Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 2012 Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018, Heilbrigðisráðuneytið

Ákvörðun landlæknis í kvörtunarmáli kærð

Mánudaginn 27. febrúar 2012 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

Með bréfi, dags. 5. september 2011, kærðu A, (hér eftir nefndur kærandi), til velferðarráðuneytisins ákvörðun og niðurstöðu Embættis landlæknis, dags. 23. júní 2011, um álitsgerð Embættis landlæknis, dags.12. ágúst 2010, í kvörtunarmáli vegna meintra mistaka við aðgerð á sin á vinstri rist og vegna táskekkjuaðgerðar sem kærandi gekkst undir á árinu 2008.

 

Kröfur.

Kærandi krefst þess að ákvörðun og niðurstaða Embættis landlæknis, dags. 23. júní 2011, um að mistök og vanræksla hafi ekki átt sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu verði felld úr gildi og gefið verði út nýtt álit í samræmi við form og efnisreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Auk þess er krafist að óháðir sérfræðingar rannsaki læknismeðferð kæranda og kanni ítarlega hvort rétt hafi verið staðið að þeim læknisaðgerðum sem kærandi gekkst undir í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007.

 

Þá er þess krafist að staðfest verði að mistök hafi átt sér stað.

Með bréfi kæranda, dags. 18. október 2011, er málsmeðferð landlæknis vegna kvörtunar, dags. 3. febrúar 2010, einnig kærð. Þá er gerð krafa um að endurskoðunarheimildir ráðuneytisins verði endurskoðaðar samanber 2. mgr.  19. og 26. gr. stjórnsýslulaga. Þá er óskað eftir því að ráðuneytið ógildi ákvörðun landlæknis og leggi fyrir embættið að rannsaka málið frekar.

 

Málsmeðferð ráðuneytisins.

Embætti landlæknis var með bréfi, dags. 9. september 2011, gefinn kostur á að koma að greinargerð og gögnum vegna kærunnar. Umsögn og gögn landlæknis bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 5. október 2011. Umsögn embættisins ásamt gögnum var send kæranda með bréfi, dags. 7. október 2011, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda eru dagsettar 18. október 2011. Embætti landlæknis var með bréfi, dags. 21. október 2011, gefinn kostur á að koma að athugasemdum og bárust þær ráðuneytinu með bréfi dags. 31. október 2011. Ráðuneytinu bárust með bréfi, dags. 13. nóvember 2011, viðbótargögn frá kæranda. Er hér um að ræða rannsóknarniðurstöður segulómunar sem kærandi gekkst undir í byrjun nóvember 2011.  Þá bárust ráðuneytinu frekari viðbótargögn með bréfi dags. 22. febrúar 2012.

 

Málavextir.

Með bréfi, dags. 3. febrúar 2010, barst Embætti landlæknis kvörtun kæranda, vegna meintra mistaka B, læknis í tengslum við læknismeðferð. Fyrri læknismeðferðin sem fram fór í mars 2008 hafi verið vegna slitgigtar í tveimur smábeinum í rist á vinstra fæti, en meðferðin fólst í að sprautað var með kortisóni.  Tveimur mánuðum seinna nánar tiltekið í júní 2008 hafi sinin á ristinni losnað upp og hafi hún verið fest í aðgerð þann 27. júní 2008.

Síðari læknismeðferðin fór fram þann 28. maí 2008 er kærandi fór í táskekkjuaðgerð á hægri stóru tá hjá sama bæklunarskurðlækni. Sú aðgerð hafi mistekist þar sem táin vísi allt of mikið út á við.

Í kvörtuninni er óskað eftir því að landlæknir taki málið fyrir formlega.

Embætti landlæknis sendi kæranda með bréfi, dags. 8. febrúar 2010, staðfestingu á móttöku kvörtunar og tilkynnti jafnframt að leitað yrði eftir skýringum og sjónarmiðum aðgerðarlæknis og að óskað yrði eftir öllum gögnum málsins. B, lækni var með bréfi landlæknis, dags. 8. febrúar 2010, send kvörtun kæranda og óskað eftir greinargerð og afriti af öllum færslum í sjúkraskrá, niðurstöðum rannsókna, aðgerðarlýsingu og læknabréfum varðandi atvik málsins. Svar B, dags. 15. febrúar 2010, barst landlækni þann 22. febrúar 2010 ásamt afriti af sjúkraskrárgögnum.

Með bréfi dags. 17. mars 2010, óskaði Embætti landlæknis eftir sérfræðiáliti C, læknis og barst embættinu svar hans með bréfi dags. 18. júní 2010.

Kærandi sendi Embætti landlæknis ítrekun með bréfi dags. 16. júlí 2010. Kærandi kvartaði yfir því að fimm mánuðir væru liðnir frá síðasta bréfi landlæknis sem dagsett var þann 8. febrúar 2010.

Með bréfi Embættis landlæknis, dags. 12. ágúst 2010, var kæranda send álitsgerð embættisins, þar sem fram kemur að berist ekki  andmæli frá málsaðilum teljist málinu lokið. Kærandi sendi með bréfum, dags. 27. ágúst 2010 og 11. september 2010, athugasemdir varðandi álitsgerð Embættis landlæknis dags. 12. ágúst 2010. Tilkynnti embættið  kæranda með bréfi, dags.19. október 2010, að hann hefði móttekið bréf kæranda dags. 27. ágúst 2010, ásamt umboði svo og bréf dags. 11. september 2010. Þá sendi Embætti landlæknis kæranda ennfremur gögn málsins.

Með bréfi, dags. 8. júní 2011, sendi kærandi ítrekun til landlæknis, þar sem fram kom að tæpt ár væri liðið frá því að athugsemdir við álitsgerð landlæknis, dags. 27. ágúst 2010, voru sendar. Embætti landlæknis svaraði bréfi kæranda frá 8. júní 2010 með bréfi dags. 21. júní 2011. Með bréfinu var sent bréf B, læknis ásamt sjúkraskrá kæranda. Boðað var í bréfinu að greinargerð Embættis landlæknis yrði send síðar í mánuðinum. Embætti landlæknis lauk málinu með greinargerð, dags. 23. júní 2011, um álitsgerð landlæknis, þar sem ítrekað var það álit embættisins að ekki hafi verið um læknisfræðileg mistök eða vanrækslu að ræða, né ámælisverð framkoma læknis við sjúkling.

 

Málsástæður og lagarök kæranda.

Í kæru til ráðuneytisins, dags. 5. september 2011, gerir kærandi athugsemdir við form greinargerðar Embættis landlæknis og málsmeðferðina sem mál hans hefur fengið. Þá standist málsmeðferðin ekki fyrirmæli 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða. Kærandi hafi ekki fengið upplýsingar frá landlækni um ástæður tafa eins og mælt sé fyrir um í 9. gr.

Kærandi gerir ennfremur athugsemdir við samskipti Embættis landlæknis við sig, en bréf málsins hafi verið dagsett og sögð send kæranda tveimur dögum áður en endanleg álitsgerð embættisins hafi legið fyrir, en bréfin hafi borist kæranda saman dag. Kærandi telur að framanritað geti ekki talist góðir stjórnsýsluhættir.

Þá telur kærandi að greinargerð Embættis landlæknis uppfylli ekki kröfur sem gerðar eru til uppbyggingar úrskurðar, þar sem rökstuðningur sé nær enginn. Einnig telur kærandi ámælisvert að niðurstaða um svo mikilvæga hagsmuni sé ekki rökstudd á fullnægjandi hátt, en það sé brot á 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi gerir ennfremur efnislegar athugsemdir við ákvörðun Embættis landlæknis og mótmælir niðurstöðu hennar.

Í kæru eru síðan rakin umrædd meint læknamistök og afleiðingar.

Í kæru kemur eftirfarandi fram:

„Ljóst er að umrædd læknamistök hafa verið umbjóðanda mínum dýrkeypt og svipt hann miklum lífsgæðum. Hér með er niðurstöðu Landlæknisembættisins um að ekki hafi orðið læknisfræðileg mistök við læknismeðferð umbjóðanda míns kærð til ráðuneytisins. Miklir annmarkar eru á álitinu og niðurstöðu þess og einnig eru annmarkar á málsmeðferð Landlæknisembættisins. Er þess krafist að ákvörðun Landlæknisembættisins verði felld úr gildi og gefið verði út nýtt álit í samræmi við form og efnisreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 auk þess sem krafist er að óháðir sérfræðingar rannsaki læknismeðferð umbjóðanda míns og kanni ítarlega hvort rétt hafi verið staðið að áðurnefndum læknisaðgerðum í samræmi við 10. gr. ssl. og 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni.“

Athugasemdir kæranda við greinargerð landlæknis dags. 5. október 2011 bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 18. október 2011. Gerðar eru athugsemdir við málshraða og því til stuðnings rekur kærandi  málavexti og gangmálsins. Þá kemur fram að kærandi telur Embætti landlæknis búinn að snúa öllum málsatvikum við. Í greinargerð embættisins komi fram að engin svör hafi borist frá kæranda eða lögfræðingi hans til landlæknis í átta og hálfan mánuð, eða frá 19. október 2010 til 9. júní 2011. Séu skýringar Embættis landlæknis með ólíkindum. Í gögnum málsins sé ekki að finna stoð fyrir því að framangreindar tafir á málsmeðferðinni hafi verið vegna þess að beðið hafi verið eftir viðbrögðum kæranda. Er í bréfinu vísað til eftirfarandi því til stuðnings:

„1. Frestur til að skila athugsemdum við drög að greinargerð Landlæknis var fjórar vikur frá 12. ágúst 2010. Athugsemdum var skilað innan frestsins, en aldrei boðað af hálfu undirritaðs eða A, að frekari athugsemdir yrðu sendar, eða óskað frekari frests.

2. Í bréfi embættis Landlæknis frá 12. ágúst 2010 segir skýrum orðum að endanleg álitsgerð verði send málsaðilum eftir að athugsemdir berist embættinu. Það er því ekki mikill vafi ríkjandi um það, hvernig málsmeðferðin átti að þróast eftir að athugasemdum undirritaðs var skilað til embættisins.

3. Í bréfi embættis Landlæknis frá 19. október 2010 er sérstaklega tekið fram að athugsemdum undirritaðs verði svarað.  Setninguna er ekki hægt að skilja öðruvísi en embætti Landlæknis muni svara athugsemdum undirritaðs, væntanlega með með endanlegri álitsgerð. Næsta skref við málsmeðferðina var því ótvírætt hjá embætti Landlæknis.

4. Í bréfi embættisins frá 21. júní 2011 er beðist afsökunar því að athugsemdum undirritaðs hafi ekki verið svarað í 8 1/2 mánuð. Þarna er ekki enn orðin til sú skýring að embættið hafi verið að bíða eftir gögnum frá undirrituðum eða umbjóðanda mínum allan þennan tíma.“orðin til sú skýring að embættið  hafi verið að bíða eftir gögnum frá undirrituðum  eða umbjóðanda mínum allan þennan tíma.“

Þá kemur fram að gögn málsins tali sínu máli og að Embætti landlæknis geti ekki búið til skýringar eftir á um tafir málsins.

Þá er í bréfi kæranda, dags. 18. október 2011, gerðar athugsemdir varðandi endurskoðunarheimildir ráðuneytisins. Embætti landlæknis hafi einungis talið  málsmeðferð embættisins sæta endurskoðun ráðuneytisins og þar af leiðandi verði ekki fjallað um efnislegar athugsemdir við niðurstöðu Embættis landlæknis. Kærandi telur framangreinda túlkun landlæknis ranga. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til 6. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007, og ákvæða 19. og 26. gr. stjórnsýslulaga. Efnislega niðurstaðan ein sé það sem skipti kæranda máli.

Kærandi sendi viðbótargögn með bréfi dags. 13. nóvember 2011, þ.e  rannsóknarniðurstöður segulómunar.

 

Málsástæður og lagarök Embættis landlæknis.

Í álitsgerð Embættis landlæknis, dags. 12. ágúst 2010, kemur meðal annars fram að kvörtun kæranda beindist að mistökum B, læknis. Embættið hafi óskað eftir greinargerð C,  í lækningum, sem barst embættinu þann 21. júní 2010 sem Embætti landlæknis gerði að sinni.

Embætti andlæknis komst að þeirri niðurstöðu sem byggðist á gögnum málsins og sem talin voru fullnægjandi, að reynt hafi verið að bregðast við vanda kæranda á faglegan hátt og „lengra verði ekki komist í rannsókn þessari.“  Þá taldi embættið ekki ástæðu til frekari aðgerða og að málinu væri lokið, nema til kæmu andmæli frá kæranda.

Með bréfi Embættis landlæknis til kæranda, dags. 21. júní 2011, var staðfest móttaka á bréfi, dags. 8. júní 2011, og beðist velvirðingar á að ekki hafi verið brugðist við bréfi kæranda dags. 27. ágúst 2010. Þá er bréf B,  ásamt afriti úr sjúkraskrá sent kæranda. Í áðurnefndu bréfi landlæknis var boðuð frekari skoðun á máli kæranda og að greinargerð yrði send síðar í júnímánuði.

Í greinargerð Embættis landlæknis sem dagsett er 23. júní 2010 kemur m.a. fram að embættinu hafi borist athugsemdir kæranda, dags. 27. ágúst 2010, við álitsgerð embættisins, dags. 12. ágúst 2010. Þá hafi borist nýjar upplýsingar í málinu þann 11. september 2010 og ítrekun dags. 9. júní 2011, um að fá svör við athugsemdum kæranda. Í niðurstöðu ítrekar landlæknir það álit sitt að ekki hafi orði læknisfræðileg mistök, vanræksla eða ámælisverð framkoma læknis við kæranda.

Í bréfi Embættis landlæknis, dags. 5. október 2011, til velferðarráðuneytisins varðandi framangreinda kæru kemur meðal annars fram að embættið hafi gefið út álit í málinu en ekki ákvörðun. Sé álitið „opinbert skjal og megi nota samkvæmt því.“

Þá segir að samkvæmt kæru komi fram undir I. lið að kærandi geri athugasemdir við form greinargerðar landlæknis og málsmeðferðina, þ.e. að hún standist ekki 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða.

Þá kemur fram í framangreindu bréfi landlæknis til velferðarráðuneytisins:

„Samkvæmt gögnum málsins sendi A, kæru/kvörtun til Landlæknisembættisins vegna mistaka B, læknis, Orkuhúsinu, Suðurlandsbraut 34, dags. 03.02.2010.

Þann 08.03.2010 sendi Landlæknisembættið mál A, til B, læknis og óskaði eftir greinargerð ásamt afriti af færslum í sjúkraskrá, niðurstöðum rannsókna, aðgerðarlýsingu og læknabréfum er varða atvik málsins. Þann 15.02.2010 barst svarbréf frá B, lækni.

17.03.2010 óskaði Landlæknisembættið eftir sérfræðiáliti varðandi málið.

18.06.2010 barst svar frá sérfræðingnum.

12.08.2010 var álit landlæknis í máli þessu skráð og sent kæranda og kæruþola.

31.08.2010 bárust Landlæknisembættinu athugsemdir frá A.

11.09.2010 bárust Landlæknisembættinu frekari málsgögn frá A.

19.10.2010 sendi Landlæknisembættið gögn málsins lögfræðiskrifstofunni Landslög.

Ekkert er frekar skráð um þetta mál hjá Landlæknisembættinu fyrr en 09.06.2011 en þá kemur ítrekuð athugsemd A, frá 31.08.2010. Engin viðbrögð bárust frá A, eða lögfræðingum hans til Landlæknisembættisins í 8 1/2 mánuð frá 19.10.2010 til 09.06.2011.

Eftir móttöku bréfs kæranda dags. 9. júní 2011 hafi málið verið aftur tekið fyrir hjá embættinu. Endanlegt álit hafi síðan verið sent kæranda.

Hvað varði það að málsmeðferðin standist ekki fyrirmæli 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða telur embættið að hann hafi verið eðlilegur að undanskilum þeim átta og hálfum  mánuði sem embættið hafi beðið viðbragða fá kæranda eftir að gögn málsins hafi verið send honum þann 19. október 2010. Töfin hafi verið vegna afskiptaleysis kæranda af málinu, en ekki vegna viljandi tafa hjá embættinu.

Hvað varðar athugsemd kæranda um að  bréf ásamt gögnum hafi verið dagsett tveimur dögum fyrir endanlega álitsgerð Embættis landlæknis, sé því til að svara að öll gögn málsins hafi verið send kæranda þann 19. október 2010, en greinargerð aðgerðarlæknis hafi verið send um leið og endanleg álitsgerð embættisins, einungis til áréttingar.

Þá komi fram í kæru, að greinargerð Embættis landlæknis uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar séu til uppbyggingar úrskurðar, en rökstuðningur sé nær enginn og vísað til 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga sem fjalli um rökstuðning. Embætti landlæknis geti ekki fallist á framangreindar fullyrðingar. Aflað hafi verið allra gagna, leitað álits aðgerðarlæknis og óháðs sérfræðings. Landlæknir hafi síðan gefið út álit sitt á grundvelli ályktana af lýsingum kæranda og málflutningi svo og sérfræðiáliti.

Þá vísar embættið til 6. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007, en þar sé kveðið á um heimild til að kæra málsmeðferð landlæknis til velferðarráðuneytisins.

Í athugasemdum Embættis landlæknis, dags. 31. október 2011, varðandi athugsemdir kæranda, dags. 18. október 2011, við greinargerð embættisins, dags. 5. október 2011, kemur meðal annars fram kvað varðar álit kæranda á að búið sé að snúa öllum málatriðum við, bendir hann á .að í ljósi þess að kæranda hafi verið send öll gögn málsins hafi verið eðlilegt að bíða viðbragða kæranda áður en bréfi kæranda, dags. 27. ágúst 2010, yrði svarað. Embætti landlæknis telur þó, að svo virðist sem embættið hafi verið að bíða eftir viðbrögðum kæranda og kærandi eftir viðbrögðum Embættis landlæknis. Biðji Embætti landlæknis aftur forláts á þessum töfum á framgangi málsins, sem sé vegna sambandsleysis milli Embættis landlæknis og kæranda.

Hvað varðar athugsemdir kæranda um heimildir ráðuneytisins til að endurskoða ákvörðun Embættis landlæknis þá bendi embættið á að  ekkert nýtt hafi komið fram í málinu.

 

Niðurstaða.

Kæran lýtur að málsmeðferð Embættis landlæknis vegna kvörtunar til embættisins, dags. 3. febrúar 2010. Kvörtunin beindist að B, lækni, en kærandi gekkst undir aðgerðir hjá honum í lok mars 2008 og 28. maí 2008. Í kæru er gerð krafa um að ráðuneytið endurskoði mál kæranda og felli úr gildi álitsgerð embættisins og greinargerð um álitsgerð. Í bréfi kæranda, dags. 18. nóvember 2011, kemur fram að athugsemdir hans lúti að tveimur atriðum, þ.e. málshraða Embættis landlæknis og heimildum ráðuneytisins til endurskoðunar á ákvörðunum Embættis landlæknis.

Um kvartanir til Embættis landlæknis fer samkvæmt ákvæðum 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, og segir þar í 5.-6. mgr.:

„Landlæknir skal að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Er viðkomandi sérfræðingum, svo og landlækni sjálfum, rétt að kalla sjúkling til skoðunar ef sérstök ástæða þykir til. Um meðferð kvartana gilda að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt. Að lokinni málsmeðferð gefur landlæknir skriflegt álit. Landlæknir skal í áliti sínu tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu sinni. Aðalniðurstöðu skal draga saman í lok álits.

Heimilt er að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæði þessu til ráðherra.“

Í ákvæðinu er sérstaklega kveðið á um að þær málsmeðferðarreglur sem ber að fylgja eftir því sem við getur átt. Landlæknir gefur út skriflegt álit, að lokinni málsmeðferð samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga, sem byggist á læknisfræðilegri niðurstöðu. Álit sitt skal landlæknir að jafnaði byggja á umsögn frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum. Þá er í ákvæðinu sérstaklega tekið fram að stjórnsýslulög gildi að öðru leyti en því sem fram kemur í ákvæðinu um málsmeðferð Embættis landlæknis. Einungis málsmeðferð Embættis landlæknis er kæranleg til ráðherra, en ekki efnisleg niðurstaða.

Í 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er gildissvið laganna afmarkað. Lögin gilda þegar stjórnvald tekur ákvörðun um rétt eða skyldur manna.

Stjórnvaldsákvörðun er tekin í skjóli stjórnsýsluvalds og beinist milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum og með henni er kveðið á um rétt eða skyldur aðila í ákveðnu fyrirliggjandi máli. Þetta sjónarmið greinir stjórnvaldsákvörðun frá álitum og umsögnum stjórnvalda sem ekki hafa bindandi réttaráhrif fyrir aðila máls.

Umfjöllun ráðuneytisins varðar því eingöngu hvort landlæknir hafi farið að lögum og gætt reglna stjórnsýslulaga og 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu við meðferð málsins, en ekki er fjallað efnislega um kvartanir. Kærandi krefst þess að ráðuneytið endurskoði mál hans, en ekki er unnt að verða við þeirri kröfu nema að því er varðar málsmeðferð.

Ráðuneytið hefur farið yfir öll fyrirliggjandi gögn málsins svo og málsmeðferð landlæknis. Í 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu er mælt svo fyrir um að landlæknir skuli að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð.  Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.

Eftir að hafa leitað umsagnar hjá lækni þeim er kvörtunin laut að, fór landlæknir þess á leit við óháðan sérfræðing að veita álit á meðferðinni sem kvartað var yfir. Embætti landlæknis gaf síðan út álitsgerð embættisins í máli kæranda. Í álitsgerðinni kom fram að málinu væri lokið nema andmæli málsaðila myndu berast embættinu innan fjögurra vikna frá dagsetningu álitsgerðar. Athugasemdir kæranda bárust Embætti landlæknis með bréfi, dags. 27. ágúst 2010, varðandi álitsgerð embættisins, dags. 12. ágúst 2010. Embætti landlæknis tilkynnti kæranda með bréfi, dags.19. október 2010, að hann hefði móttekið bréf kæranda, dags. 27. ágúst 2010, ásamt umboði svo og bréf, dags. 11. september 2010. Embætti landlæknis sendi kæranda ennfremur gögn málsins. Með bréfi, dags. 8. júní 2011, sendi kærandi ítrekun til embættisins, þar sem fram kemur að tæpt ár sé liðið frá því að athugsemdir við álitsgerð Embættis landlæknis, dags. 27. ágúst 2010, voru sendar. Embættið svaraði bréfi kæranda frá 8. júní 2010 með bréfi, dags. 21. júní 2011. Með bréfinu er sent bréf B, ásamt sjúkraskrá kæranda. Boðað var í bréfinu að greinargerð Embætti landlæknis yrði send síðar í mánuðinum. Embætti landlæknis lauk málinu með greinargerð, dags. 23. júní 2011, þar sem ítrekað er það álit embættisins að ekki hafi verið um læknisfræðileg mistök eða vanrækslu að ræða, né ámælisverð framkoma læknis við sjúkling.

Kærandi telur að málsmeðferðin standist ekki ákvæði 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða. Þar er kveðið á um að afgreiða skuli mál eins fljótt og unnt er. Almenna reglan er sú að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.  Ennfremur er gerð sú krafa að mál sé rannsakað á viðhlítandi hátt. Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu skal landlæknir að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Embætti landlæknis óskaði með bréfi, dags. 17. mars 2010, eftir umsögn óháðs sérfræðings í bæklunarskurðlækningum. Umsögnin barst embættinu með bréfi, dags. 18. júní 2010, eða þremur mánuðum síðar. Ekki er að finna í gögnum málsins ítrekun á framangreindri beiðni embættisins.

Með vísan til gagna málsins og málavaxta er það mat ráðuneytisins að of langur tími hafi liðið frá því að Embætti landlæknis barst kvörtun kæranda þann 3. febrúar 2010 og þar til embættið landlæknir sendi kæranda greinargerð, dags. 23. júní 2011, þar sem álit embættisins frá 12. ágúst 2010 var staðfest. Virðist þó hafa verið um misskilning af hálfu málsaðila að ræða, þar sem beðið var eftir viðbrögðum hvors annars. Það er því niðurstaða ráðuneytisins að málsmeðferð Embættis landlæknis hafi ekki samrýmst málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Ekki verði heldur af gögnum málsins séð að embættið hafi sent kæranda tilkynningu eða skýringu á töfum málsins eins og  kveðið er á um í 3.mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. 

Í 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er kveðið á um að þegar stjórnvaldsákvörðun er tilkynnt skriflega skuli veita upplýsingar um kæruheimild, kærufresti og hvert beina skuli kæru. Embætti landlæknis upplýsti kæranda í upphafi máls um kæruheimild til ráðherra, eða í bréfi, dags. 8. febrúar 2010, þar sem tilkynnt er um móttöku kvörtunarinnar. og að kærufrestur væri þrír mánuðir frá því að aðila væri tilkynnt um niðurstöðu máls. Í bréfi Embættis landlæknis frá 12. ágúst 2010, þar sem lögmanni kæranda er tilkynnt um lok málsins, nema athugsemdir berist frá kæranda, er einnig að finna slíkar leiðbeiningar. Hvorki er þó að finna  leiðbeiningar í bréfi Embættis landlæknis, dags. 21. júní 2011, þar sem tilkynnt er móttaka á bréfi kæranda dags. 8. júní 2011 og upplýst að mál kæranda sé í vinnslu hjá embættinu, né í bréfi embættisins, dags. 23. júní 2011, þar sem framangreint álit, dags.12. ágúst 2010,  „Greinargerð um álitsgerð Landlæknisembættisins í máli A,“ er ítrekað og hver niðurstaðan sé.

Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga ber að veita upplýsingar um kæruheimild og kærufrest þegar ákvörðun er tilkynnt og getur tilkynning í upphafi málsmeðferðar ekki komið í stað slíkrar tilkynningar. Kæra barst þó ráðuneytinu innan þriggja mánaða, eða með bréfi kæranda, dags. 5. september 2011, og því ljóst að þessi ágalli á málsmeðferð embættisins hefur ekki valdið kæranda réttarspjöllum. Ráðuneytið beinir því til Embættis landlæknis að veita framvegis leiðbeiningar um kæruheimild og kærufrest þegar tilkynnt er um niðurstöðu máls.

Í 4.- 6. málsl. 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu eru gerðar ákveðnar formkröfur til álits landlæknis. Það skal vera skriflegt og landlæknir skal í áliti sínu tilgreina efni kvörtunar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu sinni. Aðalniðurstöðu skal draga saman í lok álits.

Endanlegt álit landlæknis var tilkynnt með bréfi til lögmanns kæranda, dags. 23. júní 2011, þar sem meðal annars eftirfarandi kemur fram:

„Greinargerð um álitsgerð Landlæknisembættisins í máli A.

Frá því að álitsgerð Landlæknisembættisins var skrifuð þann 12.08.2010 hafa embættinu borist athugsemdir frá Landslögum - lögfræðistofu f.h. A, [...] dags. 27.08.210, nýjar upplýsingar í málinu þann 11.09.2010 og síðan ítrekun um að fá svör Landlæknisembættisins við athugsemdum lögfræðistofunnar þann 09.06.2011. Þann 23.06.2011 sendi Landlæknisembættið lögfræðiskrifstofunni greinargerð læknisins B, og færslur hans í sjúkraskrá Orkuhúsinu, þar eð kvartað var um það í athugsemdum lögfræðiskrifstofunnar að ofangreind gögn hefðu ekki fylgt álitsgerð Landlæknisembættisins.“

Síðan er í framangreindu bréfi rakinn ferill læknismeðferðar kæranda og afleiðingar hennar.

Í niðurstöðu kemur fram að Embætti landlæknis ítrekar fyrra álit sitt um að ekki hafi orði „læknisfræðileg mistök, ekki vanræksla læknis og því síður ámælisverð framkoma læknis við sjúkling.“

Áður hafði landlæknir sent kæranda álit sitt, dags. 27. ágúst 2010, þar sem efni kvörtunar er tiltekið. Niðurlag álitsgerðarinnar er eftirfarandi:

„Landlæknisembættið telur málsgögn fullnægjandi og lengra verði ekki komist í rannsókn þessari.  Landlæknisembættið telur ekki ástæðu til frekari aðgerða og er málinu lokið nema til komi andmæli frá málsaðilum.“

Að mati ráðuneytisins eru ákvæði 5. og 6. málsl. 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, um að tilgreina skuli efni kvörtunar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu, og að aðalniðurstöðu skuli draga saman í lok álits, ekki uppfyllt í áliti landlæknis sem fram kemur í fyrrgreindum bréfum. Verður að telja að með lagaákvæðinu hafi ætlunin verið að mæla skýrt fyrir um málsmeðferð landlæknis í kvörtunarmálum. Verður ekki séð að fyrirmælum þessum hafi verið fylgt í máli kæranda. Með hliðsjón af framangreindum athugasemdum telur ráðuneytið meinbugi á málsmeðferð og því sé ástæða til að vísa málinu  til nýrrar meðferðar hjá landlækni, og til útgáfu nýs rökstudds álits þar sem tekið sé tillit til þeirra sjónarmiða sem fram koma hér að framan.

Með hliðsjón af ofangreindum athugasemdum beinir ráðuneytið því til Embættis landlæknis að gefa út rökstutt álit í máli kæranda þar sem gætt verði að formkröfum 5. og 6. málsl. 5. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðsheilsu. Þá verði jafnframt gætt að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um málsmeðferð, einkum 9. gr. og 2. mgr. 20. gr. laganna.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu kæranda, A, um endurskoðun máls hans, er vísað frá að því er varðar efnisþátt málsins. Málinu er vísað til landlæknis á ný til útgáfu á rökstuddu áliti í samræmi við formkröfur laga um landlækni og stjórnsýslulaga.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum