Hoppa yfir valmynd
14. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 234/2012

Mánudaginn 14. október 2013

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 7. desember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 29. nóvember 2012 þar sem umsókn hennar um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 5. febrúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 6. maí 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 8. maí 2013 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi 6. júlí 2013.

Með bréfi 23. júlí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til athugasemda kæranda. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns af þessu tilefni barst með bréfi 30. júlí 2013.

Kæranda var gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum með bréfi 19. ágúst 2013. Þær bárust með bréfi 24. september 2013.

I. Málsatvik

Kærandi býr ásamt barnsföður sínum og þremur börnum í leiguhúsnæði við B götu nr. 25 í sveitarfélaginu C. Eignin, sem er 318,5 m², var áður í eigu kæranda og barnsföður hennar en þau ráðstöfuðu henni til X ehf. árið 2008. Kærandi og barnsfaðir hennar eru hvorki gift né í skráðri sambúð.

Kærandi starfar að markaðs- og sölumálum hjá Y ehf. Samkvæmt ársreikningum fyrir árið 2011 er það félag í eigu Z ehf. sem aftur er í eigu X ehf. Mánaðarleg útborguð laun kæranda eru 276.831 króna.

Kærandi hefur starfað við fasteignasölu undanfarin ár en hún er löggiltur fasteignasali. Kærandi kveður fjárhagserfiðleika sína megi rekja til tekjulækkunar í kjölfar hruns íslensku bankanna.

Skuldir kæranda eru alls 60.915.873 krónur vegna lántöku og vangreiddra fasteignagjalda en að auki skuldar hún 69.500.000 krónur samkvæmt kaupsamningi um fasteignina F götu nr. 14 í sveitarfélaginu C. Alls nema skuldir kæranda því 130.415.873 krónum. Einnig hefur kærandi gengist í sjálfskuldarábyrgðir sem nema 73.948.113 krónum vegna einkahlutafélaga sem henni tengjast. Ofangreint er samkvæmt gögnum frá umboðsmanni skuldara miðað við árið 2011. Allar falla þessar skuldbindingar innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.). Meginþorri beinna skulda kæranda er tilkominn vegna kaupa á fasteignum. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2004–2009 en meginhluti skuldbindinganna er gengistryggður. Hluti skulda kæranda hefur verið endurútreiknaður en ekki þykir útilokað að fjárhæðir skulda kunni að lækka enn frekar í ljósi dóma Hæstaréttar Íslands um gengislán.

Umsókn kæranda um greiðsluaðlögun barst umboðsmanni skuldara 28. október 2010. Þann 19. nóvember 2012 lá umsókn kæranda fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. lge. Var umsókn hennar synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 29. nóvember 2012, með vísan til b-, c-, e- og f-liða lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hinni kærðu ákvörðun verði hrundið og að umsókn hennar um greiðsluaðlögun verði samþykkt.

Kærandi kveðst hafa staðið í skilum með allar sínar skuldbindingar fram á mitt ár 2008. Skuldir hennar hafi verið veðtryggðar í eignum sem gáfu af sér tekjur og í ökutæki. Ekki sé um neysluskuldir að ræða. Hún hafi staðist allar kröfur sem fjármálastofnanir gerðu til skuldara á þeim tíma er til skuldbindinganna var stofnað. Aðrar skuldir hafi verið ábyrgðarskuldbindingar fyrir félög sem öll hafi verið í góðum rekstri. Eftir hrun krónunnar hafi skuldirnar orðið óviðráðanlegar. Kærandi telur yfir vafa hafið að ef gengi krónunnar hefði ekki hrunið í kjölfar bankahrunsins væru hvorki kærandi né þau félög sem hún gekkst í ábyrgð fyrir í núverandi stöðu, en þessir aðilar hafi allir lent í vanda á sama tíma af framangreindum ástæðum. Þannig séu fjárhagserfiðleikar kæranda bein afleiðing efnahagshrunsins en stafi ekki af óhæfilegri áhættutöku hennar. Kærandi tekur fram að hvorki hún né þau félög sem hún gekkst í ábyrgðir fyrir hafi verið í fjárhagserfiðleikum í upphafi árs 2008. Hún kveðst ekki hafa farið mjög offari í skuldsetningu enda hafi hún átt umtalsverðar eignir á þessum tíma.

Að sögn kæranda batni staða hennar með degi hverjum, aðallega vegna leiðréttinga á gengistryggðum skuldbindingum hennar. Tekjur hennar séu lægri en þær þyrftu að vera þar sem núverandi staða komi í veg fyrir að kærandi fái starf við hæfi. Að mati kæranda fari hagsmunir hennar og kröfuhafa saman því að gjaldþrot kæranda myndi hafa í för með sér afskrift skulda hennar að öllu leyti. Það sé alger forsenda þess að kærandi geti greitt til baka hluta skuldbindinga sinna að hún haldi réttindum sínum sem löggiltur fasteignasali.

Kærandi telur að heildarskuldir sínar verði um 5.000.000 til 7.000.000 króna þegar endanlegu uppgjöri vegna sölu eigna verði lokið. Ábyrgðarskuldbindingar verði á bilinu 25.000.000 til 30.000.000 króna.

Fasteignaviðskipti kæranda.

Helstu skuldbindingar kæranda varða viðskipti með fasteignir. Um er að ræða fasteignirnar B götu nr. 25, D götu nr. 28 og F götu nr. 14 í sveitarfélaginu C og G götu nr. 4 í sveitarfélaginu H.

Kærandi átti helmingshlut í B götu nr. 25 á móti barnsföður sínum á árunum 2005 til 2008 en þá var eigninni ráðstafað til X ehf. Að sögn kæranda var það ljóst þegar fasteignin að B götu nr. 25 var seld, að virði eignarinnar var mun minna en fjárhæð áhvílandi skuldbindinga. Skuldbindingarnar hafi verið tvöfalt til þrefalt hærri en verðmæti eignarinnar. Eignarhluti kæranda hafi því verið einskis virði. Á eigninni hafi hvílt tryggingabréf vegna skulda barnsföður kæranda við Spron og Landsbankann að fjárhæð 193.070.828 krónur miðað við 1. október 2012. Drómi hafi látið verðmeta eignina í febrúar 2011 og hafi matsverð verið 55.200.000 krónur. Þá liggi fyrir að X ehf. eigi eftir að greiða 60.000.000 króna af kaupverði eignarinnar en sú greiðsla verði ekki innt af hendi fyrr en áhvílandi tryggingabréfum verði aflétt. Ekki hafi náðst samkomulag við veðhafa um að aflétta veðum en Drómi hafi verið ófáanlegur til þess að tiltaka hvaða fjárhæð þurfi að greiða til að fá tryggingabréfum aflétt. Kærandi mótmælir því áliti umboðsmanns skuldara að með sölu á fasteigninni hafi eignum verið skotið undan þar sem ljóst hafi verið að andvirði eignarinnar myndi allt renna til veðhafa og kærandi myndi aldrei frá neinn hluta þess.

Að því er varðar fasteignina að D götu nr. 28 segist kærandi aldrei hafa átt þessa eign en á eigninni hvíli þó skuld á hendur kæranda. Þegar núverandi eigandi eignarinnar keypti hana hafi verið gert ráð fyrir að hann yfirtæki skuldina en það hafi ekki gengið eftir og því hvíli lánið enn á eigninni. Kærandi eigi ekkert tilkall til greiðslu af söluverði eignarinnar.

Vegna fasteignarinnar að G götu nr. 4 tekur kærandi fram að hagsmunir kröfuhafa hafi verið virtir. Lán kæranda með veði í eigninni hafi nú loksins verið endurreiknað og fasteignin standi líklega undir áhvílandi láni.

Kærandi kveðst hafa átt fjórðungshlut í M ehf. fram til loka árs 2008 en félagið hafi farið með sérleyfi fyrir N á Íslandi. Að mati kæranda var verðmæti eignarhlutar hennar í félaginu töluvert. KPMG hafi verðmetið félagið árið 2006 á 340.000.000 til 510.000.000 króna og talið nettóverðmætið 420.000.000 króna. Félagið hafi verið rekið með hagnaði árið 2007 og hafi eigið fé þá numið ríflega 21.000.000 króna. Aðgerðir Dróma hafi gert félaginu ómögulegt að fá nauðsynlega fyrirgreiðslu hjá öðrum lánastofnunum til að hægt væri að stunda rekstur. Einnig hafi tekjur félagsins dregist saman um 80% og hafi samverkun þessara þátta valdið því að félagið missti umboð til starfa og þar með var rekstrargrundvöllurinn brostinn.

Ábyrgðarskuldbindingar kæranda.

Að sögn kæranda var upphafleg fjárhæð þeirra skuldbindinga sem hún ábyrgðist innan við 20.000.000 króna og hafi hún átt eignir til að standa undir þeim. Hún hafi ekki haft ástæðu til að ætla að allar ábyrgðarskuldbindingar hennar myndu gjaldfalla á sama tíma.

Kærandi gekkst í ábyrgðir fyrir O ehf. Hún kveður O ehf. hafa keypt fasteignina E götu nr. 117 í desember 2007 fyrir 47.500.000 krónur. Kaupverð hafi annars vegar verið fjármagnað með erlendu láni frá Byr og hins vegar með yfirdráttarlánum að fjárhæð 12.000.000 króna, en kærandi ábyrgðist yfirdráttarlánin. Hún hafi ekki talið mikla áhættu fólgna í því að gangast í þessa ábyrgð þar sem félagið hafi þá átt fasteignir til að gera upp allar sínar skuldir. Félagið hafi ætlað að selja eignina eftir endurbætur en Byr hafi komið í veg fyrir söluna þar sem gengi krónunnar hafði fallið mikið þegar kauptilboð barst. Eftir það hafi yfirdráttarskuldum verið breytt í skuldabréfalán enda hafi leigutekjur af eigninni átt að standa undir greiðslu skulda. Það hafi ekki gengið eftir en vegna hækkunar á erlenda veðláninu hafi allar tekjur félagsins farið til greiðslu þess. Nú hafi lánið verið endurútreiknað og ætti andvirði eignarinnar að duga til greiðslu helstu skuldbindinga. Félagið muni líklega fá að taka lánið yfir í framhaldinu.

Kærandi hafi átt hlut í M ehf. Félagið hafi tekið þrjú erlend lán hjá Spron árið 2007, hvert um sig að fjárhæð 15.000.000 króna. Kærandi gekkst í ábyrgð fyrir 25% lánanna eða 11.250.000 krónum. Þegar kærandi gekkst í ábyrgð fyrir M ehf. hafi hún ekki talið það mikla áhættu. Félagið hafi staðið vel þegar lánin voru tekin og eignir hafi verið meiri en skuldir.

Að sögn kæranda gekkst hún í ábyrgð vegna P ehf. fyrir 2.000.000 króna yfirdráttarskuld. Sú ábyrgð hafi verið gerð upp með skuldabréfi sem R ehf. gaf út og því telji kærandi sig ekki lengur ábyrga fyrir skuldinni. Landsbankinn hafi þó einhliða haldið ábyrgð kæranda á yfirdrætti félagsins þótt félagið hafi verið selt en kærandi hafi ekki haft afskipti af félaginu síðan 2004.

S ehf. var stofnuð árið 2007. Yfirdráttarskuld félagsins var að fjárhæð 6.000.000 króna og tryggð með sjálfskuldarábyrgðum sex ábyrgðarmanna. Kærandi kveður félagið hafa staðið ágætlega þegar hún gekkst í ábyrgð fyrir það. Eftir bankahrunið hafi félagið lent í miklum greiðsluerfiðleikum og því hafi yfirdráttarláni verið breytt í skuldabréfalán í þeirri von að félagið gæti greitt skuldina. Ábyrgðarmenn voru áfram þeir sömu og ábyrgðin féll að lokum á þá.

Félagið T ehf. tengist mági kæranda. Kærandi tekur fram að félagið hafi staðið vel er hún gekkst á ábyrgð fyrir það árið 2007. Upphaflega hafi hún gengist í ábyrgð fyrir yfirdráttarskuld að fjárhæð 2.265.000 krónur sem síðar hafi verið skuldbreytt. Tveir aðrir ábyrgðarmenn séu vegna þessarar skuldar.

Eignir og skuldir kæranda.

Kærandi kveður heildarskuldir sínar fyrir hrun líklega hafa verið í kring um 4.000.000 króna. Hún hafi átt verðmætan hlut í M ehf. og einnig eignarhlut í fasteignasölu sem gekk vel.

Kærandi kveður rangar forsendur liggja fyrir varðandi fjölmörg atriði í skattskýrslu sinni 2011 vegna ársins 2010. Margt hafi breyst síðan þá sem ekki hafi verið unnt að leiðrétta vegna þess að fjármálastofnanir hafi gefið upp ranga stöðu skulda. Undanfarin ár hafi tekjur hennar verið lægri en oft áður, einkum vegna þess að mikill samdráttur hafi orðið á starfssviði hennar, fasteignasölu. Að auki hafi kærandi orðið barnshafandi árið 2010. Að mati kæranda eru allar líkur á að hún muni auka tekjur sínar verulega í náinni framtíð.

Kærandi tekur fram að öll þau fyrirtæki sem hún gekkst í ábyrgðir fyrir hafi verið tengd fasteignamarkaðnum og rekstrargrundvöllur þeirra hafi hrunið um leið og fasteignamarkaðurinn. Kærandi meti það svo að hún hefði getað staðið undir þeim ábyrgðum sem hún hafi gengist í ef ekki hefði komið til afstaða fjármálafyrirtækja vegna gengistryggðra lána, en að hennar mati er það ein stærsta ástæðan fyrir því að hún þurfti að leita til umboðsmanns skuldara. Kærandi telji líkur á að hún eigi kröfu að fjárhæð 4.000.000 til 5.500.000 króna á hendur Landsbankanum og að sú krafa gæti að einhverju leyti greitt upp þær ábyrgðarskuldbindingar sem hún standi í gagnvart bankanum.

Kærandi og barnsfaðir hennar hafi fest kaup á fasteign við F götu nr. 14 árið 2007. Kaupverðið nam 99.500.000 krónum. Nú hafi verið samið um að kaupin gangi til baka að því gefnu að Drómi aflétti tryggingabréfi á eigninni. Að sögn kæranda sé ljóst að allar skuldbindingar hennar gagnvart seljanda F götu nr. 14 muni falla niður þegar gengið verði frá endanlegu samkomulagi.

Árið 2006 keypti kærandi bifreiðina I með bílasamningi frá SP-fjármögnun. Var samningsfjárhæðin 6.887.755 krónur. Að mati kæranda liggi fyrir að verðmæti bifreiðarinnar hafi ávallt dugað til að gera að fullu upp skuldbindingar hennar gagnvart SP-fjármögnun. Þá telur kærandi að allar líkur séu á að hún eigi verulega fjármuni inni hjá SP-fjármögnun þegar búið verði að gera upp bílasamninginn.

Að endingu nefnir kærandi að til allra ofangreindra skuldbindinga hafi verið stofnað í upphafi árs 2008 eða fyrr. Um hafi verið að ræða skuldbreytingar á eldri skuldum en ógerlegt hefði verið fyrir kæranda að stofna til skulda eftir þann tíma þar sem lánastofnanir hafi einungis veitt lán til fárra útvalinna.

Að áliti kæranda hafi umboðsmaður skuldara ekki metið stöðu hennar á þeim degi er stofnað var til skuldbindinga. Kærandi telur að staða skuldbindinga á öðrum tíma en á lántökudegi geti ekki verið grundvöllur fyrir því að synja kæranda um greiðsluaðlögun. Að mati kæranda er yfir vafa hafið að hún eigi rétt á heimild til að leita greiðsluaðlögunar enda sé markmið lge. skýrt, þ.e. að auðvelda skuldara að endurskipuleggja fjármál sín og laga skuldir að greiðslugetu. Þau atvik sem lge. sé ætlað að taka til eigi við um kæranda.

Með aðstoð umsjónarmanns álíti kærandi að það ætti að vera hægt að greiða úr vanda hennar þar sem óvissuþáttum hafi fækkað verulega. Þá kveðst kærandi ekki sjá tilgang umboðsmanns skuldara með því að miða greiðslugetu hennar út frá opinberum framfærsluviðmiðum vegna tímabils sem hún hafi að öllu leyti staðið við skuldbindingar sínar.

Að mati kæranda hafi embætti umboðsmanns skuldara tekið ákvörðun í máli hennar án raunverulegrar skoðunar. Embættið hafi horft til stöðunnar eftir hrunið en ekki stöðunnar þegar kærandi gekkst í umræddar skuldbindingar. Að mati kæranda líti embætti umboðsmanns skuldara fram hjá því að við þau fasteignakaup sem um ræði hafi eigið fé ávallt verið 25% eða meira. Jafnframt hafi leigutekjur alla tíð staðið undir afborgunum lána.

Kærandi óskar þess að kærunefndin taki ekki endanlega afstöðu fyrr en fjármálastofnanir hafi lokið endurútreikningi á skuldum hennar. Það liggi fyrir að á næstu vikum muni skuldir kæranda minnka verulega og verða mun minni en meðalskuldbindingar þeirra sem hafi fengið samþykkta greiðsluaðlögun. Einnig muni ábyrgðarskuldbindingar að miklu leyti verða leiðréttar.

Kærandi telur að umboðsmaður skuldara hafi hvorki virt leiðbeiningarskyldu eða rannsóknarreglu stjórnsýslulaga gagnvart sér né veitt sér andmælarétt. Kærandi greinir frá því að starfsmenn umboðsmanns skuldara hafi gefið henni kost á að koma að athugasemdum við tilteknar upplýsingar eða gögn og þannig telji þeir sig hafa virt hinn lögbundna andmælarétt. Kærandi telji þetta þó aðeins hálfan sannleikann því í andmælaréttinum felist einnig réttur aðila máls til að andmæli hans séu könnuð með fullnægjandi og hlutlausum hætti. Andmælaréttar hafi ekki verið gætt þegar stjórnvald hafi tekið ákvörðun óháð þeim athugasemdum sem kærandi hafi komið á framfæri. Að mati kæranda hafi engin hlutlæg skoðun farið fram á gögnum eða upplýsingum sem hún hafi fært fram máli sínu til stuðnings en þess í stað séu fjárhæðir og afstaða kröfuhafa til málefna hennar gagnrýnislaust tekin inn í ákvörðun umboðsmanns.

Að endingu óskar kærandi eftir því að embætti umboðsmanns skuldara aðstoði hana við að ná fram leiðréttingu á uppgjöri vegna bifreiðarinnar I gagnvart SP-fjármögnun, en vörslusvipting hafi farið fram 31. maí 2011 þrátt fyrir mótmæli hennar. Að mati kæranda hafi uppgjöri ekki verið háttað samkvæmt lögum. Einnig óskar kærandi eftir því að umboðsmaður skuldara meti hvort forsendur séu fyrir því að sjálfskuldarábyrgð hennar á skuldum O ehf. verði felldar niður. Enn fremur óskar kærandi eftir því að umboðsmaður skuldara kanni stöðu hennar gagnvart erlendu láni hennar hjá Landsbankanum sem greitt hafi verið upp í júlí 2006.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun er synjað var með ákvörðun umboðsmanns sem tilkynnt var með bréfi 29. nóvember 2012 með vísan til b-, c-, e- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara bendir á að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

Umboðsmaður tiltekur að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri einkum að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram heimild til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við matið skuli taka sérstakt tillit til þeirra aðstæðna sem lýst er í stafliðum ákvæðisins.

Umboðsmaður skuldara greinir frá því að kærandi hafi stofnað til umfangsmikilla skuldbindinga vegna viðskipta, aðallega með fasteignir, bæði í eigin nafni og sem ábyrgðarmaður og veðsali. Með því að stofna til þessara skuldbindinga hafi kærandi tekið fjárhagslega áhættu, þar á meðal áhættu vegna fjárhæða skuldbindinganna og áhættu af lækkandi fasteignaverði. Miðað við fjárhag kæranda bæði nú og þegar stofnað var til skuldbindinganna verði ekki séð að áhættan hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu kæranda. Að mati embættisins þyki liggja fyrir að fjárhagserfiðleika kæranda megi rekja til þessarar áhættu. Jafnvel þó að einhverjar leiðréttingar til lækkunar eigi sér stað á skuldum kæranda og endanleg skulda- og eignastaða verði á endanum önnur en tilgreint er í hinni kærðu ákvörðun, breyti það ekki því mati embættisins að fjárhagserfiðleikar kæranda stafi af framangreindum ástæðum. Þessu sé ekki unnt að horfa fram hjá við mat á því hvort 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við þegar tekin er ákvörðun um umsókn kæranda.

Eignir kæranda.

Samkvæmt skattframtölum kæranda voru eignir hennar eftirfarandi á því tímabili sem til skoðunar er:

Eign 2005 2006 2007 2008 2009 2010
B götu nr. 25* 23.145.000 31.515.000 35.735.000      
F götu nr 14     1.880.000 12.530.000 13.875.000 13.100.000
Ökutæki 6.650.000 5.985.000 5.386.500 4.847.850 4.363.065 3.926.758
Eignarhlutir í félögum   145.484 8.350.000 13.650.000    
Innstæður 20.484   93.028 41.515 663.616 332.319
Skuldir 52.223.843 11.332.320 13.244.564 25.769.238 37.535.561 63.124.814
Nettóeignastaða -22.408.359 26.313.164 38.199.964 5.300.127 -18.633.880 -45.765.737

*Eignarhluti veðsettur.

Kærandi átti helmingshlut í B götu nr. 25 á móti barnsföður sínum á árunum 2005 til 2008 en þá var eigninni ráðstafað til X ehf. Það félag er í eigu U ehf. Umboðsmaður telur ekki líkur á því að kærandi fái greiddar eftirstöðvar kaupverðs vegna sölu á eigninni.

Kærandi hafi átt fjórðungshlut í M ehf. Af ársreikningum félagsins verði ráðið að félagið hafi skilað rekstrarhagnaði árin 2006 og 2007 og jafnframt að eignastaða félagsins hafi verið jákvæð. Árið 2008 hafi félagið verið rekið með tapi og einnig hafi eigið fé þess verið neikvætt í árslok. Þá hafi kærandi átt hluti í nokkrum einkahlutafélögum sem stofnuð voru utan um sölu fasteigna á tímabilinu. Að mati umboðsmanns skuldara er ljóst að verðmæti eignarhluta kæranda í þessum félögum hafi að miklu leyti verið háð áframhaldandi þenslu á fasteignamarkaði.

Á kæranda hvíli skuldir bæði vegna lántöku hennar og ábyrgða sem hún gekkst í fyrir ýmis félög sér tengdri.

Beinar skuldir kæranda.

Kærandi stofnaði til eftirfarandi skulda á tímabilinu 2004 til 2009:

Kröfuhafi Lántöku- Upphafleg Fjárhæð kr. Trygging Lánstími
  ár fjárhæð kr. 2011   ár
Frjálsi fjárfestingarbankinn1 2004 5.500.000 8.279.155 D gata nr. 28 40
SP-fjármögnun, bílasamningur 2006 6.887.755 5.858.744 Bifreiðin I 5
Kaupsamn. v/F götu nr. 14² 2007 99.500.000 69.500.000    
Íslandsbanki (Byr)1 2008 30.750.000 41.669.276 G gata nr. 4 1,5 (kúla)
Íslandsbanki3 2009 3.200.000 4.067.844 Sjálfskuldaráb. 8
Landsbankinn4 2009 520.000 466.090 Sjálfskuldaráb.  
Íslandsbanki, kreditkort     68.210    
Arion banki, kreditkort     317.191    
Tollstjóri, fasteignagjöld     189.363    
  Samtals: 146.357.755 130.415.873    

1Endurreiknað.

²Samið um að kaupin gangi tilbaka en eftir standa veðskuldir.

3Skuldbreyting á yfirdráttarskuld.

4Skuldbreyting á námsskuld.

Fram kemur hjá umboðsmanni skuldara að kærandi hafi tekið lán að samanlagðri fjárhæð 46.857.755 krónur á árunum 2005–2008 vegna kaupa á tveimur fasteignum auk þess að gangast í sjálfskuldarábyrgðir að upphaflegri fjárhæð 43.013.886 krónur. Þá hafi kærandi ásamt barnsföður sínum keypt ófullbúna fasteign að F götu nr. 14 í lok ársins 2007 en kaupverð eignarinnar var 99.500.000 krónur.

Ábyrgðarskuldbindingar kæranda.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að kærandi hafi gengist í sjálfskuldarábyrgðir fyrir eftirtalin einkahlutafélög:

a)      P ehf. Kærandi gekkst í sjálfskuldarábyrgðir að fjárhæð 2.000.000 króna á árinu 2003. Félagið hefur verið úrskurðað gjaldþrota og skiptum er lokið.

b)      M ehf. Kærandi tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 11.250.000 krónur á árunum 2006 og 2007 en kærandi átti fjórðungshlut í félaginu. Félagið hætti virðisaukaskattskyldri starfsemi 1. júní 2011 og er nú í eigu X ehf.

c)      O ehf. Kærandi tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á yfirdráttarlánum að fjárhæð um 13.000.000 króna á árið 2007 en kærandi átti félagið áður. Skuldin var sett á skuldabréf árið 2009. Félagið er nú í eigu U ehf. samkvæmt skattframtölum en foreldrar kæranda eiga það félag. Skuldir félagsins eru í lögfræðiinnheimtu.

d)     R ehf. Kærandi gekkst í sjálfskuldarábyrgðir að fjárhæð 3.700.000 krónur fyrir félagið á árinu 2009. Félagið hefur verið úrskurðað gjaldþrota og skiptum er lokið.

e)      S ehf. Í febrúar 2009 gekkst kærandi í sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 6.000.000 króna fyrir félagið. Félagið hefur verið úrskurðað gjaldþrota og er skiptum lokið.

f)       T ehf. Félagið var stofnað árið 2007. Kærandi tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 2.265.000 krónur á árinu 2009.

Alls nema ofangreindar ábyrgðarskuldbindingar 38.215.000 krónum.

Umfjöllun um 2. mgr. 6. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara fellur háttsemi skuldara undir b-, c-, e- og f- liði 2. mgr. 6. gr. lge. Af þeim sökum er það afstaða umboðsmanns að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Máli sínu til stuðnings rekur umboðsmaður sjónarmið sín varðandi hvern staflið fyrir sig.

Umfjöllun um b-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er umboðsmanni skuldara heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef stofnað hefur verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Samkvæmt gögnum málsins voru mánaðarlegar meðaltekjur kæranda eftir greiðslu skatta og greiðslugeta eftirfarandi á tímabilinu:

Ár Launa- Framfærslu- Greiðslu-
  tekjur kr. kostnaður* kr. geta kr.
2005 87.923 100.481 -12.558
2006 107.630 104.449 3.181
2007 218.811 107.650 111.161
2008 198.954 116.114 82.840
2009 139.619 125.133 14.486
2010 194.020 129.601 64.419

* Samkvæmt neysluviðmiði. Kostnaður vegna fasteigna, trygginga o.fl. ekki innifalinn.

Umboðsmaður telur kæranda hafa haft mjög takmarkaða greiðslugetu á tilgreindu tímabili. Þannig verði ekki séð að hún hafi haft neina greiðslugetu á árunum 2005 og 2006 en þó hafi kærandi keypt bifreið og gengist í sjálfskuldarábyrgðir á þessum tíma en auk þess skuldaði kærandi fjármuni vegna kaupa á D götu nr. 28 sem keypt var í lok árs 2004. Á árunum 2005 til 2007 hafi kærandi gengist í sjálfskuldarábyrgðir fyrir ríflega 40.000.000 króna. Þrátt fyrir þetta hafi kærandi keypt helmingshlut í fasteignunum F götu nr. 14 og G götu nr.4, en alls nam hlutur kæranda í kaupunum 70.000.000 króna. Umboðsmaður álítur ljóst af upplýsingum um fjárhag kæranda að á þeim tíma hafi hún skuldbundið sig umfram það sem fjárhagur hennar leyfði enda verði ekki séð að hún hafi haft greiðslugetu til að greiða af verulegum viðbótarskuldbindingum. Samkvæmt ofangreindu telur umboðsmaður að skuldasöfnun kæranda á tímabilinu 2005 til 2008 hafi ekki verið í samræmi við greiðslugetu hennar enda hafi hún stofnað til skuldbindinga sem engar líkur voru á að hún gæti greitt af með tekjum sínum að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra skuldbindinga.

Umboðsmaður tiltekur að það hafi nokkuð vægi í hinni kærðu ákvörðun að um verulegar skuldir vegna atvinnurekstrar sé að ræða, en það hafi áhrif á mat samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. enda muni tilgangur greiðsluaðlögunar ekki vera að aðlaga greiðslubyrði skulda atvinnufyrirtækja að greiðslugetu einstaklinga, hvort sem skuldirnar eru í nafni einstaklinga eða félaga með takmarkaðri ábyrgð.

Umboðsmaður telur að fjárhagserfiðleikar kæranda stafi fyrst og fremst af áhættusömum ráðstöfunum hennar í aðdraganda erfiðleikanna.

Umfjöllun um c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt c-lið er umboðsmanni skuldara heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þykir að heimila hana vegna þess að skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Fram kemur hjá umboðsmanni að telja verði að atvinnurekstri, lántökum og ábyrgðarskuldbindingum sem honum tengjast fylgi ávallt fjárhagsleg áhætta. Fyrir liggi að skuldbindingar kæranda stafi að langmestu leyti frá atvinnurekstri sem fólst í kaupum, útleigu og sölu fasteigna. Umboðsmaður telur atvinnurekstur kæranda hafa verið umfangsmikinn. Ýmsir áhættuþættir tengjast viðskiptum sem felast í skuldsettum kaupum á fasteignum til útleigu og endursölu, svo sem eftir atvikum verðsveiflur á fasteigna- og leigumörkuðum, vaxta- og gengisáhætta. Telja verði að áhættan sé þeim mun meiri þegar skuldsetning tengd henni er jafn mikil og í tilviki umsækjanda. Þá sé til þess að líta að umtalsverð útgjöld fylgi mikilli fasteignaeign auk fjármagnskostnaðar.

Það er mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi tekið verulega fjárhagslega áhættu undir lok ársins 2007 er hún keypti hlut í tveimur fasteignum og gekkst að auki í sjálfskuldarábyrgðir fyrir 13.000.000 króna vegna kaupa O ehf. á fasteign. Til þess sé að líta að á árinu 2007 hafi greiðslugeta kæranda aðeins verið um 111.000 krónur að meðaltali á mánuði eftir framfærslu, en kærandi var þá skuldari að bílasamningi og láni vegna fasteignarinnar D götu nr. 28. Umboðsmaður telur að kærandi hafi ekki verið í stöðu til að greiða af viðbótarskuldbindingum.

Samkvæmt framansögðu telur umboðsmaður að greiðsluerfiðleikar kæranda verði fyrst og fremst raktir til skuldsetningar hennar í tengslum við fjárhagslega áhættusaman atvinnurekstur, þ.e. skuldsett kaup kæranda og einkahlutafélaga í hennar eigu á fasteignum til endursölu.

Með ofangreindu telur umboðsmaður skuldara að kærandi hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað og sé því óhæfilegt að veita henni greiðsluaðlögun. Vísar umboðsmaður einnig til úrskurða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í málum nr. 56/2011 og 81/2011 máli sínu til stuðnings.

Umfjöllun um e- og f-liði 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er umboðsmanni heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þykir að heimila hana vegna þess að skuldari hafi efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að umboðsmanni sé heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þykir að heimila hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Hér gerir umboðsmaður grein fyrir því að í aðdraganda bankahrunsins hafi kærandi ráðstafað eignarrétti sínum að fasteignunum B götu nr. 25, D götu nr. 28 og G götu nr. 4 án þess að áhvílandi lán væru samhliða yfirtekin.

Kærandi hafi ráðstafað eignarhlut sínum í fasteigninni að B götu nr. 25 í sveitarfélaginu C til X ehf. í nóvember 2008 en samkvæmt afsalsskjölum eru kærandi og barnsfaðir hennar eigendur félagsins og fram komi í hlutafélagaskrá að það hafi þau verið frá því í september 2004. Í afsali um eignina kemur fram að kaupverð sé greitt, en ekki er samræmi í gögnum málsins varðandi kaupverð eignarinnar. Í skattframtali vegna ársins 2008 komi fram að söluverðið hafi verið 60.000.000 króna en samkvæmt óþinglýstum kaupsamningi og fullyrðingum kæranda hafi kaupverðið verið 90.000.000 króna, þar af hafi 30.000.000 króna verið greiddar við undirritun kaupsamnings en 60.000.000 króna hafi átt að greiðast þegar veðböndum hafi verið aflétt. Engin fyrirliggjandi gögn sýni fram á greiðsluna eða hvernig henni hafi verið varið og ljóst sé að áhvílandi veðskuldir hafi ekki verið yfirteknar.

Umboðsmaður skuldara telur að kærandi hafi verið nákomin X ehf. þegar ráðstöfunin átti sér stað. Einnig álítur umboðsmaður að um örlætisgerning hafi verið að ræða enda kaupverð mjög lágt miðað við verðmæti eignarinnar. Þannig liggi fyrir að ráðstöfunin hafi rýrt mjög eignir umsækjanda en auk þess hafi tekjur hennar verið mjög lágar á þessum tíma, skuldir hennar miklar og ljóst að hún hafi verið ógjaldfær. Í bréfi kæranda frá 3. október 2012 lýsi hún því að eignin hafi verið yfirveðsett þegar hún var seld X ehf. og því hafi eignarhlutur hennar í eigninni verið einskis virði. Einnig að söluverðið, 90.000.000 króna, hafi verið mun hærra en markaðsverð, en eignin hafi aðeins verð talin 55.000.000 króna virði samkvæmt verðmati Dróma í byrjun árs 2011. Þá kveður kærandi að X ehf. skuldi sér eftirstöðvar kaupverðsins, eða 60.000.000 króna.

Kærandi á enn lögheimili á eigninni og tilgreinir hana sem heimili sitt en hún kveðst hafa leigt eignina af X ehf. frá því að salan fór fram.

Að mati umboðsmanns skuldara er ofangreind ráðstöfun til X ehf. riftanleg á grundvelli 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991 (gjþl.) þar sem eigninni var afsalað án þess að áhvílandi lán væru jafnframt yfirtekin. Þá telur umboðsmaður að ráðstafanir þessar og leigugreiðslur til X ehf. hafi sýnt að kærandi hafi látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar svo sem henni frekast var unnt, enda hafi hún með þessum hætti látið umtalsverða fjármuni ganga til einkahlutafélags sem var henni nátengt í stað þess að ráðstafa þeim til greiðslu skulda.

Umboðsmaður skuldara bendir á að við meðferð málsins hjá embættinu hafi komið í ljós atvik sem þóttu geta leitt til synjunar um heimild til greiðsluaðlögunar. Því hafi kæranda verið send andmælabréf 4. apríl og 13. september 2012 þar sem henni var boðið að leggja fram frekari gögn og tjá sig. Kærandi hafi svarað með bréfum 2. maí og 3. október 2012 og hafi þau svör verið nokkuð ítarleg. Allnokkur samskipti hafi farið fram á milli kæranda og embættisins í gegnum tölvupóst og síma. Í því ljósi telur umboðsmaður að ekki hafi verið tilefni til að gera ráð fyrir að leiðbeiningar hafi skort af hendi embættisins.

Þá tekur umboðsmaður fram að hann hafi yfirfarið allar skýringar og gögn sem kærandi hafi fært fram. Þannig hafi andmælaréttur kæranda verið að fullu virtur, enda hafi komið skýrt fram í andmælabréfum til kæranda að til skoðunar hafi verið fjárhagsstaða og áhættutaka þegar kærandi stofnaði til skuldbindinga sinna og ráðstafana.

Að endingu tekur umboðsmaður skuldara fram að hann hafi hvergi tekið afstöðu til hugsanlegrar lækkunar á skuldum kæranda en af skýringum hennar þyki ljóst að mörgu sé ólokið í þeim efnum.

Að öllu þessu virtu fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun, sem tekin var á grundvelli b-, c-, e- og f- liða 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010, verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Fyrst verður vikið að beiðni kæranda að því er varðar frestun nefndarinnar á afgreiðslu málsins. Því næst að þeim atriðum sem kærandi telur að ábótavant hafi verið við málsmeðferð umboðsmanns skuldara gagnvart henni. Þá ósk kæranda um aðstoð umboðsmanns skuldara við tiltekinn erindrekstur. Loks verður gerð grein fyrir niðurstöðu kærunefndarinnar að því er varðar synjun umboðsmanns skuldara á heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar.

Beiðni um að kærunefndin ljúki ekki málinu fyrr en erlend lán kæranda hafa verið endurútreiknuð.

Kærandi óskar þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála taki ekki afstöðu til erindis hennar fyrr en viðkomandi fjármálastofnanir hafa lokið endurútreikningi á þeim erlendum skuldum sem um ræðir.

Aðili getur borið tiltekið álitaefni undir stjórnvald í því skyni að fá úrlausn málsins í samræmi við gildandi lög. Stjórnvöldum eru settar ákveðnar skorður við meðferð slíkra mála, til dæmis með stjórnsýslulögum, sérlögum og því sem nefnt hefur verið góðir stjórnsýsluhættir. Samkvæmt málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Af því leiðir að þegar stjórnvaldi berst erindi er mikilvægt að leggja strax mat á erindið, leita umsagna við fyrstu hentugleika og vinna stjórnsýslumál að öðru leyti eftir málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaganna. Þegar mál er orðið tækt til ákvörðunar ber stjórnvaldi að taka ákvörðun í því. Þýðingarlaust er að bera erindi undir stjórnvald ef ekki er ætlast til að það sé afgreitt í samræmi við aðstæður, eins og þær liggja fyrir í málinu, og þau lög og reglur sem stjórnvaldi ber að starfa eftir.

Í tilviki kæranda er staðan þannig að ekki liggur fyrir hvort og þá hvaða erlendu lán verði endurreiknuð. Þá liggur heldur ekki fyrir hvort eða að hvaða leyti veðtryggingar duga til greiðslu viðkomandi lána. Engu að síður lagði kærandi erindi sitt fyrir kærunefndina og á nefndin ekki annars kost en að taka málið til meðferðar eins og það er úr garði gert. Með vísan til þess sem segir hér að ofan hafnar kærunefnd greiðsluaðlögunarmála beiðni kæranda um að fresta afgreiðslu málsins þar til erlend lán hafa verið endurútreiknuð.

Málsmeðferð embættis umboðsmanns skuldara gagnvart kæranda.

Kærandi telur að embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki virt lögbundna leiðbeiningarskyldu, rannsóknarreglu eða andmælarétt stjórnsýslulaga á hendur sér.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af reglunni leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði, svo sem að gera aðila viðvart ef hann hefur ekki skilað nauðsynlegum gögnum eða ekki veitt nægilega ítarlegar upplýsingar. Engar formkröfur eru fyrir hendi varðandi leiðbeiningarskylduna. Þannig geta upplýsingar verið bæði skriflegar og munnlegar, almennar eða sérstakar. Til dæmis geta leiðbeiningar verið settar fram í bæklingum frá stjórnvaldi, auglýsingum eða á netsíðum. Einnig er talið að stjórnvaldi sé skylt að veita leiðbeiningar um þær réttarheimildir sem á reynir og reglur um málsmeðferð, svo sem reglur um þá fresti sem gilda við meðferð viðkomandi máls. Í ákvæði 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga felst ekki skylda til að veita umfangsmikla eða sérfræðilega ráðgjöf.

Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en tekin er ákvörðun í því. Í því er talið felast að stjórnvaldi beri að sjá til þess að eigin frumkvæði að nauðsynlegar og réttar upplýsingar liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin í máli meðal annars með hliðsjón að þeim lagareglum sem gilda á viðkomandi sviði. Þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á matskenndum grundvelli, svo sem þegar beitt er reglum 2. mgr. 6. gr. lge., skal mismunur á úrlausn mála byggjast á málefnalegum sjónarmiðum. Með öðrum orðum þarf að vera ákveðið samspil á milli málsatvika og þeirra sjónarmiða sem heimilt er að leggja til grundvallar.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun er tekin í því. Í reglunni er talin felast réttur aðila til að koma að viðbótargögnum, upplýsingum og viðhorfum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli. Þessi skylda varðar eingöngu upplýsingar sem hafa þýðingu fyrir mat á staðreyndum málsins eða sönnun um hverjar þær eru.

Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur útfyllt viðkomandi eyðublað og afhent embætti umboðsmanns skuldara gögn svo sem henni er skylt að gera samkvæmt lge. Einnig liggur fyrir að embætti umboðsmanns skuldara hefur aflað gagna og leitað upplýsinga um ýmis þau atriði sem eru til þess fallin að skýra stöðu kæranda gagnvart lánardrottnum sínum. Embættið sendi kæranda tvö svonefnd andmælabréf. Fyrra bréfið var sent kæranda 4. apríl 2012 en þar var óskað skýringa við tilteknar ábyrgðarskuldbindingar kæranda, viðkomandi lagaákvæði sett fram og jafnframt greint frá því að með heimild c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. væri umboðsmanni skuldara heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögun við nánar tilgreindar aðstæður. Kærandi svaraði með bréfi 2. maí 2012. Seinna bréfið er frá 13. september 2012 en þar var kærandi upplýstur um að fyrir lægju upplýsingar sem leitt gætu til synjunar á beiðni hennar um greiðsluaðlögun. Voru þær upplýsingar skilmerkilega tíundaðar í bréfunum, viðkomandi lagaákvæði sett fram og kæranda boðið að tjá sig um þær innan frests sem hún gerði með bréfi 3. október 2012. Í báðum bréfunum var hún upplýst um þá ráðgjöf og aðstoð sem í boði væri hjá embætti umboðsmanns skuldara. Þegar ákvörðun umboðsmanns skuldara var kynnt kæranda var tekið fram að ákvörðunina mætti kæra til kærunefndarinnar innan tiltekins frests. Einnig fylgdi með eyðublað fyrir kæru.

Í ljósi ofangreinds er það mat kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að embætti umboðsmanns skuldara hafi sinnt rannsóknar- og leiðbeiningarskyldu sinni svo og gætt andmælaréttar kæranda á þann hátt sem lög mæla fyrir um.

Ósk kæranda um aðstoð umboðsmanns skuldara við tiltekinn erindrekstur.

Kærandi óskar þess að umboðsmaður skuldara aðstoði hana við að ná fram leiðréttingu á uppgjöri vegna bifreiðarinnar I gagnvart SP-fjármögnun. Einnig óskar kærandi eftir því að umboðsmaður skuldara meti hvort forsendur séu fyrir því að sjálfskuldarábyrgð hennar á skuldum O ehf. verði felldar niður. Þá óskar kærandi eftir því að umboðsmaður skuldara kanni stöðu hennar gagnvart erlendu láni kæranda hjá Landsbankanum sem greitt hafi verið upp í júlí 2006.

Embætti umboðsmanns skuldara telst stjórnvald í skilningi stjórnsýsluréttar og starfar á grundvelli laga nr. 100/2010. Tilgangur embættisins er meðal annars að veita einstaklingum sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum endurgjaldslausa aðstoð við að öðlast heildarsýn á fjármál sín og leita leiða til lausnar, hafa milligöngu um samskipti og samninga við lánardrottna með hagsmuni skuldara að leiðarljósi og veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun. Varðandi síðastgreinda atriðið gilda lög um greiðsluaðlögun einstaklinga, lge.

Af framangreindu má sjá að embætti umboðsmanns skuldara veitir skuldurum nánar tilgreinda almenna aðstoð við heildarlausn fjármála sinna. Umboðsmaður skuldara hefur ekki lagaheimildir til að aðstoða skuldara við erindrekstur tengdan einstökum og sérgreindum skuldum eða deilum sem sprottnar eru upp af þeim sökum. Áhersla embættis umboðsmanns skuldara er á heildarlausnir á málefnum skuldara. Það ber einnig að hafa í huga að stjórnvaldi ber ekki að veita aðila stjórnsýslumáls sérfræðilega ráðgjöf eða sinna slíkri ráðgjöf fyrir hann.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er það álit kærunefndarinnar að embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki að lögum heimildir til að sinna umbeðnum erindrekstri fyrir kæranda.

Niðurstaða kærunefndarinnar að því er varðar synjun umboðsmanns skuldara á heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-, c-, e- og f- liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er umboðsmanni skuldara heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef stofnað hefur verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið er umboðsmanni skuldara heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þykir að heimila hana vegna þess að skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er umboðsmanni heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þykir að heimila hana vegna þess að skuldari hafi efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að umboðsmanni sé heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þykir að heimila hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Af skattframtölum kæranda má ráða hún hafi átt eignir umfram skuldir á tímabilinu 2005 til 2008. Á árunum 2009 og 2010 voru skuldir meiri en eignir. Töluverður hluti eigna kæranda voru hlutir í einkahlutafélögum sem hún tengdist. Þannig voru hlutir í þessum félögum um 22% nettóeigna kæranda á árinu 2007 en meiri en nettóeignir á árinu 2008. Að mati kærunefndarinnar verður að setja fyrirvara við bókfært virði þessarar hlutafjáreignar þegar eignastaða kæranda er metin. Markaður með hluti í þessum félögum var ekki virkur, eigendur voru fáir og félögin voru flest háð sömu áhættuþáttum, þ.e. áhætta eða óvissa var um verðmæti þeirra fasteignaverkefna sem félögin stóðu að.

Að mati kærunefndarinnar verður einnig að horfa til þess við mat á eignastöðu kæranda að hennar stærsta eign, eignarhluti í B götu nr. 25, var að hennar sögn að fullu veðsettur vegna skulda barnsföður. Því var ekki um það að ræða að kærandi gæti selt þá eign og ráðstafað henni upp í skuldir. Að mati kærunefndarinnar er því ekki unnt að líta svo á að kærandi hafi haft umtalsverðar eignir til ráðstöfunar á móti skuldum þótt bókfært virði þessara eigna hafi verið nokkuð.

Helstu skuldir kæranda stafa frá árunum 2007 og 2008 en á þeim árum tókst hún á hendur skuldir að fjárhæð rúmar 130.000.000 króna, auk ábyrgðarskuldbindinga að fjárhæð um 24.000.000 króna. Á árinu 2009 framlengdi hún eldri skuldbindingar að fjárhæð 3.720.000 krónur. Þá tókst hún á hendur ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 6.500.000 krónur árið 2009. Greiðslugeta kæranda á mánuði var 111.161 króna árið 2007, 82.840 krónur árið 2008 og 14.486 krónur árið 2009.

Af þessu þykir kærunefndinni ljóst að kærandi hafði engan veginn greiðslugetu til að geta staðið undir þessum skuldbindingum á þeim tíma sem stofnað var til þeirra. Þegar litið er til þess sem greinir hér að framan telur kærunefndin að skuldari hafi verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, þar með talið ábyrgðarskuldbindingar, í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., þegar til þeirra var stofnað.

Af því sem rakið hefur verið hér að framan má sjá að eignir kæranda á ofangreindu tímabili hefðu ekki dugað til greiðslu skulda hennar á sama tímabili. Þá hefði greiðslubyrði skulda umfram eignir verið mun meiri en launatekjur kæranda hefðu getað staðið undir. Þá telur kærunefndin að kærandi hafi gengist í verulegar sjálfskuldarábyrgðir í trausti þess að þeir aðilar sem hún ábyrgðist myndu ekki lenda í greiðsluvanda. Kærunefndin telur að hér hafi kærandi tekið sérstaklega mikla áhættu þar sem kærandi annars vegar og þau félög sem hún gekkst í ábyrgðir fyrir hins vegar, stunduðu að mestu leyti sams konar viðskipti sem að miklu leyti voru fjármögnuð með erlendum lánum. Þannig var áhættan sem kærandi tók vegna eigin skulda og sú áhætta sem fólst í ábyrgðarskuldbindingum er hún gekkst í, nánast sú sama.

Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er samanber það sem greinir hér að ofan. Í fyrri úrskurðum kærunefndar hefur niðurstaðan jafnan verið sú að þegar kærendur takast á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur eru á að þeir geti greitt af miðað við tekjur, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem til skuldbindingar er stofnað, leiði það til þess að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun. Þegar litið er til þess sem gerð er grein fyrir hér að framan telur kærunefndin að skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Ábyrgðarskuldbindingar er ekki alltaf hægt að leggja að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá einstaklingur sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þarf þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild. Þótt ekki verði gengið fortakslaust út frá því að ábyrgðaraðili muni þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á verður engu að síður að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.

Skuldbindingar þær sem kærandi ábyrgðist eru af því umfangi að líta verður svo á að þær hafi ekki verið í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Annars vegar verður ekki séð að kærandi hafi haft raunhæfa möguleika á að greiða af umræddum skuldbindingum ef á reyndi. Hins vegar verður að líta til þess hve áhætta kæranda var samtvinnuð áhættu þeirra aðila sem hún gekkst í sjálfskuldarábyrgðir fyrir.

Þá verður einnig að líta til þess að hluti af skuldbindingum kæranda eru skuldir vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a gjþl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.

Í ljósi alls þessa sem hér greinir telur kærunefnd greiðsluaðlögunarmála að óhæfilegt sé að veita kæranda greiðsluaðlögun á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt framangreindu er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum