Hoppa yfir valmynd
15. desember 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 17/2011

Fimmtudaginn 15. desember 2011

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 13. apríl 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 5. apríl 2011, þar sem umsókn hans um greiðsluaðlögun einstaklinga var hafnað.

Með bréfi, dags. 13. apríl 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 2. maí 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 20. maí 2011, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með ódagsettu bréfi í júní 2011.

 

I.

Málsatvik

Kærandi er 43 ára og býr í eigin húsnæði í B-sveitarfélagi en sonur hans dvelur hjá honum aðra hverja viku. Kærandi, sem er menntaður húsgagnasmiður, hefur starfað sem smiður lengst af en verið meira og minna atvinnulaus síðastliðin tvö ár.

Heildarskuldir kæranda eru 28.421.403 krónur. Þar af eru veðkröfur, tryggðar með veði í fasteign kæranda, 19.676.607 krónur og eru þær til komnar vegna byggingar fasteignar kæranda. Aðrar kröfur eru meðlagsskuld, sem nemur 1.218.337 krónum, þing- og sveitasjóðsgjöld að fjárhæð 1.008.850 krónur, tryggingagjald að fjárhæð 614.047 krónur, staðgreiðsla vegna launa 581.650 krónur, vangoldinn virðisaukaskattur að fjárhæð 2.071.114 krónur og vangoldið iðgjald í lífeyrissjóð fyrir árin 2007 og 2008 að fjárhæð 1.303.622 krónur. Samtals nema þessar kröfur 6.797.620 krónum.

Eignir kæranda eru samkvæmt gögnum málsins fasteign, sem metin er á 12.400.000 krónur samkvæmt fasteignamati og bifreið sem metin er á 800.000 krónur.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til þess að hann réðst í húsbyggingu árið 2005 en hafi tapað fé í samskiptum við byggingameistarann og að erfiðlega hafi gengið að koma húsinu í stand. Tekjur hans hafi einnig lækkað vegna atvinnuleysis en lítið sem ekkert hafi verið að gera hjá honum í kjölfar bankahrunsins.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 5. apríl 2011, var kæranda synjað um heimild til greiðsluaðlögunar þar sem óhæfilegt þótti að veita honum slíka heimild þar sem hann hafi stofnað til skulda svo einhverju nemi sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu, sbr. d. lið 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.).

 

II.

Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir að honum sé hjálpað að finna leið úr skuldavanda sínum. Hann telur óásættanlegt að vera synjað um greiðsluaðlögun á þeim grundvelli að hann hafi greitt sumar skuldir en sleppt öðrum. Einnig telur hann skrýtið að þegar hann hafi leitað eftir aðstoð hafi honum ekki verið leiðbeint t.d. um hvaða skuldir væri réttast að greiða.

Ekkert hafi gengið að semja við lánardrottna og einna verst við ríki og sveitarfélög. Það hafi bara hrúgast upp bréf og pappírar á máli sem enginn skilji og hann hafi tapað þeim litlu peningum sem hann hafði úr að spila. Hann hafi ekki fengið neina teljandi aðstoð til að greiða úr sínum vanda. Þá segist hann hafa næg verkefni eins og stendur og ætli að reyna að safna einhverju fé til að greiða skuldir.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í greinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að hann telji að fjárhagsvanda kæranda megi rekja lengra aftur en til atvinnuleysis í kjölfar bankahruns. Kærandi hafi í raun átt í fjárhagsvandræðum frá árinu 2006. Þetta megi ráða af þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu og yfirliti yfir tekjur, eignir og skuldir kæranda sem unnið var upp úr þeim. Talsvert hafi hins vegar skort á tekjuupplýsingar enda hafi gengið erfiðlega að fá upplýsingar frá kæranda um það hverjar raunverulegar tekjur hans hafi verið þá og hverjar þær séu nú. Hafi hann borið því við að hann geti ekki gefið þær upp þar sem hann hafi stopula vinnu. Þá hafi umsækjandi ekki skilað skattframtölum vegna tekjuáranna 2006 til 2010 og hafi hann ekki skilað skattframtali fyrir árið 2011.

Umsækjandi hafi ekki staðið skil á vörslusköttum og öðrum opinberum gjöldum frá árinu 2007 fram til dagsins í dag. Vandgoldin gjöld vegna virðisaukaskatts, staðgreiðslu vegna launa og tryggingagjalds, ásamt þing- og sveitasjóðsgjöldum nemi samtals 4.275.661 krónu auk þess sem vangoldin iðgjöld í lífeyrissjóð nemi 1.303.622 krónum.

Umboðsmaður byggir synjun sína á að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til að leita greiðsluaðlögunar meðal annars með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en þar komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun hafi skuldari bakað sér skuldbindingu, sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans, með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til að leita greiðsluaðlögunar sé gagnlegt að hafa  lögskýringagögn og eldri úrlausnir dómstóla til hliðsjónar.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009 frá 20. janúar 2010 var tekin til umfjöllunar þágildandi 4. tl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, sbr. lög nr. 24/2009, sem var samhljóða núgildandi d. liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Niðurstaðan var sú að synja hefði átt skuldara um greiðsluaðlögun í öndverðu þar sem hann hefði skapað sér skuldbindingu með háttsemi sem varðaði refsingu eða skaðabótaskyldu. Í því samhengi var litið til þess að fjárhæð vegna vangoldins virðisaukaskatts þótti allhá miðað við fjárhag skuldara eða um 8,3% af heildarskuldum hans. Þá var litið til tekna hans og eigna á þeim tíma sem til skuldbindingarinnar var stofnað og þótti hinn vangreiddi virðiaukaskattur ekki smávægilegur að teknu tilliti til þess að skuldari var eignalaus á tilgreindum tíma. Bæri því að synja skuldara um greiðsluaðlögun.

Í máli þessu telur umboðsmaður að ekki verði hjá því litið að kærandi hafi borið ábyrgð á að standa skil á vörslusköttum og öðrum opinberum gjöldum vegna vinnu sinnar. Í tilfelli kæranda liggi fyrir að hann hafi ekki staðið skil á opinberum gjöldum að fjárhæð 4.275.661 krónu og geti slíkt varðað refsingu og fellur því undir skilgreiningu d. liðar um refsiverða háttsemi. Sem hlutfall af heildarskuldum eru þessar skuldir um 15%. Þá sé eignastaða kæranda ekki sterk en að sögn hans hafa tekjur hans undangengin ár verið mjög óstöðug og lág.

Í ljósi framangreinds hafi það verið mat umboðsmanns að óhæfilegt hafi verið að veita kæranda heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til 2. mgr. 6. gr. lge. og þá sérstaklega með vísan til d. liðar.

 

IV.

Niðurstaða

Umboðsmaður skuldara byggir ákvörðun sína á því að talsverður hluti skulda kæranda sé tilkominn með háttsemi sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu, en í d. lið 2. mgr. 6. gr. laganna um greiðsluaðlögun einstaklinga segir að heimilt sé að hafna umsókn um greiðsluaðlögun ef þannig stendur á. Þær skuldir, sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru vangreidd staðgreiðsla af reiknuðum launum og ógreiddur virðisaukaskattur, samtals að fjárhæð 2.652.764 krónur eða um 9,2% af heildarskuldum kæranda. Því til viðbótar leggur umboðsmaður áherslu á að kærandi skuldi einnig iðgjöld í lífeyrissjóð að fjárhæð 1.303.622 og samtals nemi ofangreindar skattskuldir og ógreidd lífeyrisiðgjöld 13,7% af heildarskuldum hans.

Í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga eru sérákvæði um meðferð og áhrif skulda vegna vangoldins virðisaukaskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda. Hvorki frjáls samningur um greiðsluaðlögun né nauðasamningur til greiðsluaðlögunar tekur til þessara krafna, sbr. f. lið 3. gr. lge. og a. lið 1. mgr. 63. gr. a. laga um gjaldþrotaskipti. Af þessum sökum hefur samningur, eða eftir atvikum nauðasamningur til greiðsluaðlögunar, ekki áhrif á greiðsluskyldu skuldara hvað þessar skuldir varðar. Á hinn bóginn kann hann að eiga möguleika á að semja við innheimtumann ríkissjóð um uppgjör slíkra skulda á grundvelli tímabundinnar heimildar í lögum nr. 24/2010 um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

Áður en úrræðið um samningsbundna greiðsluaðlögun einstaklinga tók gildi 1. ágúst 2010 var ákvæði í gjaldþrotaskiptalögunum um nauðasamninga til greiðsluaðlögunar. Ákvæði þessi voru lögfest með lögum nr. 24/2010 og tóku gildi 1. apríl það ár. Ákvæðin eru í X. kafla a., sem nú nefnist nauðasamningur til greiðsluaðlögunar. Úrræði um nauðasamning til greiðsluaðlögunar tók til allra svokallaðra samningskrafna eins og þær eru skilgreindar í 29. gr. sbr. 28. gr. gjaldþrotaskiptalaganna, þ.m.t. allra skattskulda. Því höfðu nauðsamningar til greiðsluaðlögunar sömu áhrif á lækkun og/eða brottfall þessara krafna og annarra skulda þeirra sem fengu samþykkta nauðasamninga. Með lögum nr. 135/2010, sem tóku gildi 1. desember 2010, var hins vegar ákvæðum gjaldþrotaskiptalaganna breytt á þann veg að sömu kröfur og undanþegnar eru áhrifum samningsbundinnar greiðsluaðlögunar eru einnig undanþegnar áhrifum nauðasamninga til greiðsluaðlögunar.

Við mat á því hvort rétt sé að synja um heimild um greiðsluaðlögun vegna skulda sem geta bakað skuldara refsingu, svo sem gildir um vörsluskatta, skiptir það máli hver afdrif þessara skulda verða nái greiðsluaðlögun fram að ganga. Með öðrum orðum þá er mat á því hvort óhæfilegt sé að veita skuldara heimild til greiðsluaðlögunar meðal annars háð því hvort hann losnar þar með undan greiðsluskyldu slíkra skuldbindinga eða ekki. Eins og áður segir er skuldum vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu skatta nú haldið utan við réttaráhrif greiðsluaðlögunar öfugt við það sem gilti áður en lögin um greiðsluaðlögun einstaklinga voru sett og framangreindar breytingar voru gerðar á ákvæðum gjaldþrotaskiptalaganna. Af þessum sökum geta dómar, sem kveðnir eru upp í tíð eldri laga, ekki haft ótvírætt fordæmisgildi við þetta mat jafnvel þótt til þeirra sé vísað í athugasemdum við 6. gr. í frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Það er því mat kærunefndar að fjárhæð umræddra skulda í þessu máli sé ekki það verulegur hluti heildarskulda kæranda, að teknu tilliti til eignastöðu hans og aðstæðna að öðru leyti, að það út af fyrir sig girði fyrir heimild til greiðsluaðlögunar.

Ber því að líta til þess hvort fyrirliggjandi gögn gefi nægjanlega glögga mynd af fjárhag kæranda til þess að hægt sé að leggja mat á umsókn hans um greiðsluaðlögun en í greinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að talsvert skorti á tekjuupplýsingar kæranda bæði hvað varðar tekjur hans núna sem og tekjur fyrri ára. Í málinu liggur þó fyrir reiknað endurgjald fyrir árið 2011 sem og skattframtöl síðustu fimm ára. Þó að tekjur sem þar komi fram séu ekki háar eru þær það sem verður að leggja til grundvallar þegar metið er hvort veita eigi kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt b. lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana sökum þess að kærandi hafi stofnað til skuldbindinga þegar hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Tekjur hans samkvæmt skattframtölum hafa verið eftirfarandi:Árið 2006 voru mánaðarlegar tekjur hans samkvæmt skattframtölum eftir skatta 99.805 krónur, árið 2007 250.620 krónur, árið 2008 103.255 krónur, árið 2009 43.231 og engar árið 2010.

Þrátt fyrir þessar lágu tekjur stofnaði kærandi til skuldbindinga á þessu tímabili. Árið 2006 tók hann 10.000.000 króna lán hjá X-banka til að fjármagna byggingu á húsnæði sínu auk þess að stofna til skuldar við Y-banka, upphaflega að fjárhæð 801.787 krónur. Árið 2007 tekur hann námslán og árið 2009 tekur hann 5.000.000 króna lán hjá Z. Er nokkuð ljóst að með einungis 99.805 krónur í mánaðarlegar tekjur árið 2006 hefur kærandi átt erfitt með að mæta hefðbundnum útgjöldum vegna heimilishalds þegar hann tók lánið hjá X-banka í janúar það ár. Eins og fyrr segir tók kærandi annað lán árið 2009 sem nam 5.000.000 krónum en það ár voru tekjur hans 43.231 króna á mánuði. Má því fullyrða að miðað við þessar tekjur hefur hann tekist á hendur skuldbindingar þegar hann var greinilega ógjaldfær enda duga tekjur hans undanfarin ár tæpast fyrir nauðsynlegum útgjöldum dagslegs lífs.

Þótt það sé álit kærunefndar að skattskuldir hans, sem varðað geti refsingu, gefi ekki einar og sér tilefni til að hafna umsókn kæranda verður ekki hjá því komist að líta heildstætt á fjárhagslegar ráðstafanir hans undangengin ár. Fyrir liggur að hann hefur hvorki staðið skil á skattgreiðslum, iðgjöldum í lífeyrissjóð, meðlagsgreiðslum né hluta námslána sinna. Auk þess verður ekki önnur ályktun dregin af skattframtölum kæranda en hann hafi tekið lán til íbúðarbygginga á þeim tíma sem tekjur hans voru svo lágar að hann var greinilega ófær um að standa undir þeim skuldbindingum.

Niðurstaða kærunefndar er því sú að staðfesta beri ákvörðun umboðsmanns og synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum