Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 56/2011

Mánudaginn 30. apríl 2012

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Þórhildur Líndal

Þann 21. september 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 6. september 2011, þar sem umsókn hennar um heimild til greiðsluaðlögun einstaklinga er hafnað.

Með bréfi, dags. 26. september 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 14. október 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 24. október 2011 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Þann 11. nóvember var kæranda veittur frestur til að koma að athugasemdum og bárust þær með tölvupósti þann 22. nóvember 2011.

 

I.

Málsatvik

Kærandi er 55 ára gömul og býr í leiguhúsnæði að B götu nr. 6. Hún er lögfræðingur að mennt og starfar hjá C ehf. Útborguð laun kæranda eru að meðaltali 387.143 krónur á mánuði.

Kærandi skildi við fyrrverandi eiginmann sinn árið 2006 og festi þá kaup á fasteigninni að D götu, þar sem hún er með skráð lögheimili. Síðar keypti hún eignina að B götu nr. 6 og réðst í framkvæmdir á henni og réð til þess verktaka. Ágreiningur reis um greiðslur fyrir verkið og var kærandi dæmd, með dómi Hæstaréttar í máli nr. X, til þess að greiða verktakanum eftirstöðvar útgefinna reikninga, samtals að fjárhæð 31.860.042 krónur, auk málskostnaðar, allt að frádregnum tveimur innborgunum, samtals að fjárhæð 16.000.000 króna. Aðfararbeiðni liggur fyrir vegna kröfunnar, en hún stendur nú 30.880.716 krónum.

Kærandi átti, ásamt syni sínum, félagið E ehf. sem var í fjárfestingum. Árið 2007 gaf kærandi út tryggingabréf til tryggingar á láni E ehf. hjá Landsbankanum með veði í fasteigninni að B götu Árið 2010 krafðist Landsbankinn þess að kærandi greiddi tryggingabréfið með því að gefa út viðbótarlán á íbúðina en kærandi kaus frekar að láta bankann leysa til sín eignina. Helstu viðskipti E ehf. snéru að viðskiptum með hlutabréf í SPRON og voru þau helsta eign félagsins. Félagið keypti hlutabréf í SPRON árin 2006 og 2007, þegar félagið var óskráð í kauphöll, og voru kaupin fjármögnuð með lánsfé. Ágreiningur reis vegna kaupa félagsins á stofnfjárbréfum í SPRON árið 2007 sem leiddi til þess að gagnaðili knúði félagið í þrot.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að eignir kæranda nú séu annars vegar fasteign hennar að D götu, en fasteignamat hennar er 23.000.000 króna og hinsvegar bifreið sem metin er á 4.513.320 krónur.

Heildarskuldir kæranda eru samkvæmt gögnum málsins 80.203.528 krónur en að auki eru ábyrgðarskuldbindingar sem fallnar eru á hana sem nema 175.651.016 krónum. Ábyrgðarskuldbindingarnar eru allar vegna reksturs kæranda á eigin félögum og eru þær um 68,65% af heildarskuldum hennar.

Heildarskuldir kæranda eru samkvæmt gögnum málsins 80.203.528 krónur og skiptast þannig: Í fyrsta lagi er fyrir hendi lán hjá Landsbankanum sem tekið var í júní 2006, upphaflega að fjárhæð 22.600.000 krónum en eftirstöðvar þess nú nema 32.572.428 krónum, í öðru lagi skuldabréf með sjálfskuldarábyrgð frá nóvember 2008, upphaflega að fjárhæð 14.000.000 króna en stendur nú í 16.750.384 krónum og í þriðja lagi er krafa Y, í kjölfars dóms Hæstaréttar í máli nr. X, að fjárhæð 30.880.716 krónur. Þá eru ótaldar gjaldfallnar ábyrgðarskuldbindingar sem kærandi hefur tekist á hendur að fjárhæð 175.651.016 krónur.

Heildarfjárhæð ábyrgðarskuldbindinga þeirra sem kærandi hefur undigengist nema 294.764.636 krónum. Skuldir þessar eru samkvæmt yfirliti umboðsmanns: Í fyrsta lagi ábyrgð á láni hjá Landsbankanum vegna E ehf. að fjárhæð 117.076.701 króna. Í öðru lagi ábyrgð á láni hjá Landsbankanum, upphaflega að fjárhæð 8.000.000 króna en stendur nú í 6.376.338 krónum. Aðalskuldari þess er C ehf. Í þriðja lagi er kærandi í ábyrgð vegna láns, upphaflega að fjárhæð 61.523.859 krónur, en stendur nú í 52.197.977 krónum. Allar þessar kröfur eru gjaldfallnar og er samanlögð fjárhæð þeirra 175.651.016 krónur. Af gögnum málsins má jafnframt sjá að kærandi hefur gengist í eftirfarandi ábyrgðir án þess að reynt hafi á þær, hvort sem þær hafa verið greiddar upp eða eru enn í skilum: Þar ber helst að nefna að kærandi var í ábyrgð fyrir láni E ehf. hjá Landsbankanum að fjárhæð 100.000.000 króna en það lán virðist ekki lengur vera til, en engin skýring er í gögnum málsins á afdrifum þess. Þá er kærandi í ábyrgð vegna námslána sonar hennar en það lán er í skilum. Þá var kærandi í ábyrgð fyrir láni hjá Arion banka að fjárhæð 6.000.000 krónum en aðalskuldari þess var C ehf. Lánið var greitt upp 30. desember 2010. Ábyrgðarskuldbindingarnar eru allar vegna reksturs kæranda á eigin félögum og eru þær sem eru gjaldfallnar nú um 68,65% af heildarskuldum hennar.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun þann 10. desember 2010 og var umsókn hennar synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara þann 6. september 2011 með vísan til þess að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhag hennar á þeim tíma sem til skuldbindinganna var stofnað og að hún hafi gert ráðstafanir sem riftanlegar væru við gjaldþrotaskipti, sbr. c. og e. liði 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge).

 

II.

Sjónarmið kæranda

Kærandi rekur fjárhagsvandræði sín til þess er hún skildi í maí 2006 og festi með eigin fé kaup á íbúð að D götu nr. 89 í sveitarfélaginu F til að búa í til bráðabirgða. Skömmu seinna hafi hún keypt aðra íbúð að B götu nr. 6 og ráðist í gagngerar endurbætur og stækkun á þeirri íbúð. Íbúðakaupin og breytingarnar hafi verið fjármagnaðar að hluta til með eigin fé og að hluta með veðlánum. Sonur kæranda hafi keypt íbúð í sama húsi og haustið 2006 hafi verið leitað til verktaka til að annast framkvæmdir á íbúðunum. Engar áætlanir verktakans um kostnað hafi staðist og var svo komið að í ágúst 2007 hafi kærandi þurft að segja upp þjónustu verktakans og leita til nýs aðila til að ljúka verkinu. Til að klára framkvæmdir hafi kærandi tekið yfirdráttarlán sem síðar var breytt í kúlulán og er meðal tilgreindra skulda kæranda.

Kærandi hafi flutt úr íbúðinni að D götu í B götu í lok árs 2007. Þá hafi horfur á fasteignamarkaði verið orðnar óöruggar. Kærandi mat það þannig að betra væri að leigja íbúðina en að selja hana. Íbúðin á D götu hafi verið í útleigu til ársbyrjunar 2011 en leigjandinn fór óvænt úr íbúðinni í febrúar 2011. Íbúðin sé nú yfirveðsett og þeir fjármunir sem kærandi lagði í hana brunnir upp.

Í ársbyrjun 2008 hóf verktakinn, sem umsækjandi lenti í ágreiningi við vegna framkvæmda við íbúðirnar í B götu, innheimtuaðgerðir vegna ætlaðrar skuldar kæranda. Í kjölfarið höfðaði hann innheimtumál á hendur kæranda sem lauk með því að hún var dæmd í Hæstarétti til að greiða honum kröfu hans að fullu.

Kærandi átti ásamt syni sínum einkahlutafélag sem var í fjárfestingum. Þegar best lét var verðmæti fjárfestinganna umtalsvert umfram skuldir. Vorið 2007 krafði Landsbankinn kæranda um frekari tryggingar fyrir fjárfestingum og veitti kærandi þær með tryggingabréfi. Kærandi og sonur hennar lentu svo í ágreiningi vegna kaupa einkahlutafélagsins á stofnfjárbréfum í SPRON sumarið 2007. Sá ágreiningur leiddi til þess að gagnaðilinn knúði einkahlutafélagið í þrot. Við bankahrunið hafi verðmæti fjárfestinganna horfið alveg. Landsbankinn gerði þá kröfu árið 2010 að kærandi greiddi tryggingabréfið en hún valdi frekar að láta bankann leysa til sín eignina að B götu nr. 6 og afsalaði hún íbúðinni til Landsbankans í október 2010.

Eftir að dómur féll í Hæstarétti í nóvember 2010 var krafist fjárnáms hjá kæranda fyrir dómsskuldinni og lagði hún þá inn umsókn um greiðsluaðlögun.

Í kæru kemur fram að kærandi telur rökstuðning umboðsmanns skuldara ekki standast skoðun, en hann sé annars vegar byggður á að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til skuldbindinga hafi verið stofnað og hins vegar að hún hafi gripið til riftanlegra ráðstafana. Kærandi krefst þess að niðurstöðu umboðsmanns verði hnekkt og að fallist verði á umsókn kæranda um greiðsluaðlögun.

Hvað fjárhagsstöðu kæranda varðar vill hún koma því á framfæri að í gögnum þeim sem kærandi hafi sent umboðsmanni sé ítarlega rakið af hverju stofnað var til þessara skuldbindinga og vísar hún til þeirra skýringa. Þá sé undirstrikað að á árinu 2007 hafi fjárhagur E ehf. verið með þeim hætti að ábyrgðarskuldbindingar fyrir félagið hafi verið áhættulitlar og hafi verið það miðað við fjárhag félagsins á þeim tíma. Í gögnum málsins sé rakið hvernig kom til skuldbindingarinnar sem kærandi undirgekkst  árið 2008 og rakið að kærandi telji að forsendubrestur hafi orðið á þeirri skuldbindingu auk þess sem fyrir liggi að í árslok 2008 hafi skiptastjóri E ehf. talið að eignir búsins dygðu fyrir kröfunni sem kærandi var í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Það sé að mati kæranda á ábyrgð SPRON og/eða skiptastjóra að svo hafi farið um eignir E sem raun beri vitni og sú þróun geti ekki að mati kæranda orðið til þess að SPRON geti gengið að kæranda vegna þeirrar skuldbindingar.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara sé því haldið fram að kærandi hafi greitt upp lán í desember 2010 sem þar sé tilgreint og að um riftanlega ráðstöfun sé að ræða af hálfu kæranda. Hér sé um alvarlegan misskilning umboðsmanns að ræða. Í gögnum málsins sé nákvæmlega rakið að kærandi hafi afhent Landsbanka Íslands íbúð sína að B götu nr. 6 í október 2010. Með afhendingunni yfirtók Landsbankinn (Hömlur, dótturfélag Landsbankans) áhvílandi fasteignalán á íbúð kæranda og eignaðist þá eignarhlut kæranda sem í íbúðinni var, í kringum 13 milljónir króna. Svo virðist sem Hömlur hafi greitt upp þetta lán í lok desember 2010 og fylgir staðfesting á því kærunni. Umboðsmaður skuldara segi því ranglega í ákvörðun sinni að kærandi hafi greitt upp þetta lán. Því hafi kærandi ekki framkvæmt riftanlega ráðstöfun í bága við ákvæði lge.

Í ákvörðun umboðsmanns kemur ennfremur fram að bifreiðin G var færð af nafni kæranda yfir á nafn C ehf. í desember 2010. Þó bifreiðin hafi verið á nafni kæranda átti hún hana ekki í raun, heldur hafi hún verið skráð á nafn kæranda af skattalegum ástæðum. Allt þetta hafi verið rakið í greindagerð kæranda til umboðsmanns skuldara. Það hafi verið vangá af hálfu kæranda að geta þess ekki í umsókn um greiðsluaðlögun að þó að bifreiðin væri á nafni kæranda þá ætti kærandi hana ekki í raun. Kærandi hafi boðið umboðsmanni gögn því til sönnunar að frá kæranda hafi aldrei runnið neinir fjármunir, hvorki til kaupa bifreiðarinnar, afborgana á áhvílandi láni né til reksturs hennar. Kærandi telur því að niðurstaða umboðsmanns um að hún hafi staðið í riftanlegum ráðstöfunum sé röng.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 6. september 2011 kemur fram að við mat á umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir hendi séu þær ástæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Í c.-lið 2. mgr. 6. gr. laganna kemur fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað. Í mars 2007 hafi kærandi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttarheimildar E ehf. sem nam 100.000.000 króna. Þann 12. júní 2007 hafi kærandi jafnframt gengist í sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 28.000.000 króna fyrir greiðslu E ehf. af 69.000.000 króna láni félagsins hjá Landsbankanum. Að auki hafi hún veitt lánsveð í fasteign sinni að B götu nr. 6 með útgáfu tryggingarbréfs að fjárhæð 40.000.000 króna. Landsbankinn hafi nú leyst til sín fasteignina en eftirstöðvar skulda vegna þessa séu 117.520.853 krónur.

Í ákvörðun umboðsmanns kemur fram að 20. maí 2008 hafi kærandi gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuld E ehf. við SPRON sem félagið stofnaði til á árinu 2006, upphaflega að fjárhæð 50.000.000 króna en lánið hafði verið í vanskilum frá 1. maí 2008. Er skuldin hafi verið gjaldfelld nam fjárhæð höfuðstólsins 37.773.537 krónum en skuld kæranda vegna þessarar skuldbindingar sé nú 61.523.859 krónur og eru 52.197.977 krónur gjaldfallnar.

Þá telur umboðsmaður skuldara að viðskipti E ehf., sem var aðalskuldari að flestum ábyrgðarskuldbindingum kæranda, með stofnfjárbréf og síðar hlutabréf í SPRON hafi verið áhættusöm enda bankinn ekki skráður í Kauphöll á þeim tíma sem bréfin voru keypt. Þá hafi það aukið áhættuna enn frekar að um skuldsetta fjárfestingu hafi verið að ræða.

Samkvæmt skattframtölum var fjárhagsstaða kæranda á þeim árum sem hún stofnaði til framagreindra skuldbindinga þannig að árið 2007 hafi launatekjur kæranda verið 389.809 krónur að meðaltali á mánuði að frádregnum sköttum, en fjármagnstekjur verið 99.648 krónur að frádregnum fjármagnstekjuskatti. Þá hafi kærandi haft 22.953 krónur í skattfrjálsar tekjur. Árið 2008 hafi mánaðarlegar tekjur kæranda verið, að frádreginni staðgreiðslu, 364.817 krónur að meðaltali, fjármagnstekjur 121.575 krónur að frádregnum fjármagnstekjuskatti auk þess sem hún hafi haft skattfrjálsar tekjur að fjárhæð 34.003 krónur. Sama ár hafi kærandi fengið greiddan arð frá C ehf. að fjárhæð 25.000.000 króna en að sögn kæranda hafi hún ráðstafað fjárhæðinni til fyrrverandi eiginmanns síns sem var áður 50% eigandi að félaginu og hafi ráðstöfunin verið hluti af fjárhagslegu uppgjöri vegna skilnaðar þeirra.

Eignir kæranda hafi  samkvæmt skattframtölum árið 2007 verið fasteignin að B götu nr. 6, að verðmæti 18.560.000 krónur, fasteignin að D götu, að verðmæti 23.110.000 krónur og bifreið sem metin var á 5.572.000 krónur. Kærandi hafi átt innistæðu í SPRON að fjárhæð 5.940 krónur auk hlutabréfa í Exista, að nafnvirði 12.370 krónur en 244.308 krónur að markaðsvirði og hlut í SPRON að nafnvirði 6.620 krónur en 60.441 króna að markaðsvirði. Nafnvirði eignarhlutar hennar í C ehf. hafi verið 7.758.220 krónur og E ehf. 250.000 krónur.

Árið 2008 hafi eignir kæranda verið fasteignin að B götu nr. 6, að verðmæti 18.560.000 krónur, fasteignin að D götu, að verðmæti 23.110.000 krónur og bifreið sem metin var á 5.014.800 krónur. Kærandi hafi átt innistæður í bönkum og sparisjóðum að fjárhæð 1.313.058 krónur. Auk þess hafi hún átt hún hlutabréf í Exista, að nafnvirði 12.370 krónur, en 123.700 krónur að markaðsvirði í maí það ár og hlut í SPRON að nafnvirði 6.620 krónur, en 43.957 krónur að markaðsvirði miðað við gengi í maí það ár. Hvorugt félaganna hafi verið á markaði í lok árs. Nafnvirði eignarhlutar hennar í C ehf. var 7.758.220 krónur og E ehf. 250.000 krónur.

Kærandi tilgreindi á skattframtölum kröfu á hendur E ehf. að fjárhæð 79.202.848 krónur en að sögn kæranda hafi sú krafa stofnast með þeim hætti að kærandi hafi leyst bréf sín í SPRON til félagsins við stofnun þess. Krafan hafi tapast að mestu við gjaldþrot félagsins en að sögn kæranda hafi hún fengið 600.000 krónur upp í hana við skiptin. Kærandi segist hafa selt C ehf. árið 2009 á genginu 0 eftir að dregist hafi verulega saman í starfsemi þess.

Með vísan til framangreinds var það niðurstaða umboðsmanns skuldara að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til skuldbindinganna var stofnað sérstaklega með vísan til þess að E ehf., sem kærandi hafi gengist í hvað mestar ábyrgðir fyrir, hafi stundað áhættusamar fjárfestingar og að hún hafi gengist í ábyrgð fyrir félagið í maí 2008, þegar félagið var gjaldþrota.

Þá telur umboðsmaður að kærandi hafi gripið til ráðstafana sem riftanlegar væru við gjaldþrot, eins og lýst sé í e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Vísar umboðsmaður þá til þess að hann hafi móttekið umsókn kæranda um greiðsluaðlögun þann 10. desember 2010. Þar hafi hún tilgreint bifreiðina G sem eign sína. Í janúar 2011 ráðstafaði kærandi bifreiðinni til C ehf. gegn yfirtöku áhvílandi láns og lækkun á skuld kæranda við C ehf. Af gögnum frá Arion banka verði jafnframt ráðið að kærandi hafi greitt upp lán sitt nr.X hjá bankanum þann 30 desember 2010 en fjárhæð greiðslunnar hafi numið 117.462 krónum.

Um riftun ráðstafana þrotamanns sé fjallað í XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 (gþl.). Í 1. mgr. 139. gr. laganna segi að krefjast megi riftunar á greiðslu skuldar sem greidd var eftir frestdag nema ákvæði XVII. kafla hefðu leitt til þess að skuldin hefði greiðst við gjaldþrotaskipti, nauðsynlegt hafi verið að greiða til þess að komast hjá tjóni eða sá sem greiðslu naut hafi hvorki vitað né mátt vita að komið hafi fram beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti.

Í 2. mgr. 2. gr. gþl. er fjallað um frestdag en það sé sá dagur sem héraðsdómara berst beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti, svo og dánardagur manns ef farið er með dánarbú hans eftir reglum laganna. Samkvæmt því þyki umboðsmanni skuldara rétt að líta svo á að við beitingu e- liðar 2. mgr. 6. gr. lge. beri að jafna móttökudegi umsóknar um greiðsluaðlögun einstaklinga samkvæmt lögum nr. 101/2010 við frestdag í skilningi gjaldþrotaskiptalaga. Samkvæmt því verði að telja að umrædd ráðstöfun kæranda á bifreið sinni og uppgreiðsla hennar á fyrrnefndu láni hjá Arion banka séu riftanlegar ráðstafanir í skilningi e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem greitt hafi verið af skuldum eftir móttöku umsóknar enda verði ekki séð að undatekningar laganna eigi við. Þá beri að líta til þess að í 12. gr. lge. séu lagðar ákveðnar skyldur á umsækjanda um greiðsluaðlögun, en í c-lið greinarinnar komi fram að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir sem gagnast geti lánadrottnum sem greiðsla.

Telja verði að með greiðslu lánsins hjá Arion banka og með ráðstöfun bifreiðarinnar til C ehf. hafi kærandi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögunum en slíkar ráðstafanir séu með öllu óheimilar á meðan á greiðsluaðlögunarferlinu stendur nema sérstaklega standi á og þá með heimild umboðsmanns skuldara.

Í ljósi alls framangreinds var það niðurstaða umboðsmanns skuldara að synja bæri kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst kærunefndinni með bréfi dags. 14. október 2011, ítrekar umboðsmaður skuldara ástæður þær sem fram komu í ákvörðun embættisins og taldi að ekkert hefði fram komið sem breytti forsendum þeim sem ákvörðunin byggðist á.

 

IV.

Niðurstaða

Í máli þessu reynir annars vegar á hvort að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til skuldbindinganna var stofnað og hins vegar hvort hún hafi gripið til ráðstafana sem riftanlegar hefðu verið við gjaldþrotaskipti í þeim mæli að það leiði til þess að óhæfilegt sé að fallast á umsókn hennar um greiðsluaðlögun einstaklinga í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge.

Í ákvörðun umboðsmanns er ítarlega rökstutt með hvaða hætti hann telur að kærandi hafi tekið áhættu, einkum á árunum 2007 og 2008, sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til skuldbindinganna var stofnað. Er þar og fremst um að ræða sjálfskuldarábyrgðir og veðsetningu fasteigna fyrir lánum E ehf. upphaflega samtals að fjárhæð 118.000.000 krónur en skuldir vegna þessara ráðstafana nema nú 169.227.078 krónum. Þá er ótalin ábyrgð á láni C ehf., frá árinu 2006 að fjárhæð 8.000.000 króna. Kærunefndin tekur undir það sjónarmið umboðsmanns að með því að gangast undir svo stórfelldar ábyrgðarskuldbindingar sem raun ber vitni hafi kærandi tekið áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma er hún gekkst undir þær. Er þá annars vegar að líta til þeirrar áhættu sem starfsemi E ehf. fól í sér, en félagið fjárfesti aðallega í skráðum stofnfjárbréfum sparisjóðs og fjármagnaði kaupin með lántökum, og hins vegar til þess að hvorki tekjur né eignastaða kæranda veitti teljandi svigrúm til að mæta áföllum vegna áhættunnar ef á reyndi.

Þá er þess enn fremur að gæta að tæplega 70% af af skuldbindingum kæranda stafa frá skuldum vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a gþl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Hins vegar bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.

Um ráðstafanir þær sem kærandi á að hafa gripið til, verður ekki fullyrt gegn mótmælum kæranda að hún hafi sjálf greitt upp umrætt lán hjá Arion banka en umboðsmaður hefur ekki mótmælt því að atburðir hafi verið á þann veg sem kærandi greinir í kæru sinni. Þá er til þess að líta að fjárhæð lánsins var ekki nema 117.462 krónur, sem er óveruleg fjárhæð miðað við heildarskuldir kæranda. Bifreiðinni var ráðstafað gegn yfirtöku á áhvílandi bílaláni að fjárhæð 4.031.318 krónur en samkvæmt yfirliti umboðsmanns er andvirði bifreiðarinnar metið á 4.513.320 krónur. Verður því ekki séð að kærandi hafi ráðstafað eigum í þeim mæli að e-liður 2. mgr. 6. gr. komi til skoðunar þó að fallast megi á með umboðsmanni að henni hafi ekki verið heimilt að ráðstafa bifreiðinni án samþykkis umboðsmanns skuldara, sbr. 12. gr. lge.

 

Með vísan til ofangreinds rökstuðnings er ákvörðun umboðsmanns staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Þórhildur Líndal

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum