Hoppa yfir valmynd
26. júlí 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 30/2011

Fimmtudaginn 26. júlí 2012

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Einar Páll Tamimi formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.

Þann 20. júní 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 6. júní 2011, þar sem heimild þeirra til greiðsluaðlögunar var felld niður.

Með bréfi, dags. 22. júní 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 6. júlí 2011.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi, dags. 14. júlí 2011 og til ítrekunar 9. september 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kærendum. Kærunefndin sendi kærendum tölvupóst þann 21. maí 2012 þar sem óskað var nánari skýringa varðandi ákveðin atriði. Svar kærenda barst með tölvupósti sama dag.

 

I.

Málsatvik

Kærendur eru 35 og 39 ára og búsett í Guatemala. Þau starfa hjá föður annars kæranda þar í landi.

Heildarskuldir kærenda nema 42.084.079 krónum samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara. Vegur þar þyngst lán frá Arion banka, sem stendur nú í 36.556.675 krónum. Þá er kærandi einnig með þrjú önnur lán hjá Arion banka en staða þeirra er 169.483 krónur, 2.718.806 krónur og 1.408.673 krónur. Aðrar kröfur nema samtals 1.236.442 krónum.

Samanlagðar tekjur kærenda nema, að þeirra sögn, 3.000 USD á mánuði eða 388.830 krónur miðað við gengi í júní 2012. Þá fá þau að eigin sögn 90.000 krónur á mánuði í leigutekjur af útleigu fasteignarinnar að C-götu nr. 12 sem metin er á 26.500.000 krónur samkvæmt gildandi fasteignamati. Kærendur lögðu fram frekari gögn þann 21. maí 2012, en það eru ráðningarsamningar við vinnuveitendur þeirra í Guatemala þar sem framangreindar tekjur koma fram og virðist sem samningarnir renni út þann 30. nóvember 2012. Ekki hafa verið lögð fram gögn til stuðnings fullyrðingum kærenda um leigutekjur þeirra af fasteign þeirra á Íslandi.

Kærendur lögðu inn umsókn um greiðsluaðlögun einstaklinga þann 5. ágúst 2010 og var umsókn þeirra samþykkt 4. apríl 2011. Umsjónarmaður með greiðsluaðlögunar­umleitunum var skipaður þann 6. apríl 2011. Þann 17. maí 2011 barst umboðsmanni skuldara bréf frá umsjónarmanni þar sem hann fór fram á að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.). Var kærendum gefið færi á að koma að athugasemdum sínum við bréf umsjónarmanns með bréfi sem sent var umboðsmanni kæranda þann 23. maí 2011 en ekki barst svar við bréfinu. Var heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar í framhaldinu felld niður  með ákvörðun umboðsmanns skuldara dags. 6. júní 2011.

 

II.

Sjónarmið kæranda

Í greinargerð með umsókn kærenda um greiðsluaðlögun kemur fram að þau hafi flutt til Guatemala árið 2009 vegna atvinnuleysis hér á landi. B hafi áður rekið fyrirtækið D ehf. en A hafi starfað hjá fyrirtækinuY. A hafi misst starfið og þau ákveðið að loka fyrirtæki B vegna samdráttar í kjölfar hrunsins. Þau standi hins vegar uppi með skuldir tengdar þeim rekstri.

Þau hafi keypt fasteignina að C-götu nr. 12 árið 2005 en áður hafi þau átt íbúð í E-stað í sveitarfélaginu F sem þau seldu til að minnka við sig skuldir. Við það hafi þeim tekist að minnka skuldir sínar úr 17.000.000 krónum í 13.000.000 krónur. Lán þeirra í erlendri mynt hafi hins vegar hækkað úr 14.000.000 kr. upp í um 37.000.000 króna við og eftir hrun. Greiðslubyrði lána hafi orðið of há og í nóvember 2008 hafi kærendur verið komin í talsverð vanskil og ráðstöfunarfé þeirra hafi ekki dugað nema fyrir rekstri heimilisins. Í kjölfarið hafi tekið við frystingar á lánum og samningaviðræður sem engu hafi skilað.

Um mitt ár 2008 hafi A ítrekað reynt að semja um lægri greiðslubyrði við Íslandsbanka vegna lána D ehf. Ekki hafi verið vilji til að semja og 26. maí 2011 hafi verið gert árangurslaust fjárnám af hálfu Sýslumannsins X vegna skulda fyrirtækisins.

Í kjölfar hrunsins hafi kærendur ákveðið að flytja tímabundið til Guatemala þar sem foreldrar B hafi boðið þeim að búa hjá sér. Þau hafi fyrst reynt fyrir sér með eigin atvinnurekstur, en A hafi um tíma rekið verkstæði og B hafi flutt inn G-potta frá Bandaríkjunum. Tekjurnar af rekstrinum hafi hins vegar ekki dugað þeim til að lifa af án þess að stofna til skulda. Því hafi þau lokað fyrirtækjunum og ráðið sig í fasta vinnu. Þau hafi leigt út húsið að C-götu til að eiga fyrir afborgunum af skuldum sínum. Kveðjast kærendur nú stefna að því að flytja aftur heim til Íslands í desember 2012.

Í kæru til nefndarinnar mótmæla kærendur þeirri fullyrðingu umboðsmanns að þau hafi ekki veitt umbeðnar upplýsingar. Tekjur kærenda hafi verið rokkandi á meðan þau stóðu í fyrirtækjarekstrinum. Kærendur hafi gefið upp tekjur eins og þær voru á þeim tímapunkti þegar þau voru spurð, en stundum hafi liðið mánuðir á milli þess sem umboðsmaður hafði samband við þau og hafi aðstæður þá stundum verið breyttar. Því hafi ekki verið samræmi í uppgefnum tölum. Eins sé ekki rétt að þau hafi ekki viljað gefa upp heimilisfang sitt í Guatemala. Þau hafi svarað öllum spurningum frá embætti umboðsmanns skuldara eftir bestu samvisku.

Benda kærendur jafnframt á að fyrirtækin sem þau ráku hafi verið stofnuð með það í huga að auðvelt væri að losa sig við þau með litlum fyrirvara. Fyrirtæki B hafi verið heimarekið með rekstrarsamningi við G sem falli sjálfkrafa úr gildi þegar B flytur úr landi. Verkstæði A sé mjög lítill og illa tækjum búinn rekstur og ekki hafi verið stofnað til skulda við stofnun þess.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að þann 17. maí 2011 hafi umboðsmanni skuldara borist bréf frá umsjónarmanni kærenda þar sem hann tilkynnti að hann teldi kærendur ekki uppfylla skilyrði um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.). Umsjónarmaður hafi verið í tölvupóstsamskiptum við kærendur og óskað eftir því að þau gerðu grein fyrir högum sínum í Guatemala. Þær upplýsingar sem umsjónarmaður óskaði eftir lutu einkum að rekstri fyrirtækja í þeirra eigu, þá einkum með tilliti til umfangs og þeirra tekna sem stafa af rekstrinum. Þá hafi umsjónarmaður óskað eftir staðfestingu kærenda á að um tímabundna búsetu erlendis hafi verið að ræða skv. skilyrðum a-liðar 4. mgr. 2. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns komi fram að hann hafi ekki fengið nein haldbær gögn sem styðji frásögn kærenda. Þá sé ósamræmi í gögnum málsins í uppgefnum tekjum þeirra hjá umboðsmanni skuldara annars vegar og umsjónarmanni hins vegar. Telji umsjónarmaður að erfitt sé að gera raunhæfa greiðsluáætlun þar sem engum haldbærum gögnum sé til að dreifa, hvorki um rekstur þeirra, tekjur af honum né verðmati á fyrirtækjunum.

Það sé því mat umsjónarmanns að fella beri niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda þar sem þeir óvissuþættir sem fyrir hendi séu, séu þess eðlis að ekki sé mögulegt fyrir umsjónarmann að átta sig á heildarmynd fjárhags og greiðslugetu kærenda. Þá telji umsjónarmaður að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægjanlega glögga mynd af fjárhag kærenda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. laganna. Auk þess telji umsjónarmaður að sala á fyrirtækjum kærenda myndi að einhverju leyti ráða fram úr skuldavanda þeirra þó að erfitt sé að meta það þar sem engar forsendur séu til að byggja á í þeim efnum vegna gagnaskorts.

Í kjölfar bréfs umsjónarmanns kærenda hafi verið óskað eftir athugasemdum frá umboðsmanni kærenda við bréfið. Þar eð engar athugasemdir hafi borist hafi umboðsmaður skuldara tekið ákvörðun um að fella úr gildi heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar. Í ákvörðun umboðsmanns kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. laganna. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægjanlega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Eins og rakið sé í ákvörðuninni hafi reynst erfitt að fá fullnægjandi skýringar og gögn frá kærendum um hagi þeirra, fjárhag og annað er lúti að búsetu þeirra og rekstri í Guatemala. Taki umsjónarmaður fram í bréfi sínu að ósamræmis gæti í upplýsingum kæranda á uppgefnum tekjum þeirra, annars vegar hjá umboðsmanni, þar sem þau hafi talið tekjur sínar vera $900-1000 á mánuði og hins vegar hjá umsjónarmanni, þar sem þau telji tekjur B nema $2500 á mánuði. Þá séu leigutekjur þeirra vegna útleigu á C-götu nr. 12 sagðar vera um 100.000 krónur á mánuði en ekki hafi verið lagður fram leigusamningur því til stuðnings.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara dags. 6. júlí 2011 kemur fram að viðbótargögn hafi verið lögð fram með kæru auk þess sem þá hafi umboðsmanni fyrst verið kunnugt um heimilisfang kærenda. Gögnin hafi verið einhverskonar reikningar fyrir efniskaupum eða útseldri vinnu án þess að nánar sé skýrt hvaða þýðingu gögnin hafi eða hvað þau eigi að sýna fram á. Enn skorti verulega á að kærendur skýri með fullnægjandi hætti fjölmörg atriði sem varði fjárhag þeirra og aðstæður. Verði að telja að fjárhagur kærenda sé mjög óljós og ógerningur að byggja heildstæðan samning um greiðsluaðlögun á þeim gögnum sem liggi fyrir. Verði að gera þá kröfu til kærenda að þeir afli þeirra ganga sem nauðsynleg séu til vinnslu málsins enda um umsókn að ræða sem lögð var inn að þeirra frumkvæði. Enn fremur sé kveðið á um í 2. málsl. 4. mgr. 4. gr. lge. að skuldari skuli jafnan sjálfur útvega nauðsynlegt gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara. Þá sé til þess að líta að kærendur hafi notið greiðsluskjóls frá 25. október 2010.

Samkvæmt framangreindu sé ljóst að kærendur hafi ekki hlutast til um að veita umbeðnar upplýsingar þrátt fyrir ítrekað hafi verið veittur frestur til þess, bæði hjá umboðsmanni skuldara og umsjónarmanni. Því hafi umboðsmanni skuldara borið skylda til þess að fella niður heimild kærenda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 15. gr. laga nr. 101/2010.

Þann 21. maí 2012 bárust nefndinni ráðningarsamningar frá kærendum. Var óskað eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til gagnanna þann 4. júní 2012. Í svari umboðsmanns skuldara, dags. 4. júní 2012 kemur fram að umboðsmaður telji ekki ástæðu til að taka afstöðu til gagnanna enda breyti þau í engu þeim forsendum sem synjun umboðsmanns var byggð á. Ekki liggi fyrir hvaða störf liggi að baki þeim og óljóst hvaða laun kærendur fái greidd. Þá geri þau ekki nánari grein fyrir því sem umboðsmaður hefur kallað eftir, það er launum og raunverulegri greiðslugetu.

 

IV.

Niðurstaða

Einstaklingur sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar getur leitað greiðsluaðlögunar í samræmi við lög um greiðsluaðlögun nr. 101/2010 (lge.), sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Einstaklingur telst ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar þegar ætla má að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skal umsókn um greiðsluaðlögun hafnað ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.Er hér um að ræða skyldu umboðsmanns skuldara til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar undir þessum kringumstæðum enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Hér er því einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Er hér áréttað eins og víða annars staðar í lögunum að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Kærendum var í upphafi veitt heimild til greiðsluaðlögunar m.a. á grundvelli upplýsinga frá þeim um að tekjur þeirra væru litlar sem engar. Við undirbúning samningsumleitana hjá umsjónarmanni með greiðsluaðlögun kom í ljós misræmi á milli þeirra upplýsinga sem kærendur höfðu gefið upp áður og sem umboðsmaður byggði heimild til greiðsluaðlögunar á og þeirra upplýsinga sem kærendur létu umsjónarmanni í té. Voru ítrekaðar tilraunir gerðar til þess að greiða úr þeim flækjum. Til viðbótar við ítrekaðar beiðnir umsjónarmanns með greiðsluaðlögun kærenda um frekari upplýsingar og gögn gaf umboðsmaður skuldara kærendum kost á að láta sitt álit í ljós og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en ákvörðun var tekin um niðurfellingu heimildar til greiðsluaðlögunar í tilefni af bréfi umsjónarmannsins, svo sem áskilið er í 15. gr. lge.

Fallast verður á það með umboðsmanni skuldara að ekki sé unnt að átta sig á heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu kærenda á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu. Hvað varðar tekjur kærenda lá í upphafi ekkert fyrir nema þeirra eigin frásögn, en kærendur kváðust búsett í Guatemala, reka þar tvö fyrirtæki ásamt því sem þau leigi íbúð sína á Íslandi út og hafi af henni tekjur. Engin gögn lágu fyrir því til staðfestingar, né aðrar áreiðanlegar upplýsingar um tekjur þeirra, svo sem um fjárhæðir og annað. Við meðferð málsins hjá kærunefnd hafa borist viðbótargögn; annars vegar einhverskonar reikningar sem óljóst er hvaða þýðingu hafa og hins vegar ráðningarsamningar kærenda ásamt leigusamningi um íbúð kærenda á Íslandi. Enn vantar hins vegar gögn sem sýna fram á raunverulegar heildartekjur kærenda, svo sem launaseðla, bankayfirlit eða annað, auk þess sem engin gögn hafa verið lögð fram varðandi fyrirtækjarekstur kærenda erlendis, hvorki um tekjur kærenda af rekstrinum, kostnað, eignir, skuldir, ábyrgðir né söluverðmæti fyrirtækjanna og stöðu þeirra að öðru leyti.

Fyrirliggjandi gögn og upplýsingar gefa því ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda og væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar í skilingin b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir til kærenda um að leggja fram frekari gögn, og verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 6. júní 2011, um að fella niður heimild A og B til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Einar Páll Tamimi

Kristrún Heimisdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum