Hoppa yfir valmynd
20. júní 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 98/2008

Föstudaginn 20. júní 2008

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Ludvig Guðmundsson, læknir, og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Þann 14. apríl 2008 barst úrskurðarnefnd almannatrygginga kæra A, er varðar endurreikning Tryggingastofnunar ríkisins á bótagreiðslum árið 2006.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að Tryggingastofnun ríkisins sendi bréf, dags. 8. október 2007, til kæranda vegna endurreiknings og uppgjörs bótagreiðslna ársins 2006. Í bréfinu segir að niðurstaða endurreikningsins sýni að bætur ársins 2006 hafi verið ofgreiddar kæranda sem nemi 953.147 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir m.a.:

„Forsendur þær sem þið hafið samkvæmt skattframtali 2006 söluhagnað kr. 8.886.309,- óska ég eftir að þetta verði endurskoðað á þeirri forsendu að þessa peninga varð ég að fá greidda út til að greiða þær ábyrgðarskuldbindingar sem fallið höfðu á mig kr. 4.049.050,-

Fer ég fram á að tekjur mínar v/2006 verði lækkaðar sem þessu nemur.

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. 16. apríl 2008, eftir greinargerð Tryggingastofnunar. Barst greinargerð frá stofnuninni, dags. 13. maí 2008, þar sem segir:

„1. Efni bréfs kæranda er beiðni um niðurfellingu

Í 7. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um hlutverk úrskurðarnefndar almannatrygginga. Í þeirri grein kemur fram að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta samkvæmt almannatryggingalögum leggi úrskurðarnefnd almannatrygginga úrskurð á málið.

Af efni bréfs kæranda má ráða að ekki sé um að ræða kæru í skilningi 7. gr. almannatryggingalaga, heldur er verið að óska niðurfellingar á kröfu stofnunarinnar vegna aðstæðna kæranda. Tryggingastofnun telur því að kæruefnið eigi ekki undir verksvið úrskurðarnefndar og fer því fram á að málinu verði vísað frá nefndinni.

Tryggingastofnun mun taka málið til meðferðar á nýjan leik og hefur það nú þegar verið lagt fyrir samráðsnefnd Tryggingastofnunar um meðferð ofgreiðslna og vangreiðslna sem fara mun yfir aðstæður kæranda í samræmi við 12. gr. reglugerðar nr. 939/2003.

2. Kærufrestur liðinn

Tryggingastofnun telur þó rétt að taka fram að kærufrestur ákvarðana Tryggingastofnunar fyrir úrskurðarnefnd er skv. 1. mgr. 8. gr. almannatryggingalaga þrír mánuðir og er það í samræmi við almennan kærufrest stjórnvaldsákvarðana sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga koma fram þær ströngu kröfur sem gerðar eru til þess að hægt sé að víkja frá almennum þriggja mánaða kærufresti. Tryggingastofnun telur að þær kröfur eigi einnig við um kærufrest í málum sem kærð eru til úrskurðarnefndar almannatrygginga.

Í ljósi þess að kærandi fékk tilkynningu um ákvörðun Tryggingastofnunar þann 8. október 2007 og sendi ekki inn kæru fyrr en 14. apríl 2008, telur Tryggingastofnun að kærufrestur sé liðinn í þessu máli. Ekki verður séð að undantekningarreglur l. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga eigi við í þessu tilfelli.

Tryggingastofnun telur í fyrsta lagi að erindi kæranda sé ekki kæra í skilningi 7. gr. almannatryggingalaga og í öðru lagi að kærufrestur sé liðinn. Stofnunin fer því fram á að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd.

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar og gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt hefur ekki borist.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar endurreikning Tryggingastofnunar ríkisins á bótagreiðslum til kæranda árið 2006.

Óskir kæranda verða vart skildar á annan veg en að kæranda óski eftir því að við endurreikning bótagreiðslna til hennar árið 2006 verði ekki litið til fjármagnstekna er hún hlaut sem söluhagnað það ár vegna fjármuna sem hún fékk greidda út til að greiða ábyrgðarskuldbindingar sem fallið höfðu á hana.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er farið fram á að úrskurðarnefnd almannatrygginga vísi máli kæranda frá nefndinni hvort tveggja sökum þess að kæruefnið eigi ekki undir úrskurðarnefndina og sökum þess að kærufrestur sé liðinn. Þá kemur fram í greinargerðinni að Tryggingastofnun hafi tekið mál kæranda fyrir á nýjan leik og lagt fyrir samráðsnefnd stofnunarinnar um meðferð ofgreiðslna og vangreiðslna að fara yfir mál kæranda í samræmi við 12. gr. reglugerðar nr. 939/2003.

Samkvæmt endurreikningi Tryggingastofnunar voru kæranda ofgreiddar bætur árið 2006 að fjárhæð 953.147 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Kæranda var tilkynnt um þessa niðurstöðu endurreiknings Tryggingastofnunar með bréfi stofnunarinnar, dags. 8. október 2007, þar sem fram kom að heimilt væri að kæra ákvörðun þá er bréfið geymdi til úrskurðarnefndar almannatrygginga fyrir 1. febrúar 2008.

Í 1. mgr. 7. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 segir að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði og upphæð bóta samkvæmt almannatryggingalögunum leggi sjálfstæð og óháð nefnd, úrskurðarnefnd almannatrygginga, úrskurð á málið.

Óskir kæranda um að litið verði framhjá tilgreindum tekjum hennar á árinu 2006 við endurreikning og uppgjör bótagreiðslna til hennar það ár hljóta að teljast til þeirra atriða sem í 7. gr. almannatryggingalaga er tilgreint að eigi undir úrskurðarnefnd almannatrygginga. Því telur úrskurðarnefndin að ágreiningsefni eins og mál þetta varðar eigi undir nefndina.

Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð Tryggingastofnunar hefur stofnunin endurupptekið mál kæranda og ákveðið að fara yfir mál hennar í samræmi við 12. gr. reglugerðar nr. 939/2003. Endanleg ákvörðun hefur því ekki verið tekin í máli kæranda hjá Tryggingastofnun ríkisins og þegar af þeim sökum verður að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd almannatrygginga. Þegar Tryggingastofnun hefur kynnt kæranda endanlega ákvörðun í málinu getur hún kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndar almannatrygginga sætti hún sig ekki við niðurstöðu stofnunarinnar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kæru A, vegna endurreiknings bótagreiðslna ársins 2006, er vísað frá.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum