Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 240/2012

Miðvikudaginn 16. janúar 2013

 A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Guðmundur Sigurðsson læknir, Þuríður Árnadóttir lögfræðingur og Kristín Benediktsdóttir lektor.

Með bréfi, dags. 9. júlí 2012, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um meðlagsgreiðslur.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að Tryggingastofnun ríkisins hafði milligöngu um meðlagsgreiðslur til kæranda á tímabilinu 1. maí 2004 til 1. júlí 2007 og aftur 1. september 2008 til 1. júní 2009. Í bæði skiptin stöðvuðust greiðslur til kæranda vegna flutnings úr landi. Með bréfi, dags. 25. ágúst 2011, óskaði kærandi eftir því að virkja meðlagsgreiðslur á ný þar sem hún væri flutt til Íslands. Kærandi fór fram á greiðslur frá maí 2011, eða frá þeim tíma sem hún flutti til Íslands frá B

Með bréfi, dags. 16. september 2011, óskaði Tryggingastofnun ríkisins eftir frumriti af meðlagsákvörðun og útfylltu umsóknareyðublaði um meðlag. Þann 20. mars 2012 móttók stofnunin umsókn kæranda, dags. 13. mars 2012, um meðlagsgreiðslur. Meðfylgjandi umsókninni var dómsátt frá Héraðsdómi H, dags. 16. apríl 2004, þar sem kveðið er á um skyldu barnsföður til að greiða kæranda meðlag frá 1. desember 2003 til 18 ára aldurs barnsins. Með bréfi, dags. 9. maí 2012, samþykkti Tryggingastofnun ríkisins að greiða meðlag frá 1. mars 2012. Kærandi fer fram á meðlagsgreiðslur frá 1. maí 2011.

 Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir:

 „Í tengslum við bréf Tryggingarstofnunarinnar, dags. 09, maí sl., kæri ég hér með úrskurðinn sbr. 2. mgr 7. gr. reglugerðar 945/2009. D í útibúi Tryggingarstofnunarinnar í E, glataði upprunalegu meðlags umsókninni sem ég persónulega afhenti henni í lok júní 2011, ásamt meðlagsúrskurðinum. Hún gaf mér rangar upplýsingar um bréfsímanúmer deildarinnar í tengslum við hvenær greiðslu meðlags lauk í B sem var það eina sem henni vantaði á sínum tíma. Þegar það uppötvaðist sagðist A ætla að afla þeirra sjálf þar sem um hennar mistök hefði verið að ræða, sem hún svo gerði ekki.

Þegar ég grennslaðist um meðlagið u.þ.b. tveimur mánuðum síðar kom í ljós að ekki var allt með feldu og fór ég þess á leit við F í upphafi að þetta yrði lagfært innan stofnunarinnar. Hún varpaði ábyrgðinni hispurslaust á mig. Í framhaldi óréttlætisins fór ég á leit við yfirmann Tryggingarstofnunarinnar, G sem svaraði mér ekki.

Ég hef fengið ómannúðlegar viðtökur varðandi ofangreint málefni hjá stofnuninni og fer þess á leit hjá réttindasviði, fjölskyldumála að þetta verði lagfært. Meðfylgjandi eru samskipti sem ég hef átt, undanfarna mánuði við yfirmenn hennar.“

 Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi, dags. 15. ágúst 2012. Í greinargerð stofnunarinnar, dags. 11. september 2012, segir:

1. Kæruefni

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar um synjun á milligöngu um meðlag aftur í tímann.

Í málinu liggur fyrir umsókn kæranda um meðlagsgreiðslur, dags. 13. mars 2012 og dómsátt frá Héraðsdómi H, dags. 16. apríl 2004 þar sem kemur fram að faðir skuli greiða meðlag með dóttur kæranda frá 1. desember 2003 til fullnaðs 18 ára aldurs hennar.  Með bréfi dags. 9. maí 2012 var umsókn kæranda samþykkt frá 1. mars 2012 og vísað til þess að samkvæmt 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009 þá greiddi Tryggingastofnun einungis meðlag frá og með þeim mánuði sem umsókn og meðlagsákvörðun berst ef meðlagsákvörðun væri eldri en tveggja mánaða, nema alveg sérstaklega stæði á.

2. Málavextir

Forsaga málsins er sú að Tryggingastofnun móttók þann 2. september 2011 beiðni kæranda um að setja í gang að nýju meðlag til sín þar sem hún væri nú flutt aftur heim frá B.  Meðfylgjandi beiðninni var staðfesting frá B um að kærandi hefði þegið meðlag þar í landi til 30.04.2011.  Beiðnin var áframsend til umboðs Tryggingastofnunar í E þar sem kærandi var búsettur þar og var honum sent bréf af því umboði þann 16. september 2011 þar sem óskað var eftir frumriti meðlagsákvörðunar og útfyllt umsóknareyðublað stofnunarinnar um meðlag.  Í framhaldinu barst óundirrituð umsókn kæranda ásamt endurriti úr þingbók Héraðsdóms H sem ekki telst fullgild meðlagsákvörðun þar sem einungis er um að ræða fundargerð af því sem fram fór fyrir dómi en ekki endanlega niðurstöðu fyrir dómi.  Þegar kærandi leitaði til stofnunarinnar til að grennslast fyrir um umsókn sín var henni tjáð það í tölvupósti að þessi gögn væru ekki fullnægjandi til að afgreiða meðlag til hennar.  Fullgild umsókn og meðlagsákvörðun bárust ekki stofnuninni fyrr en í mars 2012 og frá þeim tíma var henni ákvarðað meðlag eins og áður hefur verið sagt.

Í kæru heldur kærandi því fram að umboð Tryggingastofnunar hafi glatað upprunalegu umsókninni sinni um meðlag sem afhent hafi verið í lok júní 2011.  Einnig að hún hafi fengið rangar upplýsingar varðandi bréfsímanúmer deildarinnar í tengslum við hvenær greiðslu meðlags lauk í B.  Og að síðan hafi ekki verið neitt gert í máli kæranda þegar hún grennslaðist fyrir um það tveimur mánuðum seinna og síðan í framhaldi af því.

3. Lög og reglugerðir sem málið snerta

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 er Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna skv. IV. og IX. kafla, sem búsettur er hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setja.

Í 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum, kemur fram að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. ekki við.

Um heimildarákvæði er að ræða í 4. mgr. 63. gr. almannatryggingalaga og er því ekki um að ræða rétt umsækjanda um meðlagsgreiðslur frá Tryggingastofnun aftur í tímann, heldur heimild stofnunarinnar til að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur aftur í tímann, þó aldrei lengur en eitt ár.

Í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009 segir að þegar meðlagsákvörðun er eldri en tveggja mánaða skuli einungis greiða frá byrjun þess mánaðar sem umsókn og fylgigögn berast, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem geta réttlætt greiðslur lengra aftur í tímann, allt að 12 mánuði.  Þá segir að með sérstökum ástæðum er m.a. átt við ef meðlagsmóttakanda hefur af einhverjum ástæðum verið ómögulegt að setja fram kröfu um milligöngu meðlagsgreiðslna án tafar.

4. Niðurstaða

Kærandi heldur því fram að hann hafi sótt um meðlag í júní 2011 en þau gögn hafi glatast hjá umboði stofnunarinnar. Ekki liggja þó fyrir skrifleg gögn varðandi það og engin umsókn hefur fundist hjá umboði Tryggingastofnunar né í Tryggingastofnun frá þeim tíma.  Fram að því að umsókn kæranda barst í mars 2012 hafði einungis borist beiðni kæranda dags. 25. ágúst 2011 um greiðslu meðlags að nýju, staðfesting frá B, ódagsett og óundirrituð umsókn frá kæranda og endurrit úr þingbók Héraðsdóms H sem ekki teljast fullnægjandi gögn fyrir milligöngu Tryggingastofnunar á meðlagsgreiðslum.

Dómsátt Héraðsdóms H, sem barst Tryggingastofnun ekki fyrr en í mars 2012 ásamt undirritaðri umsókn, er dags. 16. apríl 2004.  Þær ástæður sem kærandi gefur upp í kæru sinni fyrir því að hafa ekki lagt fram fullnægjandi gögn fyrr en í mars 2012 geta ekki talist til slíkra ástæðna að réttlæti greiðslu meðlags aftur í tímann. Tryggingastofnun telur því ekki unnt að víkja frá þeirri reglu í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009 að meðlag skuli ekki greitt aftur í tímann þegar fyrir liggur meðlagsákvörðun sem er eldri en tveggja mánaða.  Þá er skýrt kveðið á í 52. gr. almannatryggingalaga að sækja skuli um allar bætur frá Tryggingastofnun, svo og greiðslur skv. 63. gr., á þar tilgerðum eyðublöðum stofnunarinnar.

Með vísan til alls framangreinds telur Tryggingastofnun ekki ástæðu til þess að breyta ákvörðun sinni.“

 Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 12. september 2012, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Með bréfi, dags. 25. september 2012, bárust svofelldar athugasemdir frá kæranda:

„Ein af grundvallargreinum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er 3. greinin:

3. gr. 1. Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.

2. Með hliðsjón af réttindum og skyldum foreldra eða lögráðamanna, eða annarra sem bera ábyrgð að lögum á börnum, skuldbinda aðildarríki sig til að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, og skulu þau í því skyni gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu.

3. Aðildarríki skulu sjá til þess að stofnanir þar sem börnum skal veitt umönnun og vernd starfi í samræmi við reglur sem þar til bær stjórnvöld hafa sett, einkum um öryggi, heilsuvernd og fjölda og hæfni starfsmanna, svo og um tilhlýðilega yfirumsjón.

Úrskurðarnefnd almannatrygginga vísar m.a. í dómsátt frá Héraðsdómi H, dags. 16. Apríl 2004 þar sem fram kemur að faðir skuli greiða meðlag með J til fullnaðs 18 ára aldurs hennar, án þess að kynna sér raunverulega stöðu mála. Hin raunverulega staða er sú að umræddur faðir hefur aldrei greitt meðlag til dóttur sinnar, né til ríkisins frá dagsetningu dómsáttar.

Er stofnunin með þessu að draga fram gögn í málinu sem ekki hefur verið kannað til hlýtar og notfærir sér ýmindaðar aðstæður barnsins er varðar framfærslu.

Stofnunin hylmir yfir mistök G, innan stofnunarinnar er glataði í upphafi mikilvægum gögnum í þessu máli á kostnað saklaus barns sem hefur þjáðst félagslega sökum vöntunar á meðlagi. Umræddur starfsmaður gaf mér rangt bréfssímanúmer og ætlaði í kjölfarið að lagfæra það og koma málinu í örugga höfn, sem var ekki gert. Stofnunin tekur enga ábyrgð á gjörðum starfsmannsins og ákveður að J fái engar bætur fyrir þær þjáningar sem hún hefur liðið á undanförnum mánuðum.

Tryggingarstofnunin brást dóttur minni alfarið í þessu máli. Stofnunin fer á skjön við Barnasáttmálann og brýtur á henni skv. 3.gr. 1., þar sem barnið ekki sett í forgang er varðar hennar andlegu og félagslegu hlið.

Í 3.gr. 2., fór ég eftir skyldum mínum sem nærtakasti aðstandi J um leið og ég hafði tækifæri á því, tæplega einum mánuði eftir flutning. Ég hafði verið í bréflegum samskiptum við F, eins og fram kemur í fyrirgreindum gögnum er varðar glöp starfsmannsins í starfi. F er sú sama og tekur endanlega ákvörðun í málinu, eftir eigin geðþótta. Þar með, er hún of nátengd þessu máli til að úrskurða um endanlega niðurstöðu þess. Hún tryggir ekki J þá vernd sem velferð hennar krefst og gerir engar ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu henni til aðstoðar. Þess í stað hylmir hún yfir mistök starfsmanns innan stofnunarinnar sem og hennar samskiptum við mig.

Í 3.gr. 3., Tryggingarstofnunin sýnir ekki fordæmi í samræmi við reglur aðildarríkja Barnasáttmálans um hæfni starfsmanna, svo og um tilhlýðilega yfirumsjón málsins og brýtur á J er varðar umrætt málefni.“

 

Athugasemdir kæranda voru kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 28. september 2012. Viðbótargreinargerð, dags. 5. október 2012, barst frá stofnuninni. Í greinargerðinni segir:

 „Viðbótargögn bárust Tryggingastofnun í málinu þann 28. september sl. Stofnunin gerir engar athugasemdir vegna þessara viðbótargagna. Framlögð gögn gefa ekki tilefni til breytinga á ákvörðun. Tryggingastofnun telur sig hafa farið að lögum um almannatryggingar og stjórnsýslulögum við afgreiðslu málsins og vísar til fyrri greinargerðar.“

 Viðbótargreinargerðin var kynnt kæranda með bréfi, dags. 11. október 2012. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um meðlagsgreiðslur. Kærandi fór fram á að stofnunin greiddi meðlag aftur í tímann frá 1. maí 2011 en stofnunin samþykkti meðlagsgreiðslur frá 1. mars 2012.

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga greindi kærandi frá því að hún hafi afhent starfsmanni Tryggingastofnunar umsókn um meðlag ásamt meðlagsúrskurði í lok júní 2011 en hann hafi glatað umsókninni. Það eina sem hafi vantað hafi verið staðfesting á hvenær greiðslu meðlags lauk í B. Starfsmaðurinn hafi gefið henni rangar upplýsingar um bréfsímanúmer deildarinnar og vegna þeirra mistaka hafi starfsmaðurinn ætlað að afla þeirra gagna sjálf en það hafi hún ekki gert. Þegar hún hafi grennslast fyrir um meðlagið u.þ.b. tveimur mánuðum síðar hafi komið í ljós að ekki væri allt með felldu en ábyrgðinni hafi verið varpað yfir á hana.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að þann 2. september 2011 hafi stofnunin móttekið beiðni kæranda um að setja í gang að nýju meðlag til sín þar sem hún væri flutt aftur heim frá B. Með bréfi, dags. 16. september 2011, hafi stofnunin óskað eftir frumriti meðlagsákvörðunar og útfylltu umsóknareyðublaði um meðlag. Í framhaldinu hafi óundirrituð umsókn borist frá kæranda ásamt endurriti úr þingbók Héraðsdóms H sem ekki teldist fullgild meðlagsákvörðun. Þegar kærandi hafi leitað til stofnunarinnar  til að grennslast fyrir um umsókn sína hafi henni verið tjáð það í tölvupósti að þessi gögn væru ekki fullnægjandi til að afgreiða meðlag til hennar. Fullgild umsókn og meðlagsákvörðun hafi ekki borist stofnuninni fyrr en í mars 2012 og frá þeim tíma hafi henni verið ákvarðað meðlag.

Í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um skilyrði þess að Tryggingastofnun ríkisins hafi milligöngu um meðlagsgreiðslur þar sem segir:

,,Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga.

Samkvæmt framangreindu lagaákvæði er það skilyrði að lögformleg meðlagsákvörðun liggi fyrir til þess að einstaklingur sem hefur barn á framfæri geti átt rétt á fyrirframgreiðslu meðlags frá Tryggingastofnun ríkisins. Samkvæmt dómsátt Héraðsdóms H, dags. 16. apríl 2004, ber föður barnsins að greiða kæranda meðlag frá 1. desember 2003. Mál þetta lýtur að ágreiningi um afturvirkar meðlagsgreiðslur fyrir milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins.

Kærandi hafði fengið greiddar meðlagsgreiðslur fyrir milligöngu Tryggingastofnunar fram til 1. júní 2009 eða fram að þeim tíma sem hún flutti til B. Meðlagið var greitt á grundvelli fyrrgreindrar meðlagsákvörðunar, dags. 16. apríl 2004. Vegna flutnings kæranda til B í júní 2009 féll milliganga Tryggingastofnunar um meðlagsgreiðslurnar niður frá þeim tíma.

Á grundvelli 6. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er ráðherra heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Reglugerð nr. 945/2009, um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga, hefur verið sett með framangreindri lagastoð.

Í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009 segir:

 „Þegar meðlagsákvörðun, þar með talin ákvörðun um meðlag til bráðabirgða skv. 9. gr., og ákvörðun um framlag til menntunar eða starfsþjálfunar skv. 10. gr. er eldri en tveggja mánaða skal einungis greiða frá byrjun þess mánaðar sem umsókn og fylgigögn skv. 5. gr. berast, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem geta réttlætt greiðslur lengra aftur í tímann, allt að 12 mánuði. Með sérstökum ástæðum er m.a. átt við ef meðlagsmóttakanda hefur af einhverjum ástæðum verið ómögulegt að setja fram kröfu um milligöngu meðlagsgreiðslna án tafar.“

Samkvæmt tilvitnuðu reglugerðarákvæði skal Tryggingastofnun ríkisins miða upphaf meðlagsgreiðslna við byrjun þess mánaðar sem umsókn og fylgigögn berast í þeim tilvikum þar sem meðlagsákvörðun er eldri en tveggja mánaða. Í máli þessu er ágreiningur um hvenær kærandi lagði inn umsókn um milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur. Kærandi kveðst hafa skilað inn umsókn í lok júní 2011 en Tryggingastofnun telur að kærandi hafi ekki skilað inn fullgildri umsókn fyrr en í mars 2012.

Með bréfi, dags. 25. ágúst 2011, til Tryggingastofnunar óskaði kærandi eftir því að stofnunin myndi virkja meðlagsgreiðslur til sín á ný þar sem hún væri flutt til Íslands frá B. Í bréfi kæranda kemur fram að hún hafi flutt til landsins í lok apríl 2011 en hún hafi ekki fundið tíma til að virkja meðlagið fyrr. Í málinu liggja engin gögn fyrir sem staðfesta það að kærandi hafi skilað inn umsókn í júní 2011 eins og hún kveðst hafa gert. Verður því ekki hægt að slá því föstu að það hafi átt sér stað. Að því virtu verður ekki hjá því komist að líta svo á að kærandi hafi sótt um meðlagsgreiðslur með bréfi, dags. 25. ágúst 2011, sem barst Tryggingastofnun ríkisins þann 2. september 2011.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar almannatrygginga að kærandi skuli eiga rétt á milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur frá 1. september 2011. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að miða upphafstíma meðlagsgreiðslna við 1. mars 2012 er því hrundið. Greiða skal meðlag frá 1. september 2011.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að miða upphafstíma meðlagsgreiðslna til A, við 1. mars 2012 er hrundið. Meðlag skal greiðast frá 1. september 2011.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Þuríður Árnadóttir lögfræðingur

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum