Hoppa yfir valmynd
5. júní 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 48/2013

Miðvikudagurinn 5. júní 2013

 

A

gegn

skipuðum umsjónarmanni B hdl.

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 21. mars 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B hdl., sem tilkynnt var með bréfi, dags. 11. mars 2013, þar sem umsjónarmaður mælir gegn nauðasamningi með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

 I. Málsatvik

Umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn skuldara um greiðsluaðlögun þann 20. júlí 2011. Þann 22. júlí 2012 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda og var frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun sent kröfuhöfum 4. september 2012.

Samkvæmt þeim málavöxtum sem tilgreindir eru í ákvörðun umsjónarmanns var frumvarpi til greiðsluaðlögunar fyrir kæranda hafnað af Landsbankanum og Gjaldheimtunni ehf., f.h. Sjóvár-Almennra trygginga hf., auk þess sem mótmæli bárust frá Gjaldskilum ehf., f.h. Garðabæjar.

Þann 9. mars 2013 lýsti kærandi því yfir að hún vildi leita nauðasamnings um greiðsluaðlögun og greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

Umsjónarmaður tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 11. mars 2013, ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningi og greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna.

 II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun skipaðs umsjónarmanns kemur fram að í frumvarpi til greiðsluaðlögunar kæranda hafi verið gert ráð fyrir að greiðslugeta væri 165.631 króna á mánuði. Kærandi hafi notið tímabundinnar frestunar greiðslna, þ.e. greiðsluskjóls, frá 29. október 2010 eða í um 29 mánuði. Miðað við greiðslugetu kæranda geri ýtrasta áætlun ráð fyrir að kærandi hafi á þessu tímabili getað lagt fyrir samtals 4.803.299 krónur. Umsjónarmaður tekur fram að tillit verði þó að taka til þess að kærandi hafi að hluta til verið í fæðingarorlofi á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Þá hafi kærandi átt við heilsubrest að stríða á tímabilinu. Þann 4. september 2012 þegar frumvarp til greiðsluaðlögunar var lagt fyrir kröfuhafa hafi kærandi ekki verið búin að leggja fyrir neitt fé. Eiginmaður kæranda hafi lýst yfir að sparnaður hennar væri 500.000 krónur og vísað því til stuðnings á eigin sparisjóðsreikning en engin hreyfing hafi verið á þeim reikningi síðan 10. ágúst 2012. Með tölvupóstskeytum, dags. 5. og 7. febrúar 2013, hafi eiginmaður kæranda lýst því yfir að hann hefði aldrei haft eða fengið umboð frá eiginkonu sinni vegna greiðsluaðlögunarumleitana hennar og að hún sæi sjálf um sín fjármál.

Umsjónarmaður telji framangreint benda til þess að kærandi hafi brugðist skyldum sínum skv. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Sparnaður að fjárhæð 500.000 krónur sé langt undir framangreindum áætluðum sparnaði kæranda. Við mat á greiðslugetu kæranda telji umsjónarmaður ekki fært að miða við önnur neysluviðmið en neysluviðmið embættis umboðsmanns skuldara. Þá verði ekki séð að á reikningsyfirlitum kæranda komi nein óvenjuleg eða sérstök útgjöld fram sem skýrt geti þennan litla sparnað.

Í rökstuðningi umsjónarmanns fyrir því að mæla gegn nauðasamningi kemur einnig fram að í greiðsluaðlögunarferlinu hafi umsjónarmaður ítrekað mælst til þess að kærandi skilaði bifreið sem hún hafði til umráða samkvæmt bílasamningi. Kærandi hafi ekki orðið við þessum tilmælum umsjónarmanns og telji umsjónarmaður að sú háttsemi geti fallið undir d-lið 12. gr. lge. enda ljóst að háttsemin hefur skaðað hagsmuni lánardrottna. Þá telur umsjónarmaður að framangreind háttsemi falli einnig undir 5. mgr. 13. gr. sömu laga þar sem fram kemur að verði skuldari ekki við ákvörðun umsjónarmanns eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður.

Umsjónarmaður gerir einnig grein fyrir því að skuldari hafi stofnað til nýrra skulda á meðan greiðsluaðlögunarumleitanir hafi staðið yfir. Þá hafi skuldari neitað að greiða vexti af þeim fasteignagjöldum sem hafi verið í vanskilum á greiðsluaðlögunartímanum. Að mati umsjónarmanns hafi sú háttsemi kæranda verið brot gegn d-lið 12. gr. lge.

Loks telji umsjónarmaður rétt að benda á að fjárhagsstaða kæranda sé óljós þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir umsjónarmanns til að afla gagna og varpa ljósi á hana. Fyrir liggi að eiginmaður kæranda sé í reynd að greiða fyrir hana ýmis útgjöld og hafi hann lýst því yfir að fyrirtæki hennar sé með stóra samninga í burðarliðnum sem muni tryggja henni miklar tekjur.

Þá sé rétt að ítreka að eiginmaður kæranda hafi lagt fram yfirlit yfir eigin reikning þegar kærandi var krafin skýringa á því hve mikið hún hefði lagt fyrir á greiðsluaðlögunartímanum. Samkvæmt yfirliti sem umsjónarmanni barst 27. desember 2012 hafði engin hreyfing verið á reikningum frá því sumarið 2012. Telur umsjónarmaður þetta gefa vísbendingu um að kærandi hafi ekki viljað eða getað staðið við frumvarpið eins og það var sent kröfuhöfum í september 2012 og kærandi byggi nauðasamningskröfu sína á, sbr. 1. mgr. 18. gr. lge.

Að öllu framangreindu virtu hafi það verið niðurstaða umsjónarmanns að mæla gegn því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna kæmist á fyrir kæranda.

 III. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi átt í verulegum fjárhagserfiðleikum sem nú séu henni nær óviðráðanlegir. Rætur þeirra fjárhagserfiðleika megi rekja til fjárfestinga og tekjulækkunar. Eftir efnahagshrunið hafi aðstæður verið þannig að tekjur lækkuðu mikið og skuldir aukist. Jafnframt hafi kærandi nýlega átt barn sem hafi einnig haft áhrif á fjárhagsstöðu hennar og getu til að standa í vinnslu málsins. Kærandi kannist ekki við að umsjónarmaður hafi átt samskipti við hana um hvort hún vildi leita nauðasamnings eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Að sögn kæranda hafi samskipti umsjónarmanns vegna málsins verið við eiginmann hennar, en hann hafi aldrei haft umboð til að fjalla um málefni kæranda. Kærandi gerir alvarlegar athugasemdir við að umsjónarmaður hafi ekki krafið eiginmann kæranda um umboð.

Í bréfi, dags. 1. janúar 2013, bendir kærandi á að hún hafi árangurslaust reynt að koma því á framfæri við umboðsmann skuldara að hvorki hann né umsjónarmaður hafi sinnt leiðbeiningarskyldu sinni og að hún hafi ekki gefið neinum umboð til að koma fram fyrir sína hönd fram að því. Kærandi telur að þetta sé mikilvæg sönnun þess að ekki hafi verið rétt staðið að málinu gagnvart henni.

Kærandi bendir á að í upphafi hafi B hdl. verið skipaður umsjónarmaður kæranda en síðan hafi reglulega verið skipt um umsjónarmann en sá síðasti hafi verið C hdl. Af þessum sökum hafi kæranda ekki tekist að fylgjast með framvindu málsins. Kærandi nefni sem dæmi að hún hafi fyrst fengið að sjá frumvarp sem umsjónarmaður útbjó 11. mars 2013.

Kærandi telur að í því frumvarpi séu hafðar uppi forsendur og umsagnir sem hún kannist ekki við og hafi aldrei verið bornar upp við hana. Í gögnum málsins komi til dæmis fram að Landsbankinn hafi hafnað tillögum um nauðasamning en þar sé verið að vísa til kröfu bankans að fjárhæð 219.000 krónur sem kærandi telur sig hafa verið búna að semja um. Umsjónarmaður hafi hvorki leitað eftir afstöðu kæranda né lagt fram tillögur að lausn málsins.

Kærandi kveður fjallað um afstöðu Sjóvár-Almennra trygginga hf. í ákvörðun umsjónarmanns en skuld við félagið hafi verið gerð upp og því ótrúlegt að nefndur kröfuhafi fái að hafa uppi kröfur í málinu. Samhliða sé einnig fjallað um fasteignagjöld sem kærandi bendir á að ágreiningur sé um. Í þessum tilvikum hefði umsjónarmaður átt að leita eftir afstöðu kæranda.

Varðandi athugasemdir þess efnis að kærandi hafi ekki lagt fyrir og að hún hefði átt að geta staðið undir mánaðargreiðslum að fjárhæð 165.631 króna á mánuði bendir kærandi á að hún sé nýbúin að eignast barn og því hafi fylgt mikil ófyrirséð útgjöld. Að mati kæranda verði heldur ekki litið framhjá því að hún hafi aldrei verið innt álits á umræddri mánaðargreiðslu en hún sé frá umsjónarmanni komin. Hafa skuli í huga að framfærsla á umræddu tímabili miðað við eitt barn hafi verið á milli 230.000 og 250.000 krónur á mánuði. Sé tekið mið af því að umsókn kæranda hafi verið samþykkt þann 20. júlí 2011 og tillit tekið til framfærslu kæranda, telji hún að sú fjárhæð sem hún lagði fyrir hafi verið í fullkomnu samræmi við það sem ætlast hafi verið til af henni samkvæmt reglum um greiðsluaðlögun. Allt þetta hefði legið fyrir hefði umsjónarmaður sinnt skyldu sinni gagnvart kæranda.

Kærandi gerir jafnframt athugasemdir við mat umsjónarmanns á því að hún hafi stofnað til nýrra skuldbindinga og áttar sig ekki á þessari fullyrðingu. Umsjónarmaður hafi aldrei gefið kæranda færi á skýringum. Þá hafi ekki verið lögð fram gögn í málinu sem sanni að kærandi hafi stofnað til umræddra skuldbindinga.

Kærandi mótmælir þeirri fullyrðingu umsjónarmanns að fjárhagsstaða hennar sé óljós. Þessi afstaða umsjónarmanns sé fullkomlega óskiljanleg. Á sama tíma og umsjónarmaður fjallar um tekjur og rekstrargjöld kæranda á grundvelli skattframtala hennar og bankareikninga þá vísar hann til óljósrar fjárhagsstöðu. Fullyrðing umsjónarmanns sé óskýr og órökstudd.

Þá bendir kærandi á að í ákvörðun sinni fjalli umsjónarmaður um kröfur sem hann hafi ekki borið undir kæranda. Sumir þessara kröfuhafa hafi ekki lýst kröfum sínum á hendur kæranda. Sumar kröfur séu greiddar og því óljóst hvers vegna umsjónarmaður taki tillit til þeirra.

Að mati kæranda hafi umsjónarmaður ekki sinnt skyldu sinni, hann hafi tekið ákvörðun í málinu á forsendum sem ekki standist. Ákvörðunin sé byggð á fjölda rangfærslna sem auðveldlega hefði verið hægt að leiðrétta með því að bera þær undir kæranda eða lögmann hennar. Ekki sé hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að umsjónarmaður hafi ekki haft beint samband við kæranda til að óska skýringa eins og vera ber við úrvinnslu greiðsluaðlögunarmála.

 IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge., sbr. 12. gr. lge. Í 1. mgr. 18. gr. er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla lge. ekki tekist þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að nauðasamningur komist á skuli umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram í öndverðu sem hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum skv. 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.

Ákvörðun umsjónarmanns byggist í fyrsta lagi á því að kærandi hafi brugðist skyldum sínum skv. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem hún hafi ekki lagt til hliðar það fé sem hún hafði til ráðstöfunar umfram framfærslu. Fram kemur í ákvörðun að ýtrasta áætlun umsjónarmanns geri ráð fyrir að kærandi hefði átt að leggja til hliðar 4.803.299 krónur á þeim tíma er kærandi naut tímabundinnar frestunar greiðslna sé miðað við greiðslugetu að fjárhæð 165.631 krónur. Miðast framangreint mat umsjónarmanns við launaseðil kæranda frá febrúar 2012.

Kærandi hefur mótmælt umræddri fjárhæð og bendir á að hún hafi ekki verið innt álits á nefndri mánaðargreiðslu, enda sé hún mat umsjónarmanns.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 20. júlí 2011, þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var samþykkt, kemur fram að nettótekjur kæranda séu 170.250 krónur á mánuði og greiðslugeta því 63.765 krónur á mánuði eftir framfærslukostnað. Miðað við framangreint hefði kærandi átt að geta lagt fyrir 1.849.185 krónur frá því frestun greiðslna hófst.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að sú fjárhæð sem umsjónarmaður leggur til grundvallar greiðslugetu kæranda er ekki í samræmi við þá fjárhæð sem fram kemur í ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 20. júlí 2011. Þá liggur fyrir að kærandi hefur ekki notið þeirra launa sem umsjónarmaður leggur til grundvallar greiðslugetu allan þann tíma sem hún naut greiðsluskjóls þrátt fyrir að ljóst sé að tekjur hennar hafi aukist á tímabilinu. Einnig eignaðist kærandi barn á tímabili greiðsluskjóls og var að hluta til í fæðingarorlofi á þeim tíma.

Samkvæmt 2. gr. lge. geta einstaklingar leitað greiðsluaðlögunar en einnig geta hjón í sameiningu leitað greiðsluaðlögunar. Í þessu máli hefur kærandi ein sótt um greiðsluaðlögun. Til staðfestingar á þeim fjármunum sem kærandi kvaðst hafa lagt fyrir á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana lagði eiginmaður hennar fram reikningsyfirlit af reikningi sínum. Ekkert hefur komið fram í málinu sem rennir stoðum undir að fé þetta sé frá kæranda komið eða að hún hafi eignarumráð þess. Kærandi hefur hafnað afskiptum eiginmanns af máli þessu og vísað til þess að hún beri ábyrgð á eigin fjármálum og hafi ekki heimilað honum að koma fram fyrir sína hönd í málinu. Samkvæmt framangreindu er ekki hægt að byggja á að fé sem liggur inni á bankareikningi eiginmanns kæranda sýni fram á að kærandi hafi sinnt skyldu sinni skv. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem þarf til framfærslu. Þegar af þeirri ástæðu ber að staðfesta ákvörðun skipaðs umsjónarmanns.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B hdl., um að mæla gegn nauðasamningi A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

           Kristrún Heimisdóttir            

Þórhildur Líndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum