Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 262/2010

Miðvikudaginn 2. nóvember 2011

A og B,

f.h. C

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Hjördís Stefánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga, dags. 1. júní 2010, kæra A og B, f.h. sonar síns, C, synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um 50-60% styrk til bifreiðakaupa.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn, dags. 11. janúar 2010, sótti kærandi um 50-60% styrk vegna bifreiðakaupa hreyfihamlaðra. Fram kemur í umsókninni að kærandi sé greindur með CP-fjórlömun. Hann sé algjörlega bundinn við hjólastól og þurfi stóra bifreið sem geti tekið rafmagnshjólastól ásamt ýmsum öðrum hjálpartækjum í lengri ferðum. Með bréfi, dags. 12. mars 2010, synjaði Tryggingastofnun ríkisins umsókn kærenda á þeim grundvelli að ekki sé heimilt að veita framfærendum hreyfihamlaðra barna, sem njóti umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, styrk skv. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 til kaupa á sérútbúnum og dýrum bifreiðum.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir:

 „2. Upplýsingar um kæruefni:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn undirritaðra A og B, f.h sonar okkar. C, um styrk til kaupa á sérútbúinni og dýrri bifreið.

Þess er krafist að úrskurðarnefndin felli ákvörðunina úr gildi og staðfesti rétt umsækjanda til styrks til kaupa á sérútbúinni bifreið allt að 50 – 60% af kaupverði bifreiðar í samræmi við 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009, sbr. lög nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Til vara er þess krafist að úrskurðarnefndin felli ákvörðunina úr gildi og staðfesti rétt undirritaðra framfærenda C til styrks til kaupa á sérútbúinni bifreið í samræmi við fyrrgreind ákvæði reglugerðar nr. 170/2009 og lög nr. 99/2007.

3. Rökstuðningur fyrir kæru:

Í synjunarbréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dagsettu 12. mars sl., er á því byggt að Tryggingastofnun sé ekki heimilt að veita framfærendum hreyfihamlaðra barna sem njóta umönnunargreiðslna styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 til kaupa á sérútbúnum og dýrum bifreiðum.

Enga stoð er að finna fyrir framangreindri ályktun í 5. gr. reglugerðarinnar. Því var leitað nánari skýringa hjá ritara bréfs Tryggingastofnunar, D. Á henni var að skilja að um væri að ræða þá túlkun lögfræðinga stofnunarinnar og félagsmála-ráðuneytisins á 5. gr. að það sem ekki væri sérstaklega tiltekið í henni, eins og í 4. gr. reglugerðarinnar, að heimilt sé að veita styrk til framfærenda hreyfihamlaðra barna sem njóta umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, bæri að túlka ákvæðið þannig að einvörðungu sé heimilt samkvæmt reglugerðinni að veita fólki sem nýtur örorkulífeyris umræddan styrk og þar með ekki hreyfihömluðum börnum eða foreldrum þeirra sem njóta umönnunargreiðslna.

Framangreind túlkun Tryggingastofnunar ríkisins samræmist hvorki reglu 5. gr. reglugerðarinnar né lögunum er hún byggir á, þ.e. lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Beinlínis er kveðið á um það í 10. gr. laganna að m.a. er heimilt að greiða styrk til bifreiðakaupa til umönnunargreiðsluþega, sbr. 1. mgr. en ákvæði 3. gr. um heimildina til styrkveitingar til öflunar bifreiðar var lögfest með 58. gr. laga nr. 112/2008. Þar segir: „Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“ Í frumvarpi til laganna segir um ákvæðið að gert sé ráð fyrir að ákvæði um styrk til að kaupa bifreið verði flutt í lög um félagslega aðstoð og heyri þar með undir félags- og tryggingamálaráðherra. Ekki sé um efnislega breytingu á réttindum einstaklinga að ræða.

Hvorki í 10. gr. laga nr. 99/2007 né löggjafargögnum er að finna stoð fyrir heimild til þess undanskilja fötluð börn rétti til styrks og mismuna þeim þannig á grundvelli aldurs. Þvert á móti er ljóst af 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sem reglugerðin byggir á, að heimilt er að veita umönnunargreiðsluþega umræddan styrk, sbr. enn fremur 4. gr. reglugerðarinnar. Sú mismunun er Tryggingastofnun beitir kæranda á sér ekki lagastoð og er auk þess andstæð 65. og 76. gr. stjórnarskrárinnar. Því verður ekki betur sé en að sonur okkar eigi rétt til styrks samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 með sama hætti og fullorðnir eða lögráða fatlaðir eða við foreldrar hans sem umönnunargreiðsluþegar.

Rétt er að árétta að eins og fram kemur í umsókninni frá 11. janúar 2010 er C mikið hreyfihamlaður með CP fjórlömun. Hann er algjörlega bundinn við hjólastól og ferðast um í rafmagnshjólastólum innanhúss og utan. Við foreldrarnir höfum séð um akstur hans til og frá skóla, sjúkraþjálfun, í læknisheimsóknir og annað sem hann þarf að fara í sínu daglega lífi. Tvisvar höfum við fengið styrk til bifreiðakaupa frá TR. Árið 1998 kr. X og í byrjun árs 2003 fengum við síðast samþykktan styrk kr. X til kaupa á bifreið sem við keyptum í mars 2004. Bifreiðin sem erX– stór sendibifreið er nú orðin of lítil. Drengurinn er orðinn 15 ára og nær með höfuðið uppí þak bifreiðarinnar þegar hann situr í hjólastólnum sínum í bílnum. Það er því orðið stórhættulegt að aka með drenginn í bílnum vegna hættu á alvarlegu slysi við misfellu á vegum eða akstri yfir hraðahindranir. Við þurfum því að fjárfesta í enn stærri bifreið sem við ætlum að þurfi að þjóna þörfum C a.m.k. næstu fimm árin eða fram yfir tvítugt. Verð bifreiðar af þessari stærðargráðu er upp undir tíu milljónir á verði dagsins í dag. Sökum þess að C er alveg bundinn við stóra og þunga hjólastóla er ótvírætt að þörf okkar fyrir sérútbúna og dýra bifreið er brýn. C nálgast fullorðinsaldur, og þessi bifreið þarf að duga næstu 5 árin a.m.k. Hún þarf því að rúma fullorðinn einstakling í rúmfrekum og þungum hjólastólum.

Einnig liggur fyrir að C uppfyllir skilyrði 4. gr. umræddrar reglugerðar, nánar tiltekið er til staðar heimilismaður með ökuréttindi (foreldrar), nauðsyn á bifreið er ótvíræð vegna hreyfihömlunar, hann er bundinn hjólastól, ökuhæfni foreldra liggur fyrir og hann er sjúkratryggður á Íslandi.

Samkvæmt framanrituðu er því óskað eftir endurskoðun ákvörðunarinnar og að styrkumsóknin verði samþykkt í samræmi við kröfur okkar sem lýst er í kæruefni.“

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. 3. júní 2010, eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins. Greinargerðin er dagsett 14. júní 2010. Þar segir meðal annars:

 

Kæruefni

Kærendur eru foreldrar 15 ára fatlaðs drengs sem kæra fyrir hans hönd.  Foreldrarnir njóta umönnunargreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins. Þeir hafa tvisvar fengið styrk (árin 1998 og 2003) til bifreiðakaupa frá Tryggingastofnun. Í júní sl. sóttu þeir um hæstu tegund af styrk til bifreiðakaupa en var synjað af Tryggingastofnun. Var þó bent á að þeir gætu átt rétt á lægri styrk til bifreiðakaupa. Við þessa synjun á hæsta styrk eru foreldrarnir hins vegar ósáttir og kæra hana til æðra stjórnvalds.

Lög og reglugerðir er málið snerta

Kveðið er á um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra vegna bifreiðakaupa í 10.gr.laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. þessarar greinar kemur fram að auk hins fatlaða sjálfs sé heimilt að greiða meðal annars umönnunargreiðsluþegum uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar.  Í 3. mgr. segir að heimilt sé að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða að umsækjanda vanti líkamshluta. Öfugt við 1. mgr. er ekki talið upp í 3. mgr. lagagreinarinnar við hvaða bótaþega styrkveitingin sé bundin.

Nánari skilyrði koma fram í reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í 1.gr. reglugerðarinnar kemur fram að þeir styrkir og uppbætur sem reglugerðin gerir ráð fyrir beinast fyrst og fremst að hreyfihömluðum einstaklingum. Með líkamlegri hreyfihömlun sé átt við sjúkdóm eða fötlun sem skerðir verulega færni umsækjenda til að komast ferða sinna þannig að göngugeta sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu.

Í 3. gr. reglugerðarinnar er fjallað um uppbætur (300.000 kr.) vegna kaupa á bifreiðum og í 4.gr. um styrki (1.200.000 kr.) til kaupa á bifreiðum. Eru skilyrðin fyrir uppbótunum og styrkjunum talin upp í greinunum.  Bæði í 3.gr. og 4.gr. er sérstaklega tekið fram að heimilt sé að veita styrk til framfærenda hreyfihamlaðra barna sem njóta umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Meginreglan er þó sú að þessar uppbætur og styrkir eru fyrst og fremst ætlaðir hinum fötluðu einstaklingum sjálfum.

Í 5.gr. er síðan fjallað um styrki til kaupa á sérútbúnum og dýrum bifreiðum og er þar um hæstu styrkina að ræða (hámark 5.000.000 kr.). Öfugt við 3. gr. og 4.gr. er ekkert minnst á í þessari 5.gr. reglugerðarinnar að þessa hæstu styrki megi veita framfærendum hreyfihamlaðra barna.

Laga- og reglugerðarákvæði um umönnunargreiðslur skipta hér einnig máli. Í 4.gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð segir:

Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna sem dveljast í heimahúsi eða á sjúkrahúsi allt að 117.176 kr. á mánuði og/eða taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu.

Nánar er fjallað um umönnunargreiðslurnar í reglugerð nr. 504/1997 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna.

 

Málavextir

Fyrir liggur að hinn fatlaði drengur sem mál þetta snýst um býr við heilalömum og er bundinn hjólastól. Að dómi Tryggingastofnunar teljast skilyrði um styrk til bifreiðakaupa uppfyllt skv. 4.gr. reglugerðar um bifreiðastyrki (1,2 milljónir króna). Kærendur eru hins vegar ekki sáttir við það og telja sig eiga rétt á hæstu styrkveitingunni sem reglugerð nr. 170/2010 gerir ráð fyrir. Þar er um að ræða styrk til að afla bifreiðar sem nemur allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar. Styrkurinn getur þó aldrei verið hærri en 5 milljónir króna. Þessu hefur Tryggingastofnun synjað.

Lagarök

Bifreiðakaupastyrkir

Foreldrar drengsins telja Tryggingastofnun ekki heimilt að undanskilja fötluð börn rétti til hæsta styrks og mismuna þeim þannig á grundvelli aldurs. Um sé að ræða mismunun sem ekki eigi sér lagastoð og sé auk þess andstæð 65. og 76. gr stjórnarskrár. Þeir telja því son sinn eiga rétt til hæsta styrks skv. 5.gr. reglugerðar nr. 170/2009 með sama hætti og fullorðnir eða lögráða fatlaðir eða þá foreldrarnir sem þiggjendur umönnunargreiðslna.

Því er til að svara að sé reglugerð nr. 170/2009 lesin í heild, kemur fram mikill munur á 3. og 4.gr. annars vegar og 5.gr. hins vegar. Í 3. og 4.gr. er sérstaklega tekið fram að heimilt sé að veita uppbót (3.gr.) og styrk (4.gr.) til framfærenda hreyfihamlaðra barna sem njóta umönnunargreiðslna. Í 4.gr. er meira að segja sett það viðbótarskilyrði að sýna þurfi fram á þörf á að koma hreyfihömluðu barni til reglubundinnar þjálfunar, meðferðar eða í skóla.

Í 5.gr. reglugerðarinnar er hins vegar enga slíka heimild að finna.

Það hefur því ætíð verið niðurstaða Tryggingastofnunar að henni sé ekki heimilt að greiða framfærendum barns svonefnda 50-60%-styrki til kaupa á sérútbúnum bifreiðum. Það sýnist vera augljós vilji löggjafans og reglugerðargjafans að styðja framfærendur hreyfihamlaðra barna til bifreiðakaupa með tilteknum hætti, þ.e. með uppbót til bifreiðakaupa skv. 3.gr. og með styrk skv. 4.gr. Jafnframt er ljóst að þessi vilji nær ekki til þess að veita foreldrum þennan 50-60%-styrk til kaupa á sérútbúinni bifreið.

Umönnunargreiðslur

Til viðbótar þessu koma þau rök að Tryggingastofnun telur að umönnunargreiðslur og styrkur skv. 5.gr. reglugerðar nr. 170/2009 fari ekki saman.

Í 5.gr. reglugerðar nr. 504/1997 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna kemur fram hve háa fjárhæð megi greiða í umönnunargreiðslur vegna barna. Í greininni er talið upp hvaða atriða skuli líta til þegar kemur að því að meta hve háum umönnunargreiðslum tiltekinn framfærandi eigi rétt á. Í 4. mgr. 5.gr. kemur fram að líta skuli til ferðakostnaðar þegar ákveða þarf upphæð greiðslnanna. Málsgreinin hljóðar svo:

Heimilt er að meta til hækkunar greiðslna ef um sannanleg útgjöld er að ræða t.d. vegna ferða- eða dvalarkostnaðar vegna læknismeðferðar.

Í þessu tiltekna máli er um að ræða dreng sem metinn er til 1.flokks – 100% í mati á umönnunarþörf og fjárhæð umönnunargreiðslna. Um börn sem eru metin eins og umræddur drengur segir í umfjöllun greinargerðar um 1. flokk:

Börn sem vegna mjög alvarlegrar fötlunar, fjölfötlunar, eru algerlega háð öðrum með hreyfifærni og/eða flestar athafnir daglegs lífs.

Foreldrar drengins fá nú í dag hæstu mögulegu greiðslur eða tæpar 120 þúsund krónur á mánuði til að standa straum af kostnaði við umönnun kæranda, eins og sjá má á hjálögðu skjali.

Það er ljóst að skv. 2. mgr. 48.gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 að enginn getur samtímis notið nema einnar tegundar greiddra bóta samkvæmt lögunum. Eina undantekningin er ef lögin sjálf kveða á um annað. Ekki er því hægt að greiða út tvenns konar bætur handa sama einstaklingi vegna sama atriðis.

Löggjafinn og reglugerðargjafinn hafa nú þegar metið hvaða styrki framfærendur hreyfihamlaðra barna fá ásamt umönnunargreiðslum. Þeir fá uppbætur og styrki skv. 3. og 4.gr. reglugerðar nr. 170/2009. Löggjafinn og reglugerðargjafinn hafa hins vegar ekki talið að framfærendur barna eigi rétt á hæsta styrk skv. 5.gr. reglugerðarinnar þar sem þegar er búið að gera ráð fyrir þeim kostnaði við mat á upphæð umönnunargreiðslna.

Stjórnarskrárákvæði

Í kærunni er því haldið fram að Tryggingastofnun brjóti bæði 65. og 76.gr stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 með synjun sinni um greiðslu hæsta mögulega bifreiðastyrks til foreldra fatlaðs drengs.

Í 65.gr. stjórnarskrár segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til stöðu að öðru leyti. Í 76.gr. stjórnarskrár segir að öllum sem þess þurfi skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna örorku. Börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Að dómi Tryggingastofnunar hefur reglugerðargjafinn ákveðið að skipta styrkveitingum til bifreiðakaupa vegna fötlunar í þrjá misháa flokka eftir alvöru fötlunar. Fyrstu tveir flokkarnir eru ætlaðir bæði hinum fötluðu sjálfum og einnig framfærendum. Þriðji flokkurinn er einungis ætlaður fötluðum manneskjum, enda er komið til móts við framfærendur mikið fatlaðra barna með umönnunargreiðslum.

Tryggingastofnun telur sig ekki brjóta nein stjórnarskrárákvæði með þessari afgreiðslu sinni, enda yrði þá dómstóla að skera úr um hvort skýr reglugerðarákvæði brjóti í bága við lög eða stjórnarskrá.  Slíkt er ekki á færi Tryggingastofnunar sem fer eftir gildandi lögum og reglugerðum hverju sinni.

 

Niðurstaða

Tryggingastofnun telur sér ekki heimilt að óbreyttri gildandi reglugerð nr. 170/2009 að greiða svonefndan 50-60%-styrk vegna kaupa á sérútbúinni bifreið til framfærenda barna sem njóta umönnunargreiðslna.“

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kærendum með bréfi, dags. 16. júní 2010 og þeim gefinn kostur á að koma að frekari gögnum eða athugasemdum. Kærendur sendu úrskurðarnefnd svofelldar athugasemdir með bréfi, dags. 27. júní 2010:

 „Krafa og varakrafa samkvæmt kærunni frá 1. júní sl. er ítrekuð og þau sjónarmið sem þar er byggt á. Sérstök athygli er vakin á því að aðalkrafan er að C, hinum ólögráða fatlaða einstaklingi, verði veittur styrkur til kaupa á bifreiðinni, en í greinargerð TR virðist lagt til grundvallar að einvörðungu við foreldrar hans, framfærendur, sækjum um styrkinn. Ef ekki yrði fallist á að við framfærendur C getum verið styrkþegar samkvæmt 10. gr. laga nr. 99/2007, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009, eins og kærendur byggja á, þá er ljóst að sonur okkar, hinn fatlaði einstaklingur, hlýtur að njóta réttar til styrksins sem farið yrði með í samræmi við skilyrði lögræðislaga, s.s. um samþykki yfirlögráðanda fyrir því að bifreiðin yrði eign hans.

1. Túlkun TR á reglugerð nr. 170/2009 á sér ekki lagastoð.

Á því er byggt af hálfu TR að þar sem öfugt við 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé ekki talið upp við hvaða bótaþega styrkveitingin sé bundin þá verði að horfa til reglugerðar nr. 170/2009 um það og þar sem 5. gr. hennar minnist að sama skapi ekki heldur á framfærendur öfugt við 3. og 4. gr. reglugerðarinnar hafi það ætið verið niðurstaða TR að óheimilt sé að greiða framfærendum barns 50-60% styrk.

Þessi túlkun TR samræmist ekki lögum nr. 170/2009 og á sér ekki lagastoð. Ákvæði 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007, sem var innleidd eftir setningu laganna, telur einfaldlega ekki upp mögulega styrkhafa og því ljóst að líta verður til 1. mgr. ákvæðisins um hverjir þeir geta verið. Samkvæmt því er heimilt að greiða styrk samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins til sömu aðila og kveðið er á um í 1. mgr. ákvæðisins, þ.á m. til umönnunargreiðsluþega. Vilji löggjafans kemur enn fremur skýrt fram í ákvæði 3. mgr., þ.e. að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta.

Engin stoð er fyrir því í lögum að túlka reglugerð nr. 170/2009 með þeim hætti að hún undanskilji styrk til umönnunargreiðsluþega og/eða börn og ólögráða einstaklinga sem búa við þá fötlun, sem um ræðir í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007, til kaupa á sérútbúinni bifreið. Því miður virðist hér fremur um að ræða vilja og geðþóttaákvörðun TR að undanskilja fötluð börn möguleikanum á að eiga þess kost að vera flutt í sérútbúinni bifreið, sem þeim er nauðsynleg vegna fötlunar, með sama hætti og þegar fullorðnir fatlaðir einstaklingar eiga í hlut.

Með vísan til framanritaðs og sjónarmiða í kæru er útilokað að lögin veiti ráðherra heimild til að setja reglugerð er kvæði á um slíka mismunun. Engin lagastoð er fyrir synjun TR og hvað þá setningu reglugerðarinnar sjálfrar ef talið yrði að hún hefði að geyma reglur um það að hvorki ólögráða fatlaðir einstaklingar né forráðamenn þeirra geti átt rétt til styrks samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Það bryti enn fremur gegn 65. og 76. gr. stjórnarskrárinnar.

2. Umönnunargreiðslur útiloka ekki styrk samkvæmt 2. mgr. laga nr. 99/2007, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009.

Sjónarmiðum TR um að umönnunargreiðslur og styrkur samkvæmt 3. mgr. laga nr. 99/2007, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009, fari ekki saman er alfarið hafnað. Þau eiga sér ekki lagastoð eins og nú verður vikið að.

Umönnunargreiðslum er ætlað að koma til móts við foreldra fatlaðra barna vegna ýmiss aukakostnaðar er óhjákvæmilega stofnast til við umönnun fatlaðra barna svo ekki sé minnst á tekjutapið sem foreldrar þeirra verða fyrir vegna þess að útilokað er að báðir foreldrar vinni fulla vinnu með svo fatlað barn á heimilinu.

Í 4. gr. reglugerðar nr. 504/1997 varðandi fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra barna segir að möguleiki sé að sækja um framlengingu á greiðslu umönnunarbóta fram yfir barnsaldur. “Umönnunargreiðslur koma þá í stað örorkulífeyris, tekjutryggingar og frekari uppbótar á lífeyri”.

Ein helstu rök TR eru að ekki sé leyfilegt að greiða bifreiðastyrk samkvæmt 5.gr reglugerðar nr. 170/2009 til handa foreldrum sem fái umönnunargreiðslur. Í greinagerð TR segir að það sé „ljóst skv. 2. mgr. 48.gr. almannatrygginga nr. 100/2007 að enginn getur samtímis notið nema einnar tegundar bóta samkvæmt lögum“. Þessi rök standast ekki. Í reglugerð nr. 504/1997 er umönnunargreiðslum líkt við örorkulífeyri. TR hefur þó ekki undanþegið þiggjendur örorkulífeyris bifreiðastyrk skv. 5. grein reglugerðar nr. 170/2009, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007. Þá skýtur það enn fremur skökku við ef heimilt er að veita umönnunargreiðsluþega minni styrk samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007, sbr. 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 en ekki hærri styrkinn samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Sú röksemdafærsla TR að kostnaður við kaup á sérútbúinni og dýrri bifreið sé þannig innifalinn í umönnunargreiðslum en þörf fyrir ódýrari minni bifreið sé styrkhæf verður því að teljast með eindæmum.

3. Ólögmæt mismunun fatlaðra barna/ólögráðra og fatlaðra fullorðinna/lögráða einstaklinga.

Eins og rakið hefur verið hér að framan standa engin lagaleg rök fyrir því að synja kærendum um bifreiðastyrk samkvæmt. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007. Ítrekað er að samkvæmt stjórnarskránni skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til stöðu. Þá er það einnig stjórnarskrárbundið að börnum skal tryggð sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

4. Brýn nauðsyn C á styrk til kaupa á sérútbúinni bifreið vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð

Óumdeilt er að sonur okkar C er verulega hreyfihamlaður þannig að hann kemst ekki leiðar sinnar nema í stórum og þungum rafmagnshjólastól og að hann nálgast fullorðinsaldur. Hann stækkar ört og það er orðið mjög brýnt að kaupa stærri bifreið en höfuð hans nær orðið upp í þak bifreiðarinnar sem við höfum nú yfir að ráða. Ljóst er að hvorki lögfræði- né skynsemissjónarmið geta ráðið þeirri niðurstöðu TR að synja okkur og/eða syni okkar C um styrk. Þvert á móti þá er ljóst samkvæmt lögum nr. 99/2007 að við eða sonur okkar fullnægjum skilyrðum fyrir styrkveitingu til kaupa á sérútbúinni bifreið, allt að 50-60% af kaupverði hennar, í samræmi við 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, á sama hátt og lögráða og fullorðnir fatlaðir einstaklingar sem búa við sambærilega fötlun og sonur okkar.“

 

Athugasemdir kæranda voru sendar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 29. júní 2010. Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. ágúst 2010, segir m.a.:

 „Tryggingastofnun sér ekki ástæðu til sérstakra athugasemda af hálfu stofnunarinnar vegna þessara viðbótargagna. Rétt er þó að árétta það sem fram kemur í greinargerð Tryggingastofnunar (bls. 3) að eina undantekningin frá þeirri reglu að enginn geti notið nema einnar tegundar bóta samkvæmt almannatryggingalögum sé sú ef lögin sjálf kveða á um annað. Það skýtur því ekki skökku við ef löggjöfin heimilar umönnunargreiðsluþega minni styrk til bifreiðakaupa til viðbótar umönnunargreiðslum en ekki hærri styrkinn. Nefna má fleiri dæmi: Löggjöfin heimilar að einn og sami maður fái greiddan örorkulífeyri og einnig tekjutryggingu o.s.frv. Hér er það löggjafinn sem ræður ferðinni og ákveður undantekningar frá meginreglunni.“

 

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi, dags. 10. ágúst 2010. Úrskurðarnefndinni bárust tölvupóstar frá kæranda þann 13. maí og 10. júní 2011 með nánari upplýsingum um þá bifreið sem notuð er fyrir son kærenda og ástand drengsins ásamt myndum. Viðbótargögnin voru send Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dags. 10. júní 2011. Með bréfi, dags. 28. júní 2011, greindi Tryggingastofnun ríkisins frá því að stofnunin teldi ekki ástæðu til að breyta fyrri afstöðu sinni. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn móður kæranda um 50-60% styrk vegna bifreiðakaupa hreyfihamlaðra.

Í rökstuðningi með kæru er greint frá því að sonur kærenda sé mikið hreyfihamlaður með CP-fjórlömun. Hann sé algjörlega bundinn við hjólastól og kærendur hafi séð um akstur hans til og frá skóla, sjúkraþjálfun, í læknisheimsóknir og annað sem hann þurfi að fara í sínu daglega lífi. Tvisvar hafi þau fengið styrk til bifreiðakaupa frá Tryggingastofnun ríkisins en núverandi bifreið sé orðin of lítil þar sem drengurinn nái með höfuðið upp í þak bifreiðarinnar.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er vísað til gildandi laga og reglna um skilyrði til að hljóta styrki og uppbætur vegna bifreiðakaupa. Fram kemur að stofnunin hafi synjað kærendum um hæsta styrk til bifreiðakaupa en þó bent á að þeir gætu átt rétt á lægri styrk. Í 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 sé sérstaklega tekið fram að heimilt sé að veita uppbót og styrk til framfærenda hreyfihamlaðra barna sem njóta umönnunargreiðslna. Í 5. gr. reglugerðarinnar sé hins vegar enga slíka heimild að finna. Það hafi því ætíð verið niðurstaða Tryggingastofnunar að henni sé ekki heimilt að greiða framfærendum barns 50-60% styrki til kaupa á sérútbúnum bifreiðum.

Mælt er fyrir um heimild til greiðslu uppbótar og styrks til bifreiðakaupa í 10. gr. laga nr. 99/2007. Í 1. mgr. 10. gr þar sem fjallað eru um uppbætur er sérstaklega tekið fram að heimilt sé að greiða uppbót til þeirra sem njóta umönnunarbóta. Í 3. mgr. 10. gr. segir:

 “Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta.

Úrskurðarnefndin telur að skýra beri þetta ákvæði svo að heimildin nái til sömu hópa og greinir í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007.

Tryggingastofnun telur að umönnunargreiðslur og styrkur skv. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 fari ekki saman. Drengurinn sé metinn til 1. flokks, 100% í mati á umönnunarþörf og fjárhæð umönnunargreiðslna og foreldrar hans fái nú í dag hæstu mögulegu greiðslur til að standa straum af kostnaði við umönnun hans. Það sé ljóst skv. 2. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007 að enginn geti samtímis notið nema einnar tegundar greiddra bóta samkvæmt lögunum. Eina undantekningin sé ef lögin sjálf kveði á um annað. Þá segir að styrkveitingum til bifreiðakaupa vegna fötlunar sé skipt í þrjá misháa flokka eftir alvöru fötlunar. Fyrstu tveir flokkarnir séu ætlaðir bæði hinum fötluðu sjálfum og einnig framfærendum. Þriðji flokkurinn sé einungis ætlaður fötluðum manneskjum, enda sé komið til móts við framfærendur mikið fatlaðra barna með umönnunargreiðslum. Tryggingastofnun telji sér ekki heimilt að óbreyttri gildandi reglugerð nr. 170/2009 að greiða 50-60% styrk vegna kaupa á sérútbúinni bifreið til framfærenda barna sem njóti umönnunargreiðslna.

Bætur almannatrygginga eru persónubundnar. Það mál sem hér um ræðir lýtur að rétti ungs drengs, sem er verulega fatlaður, til bóta samkvæmt lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. Fyrir liggur að móðir kæranda nýtur fullra umönnunarbóta lögum samkvæmt vegna umönnunar sonar síns.

Í 4. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 er fjallað um umönnunargreiðslur vegna barna. En hún hljóðar svo:

 „Tryggingastofnun er heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna, sem dveljast í heimahúsi eða á sjúkrahúsi, allt að 96.978 kr. á mánuði og/eða taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu.“

Nánar er fjallað um umönnunargreiðslurnar í reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna nr. 504/1997, með síðari breytingum.

Í þessu tiltekna máli er um að ræða dreng sem metinn er til 1. flokks – 100% í mati á umönnunarþörf og fjárhæð umönnunargreiðslna. Um börn sem eru metin eins og drengurinn segir eftirfarandi í umfjöllun reglugerðar um 1. flokk:

 „Börn, sem vegna mjög alvarlegrar fötlunar, fjölfötlunar, eru algjörlega háð öðrum með hreyfifærni og/eða flestar athafnir daglegs lífs.“

Framfærendur kæranda fá því nú í dag hæstu mögulegu greiðslur, eða tæpar 130 þúsund krónur á mánuði til að standa straum af kostnaði við umönnun kæranda, sbr. gögn málsins.

Í 5. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um hve háa fjárhæð megi greiða í umönnunargreiðslur vegna barna. Í greininni er talið upp til hvaða atriða skuli líta þegar kemur að því að meta hve háar umönnunargreiðslur tiltekinn framfærandi barns eigi rétt á. Í 3. mgr. 5. gr. kemur fram að líta skuli til ferðakostnaðar þegar meta á hve háar greiðslur eigi að greiða í því tilviki, en málsgreinin hljóðar svo:

 „Heimilt er að meta til hækkunar greiðslna ef um sannanleg tilfinnanleg útgjöld er að ræða t.d. vegna ferða- eða dvalarkostnaðar vegna læknismeðferðar.“

Að mati úrskurðarnefndarinnar kemur greiðsla á umönnunarbótum vegna C ekki í veg fyrir að hann geti fengið jafnhliða bifreiðastyrk að öðrum skilyrðum uppfylltum. Leiðir það þegar af orðalagi 10. gr. laga 99/2007 þar sem segir að heimilt sé að greiða uppbætur eða styrk, í skilningi nefndarinnar, til umönnunarbótaþega.

Hins vegar skiptir máli við mat á nauðsyn sem skilyrði bifreiðastyrks að bifreiðakostnaður er einn þáttur í fjárhæð umönnunarbóta. Úrskurðarnefnd almannatrygginga lítur til þessa atriða og ennfremur til þess, að til staðar er ferðaþjónusta fyrir fatlaða.

Fram kemur í málsgögnum að kærandi er mikið hreyfihamlaður. Hann sé alveg hjólastólsbundinn og þurfi hjálp við allar athafnir daglegs lífs. Hann sé mjög hávaxinn og því erfiðleikum bundið að nota þá bifreið sem hann hefur til umráða. Hann sé einnig orðinn nokkuð þungur og þannig orðið illmögulegt að lyfta honum.

Úrskurðarnefndin leysir úr máli þessu á grundvelli uppbótar samkvæmt 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða hefur verið sett með vísan til framangreindrar heimildar.

Segja má að lög og reglur um styrki og uppbætur til bifreiðakaupa mæli fyrir um þrenns konar fjárhagsaðstoð. Almenna uppbót, sem í dag er 300.000 kr., almennan styrk að fjárhæð 1.200.000 kr. og loks styrk skv. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009, sem kveður á um að Tryggingastofnun sé heimilt að veita styrk til að afla bifreiðar sem nemi allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar, þ.e. grunnverði án aukabúnaðar, ef um er að ræða einstakling sem ekki komist af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Lýtur umsókn kæranda að síðastnefnda styrknum.

Almennt lagaskilyrði styrks eða uppbótar vegna bifreiðakaupa er nauðsyn vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða líkamshluta vantar. Við mat á því hvort skilyrði nauðsynjar er uppfyllt lítur nefndin til þess að sonur kærenda er ungur að árum og algjörlega bundinn hjólastól. Foreldrar hafa séð um akstur hans í skóla, sjúkraþjálfun, læknisheimsóknir og annað sem hann þarf að fara. Kærendur hafa tvisvar áður fengið styrk til bifreiðarkaupa og keyptu þeir núverandi bifreið í mars 2004. Loks horfir nefndin til þess að C sé orðinn svo stór að höfuð hans nái upp í þak þeirra bifreiðar sem fjölskyldan hefur nú til afnota.

Að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga er auðsjáanleg þörf á sérútbúinni bifreið vegna hreyfihömlunar sonar kærenda. Núverandi bifreið var keypt fyrir rúmum sjö árum og þykir ljóst af gögnum málsins að bifreiðin rúmar ekki drenginn lengur. Skilyrði 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um nauðsyn telst því uppfyllt að mati úrskurðarnefndar. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings og er það skilyrði einnig uppfyllt í tilviki kærenda.

Með vísan til þess sem rakið er hér að framan er það mat úrskurðarnefndar almannatrygginga að kærandi uppfylli skilyrði til þess að fá 50-60% styrk til kaupa á sérútbúinni bifreið. Er synjun Tryggingastofnunar um 50-60% styrk vegna bifreiðakaupa hreyfihamlaðra því hrundið og málinu vísað aftur til Tryggingastofnunar ríkisins til frekari meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn C um 50-60% styrk vegna bifreiðakaupa hreyfihamlaðra er hrundið. Greiða ber kærendum 50-60% styrk vegna bifreiðakaupa. Málinu er vísað aftur til Tryggingastofnunar ríkisins til frekari meðferðar.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson, formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum