Hoppa yfir valmynd
11. maí 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 50/2011

Föstudaginn 11. maí 2012

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 2. september 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 26. ágúst 2011, þar sem umsókn hennar um eignaráðstöfun samkvæmt lögum um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota, nr. 103/2010, var hafnað.

Með bréfi, dags. 9. september 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara, og barst hún með bréfi, dags. 23. september 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 28. september 2011, með ítrekun dags. 20. október 2011 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

I.

Málsatvik

Þann 19. júlí 2011 lagði kærandi inn umsókn um tímabundið úrræði fyrir eigendur tveggja fasteigna, skv. lögum nr. 103/2010. Í umsókninni kemur fram að árið 2005 hafi hún keypt fasteign sína að B-götu nr. 72 í sveitarfélaginu C, þar sem hún búi núna. Árið 2006 hafi hún svo keypt hús við D-götu nr. 18 í sveitarfélaginu E, en það hús hafi verið hugsað sem sumarhús þar sem börn kæranda búi í sveitarfélaginu E. Kærandi er þinglýstur eigandi að báðum eignum.

Kærandi býr ein og starfar sem verkstjóri í fiskvinnslu hjá X í fullu starfi.

Heildarskuldir kæranda nema 40.328.847 króna. Þar af eru sex kröfur frá Íbúðalánasjóði samtals að fjárhæð 31.666.398 krónur, sem tryggðar eru með veði í fasteignum kæranda.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 26. ágúst 2011, var umsókn kæranda um eignarráðstöfun samkvæmt lögum nr. 103/2010 hafnað með vísan til þess að umsókn hennar uppfyllti ekki skilyrði 2. gr. laganna um að báðar eignirnar hafi verið ætlaðar til heimilisnota.

 

II.

Sjónarmið kæranda

Kærandi lýsir forsögu málsins þannig að hún hafi árið 2005 fest kaup á eigninni að B-götu þar sem hún hafi þurft að stækka við sig en hún hafi sett aðra minni eign upp í.

Árið 2006 hafi hún svo fest kaup á fasteigninni í sveitarfélaginu E, sem hún hafi ætlað að nota sem sumarhús. Við kaupin hafi hún yfirtekið lán hjá Íbúðalánasjóði og ráðið vel við afborganir til að byrja með.

Þá hafi hún keypt bifreið árið 2007 á láni hjá Avant. Kærandi hafi greitt af láninu síðan þá en lánið hafi lækkað lítið eftir endurútreikninga.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram einstaklingur sem greiði fasteignaveðkröfur af tveimur fasteignum, vegna kaupa á fasteign sem ætluð hafi verið til að halda heimili í, geti óskað eftir að ráðstafa annarri eigninni til veðhafa. Miðað sé við það að hann hafi fest kaup á eign á tímabilinu 1. janúar 2006 til 1. nóvember 2008 og átt aðra á sama tíma sem hann hafi ekki selt, enda hafi þær báðar verið óslitið í hans eigu. Þá er jafnframt sett það skilyrði að  sá sem óski eignarráðstöfunar sé þinglýstur eigandi beggja fasteigna, hafi forræði á fé sínu, hafi skráð lögheimili í annarri fasteigninni og haldi heimili sitt þar. Þá er enn fremur skilyrði að samanlögð uppreiknuð veðstaða beggja fasteignanna nemi að lágmarki 75% af samanlögðu markaðsvirði þeirra.

Við mat á því hvort veita skuli einstaklinum heimild til að ráðstafa annarri af tveimur fasteignum sínum til veðhafa beri umboðsmanni skuldara að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geti í veg fyrir að eignarráðstöfun verði samþykkt, sbr. 1.-6. tölul. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 103/2010.

Kærandi hefur greint svo frá að hún hafi fest kaup á fasteigninni að D-götu nr. 18, sveitarfélaginu E og ætlað að nýta hana sem sumarhús þar sem börn hennar búi í sveitarfélaginu. Í 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna kemur m.a. fram að hafna beri umsókn ef skilyrðum 2. gr. laganna er ekki fullnægt. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laganna er það gert að skilyrði að sú fasteign þar sem skuldari hafi ekki skráð lögheimili og haldi heimili sitt í, verði annað hvort að hafa áður verið heimili skuldara og hann haft þar skráð lögheimili eða skuldari hafi fest kaup á fasteigninni með það í huga að halda heimili sitt þar. Í greinargerð kæranda kemur fram að hún hafi ætlað að nýta aðra fasteignina sem sumarhús. Ekki verði því ráðið af greinargerð kæranda að hún hafi fest kaup á fasteigninni að D-götu nr. 18 með það í huga að halda þar heimili. Þá hafi kærandi aldrei haft þar skráð lögheimili. Með vísan til þess að önnur fasteign kæranda hafi því aldrei verið ætluð til heimilisnota var það niðurstaða umboðsmanns skuldara að umsókn hennar hafi ekki uppfyllt skilyrði laganna og var umsókn hennar því hafnað.

 

IV.

Niðurstaða

Mál þetta snýr að því hvort kærandi uppfylli skilyrði laga nr. 103/2010, um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota, fyrir heimild til þess að ráðstafa annarri eigninni til veðhafa.

Í 2. mgr. 2. gr. laganna koma fram þau skilyrði sem uppfylla þarf  en samkvæmt ákvæðinu skal skuldari  hafa skráð lögheimili í annarri fasteigninni og halda heimili sitt þar. Sú fasteign sem skuldari hefur ekki lögheimili í verður annaðhvort að hafa áður verið heimili skuldara og hann haft þar skráð lögheimili eða skuldari verður að hafa fest kaup á henni með það í huga að halda heimili sitt þar. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 103/2010 segir:

Úrræði því sem kveðið er á um í frumvarpinu er fyrst og fremst ætlað að vera söluúrræði til að gera einstaklingum sem keypt höfðu fasteign til heimilisnota, en ekki selt fyrri eign þegar efnahagshrunið varð, kleift að losa sig við aðra eignina með því að ráðstafa henni til veðhafa á ætluðu markaðsvirði fasteignarinnar og telst slík ráðstöfun fullnaðargreiðsla af hálfu skuldara til þeirra veðhafa sem eigninni er ráðstafað til.[...] Meginskilyrði þess að eignaráðstöfun af þessu tagi, en svo er lagt til að úrræði þetta verði nefnt ef frumvarpið verður að lögum, verði veitt er að báðar fasteignirnar hafi verið nýttar eða ætlaðar til nýtingar sem heimili og að sömu aðilar hafi haft óslitið eignarhald þeirra síðan hrunið varð.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi er með skráð lögheimili að B-götu í sveitarfélaginu C. Hún hefur ekki haft skráð lögheimili að D-götu nr. 18, í sveitarfélaginu E og óumdeilt er að hún festi kaup á þeirri fasteign til þess að nota sem sumarhús en ekki með það í huga að halda heimili sitt þar. Er því ljóst að kærandi hafði ekki ætlað að selja aðra fasteignina, heldur var ætlunin að eiga báðar fasteignirnar áfram.

Í ljósi þessa er það niðurstaða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að kærandi uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 103/2010 og er ákvörðun umboðsmanns skuldara því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita eignarráðstöfunar er staðfest.

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum