Hoppa yfir valmynd
5. september 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 42/2011

Fimmtudaginn 5. september 2013

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Lára Sverrisdóttir og Kristrún Heimisdóttir.

Þann 29. júlí 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 18. júlí 2011, þar sem umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 18. ágúst 2011 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 26. ágúst 2011.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 1. september 2011 og var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kærendum með bréfi 2. september 2011.

Með bréfi 26. september 2011 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara í málinu þar sem tekin væri efnisleg afstaða til þess sem fram komi í kæru og greinargerð með henni. Greinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 14. október 2011.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 14. nóvember 2011 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 28. nóvember 2011.

I. Málsatvik

Kærendur eru gift og búa ásamt tveimur dætrum sínum í fasteign sinni að C götu nr. 11 í sveitarfélaginu D. B er menntaður smiður en starfar sem sjómaður.A er í námi og starfar í 60% starfshlutfalli í verslun X. Mánaðarlegar nettótekjur kærenda eru samkvæmt fyrirliggjandi gögnum samtals 507.669 krónur.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 22. september 2010. Þann 5. júlí 2011 var umsókn þeirra fullbúin. Í greinargerð með umsókn þeirra kemur fram að fjárhagserfiðleika þeirra megi aðallega rekja til þess að þau hafi árið 2007 keypt lóð að E götu nr. 10 í sveitarfélaginu D. Ætlunin hafi verið að byggja þar nýtt heimili fyrir fjölskylduna og í kjölfarið selja C götu nr. 11 þar sem þau búa í dag. Við hrun fasteignamarkaðar hafi orðið lítið úr þessum fyrirætlunum, enda hafi þeim ekki verið mögulegt að fá fyrirgreiðslu til þess að ljúka framkvæmdum. Um svipað leyti hafi kærandi A tekið á sig skuldbindingar sem komu til vegna reksturs samlokugerðar sem hún hafði átt og rekið en var tekið til gjaldþrotaskipta í lok ársins 2007. Eftir efnahagshrunið haustið 2008 hafi tekjumöguleikar kæranda B minnkað verulega en skuldir kærenda hækkað.

Heildarskuldir kærenda eru 69.755.741 króna samkvæmt skuldayfirliti frá umboðsmanni skuldara. Þar af falla innan greiðsluaðlögunarsamnings 67.035.980 krónur.

Kröfuhafi Tegund Ár Staða 2011
Landsbankinn Veðkrafa 2002 956.164 kr.
Íbúðalánasjóður Veðkrafa 2004 26.206.896 kr.
Landsbankinn Veðkrafa 2006 10.842.834 kr.
Íslandsbanki, Avant og Lýsing Bílalán 2006‒2007 5.338.192 kr.
Landsbankinn Veðkrafa 2007 1.991.328 kr.
Landsbankinn Veðkrafa 2007 3.400.541 kr.
Landsbankinn Veðkrafa 2008 10.525.745 kr.
Landsbankinn Veðkrafa 2009 3.351.669 kr.
Tollstjórinn í Reykjavík Þing- og sveitarsjóðsgjöld 1.514.646 kr.
Tollstjórinn í Reykjavík Virðisaukaskattur 2.719.761 kr.
Aðrir Aðrar skuldir 2.907.695 kr.
Samtals: 69.755.741 kr.  

Samanlagðar nettótekjur kærenda samkvæmt tekjuyfirliti umboðsmanns skuldara hafa undanfarin ár verið eftirfarandi:

Tekjuár Meðaltekjur á mánuði
2009 270.830 kr.
2008 298.438 kr.
2007 423.289 kr.
2006 264.235 kr. 

Eignir kærenda samkvæmt eignayfirliti umboðsmanns skuldara eru eftirfarandi:

Tegund Eignarhlutur
Fasteign 25.100.000 kr.
Fasteign 4.350.000 kr.
Ferðavagn 225.000 kr.
Hlutabréf 500.000 kr. 
Samtals: 29.675.000 kr.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 18. júlí 2011 var umsókn kærenda synjað, einkum með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera þá kröfu að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja þeim um heimild til greiðsluaðlögunar verði ógild og þeim heimilað að leita samnings til greiðsluaðlögunar á grundvelli lge. og vísa til markmiðs laganna. Lögunum sé meðal annars ætlað að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð.

Benda kærendur á að í samræmi við fyrri niðurstöður kærunefndar greiðsluaðlögunarmála beri að skýra ákvæði 2. mgr. 6. gr. lge. á þann veg að mat umboðsmanns geti eftir atvikum orðið annað og vægara en það sem leiða má af fordæmum Hæstaréttar í málum sem varða beitingu 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi jafnframt bent á að hin matskenndu atriði 2. mgr. 6. gr. lge. verði ekki túlkuð rýmra en efni séu til. Telja kærendur að umboðsmaður skuldara hafi ekki gætt að þessum lögskýringarsjónarmiðum við túlkun sína í máli kærenda.

Kærendur benda á að stærstur hluti þeirra skuldbindinga sem þau stofnuðu til á árunum 2006 og 2007 voru við fjármálafyrirtæki sem hafi metið það svo að kærendum væri kleift að standa undir skuldbindingum sínum. Því sé ekki hægt að draga þá ályktun að kærendur hafi stofnað til skulda sem þau voru greinilega ófær um að standa við eða hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem stofnað var til skuldbindinganna, þannig að óhæfilegt þyki að veita kærendum heimild til að leita samnings til greiðsluaðlögunar. Að mati kærenda þurfi meira að koma til svo að umboðsmaður skuldara haggi mati fjármálafyrirtækjanna um greiðslugetu kærenda á þeim tíma sem stofnað var til viðskiptanna sem búi að baki áðurnefndum skuldbindingum.

Í greinargerð kærenda 28. nóvember 2011 mótmæla kærendur því að umboðsmaður skuldara hafi framkvæmt heildstætt mat á fjárhagsstöðu þeirra. Telja kærendur að eignastaða sín hafi verið jákvæð eða a.m.k. ekki jafnslæm og umboðsmaður skuldara haldi fram þegar stofnað var til meginhluta skuldbindinga, þ.e. á árunum 2004–2007. Á þessum árum hafi horfur verið góðar fyrir kærendur. Að sögn kærenda var fasteignamat á eign þeirra að C götu 24.700.000 krónur og E gata hafi verið metinn á 3.890.000 krónur. Kærendur hafi einnig átt bifreið sem var metin á 3.000.000 króna og fellihýsi sem var metið á 648.000 krónur. Miðað við þessar fjárhæðir hafi kærendur átt eignir að verðmæti 32.238.000 krónur.

Telja verði líklegt að fasteign kærenda að C götu hafi verið mun verðmætari en fasteignamat gaf til kynna, enda hafi fasteignamat á árunum 2004–2007 ekki fylgt raunverði fasteigna. Samkvæmt skattframtali kærenda 2007 voru skuldir þeirra um 37.000.000 króna.

Mótmæla kærendur því harðlega að þau hafi stofnað til skuldbindinga sem þau voru greinilega ófær um að efna, eða þannig að þau hafi hagað fjármálum sínum með ámælisverðum hætti. Telja kærendur að allan vafa í þessum efnum verði að túlka kærendum í hag. Einnig mótmæla kærendur að fjárhagserfiðleika þeirra sé að rekja til eigin háttsemi þeirra. Erfiðleikana sé að rekja til efnahagshrunsins sem varð haustið 2008. Afleiðingar þess hafi verið óðaverðbólga og lækkandi fasteignaverð sem séu einmitt þau vandamál sem kærendur glími við í dag.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar, einkum með vísan b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður bendir á að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. lagagreinarinnar komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Við mat á því skuli meðal annars taka sérstakt tillit til þess hvort stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Jafnframt skuli við matið taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað, sbr. c-lið sama lagaákvæðis.

Umboðsmaður vísar til greiðslugetu og greiðslubyrði kærenda á því tímabili sem þau stofnuðu til umfangsmikilla skuldbindinga, þ.e. á árunum 2006 og 2007.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi mánaðarlegar nettótekjur kærenda árið 2006 verið að meðaltali samtals 264.235 krónur og áætluð mánaðarleg framfærsla samtals 192.337 krónur. Áætluð mánaðarleg greiðslugeta kærenda árið 2006 hafi því verið að meðaltali samtals 71.898 krónur. Á sama tíma hafi a.m.k. tvö skuldabréf hvílt á kærendum sem leiddu til þess að greiðslugeta þeirra var neikvæð um a.m.k. 11.301 krónu. Þrátt fyrir það hafi kærendur tekið á sig a.m.k. þrjár nýjar skuldbindingar árið 2006. Að sögn kærenda hafi ástæðurnar verið í fyrsta lagi skuldbreyting vegna vangetu til þess að standa undir greiðslubyrði áhvílandi lána, í öðru lagi vegna persónulegrar ábyrgðar sem féll á kærendur vegna reksturs fyrirtækis sem þá var í þeirra eigu en var tekið til gjaldþrotaskipta í lok næsta árs á eftir, og í þriðja lagi vegna kaupa á annars vegar fellihýsi og hins vegar fjölskyldubifreið. Árið 2006 hafi því kærendur tekist á hendur skuldbindingar sem fólu í sér afborganir sem námu samtals 126.535 krónum umfram meðaltal mánaðarlegrar greiðslugetu þeirra.

Mánaðarlegar nettótekjur kærenda árið 2007 hafi samkvæmt fyrirliggjandi gögnum verið að meðaltali samtals 423.289 krónur og áætluð mánaðarleg framfærsla kærenda samtals 197.437 krónur. Áætluð mánaðarleg greiðslugeta kærenda það ár hafi því verið að meðaltali samtals 225.852 krónur. Kærendur hafi á fyrri helmingi ársins tekist á hendur þrjár nýjar skuldbindingar. Að sögn kærenda hafi fyrri tvær skuldbindingarnar stafað af persónulegum ábyrgðum vegna reksturs áðurnefnds fyrirtækis sem tekið var til gjaldþrotaskipta í árslok sama ár. Þriðja skuldbindingin hafi komið til vegna fjármögnunar á pallbíl. Við þessar skuldbindingar hafi mánaðarleg greiðslubyrði þeirra aukist um samtals 104.509 krónur. Kærendur hafi því tekist á hendur skuldbindingar sem fólu í sér afborganir sem námu samtals 77.090 krónum umfram meðaltal mánaðarlegrar greiðslugetu þeirra árið 2007.

Auk þessa hafi kærendur fest kaup á lóð, sem samkvæmt skattframtali ársins 2007 gerðist fyrir lok árs 2006, og hófu þar byggingu fasteignar sem átti að vera nýtt íbúðarhúsnæði fyrir fjölskyldu þeirra. Þetta hafi a.m.k. að hluta verið fjármagnað með enn frekari lántöku. Jafnframt hafi kærandinn B ekki staðið skil á greiðslu á virðisaukaskatti og lífeyrissjóðsgreiðslum á árunum 2006, 2007 og 2008.

Samkvæmt framangreindu hafi kærendur verið skuldsettir nokkuð umfram greiðslugetu strax um mitt ár 2006 og þau verið að fjármagna afborganir af skuldbindingum umfram greiðslugetu með skuldbreytingum. Um svipað leyti hafi veruleg vanskil komið upp í rekstri fyrirtækis þeirra og gjaldþrot þess yfirvofandi. Á sama tíma hafi vanskil á greiðslu virðisaukaskatts tekið að safnast upp. Þrátt fyrir framangreinda stöðu hafi kærendur keypt lóð árið 2006, eða 2007 að þeirra sögn, og hafið byggingu fasteignar sem hafi a.m.k. að hluta til verið fjármögnuð með frekari lántöku. Árið 2007 hafi fyrirtæki kærenda verið úrskurðað gjaldþrota og þau tekist á hendur enn frekari skuldbindingar vegna rekstursins auk nýrrar skuldbindingar vegna kaupa á bifreið. Vanskil á virðisaukaskatti hafi aukist árið 2007, auk annarra vanskila.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara 26. ágúst 2011 er þess krafist að kæru verði vísað frá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála en til vara að hin kærða ákvörðun verði staðfest. Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. sé kærufrestur tvær vikur en ljóst sé að kæra hafi borist kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir að frestur rann út. Samkvæmt skráningu Íslandspósts fengu kærendur ákvörðun afhenta með ábyrgðarpósti 20. júlí 2011. Byrjaði tveggja vikna kærufrestur að líða frá þeim degi og hafi kærufrestur því runnið út 3. ágúst 2011. Samkvæmt afriti af kæru sem fylgdi beiðni kærunefndar greiðsluaðlögunarmála um greinargerð hafi kæran verið stimpluð sem móttekin 8. ágúst 2011 og sé greinargerð með kærunni undirrituð af umboðsmanni kærenda sama dag. Í ljós þess virtist útilokað að kærunefndinni hafi borist kæran eða hún póstlögð fyrir lok kærufrests.

Í síðari greinargerð umboðsmanns skuldara 14. október 2011 er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest. Í ákvörðun embættisins 18. júlí 2011 hafi farið fram heildstætt mat á fjárhagsstöðu kærenda þar sem litið hafi verið til tekjustöðu, skuldastöðu og eignastöðu kærenda á því tímamarki þegar þau hafi stofnað til fjárskuldbindinga árin 2006 og 2007. Að því virtu hafi niðurstaðan orðið sú að óhæfilegt væri að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lge. komi fram að ástæður sem taldar séu upp í 2. mgr. 6. gr. lge. eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju eða öllu leyti rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Í hinni kærðu ákvörðun hafi kærendur stofnað til ýmissa nýrra skuldbindinga á sama tíma og greiðslugeta þeirra hafi verið neikvæð. Mat umboðsmanns skuldara hafi verið að rekja mætti fjárhagserfiðleika kærenda að stórum hluta til eigin háttsemi þeirra og hafi því verið óhæfilegt að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar. Það að stór hluti skulda kærenda sé við fjármálafyrirtæki sem hafi metið það svo að kærendum væri kleift að standa undir skuldbindingum sínum breyti ekki niðurstöðu umboðsmanns skuldara. Bendir umboðsmaður á að ákvörðun hans hafi ekki einungis verið tekin á grundvelli c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. heldur einnig með vísan til þess að kærendur hafi stofnað til skulda á þeim tíma þegar þau voru greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Það sjónarmið kærenda að skuldbindingar þeirra hafi verið að stórum hluta við fjármálafyrirtæki sé ekki til þess fallið að hagga því efnislega mati sem fram hafi farið af hálfu umboðsmanns skuldara og leiddi til þess að metið var óhæfilegt að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar.

Með vísan til alls þessa telur umboðsmaður að með því að takast á hendur umræddar skuldbindingar árin 2006 og 2007, þ. á m. vegna lóðarkaupa og fyrirhugaðrar byggingar fasteignar, á sama tíma og fyrirtæki þeirra stóð frammi fyrir gjaldþrotaskiptum, vanskilum á greiðslu virðisaukaskatts og lífeyrissjóðsiðgjalda, afborganir af skuldbindingum þeirra voru að hluta til fjármagnaðar með skuldbreytingum og nettóeignastaða þeirra gaf ekki tilefni til þess að ætla að þau gætu staðið undir þeim skuldbindingum sem þau þó tókust á hendur, hafi kærendur bæði hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna var stofnað.

Að öllu þessu virtu fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun sem tekin var á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Undir meðferð málsins hjá kærunefnd krafðist umboðsmaður skuldara að kæru, dags. 26. ágúst 2011, verði vísað frá sem of seint fram kominni. Í bréfi kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, dags. 26. september 2011, til umboðsmanns skuldara kemur fram að umrædd kæra hafi verið móttekin með símbréfi þann 28. júlí 2011, sbr. undirritun á kæru og dagsetningu efst á skjali. Í kærunni hafi verið óskað eftir fresti til að skila greinargerð og var kæran því ekki send til umsagnar umboðsmanns skuldara fyrr en greinargerð barst 8. ágúst 2011. Kæran barst því innan frests en fyrir mistök var hún ekki stimpluð um móttöku þann dag sem hún var móttekin. Málinu verður því ekki vísað frá kærunefndinni með vísan til þess að kærufrestur hafi verið liðinn.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Í b-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Við mat á því hvort synja á skv. b-lið 2. mgr. 6. gr. verður að taka tilliti til þess hvort stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma er skuldari hafi greinilega verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Í c-lið ákvæðisins er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Framangreind ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist fyrst og fremst á því að með því að takast á hendur skuldbindingar á árunum 2006 og 2007 hafi kærendur bæði hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna var stofnað. Með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. var því umsókn kærenda um greiðsluaðlögun synjað.

Krafa kærenda er að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og þeim heimilað að leita samnings til greiðsluaðlögunar á grundvelli lge. Kærendur benda meðal annars á að stærstur hluti þeirra skuldbindinga sem þau stofnuðu til á árunum 2006 og 2007 hafi verið við fjármálafyrirtæki sem hafi metið það svo að kærendum væri kleift að standa undir skuldbindingum sínum. Einnig telja kærendur að eignastaða þeirra hafi verið jákvæð eða a.m.k. ekki jafnslæm og umboðsmaður skuldara haldi fram, þegar stofnað var til meginhluta skuldbindinga, þ.e. á árunum 2004‒2007.

Gögn málsins benda til þess að þær skuldbindingar sem kærendur stofnuðu til árið 2006 og 2007 hafi ekki verið í samræmi við greiðslugetu þeirra. Árið 2006 tóku kærendur á sig nýjar skuldbindingar þrátt fyrir að greiðslugeta þeirra hafi á sama tíma verið neikvæð. Árið 2007 hafi kærendur enn tekist á hendur nýjar skuldbindingar. Þær skuldsetningar voru ekki í samræmi við greiðslugetu kærenda enda voru kærendur skuldsettir umfram greiðslugetu þegar um mitt ár 2006.

Kærendur fjárfestu auk þess í lóð og hófu byggingu fasteignar. Var það gert með frekari lántökum. Að þessu virtu, ásamt vanskilum á virðisaukaskatti og lífeyðissjóðsgjöldum, verður að telja að kærendur hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Þegar fjárhagsstaða skuldara er metin í heild samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins þykir matið ótvírætt styðja framangreinda niðurstöðu.

Með hliðsjón af framangreindu er fallist á með umboðsmanni skuldara að kærendur hafi stofnað til skulda á þeim tíma sem þau voru ófær um að standa við þær skuldbindingar og hafi því hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt. Verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum