Hoppa yfir valmynd
11. maí 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 81/2011

Föstudaginn 11. maí 2012

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 23. desember 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 12. desember 2011, þar sem umsókn hans um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er hafnað.

Með bréfi, dags. 5. janúar 2012, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 10. febrúar 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 15. febrúar 2012 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Bárust þær þann 1. mars 2012. Voru athugasemdir kæranda sendar umboðsmanni skuldara með bréfi dags. 12. mars 2012 sem sendi framhaldsgreinargerð sína þann 29. mars 2012. Var kæranda send framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara til kynningar með bréfi dags. 30. mars 2012. Frekari athugasemdir kæranda bárust þann 16. apríl 2012.

 

I.

Málsatvik

Kærandi er fimmtugur og býr að B-stað í sveitarfélaginu C í 110 fm leiguhúsnæði. Hann á eina dóttur sem býr jöfnum höndum hjá honum og móður sinni.

Kærandi hefur verið sjálfstætt starfandi og stundað ýmis viðskipti í gegnum tíðina. Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 1.930.800.505 krónur og falla þar af 8.198.542 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun. Ábyrgðarskuldbindingar kæranda nema 3.828.931.935 krónum. Til helstu skuldbindinganna var stofnað á árinu 2005.

Skuldir kæranda eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi yfirdráttur á tékkareikningi að fjárhæð 76.296.747 krónur, í öðru lagi lán í erlendum gjaldeyri sem stendur nú í 138.121.921 krónu, í þriðja lagi skuldabréf með sjálfskuldarábyrgð, upphaflega að fjárhæð 670.000.000 krónum en stendur nú í 843.610.428 krónum og í fjórða lagi veðkrafa, upphaflega að fjárhæð 12.000.000 krónur en stendur nú í 18.304.526 krónum. Allar þessar skuldir eru við Landsbankann. Í fimmta lagi vangoldin þing- og sveitarsjóðsgjöld að fjárhæð 129.954.350 krónur og í sjötta lagi vangoldinn virðisaukaskatt að fjárhæð 7.345.263 krónur. Í sjöunda lagi er reikningur frá MP banka sem nemur 251.011.848 krónum. Þá er um að ræða átta veðkröfur, allar frá Arion banka, upphaflega samtals að fjárhæð 137.277.699 krónum sem nú standa í 175.939.647 krónum. Eftirstöðvar á kreditkorti hjá Arion banka nema 3.034.485 krónum. Þá skuldar kærandi tvær kröfur sem eru í innheimtu hjá Íslandsbanka, sú fyrri að upphaflegri fjárhæð 7.500.000 krónur en stendur nú í 11.301.260 krónum en sú síðari, að upphaflegri fjárhæð 12.000.000 krónur, stendur nú í 18.011.999 krónum. Kærandi skuldar einnig 853.279 krónur í vangoldið meðlag og að lokum eru tvær kröfur í eigu Virðingar hf., sú fyrri að upphaflegri fjárhæð 60.000.000 krónum, stendur nú í 67.885.997 krónum en sú síðari nemur 189.128.755 krónum.

Kærandi hefur tekist á hendur umtalsverðar ábyrgðarskuldbindingar, mestmegnis fyrir félög sem hann er tengdur, en samtals nema þær 3.828.931.935 krónum.

Tekjur kæranda síðastliðin ár hafa verið eftirfarandi: Árið 2008 námu mánaðarlegar tekjur kæranda að frádregnum skatti 84.945.037 krónum að meðaltali, árið 2009 voru þær að meðaltali 5.152.939 krónur á mánuði og 2.042.849 krónur að meðaltali árið 2010.

Kærandi lagði inn umsókn sína um greiðsluaðlögun þann 19. maí 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara dags. 12. desember 2011 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar meðal annars með tilliti til skattskulda kæranda og atvika að örðu leyti, sbr. d. og g. liði 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

 

II.

Sjónarmið kæranda

Í greinargerð kæranda sem hann lagði fram með umsókn um greiðsluaðlögun kemur fram að kærandi hafi í fjölda ára verið í viðskiptum við Landsbanka Íslands en hann hafi frá unga aldri verið sjálfstætt starfandi og stundað viðskipti af ýmsum toga, lengst af með ágætum árangri, þar til bankinn hafi orðið mjög áhugasamur um lánveitingar til fjárfestinga sem hann var tengdur og átti hlut og hagsmuni í. Lánveitingar bankans hafi verið tryggðar með veði í eignum hans og með sjálfskuldarábyrgð hans. Lánveitingar þessar hafi farið fram á árunum 2005-2008. Þegar hann hafi óskað eftir sölu á eignum tengdum bankanum var viðkvæði bankans að það myndi draga dilk á eftir sér.

Ástæður greiðsluerfiðleika kæranda telur hann megi rekja til verðlausra eða verðlítilla eigna. Að baki skuldbindingum hans séu verðmætar eignir sem metnar hafi verið af hlutlausum aðilum, en þrátt fyrir samningsumleitanir hafi bankinn sýnt mikla óbilgirni og á meðan kærandi hafi talið að samningaviðræður væru í gangi hafi þeir komið í bakið á honum með kröfu um gjaldþrotaskipti. Því hafi hann sótt um greiðsluaðlögun.

Í kæru eru gerðar athugasemdir við ákvörðun umboðsmanns í fjórum liðum. Í fyrsta lagi séu í ákvörðun umboðsmanns skuldara tilgreindar skattskuldir, þ.e. þing- og sveitasjóðsgjöld, nokkurra einkahlutafélaga sem kærandi sitji í stjórn í. Þá sé tekið fram að skattskuldir þeirra byggi að nokkru leyti á áætlunum en gengið sé útfrá því í ákvörðum umboðsmanns að hann beri stöðu sinnar vegna ábyrgð á greiðslum umræddra skatta vegna félaga sem hann tengist. Kærandi hafnar þessu enda beri hann að lögum ekki persónulega ábyrgð á greiðslu þing- og sveitasjóðsgjalda einkahlutafélaga þó hann sitji í stjórn þeirra. Um sé að ræða skuld viðkomandi félaga, sem séu með takmarkaðri ábyrgð eiganda þeirra.

Í öðru lagi gerir kærandi athugasemd við að umboðsmaður fullyrði að hann beri persónulega ábyrgð á greiðslu virðisaukaskatts félaga sem hann sitji í stjórn í. Fyrirsvarsmenn einkahlutafélaga, einkum stjórnarformenn og framkvæmdastjórar, geti hins vegar, að ýmsum skilyrðum uppfylltum, bakað sér refsiábyrgð með því að vantelja virðisaukaskatt eða láta hjá líða að greiða hann. Slíkt eigi þó ekki við um kæranda, engin opinber rannsókn hafi farið fram vegna þessa og engar kröfur verið gerðar á hendur honum.

Í þriðja lagi vill kærandi koma því á framfæri varðandi þann virðisaukaskatt sem hann skuldar persónulega að sú skuld sé 7.345.263 krónur en heildarskuldir kæranda séu, að teknu tilliti til þeirra skulda sem falla utan samnings um greiðsluaðlögun, 1.922.601.963 krónur. Því sé virðisaukaskattskuldin einungis 0,38% af heildar skuldum kæranda og því afskaplega lágt hlutfall þeirra. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara sé vísað til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011 um túlkun á d. lið 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt þeim úrskurði og dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, sem kærunefndin vísaði til, beri að leggja mat á hlutfall virðisaukaskattskuldarinnar af heildarskuldum og eignum. Í dómi Hæstaréttar var þetta hlutfall 8,3% og i úrskurði kærunefndarinnar var hlutfallið enn hærra. Því eigi nefndur úrskurður ekki við í máli kæranda. Þá vill hann taka það fram að hann sé með samning við Tollstjórann í Reykjavík, á grundvelli laga nr. 24/2010 og er greiðslufrestur til 1. júní 2012 og stendur honum til boða að greiða skuldina, vaxtalaust, með skuldabréfi til fimm ára í samræmi við áðurnefnd lög.

Í fjórða lagi vill kærandi gera athugasemd við það sem fram komi í ákvörðun umboðsmanns að ekki verði hjá því litið að ógreidd gjöld kæranda séu vangreiddar greiðslur í opinbera sjóði landsmanna sem séu ætlaðir til samneyslu og samtryggingar. Með öllu sé vandséð hvaða máli þetta skipti enda gera lög nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, ekki þennan greinarmun. Tilvísun umboðsmanns til almennra skoðana og umfjallana sem fram komi í lögskýringargögnum breyti því ekki.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð umboðsmanns skuldara, dags. 1. mars 2012 ítrekar kærandi fram komin mótmæli um að vangreiddur virðisaukaskattur kæranda sé nægjanlegur til þess að það girði fyrir heimild hans til greiðsluaðlögunar. Þær virðisaukaskattskuldir sem þar komi til greina séu skuld hans sjálfs, að fjárhæð 7.345.263 krónur og vangoldin skuld þriggja einkahlutafélaga, þ.e. D ehf. að fjárhæð 8.652.473 krónur, E ehf. að fjárhæð 2.554.582 krónur og F ehf. að fjárhæð 894.404 krónur.

Þegar hin kærða ákvörðun var tekin var samanlögð fjárhæð þessara skattskulda 19.446.722 krónur eða um 1% af heildarskuldum kæranda. Frá því að ákvörðunin var tekin hafi sú breyting orðið að kærandi hafi gengið frá samkomulagi við Tollstjórann í Reykjavík um uppgjör á virðisaukaskattskuld sinni með útgáfu skuldabréfs. Teljist sú skuld því greidd. Eftir standi því skuldir sem við ákvörðun umboðsmanns námu 12.101.459 krónum, sem sé um 0,62% af heildarskuldum kæranda.

Þá hafi einstaka skattskuldir félaga sem kærandi sé í fyrirsvari fyrir tekið miklum breytingum frá því hin kærða ákvörðun var tekin. Þá hafi virðisaukaskattskuld E ehf. lækkað úr 2.554.582 krónum í 1.936.976 krónur. Kærandi vill auk þess taka fram að hann hafi einungis verið meðstjórnandi í því félagi. Þá hafi skattskuld G ehf., upphaflega að fjárhæð 3.569.450 krónur og að langstærstum hluta áætlanir, verið leiðrétt og sé nú 348.727 krónur. Skattaskuld I ehf. sem í ákvörðun umboðsmanns sé greind 7.333.076 krónur, byggt á áætlunum, hafi verið leiðrétt og sé nú 41.429 krónur. Skattframtölum hafi verið skilað vegna H ehf. en beðið sé eftir réttri álagningu. Í ákvörðun umboðsmanns er skattskuld F ehf. tilgreind 1.052.716 krónur en rétt fjárhæð sé 948.614 krónur, þar af ógreiddur virðisaukaskattur 809.558 krónur. Skattskuld D ehf. sé tilgreind í ákvörðun umboðsmanns 12.950.332 krónur en það sé ekki rétt. Samkvæmt yfirliti Tollstjórans í Reykjavík er skráð virðisaukaskattskuld 7.227.804 krónur og sé að langstærstum hluta byggð á áætlunum að sögn kæranda og sama eigi við um skuld vegna staðgreiðslu. Með vísan til framangreindra fjárhæða, eftir að þær hafi verið leiðréttar, sýnist kæranda að umfjöllun umboðsmanns um persónulega virðisaukaskattskuld kæranda og virðisaukaskattskuldir umræddra einkahlutafélaga hafi ekki lagalega þýðingu við úrlausn málsins enda sé um svo lágt hlutfall af heildarskuldum kæranda að ræða.

Eftir standi skuldir kæranda vegna þing- og sveitasjóðsgjalda en höfuðstóll þeirra sé 96.953.859 krónur. Kærandi ítrekar það sem komi fram í kæru um að ekki sé gerður greinarmunur á þessum skuldum og öðrum í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga auk þess sem bent sé á að við gjaldþrot séu þessar skattskuldir almennar kröfur skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og njóti því sömu réttarstöðu og aðrar skuldir kæranda.

Að öðru leyti vill kærandi benda á að hann hafi um langt árabil hagað rekstri sínum með þeim hætti að reksturinn sé á hans eigin kennitölu og þannig viljað standa og falla með honum. Kærandi eigi ekki að þurfa að gjalda þess að hafa hagað rekstrarfyrirkomulaginu með þessum hætti og þá þannig að persónuleg skuld hans vegna þing- og sveitasjóðsgjalda girði fyrir  heimild hans til greiðsluaðlögunar. Slíkt væri skýrt brot á almennum jafnræðisreglum enda væri hann því í mun verri stöðu en þeir einstaklingar sem höfðu allan sinn rekstur í hlutafélagaformi.

Í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 hafi allar skuldir kæranda hækkað verulega á sama tíma og verðmæti eigna hans hafi snarlækkað. Síðan þá hafi kærandi verið í samningaviðræðum við alla helstu kröfuhafa og hafi reynt að búa svo um hnútana að sem mest fengist fyrir eignir, kröfuhöfunum til hagsbóta. Hafi sú vinna tekið toll af honum heilsufarslega enda hafi verið sótt að honum á óvægin hátt úr mörgum áttum. Hann hafi átt við vanheilsu að stríða undanfarið og því sé honum mikið hagsmunamál að umsókn hans um greiðsluaðlögun nái fram að ganga.

Í athugasemdum kæranda við framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara, sem bárust 16. apríl 2012 gerir kærandi athugasemdir við staðhæfingar umboðsmanns um virði eigna sinna en í ákvörðun umboðsmanns komi fram að eignir kæranda nemi samtals 14.973.126 krónum. Þessi fjárhæð sé beinlínis villandi, þar sem einungis séu tilgreindar fasteignir kæranda og fasteignamat þeirra auk tilgreindra bankareikninga. Hvorki sé horft til annarra eigna kæranda, s.s. hlutafjáreignar hans í ýmsum félögum, sem samkvæmt skattframtali 2011 hafi numið 106 milljónum króna að nafnvirði, né innlendra og erlendra verðbréfa og krafna, samtals að nafnvirði 183 milljónir króna. Þá sé engin tilraun gerð af hálfu umboðsmanns skuldara að leggja sjálfstætt mat á raunveruleg verðmæti hlutafjáreignar kæranda. Kærandi tekur fram að hann hafi veitt umboðsmanni skuldara fullt umboð til að afla allra þeirra gagna sem máli skiptu varðandi umsókn hans.

Í framhaldsgreinargerðinni komi jafnframt fram að kærandi hafi aukið skattskuldir sínar um 33.305.367 krónur og er vísað í yfirlit frá Tollstjóranum í Reykjavík. Þessi fullyrðing sé beinlínis röng því höfuðstóll skuldar kæranda sé óbreyttur og sú aukning sem umboðsmaður vísi til sé til komin vegna reiknaðra dráttarvaxta af höfuðstól. Kærandi vill taka fram að stór hluti þessara dráttarvaxta hefðu fallið niður vegna réttaráhrifa 3. gr. laga nr. 24/2010 ef hann hefði nýtt sér þau úrræði sem lögin bjóða upp á.

Þá vilji kærandi taka fram að allir stærstu kröfuhafar hans hafi veðtryggingu í eignum kæranda, annað hvort í formi samningsveða eða fjárnáma. Þannig hafi Sýslumaðurinn á Selfossi fjárnám í tiltekinni eign vegna þeirra skattskulda sem umboðsmaður skuldara gerir að umtalsefni. Bent sé á að í afgreiðslu umboðsmanns á umsókninni séu ekki gerðar neinar tilraunir til að meta raunverulegt verðmæti þessara eigna, komi til sölu þeirra á frjálsum markaði eða við nauðungarsölu og er þannig engin tilraun gerð til að leggja mat á það, hvort og þá að hve miklu leyti, skuldir kunni að vera umfram raunvirði eigna.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. hennar kemur fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Þar segi jafnframt að við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til þess hvort aðstæður þær sem tilgreindar séu í stafliðum ákvæðisins séu fyrir hendi.

Í d. lið 2. mgr. 6. gr. er lýst þeim aðstæðum þegar skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Í máli þessu liggi fyrir að töluverðar skattskuldir hvíli á kæranda en einnig á félögum sem kærandi sat í stjórn í. Megi þar helst nefna D ehf. þar sem kærandi hafi verið stjórnarmaður og prókúruhafi. Hluti skattskulda félagsins séu vangoldinn virðisaukaskattur og staðgreiðsla launagreiðanda. Beri kærandi stöðu sinnar vegna ábyrgð á greiðslu umræddra skatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 og gæti þurft að sæta refsiábyrgð skv. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, vegna vanskila á umræddum sköttum.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum nemi heildarskuldir D ehf. vegna opinberra gjalda 19.836.032 krónum og er heildarupphæð vegna vangreidds virðisaukaskatts og staðgreiðslu launagreiðanda 12.950.332 krónur þar af. Hluti þess byggi á áætlunum en kröfur vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu launagreiðanda sem byggi á skýrslum vegna áranna 2008 og 2009 nemi 8.652.473 krónum.

Kærandi sitji einnig í stjórnum fjölda annarra félaga og/eða sé tengdur þeim með öðrum hætti en nokkur þeirra skuldi opinber gjöld. Kærandi sé meðstjórnandi E ehf. en félagið skuldi 4.194.707 krónur í opinber gjöld, þar af vangoldinn virðisaukaskatt sem nemi 2.554.582 krónum en sú fjárhæð byggi að stærstum hluta á áætlunum. Þá sé kærandi stjórnarmaður í G ehf. en félagið skuldi 3.569.450 krónur í þing- og sveitasjóðgjöld en sú upphæð sé að hluta til byggð á áætlunum. Kærandi sé einnig stjórnarmaður í I ehf. en félagið skuldi 7.333.076 krónur í þing- og sveitasjóðsgjöld, að hluta byggt á áætlun. Hann sé einnig meðstjórnandi og í framkvæmdastjórn H ehf. en það skuldi 1.952.162 krónur í þing- og sveitasjóðsgjöld en stærsti hluti kröfunnar byggi á álagningu. Kærandi sé meðstjórnandi í F ehf. en það skuldi 1.052.716 kr. í opinber gjöld, þar af 894.404 krónur í virðisaukaskatt og byggi sú fjárhæð að mestu á álagningu frá árinu 2007.

Þá komi einnig fram í gögnum málsins að persónulegar skattskuldir kæranda nemi samtals 137.299.613 krónum. Þar af séu þing- og sveitasjóðsgjöld 129.954.350 krónur en vangoldinn virðisaukaskattur nemi 7.345.263 krónum og séu þær fjárhæðir byggðar á álagningu en ekki áætlunum.

Í g. lið 2. mgr. 6. gr. segir að við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun skuli taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Í greinargerð með frumvarpi til laganna segi um umrætt ákvæði, að heimildinni megi beita ef um sé að ræða aðila sem mjög hafi farið offari í skuldsetningu, sem og í þeim tilvikum þegar rót skulda sé af þeim toga að samfélagslega óásættanlegt að greiðsluaðlögun nái til skuldara. Sem dæmi um slíkt megi nefna skuldir vegna viðskipta í aðdraganda falls bankanna haustið 2008 og þá sérstaklega skattskuldir tengdar slíkum viðskiptum. Álagning skatta á slík viðskipti eða á niðurfellingar af stórtækri skuldsetningu á grundvelli kaupréttarsamninga sé dæmi um skuldsetningu sem ekki er þess eðlis að sanngjarnt sé að ákvæði greiðsluaðlögunar nái til hennar, enda sé álagningu sannanlega ætlað að afla samfélaginu sanngjarns endurgjalds fyrir þá aðstöðu sem skuldari naut.

Hjá því verði ekki litið að hin ógreiddu opinberu gjöld kæranda séu greiðslur í opinbera sjóði landsmanna sem ætlaðir séu til samneyslu og samtryggingar. Sú staðreynd, ásamt því að kærandi hafi bakað sér skuldbindingu með háttsemi sem varði refsingu með því að standa ekki persónulega skil á virðisaukaskatti, ásamt því að bera, stöðu sinnar vegna, ábyrgð á greiðslu umræddra skatta vegna ýmissa félaga sem hann tengist, eins og að framan sé rakið, hafi leitt til þess umboðsmaður skuldara mat það svo að óhæfilegt væri að fallast á umsókn hans um greiðsluaðlögun, sérstaklega með vísan til d. og g. liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara, dags. 10. febrúar 2012, kemur enn fremur fram að á stjórnarmönnum í einkahlutafélögum hvíli skylda til að hafa eftirlit með og tryggja skil á vörslusköttum fyrir hönd einkahlutafélaga, og á framkvæmdastjórum og aðilum í atvinnurekstri á eigin kennitölu hvíli sérstök skylda til þess að sjá til þess að vörslusköttum, sem innheimtir séu í starfsemi einkahlutafélags eða eigin atvinnurekstri, sé skilað í ríkissjóð. Umræddir aðilar séu þannig ábyrgir fyrir skilum á umræddum sköttum og brjóti þeir gegn skyldum sínum liggi við því refsing. Vörslusköttum beri að skila í lok lögákveðinna uppgjörstímabila, í samræmi við ákvæði laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987 og laga um tryggingagjald, nr. 113/1990.

Fjárhagsstaða viðkomandi einkahlutafélags eða atvinnurekstrar hafi almennt ekki áhrif á þessa skyldu eða refsiábyrgð sem henni tengjast og þannig verði ekki séð að það hafi sérstaka þýðingu hvort verið sé að hefja, eða eftir atvikum, rétta af rekstur, þegar vanskil verði. Um sé að ræða vörslufé en ekki lánsfé og slíku fé sé aðeins heimilt að ráðstafa í samræmi við þær reglur sem tilgreindar séu í viðkomandi lögum.

Þá verði ekki séð að greiðslusamkomulag við innheimtumenn ríkissjóð leiði til brottfalls refsiábyrgðar, enda þótt ekki sé útilokað að uppgjör skulda á vörslusköttum kunni í sumum tilvikum að hafa áhrif á umfang refsingar, s.s skv. 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.

Í f. lið 2. mgr. 6. gr. sé tekið fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana þar sem skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Í g. lið greinarinnar er þeim aðstæðum lýst að skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Telja verði að sú háttsemi að láta undir höfuð leggjast að standa skil á vörslusköttum til ríkissjóðs sé almennt ámælisverð, enda um lögbrot að ræða sem varði refsingu, svo sem áður sé rakið. Með sama hætti verði að telja þá háttsemi kæranda ámælisverða að láta undir höfuð leggjast að greiða fjármagnstekjuskatt sem honum bæri skylda til samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Telja verði ennfremur að kröfur á hendur kæranda vegna vanskila á þing- og sveitasjóðsgjöldum og vörslusköttum séu þess eðlis og tilurð þeirra með þeim hætti að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimilt til greiðsluaðlögunar nái til þeirra, sbr. f. og g. liði 2. mgr. 6. gr. Þykir þessi skilningur staðfestur í úrskurði kærunefndar  greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 13/2011. Rétt sé að árétta að þing- og sveitasjóðsgjöld séu samningskröfur í skilningi 3. gr. laganna. Þannig sé ljóst að ef heimild til greiðsluaðlögunar næði fram að ganga myndi greiðsluaðlögunarsamningur hafa bein áhrif á greiðsluskyldu kæranda á umræddum gjöldum. Í því samhengi þyki ennfremur rétt að horfa til þess að skuldir kæranda á þing- og sveitasjóðsgjöldum séu afar umfangsmiklar og vanskilin þannig veruleg og sérstaklega ámælisverð.

Í framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara kemur ennfremur fram að í dómi Hæstaréttar frá 20. janúar 2010, í máli nr. 721/2009, hafi niðurstaðan verið sú að skuldara var synjað um greiðsluaðlögun samkvæmt samhljóðandi ákvæði eldri laga, vegna virðisaukaskattskuldar að fjárhæð 1.780.437 krónur. Í úrskurði Hæstaréttar hafi farið fram heildarmat á aðstæðum skuldara þar sem umfang vörsluskattskuldarinnar var borið saman við fjárhag hans, þ.e. eignar- og skuldastöðu. Í niðurstöðu sinni vísar Hæstiréttur meðal annars til þess að skuldin nemi 8,3% af heildarskuldum skuldara en ekki verði séð að það atriði eitt og sér hafi ráðið úrslitum um niðurstöðu málsins. Hæstiréttur vísar þannig einnig til þess að vörsluskattskuldin, sem hafi numið 1.780.437 krónum, hafi ein og sér verið allhá auk þess sem samanburður á umfangi skuldarinnar við fjárhag skuldara að öðru leyti þótti leiða í ljós að fjárhagur hans væri ekki slíkur að skuldin gæti talist smávægileg með hliðsjón af honum.

Skuld kæranda í máli þessu sem til komin er vegna refsiverðrar háttsemi hans, með því að standa ekki skil á vörslusköttum vegna starfsemi hans á eigin kennitölu, nemur 7.345.263 krónur. Þykir fjárhæð þessarar skuldar vera töluvert há. Þá liggur fyrir  að skuld D ehf., að því leyti sem hún er til komin vegna vanskila á virðisaukaskatti sem lagður var á samkvæmt gögnum frá félaginu sjálfu nemi 6.609.184 krónum. Þá liggi fyrir að tekjur kæranda séu mjög lágar en skuldir hans nemi 1.930.800.505 krónum auk þess sem á honum hvíli ábyrgðarskuldbindingar sem nema 3.828.931.935 krónum. Verðmæti eigna samkvæmt gögnum málsins nemi 14.973.126 krónum. Þannig þyki fjárhagsstaða kæranda mjög alvarleg og því geti umrædd skuld ekki talist smávægilegt með hliðsjón af fjárhag hans.

Samkvæmt kæranda hafi hann nú fengið útgefið skuldabréf samkvæmt lögum nr. 24/2010 vegna persónulegrar skuldar hans á virðisaukaskatti. Ekki verði séð að slíkt skuldabréf hafi áhrif á niðurstöðu málsins enda breyti það því ekki að skuldin sé til komin vegna refsiverðrar háttsemi kæranda. Þá komi fram í umsókn kæranda að tekjur hans nemi 170.000 krónum á mánuði og samkvæmt staðgreiðsluskrá nema tekjur hans um 130.000 krónum á mánuði eftir frádrátt skatts. Þyki því óljóst hvernig kærandi hyggist standa skil á greiðslum samkvæmt umræddu skuldabréfi með tekjum sínum.

Umboðsmaður vísar síðan til ummæla í greinargerð til stuðnings þeirri skýringu að fara beri með skuldabréf samkvæmt lögum nr. 24/2010 með sama hætti og vörsluskattskuldir en þar segir:

Greiðsluaðlögun tekur skv. f-lið ekki til fésekta sem ákveðnar hafa verið með dómi eða af stjórnvaldi eða með sátt áður en umsókn um greiðsluaðlögun var tekin til greina, krafna um vangoldinn virðisaukaskatt, krafna um vangoldna staðgreiðslu og krafna um skaðabætur vegna tjóns sem samkvæmt dómi hefur verið valdið með refsiverðu athæfi. Því þarf að greiða þessar kröfur að fullu. Hvað viðkemur vanskilum virðisaukaskatts og staðgreiðslu er vert að árétta að skuldabréf sem eru gefin út til að gera upp slík vanskil falla þá ekki heldur undir greiðsluaðlögun. Er hér t.d. horft til laga nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri. Skuldabréf um greiðsluuppgjör samkvæmt lögunum eru gefin út á grundvelli lagaheimildar um ívilnandi uppgjör vegna vanskila. Sé um að ræða vanskil krafna sem ekki falla undir greiðsluaðlögun fellur slíkt skuldabréf því ekki undir greiðsluaðlögun einstaklinga.

Þá þyki rétt að árétta að af yfirliti Tollstjóra verði ráðið að kærandi hafi látið ógreidd þing- og sveitasjóðsgjöld að fjárhæð samtals 96.953.859 krónur á árunum 2008, 2009 og 2011. Heildarskuld kæranda vegna umræddra gjalda nemi nú 130.259.226 krónum samkvæmt yfirliti Tollstjóra. Þannig hafi kærandi aukið skattskuldir sínar um 33.305.357 krónur með þeirri háttsemi sinni að greiða ekki þing- og sveitasjóðsgjöld. Sú háttsemi að láta undir höfuð leggjast að standa skil á opinberum gjöldum til ríkissjóðs verði að teljast almennt ámælisverð. Þá verði að telja að kröfur vegna vanskila á þing- og sveitasjóðsgjöldum og vörslusköttum séu þess eðlis og tilurð þeirra með þeim hætti að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra, sbr. f. og g. liði 2. mgr. 6. gr. lge. Þá séu skattskuldir kæranda mjög háar og hafi skuldasöfnun hans að öðru leyti á undanförnum árum verið gríðarlega umfangsmikil.

Í ljósi alls framangreinds fari umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

IV.

Niðurstaða

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að synjun hans byggir á d., f. og g. liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið er fjallað um þau tilvik þar sem skuldari hefur bakað sér skuldbindingar sem einhverju nema með refsiverðri eða skaðabótaskyldri háttsemi. Eins og ákvæði þessu hefur verið beitt í framkvæmd, bæði af dómstólum og kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, byggir mat á því hvort að skuldir þær sem um ræðir teljist falla undir ákvæðið, á því að þær séu smávægilegar með hliðsjón af fjárhag skuldara, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 721/2009.

Í máli þessu liggur fyrir að skuldir kæranda eru verulegar, en í gögnum málsins eru hins vegar takmarkaðar upplýsingar um eignir kæranda. Af skattframtölum kæranda verður ráðið að umtalsverðar eignir hafi legið að baki hinum miklu skuldbindingum kæranda, ekki síst í ljósi þess hve miklar fjármagnstekjur kærandi hefur haft á undanförnum árum. Í gögnunum er þó ekki að finna nægjanlegar upplýsingar um hverjar þessar eignir hafa verið og hver hafi orðið afdrif þeirra.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er fullyrt að eignir kæranda nemi 14.973.126 króna. Í athugasemdum kæranda við framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að kærandi eigi enn talsvert af hlutabréfum og verðbréfum sem ekki séu orðin verðlaus. Í skattframtali 2011 er meðal annars að sjá að hlutabréf og stofnfjárbréf kæranda metin á 106.018.057 krónur en þessar eignir koma hvergi fram í gögnum umboðsmanns skuldara. Kærunefndin telur því að upplýsingar um heildareignir kæranda og verðmæti þeirra séu ófullnægjandi í máli þessu.

Þar sem ekki er ljóst hvert verðmæti eignasafns kæranda er, er ómögulegt að leggja mat á það hvort umrædd skattaskuld kæranda teljist einhverju nema með tilliti til fjárhags hans.

Þá verður ekki séð að vísan til f. og g. liða 2. mgr. 6. gr. sé tæk á meðan ekki er ljóst að hve miklu leyti eignir kæranda geti staðið undir skuldum hans. Ekki verður séð að umboðsmaður hafi getað á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga tekið afstöðu til þess hvort til greina kæmi að synja umsókn kæranda um greiðsluaðlögun á grundvelli 2. mgr. 6. gr. enda er samspil skulda, tekna og eigna lykilatriði varðandi mat á umsókn um greiðsluaðlögun. Þá verður ekki séð hvort eða hvernig umboðsmaður hefur lagt mat á það hvaða áhrif það hefur á niðurstöðuna hversu mikill hluti skulda kæranda stafar frá atvinnurekstri.

Í 4. gr. lge. er að finna upptalningu á þeim atriðum sem koma skulu fram í umsókn um greiðsluaðlögun. Í 2. tl. segir að þar skuli greina sundurliðaðar upplýsingar um eignir skuldara. Í máli þessu er ekki að sjá að kærandi hafi skilað inn slíku yfirliti en þó má sjá af skattframtölum að eignir kæranda eru talsvert umfangsmeiri en þær sem tilgreindar eru í ákvörðun umboðsmanns. Í ljósi þess að skuldari á rétt á því samkvæmt 4. mgr. 2. gr. lge. að fá aðstoð umboðsmanns við að útbúa umsókn og í ljósi rannsóknarskyldu umboðsmanns bæði samkvæmt stjórnsýslulögum og sem ítrekuð er í 5. gr. lge. er vandséð að umboðsmanni hafi verið stætt á að hefja vinnslu umsóknar kæranda og taka ákvörðun í máli hans að svo stöddu.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að málið teljist ekki nægjanlega upplýst til þess að hægt sé að leggja mat á það efnislega og er hin kærða ákvörðun því felld út gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum