Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 4/2012

Fimmtudaginn 21. nóvember 2013


A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir.

Þann 23. desember 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 7. desember 2011 þar sem umsókn þeirra um heimild til greiðsluaðlögunar var hafnað.

Með bréfi 30. janúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 17. febrúar 2012.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 27. febrúar 2012 og var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send kærendum með bréfi 3. október 2012. Ekki bárust athugasemdir frá kærendum.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru 26 ára og 31 árs og eru í skráðri sambúð. Þau búa ásamt þriggja ára syni sínum í eigin raðhúsi að C götu nr. 39 í sveitarfélaginu D. Annar kærenda er jafnframt eigandi að 84,2 fermetra íbúð að E götu nr. 13 í sveitarfélaginu D. Sú eign er í útleigu.

Heildarskuldir kærenda nema 93.307.592 krónum samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara. Helstu skuldbindingar kærenda eru veðkröfur, samtals að fjárhæð 78.594.691 króna, en til þeirra var stofnað við kaup og endurbætur á eignunum að E götu og C götu.

Að mati kærenda má helst rekja fjárhagserfiðleika þeirra til afleiðinga efnahagshrunsins haustið 2008. Að þeirra sögn eru ástæður skuldasöfnunar nokkrar. Nefna kærendur að rekstur sem kærandi B stóð fyrir í félaginu X ehf. hafi orðið gjaldþrota í kjölfar hrunsins, lán hafi hækkað og fasteignaverð lækkað. Þá hafi þeim ekki tekist að selja fasteignina að E götu eins og til stóð. Kærandi B hafi varið einu ári í að lagfæra fasteignirnar tvær og hafi hann því verið meira og minna tekjulaus meðan á því stóð. Í kjölfar hrunsins og gjaldþrots X ehf. hafi kærandi B átt við áfengisvandamál að stríða en hann hafi nú tekið það föstum og öruggum tökum.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að kærandi B starfi á veitingastað í eigu U ehf. Kærandi A sé án atvinnu. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra séu kærendur ekki með neinar uppgefnar launatekjur. Leigutekjur kærenda af E götu nr. 13 séu 107.500 krónur á mánuði að frádregnum skatti. Einnig fái kærendur 92.794 krónur á mánuði í barnabætur, vaxtabætur og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu. Tekjur til framfærslu nemi því 200.294 krónum. Umboðsmaður skuldara greinir frá því að með umsókn kærenda hafi fylgt launaseðlar kæranda B fyrir júní, júlí og ágúst 2011 og launaseðlar fyrir kæranda A fyrir júlí og ágúst 2011. Launagreiðandi sé U ehf. Meðallaun kæranda B hafi á tímabilinu verið 166.889 krónur á mánuði að frádregnum sköttum og gjöldum. Meðallaun kæranda A á tímabilinu hafi verið 129.048 krónur á mánuði að frádregnum sköttum og gjöldum.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. desember 2011 var umsókn kærenda um greiðsluaðlögun hafnað með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

 

II. Sjónarmið kærenda

Í kæru kemur fram að kærendur hafi farið yfir skattskil sín, leiðrétt skattframtal ársins 2008 og sent ríkisskattstjóra og umboðsmanni skuldara 2. desember 2011. Eftir að ákvörðun umboðsmanns skuldara barst kærendum hafi þau á ný farið yfir skattskil sín. Í ljós hafi komið að einnig hafi þurft að lagfæra skattskilin fyrir árið 2010. Kærendur hafi bæði starfað fyrir U ehf. árið 2010. Á launaseðlum sem þau hafi fengið frá félaginu fyrir nóvember og desember 2010 séu launin af einhverjum ástæðum ranglega tilgreind fyrir 2011. Skýri það mistökin við skattskilin. Kærendur telja rétt að taka fram að þau tengist ekki einkahlutafélaginu U ehf. á nokkurn hátt annan en að þau hafi unnið fyrir félagið.

Með kæru fylgja leiðrétt skattframtöl kærenda fyrir árið 2010 og greint er frá því að framtölin hafi einnig verið send til ríkisskattstjóra.

Með vísan til þessa og þar sem um augljós mistök hafi verið um að ræða hjá kærendum gera þau þá kröfu að umboðsmaður skuldara heimili þeim að hefja greiðsluaðlögunarumleitanir og að þeim verði skipaður umsjónarmaður.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. desember 2011 kemur fram að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar ef hann sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi aðstæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður skuldara bendir á að samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra séu kærendur ekki með neinar launatekjur. Kærandi B hafi verið tekjulaus frá árinu 2009 en það ár hafi hann fengið greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi A hafi síðast fengið greidd laun í október og nóvember 2010 þegar hún hafi fengið greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og þar áður í nóvember 2008. Samkvæmt umsókn kærenda séu þau bæði starfsmenn veitingastaðar en í greinargerð komi þó fram að kærandi A sé ekki á vinnumarkaði. Þar sé greint frá því að hún sé atvinnulaus og fái því um það bil 140.000 krónur útborgaðar á mánuði og að hún stundi nám í F grein við G háskólann. Í viðtali við ráðgjafa hjá umboðsmanni skuldara 7. október 2011 hafi komið fram að A stundi nám við G háskólann og hyggist sækja um námslán. Samkvæmt upplýsingum sem umboðsmaður skuldara hafi aflað hafi A hvorki sótt um né fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun og ekki sótt um námslán.

Kærendur hafi skilað inn launaseðlum frá félaginu U ehf. fyrir tímabilið júní til ágúst 2011. Einnig hafi fylgt umsókn handskrifaðir launamiðar vegna janúar, nóvember og desember 2011 þar sem launagreiðandi sé sagður U ehf. Þessir launamiðar hafi borist umboðsmanni skuldara með umsókn kærenda 4. mars 2011 svo annaðhvort hafi seðlarnir frá nóvember og desember verið dagsettir fram í tímann eða um misritun hafi verið að ræða og þeir eigi í raun við nóvember og desember 2010. Á launaseðlunum komi fram að staðgreiðsla sé dregin af tekjum kærenda. Kærendur hafi verið beðnir um að skýra hvers vegna skattur væri dreginn af tekjunum en hann hafi ekki skilað sér til skattyfirvalda. Þau svör hafi fengist að vinnuveitandinn U ehf. væri að vinna að því að gera upp skattamál sín. Umboðsmaður skuldara bendir á að kærendur séu skattskyldir í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og beri samkvæmt því skylda til að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum. Kærendur beri ábyrgð á að tekjur séu færðar inn á skattframtal séu þær ekki forskráðar á framtalið. Samkvæmt skattframtali vegna tekjuársins 2010 hafi launatekjur kæranda B af eigin atvinnustarfsemi numið 373.500 krónum það ár, engar tekjur hafi verið uppgefnar frá U ehf. Sama ár hafi tekjur kæranda A verið 196.319 krónur. Fjármagnstekjur ársins 2010 hafi numið 1.504.021 krónu. Árið 2009 hafi einu tekjur kæranda B komið frá Fæðingarorlofssjóði, alls 209.760 krónur, en A hafi verið tekjulaus það ár. Fjármagnstekjur ársins 2009 hafi numið 760.430 krónum. Árið 2008 hafi tekjur kæranda B verið 1.556.640 krónur og tekjur kæranda A verið 135.972 krónur. Árið 2007 hafi tekjur kæranda B verið 2.874.000 krónur, samkvæmt leiðréttu en óstaðfestu framtali þess árs. Kærandi A hafi verið tekjulaus það ár. Kærendum hafi verið gefið færi á að leiðrétta skattframtöl sín. Þau hafi brugðist við með því að leiðrétta vanframtaldar tekjur ársins 2007.

Seinni hluta árs 2007 hafi kærendur fest kaup á fasteigninni að C götu nr. 39 fyrir 37.000.000 króna. Kaupin hafi verið fjármögnuð með þremur lánum samtals að fjárhæð 32.100.000 krónur, auk eigin fjár. Samkvæmt greiðslumati Íbúðalánasjóðs hafi mánaðarlegar tekjur kærenda á þessum tíma verið 650.000 krónur og eigið fé 12.000.000 króna. Samkvæmt leiðréttu en óstaðfestu framtali vegna tekjuársins 2007 hafi tekjur kæranda B hins vegar verið 239.500 krónur á mánuði en A hafi verið tekjulaus. Kærendur hafi verið beðnir um að skýra þennan tekjumun. Þær skýringar hafi fengist frá lögfræðingi þeirra að rauntekjur kærenda hefðu verið 650.000 krónur á mánuði þegar greiðslumat hafi farið fram en að svo virtist sem vinnuveitandi kæranda B hafi ekki staðið skil á afdreginni staðgreiðslu. Umboðsmaður skuldara bendir á að á árinu 2007 hafi kærandi B verið starfandi hjá eigin félagi, X ehf., auk þess sem hann hafi fengið greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Þar sem kærandi B hafi verið eini stjórnarmaðurinn og prókúruhafinn í félaginu á þessum tíma hafi hann sjálfur borið ábyrgð á skattskilum félagsins.

Umboðsmaður skuldara bendir á að samkvæmt 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar séu tilteknar aðstæður fyrir hendi. Umsækjendur um greiðsluaðlögun þurfi að hafa staðið skil á skattframtölum síðustu fjögurra ára til að hægt sé að taka afstöðu til umsóknar þeirra. Í máli þessu séu laun samkvæmt skattframtölum ekki í samræmi við upplýsingar frá kærendum sjálfum, hvorki á þeim tíma sem þau hafi fest kaup á eigninni að C götu né þegar taka hafi átt afstöðu til umsóknar þeirra um greiðsluaðlögun. Kærendum hafi verið gefið tækifæri til að skýra og leiðrétta það ósamræmi sem sé á milli fyrirliggjandi gagna og upplýsinga þeirra. Hafi skýringar þeirra og leiðrétting á skattframtali vegna tekjuársins 2007 ekki orðið til þess að varpa skýru ljósi á stöðuna. Því meti umboðsmaður skuldara það svo að fyrirliggjandi gögn gefi ekki rétta mynd af fjárhag kærenda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara er áréttað að talsverð óvissa ríki um hverjar tekjur kærenda séu nú, hverjar þær muni verða á tímabili greiðsluaðlögunar og hverjar þær hafi verið á undanförnum árum, meðal annars á þeim tíma sem kærendur stofnuðu til stærstu skuldbindinga sinna. Þannig skorti upplýsingar og gögn sem aðeins sé á færi kærenda sjálfra að afla og ljóst sé að við meðferð málsins hafi hvílt á þeim skylda til að afla umbeðinna gagna og veita skýringar eins fljótt og þeim var unnt. Nokkuð hafi verið gengið á eftir kærendum og umboðsmanni þeirra og óskað eftir skýringum og gögnum sem eytt gætu óvissu um fjárhag kærenda.

Vegna ummæla í kæru um að kærendur hafi farið yfir skattskil sín og leiðrétt skattframtal vegna tekjuársins 2010 eftir að þeim barst ákvörðun umboðsmanns skuldara þyki umboðsmanni skuldara rétt að árétta eftirfarandi: Með bréfi 17. nóvember 2011 hafi þess verið farið á leit við kærendur að þau leiðréttu skattframtöl sín vegna síðustu fjögurra tekjuára og hafi þeim verið veittur til þess vikufrestur. Í umræddu bréfi hafi ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. verið kynnt kærendum. Þann 25. nóvember 2011 hafi umboðsmaður kærenda óskað eftir viðbótarfresti til að skila umræddum gögnum. Þann 5. desember 2011 hafi umboðsmanni skuldara borist tölvubréf með móttökukvittun frá ríkisskattstjóra vegna leiðréttingar á skattframtali vegna tekjuársins 2007 og leiðréttu skattframtali. Í tölvubréfi 6. desember 2011 hafi starfsmaður umboðsmanns skuldara minnt kærendur á að óskað hefði verið eftir því að skattframtöl síðustu fjögurra ára yrðu leiðrétt. Einnig hafi umboðsmaður kærenda verið inntur eftir því hvort kærendur teldu ástæðu til þess að leiðrétta skattskil sín vegna tekjuáranna 2008–2010. Í tölvubréfi 6. desember 2011 hafi umboðsmaður kærenda sérstaklega tekið fram að ekki yrði um frekari leiðréttingar af þeirra hálfu að ræða.

Að mati umboðsmanns skuldara veita frásagnir kærenda, framlögð gögn, skattframtöl og upplýsingar úr staðgreiðsluskrá misvísandi upplýsingar um tekjur kærenda. Nauðsynlegt sé að fyrir liggi fullnægjandi gögn og upplýsingar um tekjur umsækjenda um greiðsluaðlögun, þar á meðal skattframtöl vegna síðustu fjögurra ára, til að hægt sé að leggja mat á það hvort viðkomandi uppfylli skilyrði laganna til að fá heimild til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. 4. og 5. gr. lge. Sama gildir við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge.

Í ljósi þess sem rakið hefur verið fer umboðsmaður skuldara fram á að ákvörðun um að synja kærendum um heimild til að leita eftir greiðsluaðlögun verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 1. mgr. 6. gr. lge. og sérstakri vísun til b-liðar.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 liðum um það sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara eru, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðast, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum.

Í athugasemdum með 4. gr. lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.

Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að fyrirliggjandi gögn gefi ekki rétta mynd af fjárhag kærenda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Metur umboðsmaður skuldara það svo að frásagnir kærenda, framlögð gögn, skattframtöl og upplýsingar úr staðgreiðsluskrá veiti misvísandi upplýsingar um tekjur kærenda. Í ákvörðun vísar umboðsmaður skuldara til þess að þess hafi verið farið á leit við kærendur að þau leiðréttu skattframtöl sín vegna áranna 2007–2010.

Kærendur lagfærðu framtal vegna tekjuársins 2007 og eftir að ákvörðun umboðsmanns skuldara lá fyrir leiðréttu þau framtal vegna ársins 2010. Kærendur halda því fram að með leiðréttum skattframtölum sínum hafi þau veitt fullnægjandi upplýsingar.

Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Þær upplýsingar og gögn sem kærendur hafa lagt fram varðandi tekjur sínar eru innbyrðis ósamrýmanlegar og stangast einnig á við upplýsingar sem umboðsmaður skuldara hefur aflað á grundvelli rannsóknarskyldu sinnar, sbr. 5. gr. lge. Hefur umboðsmaður ítrekað óskað eftir því að kærendur skýri þetta misræmi en kærendur hafa ekki orðið við því nema að takmörkuðu leyti. Að mati kærunefndarinnar eru þær upplýsingar sem tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. að sínu leyti grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu, enda byggir greiðsluaðlögun sem slík öðrum þræði á því að skuldari greiði af skuldum sínum að því marki sem greiðslugeta hans leyfir. Af þessum sökum er nauðsynlegt að tekjur skuldara liggi ljósar fyrir, ella er ekki mögulegt að leggja mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt til kröfuhafa sinna á grundvelli samnings um greiðsluaðlögun.

Í máli þessu hafa kærendur ekki upplýst umboðsmann skuldara um hverjar raunverulegar tekjur þeirra eru. Að mati kærunefndarinnar skortir því á að kærendur hafi lagt fram nauðsynlegar upplýsingar til að fyrir liggi glögg mynd af fjárhag þeirra eða væntanlegri þróun fjárhags þeirra á tímabili greiðsluaðlögunar, svo sem ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. áskilur.

Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum