Hoppa yfir valmynd
12. janúar 2012 Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018, Heilbrigðisráðuneytið

Synjun um starfsleyfi kærð

Fimmtudaginn 12. janúar 2012 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú r s k u r ð u r

Með bréfi dags. 24. maí 2011, kærði  A, (hér eftir nefndur kærandi), til velferðarráðuneytisins nýja ákvörðun Landlæknisembættisins frá 2. mars 2011, að synja kæranda um starfsleyfi sem B samkvæmt umsókn dags. 26. júní 2008.

 

Kröfur

Kærandi gerir þær kröfur að ákvörðun um synjun Landlæknisembættisins dags. 24. maí 2011 verði felld úr gildi og að velferðarráðuneytið geri landlæknisembættinu að veita kæranda starfsleyfi sem B þar sem engin lagaleg rök hafa verið færð fyrir því að kæranda skuli synjað um starfsleyfi.

Til vara óskar kærandi eftir því að velferðarráðuneytið feli Embætti landlæknis að taka umsóknina aftur til umfjöllunar og að tekið verði sérstaklega fram hvernig túlka beri það atriði laga um B  nr. 40/1976 sem ágreiningur stendur um, þ.e. varðandi breidd náms.

 

Málsmeðferð ráðuneytisins

Ráðuneytið óskaði með bréfi dags. 2. ágúst 2011 eftir umsögn Embættis landlæknis og gögnum varðandi málið. Umsögn Embættis landlæknis ásamt  gögnum barst velferðarráðuneytinu með bréfi, dags. 23. ágúst 2011. Kæranda var með bréfi dags. 6. september 2011 send umsögn Embættis landlæknis ásamt gögnum og gefinn kostur á að koma að athugasemdum.  Athugasemdir kæranda bárust ráðuneytinu með bréfi dags. 22. september 2011. Embætti landlæknis var með bréfi dags. 27. september 2011 gefinn kostur á að koma að athugasemdum, einkum hvað varðar túlkun og rök námsmatsnefndar C Íslands og Embættis landlæknis á breidd náms. Svar landlæknis barst með bréfi dags. 24. október 2011.

 

Málavextir

Mál þetta á sér nokkra forsögu sem nauðsynlegt er að rekja. Þann 2. nóvember 2009 kærði kærandi til heilbrigðisráðuneytisins þá ákvörðun landlæknis frá 3. september 2009 að synja kæranda um starfsleyfi sem B vegna sama máls og hér er til meðferðar. Ráðuneytið kvað upp úrskurð í því máli 12. apríl 2010. Í þeim úrskurði var ákvörðun landlæknis um synjun á útgáfu starfsleyfi sem B til handa kæranda felld úr gildi og landlækni falið að taka málið upp að nýju og leggja þau sjónarmið til grundvallar sem fram komu í niðurstöðu í úrskurði heilbrigðisráðuneytisins. Í niðurstöðu úrskurðarins kemur meðal annars fram að í málinu liggi fyrir ágreiningur um hvernig túlka beri ákvæði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 40/1976, um B. Í  2. gr. laganna og greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um B komi ekki fram krafa um að nám sé á sviði klínískrar D. Í niðurstöðu úrskurðarins kom einnig fram að í lögum um B sé ekki tilgreint á hvaða  áherslusviðum námið skuli stundað né hversu mörgum sviðum. Í greinargerð með frumvarpinu komi hins vegar fram skýr viðmið um við hvaða prófgráður frá erlendum háskólum skuli miðað. Landlækni beri því að meta nám kæranda með hliðsjón af framangreindum viðmiðum. Samkvæmt 2. gr. laganna skuli bera nám kæranda saman við kandídatspróf eða annað hliðstætt próf í D eða L sem aðalgrein við háskóla á Norðurlöndunum. Þá kom fram í framangreindum úrskurði að áður en synjað sé um starfsleyfi þurfi að fara fram samanburður á inntaki og lengd náms, þar sem ekki sé í 1. mgr. 2. gr. laga um B um tæmandi upptalningu að ræða á þeim kröfum sem uppfylla þarf. Rúmt orðalag ákvæðisins krefjist þess af leyfisveitanda að hann framkvæmi ítarlegt mat á námi. Þá segir í niðurstöðu úrskurðarins:

„Ráðuneytið telur að grundvöllur samanburðar á menntun kæranda sé ekki einungis kandídatsnám í D við Háskóla Íslands heldur einnig, samkvæmt orðalagi 1. mgr. 2. gr. laga um B, próf í D frá öðrum háskólum á Norðurlöndunum.“

Landlæknisembættið óskaði með bréfi dags. 20. apríl 2010 eftir nýju mati námsmatsnefndar C Íslands. Óskað var eftir að nám kæranda yrði borið saman við próf í D frá háskólum á Norðurlöndunum. Í nýju mati námsmatsnefndar C Íslands dags. 29. nóvember 2010 kom fram að ákveðið hafi verið að óska eftir óháðu mati frá Danmörku, en flestir íslenskir B hafa hlotið menntun sína þar.

Í bréfi dags. 19. nóvember 2010 frá E, prófessor í Árósum kom fram að D til starfsleyfis í Danmörku sé ósérhæft nám og að í kandídatsnáminu sé nemendum veittur breiður grunnur. Þau gögn sem matið byggir á séu upplýsingar um meistaranám kæranda og hafi prófessor B, komist að þeirri niðurstöðu að námsgráða kæranda hafi ekki nauðsynlega breidd.

Þann 2. mars 2011 afgreiddi Embætti landlæknis að nýju umsókn kæranda um starfsleyfi sem B þar sem tekið var tillit til þeirra sjónarmiða sem fram komu í úrskurði heilbrigðisráðuneytisins dags. 12. apríl 2010.

 

Málsástæður og lagarök kæranda

Í kæru til velferðarráðuneytisins dags. 24. maí 2011, og andmælum hans dags. 22. september 2011, óskar kærandi eftir því að úrskurður Embættis landlæknis dags. 2. mars 2011 verði felldur úr gildi og að velferðarráðuneytið geri Embætti landlæknis að veita kæranda starfsleyfi sem B þar sem engin lagaleg rök hafa verið færð fyrir því að synja kæranda  um starfsleyfi.

Til vara óskar kærandi eftir því að velferðarráðuneytið feli Embætti landlæknis að taka umsóknina aftur til umfjöllunar og sérstaklega verði tekið fram hvernig túlka beri það atriði laga um B nr. 40/1976 sem ágreiningur stendur um, þ.e. breidd náms, í endurupptöku máls.

Í kæru kemur fram að kærandi telur aðalágreining í málinu vera um það hvernig túlka beri breidd náms. Landlæknir hafi í tvígang synjað kæranda um starfsleyfi sem B á þeirri forsendu að nám kæranda „spanni ekki sömu breidd og kandídatsnám [sic] við Háskóla Íslands.“

Þá kemur fram að kærandi er sammála því að nám hans spanni ekki þá breidd sem kandídatsnám við Háskóla Íslands spannar, sé stuðst við túlkun námsmatsnefndar C Íslands á breidd náms. Kærandi telur aftur á móti að ef stuðst er við hans túlkun á breidd náms, sem kærandi telur vera réttari, sé ljóst að nám hans spanni sömu breidd og kandídatsnám í D, hvort sem miðað sé við nám við Háskóla Íslands eða háskóla á hinum Norðurlöndunum. Kærandi færir rök fyrir túlkun sinni á breidd náms þannig að námið innihaldi rannsóknartengdan hluta, fræðilegan hluta og vinnu undir handleiðslu. Embætti landlæknis og námsmatsnefnd C Íslands túlki breidd náms þannig að námið þurfi að vera almennt D eða nám á fleiri en einu áherslusviði D.

Í kæru kemur fram að kærandi telur að við afgreiðslu Embættis landlæknis þann 2. mars 2011 hafi ekki verið tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem fram komi í úrskurði heilbrigðisráðuneytisins dags. 12. apríl 2010. Að mati kæranda hefðu þau sjónarmið átt að breyta niðurstöðu landlæknis.

Þá segir í kæru:

„1) Fram hefur komið að ekki sé heimild fyrir því í lögum um B að gera kröfu um það að nám þurfi að vera á tiltekni áherslusviði. Það á væntanlega einnig við um það hvort námið sé almennt D eða ekki, þar sem hvergi í lögum um B nr. 40/1976 eða í greinargerð með þeim er nefnt að nám til starfsréttinda skuli vera almennt D. Þrátt fyrir þetta breytir Landlæknisembættið ekki ályktun sinni um það að nám mitt spanni ekki þá breidd sem kandídatsnám í D spanni því nám mitt sé ekki almennt B.

2) Þrátt fyrir að skýrt sé að túlka beri breidd náms eins og ég hef fært rök fyrir (þar sem um tvær túlkunarleiðir er að ræða þá ber að velja þá sem er kæranda í hag), er ekkert tillit tekið til minnar túlkunar. Ef borin er saman breidd kandídatsnáms í D, túlkuð eins og ég hef fært rök fyrir, við Háskóla Íslands, Árósar Háskóla, Háskólann í Álaborg eða Kaupmannahafnarháskóla, svo nokkrir háskólar séu nefndir, þá er það ljóst og ekki um það ágreiningur að nám mitt er sambærilegt hvað varðar breidd (þ.e. í öllum þessum háskólum samanstendur námið af fræðilegum hluta, rannsóknartengdum hluta og vinnu undir handleiðslu eins og mitt nám er uppbyggt).

3) Ég tel að ekki hafi verið tekið tillit til eðlis og markmiðs laga um B í umfjöllun um umsókn mína. Tilgangur ákvæðis 2. gr. laga um B er að vernda hagsmuni skjólstæðinga þeirra sem fá leyfi til að starfa undir starfsheitinu B. Um þetta er ekki deilt og ég tel mikilvægt að vandað sé til verka þegar slíkt starfsleyfi er veitt þar sem miklir hagsmunir eru í húfi fyrir væntanlega skjólstæðinga sem eru ósjaldan í þeirri stöðu að geta sjálfir illa borið hönd fyrir höfuðs sér. Ekki er heldur um það deilt að starf mitt fellur undir starfssvið D [sjá bréf sem fylgdi upphaflegri umsókn minni um starfsleyfi þann 26.6.2008, undirritað af þremur sérfræðingum í K]. Því bendi ég á að í áliti námsmatsnefndar C  frá 8.1.09 segir að ég hafi „góða menntun og þjálfun“ til að vinna með fólki með þroskafrávik. Það er því vandséð hvaða hagsmuna er verið að gæta með því að neita mér um starfsleyfi sem B. Þær kröfur sem námsmatsnefnd C virðist hanga á að nauðsynlegt sé að gera til menntunar minnar mun að engu bæta við færni mína í þjónustu minni né eru þær til þess fallnar að gæta hagsmuna skjólstæðinga minna. Verið er að fara fram á að ég bæti við mig þekkingu sem hefur ekki með mitt starfssvið að gera. Þessu til stuðnings vísa ég til óháðs álits C, við N Háskóla Íslands, þar sem hún mælti með að mér yrði veitt starfsleyfi. C, hefur í starfi sínu metið nám til löggildingar fyrir hönd N HÍ fyrir námsmatsnefnd C Íslands. Hún er einnig sá kennari N sem þekkir best til míns náms og minnar faggildingar sem „Board Certified Behavior Analyst“. “

Með vísan til framangreindra atriða telur kærandi að nám hans sé sambærilegt við kandídatsnám í D hvað varðar lengd, breidd og dýpt, samkvæmt lögum um B. Kærandi fer fram á að honum verið veitt starfsleyfi án frekari tafa og að úrskurður Embættis landlæknis frá 2. mars 2011 verði felldur úr gildi.

Í andmælabréfi kæranda dags. 22. september 2011 kemur fram að ágreiningur milli hans og Embættis landlæknis snúist um hvort breidd náms kæranda sé sambærileg og nám í D sem viðurkennt er til starfsréttinda. Kærandi telur að Embætti landlæknis sé sammála sér, en hafi ekki fært rök fyrir túlkun sinni á breidd náms. Þá bendir kærandi á að námsmatsnefnd C  Íslands hafi ekki heldur fært rök fyrir túlkun sinni á breidd náms eða hrakið röksemdafærslu kæranda á túlkun hans á breidd náms.

 

Málsástæður og lagarök landlæknis

Ráðuneytið sendi kæru dags. 24. maí 2011, til Embættis landlæknis til umsagnar með bréfi dags. 2. ágúst 2011. Í umsögn landlæknis, dags. 23. ágúst 2011, kemur meðal annars eftirfarandi fram:

Í bréfi landlæknis dags. 2. mars 2011 þar sem umsókn A, um starfsleyfi sem B var synjað í annað sinn, svo og í umsögn vegna fyrri kæru koma ítarlega fram sjónarmið landlæknis við afgreiðslu þessa máls og hefur embættið engu frekar við það að bæta.

Mjög mikil vinna ýmissa aðila, þ.á.m. námsmatsnefndar C Íslands og landlæknis, hefur verið lögð í meðferð umsóknar A.“

Embætti landlæknis var með bréfi, dags. 27. september 2011, sent andmælabréf kæranda, dags. 22. september 2011, og gefinn kostur á að koma að athugasemdum, einkum hvað varðar túlkun á breidd náms, en í andmælabréfinu kemur meðal annars fram að hvorki landlæknir né námsmatsnefnd fært rök fyrir túlkun sinni á breidd náms, sem sé að mati kæranda ágreiningsefnið. Í athugasemdum í bréfi Embættis landlæknis dags. 24. október 2011 kemur m.a. eftirfarandi fram:

„Embætti landlæknis mótmælir þessum fullyrðingum. Í gögnum málsins hefur margoft verið fjallað um breidd náms kæranda miðað við breidd kandídatsnáms. Norrænir háskólar hafa í D sínu valið að hafa breiðari fókus í kandídatsnámi, en kærandi valdi að sérhæfa sig strax í Bandaríkjunum að loknu BA námi.“

Þá kemur fram af hálfu Embættis landlæknis að námsmatsnefnd C Íslands hafi á sínum tíma gert ítarlegan samanburð á námi kæranda og námi við Háskóla Íslands. Það hafi verið mat nefndarinnar og landlæknis að nám kæranda „spannaði ekki þá breidd sem kandídatsnám við Háskóla Íslands felur í sér.“ Nám kæranda hafi verið mjög sérhæft framhaldsnám. Samkvæmt námskrá Háskóla Íslands hafi nám kæranda verið jafngilt að lengd kandídatsnáms, en breidd námsins væri ekki í samræmi við breidd þess kandídatsnáms sem krafist sé hér á landi. Kandídatsnám hér á landi sé almennt nám sem feli ekki í sér sérhæfingu. Þá kemur fram í framangreindu bréfi Embættis landlæknis að nám kæranda hefði mikla dýpt á mjög sérhæfðu sviði. Ekki hafi í úrskurði heilbrigðisráðuneytisins dags. 12. apríl 2010, verið gerðar athugsemdir við framangreindan rökstuðning landlæknis. Aftur á móti komi fram í niðurstöðu úrskurðarins að ekki komi fram í lögum um B á hvaða áherslusviðum nám skuli stundað eða hversu mörgum, heldur sett fram skýr viðmið við hvaða prófgráður frá erlendum háskólum skuli miðað.

Þá segi í bréfi Embættis landlæknis dags. 24. október 2011:

Ráðuneytið telur að grundvöllur samanburðar á menntun kæranda sé ekki einungis kandídatsnám í D við Háskóla Íslands heldur einnig, samkvæmt orðalagi 1. mgr. 2. gr. laga um B, próf í D frá öðrum háskólum á Norðurlöndum. Því var það að Námsmatsnefnd C Íslands fékk ítarlegri upplýsingar og samanburð náms kæranda við nám á Norðurlöndunum, áður en umsóknin var afgreidd að nýju.“

Þá er bent á af hálfu Embættis landlæknis það sem fram kemur í bréfi B, prófessors í Árósum, dags. 19. nóvember 2010, þ.e að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi námsgráðan ekki nægilega breidd. Þá skorti nægilega dýpt og breidd á sviði klínískrar sálfræði og dýpt á sviði vinnu- og/eða uppeldissálfræði. Þá vísar Embætti landlæknis til hinna fjölmörgu gagna málsins, en þar sé víða fjallað um breidd náms kæranda.

 

Niðurstaða ráðuneytisins

Kæran lýtur að synjun Embættis landlæknis um útgáfu á starfsleyfi til handa kæranda sem B. Kærandi gerir þær kröfur að ráðuneytið felli úr gildi synjun embættisins, dags. 2. mars 2011, og Embætti landlæknis gert að veita honum starfsleyfi sem B án frekari tafa. Til vara krefst kærandi þess að embættinu verði falið að taka umsókn kæranda „aftur til umfjöllunar og sérstaklega verði tekið fram hvernig túlka beri það atriði laga um B  nr. 40/1976 sem ágreiningurinn stendur um (þ.e. breidd náms) í endurupptöku málsins.“

Kærandi telur að ekki sé heimild fyrir því í lögum um B né í greinargerð með frumvarpi til laga um B að gerð sé krafa um að námið þurfi að vera á tilteknu áherslusviði eða að námið sé almennt D.

Kærandi telur ennfremur að túlka beri breidd náms eins og hann færir rök fyrir, þar sem um tvær túlkunarleiðir sé að ræða og beri því að velja þá leið sem sé kæranda í hag. Embætti landlæknis hafi ekki tekið tillit til túlkunar kæranda. Þá telur kærandi að ekki sé ágreiningur um að nám hans sé sambærilegt hvað varðar breidd við kandídatsnám við Háskóla Íslands svo og háskóla á Norðurlöndum.

Þá telur kærandi að við umfjöllun um umsókn hans um starfsleyfi sem B hafi ekki verið tekið tillit til markmiðs laga um B, en tilgangur ákvæðis 2. gr. laganna sé að vernda hagsmuni skjólstæðinga þeirra sem fá starfsleyfi sem B. Jafnframt kemur eftirfarandi fram af hálfu kæranda: „Um þetta er ekki deilt og ég tel mikilvægt að vandað sé til verka þegar slíkt starfsleyfi er veitt þar sem miklir hagsmunir eru í húfi fyrir væntanlega skjólstæðinga sem eru ósjaldan í þeirri stöðu að geta sjálfir illa borið hönd fyrir höfuðs sér. [...] „Því bendi ég á að í áliti námsmatsnefndar C  frá 8.1.09 segir að ég hafi „góða menntun og þjálfun“ til að vinna með fólki með þroskafrávik. Það er því vandséð hvaða hagsmuna er verið að gæta með því að neita mér um starfsleyfi sem B.“ Þá kemur fram að kærandi telur að krafan um að hann bæti við sig þekkingu hafi ekkert með hans starfssvið að gera. Í kæru kemur og fram að kærandi telur að ekki hafi við afgreiðslu Embættis landlæknis þann 2. mars 2011 verið tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem fram komi í úrskurði heilbrigðisráðuneytisins dags. 12. apríl 2010.

Í afgreiðslu landlæknis, dags. 2. mars 2011, á umsókn kæranda um starfsleyfi sem B svo og athugsemdum hans, dags. 24. október 2011, segir m.a. að í niðurstöðu úrskurðar heilbrigðisráðuneytisins dags. 12. apríl 2010, komi ekki fram í lögum um B á hvaða áherslusviðum nám skuli stundað né á hversu mörgum sviðum. Aftur á móti komi fram skýr viðmið í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögunum, við hvaða prófgráður skuli miðað frá erlendum háskólum. Þá komi skýrt fram að veita megi leyfi þeim sem lokið hafi „kandídatsprófi eða öðru hliðstæðu prófi í D eða L  sem aðalgrein frá háskóla á Norðurlöndum eða sambærilegu prófi við aðra háskóla, hvort tveggja að fenginni umsögn C  Íslands.“ Beri Embætti landlæknis því við mat sitt á námi kæranda að hafa hliðsjón af þeim sjónarmiðum.

Í framangreindum úrskurði heilbrigðisráðuneytisins dags. 12. apríl 2010 kemur fram að ráðuneytið telji að grundvöllur samanburðar á menntun kæranda einskorðist ekki við kandídatsnám í D við Háskóla Íslands heldur einnig, samkvæmt. orðalagi 1. mgr. 2. gr. laga um B, Ó frá öðrum háskólum á Norðurlöndum. Embætti landlæknis  hafi því með vísan til 2. gr. laga um B óskað eftir nýju mati námsmatsnefndar C Íslands, þar sem nám kæranda væri borið saman við próf frá öðrum háskólum á Norðurlöndum. Í umsögn námsmatsnefndar C Íslands dags. 29. nóvember 2010 kom fram að „námsmatsnefndin hafi ákveðið að leita eftir óháðu mati frá Danmörku en það sé það Norðurlanda sem flestir íslenskir B  hafi hlotið menntun í.“ Þá kom fram í áðurnefndri umsögn námsmatsnefndar að svar hefði borist frá E, prófessor og Merit- og Optagelsekoordinator, Psykologisk Institut, Háskólanum í Árósum. Í bréfi Embættis landlæknis, dags. 2. mars 2011, kemur og fram að í bréfi háskólans í Árósum sé D sem veitir starfsleyfi í Danmörku ósérhæft nám. Kandídatsnámið feli í sér að miðað sé að því að nemendum sé veittur breiður grunnur. Niðurstaða matsins var að námsgráða kæranda hafi ekki þá nauðsynlegu breidd. Matið var byggt á upplýsingum um meistaranám kæranda í hagnýtri atferlisgreiningu frá Northeastern háskólanum í Boston.

Þá segir í afgreiðslu Embættis landlæknis frá 2. mars 2011:

„Niðurstaða mats Háskólans í Árósum er í meginatriðum sú sama og námsmatsnefnd C komst að, enda var nám umsækjanda allt frá upphafi borið saman við kandídatsnám á Norðurlöndum, auk Íslands, þó nákvæmur samanburður hafi ekki verið birtur. Rétt er að benda á að kandídatsnám er að öllu jöfnu svipað í sniði á Norðurlöndunum. Það er því mat námsmatsnefndar C að A, uppfylli ekki ákvæði laganna og mælir því ekki með veitingu starfsleyfis sem B. Námsmatsnefnd hvetur A,  til að leita til háskóla sem býður upp á kandídatsnám og bæta við nám sitt því sem upp á vantar og sækja um starfsleyfi að nýju þegar því er lokið.“

Í framangreindri afgreiðslu embættisins er einnig vísað í bréf námsmatsnefndar C Íslands, dags. 7. janúar 2011. Í bréfinu kemur eftirfarandi fram:

C  Íslands hefur í tvígang (30. október 2008 og 27. apríl 2010), áður en það leitaði formlega til danskra yfirvalda um mat á umsókn umsækjanda, leitað óformlega til allra F Norðurlandanna eftir upplýsingum um það hvort nám umsækjanda teldist fullnægjandi til leyfisveitingar í þeirra landi. Þetta var gert með vísan í greinargerð með 2. gr. laga um B nr. 40/1976 þar sem segir: „Aðalkrafan, sem gerð er, er menntunarkrafa og er miðað við þá meginreglu að ekki skuli gerð minni krafa en á Norðurlöndunum.“ Svör við þessu óformlega erindi, frá G chief of professional [sic] affairs hjá danska F, H,  framkvæmdastjóra sænska F,   chief of professional affairs há norska sálfræðingafélaginu og G, chief of professional affairs hjá finnska sálfræðingafélaginu voru afgerandi. Umsækjandi með þessa menntun fengi ekki löggildingu á hinum Norðurlöndunum.“

Þá kemur fram í afgreiðslu Embættis landlæknis, að ítarlegur samanburður hafi verið gerður á sínum tíma af námsmatsnefnd Sálfræðingafélags Íslands og að það hafi verið niðurstaða þess mats að nám kæranda spanni ekki þá breidd sem nám í sálfræði við Háskóla Íslands feli í sér. Nám kæranda sé mjög sérhæft framhaldsnám, jafngilt að lengd samkvæmt því sem tilgreint er í námskrá Háskóla Íslands, en breidd náms kæranda sé ekki í samræmi við breidd kandídatsnáms við Háskóla Íslands, sem sé almennt nám sem felur ekki í sér sérhæfingu. Auk þess hafi nám kæranda mikla dýpt, „en á mjög sérhæfðu sviði.“ Ekki hafi í úrskurði heilbrigðisráðuneytisins verið gerðar athugasemdir við þennan rökstuðning námsmatsnefndar. Námsmatsnefnd hafi einnig borið nám kæranda saman við nám á öðrum Norðurlöndum, sérstaklega hafi verið óskað eftir samanburði við nám frá Danmörku, en niðurstaða Háskólans í Árósum hafi í aðalatriðum verið sú sama og námsmatsnefndar. Upplýsinga hafi einnig verið óskað frá þar til bærum aðilum á Norðurlöndunum um það hvort umsækjendur með B.A. nám í sálfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í hagnýtir atferlisgreiningu frá Northeastern háskólanum í Boston yrði veitt starfsleyfi sem sálfræðingur í þeirra heimalandi. Svörin hafi öll verið á þann veg að á grundvelli tilgreindrar menntunar yrði ekki veitt starfsleyfi í því landi. Að áliti námsmatsnefndar séu þessar upplýsingar mikilvægar einna helst vegna þess að starfsleyfi sem sálfræðingur fær útgefið í einu Norðurlandanna veitir rétt til sambærilegrar viðurkenningar á öðrum Norðurlöndum á grundvelli sambærilegrar menntunar.

Velferðarráðuneytið tekur undir með Embætti landlæknis að framangreindar upplýsingar séu mikilvægar í ljósi þess að samkvæmt Norðurlandasamningi um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir tilteknar heilbrigðis- og hjúkrunarstéttir og dýralækna sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 36/1993, sbr. breytingu nr. 6/2001, veitir starfsleyfi í einu af Norðurlöndunum sambærilega viðurkenningu á hinum Norðurlöndunum. Samningurinn kveður á um að menntun á Norðurlöndunum í þeim starfsgreinum sem hann tekur til, sé í stórum dráttum sambærileg.

Samanburður námsmatsnefndar Sálfræðingafélags Íslands á inntaki náms kæranda við kandídatsnám á Íslandi og hinum Norðurlöndunum var því mikilvægur og rökstuðningur nefndarinnar að mati ráðuneytisins fullnægjandi. Hvað varðar fullyrðingar kæranda á túlkun námsmatsnefndar og Embættis landlæknis á breidd náms kæranda kemur fram í bréfi embættisins, dags. 24. október 2011, að embættið mótmæli fullyrðingum kæranda og að í gögnum málsins hafi margoft verið fjallað um breidd náms kæranda. Vísað er til framangreinds bréfs svo og lagaraka og málsástæðna landlæknis varðandi frekari rök.

Í ljósi framanritaðs þykir ennfremur rétt að benda á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB frá 7. september 2005 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar fellur nám kæranda undir þann hluta sem fjallar um almennt kerfi til viðurkenningar á vitnisburði um nám. Samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar yrði nám sálfræðings vegna umsóknar um starfsleyfi innan EES metið sérstaklega og miðað við þær námskröfur sem gerðar eru til starfsleyfis í viðkomandi ríki.

Eins og að framan greinir telur kærandi að ekki sé heimild fyrir því í lögum um sálfræðinga að gera kröfu um það að nám þurfi að vera á tilteknu áherslusviði né að námið sé almennt sálfræðinám. Hvorki í lögum um sálfræðinga nr. 40/1976 né í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum komi fram að nám til starfsréttinda eigi að vera almennt sálfræðinám.

Ráðuneytið telur að bæði í 2. gr. laga um sálfræðinga svo og í greinargerð með frumvarpinu komi fram skýr viðmið um við hvaða prófgráður skuli miðað frá erlendum háskólum. Hafi Embætti landlæknis því borið við mat sitt á námi kæranda að hafa hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum. Í gögnum málsins kemur skýrt fram að í kandídatsnámi við Háskóla Íslands og við háskóla á Norðurlöndunum sé almennt nám sem felur ekki í sér sérhæfingu. Breidd náms kæranda sé ekki í samræmi við breidd þess kandídatsnáms sem krafist er hér á landi og sé almennt nám.

Þá kemur fram í kæru að kærandi telur að túlka beri breidd náms eins og hann færi rök fyrir, þar sem um tvær túlkunarleiðir sé að ræða.

Ráðuneytið telur, með vísan til framanritaðs og þeirrar miklu vinnu sem lögð hefur verið í að bera nám kæranda saman við kandídatsnám við Háskóla Íslands og háskóla á Norðurlöndunum, ljóst að nám kæranda spannar ekki þá breidd sem kandídatsnám við framangreinda háskóla felur í sér, en samkvæmt lögum um sálfræðinga skal það lagt til grundvallar á samanburði kandídatsnáms.

Kærandi telur að við umfjöllun um umsókn hans um starfsleyfi sem sálfræðingur hafi ekki verið tekið tillit til markmiðs laga um sálfræðinga, en tilgangur ákvæðis 2. gr. laganna sé að vernda hagsmuni skjólstæðinga þeirra sem fá starfsleyfi sem sálfræðingar.

Starfsleyfi sem sálfræðingur veitir viðkomandi handhafa rétt til að starfa við almenn sálfræðistörf, en ekki á tilteknu sérsviði. Nám kæranda hefur mikla dýpt en er mjög sérhæft framhaldsnám. Það er að mati velferðarráðuneytisins mikilvægt að skjólstæðingar sem leita eftir þjónustu sálfræðinga geti treyst því að útgefin starfsleyfi uppfylli skilyrði laga um sálfræðinga um að viðkomandi megi kalla sig sálfræðing. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar um sérfræðileyfi sálfræðinga nr. 158/1990 geta sálfræðingar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sótt um sérfræðiviðurkenningu á einu af eftirfarandi sérsviðum sálfræðinnar, þ.e , klínískrar sálfræði, fötlunarsálfræði, uppeldissálfræði og félags- og skipulagssálfræði. Það er því mat ráðuneytisins að fullt tillit hafi verið tekið til markmiðs 2. gr. laga um sálfræðinga við mat á umsókn kæranda um starfsleyfi sem sálfræðingur.

Velferðarráðuneytið telur því, með vísan til framanritaðs og fyrirliggjandi gagna, að þar sem nám kæranda uppfyllir ekki skilyrði laga um sálfræðinga hafi verið rétt af Embætti landlæknis að synja kæranda um starfsleyfi sem sálfræðingur

Í kæru kemur fram að kærandi telur að ekki hafi verið í afgreiðslu Embættis landlæknis þann 2. mars 2011 tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem fram komi í úrskurði heilbrigðisráðuneytisins dags. 12. apríl 2010. Með úrskurði heilbrigðisráðuneytisins dags. 12. apríl 2010 var synjun Embættis landlæknis á útgáfu starfsleyfis sem sálfræðingur felld úr gildi og embættinu falið að taka málið upp að nýju og leggja til grundvallar í nýrri ákvörðun sinni um útgáfu starfsleyfis þau sjónarmið sem fram koma í framangreindum úrskurði. Velferðarráðuneytið hefur kynnt sér öll gögn málsins og telur að Embætti landlæknis hafi við nýja afgreiðslu sína, dags. 2. mars 2011, tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem fram koma í úrskurði heilbrigðisráðuneytisins, dags.12. apríl 2010. Ennfremur telur ráðuneytið að embættið hafi sinnt rannsóknarskyldu skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kröfu kæranda um að ákvörðun Embættis landlæknis um að synja kæranda um starfsleyfi sem sálfræðingur verði felld úr gildi er hafnað. Varakröfu kæranda um að landlækni verið falið að taka umsókn kæranda aftur til umfjöllunar er ennfremur hafnað.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun landlæknis um synjun á útgáfu starfsleyfis sem sálfræðingur til handa A, er staðfest.

 

 

                                  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum