, sem nú sé brottfallið.

Umboðsmaður bendir einnig á dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 þar sem reynt hafi á túlkun 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Niðurstaða þess dóms hafi verið sú að skuldara hafi verið synjað um heimild til greiðsluaðlögunar vegna skuldar sem hafi átt rót sína að rekja til háttsemi sem varðaði refsingu, það er vanskila á virðisaukaskatti. Fjárhæð skuldarinnar hafi verið 1.780.437 krónur eða 8,3% af heildarskuldum. Í dóminum hafi verið vísað til þess að fjárhæð þessi væri ein og sér all há, hún væri hátt hlutfall af heildarskuldbindingum skuldara auk þess sem ekki hafi verið talið að eigna- og skuldastaða skuldarans væri slík að skuldbindingin gæti talist smávægileg með hliðsjón af henni, bæði á þeim tíma sem ákvörðun var tekin og á þeim tíma sem til skuldbindingarinnar var stofnað.

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr Z hafi kærendur verið dæmd til að greiða dómsekt að fjárhæð 17.400.000 krónur hvort um sig vegna brota gegn lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Brotin hafi verið framin í rekstri fyrirtækis kærenda, X ehf., á árunum 2006 og 2007 en kærandi A var stjórnarformaður félagsins og kærandi B var framkvæmdastjóri og prókúruhafi. Félagið hafi nú verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Kærendur greini frá því í kæru að þau hafi sótt um að fá að taka út refsingu sína með samfélagsþjónustu. Að því er best verði séð hafi ekki verið tekin afstaða til umsóknarinnar, en slík heimild sé bundin ýmsum skilyrðum lögum samkvæmt. Færi svo að umsókn þeirra yrði samþykkt ættu kærendur eftir að afplána refsingu sína til að krafa ríkissjóðs um greiðslu sektar félli niður. Að mati umboðsmanns verði ekki séð að umsóknin geti ein og sér breytt niðurstöðu málsins.

Kærendur hafi ekki skilað skattframtali vegna ársins 2006 en samkvæmt skattframtali vegna ársins 2007 komi fram að skuldir séu 4.327.796 krónum meiri en eignir. Þá sé eignastaða þeirra nú neikvæð um 38.275.877 krónur, ekki síst vegna hækkandi lána og minnkandi verðmætis eigna.

Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að þær skuldir kærenda, sem stofnast hafi vegna háttsemi er varði refsingu, nemi alls 35.051.000 króna. Þessi fjárhæð verði út af fyrir sig að teljast all há, en hún sé 22,8% af heildarskuldum kærenda. Ljóst sé að skuldir kærenda sem séu til komnar vegna háttsemi er tilgreind sé í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu ekki smávægilegar með hliðsjón af fjárhag kærenda hvorki ef miðað sé við þann tíma er skuldirnar hafi stofnast né fjárhag þeirra nú.

Með hliðsjón af lögskýringargögnum og með tilliti til gagna málsins og ofangreindrar umfjöllunar sé heildstætt mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. 2. mgr. 6. gr. lge. einkum með vísan til d-liðar ákvæðisins.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er synjun um heimild til greiðsluaðlögunar byggð á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru sektir samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 17. desember 2010.

Kærendur krefjast þess að umsókn þeirra um að leita greiðsluaðlögunar verði samþykkt. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7 gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, sbr.  1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kærenda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Kröfu kærenda í málinu verður að skilja þannig að með henni sé þess krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir hann að taka ákvörðun að nýju.

Samkvæmt gögnum málsins hlutu báðir kærendur dóm fyrir að standa skil á efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum, fyrir að hafa ekki staðið skil á innheimtum af virðisaukaskatti, fyrir að hafa ekki staðið skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, fyrir að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna, og fyrir bókhaldsbrot. Brotin áttu sér stað í rekstri einkahlutafélags kærenda. Refsiábyrgð kærenda hefur því verið staðfest með dóminum. Samkvæmt honum var kærandi A dæmdur til að sæta sex mánaða skilorðsbundnu fangelsi og greiða 17.400.000 króna sekt í ríkissjóð. Kærandi B var dæmd til að sæta sex mánaða skilorðsbundnu fangelsi og greiða 17.400.000 króna sekt í ríkissjóð. Samkvæmt gögnum málsins er sektin ógreidd.

Við mat á því hvort aðstæður d–liðar 2. mgr. 6. gr. lge. eru fyrir hendi telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins eru kærendur eignalausir þar sem eignastaða þeirra er neikvæð. Þær sektir sem kærendum var gert að greiða samkvæmt ofangreindum dómi nema alls 35.050.000 krónum en þá fjárhæð verður að telja mjög háa. Skuldir þessar eru 22,8% af heildarskuldum kærenda. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f–lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærendur hafa stofnað til þessara skulda með refsiverðri háttsemi eins og tiltekið er hér að framan. Er það álit kærunefndarinnar, meðal annars með hliðsjón af framangreindum dómi Héraðsdóms Reykjaness og dómi Hæstaréttar í málinu 721/2009, að skuldir kærenda sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu svo verulegar miðað við fjárhag þeirra að ekki sé hæfilegt að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar. Breytir þá engu þó að kærendur kveðist hafa óskað eftir að taka út refsingu sína með samfélagsþjónustu. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að synja beri A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum