Hoppa yfir valmynd
11. maí 2009 Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018, Heilbrigðisráðuneytið

Synjun um atvinnuumsókn

Mánudaginn 11. maí 2009 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 3. mars 2009, sem barst ráðuneytinu 5. mars 2009, kærði A, synjun starfsmanns B á atvinnuumsókn kæranda.

Kærða, B, var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna stjórnsýslukæru kæranda og bárust þær ráðuneytinu með bréfi, dags. 4. maí 2009.

 

Málsatvik.

Málsatvik, eins og þau koma fram í gögnum málsins, eru þau að þann 9. desember 2008 óskaði kærandi eftir því að fá sumarafleysingarstarf sem aðstoðarlæknir á heilsugæslu á vegum B. Þann 10. desember 2008 barst kæranda svar frá kærða um að ekkert lægi fyrir um ráðningu í sumarafleysingu fyrir næsta sumar og athygli kæranda jafnframt vakin á því að ef ráðinn yrði læknanemi í sumarafleysingu yrði leitað til Félags læknanema við ráðninguna. Kærandi óskaði eftir frekari rökstuðningi fyrir svari kærða og barst þann 4. febrúar 2009 svar lögmanns kærða.

 

Málsástæður kæranda og lagarök.

Í kæru kæranda, dags. 3. mars 2009, kemur fram að kærandi túlki ofangreint tölvuskeyti, dags. 10. desember, frá B sem synjun á umsókn um starf afleysingarlæknis við heilsugæsluna. Í greinargerð með kærunni kemur fram að aðalmálsástæða kæranda sé „að valdframsal forstjóra B til svokallaðra ráðningastjóra Félags læknanema er umfram heimildir 50. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins; sbr. 30. gr. og 31. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu [lög nr. 97/1990 voru felld úr gildi með lögum nr. 40/2007], og 8. mgr. 30. gr., sbr. 63. gr. laga nr. 83/1997, sbr. ennfremur 41. gr. laga nr. 70/1996”.

Í kæru, dags. 3. mars 2009, gerir kærandi eftirfarandi aðalkröfu:

„...að ráðherra bindi tafarlaust enda á það ólögmæta ástand sem viðgengst í ráðningarferli læknanema með því að afnema með öllu aðkomu óvaldbærra einkaaðila eins og Félags læknanema og geri heilbrigðisstofnunum undir sinni umsjá að afgreiða framvegis umsóknir í samræmi við lög.

Ennfremur setur kærandi fram varakröfu í kæru, dags. 3. mars 2009,

...að B taki umsókn hans [A] til umfjöllunar án þess að fela ákvörðunarvald í hendur einkaaðila sem ekki eru til þess bærir að taka stjórnsýsluákvörðun um ráðningu í opinber störf.

Kærandi bendir jafnframt á að í svari B, dags. 10. desember 2008, „láðist að upplýsa hann um kæruheimildir hans og er þar um að ræða brot á 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og leiðbeiningarskyldu stjórnvalds, sbr. 7. gr. sömu laga.”

Í kæru kemur einnig fram að kærandi telji að í ráðningarferli Félags læknanema felist brot á 72. gr. og 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár.

 

Málsástæður kærða og lagarök.

Í umsögn kærða til ráðuneytisins, dags. 28. apríl 2009, er vísað til fyrirliggjandi gagna málsins, einkum minnisblaðs lögmanns kærða, dags. 3. febrúar 2009, sem unnið var fyrir B um ráðningar í sumarafleysingarstörf. Í minnisblaðinu kemur fram frekari rökstuðningur fyrir fyrirkomulagi við ráðningu í sumarafleysingarstörf við B, en þar segir m.a.:

„Samkvæmt 2. gr. reglna [nr. 464/1996 um auglýsingar á lausum störfum]er ekki skylt að auglýsa störf sem eiga að standa í tvo mánuði eða skemur, störf við afleysingar vegna orlofs, veikinda, barnsburðarleyfis o.fl. enda sé afleysingu ekki ætlað að standa lengur en 12 mánuði samfellt. Af ákvæði 2. tölul. leiðir að B er ekki skylt að auglýsa með opinberum hætti laus störf við sumarafleysingar. Leiðir af framangreindu að stofnuninni er heimilt að haga ráðningum með þeim hætti sem stofnunin kýs enda gæti hún þeirra reglna og viðmiða sem almennt gilda um ráðningar starfsmanna ríkisins.”  

 

Kæruheimild.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Samkvæmt 49. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins verður ákvörðunum stjórnvalda samkvæmt lögunum ekki skotið til æðri stjórnvalda nema öðruvísi sé fyrir mælt í einstökum ákvæðum laganna. Ákvæði um ráðningar starfsmanna er að finna í VIII. kafla laganna og er ekki að finna fyrirmæli í þeim um að slíkar ákvarðanir séu kæranlegar.

 

Niðurstaða ráðuneytisins.

Ráðuneytið hefur farið yfir atvik málsins og þær réttarreglur er lúta að ákvörðunum um skipun, setningu og ráðningu opinberra starfsmanna. Eins og rakið er í atvikalýsingunni þá sótti kærandi eftir starfi hjá kærða sem ekki hafði verið auglýst. Ekki verður séð að í svari kærða, dags. 10. desember 2008, felist synjun á ráðningu í starf heldur upplýsingar um hvernig staðið yrði að ráðningu ef ákveðið yrði að ráða læknanema. Því hafi ekki verið um að ræða stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ráðuneytið vill jafnframt vekja athygli á að stjórnvaldsákvarðanir um ráðningu í starf opinberra starfsmanna eru í öllu falli ekki kæranlegar til ráðherra.

Með vísan til framangreinds er kæru þessari vísað frá ráðuneytinu.

Um aðrar málsástæður er fram koma í kæru kæranda verður ekki fjallað hér.

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum