Hoppa yfir valmynd
21. júní 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 35/2012

Föstudagurinn 21. júní 2013

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Þórhildur Líndal.

Með bréfi, dags. 7. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 30. janúar 2012, þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi, dags. 16. febrúar 2012, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 16. mars 2012.

Greinargerð umboðsmanns skuldara, dags. 16. mars 2012, var send kærendum til kynningar með bréfi, dags. 22. mars 2012 og var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Viðbót við kæruefni barst með bréfi kærenda, dags. 13. mars 2012. Óskaði kærunefndin með bréfi, dags. 21. mars 2012, eftir athugasemdum umboðsmanns skuldara við bréfið. Athugasemdir umboðsmanns skuldara bárust með bréfi, dags. 25. apríl 2012.

Með bréfi kærunefndarinnar var kærendum gefinn kostur á að gera athugasemdir við framhaldsgreinagerð umboðsmanns skuldara. Engar athugasemdir bárust frá kærendum

I. Málsatvik

Kærendur eru 41 og 44 ára gömul. Þau eru gift og búa ásamt 8 ára gömlum syni A í eigin einbýlishúsi við C götu nr. 82 í sveitarfélaginu D. Nettótekjur kærenda eru að meðaltali 523.499 krónur á mánuði. Tekjur þeirra samanstanda af launatekjum B, atvinnuleysisbótum A og leigutekjum.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 242.324.283 krónur. Allar skuldir þeirra eru innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2007 og 2008 þegar kærendur keyptu fasteignir og fjárfestu í peningamarkaðssjóðum.

Samkvæmt skýringum kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til umtalsverðra hækkana á erlendum lánum. Haustið 2007 hafi þau keypt íbúð að E götu í sveitarfélaginu D en um áramótin 2007/2008 ákváðu kærendur að kaupa einbýlishús að C götu nr. 82. Á þessum tíma hafi þau átt um 20.000.000 krónur í eigin fé. Vegna þess hve eignastaða þeirra var talin góð hafi þeim boðist að leggja fé inn á bankareikninga á háum vöxtum og taka lán á lægri vöxtum á móti. Þetta hafi verið algengt á þessum tíma og bankar beinlínis hvatt fólk til þessa. Aðstæður hafi algerlega snúist við þegar krónan hrundi og eignarstaða kærenda hafi orðið neikvæð á einni nóttu. Starfsumhverfi þeirra og launakjör hafi versnað og möguleikar á því að afla frekari tekna hafi minnkað verulega. Jafnframt hafi þau hætt að fá fjármagnstekjur  sem áður hafi verið verulegar .

Kærendur lögðu inn umsókn sína um greiðsluaðlögun 28. október 2010 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 30. janúar 2012 var umsókn þeirra hafnað með vísan til þess að óhæfilegt væri að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. c-, d- og g-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að umboðsmaður skuldara hafi synjað kærendum um greiðsluaðlögun á þeirri forsendu að helstu ástæður fjárhagserfiðleika þeirra megi rekja til lántöku þeirra og viðskipta með peningamarkaðsbréf. Þyki umboðsmanni þannig ljóst að fjárhagserfiðleika þeirra megi að miklu leyti rekja til áhættusækni þeirra í fjármálum og atvika sem þau sjálf beri ábyrgð á. Að auki vísar umboðsmaður skuldara til þess að félög sem annar kærenda, A, var í forsvari fyrir hafi ekki staðið skil á opinberum gjöldum, samtals að fjárhæð 774.242 krónur.

Kærendur gera verulegar athugasemdir við ákvörðun umboðsmanns skuldara og þau rök sem hann færir fyrir ákvörðun sinni. Í fyrsta lagi gera þau athugasemdir vegna fjármagnstekna en heildartekjur kærenda hafi verið háar á þessum tíma eða um 1.220.000 krónur á mánuði nettó. Í yfirliti kærenda komi fram að  þær tekjur hafi verið launatekjur kærenda að fjárhæð 450.000 krónur, vaxtatekjur að fjárhæð 260.000 krónur vegna 25.000.000 króna peningaeignar sem sett var að veði fyrir 22.000.000 láni hjá SPRON, vaxtatekjur að fjárhæð 380.000 krónur vegna 30.000.000 króna eignar í peningamarkaðssjóðum og leigutekjur að fjárhæð 130.000 krónur vegna eignarinnar að E götu. Umboðsmaður skuldara hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið hægt að líta á fjármagnstekjur kærenda sem raunverulega tekjur. Kærendur mótmæli þessu og bendi á að þessar tekjur hafi þau haft til ráðstöfunar í hverjum mánuði.

Í öðru lagi haldi umboðsmaður skuldara því fram í ákvörðun sinni að eignastaða kærenda hafi aðeins verið jákvæð um 6.334.841 krónur í árslok 2007. Með sama hætti og umboðsmaður skuldara telji að fjármagnstekjur kærenda séu ekki raunverulegar, hafi hann ákveðið að líta algerlega framhjá raunverulegu verðmæti eigna kærenda á þessum tíma. Verðmæti fasteigna hafi verið töluvert hærra en fasteignamat samkvæmt skattframtali og hafi raunveruleg eign kærenda í fasteignum sínum verið um 20.000.000 króna. Þrátt fyrir það hafi umboðsmaður skuldara kosið að lækka eiginfjárstöðu kærenda eins og frekast hafi verið unnt. Að mati kærenda virðist umboðsmaður hagræða málsatvikum til þess að rökstyðja þá niðurstöðu sína að kærendur hafi verið fjárglæframenn, en ekki venjulegt fólk sem fylgt hafi ráðleggingum „góðra bankamanna“ til að ávaxta sitt fé.

Í þriðja lagi geri kærendur athugasemd við þá staðhæfingu umboðsmanns skuldara að þau hafi verið áhættusækin í fjármálum. Kærendur hafi verið að leita sér að framtíðarhúsnæði. Sú staðreynd að þau hafi keypt þrjár fasteignir á tveimur árum, selt eina og reynt að selja aðra, sé áhættusækni í fjármálum óviðkomandi. Kærendur hafi einfaldlega verið að reyna að koma sér þægilega fyrir og þegar hrunið varð hafi þau ekki getað selt aðra fasteign sína. Þá hafi kærendur lagt fjármuni í peningamarkaðssjóði. Mikill þrýstingur hafi verið frá bankamönnum á fólk og fyrirtæki um að leggja fé sitt í slíka sjóði en þeir hafi verið auglýstir sem örugg ávöxtun. Hið rétt sé að kærendur gerðu sér á þeim tíma ekki grein fyrir þeirri áhættu sem fólst í slíkum sjóðum, enda hafi komið í ljós að um stórfengleg svik hafi verið að ræða af hálfu bankanna eða í besta falli hafi þessir sjóðir verið auglýstir og kynntir á fölskum forsendum. Lántökur kærenda hafi að langmestu leyti verið húsnæðislán en slík lántaka hafi almennt ekki verið talin fela í sér sérstaka áhættusækni. Önnur lán kærenda hafi verið á bestu fáanlegu vöxtum sem voru í boði á þeim tíma.

Að mati kærenda geri umboðsmaður skuldara sér ekki grein fyrir því hvaða aðstæður ríktu í efnahagslífi þjóðarinnar áður en stofnunin var sett á laggirnar árið 2010. Venjulegt fólk hafi ekki gert sér grein fyrir áhættunni, enda töldu allir sem störfuðu á fjármálamörkuðum og höfðu eftirlit með þeim, Seðlabankinn, ríkisstjórnin og stjórnmálamenn að allt væri í stakasta lagi.

Í fjórða lagi bendi kærendur á að afborganir af lánum þeirra hafi verið innan 50% af tekjum. Þau hafi verið að borga niður lán og eignir þeirra því að aukast.

Samkvæmt  eigna- og skuldayfirliti kærenda hafi staðan í mars 2008 verið sú að eignir hafi verið 138.500.000 krónur, skuldir 103.427.250 krónur, tekjur 1.220.000 krónur á mánuði og afborganir af lánum 470.000 krónur á mánuði. Langtímaskuldir sem hlutfall eigna hafi því verið um 75%, eigið fé um 25% og afborganir lána sem hlutfall af tekjum um 39%.

Eftir hrun, í júní 2010, hafi eignir numið 103.684.248 krónum, skuldir 201.867.598 krónum, tekjur 702.000 krónur á mánuði og afborganir af lánum 920.000 krónur á mánuði. Langtímaskuldir sem hlutfall eigna hafi því verið um 195%, eigið fé neikvætt um 95% og afborganir lána sem hlutfall af tekjum um 131%.

Af lánum sem hvíldu á eign kærenda að C götu nr. 82 í mars 2008 hafi mánaðarlegar afborganir verið u.þ.b. 200.000 krónur, en eigið fé hafi verið 14.500.000 krónur. Eignin sé heimili kærenda og því ekki tekjuberandi sem slík. Á eigninni að E götu nr. 4b hafi hvílt 20.000.000 króna lán en eignin hafi verið um 24.000.000 króna virði. Skuldsetning hafi því verið um 83% og eigið fé kærenda um 4.000.000 króna. Kærendur hafi greitt 100.000 krónur á mánuði af lánum sem hvíldu á eigninni en haft mánaðarlegar leigutekjur að fjárhæð 130.000 krónur af henni. Kærendur hafi selt fasteign að F götu með hagnaði en lán vegna eignarinnar að fjárhæð 22.000.000 króna hafi verið sett í geymslu hjá SPRON. Kærendur hafi sett 25.000.000 króna tryggingu á móti láninu eftir að eignin var seld. Vaxtatekjur af tryggingunni hafi verið 260.000 krónur á mánuði en afborgun af láninu hafi verið 110.000 krónur á mánuði. Eigið fé vegna eignarinnar hafi því verið 3.000.000 króna og skuldsetning 88%. Einnig hafi kærendur átt 30.000.000 króna í peningamarkaðssjóðum, en hafi á móti skuldað 18.500.000 krónur. Mánaðarleg afborgun af því láni hafi verið 50.000 krónur en tekjur 380.000 krónur. Við hrunið hafi orðið algjör umpólun. Lánin hafi hækkað úr 103.000.000 krónum í 201.000.000 krónur og eignir lækkað í verði úr 138.500.000 króna í 103.600.000 króna. Þá hafi mánaðarlegar tekjur kærenda lækkað úr 1.220.000 krónum í 702.000 krónur og afborganir lána hækkað úr 470.000 krónum á mánuði í 920.000 krónur á mánuði.

Að mati kærenda glími þau við algeran forsendubrest. Það sé að þeirra mati ekki eðlilegt að skuldir hækki á einu bretti um 100%, eignir minnki um 25%, tekjur lækki um 42% og afborganir lána hækki um 96%.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 30. janúar 2012, kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að heimila greiðsluaðlögun. Í stafliðum ákvæðisins séu tilgreind atriði sem taka skuli sérstakt tillit til við mat á slíku.

Í c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Í g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega ósanngjarnt sé að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Samkvæmt gögnum málsins stofnuðu kærendur til tólf nýrra skuldbindinga árið 2007 samtals að fjárhæð 41.937.491 króna. Þá hafi kærendur stofnað til átta nýrra skuldbindinga árið 2008 samtals að fjárhæð 57.644.062 krónur.

Samkvæmt skattframtali 2008 fyrir tekjuárið 2007 voru mánaðarlegar nettótekjur kærenda að meðaltali 410.372 krónur, þar af 41.233 krónur í fjármagnstekjur. Heildareignir kærenda í lok árs 2007 voru 65.570.857 krónur en skuldir 59.236.016 krónur. Eignastaða kærenda í lok árs 2007 var því jákvæð um 6.334.841 krónu.

Samkvæmt skattframtali 2009 fyrir tekjuárið 2008 voru mánaðarlegar nettótekjur kærenda að meðaltali 675.450 krónur, þar af 214.645 krónur í fjármagnstekjur. Heildareignir kærenda í lok árs 2008 voru 110.457.554 krónur en skuldir 132.165.003 krónur. Eignastaða kærenda í lok árs 2008 var því neikvæð um 21.707.449 krónur.

Þrátt fyrir að eignastaða kærenda hafi verið jákvæð um 6.334.841 krónur í árslok 2007, verður ekki horft fram hjá því að kærendur stofnuðu til nýrra skuldbindinga samtals að fjárhæð 41.937.491 króna á árinu 2007. Á árinu 2008 stofnuðu kærendur jafnframt til nýrra skuldbindinga að fjárhæð 57.664.062 krónur. Samkvæmt greinagerð kærenda, dags 27. nóvember 2010, sem fylgdi umsókn um greiðsluaðlögun voru mánaðarlegar greiðslur af veðlánum vegna kaupa á fasteigninni að C götu nr. 82 að meðaltali 240.000 krónur á árinu 2008. Samkvæmt viðmiði Ráðgjafastofu heimilanna var framfærsla fjölskyldunnar síðari hluta ársins 107.800 krónur á mánuði, auk reksturs þriggja bifreiða sem nam alls 99.000 krónum á mánuði. Megi því leiða líkur að því að lágmarksframfærsla auk afborgana af lánum vegna kaupa á fasteigninni að C götu hafi samtals numið 446.800 krónum. Eigi þá eftir að taka tillit til greiðslu fastra útgjalda svo sem fasteignagjalda, rafmagns, trygginga, skóla- og dagvistunarkostnaðar, tómstunda, áskriftargjalda, auk afborgana annarra samningskrafna.

Sé litið til tekna kærenda á árunum 2007 og 2008 verði að telja að kærendur hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til áðurnefndra fjárhagsskuldbindinga var stofnað. Þrátt fyrir að fjármagnstekjur hafi hækkað meðallaun kærenda töluvert, sérstaklega árið 2008, sé ekki hægt að líta á þær sem raunverulegar tekjur til framtíðar þar sem handveð sé í flestum bankainnistæðum kærenda og fjármagnstekjum ekki til að dreifa þegar bankainnistæður hafi verið jafnaðar á móti veðum.

Verði því að telja að helstu ástæður fjárhagserfiðleika kærenda megi rekja til lántöku þeirra og viðskipta með peningamarkaðsbréf. Þykir þannig ljóst að fjárhagserfiðleika þeirra megi að miklu leyti rekja til áhættusækni þeirra og annarrar framgöngu í fjármálum og atvika sem þau sjálf beri ábyrgð á.

Með hliðsjón af ákvæði g-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. verði, auk þess sem að framan greini, ekki hjá því komist að líta til þess að A sé skráður stjórnarmaður, framkvæmdarstjóri og prókúruhafi félaganna X ehf., Y ehf. og Z ehf. samkvæmt hlutafélagaskrá. Því hvíli á honum sú skylda sem tilgreind sé í 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, sbr. 1., 2. og 9. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Samkvæmt yfirliti Tollstjóra frá 30. janúar 2012 hafi framangreind félög ekki staðið skil á opinberum gjöldum, samtals að fjárhæð 774.245 krónur vegna áranna 2009 til 2011. Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 13/2011 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að vangoldin opinber gjöld, falli undir ákvæði g-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., en slíkar kröfur séu „ýmis opinber gjöld eða greiðsla í sjóði sem ætlaðir eru til samneyslu eða samtryggingar“.

Að öllum þessum atriðum virtum og með hliðsjón af eðli um umfangi skuldbindinga og með sérstöku tilliti til c-, d- og g-liða 2. mgr. 6. gr. hafi það verið mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt hefði verið að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar.

Í greinagerð embættisins, dags. 16. mars 2012, komi fram að samkvæmt skuldayfirliti kærenda hafi upphafleg fjárhæð skulda þeirra verið 97.411.895 krónur ef undan séu skildar skuldir vegna yfirdráttarlána og vangreiddra kreditkortareikninga, sem samtals nemi 31.145.739 krónum.

Að mati umboðsmanns skuldara sé ljóst að kærendur hafi á árunum 2007 og 2008 skuldsett sig töluvert umfram það sem tekjur þeirra leyfðu og tekið verulega fjárhagslega áhættu.

Skuldsett viðskipti með bréf í peningamarkaðssjóðum, svo sem þau sem kærendur stunduðu á árinu 2007, hafi almennt falið í sér fjárhagslega áhættu. Í slíkum viðskiptum taki kaupandi áhættuna á því að tekjur af fjárfestingunni,  það er vextir og síðan söluverð í lok lánstíma, verði að minnsta kosti slíkar að þær dugi fyrir fjármagnskostnaði. Verði tekjurnar meiri en fjármagnskostnaður geti kaupandi bréfanna hagnast, en komi til þess að þróun lána sem tekin hafi verið í tengslum við kaupin verði óhagstæð kaupandanum geti það haft í för með sér tap. Umboðsmaður skuldara telji ljóst, þegar umfang lántöku kærenda í tengslum við kaup á bréfum í peningamarkaðssjóðum og hlutabréfum sé virt, að þau hafi með þessum skuldsettu fjárfestingum tekið töluverða fjárhagslega áhættu.

Þá bendi umboðsmaður skuldara á að meginhluti skuldbindinga kærenda hafi verið verðtryggður með tengingu við erlenda gjaldmiðla. Þannig þyki ekki útilokað að fjárhæðir skulda kærenda kunni að breytast í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 15. febrúar í máli nr. 600/2011. Ekki verði séð að þetta hafi áhrif á niðurstöðu málsins enda byggi niðurstaðan á mati á háttsemi kærenda þegar til helstu skuldbindinga þeirra var stofnað á árunum 2007 og 2008.

Í framhaldsgreinagerð umboðsmanns skuldara, dags. 25. apríl 2012, ítreki hann að ekki sé fært að slá því föstu hvaða áhrif dómur Hæstaréttar frá 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011, kunni að hafa á fjárhag kærenda í framtíðinni. Telja verði víst að málið sé nægilega upplýst í skilning 4. og 5. gr. lge., en fyrir liggi upplýsingar um hverjar skuldir kærenda eru, fjárhæð þeirra nú, í hvaða tilgangi til þeirra var stofnað og að kærendur eigi í verulegum fráhagserfiðleikum.

Þá árétti umboðsmaður skuldara að við mat á því hvort ákvæði b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við, sé miðað við háttsemi og stöðu einstaklinga á þeim tíma er til skuldbindinganna var stofnað, sbr. úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 18/2011.

Í ljósi alls framangreinds fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til c-, d- og g-liða. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana.

Samkvæmt c-lið skal tekið tillit til þess hvort skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt g-lið skal tekið tillit til þess hvort skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans eru þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að framfærslukostnaður kærenda að viðbættri greiðslubyrði þeirra af lánum sem tekin voru á árunum 2007 og 2008 hafi verið meiri en tekjur þeirra á sama tíma. Ákvörðunin byggist þannig fyrst og fremst á því að kærendur hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað. Í athugasemdum kærenda kemur fram að tekjur þeirra hafi verið hærri en fram komi í ákvörðun umboðsmanns skuldara og þeir því ekki skuldsettir umfram greiðslugetu.

Ákvörðun umboðsmanns byggir meðal annars á c- og g-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, einkum áranna 2007 og 2008, en kærendur stofnuðu til talsverðra skuldbindinga á þessum árum. Árið 2007 voru nettótekjur kærenda 410.372 krónur að meðaltali á mánuði, þar af námu fjármagnstekjur 41.223 krónum á mánuði. Árið 2008 voru nettótekjur kærenda 675.450 krónur, þar af námu fjármagnstekjur 214.645 krónum á mánuði. Í ákvörðun sinni metur umboðsmaður fjármagnstekjur ekki sem rauntekjur til framtíðar vegna handveðs í bankainnistæðum kærenda og því hafi fjármagnstekjur ekki verið til ráðstöfunar fyrir kærendur.

Þrátt fyrir að fjármagnstekjur séu taldar til tekna í skilningi þess hugtaks er það mat kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að í tilviki kærenda sé ekki rétt að telja fjármagnstekjur þeirra til ráðstöfunartekna, þar sem þær voru veðsettar og þar af leiðandi ekki til ráðstöfunar fyrir kærendur.  Að mati kærunefndarinnar er því ljóst að nettótekjur kærenda án fjármagnstekna árin 2007-2008 stóðu ekki undir afborgunum af skuldbindingum þeirra en á sama tíma gengust kærendur enn undir nýjar skuldbindingar.

Með vísan til alls framangreinds verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Þórhildur Líndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum