Hoppa yfir valmynd
7. mars 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 54/2011

Miðvikudaginn 7. mars 2012

 

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Guðmundur Sigurðsson læknir, Þuríður Árnadóttir lögfræðingur og Kristín Benediktsdóttir hdl.

Með kæru, dags. 9. febrúar 2011, kærir A, afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um meðlagsgreiðslur.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn, dags. 2. febrúar 2011, sótti kærandi um meðlag til Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. september 2010. Með bréfi, dags. 8. febrúar 2011, samþykkti stofnunin að greiða meðlag frá 1. febrúar 2011. Ekki hafi verið heimilt að samþykkja greiðslur fyrir þann tíma þar sem fyrirliggjandi meðlagsákvörðun sé eldri en tveggja mánaða. Kærandi fer fram á meðlagsgreiðslur frá þeim tíma sem hún flutti til Íslands frá B í október 2010.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru til úrskurðarnefndar segir:

 „Ég fékk aldrei neitt bréf í hendurnar varðandi að ég fengi ekki meðlag þar sem ég fluttist til B. Þar að leiðandi vissi ég ekki að ég þurfti að sækja um það þegar ég flutti til Íslands aftur í október 2010. Ég tók því miður ekki eftir því þar sem ég hafði ekki skoðað reikninginn minn nógu vel og gerði bara ráð fyrir því að þetta kæmi inn, þar sem ég sótti um meðlag árið 1999. Ég var með lögheimili í B og geri ég ráð fyrir því að ég fengi bréf um að meðlag yrði fellt niður og ég yrði að sækja um meðlag í B.“

 

Með bréfi, dags. 24. febrúar 2011, óskaði úrskurðarnefnd almannatrygginga eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins. Greinargerð, dags. 15. mars 2011, barst frá stofnuninni þar sem segir:

 Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar um synjun á milligöngu um meðlag aftur í tímann, þ.e. frá flutningi kæranda aftur til Íslands frá B.

Í málinu liggur fyrir umsókn kæranda um meðlagsgreiðslur, dags. 2. febrúar 2011 og staðfesting á samkomulagi um meðlagsgreiðslur dags. 21. júlí 1999 þar sem kemur fram að faðir samþykki að greiða meðlag með syni kæranda, C, frá 23. apríl 1999 til fullnaðs 18 ára aldurs hans. Með bréfi dags. 8. febrúar 2011 var umsókn kæranda samþykkt frá 1. febrúar 2011 og vísað til þess að samkvæmt 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009 þá greiddi Tryggingastofnun einungis meðlag frá og með þeim mánuði sem umsókn og meðlagsákvörðun berst ef meðlagsákvörðun væri eldri en tveggja mánaða, nema alveg sérstaklega stæði á. Tryggingastofnun hafði áður greitt kæranda meðlag með syni hennar en greiðslur voru stöðvaðar frá og með 1. september 2010 vegna flutnings kæranda til B. 

Í kæru kemur fram að kærandi hafi ekki fengið neitt bréf í hendurnar varðandi það að hann fengi ekki meðlag þar sem hann flutti til B.  Þar af leiðandi vissi hann ekki að hann þyrfti að sækja um greiðslu meðlagsins að nýju við flutning aftur heim í október 2010.  Kærandi segist ekki hafa skoðað reikninginn sinn nógu vel og því ekki tekið eftir að greiðslur féllu niður.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 er Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna skv. IV. og IX. kafla, sem búsettur er hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setja.

Í 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum, kemur fram að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. ekki við.

Um heimildarákvæði er að ræða í 4. mgr. 63. gr. almannatryggingalaga og er því ekki um að ræða rétt umsækjanda um meðlagsgreiðslur frá Tryggingastofnun aftur í tímann, heldur heimild stofnunarinnar til að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur aftur í tímann, þó aldrei lengur en eitt ár.

Í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009 segir að þegar meðlagsákvörðun er eldri en tveggja mánaða skuli einungis greiða frá byrjun þess mánaðar sem umsókn og fylgigögn berast, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem geta réttlætt greiðslur lengra aftur í tímann, allt að 12 mánuði.  Þá segir að með sérstökum ástæðum er m.a. átt við ef meðlagsmóttakanda hefur af einhverjum ástæðum verið ómögulegt að setja fram kröfu um milligöngu meðlagsgreiðslna án tafar.

Greiðsla meðlags til kæranda með syni hennar var stöðvuð frá og með 1. september 2010 vegna flutnings hennar úr landi, enda er samkvæmt 67. gr. barnalaga ekki heimilt að greiða meðlag úr landi.  Þar sem ekki fékkst uppgefið heimilisfang kæranda í B var ekki hægt að senda henni bréf vegna stöðvunarinnar.

Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá flutti kærandi aftur til landsins 5. október 2010.  Þær ástæður sem kærandi gefur upp í kæru sinni fyrir því að hafa ekki sótt um greiðslu meðlags til Tryggingastofnunar fyrr en í febrúar 2011 geta ekki talist slíkar ástæður sem um getur hér að framan.  Tryggingastofnun telur því ekki unnt að víkja frá þeirri reglu í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009 að meðlag skuli ekki greitt aftur í tímann þegar fyrir liggur meðlagsúrskurður sem er eldri en tveggja mánaða.  Þá er skýrt kveðið á í 52. gr. almannatryggingalaga að sækja skuli um allar bætur frá Tryggingastofnun, svo og greiðslur skv. 63. gr., á þar tilgerðum eyðublöðum stofnunarinnar.

Tryggingastofnun telur því ekki ástæðu til þess að breyta ákvörðun sinni. 

Það skal tekið fram að áður en reglugerð nr. 945/2009 tók gildi í nóvember 2009 var það starfsregla hjá Tryggingastofnun að greiða einungis frá umsóknarmánuði ef meðlagsákvörðun væri eldri en tveggja mánaða, nema alveg sérstaklega stæði á.  Félags- og tryggingamálaráðuneytið og áður Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið fjallaði um þessa starfsreglu Tryggingastofnunar í úrskurðum sínum dags. 20. mars 2009 og 30. maí 2006.  Í þeim báðum kemur fram að ráðuneytið telji að starfsregla Tryggingastofnunar sé sanngjörn og málefnaleg þar sem hér sé um heimildarákvæði að ræða sem snertir meðlagsskylt foreldri og að það beri að hafa í huga að meðlagsskylda foreldris samkvæmt meðlagsákvörðun helst þrátt fyrir að Tryggingastofnun synji um milligöngu meðlags aftur í tímann.“

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 17. mars 2011, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um meðlagsgreiðslur. Kærandi fór fram á að stofnunin greiddi meðlag aftur í tímann frá 1. september 2010 en stofnunin samþykkti meðlagsgreiðslur frá 1. febrúar 2011.

Í rökstuðningi fyrir kæru greindi kærandi frá því að hún hafi ekki vitað að hún hafi þurft að sækja um meðlag þegar hún hafi flutt til Íslands aftur í október 2010. Hún hafi ekki tekið eftir því þar sem hún hafi ekki skoðað reikninginn sinn nógu vel og hún hafi gert ráð fyrir að þetta kæmi inn þar sem hún hafi sótt um meðlag árið 1999. Hún hafi verið með lögheimili í B og hafi gert ráð fyrir að hún myndi fá bréf um að meðlagið yrði fellt niður.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er vísað til 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga þar sem segir að sé meðlagsákvörðun eldri en tveggja mánaða skuli einungis greiða frá byrjun þess mánaðar sem umsókn og fylgigögn berast, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi sem réttlætt geti greiðslur lengra aftur í tímann, allt að 12 mánuði. Meðlagsgreiðslur hafi verið stöðvaðar til kæranda frá 1. september 2010 þar sem hún hafi flutt úr landi. Þá var greint frá því að ekki hafi fengist uppgefið heimilisfang kæranda í B og þar af leiðandi hafi ekki verið unnt að senda henni bréf vegna stöðvunar á meðlagsgreiðslum. Stofnunin hafi ekki talið aðstæður kæranda sérstakar í skilningi 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009 og hafi af þeim sökum synjað umsókn kæranda um greiðslur aftur í tímann.

Í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um skilyrði þess að Tryggingastofnun ríkisins hafi milligöngu um meðlagsgreiðslur þar sem segir:

,,Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga.

Samkvæmt framangreindu lagaákvæði er það skilyrði að lögformleg meðlagsákvörðun liggi fyrir til þess að einstaklingur sem hefur barn á framfæri geti átt rétt á fyrirframgreiðslu meðlags frá Tryggingastofnun ríkisins. Samkvæmt staðfestu samkomulagi kæranda og föður barnsins, dags. 21. júlí 1999, ber föður barnsins að greiða kæranda meðlag frá 23. apríl 1999. Mál þetta lýtur að ágreiningi um afturvirkar meðlagsgreiðslur fyrir milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins.

Kærandi hafði fengið greiddar meðlagsgreiðslur fyrir milligöngu Tryggingastofnunar fram til 1. september 2010 eða fram að þeim tíma sem hún flutti til B. Meðlagið var greitt á grundvelli fyrrgreindrar meðlagsákvörðunar, dags. 21. júlí 1999. Vegna flutnings kæranda til B í september 2010 féll milliganga Tryggingastofnunar um meðlagsgreiðslurnar niður frá þeim tíma.

Reglugerð nr. 945/2009, um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga, hefur verið sett með stoð í 6. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 8. gr. reglugerðarinnar er fjallað um tilvik þar sem meðlagsgreiðslur falla niður. Í 5. tölul. nefndrar 8. gr. segir að meðlagsgreiðslur falli niður ef meðlagsmóttakandi og/eða barn séu búsett erlendis. Kærandi flutti til B og féllu meðlagsgreiðslurnar niður af þeim sökum.  Samkvæmt 14. gr. reglugerðarinnar er Tryggingastofnun aðeins skylt að greiða meðlagsmóttakanda meðlag sé hann búsettur hér á landi, sbr. 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Í 2. mgr. nefndrar 14. gr. segir að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skuli stofnunin hafa milligöngu um meðlag til meðlagsmóttakanda sem búsettur sé utan Íslands ef ákvæði milliríkjasamninga mæli fyrir um það. Undantekning 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar á ekki við í máli þessu þar sem ekki er að finna slík ákvæði í milliríkjasamningi um meðlagsgreiðslur. Kærandi flutti aftur til Íslands í október 2010 og sótti ekki á ný um milligöngu Tryggingastofnunar fyrr en með umsókn, dags. 2. febrúar 2011. Í umsókninni fer kærandi fram á meðlagsgreiðslur afturvirkt frá 1. september 2010.  

Úrskurðarnefnd almannatrygginga lítur til þess við úrlausn þessa máls að samkvæmt 15. gr. reglugerðar nr. 945/2009 ber meðlagsmóttakandi að upplýsa um breytingar á högum sem geta haft áhrif á greiðslur og hljóðar ákvæðið svo:

 „Þeim sem fá greitt meðlag eða önnur framfærsluframlög samkvæmt reglugerð þessari er skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á högum sem geta haft áhrif á greiðslur, svo sem brottflutning úr landi eða ef barn flyst af lögheimili meðlagsmóttakanda.“

Það er ljóst að flutningur kæranda úr landi hafði þau áhrif að milliganga Tryggingastofnunar um meðlagsgreiðslur féll niður, sbr. 5. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009. Þá liggur einnig fyrir að kærandi öðlaðist rétt til milligöngu Tryggingastofnunar á ný við flutning hennar til landsins að öðrum skilyrðum uppfylltum. Af tilvitnuðu reglugerðarákvæði verður hins vegar ekki annað ráðið en að sú skylda sé lögð á meðlagsmóttakanda að hann upplýsi stofnunina um breytingar á högum sem áhrif hafa á greiðslur og telur úrskurðarnefndin að þar undir falli m.a. flutningur til landsins eftir búsetu erlendis.

Einnig er litið til þess að samkvæmt 4. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 er Tryggingastofnun ríkisins einungis heimilt að greiða meðlag allt að 12 mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar barst stofnuninni. Kærandi hafði áður en hún fór af landi brott fengið meðlagsgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli staðfests samnings frá 21. júlí 1999. Samkvæmt því getur 4. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 ekki átt við í tilviki kæranda. Að sama skapi getur 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009 ekki átt við í tilviki kæranda. Verður því ekki séð að Tryggingastofnun  hafi heimild til að greiða kæranda meðlagsgreiðslur afturvirkt. Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar um að greiða kæranda meðlag frá 1. febrúar 2011 staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að greiða meðlag til A, frá 1. febrúar 2011 er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Þuríður Árnadóttir lögfræðingur



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum