Hoppa yfir valmynd
29. júní 2009 Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018, Heilbrigðisráðuneytið

Frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar

Mánudaginn 29. júní 2009 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 18. maí 2009, kærði A (hér eftir kærandi) ákvörðun Lyfjastofnunar frá 18. mars 2009 um skilyrði fyrir áframhaldandi leyfi til reksturs lyfjaútibús í flokki 3 á B til fjögurra ára.

Í kæru er þess krafist að ákvörðun Lyfjastofnunar verði felld úr gildi. Einnig er þess krafist með vísan til 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir á æðra stjórnsýslustigi. Er sá hluti málsins einungis til umfjöllunar hér.

Kæran var send til Lyfjastofnunar til umsagnar með bréfi dags. 16. júní 2009. Umsögn Lyfjastofnunar, er lýtur að kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa, barst ráðuneytinu 23. júní 2009.

1. Málavextir

Málavextir verða hér einungis raktir að því marki sem þörf er á vegna úrlausnar um þá ósk kæranda að frestað verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.

Forsaga málsins er sú að með bréfi C lyfsöluleyfishafa í lyfjabúð D, dags. 18. september 2008, var óskað eftir áframhaldandi leyfi til reksturs lyfjaútibúa í nafni A. á E og B. Með bréfi Lyfjastofnunar, dags. 29. desember 2008, var kæranda tilkynnt að óheimilt væri, skv. 68. gr. reglugerðar nr. 426/1997 um lyfsöluleyfi og lyfjabúðir að þjónusta lyfjaútibú í flokki 3 á B frá lyfjaútibúi á E. Í lyfjaútibúi 3 gæti einungis farið fram afhending lyfja sem afgreidd væru frá lyfjabúð, þ.e. D. Gerði Lyfjastofnun kæranda að breyta starfsháttum við afgreiðslu lyfseðla sem afhentir væru frá B og fara að lögum og reglum sem í gildi væru og leyfi heimiluðu. Að uppfylltum þessum skilyrðum veitti Lyfjastofnun kæranda leyfi til reksturs lyfjaútibús í flokki 3 á B til fjögurra ára, þ.e. til 1. janúar 2013. Jafnframt óskaði Lyfjastofnun eftir staðfestingu á því eigi síðar en 1. febrúar 2009 að verklagi við afgreiðslu lyfja í útibúinu hefði verið breytt og afgreiðsla þeirra færi fram frá D.

Ákvörðun Lyfjastofnunar frá 29. desember 2008 var kærð til heilbrigðisráðuneytisins þann 30. janúar 2009 og sama dag óskaði kærandi eftir endurskoðun Lyfjastofnunar á ákvörðuninni. Málið var endurupptekið af hálfu Lyfjastofnunar og lá óbreytt niðurstaða stofnunarinnar fyrir þann 18. mars 2009. Í millitíðinni hafði kærandi óskað eftir frestun réttaráhrifa ákvörðunar Lyfjastofnunar frá 29. desember 2008 og stofnunin hafði fallist á þá kröfu í tölvubréfi þann 2. febrúar 2009. Þegar ákvörðun Lyfjastofnunar lá fyrir 18. mars 2009 áréttaði kærandi kæruna til ráðuneytisins frá 30. janúar 2009. Því var mótmælt af hálfu Lyfjastofnunar, með bréfi dags. 12. maí 2009. Taldi Lyfjastofnun að þar sem fyrir lægi ný ákvörðun, þ.e. ákvörðunin frá 18. mars 2009, væri sú fyrri, þ.e. ákvörðunin frá 29. desember 2009, ekki lengur kæranleg. Þessu var mótmælt af hálfu kæranda með bréfi, dags. 18. maí 2009 en jafnframt var kærð ákvörðun Lyfjastofnunar frá 18. mars 2009. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 16. júní 2009, var aðilum tilkynnt að ráðuneytið liti svo á að síðari ákvörðun Lyfjastofnunar væri til efnislegar meðferðar í ráðuneytinu og er krafa um frestun réttaráhrifa þeirrar ákvörðunar hér til umfjöllunar.

Þar sem í úrskurði þessum verður ekki tekin efnisleg afstaða til ágreinings málsaðila heldur eingöngu fjallað um hvort fresta beri réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar, verða málsatvik ekki rakin frekar.

2. Málsástæður og lagarök kæranda

Kærandi færir í kæru fram þau rök fyrir kröfu um frestun réttaráhrifa á grundvelli 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að synjun um bráðabirgðaleyfi til reksturs lyfjaútibúsins á B meðan kæran er til meðferðar hjá ráðuneytinu geti leitt til þess að loka þyrfti lyfjaútibúinu um óákveðinn tíma, losa húsnæði og segja upp starfsfólki. Með öllu væri óvíst hvort grundvöllur yrði til þess að opna fyrir þessa þjónustu að nýju ef til lokunar kæmi.

Þá er einnig vísað til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga en samkvæmt henni skuli stjórnvald beita vægustu úrræðum sem völ eru á hverju sinni til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Í þessu tilviki væri verið að stöðva verklag sem viðgengst hafi um alllangt skeið án þess að sýnt sé að nokkur mistök hafi orðið sem réttlæti svo fyrirvaralitla breytingu á verklaginu. Tímabundin lokun útibúsins á B myndi hafa í för með sér tilefnislaus og óþörf óþægindi og tjón fyrir A, lyfsöluleyfishafa, starfsfólk hans og íbúa á B. Bendir kærandi á að á árinu 2004 hafi verið gerð úttekt af hálfu Lyfjastofnunar á verklagi og afhendingu lyfja til sjúklinga á E og B í tilefni af umsókn um framlengingu leyfis til reksturs lyfjaútibúa A á E, B og F. Engar athugasemdir hafi þá verið gerðar af hálfu Lyfjastofnunar við það verklag sem var viðhaft við afgreiðslu lyfseðla. Lyfsöluleyfishafi hafi því verið í góðri trú um lögmæti og réttmæti verklagsins.

3. Málsástæður og lagarök Lyfjastofnunar

Lyfjastofnun gerir í erindi sínu til ráðuneytisins, dags. 23. júní 2009, ekki athugasemdir við kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa þannig að lyfsöluleyfishafi lyfjabúðarinnar D verði veitt leyfi til að reka lyfjaútibú í flokki 3 á B áfram án þeirra skilyrða sem sett voru fram í ákvörðun Lyfjastofnunar þar til niðurstaða ráðuneytisins liggur fyrir.

4. Niðurstaða

Krafa kæranda um frestun á réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar er reist á 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar er í 1. mgr. kveðið á um þá meginreglu að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Undantekningu frá þeirri reglu er að finna í 2. mgr. þar sem segir að æðra stjórnvaldi sé þó heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæla með því. Tilgangur þessarar heimildar er fyrst og fremst að koma í veg fyrir að aðili kærumáls verði fyrir réttarspjöllum eða tjóni meðan það er til meðferðar hjá æðra stjórnvaldi.

Ákvörðun æðra stjórnvalds um frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar byggir ávallt á heildstæðu mati á aðstæðum og þeim hagsmunum sem um er að ræða hverju sinni. Hagsmunir kæranda af úrlausn málsins verða ekki dregnir í efa. Þegar litið er til þess að málið á sér nokkuð langa forsögu eða allt frá árinu 2004 þegar það verklag sem nú er m.a. deilt um í málinu var til umræðu milli aðila og þegar litið er til þess að stofnunin frestaði að beiðni kæranda þann 2. febrúar sl. réttaráhrifum fyrri ákvörðunar sinnar frá 29. desember 2008 telur ráðuneytið að fallast beri á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa á grundvelli 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á meðan málið er til efnislegrar meðferðar í ráðuneytinu.

Ráðuneytið tekur fram að í þessari niðurstöðu felst ekki efnisleg afstaða til röksemda kæranda sem fram koma í kæru eða þeirra sjónarmiða sem lágu til grundvallar ákvörðun Lyfjastofnunar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Réttaráhrifum ákvörðunar Lyfjastofnunar frá 18. mars 2009 er frestað meðan málið er til efnismeðferðar í heilbrigðisráðuneytinu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum