Hoppa yfir valmynd
30. júní 2009 Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018, Heilbrigðisráðuneytið

Svipting starfsleyfis sem læknir

Þriðjudaginn 30. júní 2009 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Með bréfi, dags. 20. mars 2009, kærði A (hér eftir nefndur kærandi), til heilbrigðisráðuneytisins þá ákvörðun landlæknis frá 6. janúar 2009 að svipta kæranda starfsleyfi sem læknir.

Kröfur

Samkvæmt kæru er sú krafa gerð í málinu að felld verði úr gildi ákvörðun landlæknis dags. 6. janúar 2009 um að svipta kæranda starfsleyfi sem læknir. Til vara er þess krafist að svipting starfsleyfis verði tímabundin.

Málsmeðferð ráðuneytisins

Landlækni var með bréfi, dags. 30. mars 2009, gefinn kostur á að koma að greinargerð og gögnum vegna stjórnsýslukærunnar. Greinargerð landlæknis ásamt öllum fyrirliggjandi gögnum barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 6. apríl 2009. Kæranda var með bréfi dags. 16. apríl 2009 send greinargerð landlæknis ásamt gögnum og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum fyrir 7. maí 2009. Kærandi óskaði eftir frekari fresti og bárust athugasemdir hans með bréfi dags. 14. maí 2009. Landlæknisembættinu voru sendar athugasemdir kæranda með bréfi dags. 19. maí 2009. Athugasemdir landlæknis bárust ráðuneytinu með bréfi dags. 25. maí 2009.

Málavextir

Þann 30. september 2008 barst landlæknisembættinu bréf frá sálfræðingi hjá Landspítalanum, dags. 29. september 2008, þar sem fram kemur að kona fædd árið 1985 hafi leitað til Neyðarmóttöku Landspítalans þann 14. september 2008, vegna þess að konan grunaði kæranda um að hafa reynt að hafa við sig samfarir, en hún hafi farið heim til kæranda árla morguns, dvalið þar fram yfir miðnætti og hafi m.a. sofið lengi þar. Konan kom til fundar hjá landlækni þann 2. október 2008 ásamt tveimur félagsráðgjöfum. Kærandi kom síðan til fundar við landlækni þann 3. október 2008 og hafnaði hann því alfarið að um kynferðisleg samskipti hefði verið að ræða milli hans og sjúklings.

Landlæknisembættið óskaði eftir mati óháðs sérfræðings á því hvort það gæti talist í samræmi við eðlilega hegðun og starfshætti geðlæknis að taka á móti sjúklingi á heimili sínu. Í sérfræðiáliti B geðlæknis frá 29. október 2008 segir m.a.:

„Það eru ekki eðlilegir starfshættir geðlæknis að taka á móti sjúklingi, sem hann hefur í meðferð á vegum sjúkrahúss í Reykjavík, heima hjá sér kl. 6 að morgni og leyfa henni að sofna þar „djúpum svefni“ eftir samhengislaust tal, sofa í 10 klukkustundir og nesta síðan með 14 þúsund krónum. Sunnudaginn 14.9 ritar A læknabréf til heilsugæslustöðvar sem er í sjúkraskrá Landspítalans en getur þar ekki um komu sjúklingsins heim til sín daginn áður. Hann hefði að sjálfsögðu átt að geta um þessa heimsókn í sjúkraskránni.“

Með bréfi dags. 19. nóvember 2008 sendi landlæknisembættið kæranda tilkynningu um fyrirhugaða sviptingu lækningaleyfis að fullu og gaf honum kost á að koma að andmælum. Andmæli kæranda bárust með bréfi dags. 18. desember 2008 og fylgdi því greinargerð C geðlæknis dags. 15. desember 2008.

Með bréfi landlæknis dags. 6. janúar 2009 var kærandi sviptur leyfi til að starfa sem læknir.

Málsástæður og lagarök kæranda

Um lagagrundvöll er vísað til 6. mgr. 15. gr. laga um landlækni nr. 41/2007 og VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í kæru segir að kærandi hafi tekið á móti sjúklingi að heimili sínu einungis til að tala um fyrir honum enda hefði kærandi metið það svo að sjúklingurinn væri í hættu á að skaða sig. Tilgangur kæranda hafi verið að skjóta skjólshúsi yfir sjúkling í neyð. Kærandi mótmælir því að hann hafi brotið gegn starfsskyldum sínum með þessu eða haft að baki annarleg sjónarmið, hann hafi þvert á móti verið að rækja skyldur sínar sem læknir og manneskja. Kærandi ber að á heimili hans hafi sjúklingurinn viðhaft hótanir, m.a. um að hún myndi ekki kæra hann ef hún fengi í staðinn lyfseðla. Kærandi hafi svarað því til að hann myndi frekar missa starf sitt heldur en að ganga að slíkum afarkostum.

Kærandi segir að viðbrögð starfsmanna neyðarmóttöku og meðferð landlæknis á sínu máli vera slík að hann sé dæmdur sekur án þess að gætt sé að réttaröryggi hans. Í bréfi sálfræðings hjá Landspítalanum, dags. 29. september 2008, komi fram fráleitar ásakanir. Kærandi neitar því að kynferðisleg samskipti hafi átt sér stað milli hans og viðkomandi sjúklings. Í kjölfar þessa bréfs hafi kærandi verið boðaður á fund landlæknis 3. október 2008. Kærandi heldur því fram í kæru að framkoma landlæknis á þeim fundi hefði verið slík að hann hafi ekki geta notið andmælaréttar síns til fulls. Landlæknir hafi í raun verið búinn að ákveða það fyrirfram að svipta kæranda starfsleyfi sínu.

Kærandi gagnrýnir að áður en honum hafi gefist kostur á að koma á framfæri skriflegum andmælum sínum vegna starfsleyfissviptingarinnar, hafi landlæknir ákveðið að leita álits B geðlæknis. Í beiðni landlæknis dags. 8. október 2008 um álit B hafi ekkert verið vikið að því hvernig málsatvik horfðu við kæranda, heldur eingöngu stuðst við bréf sálfræðings á Landspítala frá 29. september 2008. Einnig hafi afgreiðsla D Board of Medical Examiners á máli kæranda fylgt ofangreindri beiðni og bendir kærandi á í þessu sambandi að siðareglur bandaríska geðlæknafélagsins séu talsvert frábrugðnar siðareglum hér landi. Því sé álit B dags. 21. október 2008 byggt á röngum forsendum. Að auki komi fram í álitinu staðfesting á því að engin kynferðisleg samskipti hafi átt sér stað á milli kæranda og viðkomandi sjúklings og að sjúklingur sé mjög upptekinn af því að allir séu að reyna við hana. Í bréfi landlæknis til B, dags. 27. október 2008, þar sem landlæknir óskar eftir frekara áliti B á tilteknum atriðum, fullyrði landlæknir að eftir að kærandi hafi fengið áminningu árið 2007 hafi honum verið uppálagt að eiga engin samskipti við kvenkynssjúklinga. Kærandi mótmælir þessari fullyrðingu sem alrangri.

Í áliti B geðlæknis frá 29. október 2008 kemur að það séu „ekki eðlilegir starfshættir geðlæknis“ að taka á móti sjúklingi á heimili sínu. Kærandi mótmælir því að hann sé sviptur starfsleyfi á þessum grundvelli. Í því tilfelli sem um ræðir hafi komið upp óeðlilegar aðstæður sem hafi kallað á óvenjuleg viðbrögð. Kærandi bendir á að læknar þurfi oft að fara út fyrir tiltekin mörk í starfi sínu þegar aðstæður kalli á slíkt.

Kærandi segir einnig að málið verði að skoða í ljósi starfsstíls síns þar sem fyrir liggi að hann veiti sjúklingum meiri aðgang að sér en aðrir geðlæknar geri. Kærandi segir að þetta starfsfyrirkomulag eigi bæði við um karla og konur og það hafi einnig komið karlmenn á heimili hans. Kærandi segir að hið mikla aðgengi sem hann hafi veitt sjúklingum að sér skýrist af því að hann beri hag sjúklinga sinna mjög fyrir brjósti og gangi langt í að aðstoða þá.

Kærandi andmælir því að landlæknir skuli byggja ákvörðun um sviptingu lækningaleyfis á því að kærandi hafi áður fengið áminningu fyrir sambærilegt tilvik. Kærandi heldur því fram að það atvik er var grundvöllur áminningar árið 2007 sé allt annars konar atvik og ósambærilegt við það atvik sem átti sér stað 13. september 2008. Því sé ekki fullnægt skilyrði 1. mgr. 15. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni að áminning landlæknis skv. 14. gr. hafi ekki komið að haldi. Einnig hafi tilvísun landlæknis til máls kæranda fyrir D Board of Medical Examiners á árinu 2006 enga þýðingu í þessu máli þar sem landlæknir hafi afgreitt það mál áður án nokkurra viðbragða gagnvart kæranda.

Kærandi bendir á að hann hafi gert sér mikið far um að bæta ráð sitt eftir áminninguna árið 2007. Hann hafi lagt mikla vinnu í „endurhæfingu, sáttagjörð og umbætur á innra starfi á vinnustað sínum.“ Kærandi hafi að auki stundað vinnu sína vel og verið afkastamikill. Þá er það ítrekað í kæru að kærandi hafi ekki neytt andmælaréttar vegna áminningarinnar árið 2007 þótt sú kvörtun hafi verið mjög einhliða.

Þá kemur fram í kæru að ákvörðun landlæknis hafi eingöngu byggt á frásögn sjúklingsins af samskiptum hennar og kæranda. Kærandi segir þá frásögn ósanna með öllu. Þá vísar kærandi til greinargerðar C geðlæknis frá 15. desember 2008, en eins og áður greinir fylgdi hún andmælabréfi kæranda til landlæknis. Í greinargerðinni segi m.a. að „samskipti [kæranda] við göngudeildarsjúklinginn [...] á heimili hans hinn 13. september 2008 hafi ekki verið þess eðlis að þau séu næg ástæða til að svipta hann starfsleyfi.“ Í bréfi dags. 18. mars 2009, sem fylgdi kæru, staðfesti C að honum hafi verið kunnugt um fyrri áminningu kæranda þegar hann komst að þessari niðurstöðu.

Kærandi undirstrikar ennfremur að ákvörðun landlæknis um starfsleyfissviptingu sé „gríðarlegt inngrip“ í atvinnuréttindi hans sem varin séu af 75. gr. stjórnarskrárinnar. Þurfi því gildar ástæður til þess að starfsleyfissviptingu sé beitt.

Landlæknir hafi vanrækt rannsóknarskyldu sína með því að styðja ekki með sönnunum eða líkum ýmsar fullyrðingar um málsatvik svo sem um kynjahlutfall í samskiptum kæranda við sjúklinga og að hann hafi tekið endursagðar fullyrðingar fárveiks sjúklings sem sönnuð málsatvik. Kærandi telur ennfremur að landlæknir hafi við meðferð málsins brotið meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga með „ósæmilegum ákafa sínum.“

Til stuðnings varakröfu sinni um að starfsleyfissviptingin verði gerð tímabundin, vísar kærandi til atvika málsins og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

Í athugasemdum kæranda, dags. 14. maí 2008, við umsögn landlæknis eru röksemdir kæru ítrekaðar en auk þess bendir hann á að rannsókn lögreglu á meintu kynferðisbroti hans gagnvart skjólstæðingi sínum hafi verið hætt, sbr. bréf dags. 22. apríl 2008. Í athugasemdum kæranda segir síðan: „Af þessu leiðir að sjálfsögðu að [kærandi] er algerlega saklaus af þeim sakargiftum sem honum hafa verið bornar á brýn.“ Að mati kæranda leiði framangreind niðurstaða til þess að brostinn sé sá grundvöllur sem landlæknir lagði upp með að atvik sem kærandi hlaut áminningu fyrir árið 2007 og það atvik er átti sér stað 13. september 2008 hafi verið sambærileg.

Kærandi gagnrýnir einnig að landlæknir hafi ekki rannsakað þann þátt málsins er lúti að kúgun sjúklingins gagnvart sér og hafi landlæknir með því brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá bendir kærandi á að starfsleyfissviptingin hafi haft „gríðarlega alvarlegar afleiðingar“ fyrir sig. Orðspor hans hafi beðið hnekki og margir telji að starfslok kæranda jafngildi sakarviðurkenningu. Kærandi bendir ennfremur á að hefð sé fyrir því að læknar sem misst hafi starfsleyfi sitt vinni í heilbrigðiskerfinu án lækningaleyfis og undir stjórn yfirlækna meðan mál þeirra séu í vinnslu. Landlæknir rjúfi þá hefð með því að leggjast gegn því að kærandi fari til starfa á öldrunarsviði LSH.

Málsástæður og lagarök landlæknis

Í umsögn sinni um kæruna dags. 6. apríl 2009 vísar landlæknir til bréfs embættisins dags. 6. janúar 2009, þar sem rakin eru ítarlega málsatvik og rökstuðningur ákvörðunar landlæknis um að svipta kæranda leyfi til að starfa sem læknir. Í framangreindu bréfi sagði m.a.:

„Í máli því sem hér er til umfjöllunar liggur fyrir að sjúklingurinn sem hafði verið til meðferðar hjá [kæranda] um tíma kom á heimili hans snemma morguns. Þar dvaldi hún hátt í sólarhring, hluta af heimsókninni sofandi og er hún fór þaðan eftir miðnætti mun læknirinn hafa látið hana hafa 14.000 krónur, að sögn hennar fyrir leigubíl, símkorti og sígarettum. Ekki var getið um þessa heimsókn í sjúkraskýrslu sem læknirinn ritaði á Landspítalanum skömmu síðar. Ekkert verður fullyrt um það hvað átti sér stað á heimili læknisins, að öðru [leyti], þar er orð gegn orði.“

Landlæknir víkur einnig að áminningu sem kærandi fékk 15. mars 2007, en þar var um að ræða unga konu sem leitaði til Stígamóta vegna atviks sem átti sér stað á heimili kæranda. Landlæknir telur að auki að ekki sé unnt að horfa framhjá því að Board of Medical Examiners í D fylki í Bandaríkjunum hafi svipt kæranda leyfi til starfa sem læknir í D fylki vegna óeðlilegra samskipta við kvenkynssjúklinga, þó um sé að ræða atvik sem áttu sér stað í Bandaríkjunum þar sem gildi bandarískar reglur.

Landlæknir telur að það atvik er varð til þess að kærandi fékk áminningu í mars 2007 og það atvik sem til umfjöllunar er í þessu máli séu sambærileg. Í rökstuðningi landlæknis fyrir starfsleyfissviptingu kæranda dags. 6. janúar 2009 segir m.a.:

„Í báðum tilvikum var um að ræða að læknirinn tók á móti sjúklingum sínum, ungum konum á heimili sínu til læknismeðhöndlunar og í kjölfar heimsóknanna leituðu báðar konurnar aðstoðar þar sem þær töldu sig hafa orðið fyrir ósæmilegri framkomu af hálfu læknisins. [...] Með þeirri hegðan sinni að taka á móti annarri ungri konu, sjúklingi sínum, á heimili sínu og láta hana dvelja þar fleiri klukkutíma, en geta þess ekki í sjúkraskýrslu konunnar á Landspítalanum, hefur læknirinn sýnt alvarlegan dómgreindarskort og brugðist trausti sjúklings, þó ekki verði fullyrt hvaða atvik áttu sér stað á heimili læknisins en ekki verður fram hjá því horft að stúlkan leitaði á [Neyðarmóttöku] LSH eftir þetta atvik. Verður því að telja að áminningin frá því í mars 2007 hafi ekki komið að haldi.“

Landlæknir leggur áherslu á að hafa verði hagsmuni sjúklinga í fyrirrúmi og líta verði til þess að ábyrgð lækna gagnvart sjúklingum sé mjög mikil. Einnig hefði það verið samdóma álit þeirra geðlækna sem komið höfðu að málinu, að það hafi ekki verið forsvaranlegt af geðlækni að taka sjúkling sem hefði átt við alvarleg vandamál að stríða inn á heimili sitt til einhvers konar læknismeðferðar. Landlæknir benti á að önnur úrræði og þjónusta var í boði sem nærtækara hefði verið að grípa til og sem hefðu þjónað hagsmunum sjúklings og læknis betur.

Því var það mat landlæknis að kærandi hefði vanrækt starfsskyldur sínar og farið út fyrir verksvið sitt, sbr. 14. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni. Einnig hefði kærandi brotið gegn 9. gr. læknalaga nr. 53/1988 að lækni beri að sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku og 3. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga þar sem fjallað er um að heilbrigðisstarfsmenn skuli leitast við að koma á traustu sambandi milli sín og sjúklings. Loks hefði kærandi ekki komið fram við sjúkling af virðingu eins og mælt sé fyrir um í 17. gr. laga um réttindi sjúklinga.

Í umsögn landlæknis um kæruna í bréfi, dags. 6. apríl 2009, mótmælir landlæknir harðlega þeim ásökunum á hendur honum, sem hafðar séu uppi í stjórnsýslukæru og ítrekar að farið hafi verið gaumgæfilega og ítarlega ofan í mál kæranda áður en komist var að þeirri niðurstöðu að svipta hann leyfi til að starfa sem læknir. Því hafi verið gætt meðalhófsreglu stjórnsýslulaga sem og annarra ákvæða þeirra laga. Landlæknir leggur jafnframt áherslu á að hann verði ávallt að hafa hagsmuni sjúklinga í fyrirrúmi.

Í umsögn landlæknis er ennfremur ítrekað það mat landlæknisembættisins að það tilvik sem til umfjöllunar er í fyrirliggjandi máli sé sambærilegt við það sem kærandi fékk áminningu fyrir í mars 2007. Með hliðsjón af þeirri áminningu hefði kærandi mátt gera sér grein fyrir því hversu óviðeigandi það væri fyrir hann að taka á móti sjúklingum heima hjá sér. Kæranda hefði mátt vera ljóst að hann væri ekki að veita sjúklingi „eðlilega og góða heilbrigðisþjónustu, né sýna honum virðingu.“ Í þessu tilviki hefði verið um að ræða óheppilegt úrræði bæði fyrir kæranda og sjúkling að mati landlæknis.

Landlæknisembættinu var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna andmælabréfs kæranda, dags. 14. maí 2009. Í bréfi dags. 25. maí 2009 mótmælir landlæknir þeim ummælum sem höfð hafi verið eftir honum í athugasemdum kæranda frá 14. maí 2009 og telur að þau séu ekki rétt höfð eftir. Einnig er því hafnað að landlæknir fari offari gagnvart kæranda. Varðandi það hvort leyfa skyldi kæranda að starfa undir stjórn yfirlæknis um einhvern tíma áður en lækningaleyfi væri veitt að nýju, vill landlæknir koma því á framfæri að það úrræði eigi við um þá lækna sem bætt hafi ráð sitt og tekið á þeim málum sem leiddu til sviptingar lækningaleyfis. Í tilviki kæranda sé málið ekki enn komið á það stig, þar sem meðferð málsins sé ekki lokið innan stjórnsýslunnar.

Að lokum segir í athugasemdum landlæknis frá 25. maí 2009:

„Í bréfi Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu dags. 22 apríl 2009 segir að lögreglan hafi hætt rannsókn máls vegna meints kynferðisbrots kæranda, þar sem ekki þyki lengur grundvöllur fyrir frekari rannsókn þess. Lögregluyfirvöld og Landlæknisembættið vinna hvort eftir sínum lögum. Starfsleyfissvipting byggði á mjög óeðlilegri framkomu læknis við sjúkling. Engin afstaða var tekin til meints kynferðisbrots. Þó að rannsókn lögreglu hafi verið hætt breytir það engu varðandi starfsleyfissviptingu landlæknis sem byggir á lagaákvæðum sem tilgreind eru í bréfi þann 6. janúar 2009.“

Niðurstaða ráðuneytisins

Kæran lýtur að ákvörðun landlæknisembættisins um sviptingu starfsleyfis kæranda sem læknir. Kærandi gerir þá kröfu að sú ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að svipting starfsleyfis verði tímabundin.

Landlæknir byggir ákvörðun sína um að svipta kæranda starfsleyfi sem læknir aðallega á 13.-15. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni. Ákvæði 1. mgr. 13. gr. kveður á um að landlæknir hafi eftirlit með störfum heilbrigðisstarfsmanna og í 1. mgr. 14. gr. laganna segir að verði landlæknir var við að heilbrigðisstarfsmaður vanræki starfsskyldur sínar, fari út fyrir verksvið sitt eða brjóti í bága við ákvæði heilbrigðislöggjafar skuli landlæknir áminna hann eftir atvikum. Komi áminning samkvæmt 14. gr. ekki að haldi getur landlæknir ákveðið að viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður skuli sviptur starfsleyfi að fullu eða tímabundið, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga um landlækni. Landlæknir vísar einnig til 9. gr. læknalaga nr. 53/1988 og til ákvæða 3. og 17. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga.

Fram kemur í gögnum málsins að landlæknir veitti kæranda áminningu 15. mars 2007 á grundvelli 28. gr. læknalaga nr. 53/1988 og 17. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga. Tilefnið var að ung kona, sem hafði verið sjúklingur kæranda, kom á heimili hans í ársbyrjun 2007. Í kjölfarið leitaði konan til Stígamóta og landlæknisembættisins og tilkynnti um kynferðislega misnotkun af hálfu kæranda, sem átt hefði sér stað á heimili hans. Fram kemur í bréfi landlæknis frá 15. mars 2007 að kærandi hafi viðurkennt sök sína í málinu.

Fyrir liggur í gögnum málsins að kærandi tók á móti konu sem var sjúklingur hans að heimili sínu árla morguns þann 13. september 2008 og að sjúklingurinn dvaldi hjá kæranda fram yfir miðnætti og svaf m.a. lengi þar. Í bréfi landlæknis dags. 27. október 2008 kemur einnig fram að kærandi hafi staðfest í viðtali við landlækni að hann hafi afhent henni kr. 14.000 í reiðufé við brottför hennar. Við færslu kæranda í sjúkraskrá sjúklings skömmu síðar er ekkert getið um framangreinda heimsókn. Sjúklingurinn leitaði síðan til neyðarmóttöku LSH 14. september 2008 þar sem hún hafi haft grun um að kærandi hafi reynt að hafa við sig samfarir.

Kærandi vísar til þess í andmælabréfi sínu frá 14. maí 2009 að lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins hafi hætt rannsókn í máli kæranda gagnvart umræddum sjúklingi sínum vegna atviks er gerðist þann 13. september 2008. Kærandi telur að þar með sé hann „algerlega saklaus“ af þeim sakargiftum sem á hann séu bornar. Ráðuneytið bendir á að í rökstuðningi landlæknis kemur fram að engin afstaða hafi verið tekin til meints kynferðisbrots og að ákvörðun um sviptingu lækningaleyfis sé ekki byggð á því. Sviptingin sé aðallega byggð á því að áminning sem kæranda var veitt 17. mars 2007 hafi ekki komið að haldi og sé jafnframt vísað til þess að kærandi hafi vanrækt starfsskyldur sínar og farið út fyrir verksvið sitt, sbr. ákvæði 1. mgr. 14. gr. laga um landlækni og brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 9. gr. læknalaga nr. 53/1988 og 2. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 17. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997.

Áminning sú sem landlæknir veitti kæranda hinn 17. mars 2007 var veitt samkvæmt 28. gr. læknalaga nr. 53/1988. Sambærileg ákvæði um veitingu áminningar og um sviptingu starfsleyfis komi áminning landlæknis ekki að haldi er nú að finna í 14. og 15. gr. laga um landlækni nr. 41/2007.

Eins og fram hefur komið er það samdóma álit geðlækna sem aðilar máls þessa leituðu til að það séu ekki eðlilegir starfshættir geðlæknis að taka á móti sjúklingi á heimili sínu. Einnig liggur fyrir að kærandi hafði áður verið áminntur vegna atviks sem átti sér stað þegar hann tók á móti konu sem var sjúklingur hans á heimili sínu. Ráðuneytið telur því ljóst að fyrri áminning hafi ekki komið að haldi og hafi því verið fullnægt skilyrði 1. mgr. 15. gr. laga um landlækni um sviptingu starfsleyfis.

Ráðuneytið telur jafnframt að kærandi hafi með hegðan sinni vanrækt starfsskyldur sínar og farið út fyrir verksvið sitt, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og brotið gegn 1. mgr. 9. gr. læknalaga nr. 53/1988. Einnig hafi kærandi brotið gegn ákvæðum 2. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 17. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga.

Kærandi vísar til atvinnufrelsisákvæðis 75. gr. stjórnarskrárinnar máli sínu til stuðnings, Samkvæmt ákvæðinu má setja slíku frelsi skorður enda krefjist almannahagsmunir þess. Verður að telja að hagsmunir og öryggi sjúklinga vegi þyngra í máli þessu heldur en réttindi kæranda til að halda starfsleyfi sínu sem læknir. Kærandi vísar ennfremur til þess að landlæknisembættið hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt 10., 12. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til fyrirliggjandi gagna og upplýsinga getur ráðuneytið ekki fallist á að landlæknir hafi ekki gætt framangreindra ákvæða við meðferð málsins.

Kærandi gerir til vara kröfu um að sviptingin verði tímabundin. Ráðuneytið telur að í ljósi málsatvika sé ekki tilefni til að beita tímabundinni sviptingu starfsleyfis en bendir á að skv. 17. gr. laga um landlækni nr. 41/2007 getur landlæknir veitt heilbrigðisstarfsmanni starfsleyfi að nýju, „enda hafi viðkomandi sýnt fram á að hann uppfylli skilyrði laga fyrir endurveitingu starfsleyfis.“

Með vísan til þess að áminning kom ekki að haldi og kærandi vanrækti starfsskyldur sínar og fór út fyrir verksvið sitt er ákvörðun landlæknis um sviptingu starfsleyfis staðfest með vísan til 1. mgr. 15. gr. laga um landlækni nr. 41/2007.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun landlæknis frá 6. janúar 2009 um að svipta A starfsleyfi sem læknir er hér með staðfest.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum