Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 14/2010

Mánudaginn 7. febrúar 2011

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. janúar 2010, kærir X hdl. f.h. A endurgreiðslukröfu Tryggingastofnunar ríkisins vegna ofgreiddra bóta.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að við endurreikning Tryggingastofnunar ríkisins vegna bótagreiðslna árið 2008 reiknaðist stofnuninni að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Kærandi fór þess á leit með bréfi dags. 27. ágúst 2009 að Tryggingastofnun felldi niður endurkröfu stofnunarinnar vegna hinna ofgreiddu bóta. Því erindi synjaði Tryggingastofnun með bréfi dags. 5. október 2009. Með beiðni dags. 27. ágúst 2009 fór kærandi fram á niðurfellingu endurkröfunnar á grundvelli fjárhagslegra aðstæðna. Þeirri beiðni synjaði Tryggingastofnun ríkisins með bréfi dags. 23. nóvember 2009.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga sagði svo:

 „Kærandi er stofnfjáreigandi í B sparisjóði, hann var áður stofnfjáreigandi í Sparisjóði C, en sjóðurinn sameinaðist B í lok árs 2007. Fyrir stofnfjáraukninguna í lok árs 2007 jók kærandi stofnfjárhlut sinn í Sparisjóði C umtalsvert og fjármagnaði stofnfjáraukninguna með 100% lánveitingu frá D banka hf. Samhliða lánveitingunni var stofnfjárhlutur kæranda handveðsettur D banka hf. sbr. meðfylgjandi handveðssamningur. Veðsettur stofnfjárhlutur kæranda er að nafnvirði kr. X.

Á árinu 2008 fékk kærandi arðgreiðslur í samræmi við ákvörðun aðalfundar stofnfjáreiganda B þann 9. apríl 2008 að fjárhæð X. Fjárhæðin gekk öll upp til greiðslu upp í lán kæranda við D banka hf. í samræmi handveðssamning á milli aðila dags. 17. desember 2007 og lánasamnings dags. sama dag. Engar greiðslur fóru inn á reikning kæranda.

Strax um mitt árið 2008 var ljóst að virði stofnfjáreignar kæranda rýrnaði umtalsvert með versnandi stöðu á fjármálamörkuðum. Eftir hrun bankastofnana landsins í lok árs 2008 varð virði stofnfjáreignar kæranda svo nánast ekkert. Stofnfjárbréf í B sparisjóði hafa ekki verið söluvara á undanförnum misserum og engin viðskipti verið með þau. Það er ljóst að stofnfjáreigendur munu þurfa að taka á sig mikla skerðingu á hlut sínum ef þeir tapa honum þá ekki öllum vegna íhlutunar stjórnvalda í rekstri bankans. Það er ljóst að virði stofnfjáreignar kæranda mun aldrei verða jafn hátt og þau lán sem á þeim hvíla.

 

Málsástæður

 

Aðalkrafa

Kærandi byggir aðalkröfu sína á því að fjármagnstekjur ársins 2008 umfram tekjuáætlun, hafi í raun runnið til D banka hf. en ekki kæranda sjálfs. Arðgreiðslur kæranda frá B sparisjóði fyrir árið 2008 hafi ekki nýst honum til framfærslu, enda hafði hann ekki raunveruleg yfirráð yfir þeim. Þannig hafi fjármagnstekjur ekki myndað neina eign hjá kæranda á árinu 2008 og geti því ekki talist til tekna í samræmi við lög nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Ljóst er að kærandi skrifaði sjálfur undir bæði handveðssamning og lánasamning þann 17. desember 2007 við D banka hf.. Í bréfi TR frá 5. október 2009 virðist því vera haldið fram að kæranda hafi þannig verið í sjálfvald sett hvort arðgreiðslur hans ættu að renna til kæranda sjálfs eða D banka hf. Það er aftur á móti litið framhjá því að kærandi hefði ekki fengið lánveitingu til stofnfjárkaupanna án þess að veðsetja D banka hf. allar arðgreiðslur af bréfunum á meðan handveðssamningurinn var í gildi enda er það venja í viðskiptum sem þessum. Stóð kæranda því aldrei til boða að nýta arðgreiðslu sínar til annars en uppgreiðslu lána við D banka hf. og var því alls ekki á sjálfsvald sett hvort þær yrðu lagðar á hans eigin reikning eða ekki.

Stofnfjáreign kæranda var þannig alltaf takmörkuð af því láni sem á stofnfé hvíldi. Greiðsla inn á lánið átti vitanlega að leiða til þess að hrein stofnfjáreign hans hækkaði. Svo varð þó ekki enda hrundi virði hlutanna á árinu 2008 og er virði þeirra í dag sem og þá, lítið sem ekkert. Lán kæranda hefur aftur á móti hækkað umtalsvert og stóð um áramótin 2008 í fjárhæð kr. X.

Öll þau verðmæti sem arðgreiðsla ársins 2008 fól í sér gekk þannig til D banka hf. og naut kærandi einskins af þeim tekjum. Endurútreikningur TR mun aftur á móti hafa bein áhrif á rétt kæranda til framfærslu fyrir árið 2008 og hefur endurkrafa einnig mikil áhrif á ráðstöfunartekjur hans og framfærslumöguleika árin 2009 og 2010

Það er raunhæft að áætla að almennt geti lífeyrisþegi nýtt fjármagnstekjur skv. skilgreiningu a lið 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sbr. og C lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt til framfærslu enda skapi þær einhver fjárhagsleg verðmæti fyrir hann.

Þrátt fyrir ofangreinda skilgreiningu 2. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga á fjármagnstekjum. Þá hlýtur það að vera jafnframt skilgreiningaratriði á tekjum samkvæmt almannatryggingarlögum að þær skapi einhver raunveruleg fjárhagsverðmæti fyrir kæranda. Tekjurnar nýtis lífeyrisþega þannig til framfærslu með einum eða öðrum hætti.

Kærandi telur að ef tekjurnar skapa aftur á móti engin raunveruleg verðmæti og nýtast kæranda ekki á nokkurn hátt til framfærslu þá geti þær ekki talist vera raunverulegar tekjur. Enda vinnur það gegn tilgangi laga nr. 100/2007 um almannatryggingar að telja umtalsverðar fjárhæðir sem í engu nýtast til framfærslu kæranda, honum til tekna og draga þær þannig frá lágmarks lífeyristryggingarréttindum hans.

Að öllu ofangreindu virtu telur kærandi að ógilda beri ákvörðun TR frá 30. júlí 2009 um endurútreikninga á tekjutengdum lífeyrisréttindum hans.

 

Varakrafa:

Varakrafa kæranda byggir á því að kærandi uppfylli skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Aðstæður kæranda séu það sérstakar að eðlilegt sé að falla frá endurkröfu. Má sjá það af neðangreindum rökstuðning og rökstuðningi við aðalkröfu sem á eins við um varakröfuna.

Með bréfi dags. 23. nóvember 2009 hafnaði TR niðurfellingu á endurkröfu þar sem kærandi hefði verið í vondri trú og fjárhagslegar og félagslegar aðstæður hans væru þannig að hann uppfyllti ekki skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 589/2009.

TR byggir rökstuðning sinn á því að tekjuáætlun eigi að endurspegla árstekjur kæranda. Honum hafi borið að tilkynna um arðgreiðslur sínar frá B sparisjóði enda hafi þær verið lagðar inn á reikning kæranda. Vitnar TR til bréfs dags. 21. apríl 2009 frá stjórn B sparisjóðs til stuðnings þess að kæranda hafi borist þessar greiðslur inná eigin reikning. Þetta er rangt, enda er alveg skýrt af bréfi stjórnar B frá 21. apríl 2009 að arður af veðsettum stofnfjárbréfum var ráðstafað til veðhafa.

Af meðfylgjandi gögnum, handveðssamningi og lánasamningi dags. 17. desember 2007 sem jafnframt voru send TR sem fylgigögn bréfs dags. 27. ágúst 2009 er ljóst að allur arður var veðsettur D banka hf. og var því ekki greiddur inná reikning kæranda. Þessu var ekki mótmælt af hálfu TR í bréfi dags. 5. október 2009 þegar andmælum kæranda var hafnað, raunar var þar sérstaklega tekið fram að það væri vafalaust rétt að arðgreiðslan var ekki lögð inná reikning kæranda.

Það eina sem kærandi sá af arðgreiðslum af stofnfjáreign sinni var bréf stjórnar B frá 21. apríl 2008. Má sjá á þeim rökstuðningi sem kemur fram til stuðnings aðalkröfu að óvíst var um arðgreiðslur og nýting á arðgreiðslum var aldrei inní myndinni hjá kæranda, vegna veðsetningar þeirra. Það er því afsakanlegt að kærandi eins og raun bar vitni gerði sér ekki grein fyrir því að honum væri skylt að leiðrétta tekjuáætlun sína til samræmis við tekjur sem að hann vissi að hann gat ekki nýtt.

Er því ekki hægt að segja að kærandi hafi verið í vondri trú enda óeðlilegt að telja arðgreiðslur af fjárfestingu sem kollvarpaðist á sama ári sér til tekna.

Fjárhagslegar afleiðingar af endurútreikningum TR eru miklar fyrir kæranda enda hefur hann litlar tekjur umfram lífeyri frá TR. Áhrif endurútreikninganna og innheimtu ætlaðrar ofgreiddra bóta hefur þannig umtalsverð og bein áhrif á framfærslu kæranda. Áhrifin lýsa sér í lækkun á lífeyri kæranda og þarf hann þá að ganga á sparnað sinn, eða fá lánafyrirgreiðslur í banka til þess að framfæra sér og greiða þann hluta af ofgreiðslunni sem ekki er heimilt að draga af lífeyri hans.

Ef ekki verður fallist á aðalkröfu kæranda þá telur hann að allar forsendur séu til staðar í samræmi við 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 til að TR falli frá endurkröfu dags. 30. júlí 2009.“

 

Með bréfi dags. 12. janúar 2010 óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins. Greinargerð dags. 17. mars 2010 barst frá stofnuninni þar sem sagði svo.

 

1. Kæruefnið

Kærð er endurkrafa Tryggingastofnunar vegna uppgjörs tekjuársins 2008. Kæruefnið er svo hljóðandi: „Að ákvörðun TR frá 30. júlí 2009 sem endanlega var staðfest 5. október 2009 um að endurreikning á bótarétti kæranda til tekjutengdra bóta verði felld úr gildi“

Varakrafa kæranda er svohljóðandi: „Að ákvörðun TR frá 23. nóvember um að synja kæranda um niðurfellingu á endurkröfu í samræmi við 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 verði ógilt og krafa kæranda um niðurfellingu á endurkröfu verði tekin til greina.“

 

2. Lagarök

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 (atl.) ber Tryggingastofnun að líta til tekna við útreikning bóta og er þar m.a. sérstaklega fjallað um fjármagnstekjur. Í ákvæðinu er vísað til laga um tekjuskatt nr. 90/2003, varðandi hvað skuli teljast til tekna. Í 7. mgr. 16. gr. atl. kemur fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, þá skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig er fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Tryggingastofnun hefur ekki heimild til að líta framhjá tekjuupplýsingum sem fram koma í skattframtölum.

Tryggingastofnun greiðir lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. atl. Bótaþegi ber ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og ber að breyta áætluninni ef svo er ekki, sbr. 2. mgr. 52. gr. sömu laga en þar kemur fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi er bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur.

Á umsóknareyðublaði um bætur, svo og á eyðublöðum fyrir tekjuyfirlýsingar, er texti sem umsækjendur og bótaþegar undirrita, þar sem þeir ábyrgjast að láta Tryggingastofnun vita ef breytingar verða á tekjum þeirra og að greiðsluþegi beri sjálfur ábyrgð á að réttar tekjuupplýsingar liggi fyrir við útreikning bóta.

Rétt er að taka það sérstaklega fram að síðan árið 2008 hefur Tryggingastofnun haldið úti sérstakri upplýsingasíðu Tryggur.is. Á þeirri síðu eru mánaðarlegir greiðsluseðlar stofnunarinnar aðgengilegir í hverjum mánuði og á þeim er að finna upplýsingar um hvaða tekjuforsendur liggja til grundvallar greiðslum Tryggingastofnunar hverju sinni. Á síðunni er einnig hægt að fara yfir tekjuáætlun og breyta henni hvenær sem tilefni er til.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafa verið ofgreiddar fer um það skv. 55. gr. laganna. Þar kemur fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú skylda er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Undantekningu frá þessari meginreglu er að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 varðandi þær kröfur sem myndast við uppgjör tekjutengdra bóta lífeyristrygginga. Þar segir í 1. og 2. ml.:

“Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn.”

Í þessu ákvæði felst að við ákvörðun um hvort falla skuli frá innheimtu eigi að fara fram mat, annars vegar á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda, með tilliti til getu hans til að endurgreiða skuldina, og hins vegar á því hvort bótaþegi var í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hann tók við hinum ofgreiddu bótum. Aðstæður þurfa að vera sérstakar svo að undanþáguheimild 11. gr. reglugerðarinnar eigi við. Ákvæðið er undanþáguheimild og sem slíkt skal skýra það þröngt skv. almennum lögskýringarreglum.

 

3. Endurreikningur 2008

Uppgjör ársins 2008, sem kæranda var tilkynnt um með bréfi dags. 30. júlí 2009, leiddi til ofgreiðslu að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa myndaðist í uppgjöri er að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2009 vegna tekjuársins 2008 hafði farið fram, kom í ljós að tekjur kæranda á árinu 2008 reyndust umtalsvert hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir. Fjármagnstekjur kæranda í skattframtali ársins voru X kr. Í tekjuáætlun ársins var gert ráð fyrir samtals X kr. í fjármagnstekjur. Leiddi þessi mismunur til þess að allar þær bætur sem kærandi hafði fengið frá Tryggingastofnun á árinu 2008 voru ofgreiddar.

Kærandi andmælti uppgjörinu og var andmælum svarað af hálfu Tryggingastofnunar með bréfi dags. 5. október 2009. Andmælin breyttu ekki niðurstöðu endurreikningsins.

Umrædd krafa er réttmæt. Tryggingastofnun hefur ekki heimild til þess að líta fram hjá tekjum sem fram koma í skattframtölum bótaþega þrátt fyrir að aðstæður séu eins og eru í máli þessu þ.e. að arður hafi verið handveðsettur. Það hefur verið margstaðfest hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga að fjármagnstekjur, hvort sem þær nýtist bótaþega eða ekki ber að nota við endurreikning. Rétt er að geta sérstaklega að þetta er í samræmi við niðurstöðu hæstaréttardóms í máli nr. 395/2008 þar sem tekinn var af allur vafi um að Tryggingastofnun beri að endurreikna bætur og miða við hvernig fjármagnstekjurnar eru að færðar á hvert tekjuár en ekki það hvernig greiðslum samkvæmt samningi sé háttað.

Telji kærandi að skattframtal sé ekki rétt ber kæranda að leita eftir leiðréttingu á skattframtali sem myndi svo leiða til endurupptöku endurreiknings ársins 2008.

Til upplýsinga fylgir með greinargerð þessari kröfuyfirlit og ítarlegri útreikningur á því hvernig rauntekjur kæranda dreifðust yfir árið og voru notaðar við útreikning bóta kæranda, en fyrir liggur hjá nefndinni uppgjörsgögn ársins, afrit af andmælum kæranda ásamt svari Tryggingastofnunar við andmælunum og svar við beiðni um niðurfellingu.

 

4. Ákvörðun samráðsnefndar Tryggingastofnunar um meðferð ofgreiðslna

Beiðni kæranda um niðurfellingu ofgreiddra bóta var tekin fyrir á fundi samráðsnefndar þann 2. og 9. nóvember 2009 og var kæranda tilkynnt um ákvörðun nefndarinnar þann 23. nóvember 2009.

Við afgreiðslu málsins skoðaði nefndin m.a. fyrirliggjandi gögn, ástæður ofgreiðslunnar, upplýsingar frá skattyfirvöldum um tekjur og eignir, að viðbættum þeim upplýsingum sem aflað var úr tölvukerfi stofnunarinnar um fjárhag og félagslega stöðu.

Eins og komið er að hér að framan þá er ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 undanþáguheimild og sem slíkt skal skýra það þröngt skv. almennum lögskýringarreglum. Í þessu ákvæði felst að við ákvörðun um hvort fella eigi niður kröfu eigi að fara fram mat, annars vegar á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda, með tilliti til getu hans til að endurgreiða skuldina, og hins vegar á því hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hann tók við hinum ofgreiddu bótum.

Umrædd krafa er sannarlega réttmæt eins og greint var hér að framan í lið 3. Ástæða ofgreiðslunnar er röng tekjuáætlun þar sem fjármagnstekjur voru vanáætlaðar á kæranda. Tryggingastofnun greiðir lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. atl. Skilyrði reglugerðarinnar um góða trú verður að skoða í ljósi ábyrgðar lífeyrisþega á því að gefa réttar tekjuupplýsingar hverju sinni. Bótaþegi ber skýra ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur hans og ber að breyta áætluninni ef svo er ekki, sbr. 2. mgr. 52. gr. laganna. Kærandi vísar til þess að hann hafi ekki átt möguleika á að njóta umræddra fjármagnstekna vegna viðskiptasamnings við D. Sú staðreynd breytir því ekki að fjármagnstekjur koma fram á skattframtali og Tryggingastofnun er óheimilt að líta fram hjá þeim upplýsingum.

Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki séð að skilyrðið um góða trú sé uppfyllt í málinu. Kærandi getur ekki borið fyrir sig vanþekkingu á reglum almannatrygginga hvaða tekjur hafa áhrif á greiðslu bóta í þessu sambandi. Fjármagnstekjur geta í eðli sínu verið óljósar og hefur löggjafinn lagt ábyrgðina á bótaþegann að upplýsa Tryggingastofnun um þær tekjur.

Tryggingastofnun lítur svo á að samningar eins og um getur í máli þessu geti með engu móti réttlætt niðurfellingu ofgreiddra bóta tilkominna vegna fjármagnstekna. Ljóst er að um verulegar skuldir kæranda er að ræða en ekkert liggur fyrir í málinu um hvernig endurgreiðslu umrædds láns er háttað.

Samráðsnefnd mat fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda á grundvelli upplýsinga sem stofnunin hefur aðgang að. Við skoðun þeirra og að teknu tilliti til fjárhæðar kröfunnar, var það mat nefndarinnar að skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 væri ekki uppfyllt í málinu.

Athygli er vakin á því að ef aðstæður kæranda munu breytast í framtíðinni getur kærandi sótt um niðurfellingu til samráðsnefndar Tryggingastofnunar um meðferð ofgreiðslna og verður málið þá tekið upp aftur.

Með vísun til ofanritaðs telur Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

Þegar þetta er ritað eru eftirstöðvar kröfu vegna uppgjörs 2008 á hendur kæranda X kr.

 

Greinargerðin var kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi dags. 24. mars 2010 og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Með bréfi dags. 23. apríl 2010 bárust eftirfarandi athugasemdir frá umboðsmanni kæranda:

 „Kærandi hefur ekki haldið því fram að fjármagnstekjur og fjárhæð þeirra í skattframtali hans séu rangar. Skattframtal fyrir árið 2008 gefur rétta mynd af þeim fjármagnstekjum sem greiddar voru af stofnfjáreign kæranda í B. Kærandi sá hins vegar aldrei krónu af þessum fjármunum, þar sem fjármunirnir voru greiddir inná láns hans við D banka hf., skv. framlögðum handveðssamningi. Um frekari skýringar á því vísast til kæru.

Kærandi ætlast ekki til þess að TR líti framhjá ofangreindum tekjuupplýsingum, heldur að TR taki jafnframt tillit til þeirra aðstæðna sem komu upp á árinu 2008 og tengjast beint þeim fjármagnstekjum sem féllu til á árinu, en runnu ekki til kæranda.

Grundvallar þörf kæranda fyrir lífeyri á árinu 2008 var að öllu leyti óskert og framfærsluþörf hans óbreytt. Umræddar fjármagnstekjur kæranda nýttust honum ekki að neinu leyti til framfærslu eins og sýnt hefur verið fram á með framlögðum gögnum og skýringum í kæru. Það er ekki einu sinni svo að fjármagnstekjur hafi nýst honum til fjármögnunar á þeim stofnfjárkaupum sem kynnt eru í kæru. Staða kæranda eftir árið 2008 er raunar sú að hann mun þurfa að þola verulegt tap vegna fjárfestingarinnar, en stofnféð er verðlaust í dag, eftir yfirtöku ríkisins á sparisjóðnum. Það eina sem stendur eftir er að greiddur var fjármagnstekjuskattur á árinu 2008 í samræmi við þær fjármagnstekjur sem runnu beint til D banka hf.

Lán kæranda sem tekið var vegna stofnfjárkaupanna er enn til staðar. Virði stofnfjárbréfanna í B er hins vegar ekkert eftir yfirtöku ríkisins á sparisjóðnum.

Því er mótmælt að ekki liggi fyrir í málinu hvernig endurgreiðsla á láninu er háttað, en lánasamningur kæranda við D banka hf. var lagður fram með kæru. Þar er meðal annars fjallað um endurgreiðslu þess í 2. gr. samningsins. Kærandi hefur samið um greiðslufrest að svo stöddu og gildir hann að óbreyttu til 19. október 2010.

Nánar um skilyrði niðurfellingar endurkröfu skv. 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 (varakrafa kæranda)

 

Alveg sérstakar aðstæður:

Kærandi telur að TR líti algerlega framhjá hinum sérstöku aðstæðum kæranda við mat sitt á skilyrðum 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

TR gengur svo langt að halda því fram að stofnunin þurfi einungis að meta fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda með tilliti til þess hvort hann geti greitt endurkröfuna og þess hvort hann hafi verið í góðri trú þegar hann þáði bætur sínar. Kærandi telur að túlkun TR á 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé því allt og þröng og ekki í samræmi við skýrt orðalag hennar.

Telur kærandi að þrátt fyrir að fallast megi á þá almennu reglu að skýra skuli undanþáguákvæði þröngt, þá sé ekkert sem réttlæti að vikið sé frá skýru orðalagi slíks ákvæðis. Það skuli fremur túlka samkvæmt orðanna hljóðan, sem er sú lögskýring sem ávallt er nærtækust. Það kemur skýrt fram í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 að „einkum“ skuli litið til ofangreindra atriða við mat á niðurfellingu, en ekki einungis eins og TR virðist ganga útfrá.

Verður að áliti kæranda að fara fram heildarmat á aðstæðum kæranda í ljósi alls þess sem gerðist á árinu 2008. Telur kærandi að mat TR á aðstæðum hans gangi alls ekki nógu langt, sbr. hér á eftir.

 

Fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda:

Túlkun TR á 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 gengur útfrá því að niðurfellingu endurkröfu sé aðeins unnt að byggja á því að kærandi sé ófær um að endurgreiða kröfu TR. Þessi þrönga túlkun TR þýðir að stofnunin lætur sér nægja að kanna eignastöðu kæranda í dag og álykti sem svo að ef hann á fyrir endurkröfunni þá sé það nægjanleg ástæða til að neita um niðurfellingu. Fer því ekki fram neitt raunverulegt mat á hinum sérstöku aðstæðum kæranda, eins og skylt er skv. 1. ml. 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Jafnframt telur kærandi ómálefnalegt að leggja aðeins til grundvallar skoðun á fjárhagslegum aðstæðum kæranda, hvort hann geti greitt endurkröfuna til baka eða ekki.

Eins og lýst er í kæru og skýrt er nánar hér að framan þá naut kærandi einskins af þeim fjármagnstekjum sem rýrðu bótarétt hans. Blessunarlega nýtur kærandi þess aftur á móti ennþá, þrátt fyrir mikið tap af fjárfestingu í stofnfjárbréfum í B, að hann hafði safnað sér fé í gegnum tíðina, enda á gamals aldri.

Það skýtur skökku við að þessi ráðdeild kæranda er aftur á móti eina aðalákvörðunarástæða þess að honum er synjað um niðurfellingu á endurkröfu við þessari mjög svo sérstöku aðstæður. Ef litið er til eigna- og skuldastöðu kæranda fyrir áramótin 2008 og um áramótin 2008 má sjá að fjárhagsstaða hans hefur versnað svo um munar, en við skoðun á skattframtali kæranda þá verður ekki litið framhjá því að stofnfjáreign kæranda í BYR er skráð á nafnvirði en raunvirðið er ekkert í dag.

 

Góð trú:

Kærandi mótmælir því að hann hafi ekki verið í góðri trú um greiðslurétt sinn fyrir árið 2008. Tekjuáætlun kæranda var fyllt út skv. hans bestu samvisku og í samræmi við tekjur hans undanfarin ár. Hafði kærandi enga stöðu til að álykta um hvort og þá hvaða arðgreiðslur yrðu ákveðnar vegna stofnfjáreignar í B. Jafnframt var ljóst þegar kæranda var sent bréf frá B þann 21. apríl 2008 að arðurinn myndi ekki nýtast honum til framfærslu og ekki er hægt að ætlast til þess að kærandi gæti endilega skýrt greinilega á milli tekna sem hann nyti í raun og þeirra tekna sem TR telur að sé óheimilt að líta framhjá. Hafði kærandi enda aldrei áður fengið arðgreiðslu sem honum var ekki heimilt að nýta jafnóðum. Kærandi leit eðlilega á bætur sínar sem bætur til lágmarksframfærslu, arður af stofnfjárbréfum í B breyttu þar engu um fyrir kæranda.

Þrátt fyrir fullyrðingar TR þá telur kærandi nauðsynlegt að líta til þess að um er að ræða aldraðan aðila með takmarkaðan skilning á því regluverki sem um ræðir og takmarkaða tölvukunnáttu.

Það skýtur skökku við að TR telji það fullljóst að kærandi sé ekki í góðri trú en gefur honum vilyrði fyrir því að endurupptaka mál hans ef aðstæður breytast í framtíðinni. Verður að ætla sem svo að TR leggi því meiri áherslu á fjárhagslega stöðu kæranda í dag. Eins og bent hefur verið á þá er fjárhagsleg staða kæranda mun verri eftir árið 2008 heldur en fyrir.

 

Lokaorð:

Hið einfalda mat á sérstökum aðstæðum kæranda er að hann fékk fjármagnstekjur á árinu 2008 sem nýttust honum ekki til framfærslu og munu aldrei nýtast honum, var það ljóst strax við hrun fjáramálakerfisins 2008. Skuldir kæranda hækkuðu á sama tíma umtalsvert umfram eignir og verður ekki breyting þar á. Aðstæður kæranda í dag eru því þær að hann er mun verr staddur fjárhagslega nú en fyrir árið 2008 ásamt því að hann nýtur takmarkaðra bótaréttinda vegna endurkröfu TR og þarf að ganga umtalsvert á ævisparnað sinn til þess að sinna grunnframfærslu sinni.“

 

Athugasemdir umboðsmanns kæranda voru kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi dags. 5. maí 2010. Viðbótargreinargerð dags. 22. júní 2010 barst frá stofnuninni þar sem sagði meðal annars:

 „Tryggingastofnun hafnar því, eins og haldið er fram í athugasemdum kæranda, að eingöngu sé þröngt horft til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna kæranda. Eins og komið er inn á í fyrri greinargerð stofnunarinnar skoðaði samráðsnefnd Tryggingastofnunar um meðferð ofgreiðslna við afgreiðslu málsins m.a. ástæður ofgreiðslunnar. Sem dæmi um aðstæður sem geta réttlætt niðurfellingu ofgreiddra bóta er þegar ofgreiðslan myndast vegna útfararstyrks sveitarfélaga.

Í athugasemdum kæranda er sérstaklega fjallað um að „umræddar fjármagnstekjur kæranda nýttust honum ekki að neinu leyti til framfærslu ...“ og að Tryggingastofnun eigi að taka tillit til þess. Tryggingastofnun vill ítreka það sem fram kemur í fyrri greinargerð stofnunarinnar, að það hefur verið margstaðfest hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga að fjármagnstekjur, hvort sem fjármagnstekjur nýtist bótaþega eða ekki ber að nota þær við endurreikning. Það er í samræmi við niðurstöðu hæstaréttardóms í máli nr. 395/2008 þar sem tekinn var af allur vafi um að Tryggingastofnun beri að endurreikna bætur og miða við hvernig fjármagnstekjurnar eru að færðar á hvert tekjuár en ekki það hvernig greiðslum samkvæmt samningi sé háttað.

Ekki er fallist á það með kæranda að þar sem að fjármagnstekjur kæranda hafi ekki nýst honum þá séu það sérstakar aðstæður sem réttlæti niðurfellingu ofgreiðslna á grundvelli 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Engin rök mæla með því að Tryggingastofnun ríkisins eigi að taka tillit til áhættufjárfestinga bótaþega eins og kærandi fer fram á, nema eitthvað annað og meira liggi fyrir. Af gögnum málsins er ekki annað að sjá en að kærandi hafi af fúsum og frjálsum vilja gengið undir samninginn vegna stofnfjáraukningarinnar. Kærandi og lögmaður hans hafi ekki enn sýnt fram hvað það er í máli þessu sem gerir það að verkum að atvik séu sérstök. Ekki er hægt að halda því fram að áhættufjárfesting sem mistekst séu sérstakar aðstæður og það réttlæti að Tryggingastofnun eigi að fella niður ofgreiddar bætur sem henni er skylt að innheimta skv. 55. gr. laga um almannatryggingar.

Kærandi mótmælir því að „hann hafi ekki verið í góðri trú um greiðslurétt sinn fyrir árið 2008.“ Eins og bent er á í athugasemdum kæranda þá fékk hann bréf frá B, dags. 21. apríl 2008, þar sem hann er upplýstur um arðgreiðslur sínar. Kærandi hafði ekki samband við Tryggingastofnun vegna þess og spurðist fyrir um hvort þetta hefði áhrif á greiðslur til hans. Ljóst er að bótaþegar bera skýra ábyrgð skv. 2. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar að upplýsa stofnunina breytingar á aðstæðum eða tekjum sem geta haft áhrif á greiðslur.

Þá bendir kærandi á að um sé að ræða „aldraðan aðila með takmarkaðan skilning á því regluverki sem um ræðir og takmarkaða tölvukunnáttu.“ Kærandi getur ekki borið fyrir sig vanþekkingu á reglum almannatrygginga hvaða tekjur hafa áhrif á greiðslu bóta í þessu sambandi. Kærandi er lögráða og verður því að axla ábyrgð sem slíkur. Kærandi var einnig aldraður þegar hann gekk undir þá miklu skuldbindingu sem stofnfjáraukningin var.

Ekki er hægt að líta fram hjá fjárhagslegum aðstæðum bótaþega þegar beiðni kemur um niðurfellingu ofgreiðslna og var það gert í máli þessu. Í þessu sambandi ber að benda á að í athugasemdum kæranda kemur fram „Blessunarlega nýtur kærandi þess aftur á móti ennþá, þrátt fyrir mikið tap af fjárfestingu í stofnfjárbréfum B, að hann hafði safnað sér fé í gegnum tíðina, enda á gamals aldri.“

Beðist er velvirðingar á því að fullyrt hafi verið í fyrri kæru að ekki hafi legið fyrir í málinu upplýsingar um nákvæma endurgreiðslu lánsins. Liggur nú fyrir að greiðslufrestur hafi verið veittur til 19. október n.k.

Með vísan til ofanritaðs telur Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.“

 

Viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi dags. 24. júní 2010.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að endurkrefja kæranda um ofgreiddar bætur annars vegar og synjun stofnunarinnar á niðurfellingu endurkröfu stofnunarinnar á hendur kæranda vegna ofgreiddu bótanna hins vegar.   

Í kæru var gerð aðalkrafa og varakrafa. Í aðalkröfu var farið fram á að endurgreiðslukrafa á hendur kæranda yrði felld úr gildi. Krafan var á þeim rökum reist að fjármagnstekjur umfram tekjuáætlun á árinu 2008 hafi í raun runnið til D banka hf. en ekki kæranda sjálfs. Þær hafi ekki nýst kæranda til framfærslu og þar af leiðandi hafi ekki verið um raunverulegar tekjur að ræða. Fjármagnstekjurnar hafi ekki myndað eign og geti af þeim sökum ekki talist til tekna, sbr. lög um almannatryggingar. Þar sem kærandi hafi í upphafi gert samning við D banka hf. um að handveðsetja bankanum stofnfjárhlut sinn hafi stofnfjáreign kæranda alltaf verið takmörkuð af því láni sem á stofnfénu hvíldi. Kærandi hafi fengið tilkynningu um arðgreiðslur í samræmi við ákvörðun aðalfundar stofnfjáreigenda B með bréfi dags. 21. apríl 2008. Fjárhæð þeirra hafi runnið beint til veðhafa. Í varakröfu fór kærandi fram á að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja beiðni kæranda um niðurfellingu á endurkröfu þar sem hann var ekki talinn uppfylla skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 589/2009 yrði ógild og að beiðnin yrði tekin til greina. Í kæru var aðstæðum kæranda lýst sem sérstökum. Arðgreiðslurnar hafi runnið beint til veðhafa þannig að þær hafi enga viðkomu haft á reikningi kæranda og hafi því ekki nýst honum til framfærslu. Það hafi því verið afsakanlegt að kærandi hafi ekki leiðrétt tekjuáætlun sína til samræmis við tekjur sem hann vissi að hann gæti ekki nýtt.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var greint frá þeirri afstöðu stofnunarinnar að umrædd krafa væri réttmæt og að ástæða ofgreiðslunnar hafi verið röng tekjuáætlun þar sem tekjur hafi verið vanáætlaðar. Samráðsnefnd stofnunarinnar um meðferð ofgreiðslna hafi metið fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda á grundvelli upplýsinga sem stofnunin hafi aðgang að. Við skoðun þeirra hafi það verið mat nefndarinnar að skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 væru ekki uppfyllt í málinu.

Kærandi hefur notið tekjutengdra bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, er umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá er Tryggingastofnun heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og bótaþega hjá skattyfirvöldum o.fl. Ennfremur er umsækjanda og bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur. 

Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Við endurreikning á bótafjárhæð kæranda reiknaðist stofnuninni að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur á árinu 2008. Í tekjuáætlun fyrir kæranda fyrir árið 2008 hafi verið reiknað með að fjármagnstekjur hans yrðu samtals X kr. en samkvæmt skattframtali kæranda árið 2009 fyrir tekjuárið 2008 hafi þær reynst vera X kr. Þar af voru vaxta- og verðbótatekjur X kr. og arður X kr.

Í 55. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um að ofgreiddar bætur skuli innheimtar.  Í 2. mgr. kemur meðal annars fram að ef tekjutengdar bætur samkvæmt lögunum séu ofgreiddar af Tryggingastofnun skuli það sem sé ofgreitt dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi öðlist síðar rétt til. 

Meginágreiningur málsins lýtur að því hvort fjármagnstekjur kæranda, sem taldar voru fram í skattframtali en ekki í tekjuáætlun, eigi að hafa áhrif á rétt hans til bóta hjá Tryggingastofnun.

Aðdraganda að fjármagnstekjum kæranda má rekja til þess að hann hafði gert samning við D banka hf. þann 17. desember 2007 um lánveitingu til stofnfjárkaupa í Sparisjóði C sem síðar var sameinaður B sparisjóði. Samhliða lánveitingunni var stofnfjárhlutur kæranda handveðsettur D banka hf. Á árinu 2008 fékk kærandi, sem stofnfjáreigandi í B sparisjóði, arðgreiðslur sem runnu óskertar til greiðslu upp í lán kæranda við D hf. samkvæmt handveðssamningi.

Kærandi naut bótagreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli tekjuáætlunar, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Kærandi bar samkvæmt lögbundinni skyldu að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjuáætlun sem kunnu að hafa áhrif á bótagreiðslurnar, sbr. 2. mgr. 52. gr. sömu laga. Með bréfi dags. 21. apríl 2008 frá B sparisjóði var kærandi upplýstur um umræddar arðgreiðslur og bar honum að tilkynna Tryggingastofnun ríkisins um þær.

Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir meðal annars að til tekna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Sé litið til þeirra laga kemur fram í C lið 7. gr. að arðgreiðslur skuli teljast til tekna og vextir- og verðbætur samkvæmt 3. tl. sömu greinar. Á skattframtali falla tekjurnar undir lið fjármagnstekna.

Lögum samkvæmt ber Tryggingastofnun að líta til upplýsinga í skattframtölum við endurreikning bóta, sbr. 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Leiði samanburður á tekjuáætlun og skattframtali í ljós að bótaþega hafi verið ofgreiddar bætur ber honum lögum samkvæmt að endurgreiða þann hluta bótafjárhæðinnar sem hann hafði ekki lögbundinn rétt til að njóta. Það er á ábyrgð bótaþega sem nýtur tekjutengdra bóta að hafa gætur á því að tekjuáætlun sé rétt og í samræmi við þær tekjur sem kunna að falla til á árinu. Tryggingastofnun ber að innheimta ofgreiddar bætur lögum samkvæmt, sbr. 2. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar. Í því tilliti hefur stofnunin enga heimild til þess að virða að vettugi upplýsingar skattyfirvalda enda ber henni að líta til þeirra upplýsinga við endurreikning bótagreiðslna, sbr. 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd almannatrygginga ekki unnt að verða við aðalkröfu kæranda þar sem farið var fram á að ákvörðun Tryggingastofnunar um að endurkrefja kæranda um ofgreiddar bætur vegna ársins 2008 yrði úr gildi felld.

Verður nú vikið að varakröfu kæranda þar sem þess var krafist að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um niðurfellingu á endurkröfu yrði felld úr gildi og krafan tekin til greina á þeim grundvelli að kærandi uppfylli skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 589/2009.

Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins er að finna heimild til undanþágu frá endurkröfu. Þar kemur eftirfarandi fram:

 „Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn.“

Kærandi hafði farið þess á leit að endurkrafa á hendur sér yrði felld niður vegna fjárhagslegra aðstæðna. Tryggingastofnun ríkisins hafði metið það svo að kærandi uppfyllti ekki skilyrði undanþáguheimildar 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Umræddar fjármagstekjur komu til þar sem kærandi hafði tekið 100% lán hjá D banka hf. í lok árs 2007 til þess að auka stofnfjárhlut sinn í Sparisjóði C (nú B sparisjóður). Samkvæmt handveðssamningi við D banka hf. var stofnfjárhlutur kæranda veðsettur bankanum. Arðgreiðslur sem kærandi fékk sem stofnfjáreigandi í B árið 2008 runnu beint til veðhafa. Kærandi tók lánið sjálfur og var kunnugt um skilmála þess.

Tilvitnuð 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 heimilar undanþágu frá endurgreiðslukröfu í þeim tilvikum þegar aðstæður eru sérstakar. Að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga verður ekki séð hvernig aðstæður kæranda vegna fjárfestingarinnar séu sérstakar þannig að þær réttlæti niðurfellingu á grundvelli reglugerðarákvæðisins. Fjárfesting kæranda var áhættufjárfesting á eigin ábyrgð og kemur það í hans hlut að bera halla af henni. Kærandi vísaði til þess að krafan um endurgreiðslu hinna ofgreiddu bóta hafi bæði umtalsverð og bein áhrif á framfærslu sína þar sem hann hafi litlar tekjur umfram lífeyri frá Tryggingastofnun. Kærandi greindi einnig frá því að hann hafi safnað fé í gegnum tíðina sem hann þurfi nú að ganga á til að framfæra sér. Þessar ástæður eru að mati úrskurðarnefndar ekki þess eðlis að þær gefi tilefni til að falla frá endurgreiðslukröfu á hendur kæranda. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að fjárhagslegar aðstæður séu það bágbornar að þær réttlæti undanþágu samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Með vísan til framangreinds er staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um niðurfellingu endurkröfu vegna ofgreiddra bóta á árinu 2008.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um niðurfellingu endurkröfu vegna ofgreiddra bóta á árinu 2008 er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum