Hoppa yfir valmynd
21. júní 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 69/2012

Miðvikudagurinn 21. júní 2013

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 19. mars 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 6. mars 2012, þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi, dags. 21. mars 2012, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 3. apríl 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 12. apríl 2012, og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 26. apríl 2012.

I. Málsatvik

Kærandi er 39 ára og býr ásamt sambýliskonu sinni og tveimur börnum í eigin húsnæði að B götu nr. 18b í sveitarfélaginu C.

Kærandi starfar annars vegar sem fjármálastjóri hjá D ehf. í 50% vinnu og hins vegar sjálfstætt sem sölumaður fyrir E hf. í 50% vinnu. Fjárhagserfiðleika kæranda má að hans sögn rekja til falls krónunnar árið 2008 en helstu skuldbindingar hans eru í erlendri mynt. Kæranda var sagt upp störfum í janúar 2009 og var hann atvinnulaus þar til í júní sama ár er hann tók við núverandi störfum. Sökum þessa lækkuðu tekjur kæranda tímabundið, auk þess sem eignir lækkuðu í verði.

Heildarskuldir kæranda nema 76.892.567 krónum samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara og falla þær allar innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.), að frátalinni meðlagsskuld að fjárhæð 274.955 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árin 2004-2009.

Heildarskuldir kæranda skiptast þannig: Skuldabréf með sjálfskuldarábyrgð hjá Íslandsbanka, samtals að fjárhæð 13.570.002 krónur. Lán í erlendri mynt hjá Landsbankanum, samtals að fjárhæð 48.517.471 króna. Veðkrafa í erlendri mynt hjá Landsbankanum að fjárhæð 9.197.545 krónur. Skuldabréf með sjálfskuldarábyrgð hjá Landsbankanum, samtals að fjárhæð 2.402.749 krónur. Aðrar skuldir kæranda nema samtals 3.204.800 krónum.

Eignir kæranda samkvæmt eignayfirliti umboðsmanns skuldara eru bankainnistæður að verðmæti 276.826 krónur og fasteign að verðmæti 20.550.000 krónur, sem er 50% í eigu maka kæranda.

Tekjur kæranda undanfarin ár hafa verið eftirfarandi samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara: Árið 2007 námu tekjur hans að meðaltali 273.656 krónum á mánuði að frádregnum sköttum, 351.574 krónum árið 2008, 399.063 krónum árið 2009 og 338.091 krónu árið 2010.

Kærandi lagði fyrst inn umsókn sína um greiðsluaðlögun þann 17. ágúst 2010 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 2. desember 2010, var umsókn hans hafnað með vísan til c-liðs 2. mgr. 6. gr. laga, nr. 101/2010.

Með úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 4/2010, dags. 25. mars 2011, var ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 2. desember 2010, felld úr gildi. Niðurstaða kærunefndarinnar var í stuttu máli sú að orðalag í ákvörðun umboðsmanns skuldara og ummæli í greinargerð umboðsmanns, bæru með sér að 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga hefði ekki verið beitt með réttum hætti. Auk þess væri margt óljóst varðandi raunverulega skulda- og eignastöðu kæranda.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 6. mars 2012, var umsókn kæranda hafnað í annað sinn, nú með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi bendi á að hann sé starfsmaður D ehf. og starfi einnig sem verktaki hjá E sem vátryggingaráðgjafi.

Að mati kæranda sé einkennilegt að umboðsmaður skuldara skuli afgreiða mál sem varði erlend lán og fullyrða að lántaka hafi verið með óeðlilegum hætti í ljósi dóms Hæstaréttar í máli nr. 600/2011.

Kærandi telji að öll erlend lán hans muni lækka umtalsvert við réttan endurútreikning. Einnig þurfi að taka tillit til dráttarvaxta sem hafi verið innheimtir og lögfræðikostnaðar sem fallið hafi á lánin. Þá telji hann að útreikningar sem umboðsmaður skuldara byggi á séu ekki í öllum tilvikum réttir, einkum með vísan til fyrrgreinds dóms Hæstaréttar.

Kærandi fallist á það sjónarmið að skuldsetning hafi verið óhófleg að einhverju leyti en lántökur hans verði þó að meta sem fjárfestingu. Ekki sé hægt að líta á heildarfjárhæð lána sem hreina skuld.

Árið 2005 kveðst kærandi hafa tekið lán til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi fyrir 3.650.000 krónur. Hann hafi getað greitt gjalddaga 2006 og 2007. Kæranda rámi í að gjalddaga 2008 hafi verið skuldbreytt að einhverju leyti en eftirstöðvar lánsins séu samkvæmt skattframtali 2012 samtals 769.586 krónur. Kærandi bendi á að þessi fjárfesting hafi verið öruggari en margt annað sem var í boði og hafi vaxið að verðgildi fyrstu tvö árin.

Kærandi kveðst hafa tekið verstu ákvörðun sína í fjárfestingum í lok ársins 2006. Hann hafi þá keypt hlutabréf í Kaupþingi og fengið annan mann til að lána sér veð til tryggingar láni sem hann hafi tekið til að fjármagna kaupin. Fjárfestingin sjálf hafi ekki verið slæm á þeim tíma en ákvörðunin um að fá lánað veð hafi verið slæm. Nú hafi veðsalinn greitt um 2.800.000 krónur fyrir kæranda en samkvæmt skattframtali standi lán þetta í 9.067.086 krónum. Þessi skuld eigi einnig eftir að lækka samkvæmt áðurnefndum dómi Hæstaréttar og geti aldrei verið hærri en 6.000.000 króna í dag.

Kærandi bendir á að umboðsmaður skuldara taki saman heildarskuldir kæranda án þess að gera ráð fyrir að eignir standi á bak við skuldirnar. Skuldir hans megi rekja til fjárfestinga samtals að fjárhæð 36.650.000 krónur og telji kærandi að lánin standi í dag í tæpum 30.000.000 króna. Kærandi telji að lóð í F-landi að verðmæti 3.400.000-4.000.000 evra standi á bak við þessar skuldir. Seljist eignin á meðalverði, fyrir u.þ.b. 3.600.000 evrur, fái kærandi 20.000.000 króna upp í það lán sem nú standi í 22.500.000 krónum. Kærandi taki fram að þetta sé alveg á næsta leiti.

Kærandi hafi tekist á hendur ábyrgð vegna kaupa á hlutabréfum í danska einkahlutafélaginu Ö ásamt fleirum en Landsbankinn hafi lánað fyrir kaupunum. Kærandi bendi á að umboðsmaður skuldara telji að bréfin í Ö séu verðlaus samanber greinargerð umboðsmanns. Þessu sé kærandi ekki sammála. Þá telji kærandi sig vita fyrir víst að Landsbankinn felli niður ábyrgðir og lánsveð hjá aðilum sem tóku lán án þess að greiðslumat færi fram, en þannig var staðið að þessari lánveitingu. Kærandi sé jafnframt viss um að þegar áðurnefnd eign verði seld á næstu mánuðum muni allt féð renna upp í viðkomandi lánssamning hjá Landsbankanum. Þau sex pör, sem séu í ábyrgð vegna lánsins, eigi öll fyrir eftirstöðvum sem séu um 2.500.000 krónur á par. Þegar eignin verði seld verði lánið gert upp svo fremi sem Landsbankinn taki við peningunum en óheimilt sé að greiða lánið upp fyrir gjalddaga þess, sem er 27. desember 2012.

Kærandi telji að eftir sölu eigna og uppgreiðslu tilheyrandi lána muni hann skulda tæplega 7.500.000 krónur sem engar tryggingar séu fyrir. Þetta sé fjárhæðin sem aðallega þurfi að semja um við Landsbankann en umboðsmaður skuldara virðist líta fram hjá þessu. Kærandi hafi fallið á svikum bankanna og bankarnir eigi og muni ekki komast upp með slík svik.

Endurmat þurfi að fara fram á verðmæti fasteignar kæranda að B götu nr. 18b og nauðsynlegt sé að semja við banka um niðurfellingu húsnæðislána á móti. Aðrar skuldir kæranda séu óverulegar og eitthvað sem kærandi eigi að geta ráðið við.

Kærandi kveði umboðsmann skuldara ekki hafa haft rétt eftir sér skýringar sem hann gaf aðspurður um það hvers vegna hann réðst í umræddar fjárfestingar. Þá telji kærandi umboðsmann ekki geta fullyrt um eftirstöðvar tiltekinna lána.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 6. mars 2012, kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar séu tilteknar aðstæður fyrir hendi en þær eru tíundaðar í fimm liðum ákvæðisins. Í 2. mgr. sömu greinar sé til viðbótar við skilyrði 1. mgr. kveðið á um heimild til þess að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því sé sérstaklega litið til þeirra atriða sem talin séu upp í a-g-liðum ákvæðisins, sem öll eiga það sameiginlegt að það geti ekki verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans sé að einhverju eða öllu leyti rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun ef stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma sem skuldari hafi greinilega verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og ef skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Umboðsmaður skuldara bendi á að í greinargerð sinni með umsókn til greiðsluaðlögunar taki kærandi fram að hann hafi keypt íbúðarhúsnæði sitt þann 29. desember 2004. Kaupverð eignarinnar hafi verið 15.200.000 krónur og kaupin fjármögnuð að öllu leyti með lántöku. Í greinargerðinni komi einnig fram að kærandi hafi á árunum 2005-2007 stundað talsverð viðskipti með hlutabréf og peningamarkaðsbréf. Viðskiptin hafi einkum falist í skuldsettum fjárfestingum á hlutabréfum í danska einkahlutafélaginu Ö í Kaupþingi og að nokkru leyti í peningamarkaðsbréfum. Helstu skuldbindingar kæranda hafi verið gengistryggðar með tengingu við japanskt jen. Hlutabréf kæranda séu nú verðlaus og hann sitji eftir með töluverðar skuldir vegna þessara viðskipta sinna.

Kæranda hafi verið veitt færi á að veita frekari skýringar á því hvers vegna hann réðst í áðurnefndar fjárfestingar, hvers vegna hann taldi þær arðbærar, hvernig hann taldi þær samræmast fjárhagsstöðu sinni þegar til þeirra var stofnað og hvernig hann hugðist bregðast við ef til þess kæmi að arðsemi af fjárfestingunum yrði ekki nægjanleg til að standa undir fjármagnskostnaði. Kærandi hafi svarað því svo að kærandi og maki hans hafi ráðist í fjárfestinguna í Ö ásamt fimm öðrum pörum og hann hafi gert sér grein fyrir því að áhætta væri fólgin í henni. Fjárfestingin hafi verið í evrum en fjárhæð láns hafi tengst gengi japanska jensins. Áætlun hafi legið fyrir um það verk sem félagið stóð að, gert var ráð fyrir að framkvæmdum yrði lokið innan fjögurra ára og að hagnaður af verkinu myndi nema 25.000.000 króna. Kærandi hafi vonast eftir því að skuldir hans myndu lækka um 2.000.000 króna á lánstímanum og að laun hans og maka hans myndu hækka á tímabilinu. Ætlunin hafi verið að selja bréfin fjórum árum eftir kaupin en þar með hafi gefist tveggja ára frestur til að safna upp í skuldina. Kærandi hafi áætlað að tap hvers pars fyrir sig vegna fjárfestingarinnar yrði vart meira en 1.500.000 til 2.000.000 króna.

Um fjárfestingu sína í Kaupþingi hafi kærandi tekið fram að bankinn hefði vaxið gríðarlega næstu fjögur ár á undan og að fjárfestingar í honum hafi á þeim tíma verið verulega arðbærar. Ekkert hafi bent til annars miðað við fréttir og ársreikninga bankans en að svo yrði áfram. Kærandi hafi ætlað sér að greiða gjalddaga þess láns sem tekið var til kaupanna með sölu hlutabréfanna í hvert skipti. Hann hafi talið fjárfestingu sína í peningamarkaðsbréfum mjög áhættulitla, enda hafi mikill vaxtamunur verið á gengi japanska jensins og peningamarkaðsbréfanna. Hann hafi litið svo á að samkvæmt þessu hafi talsverðar gengissveiflur mátt eiga sér stað á tveggja ára lánstíma án þess að tap hans vegna fjárfestingarinnar yrði verulegt. Kærandi hafi við mat sitt á áhættu haft hliðsjón af gengissveiflum áranna 2004 til 2006 og talið að þær gæfu til kynna litlar líkur á verulegum sveiflum á árunum þar á eftir.

Árið 2005 hafi kærandi tekið lán að fjárhæð 3.650.000 krónur með árlegum afborgunum. Tilgangur þess hafi verið kaup á hlutabréfum í Kaupþingi og voru hlutabréfin sjálf sett að veði. Eftirstöðvar skuldar kæranda vegna þessarar fjárfestingar séu 985.836 krónur. Kærandi hafi aftur keypt hlutabréf í Kaupþingi í lok árs 2006 og tekið til þess lán að fjárhæð 8.000.000 króna, sem greiða átti af einu sinni á ári í alls átta skipti. Kærandi hafi lagt fram lánsveð í ýmsum verðbréfum í eigu fyrrverandi viðskiptavinar síns sem hafi boðið þau fram sem eins konar þóknun fyrir störf kæranda í hans þágu. Kærandi hafi selt hluta af bréfunum í lok árs 2007 til að geta greitt fyrsta gjalddaga vegna þess árs. Lánsveðsali hafi sjálfur greitt af gjalddaga lánsins vegna ársins 2009. Skuld kæranda vegna þessara viðskipta nemi nú 9.137.213 krónum.

Í byrjun árs 2007 hafi kærandi fest kaup á hlutabréfum í Ö. Þetta hafi verið danskt einkahlutafélag sem stofnað var utan um byggingu fasteigna í F landi. Samkvæmt upplýsingum frá Kauphöll Íslands hafi félagið ekki verið skráð á verðbréfamarkað í Danmörku. Lánið var eingreiðslulán að fjárhæð 17.000.000 króna með gjalddaga 27. desember 2012. Keyptur var 3,41% eignarhlutur í félaginu og var kærandi skuldari að láninu en fimm aðrir einstaklingar veittu lánsveð í fasteignum sínum. Kærandi kvaðst líta svo á að lánsveðsalarnir væru einnig skuldarar að láninu og eignarhlutur hans í félaginu því aðeins 0,57%. Ástæða þess að kærandi sé einn skuldari að láninu sé að hans sögn sú að minnst veðrými hafi verið í hans fasteign þegar ráðist var í fjárfestinguna. Samkvæmt upplýsingum frá Det centrale virksomhedsregister er félagið Ö gjaldþrota og samkvæmt kæranda varð ekkert úr verkefninu. Eignum félagins hafi nýlega verið ráðstafað til félags í eigu Frjálsa fjárfestingarbankans sem hyggist færa þær í íslenskt félag að nafni J. Eftirstandandi skuld kæranda vegna viðskiptanna nemi 30.021.851 krónu.

Í ágúst 2007 hafi kærandi fest kaup á peningamarkaðsbréfum í Landsbanka Íslands. Kærandi hafi fjármagnað kaupin með töku eingreiðsluláns að fjárhæð 8.000.000 króna, með gjalddaga tveimur árum síðar. Veð hafi verið veitt í hinum keyptu bréfum og inneign kæranda vegna kaupanna millifærð þann 12. mars 2010 inn á lánið. Eftirstandandi skuld kæranda vegna viðskiptanna nemi nú 4.224.895 krónum.

Samkvæmt skattframtölum hafi launatekjur kæranda að meðaltali numið 156.051 krónu á mánuði eftir staðgreiðslu skatta árið 2005, 182.019 krónum árið 2006 og 222.301 krónu árið 2007. Launatekjur maka kæranda eftir staðgreiðslu skatta hafi að meðaltali numið 150.899 krónum á mánuði árið 2005, 141.202 krónum árið 2006 og 153.710 krónum árið 2007. Þá hafi þau haft fjármagnstekjur af verðbréfaeign sinni sem námu 303.907 krónum árið 2006 og 353.284 krónum árið 2007 eftir greiðslu fjármagnstekjuskatts.

Á árunum 2005-2007 hafi helsta eign kæranda, auk verðbréfa, verið íbúðarhúsnæði sem hann keypti í lok árs 2004 en þau kaup hafi verið fjármögnuð að öllu leyti með lántöku. Þá hafi kærandi einnig átt bifreiðar. Á þessu tímabili tilgreini kærandi eftirfarandi eignir á skattframtölum sínum: Íbúðarhúsnæði að B götu nr. 18b að verðmæti 17.340.000 krónur árið 2005, 19.820.000 krónur árið 2006 og 22.080.000 krónur árið 2007 samkvæmt fasteignamati. Bifreiðin H að verðmæti 1.400.000 krónur árið 2005, 1.260.000 krónur árið 2006 og 1.134.000 krónur árið 2007. Bifreiðin I að verðmæti 729.000 krónur árið 2005. Kærandi hafi einnig átt verðbréf á þessu tímabili. Í skattframtali 2006 vegna tekjuársins 2005 tilgreini kærandi eignarhlut í Landsbanka Íslands að nafnvirði 1.204 krónur og í Æ hf. að nafnvirði 200.000 krónur sem sína eign. Í skattframtali 2007 vegna tekjuársins 2006 tilgreini kærandi eignarhlut í Þ hf. að nafnvirði 63.150 krónur, eignarhlut í Y hf. að nafnvirði 12.950 krónur, eignarhlut í V hf. að nafnvirði 8.213 krónur og 200.000 króna hlut í Æ hf. Árið 2007 hafi kærandi átt eignarhlut í Y hf. að nafnvirði 49.500 krónur, eignarhlut í V hf. að nafnvirði 208.213 krónur, eignarhlut í Landsbanka Íslands að nafnvirði 13.000 krónur og eignarhlut í Ö. sem þá var metinn 54.000 danskar krónur. Þá hafi verðmæti eignar kæranda vegna innistæðu hans í peningamarkaðsbréfum Landsbankans verið 9.117.342 krónur.

Skuldir kæranda hafi samkvæmt þessu verið tilkomnar vegna húsnæðis- og bifreiðakaupa hans en einnig að miklu leyti vegna fjárfestinga í hlutabréfum og peningamarkaðssjóðsbréfum. Samkvæmt skattframtölum hafi skuldir kæranda numið 24.608.846 krónum í loks ársins 2005, þar af 15.685.265 krónum vegna húsnæðiskaupa. Í loks ársins 2006 hafi skuldir kæranda numið 33.436.225 krónum, þar af 16.660.227 krónum vegna húsnæðiskaupa. Loks hafi skuldir kæranda í árslok 2007 numið 54.740.454 krónum, þar af 17.734.842 krónum vegna húsnæðiskaupa.

Umboðsmaður skuldara bendi á að fjárfestingum í hlutabréfum fylgi ávallt fjárhagsleg áhætta. Það sé þó matsatriði í hverju tilfelli fyrir sig hvort sú áhætta eigi að girða fyrir heimild til að leita samninga um greiðsluaðlögun. Í málinu sé ljóst að rekja megi minnihluta skulda kæranda til kaupa hans á íbúðarhúsnæði og bifreið. Aðrar skuldbindingar hans séu að mestu leyti til komnar vegna kaupa á hlutabréfum og bréfum í peningamarkaðssjóðum. Ýmsir áhættuþættir felist í skuldsettum fjárfestingum í slíkum bréfum. Þá sé almennt litið svo á að áhættan sé þeim mun meiri þegar fjárfest sé í óskráðu félagi, svo sem Ö enda sé slíkum félögum ekki skylt að veita sömu upplýsingar og skráðum félögum. Þar af leiðandi sé verðmyndun og skilvirkni markaðar með hlutabréf í óskráðum félögum óljósari. Fyrirkomulag kaupa kæranda á hlutabréfum Ö þyki einnig fela í sér töluverða fjárhagslega áhættu fyrir hann. Fimm aðilar heimiluðu lánsveð í fasteignum sínum til tryggingar láns þess er kærandi tók til kaupa á bréfunum Ef gengið yrði að veðunum myndu eigendur þeirra eignast endurkröfurétt á hendur kæranda. Þá þyki kærandi hafa tekið áhættu með því að taka að sér að vera einn aðalskuldari að láninu samkvæmt samningi, enda geti það leitt til þess að krefja megi hann um greiðslu allrar lánsfjárhæðarinnar án þess að hann öðlist rétt til endurkröfu á hendur ætluðum meðskuldurum sínum fyrir þeirra hluta skuldarinnar.

Af greinargerð kæranda verði ráðið að hann hafi á árunum 2005 til 2007, þegar hann réðst í áðurnefndar fjárfestingar, verið nýbúinn að festa kaup á íbúðarhúsnæði sínu og að sú fjárfesting hafi verið fjármögnuð að öllu leyti með lántöku. Auk þess hafi bílalán hvílt á kæranda. Einnig sé ljóst að tekjur kæranda og maka hans hafi verið fremur lágar á tímabilinu. Ekki verði séð að greiðslugeta eða eignastaða kæranda hafi veitt honum svigrúm til að takast á hendur miklar skuldbindingar til viðbótar. Upphaflegar fjárhæðir tilgreindra lána sem kærandi tók vegna kaupa á hlutabréfum og peningamarkaðsbréfum hafi numið samanlagt 36.650.000 krónum. Kærandi þyki þannig hafa skuldsett sig langt umfram það sem fjárhagur hans leyfði.

Umboðsmaður skuldara telji ljóst vera að kærandi hafi tekið áhættu á því að arðsemi af fjárfestingum hans, bæði í hlutabréfum og peningamarkaðsbréfum, yrði nægjanleg til að standa undir fjármagnskostnaði vegna lána. Ekki verði séð að hann hafi með nokkru móti getað staðið skil á skuldbindingum með eignum sínum og tekjum ef til þess kæmi að áætlanir hans gengju ekki eftir.

Að öllu ofangreindu virtu hafi það verið mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt væri að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar, að sérstöku tilliti teknu til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010.

Varðandi dóm Hæstaréttar frá 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 taki umboðsmaður skuldara fram að hvorki sé hægt að slá því föstu að svo stöddu, hvaða áhrif dómurinn kunni að hafa á skuldir kæranda í framtíðinni né heldur hugsanleg sala eigna sem tilheyrðu Ö. Hins vegar verði að telja að málið sé nægjanlega upplýst í skilningi 4. og 5. gr. lge., enda liggi fyrir upplýsingar um hverjar skuldir kæranda séu, hver fjárhæð þeirra sé og í hvaða tilgangi kærandi hafi stofnað til þeirra. Eins sé ljóst að kærandi eigi í verulegum fjárhagserfiðleikum.

Umboðsmaður skuldara árétti að við mat á því hvort ákvæði b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við sé miðað við háttsemi og stöðu einstaklings á þeim tíma er til skuldanna var stofnað, sbr. úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 18/2011.

Að mati umboðsmanns skuldara hafi ekkert komið fram á síðari stigum sem geti breytt þeim forsendum sem synjun á heimild kæranda til greiðsluaðlögunar var byggð á. Umboðsmaður skuldara fer því fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á 2. mgr. 6. gr. lge., einkum með tilliti til b- og c-liða. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Samkvæmt b-lið skal við mat á því taka sérstakt tillit til þess hvort stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og samkvæmt c-lið skal tekið tillit til þess hvort skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Framangreind ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist fyrst og fremst á því að skuldari hafi hvorki haft greiðslugetu né átt nægar eignir til að standa undir afborgunum lána sem hann tók til að fjármagna kaup á hlutabréfum og bréfum í peningamarkaðssjóðum árin 2005-2007. Kærandi hafi því, að mati umboðsmanns skuldara, skuldsett sig langt umfram það sem fjárhagur hans leyfði. Umboðsmaður skuldara byggir samkvæmt þessu niðurstöðu sína á heildstæðu mati á fjárhag kæranda á því tímabili sem hann réðst í áðurnefndar fjárfestingar.

Við mat á því hvort beita skuli 2. mgr. 6. gr. lge., ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, einkum áranna 2005-2007, en kærandi stofnaði til umtalsverðra skuldbindinga á þessum árum.

Að mati kærunefndarinnar tókst kærandi á hendur  miklar  skuldbindingar í trausti þess að hagnaður af verðbréfaviðskiptum hans yrði nægilegur til að greiða allan fjármagnskostnað. Samkvæmt gögnum málsins var ljóst að kærandi gæti ekki staðið undir afborgunum þeirra lána sem hann tók með tekjum sínum. Einnig er til þess að líta að þegar kærandi réðst í hin skuldsettu verðbréfakaup var fasteign hans mjög mikið veðsett, enda var hún að öllu leyti keypt með lánsfé. Hann hefði því ekki getað selt eignir til að greiða skuldir kæmi til þess að fjárfestingarnar skiluðu ekki þeim ágóða sem kærandi gerði sér vonir um.

Miðað við gögn málsins er ekki unnt að líta öðruvísi á en að með kaupum á hlutabréfum í danska félaginu Ö. hafi kærandi tekið sérstaklega mikla áhættu, einkum í ljósi þess að félagið var óskráð og því ekki skylt að veita fjárhagsupplýsingar opinberlega. Þá hugðist félagið standa að fasteignaþróunarverkefni í F landi en ekkert í gögnum málsins eða upplýsingum frá kæranda bendi til þess að hann hafi haft tök á að leggja raunhæft mat á þá starfsemi eða þá áhættu sem í henni fólst.

Í fyrri úrskurðum kærunefndar hefur niðurstaðan jafnan verið sú, að þegar kærendur takast á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur eru á að þeir geti staðið undir afborgunum af miðað við tekjur og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem lán eru tekin, sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um greiðsluaðlögun.

Í ljósi atvika málsins verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Þórhildur Líndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum