Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 3/2011

Föstudaginn 19. ágúst 2011

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Hjördís Stefánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. desember 2010, móttekin 4. janúar 2011 af úrskurðarnefnd almannatrygginga, kærir A synjun Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslu örorkubóta tvö ár aftur í tímann.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með ódagsettri umsókn, móttekin 14. apríl 2010 af Tryggingastofnun ríkisins, sótti kærandi um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Kærandi fór fram á greiðslu örorkubóta tvö ár aftur í tímann og skilaði samhliða þeirri beiðni inn læknisvottorði B, dags. 24. september 2010, þar sem fram kom að kærandi hafi verið óvinnufær síðastliðin tvö ár og lengur. Tryggingastofnun ríkisins synjaði beiðni kæranda um örorkubætur aftur í tímann á þeirri forsendu að kærandi hafði tekjur á tímabilinu.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir svo:

 „Óskað er örorku tvö ár aftur í tímann vegna örorku minnar. Ég hef í raun verið óvinnufær til margra ára en aldrei óskað bóta. Rak verktakafyrirtæki með eiginmanni mínum og við það reiknaðist reiknað endurmat sem var óverulegt á árunum 2008-2009. Og svo heiti ég A en ekki (kona þessi). Vænti þess að tryggingalæknir beri virðingu fyrir því fólki sem leitar til hans.“

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dags. 8. febrúar 2011. Greinargerð dags. 24. febrúar 2011 barst frá stofnuninni þar sem segir svo:

 Kæruefni

Kærandi sótti um örorkulífeyri og var veittur hann í fjögur ár fram í tímann frá 1. apríl 2010 til 31. mars 2014 á grundvelli 75% örorkumats. Kærandi óskaði síðan eftir að fá til viðbótar úrskurðaðan þennan sama lífeyri tvö ár aftur í tímann þannig að hann yrði alls veittur í sex ár en því var synjað. Við það er kærandi ósátt og kærir þá synjun til æðra stjórnvalds.

Lög sem málið snerta

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 skal sækja um allar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins.

Í 1. mgr. 53. gr. sömu laga kemur fram varðandi lífeyristryggingar að bætur skuli reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi. Örorkulífeyrir telst til lífeyristrygginga sbr. 1. mgr. 16.gr. laganna.

Í 2. mgr. 53.gr. er fjallað sérstaklega um greiðslu bóta aftur í tímann. Þar segir að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berist stofnuninni.

Málavextir

Kærandi er  kona sem býr í Reykjavík. Hún sótti um örorkulífeyri og tengdar bætur með umsókn móttekinni af Tryggingastofnun 14. apríl 2010. Ekki kemur fram í umsókninni að óskað sé þess að örorkulífeyrir verði greiddur aftur í tímann.

Þann 23. júní 2010 var kærandi metin til 75% örorku og gildir matið frá 1. apríl 2010 til 31. mars 2014 eða í rétt fjögur ár en að þeim tíma liðnum skyldi örorkan endurmetin. Hefur kærandi frá 1. apríl 2010 notið örorkulífeyris, aldurstengdrar örorkuuppbótar, tekjutryggingar og sérstakrar uppbótar til framfærslu.

Kærandi mun síðan hafa óskað eftir að fá þessar bætur greiddar tvö ár aftur í tímann, þ.e. til 1. apríl 2008 og sendi  Tryggingastofnun nýtt læknisvottorð getið út af B dags. 24. september 2010. Þar kemur fram að kærandi hafi verið orðin óvinnufær að mati læknisins a.m.k. tveimur árum áður en greiðslur örorkulífeyris hófust. Þessari beiðni kæranda var synjað með skjali útgefnu af Tryggingastofnun sem nefnist ”örorkumat lífeyristrygginga” og fylgdi kærunni. Það er undirritað af tryggingalækni. Tvær villur eru í þessu skjali. Annars vegar er dagsetning þess röng. Það á að vera dagsett 26. nóvember 2010. Hin villan er fólgin í því að talað er um kærandi hafi fengið reiknað ”endurmat” í laun en á að vera reiknað endurgjald. Beðist er velvirðingar á þessum villum.

Í þessu skjali bendir tryggingalæknir á að enda þótt kærandi hafi verið óvinnufær frá 1. apríl 2008 og jafnvel fyrir þann tíma þá skapi það ekki rétt til örorkulífeyris þar sem kærandi hafi haft tekjur af atvinnurekstri sínum þessi tvö ár. Er þar um að ræða svokallað reiknað endurgjald sem fjallað er um í 2. mgr. 1.tl. A-liðar 7.gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.

Upphafstíma örorkubóta var því óbreyttur, þ.e. 1. apríl 2010 en ekki 1. apríl 2008.

Ágreiningurinn í málinu

Kærandi bendir á að hún hafi í raun verið óvinnufær í mörg ár en hafi þrátt fyrir það aldrei óskað bóta. Hún hafi rekið fyrirtæki með eiginmanni sínum og við það hafi reiknast endurgjald sem hafi verið óverulegt á árunum 2008 og 2009.

Tryggingastofnun bendir hins vegar á að samkvæmt lögum eigi að sækja um allar bætur. Hún hafi hins vegar einhverra hluta vegna ekki sótt um bætur á árunum 2008 og 2009 enda þótt hún virðist telja sig hafa átt rétt á þeim á þeim tíma. Hún verði að bera hallann af því sjálf.

Í öðru lagi hafi reiknað endurgjald samkvæmt skattframtölum hennar á umræddum árum ekki verið óverulegt, heldur X  kr. á mánuði skv. skattframtölum hennar sjálfrar.

Í þriðja lagi þá er það að vísu rétt að Tryggingastofnun er heimilt skv. lögum að greiða örorkulífeyri allt að tvö ár aftur í tímann. Stofnunin lítur hins vegar svo á að sú heimild feli í sér undantekningu frá meginreglunni sem er að greiða skuli bætur frá 1. næsta mánaðar eftir umsóknardag. Sú undantekning á ekki við þegar umsækjandi hefur skv. skattframtali sínu haft tekjur til að sjá fyrir sér árin tvö áður en hann sækir um bætur.

Ef kærandi telur að skattframtöl sín fyrir árin 2008 og 2009 séu röng hvað tekjur hennar varðar umrædd tvö skattár virðist eðlilegast að hún snúi sér til skattyfirvalda og fái þau leiðrétt. Verði það samþykkt af skattyfirvöldum getur komið til álita að Tryggingastofnun taki að nýju fyrir beiðni hennar um að fá greiddan örorkulífeyri sinn tvö ár aftur í tímann. Fyrr er það ekki hægt.

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda til kynningar með bréfi dags.1. mars 2011 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkubætur tvö ár aftur í tímann.

Í kæru greindi kærandi frá því að hún hafi í raun verið óvinnufær til margra ára en aldrei óskað bóta. Hún hafi rekið fyrirtæki með eiginmanni sínum og við það hafi reiknast reiknað endurmat sem hafi verið óverulegt á árunum 2008 til 2009.

Í greinargerð Tryggingastofnunr ríkisins segir að kærandi hafi sótt um örorkubætur með umsókn sem móttekin var þann 14. apríl 2010 af stofnuninni. Kærandi hafi verið metin til 75% örorku og gildir matið frá 1. apríl 2010 til 31. mars 2014. Að mati B læknis hafði kærandi verið orðin óvinnufær a.m.k. tveimur árum áður en greiðslur örorkulífeyris hófust samkvæmt vottorði hans dags. 24. september 2010. Þá var greint frá því að þrátt fyrir að kærandi hafi verið óvinnufær frá 1. apríl 2008 skapi það ekki rétt til örorkulífeyris þar sem kærandi hafi haft tekjur af atvinnurekstri þessi tvö ár.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 er meginreglan sú að sækja skuli um allar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Bótaþegi verður því að leita eftir rétti sínum. Það gerði kærandi með umsókn sem móttekin var þann 14. apríl 2010 af Tryggingastofnun ríkisins þar sem hún sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. er umsækjanda skylt að veita stofnuninni nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt. Samkvæmt örorkumati sem framkvæmt var þann 23. júní 2010 var kærandi metin til 75% örorku og gildir matið frá 1. apríl 2010 til 31. mars 2014. Í máli þessu er ekki ágreiningur um bótarétt.

Kærandi fór síðar fram á greiðslu örorkubóta tvö ár aftur í tímann og barst Tryggingastofnun vottorð B læknis dags. 24. nóvember 2010 vegna þeirrar beiðni þar sem eftirfarandi kemur fram:

 „A hafði samb. við undirritaðan . Kveðst geta fengið örorku 2 ár aftur í tímann ef hún hafi verið óvinnufær. Undirritaður getur vottað að hún hefur verið undanfarin 2 ár og lengur.“

Með örorkumati dags. 26. nóvember 2010 synjaði Tryggingastofnun ríkisins beiðni kæranda um greiðslu örorkulífeyris tvö ár aftur í tímann. Synjunin var á þeirri forsendu byggð að kærandi hafi fengið reiknað endurgjald í laun í hverjum mánuði og þar af leiðandi hafi hún ekki átt bótarétt.

Í 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 segir að bætur skuli reiknaðar frá þeim degi sem umsækjandi hefur uppfyllt skilyrði til bótanna. Í 2. mgr. sömu greinar er heimild til að úrskurða bætur aftur í tímann, þó aldrei lengra en tvö ár. 

Örorkulífeyrir er tekjutengdur samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi reiknað endurgjald á því tímabili sem hún óskar afturvirkra bótagreiðslna vegna. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar er tilgreint hvað teljist til tekna og er vísað til laga um tekjuskatt nr. 90/2003 í því tilliti. Í A lið 7. gr. laga um tekjuskatt kemur fram að reiknað endurgjald tejist til tekna og hafa þær tekjur því áhrif á bótarétt. Samkvæmt gögnum málsins voru mánaðarlegar tekjur kæranda X kr. á árunum 2008 og 2009. Samkvæmt meginreglu ber að sækja um allar bætur til Tryggingastofnunar ríkisins og reiknast bætur frá næsta mánaðardegi eftir að umsókn berst stofnuninni. Undantekning frá þeirri meginreglu getur verið heimil og aðeins í þeim tilvikum þar sem umsækjandi hefur uppfyllt skilyrði til bóta aftur í tímann, sbr. 53. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt því sem rakið hefur verið uppfyllti kærandi ekki skilyrði örorkulífeyris tvö ár aftur í tímann vegna þeirra tekna sem hún hafði á tímabilinu.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu örorkulífeyris tvö ár aftur í tímann. 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um greiðslu örorkulífeyris tvö ár aftur í tímann er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum