Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 22/2011

Fimmtudaginn 26. janúar 2012

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 11. maí 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 10. maí 2011, þar sem umsókn hennar um greiðsluaðlögun einstaklinga var hafnað.

Með bréfi, dags. 20. maí 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 26. maí 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 20. júní 2011, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Var ósk um athugasemdir kæranda ítrekuð með bréfi, dags. 9. september 2011. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

I.

Málsatvik

Kærandi er 44 ára og býr ásamt tveimur dætrum sínum og barnabarni í eigin húsnæði að B-götu nr. 4 í sveitarfélaginu C. Hún er atvinnulaus en fær greiddar 133.145 krónur mánaðarlega í atvinnuleysisbætur. Auk þess fær hún greiddar barnabætur sem nema 19.148 krónum á mánuði.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, dags. 18. mars sl., nema heildarskuldir kæranda 17.320.871 krónu og eignir eru metnar á 19.958.000 krónur. Skuldir sem falla innan samnings um greiðsluaðlögun eru sagðar nema 12.999.074 krónum.

Skuldir kæranda eru eftirfarandi samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara: Í fyrsta lagi lán hjá Landsbankanum að fjárhæð 2.714.606 krónur en það var að sögn kæranda tekið til að greiða starfsmönnum fyrrum sambýlismanns hennar laun. Í öðru lagi annað lán hjá Landsbankanum, upphaflega að fjárhæð 5.920.000 krónur, sem nú stendur í 8.923.800 krónum, en fyrrum sambýlismaður hennar er aðalskuldari að því láni en kærandi ábyrgðarmaður og meðskuldari. Í þriðja lagi er um að ræða skuld við Ríkisútvarpið ohf. vegna vangoldinna afnotagjalda árin 2006–2008, upphaflega að fjárhæð 90.734 krónur en stendur nú í 278.047 krónum. Í fjórða lagi skuld við Sjóvá-Almennar tryggingar hf. frá 2009 samtals að fjárhæð 65.078 krónur og í fimmta lagi skuld vegna vangoldinna fasteignagjalda samtals að fjárhæð 438.090 krónur. Allar þessar kröfur eru veðkröfur. Aðrar samningskröfur eru skuldir við Vátryggingafélag Íslands hf. að fjárhæð 112.245 krónur, IP fjarskipti ehf. (Tal) að fjárhæð 30.461 króna, Tanngo ehf. að fjárhæð 62.271 króna, Og fjarskipti ehf. að fjárhæð 58.208 krónur, Vörður tryggingar hf. að fjárhæð 80.090 krónur, bifreiðagjöld fyrir árið 2010 að fjárhæð 23.904 krónur, skuld við Bílastæðasjóð Reykjavíkurborgar að fjárhæð 15.400 krónur og kreditkortaskuld við Landsbankann að fjárhæð 150.176 krónur.

Þá eru ótaldar ábyrgðarskuldbindingar kæranda en af gögnum málsins má ráða að hún sé ábyrgðarmaður á þremur skuldbindingum sem samtals nema 7.361.790 krónum þó þær komi ekki fram á skuldayfirliti umboðsmanns skuldara.

Skuldir sem falla utan samnings um greiðsluaðlögun eru þing- og sveitarsjóðsgjöld 2010 að fjárhæð 29.058 krónur, bifreiðagjöld 2011 að fjárhæð 2.640 krónur, gjald vegna óskoðaðra ökutækja að fjárhæð 15.000 krónur, dómsáritað sektarboð að fjárhæð 20.000 krónur og fasteignagjöld fyrir árið 2011 að fjárhæð 27.139 krónur. Þá skuldar kærandi skattsektir að fjárhæð 3.600.000 krónur en sú skuld er til komin vegna reksturs félagsins D ehf. á árunum 2006–2008 en kærandi hafi ekki greitt hana því hún hafi ekki átt fyrir henni. Þá hafi sambýlismaður hennar fyrrverandi rekið fyrirtækið E ehf. og haft fjölda manns í vinnu. Hún hafi tekið á sig skuldbindingar vegna þess reksturs, meðal annars til að standa skil á launagreiðslum.

Þann 10. maí 2011 synjaði umboðsmaður skuldara kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til þess að óhæfilegt sé að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar þar sem hún hafi stofnað til skuldbindinga sem einhverju nemi miðað við fjárhag hennar með háttsemi sem varðað geti refsingu, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

 

II.

Sjónarmið kæranda

Að sögn kæranda er fjárhagserfiðleika hennar að rekja til þess að sambýlismaður hennar yfirgaf hana og flutti af landi brott. Hún hafi setið eftir með skuldbindingar sem hún sé ábyrgðarmaður að og séu tryggðar með veði í fasteign hennar. Hún hafi misst starf sitt hjá F í sveitarfélaginu C í janúar 2010 og verið atvinnulaus síðan. Kærandi segist hafa átt við langvarandi veikindi að stríða og sótt um endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í greinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til aðstæðna sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð á grundvelli 6. gr. lge.

Í d-lið 2. mgr. 6. gr. komi fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun ef skuldari hefur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar á þessum grundvelli byggir umboðsmaður á fordæmi í dómi Hæstaréttar í máli 721/2008, frá 20. janúar 2010 sem einnig sé vísað til í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 101/2010.

Í framangreindum dómi sé tekin til umfjöllunar þágildandi 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, sbr. lög nr. 24/2009, sem var samhljóða núgildandi d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Niðurstaðan var sú að synja hefði átt skuldara um greiðsluaðlögun í öndverðu þar sem hann hefði skapað sér skuldbindingu með háttsemi sem varðaði refsingu eða skaðabótaskyldu. Í því samhengi var litið til þess að fjárhæð vegna vangoldins virðisaukaskatts þótti allhá miðað við fjárhag skuldara eða um 8,3% af heildarskuldum hans. Þá var litið til tekna hans og eigna á þeim tíma sem til skuldbindingarinnar var stofnað og þótti hinn vangreiddi virðisaukaskattur ekki smávægilegur að teknu tilliti til þess að skuldari var eignalaus á tilgreindum tíma. Bæri því að synja skuldara um heimild til þess að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður telur að ekki verið litið hjá því í máli þessu að kærandi hafi borið ábyrgð á því að standa skil á opinberum gjöldum vegna fyrirtækjareksturs samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar nr. 183/2009 vegna brota á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, framin vegna rekstaráranna 2006 og 2007 og lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, framin vegna rekstarársins 2007. Eru um að ræða fjárhæð sem nemur 3.600.000 krónum og getur slíkt varðað refsingu eða skaðabótaskyldu og fellur undir skilgreiningu d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. um refsiverða háttsemi.

Heildarfjárhæð skuldbindinga kæranda nemi 17.320.871 krónu. Miðað við þá fjárhæð er hlutfall skulda sem nema refsingu eða skaðabótaskyldu af heildarskuldum um 20,8%. Að auki hafi kærandi tekið á sig sjálfskuldarábyrgðir fyrir aðra sem nemi 4.905.927 krónum. Þá sé eignastaða kæranda ekki sterk eins og sjá megi af gögnum málsins.

Umsækjandi hafi hvorki komið fram með nýjar upplýsingar né lagt fram gögn með kæru til frekari skýringa á máli sínu eða sem breytt geti þeim forsendum sem synjunarákvörðun í máli hennar er byggð á.

Með tilliti til þess sem framan greini telji umboðsmaður skuldara að ekki hafi verið hjá því komist að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

IV.

Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar byggir á því að kærandi hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hennar með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Um er að ræða skattsekt sem kæranda hefur verið gert að greiða, að fjárhæð 3.600.000 krónur. Segir í ákvörðun umboðsmanns að fjárhæðin sé um 21% af heildarskuldum kæranda sem umboðsmaður telur vera rúmlega 17.300.000 króna. Umboðsmaður rökstyður ákvörðun sína með vísan til fordæmis í dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009.

Í úrskurði kærunefndar í máli nr. 17/2011 er fjallað um beitingu b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem þessi ákvörðun umboðsmanns byggir á, og fordæmisgildi framangreinds dóms. Eins og þar kemur fram verður að skoða dóm Hæstaréttar í ljósi þess að hann er kveðinn upp í gildistíð eldri laga þar sem áhrif greiðsluaðlögunar á greiðsluskyldu skattskulda eru aðrar gildandi lög gera ráð fyrir nú.

Við rannsókn kærunefndar á gögnum þessa máls hafa hins vegar komið upp svo mörg vafaatriði og misvísandi upplýsingar um fjárhagsstöðu kæranda að ekki er hægt að kveða upp efnislegan úrskurð í því.

Meðal óljósra atriða er raunveruleg skuldastaða kæranda. Í máli umboðsmanns er byggt á því að heildarskuldir hennar séu rúmlega 17.000.000 króna. Þar er hins vegar ekki tekin afstaða til skuldbindinga á grundvelli sjálfskuldarábyrgða en þó kemur fram, án þess að fyrir liggi gögn þar að lútandi, að aðalskuldari þeirra hafi ekki staðið við greiðsluskyldu sína. Nemur fjárhæð þessara ábyrgðarskuldbindinga a.m.k. 7.000.000 króna. Samkvæmt skuldayfirliti og framangreindri greiðsluáætlun eru eignir kæranda taldar meiri en skuldir en eins og áður sagði er þar ekki tekin afstaða til ábyrgðarskuldbindinga. Þó liggur fyrir að fjárhæð þeirra hefur veruleg áhrif á það hvort eða að hve miklu leyti kærandi er í stakk búin til að greiða skuldir, meðal annars með sölu á fasteign sinni, og því nauðsynlegt að umboðsmaður gangi úr skugga um greiðsluskyldu kæranda hvað þær varðar.

Þá er sagt í ákvörðun umboðsmanns að af gögnum málsins megi sjá að fasteign kæranda sé nánast fullveðsett en samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns eru veðkröfur taldar 12.419.621 króna en verðmæti fasteignar talið tæplega 20.000.000 króna. Í fyrirliggjandi veðbókarvottorði er hins vegar getið veðskulda, samtals upphaflega að fjárhæð 19.940.000 krónur. Þar koma fram tvö veðskuldabréf, annað að fjárhæð 9.520.000 krónur og hitt að fjárhæð 2.500.000 krónur sem ekki verður séð að sé getið í skuldayfirlitinu og kærunefnd fær ekki séð af gögnum málsins hvað varð um.

Í skuldayfirliti er enn fremur að finna lögreglusekt að fjárhæð 566.130 krónur. Í málinu eru engin gögn sem varpa ljósi á tilurð þessarar sektar. Virðist í greinargerð sem þessi fjárhæð sé talin til vangreiddra opinberra gjalda en þar segir að kærandi hafi ekki staðið skil á opinberum gjöldum allt frá árinu 2006 og nemi heildarfjárhæð þeirrar kröfu 4.256.732 krónum. Í yfirliti frá tollstjóra, sem er meðal gagna málsins, kemur hins vegar ekki fram að kærandi skuldi vangreidd opinber gjöld ef frá eru taldar óverulegar fjárhæðir frá árunum 2010 og 2011. Hins vegar er þar að finna umrædda lögreglusekt og áðurnefnda skattsekt samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar.

Þá er ekki að fullu ljóst hverjar skuldbindingar kæranda stafa frá hennar eigin atvinnurekstri og eftir atvikum atvinnurekstri fyrrum sambýlismanns hennar né heldur hvort einhverjir og þá hverjir séu ábyrgðarmenn skuldbindinga hennar þar sem hún er aðalskuldari.

Hvað tekjur kæranda varðar þá liggur ekki fyrir í málinu hvort hún fær greitt meðlag með börnum sínum né hvort eldri dóttir hennar hafi einhverjar tekjur en fram kemur að kærandi reki heimili með tveimur dætrum sínum og barnabarni.

Allar framangreindar fjárhagsupplýsingar eiga að koma fram í umsókn skuldara um greiðsluaðlögun skv. 4. gr. lge. og umboðsmanni ber að veita skuldara endurgjaldslausa aðstoð við að semja umsóknina og eftir atvikum afla nauðsynlegra gagna sjálfur skv. 3. og 4. mgr. sömu greinar. Í 5. gr. er enn fremur fjallað um ríka rannsóknarskyldu umboðsmanns.

Þá eru í málinu vísbendingar um að félagsleg staða kæranda sé ekki góð og vísast þar bæði til þess sem hún sjálf segir í umsókn sinni um heilsufar sitt auk þess sem fyrirliggjandi er vottorð sérfræðilæknis þar sem fram kemur að kærandi glími við langvarandi veikindi sem hafi á tímabili gert hana óvinnufæra og jafnframt að unnið sé að umsókn um endurhæfingarlífeyri. Ekki verður séð að umboðsmaður hafi gefið þessu atriði gaum eða lagt mat á það hvaða áhrif félagslegar aðstæður kæranda hafi á umsókn hennar um greiðsluaðlögun. Í úrskurði kærunefndar í máli nr. 12/2011 var fjallað um hvaða áhrif félagslegar aðstæður skuldara kunni að hafa á mat á hvort veita eigi heimild til greiðsluaðlögunar, meðal annars út frá því markmiði laganna að beina einstaklingum fremur inn á þessa leið heldur en hefðbundna leið skuldaskilaréttarins. Í úrlausn kærunefndar í því máli var niðurstaðan meðal annars byggð á því að í heildstæðu mati umboðsmanns verði að líta til félagslegrar stöðu kæranda, hagsmuna kröfuhafa og atvika í heild sinni við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið er það mat kærunefndar að svo verulegir annarmarkar séu á rannsókn og undirbúningi ákvörðunar umboðsmanns að fella beri hana úr gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er hrundið.

 

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum