Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 110/2009

Miðvikudaginn 19. ágúst 2009

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

Ú r s k u r ð u r.

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með bréfi til úrskurðarnefndar almannatrygginga dags. 19. mars 2009 kærir A synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. mars 2009 á umsókn um heimilisuppbót.

Málsatvik eru þau að kærandi sótti þann 25. febrúar 2009 um heimilisuppbót til Tryggingastofnunar ríkisins. Umsókn var synjað með bréfi dags. 5. mars 2009 þar sem hann sé skráður í hjónaband þó hann sé ekki samvistum við maka sinn.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir kærandi meðal annars:

„Á næstu dögum mun kærandi gangast undir stóra aðgerð vegna spinal stenosu og fyrirséð að hann verði óvinnufær næstu mánuðina. Kæranda hefur verið veittur endurhæfingarlífeyri, sbr. meðfylgjandi bréf frá 11. febrúar 2009.

Þann 25. febrúar sl. sótti kærandi um heimilisuppbót skv. 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð en umsókninni var synjað með bréfi frá umboði Tryggingastofnunar í Hafnarfirði þann 5. mars sl. Óumdeilt er að kærandi uppfyllir öll skilyrði 8. gr. laga nr. 99/2007 að því undanskildu að hann telst tæknilega séð ekki einhleypur, um það snýst málið.

Kærandi og eiginkona hans bjuggu saman hér á landi um hríð en seint á síðasta ári, eða þann 3. nóvember 2008 hélt eiginkona kæranda af landi brott til heimalands þeirra, Póllands, og hefur dvalið þar síðan. Kærandi hefur síðan þá verið einn um heimilisrekstur og án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Samkvæmt þjóðskrá eru kærandi og eiginkona hans, B, skráð sem hjón sem ekki eru í samvistum, því ljóst að eiginkona kæranda er ekki á landinu

Kærandi hefur komið heiðarlega fram og hvorki reynt né viljað draga dul á þá staðreynd að hann er giftur, þó það komi honum e.t.v. til góða í íslensku tryggingakerfinu.

Í 6. gr. reglugerðar nr. 595/2007 um heimilisuppbót, sérstaka heimilisuppbót og frekari uppbætur segir efnislega að vistist maki elli- eða örorkulífeyrisþega á stofnun sé heimilt að greiða makanum sem heima búi heimilisuppbót, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Í tilviki kæranda eru aðstæður sambærilegar, nema hvað maki hans býr erlendis en ekki á stofnun og sökum erfiðra aðstæðna er fyrirséð að maki kæranda geti ekki á nokkurn hátt veitt honum aðstoð í þeirri endurhæfingu sem framundan er hjá kæranda.

Kærandi fer einfaldlega fram á að jafnræðis sé gætt og við mat á aðstæðum hans sé efni haft framar formi, þó kærandi sé skráður í hjónaband skv. þjóðskrá séu allar hans aðstæður á þann veg að hann geti talist einhleypur. Það er von kæranda að úrskurðarnefnd almannatrygginga taki þetta mál til vandlegrar skoðunar og leiðrétti það ójafnrétti sem synjun umboðs Tryggingastofnunar í Hafnarfirði felur í sér.“

 

Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi dags. 31. mars 2009. Greinargerð er dags. 15. apríl 2009. Þar segir meðal annars:

Kæruefni

Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslu heimilisuppbótar vegna hjúskaparstöðu kæranda.

Lög og reglugerðir sem máli skipta

Samkvæmt 8.gr. laga nr. 99/2007 er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að greiða einstaklingum svokallaða heimilisuppbót að upphæð 27.242 kr. á mánuði. Skilyrði er að hlutaðeigandi sé einhleypingur sem njóti óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar. Enn fremur að hann sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Tekið er fram að eigi hlutaðeigandi rétt á skertri tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar skuli lækka heimilisuppbótina eftir sömu reglum.

Um þetta er síðan nánar fjallað í reglugerð nr. 595/1997 um heimilisuppbót og frekari uppbætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð með síðari breytingum.

Málavextir

Kærandi sótti um heimilisuppbót til Tryggingastofnunar 25. febrúar síðastliðinn. Í umsókninni er reiturinn “hjúskaparstaða” óútfylltur. Enn fremur er reiturinn “nafn maka/sambýlisaðila” óútfylltur. Í umsókninni kemur hins vegar fram að kærandi búi einn í eigin húsnæði. Ekki liggur fyrir nein skýring á því hvers vegna kærandi fyllti þessa liði um hjúskap sinn og hjúskaparstöðu ekki út eins og eyðublaðið gerir ráð fyrir. Þvert á móti heldur kærandi því fram í kæru sinni að hann hafi hvorki reynt né viljað draga dul á þá staðreynd að hann er kvæntur.

Þann 5. mars var honum synjað skriflega um þessa uppbót þar sem í þjóðskrá kæmi fram að hann væri giftur en heimilisuppbót eingöngu ætluð einhleypingum, þ.e. ógiftu fólki. Að vísu kæmi fram í þjóðskrá að kærandi og eiginkona hans væru ekki samvistum en það breytti ekki því að Tryggingastofnun væri ekki heimilt að greiða giftu fólki heimilisuppbót. Breytti þar engu þótt það í tilviki kæranda byggi sannanlega ekki saman og kærandi væri þar af leiðandi einn um heimilisrekstur.

Lagarök

4.gr. reglugerðar nr. 595/1997 er að efni til samhljóða 8.gr. laga um félagslega aðstoð. Þar kemur skýrt fram að skilyrði þess að fá greidda heimilisuppbót eru þrjú:

Að umsækjandi sé einhleypingur (þ.e. ógiftur)

Að umsækjandi njóti tekjutryggingar

Að umsækjandi sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað

Fyrir liggur að kærandi uppfyllir skilyrði b) og væntanlega c) hér að ofan. Kærandi er hins vegar ekki einhleypingur heldur giftur maður. Samkvæmt íslenskri orðabók merkir orðið “einhleypingur” ókvæntan mann eða ógifta konu. Kærandi er ekki ókvæntur heldur kvæntur. Tryggingastofnun ríkisins er því einfaldlega óheimilt að notfæra sér heimildarákvæðið í 8.gr. laga um félagslega aðstoð, þar sem það er eingöngu bundið við ókvænta menn og ógiftar konur.

Það er rétt hjá kæranda að eina undantekningu frá því að óheimilt sé að greiða giftu fólki heimilisuppbót er að finna í reglugerð nr. 595/1997. Það er í 6.gr. reglugerðarinnar en þar segir að ef maki elli- eða örorkulífeyrisþega vistist til frambúðar á stofnun sé heimilt að greiða maka hans sem heima býr heimilisuppbót, enda fullnægi hann að öðru leyti skilyrðum til greiðslu slíkrar uppbótar. Telja verður að dvöl eiginkonu kæranda í öðru landi sé ekki hægt að jafna við þær sérstöku aðstæður þegar fólk vistast til frambúðar á elliheimili eða hjúkrunarheimili. Gildir það þótt aðskilnaður hjóna standi hugsanlega í langan tíma, en ekkert liggur reyndar fyrir um það í máli kæranda.

Niðurstaða

Tryggingastofnun telur því að það hafi verið rétt hjá umboði sínu í Hafnarfirði að synja kæranda um greiðslu heimilisuppbótar.“

 

Greinargerðin var send kæranda með bréfi dags. 22. apríl 2009 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar um greiðslu heimilisuppbótar til kæranda.

Í kæru segir að kærandi sé samkvæmt þjóðskrá skráður í hjónaband en að þau hjónin séu ekki samvistum. Eiginkona hans hafi haldið af landi brott til heimalands þeirra, Póllands, í nóvember 2008. Hann kveðst eftir það hafa séð einn um heimilisrekstur og án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er vísað til 8. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 og reglugerð um heimilisuppbót og frekari uppbætur nr. 595/1997. Kæranda hafi verið synjað um heimilisuppbót þar sem fram komi í þjóðskrá að hann sé giftur. Að vísu komi fram í þjóðskrá að kærandi og eiginkona hans séu ekki samvistum en það breyti því ekki að Tryggingastofnun sé ekki heimilt að greiða giftu fólki heimilisuppbót. Það breyti engu þótt hjónin búi ekki saman og kærandi sé þar af leiðandi einn um heimilisrekstur.

Í 8. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 segir svo:

„Heimilt er að greiða einhleypingi, sem nýtur óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, að auki heimilisuppbót, kr. 23.164 kr. á mánuði.“

Í reglugerð nr. 595/1997, með síðari breytingum, er að finna nánari útfærslu á lagaákvæðinu. Í 1. og 2. tl. 5. gr. reglugerðarinnar segir:

„Heimilisuppbót verður ekki greidd til aðila sem svo er ástatt um sem hér segir:

1. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis, vegna sambýlis við aðra óskylda aðila,

skyldmenni eða venslafólk.

2. Ef umsækjandi hefur sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka eða ríkis og bæja.

3. Ef umsækjandi leigir herbergi/húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum.“

Skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar er samkvæmt tilvitnuðum laga- og reglugerðar ákvæðum að um einhleyping sé að ræða sem sé einn um heimilisrekstur og njóti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Skiptir þar engu máli hvort um er að ræða systkini, vini eða aðra sem búa saman. Meta verður sjálfstætt í hverju tilviki að teknu tilliti til allra aðstæðna hvort viðkomandi njóti fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra í skilningi reglna um heimilisuppbót.

Kærandi var skráður hjá Þjóðskrá í hjónaband án samvistar, en eiginkona hans hafði í nóvember 2008 farið af landi brott til heimalands þeirra þ.e. Póllands. Með hliðsjón af því að kærandi er í hjónabandi getur hann að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga ekki talist einhleypingur skv. 8. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007. Í íslenskri orðabók (Edda, 2002) þá er einhleypur skilgreint sem ógiftur, ókvæntur. Þegar að þeirri ástæðu er ekki hægt að fallast á að kærandi uppfylli skilyrði til að fá heimilisuppbót. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu heimilisuppbótar er staðfest.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu heimilisuppbótar er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson, formaður

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum