Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 23/2011

Fimmtudaginn 26. janúar 2012

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 24. maí 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 10. maí 2011, þar sem umsókn hans um greiðsluaðlögun einstaklinga var hafnað.

Með bréfi, dags. 20. júní 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 7. júlí 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 12. júlí 2011, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust 25. júlí 2011.

 

I.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi 38 ára gamall og býr einn í íbúð sem hann átti en hún var seld nauðungarsölu 2. september 2010. Núverandi eigandi íbúðarinnar er Íbúðalánasjóður. Kærandi er hárgreiðslumeistari og rekur eigin hárgreiðslustofu. Hann er ógiftur og á eina fjögurra ára dóttur.

Að sögn kæranda er fjárhagserfiðleika hans að rekja til hækkunar á afborgunum lána, sambúðarslita og tekjulækkunar. Kærandi hafi verið í sambúð þegar hann keypti fasteign árið 2007 og seldi fasteign sem hann átti fyrir. Hann hafi verið skráður fyrir öllum lánum vegna kaupanna. Um áramótin 2009–2010 var sambúðinni slitið og hann hafi setið uppi með allar afborganir af fasteigninni og aðrar skuldbindingar. Íbúðin hafi verið seld nauðungarsölu 2. september 2010. Kærandi hafi fest kaup á bifreið árið 2006 en kaupin hafi verið fjármögnuð með gengistryggðu láni. Henni hafi nú verið skilað en eftirstöðvar lánsins séu rúmlega 2.000.000 króna. Kærandi rekur hárgreiðslustofu í einkahlutafélagi og sé í persónulegum ábyrgðum vegna rekstursins að fjárhæð 9.783.000 krónur.

Samkvæmt gögnum málsins nema heildarskuldir kæranda 17.079.720 krónum. Skuldir sem falla innan samnings um greiðsluaðlögun nema 13.952.163 krónum. Skuldir sem falla utan samnings eru þing- og sveitarsjóðsgjöld 27.170 krónur, staðgreiðsla vegna reiknaðra launa að fjárhæð 334.357 krónur og virðisaukaskattur að fjárhæð 2.766.030 krónur. Virðisaukaskatturinn er byggður á áætlun fyrir þrjú tímabil á árinu 2010 frá 1. júlí til áramóta það ár.

Samningsskuldbindingar kæranda eru samkvæmt gögnum málsins eftirfarandi: Tvö lán hjá Arion banka, það eldra frá 2006, upphaflega að fjárhæð 560.000 krónur en stendur nú í 789.015 krónum og hins vegar lán sem tekið var vegna íbúðarkaupa árið 2007, upphaflega að fjárhæð 1.825.000 krónur, en staða þess nú er 3.128.516 krónur, tvö lán hjá Landsbankanum, tekin vegna fyrirtækis hans, upphaflega að fjárhæð 1.400.000 krónur og 2.162.000 krónur sem standa nú annars vegar í 1.663.868 krónum og hins vegar í 2.691.754 krónum. Þá er í skuldayfirliti kreditkortaskuld við Kreditkort hf. að fjárhæð 825.921 króna og bílasamningur hjá SP-fjármögnun hf. frá 2006, upphaflega að fjárhæð 2.852.041 króna en stendur nú í 2.064.787 krónum. Þá er ógreitt skuldabréf Húsasmiðjunnar hf., upphaflega að fjárhæð 484.444 krónur en núverandi staða þess er 673.278 krónur og jafnframt skuld við B, upphaflega að fjárhæð 842.625 krónur, núverandi staða er 1.842.343 krónur, en sú skuld er tilkomin vegna íbúðakaupa. Loks eru ógreiddir samkvæmt skuldayfirliti ýmsir smærri reikningar samtals að fjárhæð 269.681 króna.

Samkvæmt skattframtölum kæranda voru tekjur, eignir og skuldir kæranda undanfarin ár eftirfarandi: Árið 2006 voru mánaðarlegar tekjur kæranda 116.776 krónur, eignir námu 18.460 krónum og skuldir 9.809.035 krónum, en af gögnum megi ráða að vantaldar skuldir nemi 4.812.041 krónu. Árið 2007 voru tekjur kæranda 99.396 krónur á mánuði, eignir 26.200.000 krónur og skuldir 33.982.645 krónur. Árið 2008 voru tekjur kæranda 146.186 krónur á mánuði, eignir 27.865.000 krónur og skuldir 35.418.367 krónur. Árið 2009 voru mánaðarlegar tekjur kæranda 140.894 krónur, eignir 25.053.639 krónur og skuldir 36.132.661 króna. Kærandi hefur ekki skilað skattframtali fyrir tekjuárið 2010.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 9. maí 2011, var umsókn kæranda um greiðsluaðlögun einstaklinga synjað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar þar sem hann hafi tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma og tekist á hendur frekari fjárhagsskuldbindingar þegar hann var greinilega ófær um að standa við fyrri skuldbindingar sínar, sbr. b- og c-lið 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

 

II.

Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi verið í sambúð og keypt fasteign árið 2007. Kærandi hafi verið skráður fyrir öllum lánum vegna kaupanna en hann og þáverandi sambýliskona hans hafi bæði greitt af lánunum. Í upphafi árs 2010 hafi sambúðinni verið slitið og kærandi setið uppi með allar skuldirnar vegna íbúðarkaupanna. Um sé að ræða lán hjá Íbúðalánasjóði sem stóð á umsóknardegi í 26.370.374 krónum. Þá séu tvö fasteignaveðlán áhvílandi á eigninni, annars vegar lán hjá Íslandsbanka að fjárhæð 4.611.393 krónur og hins vegar lán hjá Arion banka að fjárhæð 2.569.741 króna.

Er lánið hafi verið fengið hjá Íbúðalánasjóði hafi kærandi staðist greiðslumat. Þó tekjur kæranda hafi ekki verið háar á umræddu tímabili þá skýrist það af því að hann var að byggja upp atvinnurekstur ásamt þáverandi sambýliskonu sinni. Reksturinn hafi farið vel af stað en hafi farið í þrot í hruninu og hafi því arðgreiðslur orðið engar.

Ástæður greiðsluerfiðleikanna séu sambúðarslit þar sem kærandi hafi orðið einn greiðandi að lánum, hækkun á erlendu bílaláni og gjaldþrot félagins með tilheyrandi ábyrgðarskuldbindingum. Hér sé um hefðbundin lán að ræða og ekki sé hægt að fallast á að kærandi hafi hagað málum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Vissulega hafi boginn verið hátt spenntur en ekki umfram það sem almennt hafi gilt í samfélaginu á þeim tíma sem lánin voru tekin. Hafa beri í huga að kærandi hafi staðist greiðslumat sem Íbúðalánasjóður, sem sé opinber stofnun, hafi talið forsendu fyrir lánveitingu.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara komi fram að kærandi hafi tilgreint tekjur sínar hærri en þær reyndust vera í umræddu greiðslumati. Kærandi bendir í því sambandi á að hann hafi verið í atvinnurekstri sem fór í þrot og því hafi arðgreiðslur orðið engar, með tilheyrandi greiðslufalli. Áætlaðar tekjur hafi því orðið lægri en hann gerði ráð fyrir. Hann hafi samt ekki gefið vísvitandi upp rangar tekjur og forsendur greiðslumatsins því réttar á þeim tíma sem það var unnið.

Kærandi eigi í verulegum greiðsluerfiðleikum og hefur vilja til þess að taka þátt í atvinnulífinu. Hann hefur án árangurs reynt að ná samningum við lánardrottna. Verði umsókn hans um greiðsluaðlögun ekki samþykkt sé ljóst að hans bíði gjaldþrot.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að heildarskuldir kæranda nemi 17.079.720 krónum. Mánaðarlegar tekjur kæranda eftir frádrátt eru 164.570 krónur. Þar kemur jafnframt fram að heildarskuldir kæranda séu 17.079.720 krónur og að til þeirra hafi aðallega verið stofnað á árunum 2006 og 2007.

Umboðsmanni beri við mat á umsókn um greiðsluaðlögun að líta til þeirra atriða sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í c-lið 2. mgr. greinarinnar komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar þyki óhæfilegt að veita hana, meðal annars með tilliti til þess að skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Fram kemur í ákvörðun umboðsmanns skuldara að kærandi hafi stofnað til umtalsverðra skulda á árunum 2006 og 2007 sem voru ekki í samræmi við greiðslugetu hans á þeim tíma.

Í greinargerð umboðsmanns kemur fram að samkvæmt greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 101/2010 taki ákvæði 2. mgr. 6. gr. að hluta mið af þágildandi lagaákvæði um greiðsluaðlögun í 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, enda hafi verið komin nokkur reynsla á framkvæmd og dómvenja á beitingu ákvæðisins. Í dómi Hæstaréttar frá 17. desember 2009 í máli nr. 657/2009 hafi beiðni um greiðsluaðlögun á grundvelli þágildandi laga nr. 21/1991 verið hafnað með vísan til 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laganna. Í því máli hafi umsækjandi skuldsett sig umtalsvert vegna fasteigna- og bifreiðakaupa, en greiðslubyrði lánanna var umfram þær tekjur sem af gögnum málsins var ráðið að hann hafi haft á þeim tíma.

Í ljósi fordæmis framangreinds dóms taldi umboðsmaður ljóst að skuldasöfnun kæranda geti talist fjárhagsleg áhætta sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað. Þó umboðsmaður telji sig ekki að fullu bundinn af dómafordæmum um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 21/1991 telur hann að þeir geti veitt mikilvæga leiðsögn um túlkun laga nr. 101/2010.

Í rökstuðningi kæranda sé því borið við að þegar hann hafi tekið lánið hjá Íbúðalánasjóði hafi kærandi undirgengist greiðslumat sem hann hafi staðist. Þær upplýsingar hafi legið fyrir þegar ákvörðun í máli kæranda var tekin. Við greiðslumatið hafi kærandi tilgreint tekjur sínar sem 440.000 krónur á mánuði og mánaðarlega greiðslugetu upp á 156.664 krónur. Í hinni kærðu ákvörðun sé rakið hverjar tekjur kæranda voru þegar hann keypti fasteignina að C-götu. Þar sjáist að greiðslugeta hans sé miklu lægri en kærandi tilgreindi í greiðslumati og forsendur greiðslumatsins því ekki réttar að þessu leyti. Þá telur umboðsmaður það ekki skipta máli í þessu samhengi að kærandi hafi gert ráð fyrir að sambýliskona hans hafi ætlað að taka þátt í greiðslu lánanna, enda átti greiðslumatið aðeins við hann einan og hann einn skráður fyrir láninu, sem lántaki og greiðandi.

Var það því mat umboðsmanns skuldara, með hliðsjón af eignastöðu og tekjum kæranda á þeim tíma sem til framangreindra fjárhagsskuldbindinga var stofnað, að hann hafi tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hans með því að stofna til skuldbindinga þegar hann var greinilega ófær um að standa við fyrri skuldbindingar sínar. Af þeim sökum telur umboðsmaður að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010 og að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

IV.

Niðurstaða

Í máli þessu byggir umboðsmaður synjun sína á því að kærandi hafi stofnað til skulda á þeim tíma sem hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Heimild til að synja umsókn um greiðsluaðlögun á þessum grundvelli er að finna í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Við mat á því hvort beita skuli þessu ákvæði laganna verður að líta til samspils tekna kæranda og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, einkum áranna 2006 og 2007. Þá ber einnig að taka tillit til tekna og eigna sambýliskonu hans enda geta þær upplýsingar haft þýðingu við mat á framfærslukostnaði og greiðslugetu á sambúðartímanum þótt hvorki sé um gagnkvæma framfærsluskyldu að ræða né ábyrgð á skuldbindingum kæranda. Fyrir liggja gögn um tekjur og eignir kæranda síðastliðin fjögur ár og tekjur og eignir sambýliskonu hans á árinu 2007. Meginhluti lána kæranda eru tekin á árunum 2006 og 2007. Ekki er ástæða til að draga í efa að efnahagsástand síðastliðinna ára hefur haft mikil neikvæð áhrif á fjárhagsstöðu kæranda en hins vegar verður ekki séð af skattframtölum kæranda að tekjur hans hafi dregist saman sem neinu nemi á tímabilinu. Ekki verður litið framhjá því að tekjur kæranda síðastliðin fjögur ár samkvæmt skattframtölum og sambýliskonu hans á árinu 2007, voru afar lágar og gátu með engu móti staðið undir þeim skuldbindingum sem hann tókst á hendur, þótt gert sé ráð fyrir sameiginlegum heimilisrekstri af þeirra hálfu og hlutdeild af hennar hálfu í húsnæðiskostnaði. Þannig voru tekjur hans á árinu 2006 116.776 krónur á mánuði en afborganir lána á því ári tæplega 150.000 krónur á mánuði. Árið 2007 eru sameiginlegar ráðstöfunartekjur kæranda og sambýliskonu hans samkvæmt skattframtölum tæplega 156.000 krónur á mánuði en afborganir lána um 218.000 krónur, þar af um 120.000 krónur vegna afborgana af fasteigna- og bílalánum. Að teknu tilliti til framfærslukostnaðar eru lántökur á árinu 2006 orðnar meiri en kærandi gat staðið undir og komnar langt fram úr greiðslugetu hans á árinu 2007, jafnvel þótt tekið sé tillit til tekna sambúðaraðila og áhrif sameiginlegs heimilishalds á framfærslukostnað.

Í fyrri úrskurðum kærunefndar hefur niðurstaðan jafnan verið sú að þegar kærendur takast á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur eru á að þeir geti staðið undir afborgunum af miðað við tekjur og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem lán eru tekin, leiði það til þess að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun. Vísast í þessu sambandi til úrskurða kærunefndar í málum nr. 11/2011 og nr. 17/2011 og framangreinds dóms Hæstaréttar í máli nr. 657/2009 að því er varðar álitaefni um samspil tekna og skulda á þeim tíma sem til þeirra er stofnað.

Með framangreindum rökstuðningi er ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum