Hoppa yfir valmynd
9. mars 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Synjun Vinnumálastofnunar frá 5. desember 2006. Frávísun.

Föstudaginn 9. mars 2007 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r:

 

Með erindi, dags. 17. janúar 2007, sem barst ráðuneytinu 22. janúar 2007, kærði A ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. desember 2006, um synjun á veitingu atvinnuleyfis fyrir B, sem er indónesískur ríkisborgari.

 

I. Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar synjun Vinnumálastofnunar á veitingu atvinnuleyfis til handa A í því skyni að ráða til starfa B, sem eru indónesískur ríkisborgari. Vinnumálastofnun synjaði um veitingu atvinnuleyfisins með vísan til a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga.

Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hana til ráðuneytisins. Ráðuneytið sendi kæranda bréf, dags. 22. janúar sl., þar sem athygli kæranda var vakin á því að kærufrestur í málinu hefði runnið út 2. janúar sl. en samkvæmt 24. gr. laga, um atvinnuréttindi útlendinga, er kærufrestur fjórar vikur frá því að tilkynning berst um ákvörðun Vinnumálastofnunar. Því teldist viðkomandi kæra hafa borist ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti.

Í fyrrnefndu bréfi ráðuneytisins var enn fremur tekið fram að þrátt fyrir ákvæði 24. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga færi um kæru að öðru leyti samkvæmt VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Ráðuneytið óskaði því eftir að kærandi tilgreindi ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti og var frestur veittur til 5. febrúar sl.

Ráðuneytinu barst svarbréf kæranda þann 2. febrúar sl., þar sem fram kemur að ástæða þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti hafi verið að systir umrædds útlendings, sem er íslenskur ríkisborgari, hafi ekki fengið vitneskju um synjun Vinnumálastofnunar fyrr en 20. desember 2006. Enn fremur kemur fram að desembermánuður sé mikill annatími í fyrirtæki kæranda og meðal annars af þeim sökum hafi farist fyrir að kæra synjun Vinnumálastofnunar með formlegum hætti. Þá kemur fram að systir umrædds útlendings hafi á tímabilinu frá 22. desember 2006 og fram í byrjun janúar 2007 átt fundi með félagsráðgjafa sínum sem og starfsmanni dóms- og kirkjumálaráðuneytis í tengslum við hugsanlega komu umrædds útlendings hingað til lands.

 

II. Niðurstaða

Vinnumálastofnun tekur ákvörðun um veitingu atvinnuleyfa á grundvelli laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, en heimilt er að kæra ákvörðun stofnunarinnar til félagsmálaráðuneytisins samkvæmt 24. gr. sömu laga. Samkvæmt 2. mgr. sama ákvæðis er kærufrestur fjórar vikur frá því að tilkynning berst um ákvörðun Vinnumálastofnunar en að öðru leyti fer um kæru skv. VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um stjórnsýslukæru. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ber að vísa stjórnsýslukæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Tímabundið atvinnuleyfi er veitt atvinnurekanda til að ráða útlending til starfa, sbr. 7. gr. laganna um atvinnuréttindi útlendinga. Fellur það því í hlut atvinnurekanda að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar enda beinist ákvörðun stofnunarinnar ekki að viðkomandi útlendingi sjálfum eða ættingjum hans heldur að atvinnurekandanum sem umsækjanda um viðkomandi atvinnuleyfi. Í gögnum málsins verður ekki annað séð en að ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun umrædds atvinnuleyfis hafi borist kæranda sem umsækjanda atvinnuleyfisins með eðlilegum hætti. Sökum anna hafi hann hins vegar látið hjá líða að kæra fyrrnefnda ákvörðun til ráðuneytisins þar til 17. janúar 2007. Að mati ráðuneytisins teljast annir kæranda ekki til afsakanlegra ástæðna í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga fyrir því að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum kærufresti.

Enn fremur kemur fram í gögnum málsins að systir umrædds útlendings hafi ekki fengið vitneskju um synjun Vinnumálastofnunar fyrr en 20. desember 2006 en í kjölfarið hafi hún átt fundi með félagsráðgjafa sínum sem og starfsmanni dóms- og kirkjumálaráðuneytis í tengslum við hugsanlega komu útlendingsins hingað til lands. Að mati ráðuneytisins verður ekki séð að sá tími sem virðist hafa liðið frá því að kæranda barst í hendur ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun á veitingu umrædds atvinnuleyfis og þar til systir umrædds útlendings fékk vitneskju um fyrrnefnda ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi skipt máli hvað varðar möguleika kæranda til að kæra umrædda ákvörðun fyrr en raunin varð. Af gögnum málsins verði því ekki annað ráðið en að kærandi hefði getað kært umrædda ákvörðun Vinnumálastofnunar til ráðuneytisins innan lögbundins kærufrests hefði hann talið slíka ráðstöfun þjóna hagsmunum sínum.

Í ljósi framangreinds er því óhjákvæmilegt annað en að líta svo á að kærandi hafi ekki sýnt fram á afsakanlegar ástæður í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga fyrir því að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti. Þá verður ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum í málinu að veigamiklar ástæður mæli með því að stjórnsýslukæran verði tekin til efnislegrar meðferðar hjá ráðuneytinu, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Með vísan til framangreinds er erindi kæranda vísað frá ráðuneytinu, sbr. 24. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Stjórnsýslukæru A, dags. 17. janúar 2007, sem barst ráðuneytinu 22. janúar 2007, vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar, dags. 5. desember 2006, um synjun á veitingu atvinnuleyfis fyrir B, sem er indónesískur ríkisborgari, er vísað frá félagsmálaráðuneytinu.

 

Fyrir hönd ráðherra

 

Sesselja Árnadóttir

Bjarnheiður Gautadóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum