Hoppa yfir valmynd
15. mars 2007 Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018, Heilbrigðisráðuneytið

Landlæknir víkji sæti vegna vanhæfis, við áminningu skv. læknalögum

Fimmtudaginn 15. mars 2007 var í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

Með bréfi, dags. 19. desember 2006, móttekið 21. desember 2006, kærði A (hér eftir kærandi) ákvörðun landlæknis (hér eftir kærði) frá 7. desember 2006 um að víkja ekki sæti í máli vegna fyrirhugaðrar áminningar.

Kæran var send kærða til umsagnar með bréfi dags. 9. janúar 2007. Athugasemdir hans dags. 15. janúar 2007 bárust ráðuneytinu 29. janúar 2007. Voru þær sendar kæranda til umsagnar með bréfi dags. 30. janúar 2007. Athugasemdir kæranda bárust ráðuneytinu 8. febrúar 2007. Með bréfi dags. 6. mars 2007 var kæranda tilkynnt að uppkvaðning úrskurðar myndi dragast af óviðráðanlegum orsökum. Jafnframt voru kæranda send fylgigögn sem láðst hafði að láta fylgja með athugasemdum kærða til ráðuneytisins sem bárust 30. janúar 2007.

1. Málavextir

Forsaga máls þessa er sú að kærði hefur haft til meðferðar nokkur mál er varða kvartanir á hendur kæranda vegna aðgerða við B. Kærði hefur komist að þeirri niðurstöðu í fimm málum að aðgerðirnar hafi ekki verið rétt framkvæmdar. Þannig segir í bréfi kærða til kæranda, dags. 15. september 2006, að borist hafi nokkur kvörtunarmál B á árunum 2000-2004. Málin hafi verið rannsökuð af landlæknisembættinu og er vísað til umsagna embættisins í umræddum málum. Auk þess er boðuð fyrirhuguð áminning gagnvart kæranda, skv. 28. gr. læknalaga nr. 53/1988, á þeim forsendum að hann hafi vanrækt skyldur sínar sem læknir. Er kæranda og gefinn kostur á að koma að andmælum. Kærandi gerði þá kröfu með bréfi, dags. 8. nóvember 2006, að kærði viki sæti í málinu vegna vanhæfis. Með bréfi, dags. 7. desember 2006, hafnaði landlæknir kröfu um að hann viki sæti og er sú ákvörðun til umfjöllunar hér.

2. Málsástæður og lagarök kæranda

Krafa kæranda um að kærði víki sæti vegna vanhæfis í máli vegna fyrirhugaðrar áminningar byggir á 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi telur að kærði hafi í bréfi, dags. 15. september 2006, haft uppi mjög alvarlegar ásakanir í hans garð, fullyrt um málsatvik, ákveðið sök og þegar tekið afstöðu til efnisatriða málsins áður en hann hafi tekið formlega ákvörðun í því. Vísar hann þar sérstaklega til svohljóðandi ummæla kærða í bréfinu: „Með tilvísun til niðurstöðu álitsgerðar í hverju ofangreindra mála fyrir sig má ljóst vera að aðgerðirnar hafa verið framkvæmdar af vítaverðu kunnáttuleysi eða hirðuleysi, sem hefur valdið sjúklingum talsverðu tjóni og óþægindum og rekja má til rangrar aðgerðartækni...Með tilvísan til ofanskráðs er fyrirhugað að veita þér lögformlega áminningu samkvæmt 28. gr. læknalaga fyrir að hafa vanrækt skyldur þínar sem læknir.“

Þá telur kærandi að þær athugasemdir sem hann hafi komið á framfæri í fyrrgreindum kvörtunarmálum hafi eingöngu lotið að læknisfræðilegum álitaefnum varðandi framkvæmd B en ekki því hvort hann hafi gerst sekur um svo vítavert kunnáttuleysi eða hirðuleysi að efni væri til þess að áminna hann. Kæranda hafi því aldrei verið gefinn kostur á að tjá sig um slíkar ávirðingar áður en kærði lét í ljós þá afstöðu sína að kærandi hafi gerst sekur um vanrækslu er varði áminningu.

3. Málsástæður og lagarök kærða

Í umsögn kærða til ráðuneytisins, dags. 15. janúar 2007, er vísað til fyrirliggjandi gagna málsins, einkum bréfs kærða frá 15. september 2006 um boðun áminningar og andmælarétt vegna hennar og bréfs, dags. 7. desember 2006, þar sem hafnað er kröfu um að kærði víki sæti. Í umsögninni segir einnig að mál kæranda sé unnið á sama hátt og önnur sambærileg mál. Í máli kæranda sé um mörg kvörtunarmál að ræða sem séu grundvöllur þess að fyrirhugað sé að beita áminningu. Kærandi hafi í hverju þessara tilvika fengið andmælarétt en í þeim öllum hafi það verið niðurstaða kærða að ranglega hafi verið staðið að málum af hálfu kæranda. Mál þessi hafi verið rannsökuð með aðstoð sérfræðimenntaðra álitsgjafa. Niðurstaða allra þessara athugana hafi verið sú að fyrirliggjandi gögn gæfu tilefni til að boða áminningu skv. 28. gr. læknalaga nr. 53/1988 með venjulegum fyrirvara um andmælarétt samkvæmt stjórnsýslulögum.

Í bréfi kærða til kæranda frá 7. desember 2006 kemur fram að ákvörðun um áminningu hafi ekki enn verið tekin og geti andmæli breytt afstöðu embættisins til áminningar. Þá segir að ekki sé skylt að veita andmælarétt ef afstaða aðila liggi fyrir í gögnum málsins, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, eins og við eigi í máli kæranda enda liggi afstaða hans þegar fyrir í öllum umræddum kvörtunarmálum. Það sé hins vegar vinnuregla hjá kærða að veita frekari andmælarétt áður en áminning er veitt til að tryggja eins góðan grundvöll að ákvörðun og frekast er unnt. Þannig eigi kærandi þess enn kost að koma athugasemdum sínum á framfæri, hann geti bent á misskilning eða ónákvæmni í gögnum málsins eða jafnvel heimildir sem séu betri grundvöllur að ákvörðun máls.

Um kröfu kæranda um að kærði víki sæti í máli hans segir í bréfinu: „Að því virtu að um er að ræða eiginleg lok í umræddum stjórnsýslumálum sem verið hafa til meðferðar, og afstaða læknis liggur fyrir í umræddum kvörtunarmálum verður ekki fallist á það að undirritaður sé fyrirfram búinn að fullyrða um málsatvik og ákveða sök hjá aðila, áður en honum hefur gefist kostur á að tjá sig og áður en ákvörðun liggur fyrir eins og fram kemur í bréfi yðar frá 8. nóvember 2006 svo valdi vanhæfi undirritaðs við lok stjórnsýslumálsins. Með hliðsjón af 3. gr. sbr. 2. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga er því ekki orðið við kröfu um að undirritaður lýsi sig vanhæfan til meðferðar málsins. Ákvörðun þessi er kæranleg til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra samkvæmt stjórnsýslulögum.“

4. Niðurstaða ráðuneytisins

Ágreiningur aðila í máli þessu lýtur að þeirri ákvörðun kærða að víkja ekki sæti, vegna meints vanhæfis, í máli vegna fyrirhugaðrar áminningar gagnvart kæranda.

Ráðuneytið hefur farið yfir atvik málsins og þær réttarreglur er lúta að hæfi samkvæmt stjórnsýslulögum. Þegar vafi kemur upp um hæfi yfirmanns embættis eða stofnunar gildir sú regla að þá skuli yfirmaðurinn ákveða sjálfur hvort hann víki sæti. Hafi aðili sjálfur vakið máls á því hvort starfsmaður sé hæfur til meðferðar máls er eðlilegt að tilkynna aðila um niðurstöðu ákvörðunar um hæfi starfsmannsins. Það gerði kærði með bréfi til kæranda dags. 7. desember 2006.

Eins og fram kemur í athugasemdum sem fylgdu 5. gr. og 26. gr. frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er ljóst að ákvörðun um hæfi starfsmanns er ekki stjórnsýsluákvörðun um réttindi eða skyldur manna í skilningi 1. gr. stjórnsýslulaga. Ákvörðun um hæfi er formákvörðun sem tekin er um meðferð stjórnsýslumáls en felur ekki í sér endalok þess. Slíkar ákvarðanir verða ekki kærðar til æðra stjórnvalds fyrr en máli hefur verið ráðið til lykta og efnisákvörðun liggur fyrir, nema um sérstaka kæruheimild sé að ræða. Enga slíka heimild er að finna í læknalögum nr. 53/1988. Komi til kærumeðferðar er hæfi þess er ákvörðun tekur eitt af því sem komið getur til skoðunar hjá æðra stjórnvaldi. Með því að hægt er að kæra slíkar ákvarðanir eftir að endanleg ákvörðun hefur verið tekin í málinu verður að telja að réttaröryggi sé nægilega tryggt. Samkvæmt framansögðu er ábending í bréfi kærða til kæranda frá 7. desember 2006, um að ákvörðun hans sé kæranleg til ráðuneytisins, því byggð á misskilningi.

Niðurstaða ráðuneytisins er því sú að ákvörðun landlæknis frá 7. desember 2006 um að víkja ekki sæti í máli vegna fyrirhugaðrar áminningar sé ekki kæranleg til ráðuneytisins sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga fyrr en málið hefur verið til lykta leitt og efnisákvörðun liggur fyrir. Ráðuneytið vill því benda á að þegar og ef ákvörðun um áminningu verður tekin er sú ákvörðun kæranleg til ráðuneytisins á grundvelli stjórnsýslulaga.

Með vísan til framangreinds er kæru þessari vísað frá ráðuneytinu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Erindi kæranda frá, 19. desember 2006, vegna ákvörðunar kærða frá 7. desember 2006 um að víkja ekki sæti vegna vanhæfis í máli er varðar fyrirhugaða áminningu er vísað frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum