Hoppa yfir valmynd
30. maí 2011 Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018, Heilbrigðisráðuneytið

Krafa um réttláta málsmeðferð hjá landlækni

Mánudaginn 30. maí 2011 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Með bréfi, dags. 15. nóvember 2010, kærði A (hér eftir nefnd kærandi), til heilbrigðisráðuneytisins málsmeðferð landlæknis vegna kvörtunar kæranda, dags. 25. september 2008, varðandi störf B.

Kröfur

Kærandi krefst þess að kvörtunin fái réttláta málsmeðferð hjá landlækni. Þá krefst kærandi þess að fá afhent gögn úr sjúkraskrá sinni hjá C.

Málsmeðferð ráðuneytisins

Landlækni var með bréfi, dags. 6. desember 2010, gefinn kostur á að koma að greinargerð vegna kærunnar. Ennfremur var mælst til þess að embættið aðstoðaði kæranda við að fá aðgang að gögnum er varða mál hans og eru geymd hjá C. Með bréfi, dags. 15. desember 2010, óskaði landlæknisembættið eftir frekari rökstuðningi við kæruna svo unnt væri að bregðast við henni. Einnig tilkynnti embættið að sent hefði verið erindi til C og óskað eftir að gögn er varða kæranda verði send honum. Með bréfi, dags. 21. desember 2010, var óskað eftir frekari rökstuðningi frá kæranda varðandi kæruna ásamt því að bent var á að samkvæmt 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni er einungis heimilt að kæra málsmeðferð landlæknis til ráðuneytisins en ekki efnislega niðurstöðu álitsgerðar. Rökstuðningur kæranda barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 18. janúar 2011.

Landlækni var með bréfi, dags. 21. janúar 2011, gefinn kostur á að koma að greinargerð vegna kærunnar og barst greinargerð ráðuneytinu þann 3. febrúar 2011. Með bréfi, dags. 21. janúar 2011, sendi landlæknisembættið gögn frá C til kæranda en ráðuneytið fékk sent afrit af þeim með bréfi, dags. 17. febrúar 2011.

Kæranda var með bréfi, dags. 30. mars 2011, send greinargerð landlæknis og gefinn kostur á að koma að athugasemdum fyrir 13. apríl 2011, en óskað var eftir frekari fresti og bárust athugasemdir kæranda með bréfi, dags. 18. apríl 2011.

Málavextir

Þann 24. nóvember 2009, kærði kærandi til heilbrigðisráðuneytisins málsmeðferð landlæknis vegna sama máls og kvað ráðuneytið upp úrskurð þann 18. júní 2010. Í þeim úrskurði var kröfu kæranda um viðurkenningu á því að mistök hafi orðið við tannlæknismeðferð sem kærandi gekkst undir og borið skaða af, vísað frá þar sem ráðuneytið hefur ekki lagaheimildir til að fjalla efnislega um kvartanir. Málinu var að öðru leyti vísað aftur til landlæknis til útgáfu á rökstuddu nýju áliti í samræmi við formkröfur laga um landlækni og stjórnsýslulaga.

Þann 1. september 2010 gaf landlæknir út nýja álitsgerð í máli kæranda þar sem tekið var tillit til athugasemda sem fram komu í úrskurði heilbrigðisráðuneytisins, dags. 18. júní 2010. Kæranda var tilkynnt með bréfi sama dag um útgáfu hinnar nýju álitsgerðar og gefinn frestur til að koma að athugasemdum. Með bréfi, dags. 23. september 2010, sendi kærandi landlækni andmæli sín við álitsgerðinni en þar er haldið fram að kærandi hafi skaðast eftir meðferð B og að rök B og C standist engan veginn.

Kæranda var með bréfi landlæknis, dags. 14. október 2010, tilkynnt að málinu hafi verið lokið af hálfu embættisins með útgáfu álitsgerðar, dags. 1. september 2010 og að þær upplýsingar sem fram kæmu í bréfi kæranda, dags. 23. september 2010, gæfu ekki tilefni til endurupptöku málsins.

Málsástæður kæranda

Í kæru til ráðuneytisins, dags. 15. nóvember 2010, og í nánari rökstuðningi með kæru, dags. 18. janúar 2011, óskar kærandi eftir að mál hans fái réttláta málsmeðferð. Telur kærandi að landlæknisembættið hafi hvorki haft nægileg gögn frá B né rök til þess að úrskurða í málinu ásamt því að ekki hafi verið staðið nógu faglega að áliti C. Jafnframt tekur kærandi fram að landlæknisembættið hafi ekki getið um kæruleiðir.

Málsástæður og lagarök landlæknis

Í bréfi landlæknis, dags. 3. febrúar 2011, kemur fram að í kjölfar úrskurðar heilbrigðisráðuneytisins, dags. 18. júní 2010, þar sem málinu var heimvísað vegna formgalla við álitsgerð, hafi ný álitsgerð landlæknisembættisins, dags. 1. september 2010, verið send kæranda. Með bréfi, dags. 23. september 2010, sendi kærandi andmæli sín við álitsgerð landlæknis og með bréfi, dags. 14. október 2010, var kæranda tilkynnt um að andmælin gæfu ekki tilefni til endurupptöku.

Landlæknir vísar einnig til greinargerðar sinnar við fyrri kæru í sama máli, dags. 30. nóvember 2009, en þar segir m.a.:

„Það er mat Landlæknisembættisins að kæra A sé á misskilningi byggð og ekki er rétt sem fram kemur í bréfi hennar frá 24.11.2009 að ekki hafi komið fram leiðbeiningar um kæruleið til ráðherra samkvæmt 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007 né kærufrest. Upplýsingar um kæruleið og kærufrest komu fram í bréfi Landlæknisembættisins til A, dags. 01.10.2008.“

Niðurstaða ráðuneytisins

Stjórnsýslukæra í máli þessu barst heilbrigðisráðuneytinu þann 15. nóvember 2010. Heilbrigðisráðuneytið sameinaðist félags- og tryggingamálaráðuneytinu 1. janúar 2011 og úr varð velferðarráðuneyti, sbr. lög nr. 121/2010, og er því úrskurðurinn kveðinn upp í velferðarráðuneytinu.

Kæran lýtur að málsmeðferð landlæknis vegna kvörtunar til embættisins, dags. 25. september 2008. Kvörtunin beindist að störfum B, en kærandi hafði verið til meðferðar hjá honum fyrri hluta árs 1998. Í kærunni kemur fram að kærandi telji að landlæknisembættið hafi hvorki haft nægileg gögn frá B né rök til þess að úrskurða í málinu, ekki hafi verið staðið nógu faglega að áliti C og ekki hafi verið getið um kæruleiðir. Þá krefst kærandi afhendingu gagna úr sjúkraskrá sinni hjá C.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár á sjúklingur eða umboðsmaður hans rétt á aðgangi að eigin sjúkraskrá í heild eða að hluta og til að fá afhent afrit af henni ef þess er óskað. Beiðni þar að lútandi skal beint til umsjónaraðila sjúkraskrárinnar. Kærandi hefur óskað eftir að ráðuneytið aðstoði við að fá afhent gögn frá C, ráðuneytið hefur farið þess á leit við landlækni að embættið aðstoði kæranda við að fá gögnin afhent en landlæknir er réttur aðili til að aðstoða kæranda við öflun sjúkraskrágagna en ekki ráðuneytið.

Þar sem ráðuneytið hefur þegar úrskurðað um málsmeðferð landlæknis vegna kvörtunar kæranda, dags. 25. september 2008, og engin gögn hafa verið lögð fram sem gefa tilefni til endurupptöku, er hér einungis horft til þeirrar málsmeðferðar sem átt hefur sér stað eftir úrskurð ráðuneytisins, dags. 18. júní 2010. Um kvartanir til landlæknis fer samkvæmt ákvæðum 12. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og segir þar í 5. og 6. mgr.:

Landlæknir skal að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Er viðkomandi sérfræðingum, svo og landlækni sjálfum, rétt að kalla sjúkling til skoðunar ef sérstök ástæða þykir til. Um meðferð kvartana gilda að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt. Að lokinni málsmeðferð gefur landlæknir skriflegt álit. Landlæknir skal í áliti sínu tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu sinni. Aðalniðurstöðu skal draga saman í lok álits.

Heimilt er að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæði þessu til ráðherra.

Samkvæmt lagaákvæðinu skal ráðuneytið taka til skoðunar málsmeðferð landlæknis í kvörtunarmálum þ.e. hvort landlæknir hafi farið að lögum og gætt að reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð máls en ráðuneytið hefur hefur ekki heimild til að fjalla efnislega um kvörtunina.

Kærandi krefst réttlátrar málsmeðferðar. Að mati ráðuneytisins telst réttlát málsmeðferð sú málsmeðferð sem uppfyllir skilyrði 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og stjórnsýslulaga eftir því sem við á.

Í úrskurði ráðuneytisins, dags. 18. júní 2010, kemur fram að ráðuneytið telur að öflun umsagnar og rannsókn málsins hafi verið í samræmi við fyrrgreint ákvæði 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og ákvæði rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Ráðuneytið telur eins og áður segir ekki ástæðu til að endurupptaka fyrri úrskurð ráðuneytisins og vísar því til hans varðandi þá málsástæðu kæranda að landlæknir hafi ekki haft nægileg gögn frá B né rök til þess að hafa getað úrskurðað í málinu sem og að ekki hafi verið staðið nógu faglega að áliti C.

Með úrskurði ráðuneytisins, dags. 18. júní 2010, var málinu vísað til landlæknis á ný til útgáfu á rökstuddu áliti í samræmi við formkröfur laga um landlækni og stjórnsýslulaga. Landlæknir gaf út nýja álitsgerð þann 1. september 2010 þar sem embættið fylgdi eftir því sem fram kom í fyrri úrskurði ráðuneytisins. Í hinu nýja áliti er skýrt kveðið á um kæruleið til ráðherra sem og tímafresti sbr. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.

Hins vegar telur ráðuneytið að það geti ekki talist til vandaðrar stjórnsýslu að ljúka máli áður en veittur frestur til að skila athugasemdum er liðinn. Til þess ber þó að líta að í fyrri úrskurði ráðuneytisins var landlækni einungis gert að gefa út nýja álitsgerð vegna galla á álitsgerðinni sjálfri. Kærandi hafði áður haft tækifæri til að koma að athugasemdum og því ekki nauðsyn á að gefa kæranda kost á að koma að athugasemdum við nýju álitsgerðina. Í ljósi framangreinds telur ráðuneytið, eins og máli þessu er háttað, ekki tilefni til að vísa máli til baka til nýrrar málsferðar. Að mati ráðuneytisins eru formkröfur nýju álitsgerðarinnar uppfylltar og staðfestir ráðuneytið því málsmeðferð landlæknisembættisins.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð


Málsmeðferð landlæknis er staðfest.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum