Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 26/2011

Föstudagurinn 11. janúar 2013

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Einar Páll Tamimi formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.

Þann 29. maí 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 17. maí 2011, þar sem umsókn hans um heimild til greiðsluaðlögunar einstaklinga er hafnað.

Með bréfi, dags. 15. júní 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 29. júní 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 13. júlí 2011, og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti hinn 27. júlí 2011.

 

I. Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi fráskilinn fjögurra barna faðir sem býr ásamt syni sínum í eigin húsnæði í sveitarfélaginu B        en um er að ræða 196 fermetra einbýlishús. Kærandi er húsasmiður að mennt og er með sjálfstæðan atvinnurekstur á eigin kennitölu.

Tekjur hans eru stopular, að sögn vegna verkefnaleysis, en hann kveðst skráður atvinnulaus þegar verkefni eru engin. Áætlaðar mánaðarlegar heildartekjur hans að meðtöldum vaxta- og barnabótum nema 272.679 krónum.

Heildarskuldir kæranda nema 117.293.400 krónum samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Af þeim falla 3.056.667 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun en þær samanstanda af vangoldnu tryggingagjaldi, staðgreiðslu launagreiðanda og virðisaukaskatti, öllum frá árinu 2010 og nema þær um 2,6% af heildarskuldum kæranda. Skuldir vegna atvinnurekstrar nema samtals 81.535.463 krónum eða um 74% af heildarskuldum. Til þeirra var að megninu til stofnað á árinu 2008. Þá nema ábyrgðarskuldbindingar kæranda 37.747.702 krónum en annar maður er samábyrgðarmaður að þeim kröfum.

Af skuldum kæranda ber helst að nefna lán frá Íslandsbanka, upphaflega að fjárhæð 12.038.400 krónur, sem nú stendur í 18.404.800 krónum, lán frá Lífeyrissjóði verslunarmanna, upphaflega að fjárhæð 5.500.000 krónur, sem stendur nú í 7.734.247 krónum, lán frá Sameinaða lífeyrissjóðinum, upphaflega að fjárhæð 2.500.000 krónur, sem stendur nú í 3.625.919 krónum og yfirdráttarlán frá Landsbankanum að fjárhæð 17.625.713 krónur en þessar skuldbindingar eru allar tryggðar með veði í fasteign kæranda. Þá ber einnig að nefna yfirdrátt hjá Íslandsbanka vegna fyrirtækjarekstrar kæranda, að fjárhæð 21.234.123 krónur, skuldabréf með sjálfskuldarábyrgð sem nú stendur í 954.471 krónu, lán frá Sameinaða lífeyrissjóðnum, upphaflega að fjárhæð 22.360.000 krónur, sem nú stendur í 29.873.502 krónum en lánið er tryggt með veði í fasteign í eigu byggingafyrirtækisins X ehf., sem kærandi rak ásamt félaga sínum. Félagið X ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta þann 10. maí 2010.

Kærandi er einnig með yfirdrátt á öðrum reikningi hjá Íslandsbanka sem nú stendur í 656.400 krónum, skuld við símafyrirtækið Vodafone að fjárhæð 89.699 krónur, skuld við símafyrirtækið Tal upp á 29.850 krónur, reikning hjá Byko hf. sem stendur í 11.192.155 krónum, skuld við Steypustöðina Borg að fjárhæð 1.609.970 krónur, skuld við símafyrirtækið Skipti að fjárhæð 31.149 krónur og við símafyrirtækið Alterna að fjárhæð 2.549 krónur auk skuldar við tryggingafélagið Vörð vegna vangoldinna tryggingariðgjalda sem nemur 35.996 krónum. Þá skuldar kærandi eftirstöðvar bílaláns að fjárhæð 879.297 krónur.

Þá skuldar kærandi opinber gjöld en þau eru þing- og sveitarsjóðsgjöld að fjárhæð 92.354 krónur, skipulagsgjald að fjárhæð 164.539 krónur, tryggingagjald að fjárhæð 22.716 krónur, staðgreiðsla launagreiðanda að fjárhæð 238.242 krónur og virðisaukaskattur að fjárhæð 2.795.709 krónur.

Eina eign kæranda samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara er fasteign hans að C-götu nr. 45 í sveitarfélaginu B sem metin er á 29.800.000 krónur samkvæmt fasteignamati.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 16. maí 2011 var umsókn kæranda um greiðsluaðlögun einstaklinga hafnað þar sem óhæfilegt þótti að fallast á hana með vísan til þess að skuldari hafi tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til skuldbindinganna var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, (lge.).

 

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru sinni til nefndarinnar bendir kærandi á að sú skuldasöfnun af hans hálfu á þeim tíma sem hrunið var, og umboðsmaður byggir synjun sína á, hafi átti sér stað vegna fyrirtækis kæranda. Hafi þessar fjárhagsskuldbindingar verið nauðsynlegar að mati kæranda og lánastofnana til þess að reyna að bjarga fyrirtækinu. Ekkert annað hafi verið í boði fyrir hann nema að vera persónulega í ábyrgð fyrir skuldbindingunum og bendir kærandi jafnframt á að ekkert greiðslumat hafi farið fram á vegum lánafyrirtækjanna.

Í greinargerð kæranda til nefndarinnar, dags. 27. júlí 2011, kemur fram að hann hafi rekið byggingarfyrirtækið X ehf. á árunum 2004-2010 og félagið Y ehf. frá árinu 2009 ásamt félaga sínum og hafi félögin staðið í margs konar framkvæmdum. Stofnað hafi verið til skuldbindinga vegna verkefna félagsins en við hrunið hafi þau verkefni stöðvast og hafi þeir félagarnir ekki ráðið við að greiða af þeim skuldbindingum sem eftir stóðu. X ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta árið 2010 en Y tréverk hafi ekki enn verið lýst gjaldþrota. Kærandi hafi sjálfur verið í persónulegum ábyrgðum fyrir bæði félögin en hafi engan veginn verið í stakk búinn til að mæta þeim ábyrgðum ef á reyndi.

Árin 2009 og 2010 segir kærandi að farið hafi að halla undan fæti og tekjur hans verið orðnar litlar vegna slæmrar verkefnastöðu sem hafi endað með því að kærandi sótti um og fékk greiddar atvinnuleysisbætur. Á þeim tíma hafi hann haft lítið sem ekkert aflögu til þess að greiða af lánum. Fyrrverandi kona hans hafi verið í skóla en þau hafi skilið um áramótin 2009-2010. Kærandi hafi reynt eftir bestu getu að standa við skuldbindingar sínar en það hafi ekki gengið sem skyldi þar sem hann hafi verið á atvinnuleysisbótum. Hann hafi reynt að selja húsið en salan hafi verið stöðvuð af Íslandsbanka.

Því hafi orðið úr að hann leitaði til umboðsmanns skuldara eftir að hafa reynt allt annað.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli einstaklingi heimild til að leita greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni einkum að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í c-lið 2. mgr. 6. gr. segi að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Í skattframtali kæranda árið 2008, fyrir tekjuárið 2007, komi fram að mánaðarlegar tekjur kæranda hafi verið um 276.428 krónur að meðaltali, eignir 25.654.599 krónur og skuldir 27.893.701 króna. Af skattframtali 2009, fyrir tekjuárið 2008, megi sjá að mánaðarlegar tekjur kæranda hafi verið að meðaltali 348.709 krónur, eignir 21.040.000 krónur og skuldir 46.771.772 krónur. Áætluð mánaðarleg greiðslubyrði kæranda hafi verið 480.345 krónur árið 2008.

Að sögn kæranda hafi félögin X ehf. og Y ehf. verið með nokkrar íbúðir í byggingu í sveitarfélaginu B árið 2008. Voru þær staðsettar að D-götu nr. 47, sem hafi verið tilbúið undir tréverk. Á eigninni hafi hvílt lán kæranda frá Sameinaða lífeyrissjóðnum. Ekki hafi tekist að selja fasteignina og hafi lífeyrissjóðurinn að lokum leyst eignina til sín. Lóðaframkvæmdir hafi hafist árið 2008 vegna raðhúsaíbúða við E-götu nr. 36-42. Íslandsbanki hafi lánað fyrir framkvæmdunum og krafist persónulegra ábyrgða kæranda og félaga hans fyrir frekari lánveitingum. Þegar teikningum af húsunum og efnaskiptum í lóð hafi verið lokið hafi Íslandsbanki stöðvað frekari fyrirgreiðslu til fjármögnunar verksins. Vegna þessa hafi ekki tekist að ljúka við íbúðir að E-götu nr. 25 og 27 sem þá hafi verið í byggingu. Kærandi og félagi hans hafi verið í ábyrgðum fyrir fyrirtækin fyrir úttektum hjá Byko hf. þar sem þau voru í reikningsviðskiptum vegna efniskaupa. Þegar Íslandsbanki hafi hætt fyrirgreiðslu sinni hafi Byko hf. lokað á frekari viðskipti við félögin.

Í gögnum málsins liggi fyrir að kærandi hafi stofnað til umtalsverðra skuldbindinga árið 2008, en um sé að ræða lán Sameinaða lífeyrissjóðsins frá 2008, upphaflega að fjárhæð 22.360.000 krónur, og yfirdráttarlán Landbankans að fjárhæð 17.625.713 krónur. Til tryggingar á yfirdráttarláninu sé tryggingabréf, tryggt með veði í fasteign kæranda og í fasteign að C-götu nr. 47 í sveitarfélaginu B. Þá sé kærandi með yfirdráttarlán hjá Íslandbanka á tékkareikningi sem stofnaður var 23. maí 2008, að fjárhæð 21.234.123 krónur.

Af gögnum málsins megi einnig sjá að kærandi hafi tekið á sig umtalsverðar ábyrgðarskuldbindingar ásamt félaga sínum, með lánasamningi frá árinu 2007 á milli X ehf. og Íslandbanka, upphaflega að fjárhæð 15.000.000 krónur, og sjálfskuldarábyrgð ásamt félaga sínum, á yfirdráttarláni vegna X ehf., upphaflega að fjárhæð 16.000.000 krónur. Kærandi hafi einnig verið í sjálfskuldarábyrgð fyrir úttekt fyrirtækisins hjá Byko hf. og Steypustöðvarinnar Borgar ehf. Staða þessara krafna sé í dag samtals 23.802.125 krónur.

Þegar litið hafi verið til fjárhagslegrar stöðu kæranda á þeim tíma sem til skuldbindinganna var stofnað sé það mat umboðsmanns skuldara að með þeirri miklu skuldasöfnun hafi kærandi tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað. Var því niðurstaða umboðsmanns skuldara að óhæfilegt væri að fallast á umsókn hans um greiðsluaðlögun og var henni því synjað með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í greinargerð sinni í tilefni kæru til nefndarinnar vísar umboðsmaður skuldara til dóms Hæstaréttar frá 16. júní 2010 í máli nr. 345/2010 þar sem staðfest var synjun héraðsdóms um heimild til greiðsluaðlögunar samkvæmt þágildandi ákvæðum um greiðsluaðlögun í lögum nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. Í því máli hafði umsækjandi keypt fasteign að verðmæti 27,9 milljónir króna og skuldsett sig umtalsvert í því sambandi. Á sama tíma hafi tekjur hans verið lágar og skuldir þegar numið tæplega 19 milljónum króna. Telur umboðsmaður mikilvæga leiðsögn felast í þeim fordæmum sem gengu í tíð eldri laga.

Fyrir setningu laga nr. 101/2010 hafi gilt sú takmörkun á heimild til greiðsluaðlögunar samkvæmt X. kafla a laga nr. 21/1991, að hún næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár höfðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, sbr. þágildandi 2. mgr. 63. gr. a laga nr. 21/1991. Í greinargerð með lögum nr. 101/2010 segir um forsendur þess að takmörkunin var ekki tekin upp í núgildandi lög:

Nefndin leggur áherslu á að mikilvægt sé að einstaklingum sé gert kleift að halda áfram atvinnurekstri sem er til þess fallinn að skapa heimili einstaklings raunhæfan grundvöll til tekjuöflunar til framtíðar. [...] Frumvarpinu er þó fyrst og fremst ætlað að ná til heimilisreksturs einstaklinga en mikilvægt er að mæta aðstæðum þeirra sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Það er þó ekki vilji löggjafans að einstaklingar sem fyrst og fremst eiga í vanda vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði.

Af niðurlagi hins tilvitnaða texta megi ráða að vilji löggjafans hafi ekki staðið til þess að heimild til greiðsluaðlögunar tæki til þeirra sem fyrst og fremst eigi í vanda vegna atvinnurekstrar.

Í máli þessu sé skuldasöfnun kæranda langt umfram það sem um var að ræða í hinum tilvitnaða Hæstaréttardómi. Þó svo að umboðsmaður skuldara telji sig ekki að fullu bundinn af fordæmi réttarins telur hann umfang skuldasöfnunarinnar, að teknu tilliti til eignastöðu og tekna á þeim tíma sem til skuldbindinganna var stofnað, gefa til kynna að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans. Þegar tekið sé tillit til hinna tilvitnuðu ummæla í greinargerð um tilgang laganna sé það mat umboðsmanns að óhæfilegt þyki að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar skv. 2.mgr. 6. gr. laganna.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til c-liðar. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að synja umsókn hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuld­bindingar­innar var stofnað.

Fjárhagsvandræði kæranda virðast einna helst mega rekja til skuldbindinga sem hann stofnaði til vegna atvinnurekstrar síns, einkum á árinu 2008, en þá tók kærandi lán að fjárhæð 22.360.000 krónur, sem nú stendur í tæpum 30 milljónum króna. Stuttu síðar tók kærandi lán hjá Landsbankanum að fjárhæð 13.000.000 króna sem nú stendur í 17.625.713 krónum. Þá tók kærandi yfirdráttarlán árið 2009 sem nú stendur í 21.234.123 krónum. Allar þessar skuldir eru tilkomnar vegna atvinnurekstrar kæranda.

Í áðurgildandi X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. var kveðið á um að einstaklingur sem hefði borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnurekstri gæti einungis fengið nauðasamning til greiðsluaðlögunar væru skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum lítill hluti af heildarskuldum. Í frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 var sú takmörkun felld brott, þar sem talið var mikilvægt að einstaklingum í atvinnurekstri með ótakmarkaðri ábyrgð væri gert kleift að leita nauðsynlegra úrræða væru þeir ófærir um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar eða yrðu það um fyrirsjáanlega framtíð. Var breytingunni þó fyrst og fremst ætlað að ná til heimilisreksturs einstaklinga en mikilvægt var talið að mæta aðstæðum þeirra sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Það var þó ekki vilji löggjafans að einstaklingar sem fyrst og fremst eiga í vanda vegna atvinnurekstrar nýttu sér þetta úrræði, svo sem fram kemur í athugasemdum við frumvarp til laganna. Við þá ákvörðun að fella brott þá takmörkun sem áður var á möguleikum einstaklinga í atvinnurekstri til að leita greiðsluaðlögunar var meðal annars horft til þess að ákvæði 6. gr. frumvarpsins girði fyrir það að einstaklingur í atvinnurekstri fái heimild til greiðsluaðlögunar hafi hann hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans eða tekið á sig fjárskuldbindingar sem hann var greinilega ófær um að standa við þegar hann stofnaði til þeirra.

Þrátt fyrir að ekki sé unnt að ætlast til þess að fólki hafi á árinu 2007 og snemma árs 2008 almennt verið ljósar þær sviptingar í efnahagslífinu sem síðar urðu að veruleika og gerbreyttu skuldastöðu lántakenda og atvinnuástandi í landinu er ljóst að skuldsetning og áhættutaka kæranda vegna atvinnurekstrar hans var ekki í nokkru samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað. Er því fallist á það með umboðsmanni skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. 2. mgr. 6. gr. lge.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum