Hoppa yfir valmynd
5. september 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 40/2011

Fimmtudaginn 5. september 2013

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Lára Sverrisdóttir og Kristrún Heimisdóttir.

Þann 29. júlí 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 15. júlí 2011 þar sem umsókn hans um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 10. ágúst 2011 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi dagsettu 19. ágúst 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 25. ágúst 2011 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi 31. ágúst 2011. Voru athugasemdir kæranda sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 8. september 2011. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi dagsettu 14. október 2011.

I. Málsatvik

Kærandi er giftur, þriggja barna faðir. Hann býr ásamt eiginkonu sinni og tveimur ungum börnum í sveitarfélaginu B. Auk þess á hann eina dóttur sem býr í Danmörku og greiðir hann með henni meðlag. Kærandi hefur lengi starfað við smíðar og einnig komið að stofnun og rekstri ýmissa félaga. Hann tók yfir félagið X ehf. árið 2001 og var einn þriggja eigenda byggingafélagsins Y ehf. frá og með 2005. Síðan rak kærandi líkamsræktarstöð í sveitarfélaginu B í félagið við aðra.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til efnahagshrunsins og þeirra áhrifa sem það hafði á rekstrarumhverfi fyrirtækja hans. Á árunum 2005–2008 hafi kærandi rekið einkahlutafélagið Y ehf. en félagið keypti lóðir og byggði á þeim sumarbústaði og hús til endursölu. Hafi reksturinn verið fjármagnaður með gengistryggðum lánum. Þegar íslenska krónan veiktist, hafi skuldastaða félagsins versnaði mjög og á sama tíma hafi greiðslur til félagsins lækkað og eignir hríðfallið í verði. Helstu greiðsluerfiðleika kæranda megi  því rekja til tekjulækkunar sem hann varð fyrir í kjölfar versnandi afkomu þeirra fyrirtækja sem hann var eigandi að. Árið 2007 hafi kærandi keypt fasteign að C götu nr. 32 í sveitarfélaginu B en eigninni skipti hann í tvær íbúðir. Í kjölfar tekjuskerðingarinnar sem hann hafi orðið fyrir hafi hann lent í vanskilum með afborganir af áhvílandi lánum. Hafi það leitt til þess að fasteignin var seld nauðungarsölu árið 2010.

Heildarskuldir kæranda eru 40.807.704 krónur samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara. Þær falla innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.), að undanskilinni skuld vegna meðlags. Skuldirnar sundurliðast svo:

Kröfuhafi Tegund Ár Staða
Lýsing, Avant og SP fjármögnun hf. Bílasamningar 2007–2008 9.567.508 kr.
Íbúðalánasjóður Veðkrafa 2006 3.373.603 kr.
Landsbankinn Veðkrafa 2009 18.160.499 kr.
Tollstjórinn í Reykjavík Þing- og sveitarsjóðsgjöld 5.872.063 kr.
Aðrir Aðrar skuldir 3.834.031 kr.
Samtals: 40.807.704 kr.

Samkvæmt umsókn kæranda eru ábyrgðarskuldbindingar hans samtals eftirfarandi:

Kröfuhafi Lántaki Ár Höfuðstóll. Staða 2011
Landsbankinn V ehf. 2004 4.000.000 kr. 4.000.000 kr.
Landsbankinn Z ehf. 2008 15.000.000 kr.   23.107.058 kr.
Landsbankinn Z ehf. 2009 23.160.551 kr. 47.248.208 kr.
Arion banki hf. X 2009 25.000.000 kr. 29.273.781 kr.
Samtals: 67.160.551 kr. 103.629.781 kr.

Tekjur kæranda fyrstu þrjá mánuði ársins 2011 eru að meðaltali 32.895 krónur eftir frádrátt skatts. Aðrar tekur eru barnabætur sem nema 19.002 krónum á mánuði. Tekjur kæranda 2007 til 2009 eru eftirfarandi:

Ár Meðaltekjur á mánuði
2009 80.521 kr.
2008 453.065 kr.
2007 1.676.541 kr.

Eignir kæranda samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara eru þessar:

Tegund Eignarhlutur
Bankainnistæða 13.450 kr.
Hlutabréf 1.000.000 kr.
Samtals: 1.013.450 kr.

Þann 29. júní 2011 lá umsókn kæranda fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. lge. Umsókn var synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara 15. júlí 2011 með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og umboðsmanni gert að veita kæranda heimild til að leita samnings um greiðsluaðlögun.

Kærandi mótmæli því að c-liður 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við í máli hans. Hann hafi vissulega haft töluverð umsvif en á sama tíma hafi hann aflað mikilla tekna og Y ehf. hafi gengið mjög vel á þeim tíma þegar til flestra skuldbindinga sem í málinu ræðir var stofnað. Félagið hafi verið sterkt fjárhagslega og eignarhlutur kæranda hafi verið mikils virði. Hafi  félagið meðal annars greitt út arð til kæranda. Kærandi telji því að við mat á fjárhagsstöðu sinni hafi umboðsmaður skuldara ekki tekið tillit til raunverulegs verðmætis eignarhlutar kæranda í Y ehf. Telji kærandi að umboðsmaður hafi ekki kannað þetta sérstaklega eins og honum hafi borið skylda til skv. 5. gr. lge. og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Kærandi bendi einnig á að þær lánastofnanir sem hafi veitt honum lán hafi metið greiðslugetu hans á þeim tíma fullnægjandi. Ákveðin ábyrgð hvíli því á lánveitendum. Meti kærandi það svo að lánveitendur hafi tekið ákveðna áhættu með því að lána kæranda og eðlilegt sé að kæranda sé veitt heimild til greiðsluaðlögunar til að geta gengið til samninga við lánardrottna sína þegar mál hafa þróast með þeim hætti sem þau hafi gert í þessu máli.

Hvað varðar þær miklu ábyrgðarskuldbindingar sem hvíli á kæranda bendi kærandi á að þau félög sem kærandi gekkst í ábyrgð fyrir hafi fengið fjármögnun fyrir verkefnum frá lánardrottnum gegn því skilyrði að gengist yrði í ábyrgðir fyrir lánunum. Í tilfelli kæranda hafi lánin meðal annars verið tekin í tengslum við tiltekin byggingaverkefni og að baki þeim hafi verið veð í þeim eignum sem Y ehf. voru að byggja. Telji kærandi að allur gangur hafi verið á því hjá umboðsmanni skuldara hvort tekið hafi verið tillit til þeirra trygginga og veða sem voru að baki eignum þegar metið hafi verið hve háar skuldir hvíldu á kæranda.

Kærandi telji að lge. hafi verið ætlað að rýmka heimildir til að veita greiðsluaðlögun og að iatvik sem leiði til þess að umsækjanda er hafnað um greiðsluaðlögun ættu að vera túlkuð þrengra en gert hafi verið ráð fyrir í eldri lögum. Gefi lge. meira tækifæri til að horfa til aðstæðna í hverju máli. Að mati kæranda hafi lítið verið horft til fjölskylduaðstæðna kæranda sem sé nýgiftur þriggja barna faðir með mikla hagsmuni af að klára sín mál í sátt við kröfuhafa sína.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara bendi á að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt c-lið 2. mgr. ákvæðisins sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara komi fram að samkvæmt skattframtölum kæranda hafi mánaðarlegar tekjur hans árið 2008 verið að meðaltali 453.065 krónur en greiðslubyrði 520.641 króna. Árið 2009 hafi mánaðarlegar tekjur verið 80.521 króna en greiðslubyrði 722.541 króna. Bendi umboðsmaður skuldara á að árið 2009 hafi kærandi tekið lán að fjárhæð 14.500.000 krónur ásamt því að taka á sig umtalsverðar ábyrgðarskuldbindingar vegna lána til X ehf. og Z ehf. samtals að fjárhæð 48.160.551 króna.

Telji umboðsmaður skuldara að þessar skuldbindingar hafi ekki verið í neinu samræmi við greiðslugetu kæranda á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Sé það því mat umboðsmanns skuldara að með því að taka á sig nefndar skuldbindingar hafi kærandi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna var stofnað.

Umboðsmaður skuldara mótmæli því að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, hafi verið brotin við meðferð málsins. Mótmæli umboðsmaður þeirri fullyrðingu kæranda að við mat á fjárhagsstöðu hans hafi ekki verið tekið tillit til raunverulegs verðmætis eignarhlutar hans í Y ehf. Taki umboðsmaður fram að tilgreind eignastaða kæranda í hinni kærðu ákvörðun sé í samræmi við verðmæti eignarhluta hans í félaginu samkvæmt því sem fram komi í skattframtölum tekjuáranna 2008–2009. Verði að telja það fullnægjandi enda séu skattframtöl opinber gögn sem almennt sé viðurkennt að taka beri mið af.

Í framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara komi jafnframt fram að allar þær ábyrgðarskuldbindingar sem hin kærða ákvörðun byggist á séu sjálfskuldarábyrgðir. Því verði, að mati umboðsmanns skuldara, að telja að þótt skuldirnar séu tryggðar með veði í eignum hafi það ekki áhrif á hve háar ábyrgðarskuldbindingar hvíli á kæranda, þar sem kröfuhafar hafi val um hvort þeir gangi að  aðalskuldara eða ábyrgðarmanni.

Að öllu þessu virtu fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun sem tekin var á grundvelli c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til c-liðar, en þar er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, einkum áranna 2007 og 2009, en meginhluti lána kæranda voru tekin á þessum árum. Fyrir liggja gögn um tekjur og eignir kæranda 2007-2009.

Að mati kærunefndarinnar þarf sérstaklega að skoða nettótekjur kæranda árin 2008 og 2009. Ljóst er  að tekjur kæranda voru  mjög lágar miðað við þær skuldbindingar sem hann tókst á hendur á þeim tíma. Að teknu tilliti til framfærslukostnaðar voru skuldbindingar kæranda árið 2009 orðnar meiri en kærandi gat staðið undir og komnar lagt fram úr greiðslugetu hans. Einnig verði að meta fjárhagslegar skuldbindingar kæranda í heild með hliðsjón af eignum og tekjum á þeim tíma sem til skuldbindinganna var stofnað.

Ábyrgðarskuldbindingar er ekki alltaf hægt að leggja að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá einstaklingur sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þarf þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild. Þótt ekki verði gengið fortakslaust út frá því að ábyrgðaraðili muni þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á verður engu að síður að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.

Skuldbindingar þær sem kærandi ábyrgðist árið 2009 eru af því umfangi að líta verður svo á að þær hafi ekki verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Annars vegar verður ekki séð að kærandi hafi haft raunhæfa möguleika á að greiða af umræddum skuldbindingum ef á reyndi. Hins vegar verður að líta til þess, við mat á áhættu hvað þetta varðar, að fjárhagsstaða þeirra aðalskuldara. sem kærandi gekkst í ábyrgð fyrir, , þ.e. X ehf. og Z ehf, var þannig að kæranda mátti vera ljóst að allnokkrar líkur væru á því að á ábyrgðirnar myndi reyna. Þannig má ráða af ársreikningum Z ehf. fyrir árið 2009 að enginn rekstur var í félaginu og var eigið fé þess neikvætt. Engum ársreikningum var skilað fyrir X ehf. fyrir árin 2008 til 2011 og var félagið úrskurðað gjaldþrota í maí 2011. Á á sama tíma tók kærandi lán að fjárhæð 14.500.000 krónur hjá Landsbanka Íslands en það var engan veginn í samræmi við  greiðslugetu hans samkvæmt gögnum málsins.

Þá verður einnig að líta til þess að stór hluti af skuldbindingum kæranda stafar frá skuldum vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a gþl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.

Í fyrri úrskurðum kærunefndar hefur niðurstaðan jafnan verið sú að þegar kærendur takast á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur eru á að þeir geti greitt af miðað við tekjur, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem lán eru tekin, leiði til þess að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun. Á sama tíma og kærandi tók á sig umtalsverðar skuldbindingar voru tekjur hans lægri en afborganir af lánum einum sér, óháð öðrum útgjöldum. Þegar litið er til þess er hafið yfir vafa að skuldari var ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum