Hoppa yfir valmynd
13. september 2011 Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018, Heilbrigðisráðuneytið

Krafa um endurskoðun á útgefnu sérfræðileyfi

Þriðjudaginn 13. september 2011 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

Með bréfi dags. 4. apríl 2010, kærði A, (hér eftir nefndur kærandi), til velferðarráðuneytisins þá ákvörðun landlæknis frá 29. mars 2011 að gefa út sérfræðileyfi til handa kæranda í B samkvæmt umsókn dags. 25. janúar 2011, og umsagnar sérfræðinefndar dags. 2. mars 2011. Kærandi óskaði með ódagsettu bréfi, eftir breytingu á fyrri umsókn. Í stað sérfræðileyfis í B hafi kærandi óskað eftir sérfræðileyfi í C.

 

Kröfur.

Kærandi gerir þær kröfur að endurskoðað verði útgefið sérfræðileyfi þar sem sérsviðið B sé „of þröngt og nái ekki að fullu yfir meistarapróf mitt né það sérsvið sem ég starfa við“.  Kærandi fer því fram á að sérfræðinefnd um sérfræðileyfi í sjúkraþjálfun mæli með að kærandi fái sérfræðileyfi í C.

 

Málsmeðferð ráðuneytisins.

Ráðuneytið óskaði með bréfi, dags. 6. apríl 2011, eftir umsögn landlæknis og gögnum varðandi málið. Umsögn landlæknis ásamt öllum fyrirliggjandi gögnum barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 25. maí 2011. Kæranda var með bréfi, dags. 1. júní 2011, send umsögn landlæknis ásamt gögnum og gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir hafa borist ráðuneytinu frá kæranda.

 

Málavextir.

Kærandi sótti um sérfræðileyfi í B til landlæknis þann 25. janúar 2011. Eftir að umsókn hafði borist landlækni barst ósk frá kæranda með ódagsettu bréfi um breytingu á fyrri umsókn um sérfræðileyfi. Í stað sérfræðileyfis í B óskaði kærandi eftir sérfræðileyfi í C. Landlæknir sendi með bréfi dags. 7. febrúar 2011, umsóknina ásamt fylgigögnum til umsagnar til þriggja manna sérfræðinefndar skv. 3. gr. reglugerðar nr. 145/2003. Í umsögn nefndarinnar dags. 2. mars 2011 segir m.a. að nefndin mæli með að kæranda verði veitt leyfi í B. Í bréfi formanns  sérfræðinefndarinnar dags. 3. mars 2011, kemur fram að nefnd „félags sjúkraþjálfara“ sem sé að endurskoða reglugerð nr. 145/2003 um veitingu sérfræðileyfa í sjúkraþjálfun muni  líklega leggja til breytingu á sérfræðiheitinu B og kalla það C „(til samræmis við lækna)“, en kærandi hafi óskað eftir því starfsheiti. Nefndinni finnist þó að fara eigi eftir núgildandi reglugerð, en að landlæknir ráði hvað hann geri. Landlæknir gaf út sérfræðileyfi til handa kæranda í sérgreininni B. Sú ákvörðun landlæknis var kærð til velferðarráðuneytisins með bréfi dags. 4. apríl 2011.          

 

Málsástæður og lagarök kæranda

Í kæru er óskað eftir endurskoðun á útgefnu sérfræðileyfi þar sem sérsvið B sé „of þröngt og nái ekki að fullu yfir meistarapróf mitt né það sérsvið sem ég starfi við“.  Kærandi fer því fram á að sérfræðinefnd um sérfræðileyfi í sjúkraþjálfun mæli með að kærandi fái sérfræðileyfi í C. Í kæru kemur fram að kærandi hafi lokið meistaraprófi í D frá Læknadeild Háskóla Íslands haustið 2008 og starfi nú á Landspítalanum. 

Þá segir í kæru:

Ég er í x% starfi á E-deildum þar sem ég kem að sjúkraþjálfun og fræðslu við vandamálum tengdum F bæði fyrir inniliggjandi og í göngudeild. Auk þess sinni ég göngudeildarþjónustu í X% stöðu fyrir fólk með G vandamál“

Starfsvettvangi kæranda er nánar lýst í kæru. Kærandi stundar auk fræðslustarfa, rannsóknir á G vandamálum, þ.á.m. um króníska verki í G hjá körlum og hyggur kærandi á doktorsnám í greininni í náinni framtíð.

 

Málsástæður og lagarök landlæknis

Í greinargerð landlæknis, dags. 25. maí 2011, er ferli málsins rakið, líkt og gert hefur verið hér á undan. Í umsögninni kemur m.a. fram að í ljósi krafna kæranda í kæru til ráðuneytisins dags. 4. apríl sl. um endurskoðun á útgáfu á sérfræðileyfi hafi landlæknir ákveðið að óska aftur eftir umsögn sérfræðinefndar um það hvort framkomnar  upplýsingar breyttu umsögn nefndarinnar frá 2. mars 2011, en þar var mælt með sérfræðileyfi í B.  Landlæknir tilkynnti ráðuneytinu með bréfi dags. 27. apríl 2011 um framangreinda ósk og að greinargerð yrði ekki send ráðuneytinu fyrr en 20. maí 2011. Í svarbréfi sérfræðinefndarinnar dags.10. maí 2011 kemur fram að ekki sé mælt með breytingu á útgefnu sérfræðileyfi. 

Í greinargerð landlæknis kemur ennfremur fram hvað varðar nánari rökstuðning fyrir afgreiðslu landlæknis að samkvæmt reglugerð nr. 145/2003 séu talin upp tólf svið í klínískri sjúkraþjálfun sem veitt geti sérfræðileyfi.

Þá segir í greinargerð landlæknis:

„Það er lagt í hendur Landlæknisembættisins að ákvarða önnur sérfræðileyfi að fenginni umsögn sérfræðinefndar, þar sem í 2. mgr. 5. gr.  reglugerðar nr. 145/2003 segir: „Leyfilegt er að veita  sérfræðileyfi á öðrum sérsviðum mæli sérfræðinefnd, sbr. 3. gr. með því.“ Að mati landlæknis þurfa sérstök rök að liggja því til grundvallar að veita sérfræðiviðurkenningu í öðrum greinum en taldar eru upp í reglugerðinni[.] Slíkur rökstuðningur var ekki í þessu máli. Í þessu máli mælti sérfræðinefnd ekki með sérfræðileyfi utan hinna 12 tilgreindu sérsviða.  Það var niðurstaða landlæknis að veita bæri sérfræðileyfi samkvæmt gildandi reglugerð, en ekki væri eðlilegt að taka mið af hugsanlegum breytingum á reglugerðinni síðar.“ 

 

Niðurstaða ráðuneytisins

Kæran lýtur að kröfu um að endurskoðað verði útgefið sérfræðileyfi þar sem sérsviðið B sé „of þröngt og nái ekki að fullu yfir meistarapróf mitt né það sérsvið sem ég starfi við“. Kærandi fer því fram á að sérfræðinefnd um sérfræðileyfi í sjúkraþjálfun mæli með að kærandi fái sérfræðileyfi í C.

Í 3. gr. reglugerðar um veitingu sérfræðileyfa í sjúkraþjálfun nr. 145/2003, skal leita umsagnar þriggja manna sérfræðinefndar sem ráðherra skipar. Í 4. gr. eru settar fram þær kröfur sem sjúkraþjálfari þarf að uppfylla til að öðlast sérfræðileyfi á klínískum sérviðum sjúkraþjálfunar. Klínísk sérsvið sem veita má starfsleyfi á eru síðan talin upp í 5. gr. reglugerðarinnar.  Í 2. mgr. 5. gr. segir: „Heimilt er að tilgreina sérsvið eða sérgrein sem viðkomandi hefur sérhæft sig í innan framangreindra aðalgreina.  Leyfilegt er að veita sérfræðileyfi á öðrum sérsviðum mæli sérfræðinefnd sbr. 3. gr. með því.“

Í málinu liggja fyrir gögn frá kæranda um menntun svo og umsagnir þriggja manna sérfræðinefndar. Í 5. gr.  reglugerðarinnar er eitt af klínískum sérsviðum sjúkraþjálfunar B, sem kærandi sótti um, en sendi síðan inn breytingu til landlæknis og óskaði eftir sérfræðiviðurkenningu í C. Umsókn kæranda ásamt gögnum og ósk um breytingu voru sendar til þriggja manna sérfræðinefndar, en hún mælti ekki með útgáfu sérfræðileyfis í C, heldur B.  Nefndin lagði það hins vegar í hendur landlæknis að taka ákvörðun í málinu, en taldi eðlilegast að farið væri eftir gildandi reglugerð. Kæra til ráðuneytisins dags. 4. apríl 2011 var send landlækni til umsagnar og sendi hann kæruna til umsagnar til sérfræðinefndarinnar og óskaði eftir umsögn hennar um það hvort upplýsingar sem þar kæmu fram breyttu fyrri umsögn frá 2. mars 2011, þar sem nefndin mælti með sérfræðileyfi í B. Í umsögn nefndarinnar dags. 10. maí 2011 kemur fram að þeir mæli ekki með breytingu á útgefnu sérfræðileyfi.  Í bréfi formanns sérfræðinefndar til landlæknis dags. s. mars  2011 kemur fram að nefnd sé að störfum á vegum Félags íslenskra sjúkraþjálfara við endurskoðun reglugerðarinnar og komi hún líklega til með að leggja til breytingu á sérfræðiheitinu.

Landlæknir fer sem stjórnvald með ákvörðunarvald við veitingu sérfræðileyfa samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1976. Þriggja manna sérfræðinefnd sem ráðherra skipar er veittur réttur til umsagnar áður en embættið tekur endanlega ákvörðun, en slík umsögn bindur ekki hendur landlæknis. Sú skylda hvílir því á landlækni að gæta þess að laga- og stjórnvaldsfyrirmælum sé fylgt við meðferð slíkra mála. Ljóst er að umsagnir sérfræðinefndar voru byggðar á þeim lagasjónarmiðum sem leiða má af reglugerð nr. 145/2003 um veitingu sérfræðileyfa í sjúkraþjálfun.

Með vísan til framanritaðs er útgáfa landlæknis á sérfræðileyfi í B til handa kæranda staðfest.

 
ÚRSKURÐARORÐ

 Kröfu kæranda um að endurskoðað verði útgefið sérfræðileyfi í B og að sérfræðinefnd um sérfræðileyfi í sjúkraþjálfun mæli með að kærandi fái sérfræðileyfi í C er hafnað. Ákvörðun landlæknis um útgáfu sérfræðileyfis í B til handa A, er hér með staðfest.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum