Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 27/2012

Fimmtudaginn 9. janúar 2014


A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 6. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 23. janúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 8. febrúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 27. febrúar 2012.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send lögfræðingi kærenda til kynningar með bréfi 5. mars 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 23. október 2012. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru 35 og 41 árs og búa ásamt tveimur börnum í leiguhúsnæði í Danmörku. Um er að ræða tímabundna búsetu vegna náms kæranda A. Kærendur eiga fasteign að C götu nr. 2 í sveitarfélaginu D og hluti í einkahlutafélögum.

Til framfærslu hafa kærendur námslán að fjárhæð 320.552 krónur á mánuði og húsaleigutekjur að fjárhæð 104.880 krónur á mánuði. Einnig þiggja kærendur mánaðarlega barnabætur að fjárhæð 27.805 krónur og barnalífeyri að fjárhæð 48.304 krónur. Alls nema því mánaðarlegar ráðstöfunartekjur þeirra 501.541 krónu.

Fram til ársins 2008 starfaði kærandi A hjá X ehf. en að auki stunduðu kærendur atvinnurekstur, meðal annars rekstur Y ehf. Við efnahagshrunið árið 2008 brast rekstrargrundvöllur Y ehf. Félagið var mikið skuldsett og lán og rekstrarkostnaður hækkuðu mjög. Kærendur héldu þó rekstrinum áfram til ársloka 2009 en kveðast hafa haft litla möguleika til að greiða sér laun. Kærandi A hafi þó haft tekjur sem umboðsmaður V eftir að hann missti vinnuna hjá X ehf. Auk ofangreindra fjárhagserfiðleika hafi kærendur lent í persónulegum áföllum sem hafi haft áhrif á vinnufærni kæranda B.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 54.087.211 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun nema námslán að fjárhæð 1.657.642 krónur. Að auki hafa kærendur tekist á hendur ábyrgðarskuldbindingar vegna atvinnurekstrar samtals að fjárhæð 20.724.883 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2000 til 2001, 2004 og 2006 til 2007.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 25. október 2010 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 23. janúar 2012 var umsókn þeirra hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að fallist verði á umsókn þeirra um greiðsluaðlögun. Til vara er þess krafist að fallist verði á umsókn kæranda B um greiðsluaðlögun. Loks er þess krafist að kærendur fái greiddan málskostnað samkvæmt mati kærunefndarinnar.

Er það mat kærenda að þrátt fyrir skattskuldir félaga sem tengst hafi kæranda A teljist það ekki á neinn hátt óhæfilegt að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar. Ákvæði 2. mgr. 6. gr. lge. kveði einungis á um heimild til að synja um greiðsluaðlögun, ekki skyldu. Álíti kærendur að umboðsmaður skuldara hafi hvorki gert ítarlega skoðun á fjármálum eða stöðu kærenda né metið þeim til góða að hafa haft fjármál sín í góðu horfi fyrir efnahagshrunið.

Kærendur telja að ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist aðallega á huglægri afstöðu umboðsmanns skuldara til hugsanlegra skattalagabrota kærenda. Synjun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi A hafi verið fyrirsvarsmaður einkahlutafélaga sem skuldi vörsluskatta. Ríkisskattstjóri hafi staðfest að álagning á félögin byggist á áætlunum. Kærendur búi nú erlendis þar sem kærandi A stundi nám. Þau hafi ekki tök á því að koma til Íslands og vinna í gerð ársreikninga og virðisaukaskattskýrslna vegna umræddra félaga. Þau hafi hvorki til þess nauðsynlega þekkingu eða kunnáttu né fé til að kaupa þá þjónustu af öðrum. Auk þessa hafi þau ekki forræði á umræddum félögum, sem bæði séu gjaldþrota. Forræði sé að öllu leyti hjá skiptastjóra.

Kærendur kveða afar ólíklegt að kærandi A verði dæmdur fyrir að halda eftir vörslusköttum. Í fyrsta lagi þar sem staðfest hafi verið að um áætlanir sé að ræða að langmestu leyti og í öðru lagi þar sem félögin hafi ekki haldið eftir vörslusköttum. Að sögn kærenda hafi umboðsmaður skuldara undir höndum gögn er sýni fram á greiðslur og greiðsluvilja umræddra félaga gagnvart sýslumanni.

Kærendur telja að umboðsmanni skuldara ætti að vera ljóst að rekstrarhæfi nefndra félaga hafi brostið í bankahruninu og það hafi tekið tíma að ákveða að hætta rekstri þeirra enda hafi þurft að segja upp starfsmönnum og leiða fjölmörg mál til lykta. Á sama tíma hafi verið stöðug fundahöld með lánardrottnum en lengi vel hafi litið út fyrir að unnt væri að halda rekstrinum áfram. Meðan á þessu hafi staðið hafi félögin ekki haft fé til að kaupa bókhaldsþjónustu og því hafi vörsluskattar verið áætlaðir á þau.

Að mati kærenda gefi umboðsmaður skuldara sér að kærandi A hafi framið refsiverðan verknað með aðkomu sinni að Z ehf. og Y ehf. og skipti sá verknaður, sem hugsanlega sé refsiverður, máli varðandi möguleika kærenda til að fá heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Kærendur minni á að þau teljist saklaus uns þau séu sek fundin og sem slík eigi þau að njóta alls vafa. Vísi kærendur til 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 þessu til stuðnings en kærandi A hafi hvorki verið dæmdur, ákærður né kærður til skattrannsóknarstjóra fyrir skattalagabrot í starfsemi nefndra einkahlutafélaga. Með vísan til þessa sé ólíðandi að embætti umboðsmanns skuldara skuli nota þau rök eða ýja að því að vegna mögulegra og hugsanlegra brota kæranda A sé ekki rétt að hann fái heimild til greiðsluaðlögunar. Fái þessi rök umboðsmanns skuldara að halda séu þau grundvallarmannréttindi sem borgurum þessa lands séu tryggð með 70. gr. stjórnarskrárinnar algerlega virt að vettugi.

Kærendur mótmæla því að þeim sé báðum synjað um greiðsluaðlögun og í reynd horft á þau sem einstaklinga. Þær aðgerðir kæranda A sem umboðsmanni skuldara þyki ámælisverðar séu þar með færðar yfir á kæranda B. Hún sé í reynd dæmd fyrir aðgerðir hans og þannig svipt þeirri vernd sem jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrárinnar og stjórnsýslulög tryggi.

Að því er varði fjárhag umsækjenda hafi eignastaða þeirra verið jákvæð á árinu 2007 en hafi breyst á árinu 2008. Breytingin hafi átt sér stað vegna hækkunar lána og óðaverðbólgu en ekki vegna þess að þau hafi tekið ný lán. Hugleiðingar umboðsmanns skuldara um að kærendur hafi skuldsett sig umfram greiðslugetu byggi á lántökum frá árunum 2000, 2001, 2004, 2006 og 2007 en þá hafi allt leikið í lyndi í íslensku efnahagslífi. Eftir að kærendur hafi séð í hvað stefndi hafi þau ekki stofnað til nýrra skuldbindinga. Einnig geri kærendur athugasemdir við þá skoðun umboðsmanns skuldara að þau hafi stofnað til mikilla skulda vegna rekstrar eigin fyrirtækja, húsnæðiskaupa og neyslu. Kærendur hafi byggt sitt fyrsta húsnæði árið 2000 og því hafi eðlilega fylgt nokkur skuldsetning. Að sögn kærenda hafi rekstur fyrirtækja kærenda gengið vel og neysluskuldir þeirra hafi verið óverulegar. Kærendur hafi ekki séð fyrir þá hækkun lána og óðaverðbólgu sem valdið hafi hækkun á skuldum þeirra.

Er það mat kærenda að niðurstaða umboðsmanns skuldara byggist á ágiskunum, getgátum og líkum en ekki staðreyndum. Umboðsmaður byggi synjun sína á atburðum og aðgerðum kærenda sem átt hafi sér stað eftir efnahagshrun. Ekki sé tekið tillit til þess að kærendur hafi rekið fyrirtæki í fjölmörg ár með góðum árangri og hafi greitt öll þau gjöld sem þeim hafi borið, bæði persónulega og vegna fyrirtækja sinna. Ekki sé heldur tekið tillit til þess að fyrir efnahagshrunið hafi fjárhagur kærenda verið umtalsvert betri en hjá meðal-Íslendingnum.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Hafi ákvæðið verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.

Í málinu liggi fyrir að töluverðar skattskuldir hvíli á félögunum Y ehf. og Z ehf. Kærandi A hafi gegnt stöðu stjórnarmanns, framkvæmdastjóra og prókúruhafa í Y ehf. og einnig hafi hann verið stjórnarmaður og prókúruhafi í Z ehf., en enginn framkvæmdastjóri hafi verið skráður hjá því félagi. Y ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota 20. maí 2010 og Z ehf. 5. mars 2011. Hluti nefndra skattskulda sé virðisaukaskattur, staðgreiðsla launagreiðanda og tryggingagjald.

Á stjórnarmönnum í einkahlutafélögum hvíli skylda til að hafa eftirlit með og tryggja skil á vörslusköttum fyrir hönd félaganna. Þá hvíli á framkvæmdastjórum sérstök skylda til að sjá til þess að vörslusköttum, sem innheimtir séu í starfsemi félaganna, sé skilað í ríkissjóð. Þessir aðilar séu þannig ábyrgir fyrir skilum á nefndum sköttum og brjóti þeir gegn þeim skyldum liggi við því refsing. Hafi kærandi A stöðu sinnar vegna borið ábyrgð á greiðslu þessara skatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Vörslusköttum beri að skila í lok lögákveðinna uppgjörstímabila í samræmi við ákvæði laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og laga um tryggingagjald nr. 113/1990. Þá gæti kærandi A þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 vegna vanskilanna.

Af gögnum tollstjóra verði ráðið að Z ehf. skuldi virðisaukaskatt að fjárhæð 20.642.138 krónur og Y ehf. skuldi staðgreiðslu launagreiðanda að fjárhæð 2.915.899 krónur, tryggingagjald að fjárhæð 2.311.257 krónur og virðisaukaskatt að fjárhæð 461.821 króna. Samanlagt nemi því skuldir félaganna á vörslusköttum 26.331.115 krónum samkvæmt yfirlitum tollstjóra.

Þann 6. janúar 2012 hafi starfsmaður umboðsmanns skuldara sent kærendum tölvupóst þar sem óskað var álits þeirra á því hvort ofangreind álagning tollstjóra á Z ehf. og Y ehf. væri í samræmi við rétta skattskyldu félaganna. Jafnframt hafi kærendum verið gefið færi á að óska eftir endurákvörðun álagningar ef þau teldu núverandi álagningu ranga. Kærendur hafi svarað erindinu með tölvupósti 9. janúar 2012. Þar hafi komið fram að álagningin byggi að miklu leyti á áætlunum enda hafi félögin skort fé til að kaupa aðstoð við bókhald. Þá taki kærendur fram að þau muni ekki gera ársreikninga eða virðisaukaskattskýrslur fyrir félögin enda hafi þau ekki fé til þess. Með tölvupósti 17. janúar 2012 hafi ríkisskattstjóri staðfest að álagning á félögin byggðist á áætlunum.

Heildarskuldir kærenda séu 54.087.211 krónur en að auki hvíli á þeim ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 20.724.883 krónur. Fjárhagsstaða kærenda hafi verið erfið allt frá 2008 en skuldir þeirra séu vegna rekstrar eigin fyrirtækja, húsnæðiskaupa og neyslu. Eignir kærenda séu fasteign að C götu nr. 2 í sveitarfélaginu D að verðmæti 27.850.000 krónur samkvæmt fasteignamati. Eignin sé mikið veðsett og áhvílandi lán í vanskilum. Einnig eigi kærendur hluti í einkahlutafélögum en hafi ekki haft af þeim tekjur eða þegið þaðan laun svo einhverju nemi samkvæmt upplýsingum á skattframtölum. Því verði að telja eignir kærenda óverulegar að teknu tilliti til skulda.

Ekki verði komist hjá því að líta til þeirrar ábyrgðar sem hvílt hafi á kæranda A sem stjórnarmanni, framkvæmdastjóra og prókúruhafa umræddra einkahlutafélaga til að standa skil á vörslusköttum og þeirra sekta sem hann gæti átt yfir höfði sér fyrir að láta hjá líða að gera þeim skil. Telja verði fjárhæðir skattskuldanna allháar en að auki sé ljóst að eignastaða kærenda sé neikvæð, tekjur fremur lágar og fjárhagur þeirra erfiður.

Því fylgi ábyrgð að stunda atvinnurekstur og þeirri ábyrgð fylgi ýmis konar skattalegt hagræði og ávinningur umfram það sem almennir launamenn geti vænst. Það sé því einungis á forræði kærenda að framvísa virðisaukaskattskýrslum til leiðréttingar á þeirri álagningu sem tollstjóri hefur lagt á umrædd félög. Þar sem kærendur hafi ekki gert það þrátt fyrir áskorun þar um verði byggt á þeim fjárhæðum við ákvörðun umboðsmanns skuldara. Þyki þess vegna ófært að líta svo á að skuldbindingar kærenda séu smávægilegar með hliðsjón af fjárhag þeirra.

Fjárhagsstaða viðkomandi einkahlutafélags hafi almennt ekki áhrif á þessa skyldu eða refsiábyrgð sem henni tengist. Um sé að ræða vörslufé en ekki lánsfé og slíku fé sé aðeins heimilt að ráðstafa í samræmi við þær reglur sem tilgreindar séu í viðkomandi lögum.

Við beitingu d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. skuli fara fram samanburður á fjárhæð skuldbindinga sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu og fjárhag skuldara. Hafi það verið gert í ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 23. janúar 2012. Þannig telji umboðsmaður skuldara að fjárhæð vörsluskattskuldar, 26.331.115 krónur, sé allhá í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. og sé því óhæfilegt að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7 gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á sameiginlegri umsókn kærenda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kærenda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Varakröfuna verður enn fremur í samræmi við það að skilja þannig að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi hvað varðar kæranda B og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju hvað hana varðar.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er synjun um heimild til greiðsluaðlögunar byggð á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru vangoldnir vörsluskattar.

Kærendur telja að ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist meðal annars á ágiskunum, getgátum og huglægri afstöðu umboðsmanns skuldara til hugsanlegra skattalagabrota annars kærenda. Hvorki hafi farið fram rannsókn né saksókn og þá hafi dómur ekki fallið í málinu. Kærendur teljist saklaus þar til þau séu fundin sek og eigi sem slík að njóta alls vafa. Þessu til stuðnings vísa kærendur til 70. gr. stjórnarskrárinnar.

Samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá var kærandi A stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi í félaginu Y ehf. Einnig var hann stjórnamaður og prókúruhafi í félaginu Z ehf. en enginn framkvæmdastjóri var skráður hjá því félagi. Því hvíldi á honum sú skylda fyrirsvarsmanna félags, sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 að því er varðar fjárreiður og eignir félags.

Fyrirsvarsmaður félags skal hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Eins og sjá má af framangreindu ber fyrirsvarsmönnum lögaðila skylda til að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Frá þessu eru ekki undanþágur líkt og kærendur virðast gera ráð fyrir. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda A sem fyrirsvarsmann viðkomandi félaga.

Í málinu er ekki ágreiningur um að þær skattskuldir sem á félögunum hvíla séu byggðar á áætlunum. Þrátt fyrir það fullyrða kærendur að félög þeirra hafi ekki haldið eftir vörslusköttum. Kærendur hafa lýst því yfir að sökum fjárskorts muni þau ekki hlutast til um að skila réttum skýrslum til skattyfirvalda og því liggur fyrir að leiðréttingar verða ekki gerðar á nefndum áætlunum. Það er mat kærunefndarinnar að ekki sé mögulegt fyrir kærendur að halda því fram annars vegar að félögin hafi ekki haldið eftir vörslusköttum og hins vegar að ekki sé möguleiki á að skila leiðréttingarskýrslum til skattyfirvalda, enda getur fyrrnefnda fullyrðingin ekki staðist öðruvísi en að færsla á virðisaukaskattsbókhaldi hafi farið fram. Að þessu leyti stangast málsástæður kærenda hvor á aðra. Af framangreindum málatilbúnaði leiðir því að kærunefndin getur ekki miðað við annað en að nefnd félög standi í skuld með vörsluskatta. Þar sem það er ekki á færi annarra en kærenda sjálfra að leiðrétta þær áætlanir, en jafnframt fyrirliggjandi að þau muni ekki hlutast til um það, telur kærunefndin ekki annað fært en að miða niðurstöðu sína við hinar áætluðu skattskuldir.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Ljóst er að með því að láta hjá líða að skila vörslusköttum, hafa kærendur bakað sér skuldbindingu samkvæmt fortakslausum ákvæðum 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Y ehf. var úrskurðað gjaldþrota 10. maí 2010 og Z ehf. 24. febrúar 2011.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kærenda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kærenda neikvæð um ríflega 24.000.000 króna. Skuldir sem stofnast hafa vegna framangreindrar háttsemi kæranda A og eru ógreiddir vörsluskattar Y ehf. nema alls 3.377.720 krónum. Skuldir sem hafa með sambærilegum hætti orðið til vegna vangreiddra vörsluskatta Z ehf. nema alls 20.642.138 krónum. Alls eru þetta 24.019.858 krónur sem telja verður afar háa fjárhæð. Skuldir þessar eru 44,4% af heildarskuldum kærenda utan ábyrgðarskuldbindingar. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi A hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan. Ákvæði 70. gr. stjórnarskrárinnar breyta ekki þeirri niðurstöðu.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta, en skuldin var vegna persónulegrar starfsemi skuldarans. Kærunefndin telur að hið sama eigi við hvort sem gjaldandinn er einstaklingur eða lögaðili enda er lagaskylda manns til að skila vörslusköttum í ríkissjóð sú sama hvort sem hann er sjálfur gjaldandi eða gjaldandinn er lögaðili sem hann er í fyrirsvari fyrir.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir, sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti, falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að telja verulegar miðað við fjárhag kærenda þannig að ekki sé hæfilegt að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar.

Varakrafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi hvað varðar kæranda B er byggð á því að óheimilt hafi verið að synja báðum kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Þær aðgerðir kæranda A sem umboðsmanni skuldara þyki ámælisverðar séu með hinni kærðu ákvörðun færðar yfir á kæranda B. Hún sé í reynd dæmd fyrir aðgerðir hans og þannig svipt þeirri vernd sem jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrárinnar og stjórnsýslulög tryggi.

Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. lge. er hjónum eða fólki í óvígðri sambúð heimilt að leita greiðsluaðlögunar í sameiningu. Samkvæmt greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að heimildin sé ætluð þeim sem séu í einhverjum mæli ábyrgir fyrir skuldum hvers annars. Eigi hjón eða sambýlisfólk veðtryggða fasteign í óskiptri sameign er eðlilegt að þau leiti greiðsluaðlögunar í sameiningu enda úrræðið háð því að eigandi geti ekki greitt af áhvílandi veðskuldum. Séu auk þess horfur á að sameiginleg greiðsluaðlögun leiði til þess að málsmeðferð og framkvæmd greiðsluaðlögunarinnar megi einfalda með þessum hætti er slíkt heimilt.

Kærendur leituðu greiðsluaðlögunar í sameiningu á grundvelli 3. mgr. 2. gr. lge. og telur kærunefndin þau uppfylla skilyrði lagagreinarinnar til þess. Leyst verður úr máli þeirra í samræmi við það. Mál kæranda B kemur því ekki til úrlausnar óháð máli kæranda A nema hún leiti greiðsluaðlögunar sem einstaklingur. Varakröfunni er samkvæmt því vísað frá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála.

Kröfuna um greiðslu málskostnaðar að mati kærunefndarinnar verður að skilja svo að verið sé að fara fram á greiðslu þóknunar til lögfræðings kærenda sem hefur komið fram fyrir þau gagnvart kærunefndinni.

Í 30. gr. lge. kemur fram hvernig háttað skuli greiðslu kostnaðar við málsmeðferð samkvæmt lögunum. Segir þar að umboðsmaður skuldara beri kostnað við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun. Lánardrottnar beri þann kostnað sem á þá falli af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Kostnaður af sölu eignar greiðist af söluandvirði hennar.

Í lge. er ekki að finna ákvæði er lúta að kostnaði við málsmeðferð fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála. Þannig greina lge. ekki frá því hver beri sérfræðikostnað kærenda, kjósi þeir að leita sér aðstoðar utanaðkomandi aðila við málarekstur sinn fyrir kærunefndinni. Þá eru engin ákvæði í lge. er heimila kærunefndinni að ákvarða kærendum kostnað úr hendi þriðja aðila vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni.

Samkvæmt þessu standa lög ekki til annars en að kærendur verði sjálf að bera þann kostnað sem þau kunna að hafa stofnað til við málsmeðferð fyrir kærunefndinni. Beiðni kærenda um greiðslu málskostnaðar er því hafnað.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum