Hoppa yfir valmynd
12. mars 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 51/2011

Mánudaginn 12. mars 2012

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 2. september 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 1. september 2011, þar sem heimild hennar til greiðsluaðlögunar er felld niður.

Með bréfi, dags. 9. september 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 5. október 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 7. október 2011, og tölvupósti, dags. 11. október 2011, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I.

Málsatvik

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun einstaklinga í kjölfar atvinnuleysis og tekjulækkunar og var umsókn hennar samþykkt með ákvörðun umboðsmanns, dags. 14. febrúar 2011, og var henni skipaður umsjónarmaður.

Þann 26. júlí 2011 sendi umsjónarmaður kæranda bréf þar sem fram kemur að uppi séu aðstæður sem hindri það að greiðsluaðlögun sé heimil, sbr. 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.). Í bréfinu kemur fram að kærandi hafi flust til Bretlands til þess að freista þess að fá þar vinnu og uppfylli hún því líklega ekki lengur skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. Kröfuhafar hafi neitað að samþykkja frumvarp um samning til greiðsluaðlögunar þar sem kærandi uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í kjölfarið var kæranda sent bréf, dags. 9. ágúst 2011, þar sem henni var gefið færi á að koma að athugasemdum sínum vegna framangreinds bréfs umsjónarmanns hennar.

Var heimild kæranda til greiðsluaðlögunar í kjölfarið felld niður með ákvörðun umboðsmanns, dags. 1. september 2011.

 

II.

Sjónarmið kæranda

Kærandi rekur í kæru sinni að hún hafi flutt til Bretlands í október 2010 eftir að hafa verið atvinnulaus heima í eitt ár. Henni hafi ekki enn tekist að fá starf úti en hún sæki um öll störf sem hugsanlega henta henni. Hún sé komin með unnusta sem sé í góðu starfi og leigja þau saman tvö herbergi í húsi. Hún fái borgaða leiguna frá félagsþjónustunni ytra og atvinnuleysisbætur, alls um 100.000 krónur á mánuði. Þar af borgi hún 50.000 krónur í leigu og geti því nú þegar greitt eitthvað inn á skuldir sínar. Ef hún neyðist til að koma heim hafi hún engar tekjur, ekkert húsnæði og sjái ekki fram á að geta greitt neitt af skuldum sínum. Langtímamöguleikar hennar séu miklu betri í Bretlandi en hér heima en hún neyðist til að lýsa sig gjaldþrota ef hún þarf að koma heim.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í greinargerð umboðsmanns kemur fram að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri umboðsmanni að líta til aðstæðna sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Umboðsmaður hafi ekki talið að aðstæður hafi verið með þeim hætti að þær kæmu í veg fyrir að kæranda yrði veitt heimild til greiðsluaðlögunar og var umsókn hennar því samþykkt 14. febrúar 2011.

Þann 26. júlí sl. tilkynnti umsjónarmaður kæranda umboðsmanni skuldara að hann teldi kæranda ekki uppfylla skilyrði um heimild til að leita greiðsluaðlögunar þar sem hún hefði flust til Bretlands haustið 2010 í leit að atvinnu og uppfyllti hún því hvorki skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. né skilyrði undanþáguákvæðis a-liðar 4. mgr. 2. gr. lge. Tilkynnti umsjónarmaður að hann hefði ekki fengið nein haldbær gögn sem styddu frásögn kæranda um tímabundna búsetu hennar erlendis. Var heimild hennar því felld niður með vísan til þess auk þess sem umboðsmaður taldi skilyrði b-liðar 1. mgr. 5. gr. lge. ekki vera fyrir hendi enda væri kærandi enn atvinnulaus og því óljóst hver raunveruleg greiðslugeta hennar væri.

Þau skilyrði sem tilgreind séu í 4. mgr. 2. gr. og b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. verða að vera fyrir hendi svo heimilt sé að samþykkja umsókn um greiðsluaðlögun. Þau töldust vera fyrir hendi þegar umsókn kæranda var samþykkt en nýjar upplýsingar hafi síðar legið fyrir.

Þegar ákvörðun var tekin um niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar var ljóst að skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. var ekki uppfyllt þar sem kærandi var ekki búsett hér á landi og átti ekki skráð lögheimili á landinu. Telja verði að kærandi falli ekki undir undanþágu a-liðar 4. mgr. 2. gr. laganna þar eð hún hafi ekki sýnt fram á að um tímabundna búsetu sé að ræða þrátt fyrir að hafa verið gefinn kostur á því.

Þar sem kærandi hafi ekki sýnt fram á tímabundna búsetu erlendis vegna náms, starfa eða veikinda, gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægjanlega glögga mynd af væntanlegri þróun fjárhags hennar á tímabili greiðsluaðlögunar og telst því skilyrði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. ekki vera uppfyllt.

 

IV.

Niðurstaða

Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. lge. geta þeir einir leitað greiðsluaðlögunar sem eiga lögheimili og séu búsettir hér á landi. Í sömu grein segir að heimilt sé að víkja frá þessu skilyrði ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er íslenskur ríkisborgari sem sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda að uppfylltum öðrum skilyrðum greinarinnar. Af ákvæðinu er ljóst að ekki er heimilt að víkja frá skilyrðinu um búsetu hér á landi í öðrum tilvikum en þar eru upp talin.

Nefndin fjallaði allítarlega um framangreind búsetuskilyrði og hvað teldist vera tímabundin búseta í skilningi undanþáguheimildar a-liðar 4. mgr. 2. gr. laganna í úrskurði sínum í máli nr. 14/2011 sem kveðinn var upp 24. nóvember 2011.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi er búsett í Bretlandi og með skráð lögheimili þar í landi samkvæmt þjóðskrá. Kærandi hefur ekki borið því við að búsetu hennar erlendis sé markaður ákveðinn tími eða gert með öðrum hætti líklegt að búseta hennar gæti talist vera tímabundin í skilningi laganna.

Með vísan til þess er framan greinir er staðfest ákvörðun umboðsmanns um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A til greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum