Hoppa yfir valmynd
8. desember 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 242 Ofgreiddar bætur

Miðvikudaginn 15. nóvember 2006

 

242/2006

 

 

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins 

 

  

Ú r s k u r ð u r.

 

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

 

Með bréfi dags. 31. ágúst 2006 til úrskurðarnefndar almannatrygginga kærir B hrl. f.h. A ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurkröfu ofgreiddra bóta vegna áranna 2003 og 2004. Kæran er móttekin 4. september 2006.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins dags. 14. júní 2006 var kæranda tilkynnt að ekki hefði verið unnt að taka tillit til andmæla kæranda við endurreikningi bóta ársins 2004 sem henni hafði verið kynntur með bréfi dags. 21. nóvember 2005. Kom fram í bréfinu að á skattframtali vegna ársins 2004 komi fram fjármagnstekjur sem taka verði tillit til við útreikning lífeyrisgreiðslna. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta framhjá tekjum sem aflað sé. Vísað er til 7. gr. reglugerðar nr. 939/2003 um að fjármagnstekjum skuli ávallt skipt til helminga milli hjóna við útreikning bóta. Var heildarskuld vegna áranna 2003 og 2004 sögð nema kr. 916.633.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

 

„Hér með kæri ég fyrir hönd A ákvörðun Tryggingastofnun ríkisins dags. 14. júní 2006 um endurreikning lífeyrisgreiðslna til hennar vegna áranna 2003 og 2004. Er þess krafist að ákvörðunin verði ómerkt og fyrri útreikningur standi óbreyttur. Til vara að endurreikningur til og með 28. október 2004 verði ómerktur. Jafnframt er krafist kærumálskostnaðar að mati nefndarinnar.

 

Málavextir eru þeir, að kærandi var með bréfi TR dags. 18. janúar 2006 tilkynnt um uppgjör bótagreiðslna ársins 2004, sbr. hjál. ljósrit. Í bréfinu er jafnframt vísað til bréfs TR dags. 21. nóvember 2005 sem ekki barst kæranda. Óskað hefur verið eftir því með bréfi til TR dags. 22. ágúst 2006 sem fylgir kæru þessari. Vakin er athygli á því að í hinni kærðu ákvörðun dags. 14. júní 2006, sbr. meðfylgjandi ljósrit, er efni hennar talið vera endurreikningur lífeyrisgreiðslna ársins 2004 en í bréfinu er engu að síður talað um heildarskuld vegna áranna 2003 og 2004 að fjárhæð 919.663 kr. Kærandi hefur með nefndu bréfi dags. 22. ágúst 2006 óskað eftir sundurliðuðum útreikningi á þessari fjárhæð, það er fyrir hvern mánuð sem endurreikningurinn tekur til, og sérstaklega óskað eftir sundurliðun á fjárhæð endurgreiðsla fyrir 28. október 2004. Svar hefur ekki borist. Tekið skal fram að endurreikningur TR er byggður á fjármagnstekjum af eignum sem eru séreign eiginmanns kæranda, sbr. hjál. bréf dags. 13. j úní 2006.

 

Kröfur kæranda eru studdar þeim rökum að lagaheimild skorti fyrir eftir á endurreikningi lífeyrisgreiðslna til kæranda frá TR. Verði talið að reglugerð nr. 860/2004 um breytingu á reglugerð nr. 939/2003 veiti TR heimild til endurreikningsins er á því byggt að TR hafi beitt henni með ólögmætum afturvirkum hætti. Í b. lið 3. gr. rgl. nr. 860/2004, sbr. hjálagt ljósrit, er í fyrsta skipti kveðið svo á að fjármagnstekjum skuli ávallt skipt milli hjóna við útreikning bóta og að engu máli skipti hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða. Þetta ákvæði tók ekki gildi fyrr en 28. október 2004 og verður ekki beitt afturvirkt eins og raunin er í tilviki kæranda. Ákvörðun TR um endurgreiðslur er afar íþyngjandi fyrir kæranda og andstæð mannréttindum hennar. Um nánari rökstuðning um ólögmæti hinnar afturvirku ákvörðunar er vísað til greinar Sigurðar Líndal, Um lagaskil og afturvirkni laga, í Úlfljóti 1. tbl. 59. árg. 2006. Loks er á því byggt að útreikningar TR séu almenn rangir og órökstuddir og brjóti gegn meginreglum góðar stjórnsýslu, sbr. einnig 7. gr., 10. gr., 11. gr., 12. gr. 13. gr. og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Sem fyrr segir var TR ritað bréf dags. 22. ágúst 2006 þar sem óskað var eftir gögnum og nánari skýringum. Áskilinn er réttur til að setja fram nýjar kröfur og senda inn frekari rökstuðning og gögn að mótteknu svari TR. Jafnframt óskar kærandi eftir því að fá að tjá sig um hugsanlegar athugasemdir TR við kæru þessa og önnur skjöl sem kunna að berast úrskurðarnefndinni við meðferð kærumálsins.“

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 5. september 2006 eftir greinargerð Trygginga­stofnunar.  Greinargerðin er dags. 19. september 2006. Þar segir m.a.:

 

„Í bréfi Tryggingastofnunar til kæranda, dags. 14. júní s.l., kom fram að krafa vegna ofgreiddra bóta á árinu 2004 næmi 641.602 kr., og að heildarskuld vegna áranna 2003 og 2004 næmi samtals 919.663 kr. Tryggingastofnun hefur fallist á það sjónarmið kæranda að ekki skuli taka tillit til fjármagnstekna þeirra hjóna, sem skráðar eru séreign maka kæranda, við endurreikning bóta vegna ársins 2003. Með hliðsjón af þeirri niðurstöðu nemur nú heildarskuld kæranda við Tryggingastofnun samtals 527.842 kr. vegna ofgreiddra bóta á árinu 2004.

 

Í 10. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 (atl.) er kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. 2. mgr. mælir fyrir um hvað teljist til tekna við bótaútreikning. Samkvæmt 5. mgr. skal leggja 1/12 hluta af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar. Bótagreiðsluár er almanaksár. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna lífeyrisþega og eftir atvikum maka hans. Komi í ljós að bætur hafi verið vangreiddar skal bótaþega greitt það sem uppá vantar. Hafi tekjutengdar bætur verið ofgreiddar skal um innheimtu fara skv. 50. gr. atl.

 

Meginástæða þess að endurkrafa á hendur kæranda myndast í uppgjöri er sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2005 vegna tekjuársins 2004 hafði farið fram komu í ljós fjármagnstekjur sem ekki hafði verið gert ráð fyrir í tekjuáætlun vegna þess árs, og þar með ekki við samtímaútreikning bóta á því ári, og liggur ekki fyrir að kærandi hafi tilkynnt Tryggingastofnun um þær tekjur. Uppgjör bótagreiðslna til kæranda vegna ársins 2004 fór fram samkvæmt fyrirmælum 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga, og reglugerð nr. 939/2003. Í 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar, sbr. breytingarreglugerð nr. 860/2004, kemur fram að fjármagnstekjum skuli ávallt skipt til helminga milli hjóna og að ekki skipti máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða. Tryggingastofnun telur sér hafa verið bæði rétt og skylt að taka mið af fyrirmælum þessa reglugerðarákvæðis við endurreikning bóta vegna ársins 2004. Breytingarreglugerð nr. 860/2004 tók gildi 28. október 2004. Tryggingastofnun hefur fallist á það sjónarmið kæranda að þessu ákvæði skyldi ekki beitt um uppgjör bóta vegna ársins 2003, þrátt fyrir það að uppgjör vegna þess árs hafði ekki verið framkvæmt þegar breytingarreglugerðin tók gildi. Hins vegar telur Tryggingastofnun að við uppgjör bóta vegna ársins 2004 hafi borið að taka mið af fyrrgreindu reglugerðarákvæði og að breytingarreglugerðinni hafi verið ætlað að taka til þess uppgjörs, sem fram fór í nóvember 2005, enda tekur ákvæðið til endurreiknings bóta sem fer ekki fram fyrr en endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun fellst því ekki á að ákvæðinu hafi verið beitt með afturvirkum hætti vegna ársins 2004. Fram kemur í kærunni að krafa um endurgreiðslu ofgreiddra bóta sé afar íþyngjandi fyrir kæranda, en vakin er athygli á því að kærandi getur samið við starfsmenn Tryggingastofnunar um að dreifa endurgreiðslu skuldarinnar á lengri tíma.

 

Í 5. mgr. 10. gr. atl. kemur fram að Tryggingastofnun skuli endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt 10. gr. laganna þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Í 2. mgr. 10. gr. er skilgreint hvað skuli teljast til tekna og kemur þar fram að til tekna skv. II. kafla almannatryggingalaga teljist tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 90/2003. Fjármagnstekjur teljast til skattskyldra tekna, sbr. C lið 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, og skerða því bætur eins og nánar er kveðið á um í ákvæðum almannatryggingalaga. Eins og mælt er fyrir um í fyrrgreindu ákvæði 5. mgr. 10. gr. atl. ber Tryggingastofnun að leggja til grundvallar upplýsingar á skattframtali um tekjur bótaþega þegar endurreikningur lífeyrisgreiðslna er framkvæmdur. Á skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2004 koma fram fjármagnstekjur sem Tryggingastofnun er samkvæmt framansögðu skylt að taka tillit til við endurreikning lífeyrisgreiðslna til hennar.

 

[...]

 

Þá er í fyrirliggjandi kæru krafist kærumálskostnaðar að mati nefndarinnar. Eins og fram kemur í 7. gr. a. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er kæruleið til úrskurðarnefndar almannatrygginga einföld og aðgengileg og kærendum að kostnaðarlausu. Hjá Tryggingastofnun liggja frammi eyðublöð í því skyni og skulu starfsmenn stofnunarinnar veita nauðsynlega aðstoð við útfyllingu þeirra, og átti kærandi aðgang að slíkri aðstoð vegna síns máls, eins og aðrir viðskiptamenn stofnunarinnar. Tryggingastofnun telur ekki lagaheimild til að verða við kröfum kæranda um kærumálskostnað.“

 

Greinargerðin var send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi dags. 21. september 2006 og var gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir bárust 16. október 2006 og voru þær kynntar Tryggingastofnun.

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar ágreining um heimild til beitingar ákvæðis 3. gr. reglugerðar nr. 860/2004, um breytingu á reglugerð nr. 939/2003, vegna endurreiknings ofgreiddra bóta ársins 2004. Einnig hvort ákvæði breytingarreglugerðar hafi næga lagastoð.

 

Í kæru er því mótmælt að tekjur maka kæranda af séreign séu taldar kæranda til tekna að hálfu leyti við endurreikning bóta áranna 2003 og 2004. Telur kærandi ákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 860/2004 um breytingu á reglugerð nr. 939/2003 ekki hafa lagastoð og einnig hafi ákvæðinu verið beitt afturvirkt með ólögmætum hætti.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að Tryggingastofnun hafi fallist á það sjónarmið kæranda að ekki skuli taka tillit til fjármagnstekna þeirra hjóna, sem skráðar séu á séreign maka kæranda, við endurreikning bóta ársins 2003. Með hliðsjón af því nemi heildarskuld kæranda við Tryggingastofnun samtals kr. 527.842 vegna ofgreiddra bóta á árinu 2004. Segir svo að meginástæða þess að endurkrafa hafi myndast í uppgjöri sé sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2005 vegna tekjuársins 2004 hafi farið fram hafi komið í ljós fjármagnstekjur sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í tekjuáætlun vegna þess árs. Liggi fyrir að kærandi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um þær tekjur.

 

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærandi telur sömu rök fyrir því að fella niður endurkröfu vegna janúar til og með október 2004 og fyrir því að Tryggingastofnun hefur ákveðið að fella niður endurkröfu vegna ársins 2003. Einnig eru ítrekuð sjónarmið kæranda um að lagastoð skorti fyrir setningu reglugerðar nr. 860/2004 um breytingu á reglugerð nr. 939/2003 þar sem fjármagnstekjur maka geti ekki talist tekjur kæranda. Tilvísun laga nr. 117/1993 til II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt nái ekki til álagningarreglna síðarnefndu laganna.

 

Með setningu reglugerðar nr. 860/2004 var sett sú regla að við endurreikning bóta væri fjármagnstekjum hjóna skipt á milli þeirra án tillits til þess hvort þeirra aflaði teknanna. Reglugerðin var birt í Stjórnartíðindum þann 28. október 2004 og tók þegar gildi. Tryggingastofnun hefur viðurkennt að ekki standist að beita þessu ákvæði reglugerðarinnar við endurreikning bóta ársins 2003 og hefur fellt niður endurgreiðslukröfu á hendur kæranda vegna þess árs. Úrskurðarnefndin tekur undir sjónarmið kæranda sem sett eru fram í bréfi dags. 12. október 2006 um að sömu rök séu til þess að fella niður endurgreiðslukröfu vegna janúar til og með október 2004 og fyrir niðurfellingu endurkröfu 2003. Óheimilt sé að beita reglugerðarákvæðinu, sem er íþyngjandi fyrir kæranda, með afturvirkum hætti. Við beitingu reglugerðar nr. 860/2004 skal miða við gildistöku reglugerðarinnar og beita henni frá þeim tíma en ekki frá 1. janúar 2004.

 

Kærandi telur reglugerð nr. 860/2004 ekki hafa lagastoð þar sem í 10. gr. laga nr. 117/1993 sé eingöngu vísað til ákvæða II. kafla tekjuskattslaga nr. 90/2003 en ekki álagningarreglna laganna. Sé því ekki lagastoð fyrir setningu jafn íþyngjandi ákvæðis og 3. gr. reglugerðar nr. 860/2004 sé.

 

Bætur almannatrygginga eru félagslegs eðlis og tilgangur þeirra er meðal annars að veita þeim fjárhagsaðstoð sem standa höllum fæti vegna fötlunar og veikinda, eru í erfiðri félagslegri stöðu og eiga í erfiðleikum með að sjá sér fjárhagslega farborða. Bætur almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar eru fjármagnaðar af almannafé sem eðli málsins samkvæmt er takmarkað til þessa málaflokks skv. fjárlögum hverju sinni. Bætur lífeyristrygginga almannatrygginga eru að lögum tekjutengdar og geta hvoru tveggja tekjur bótaþega sjálfs eða maka hans áhrif til skerðingar bótaréttar. Þessi tekjutenging er að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga á málefnalegum rökum reist enda er hún í samræmi við áðurnefndan tilgang og félagslegt eðli laganna.

 

Úrskurðarnefndin lítur ennfremur til þess að samkvæmt 46. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 hvílir gagnkvæm framfærsluskylda á hjónum. Telur nefndin að umrætt ákvæði 7. gr. reglugerðar nr. 939/2003 eins og henni var breytt með reglugerð 860/2004 hafi fulla lagastoð en þar er kveðið á um að fjármagnstekjum skuli ávallt skipt til helminga milli hjóna við útreikning bóta. Með vísun til gagnkvæmrar framfærsluskyldu hjóna telur nefndin það ekki skipta máli hvort um er að ræða hjúskapareign eða séreign þegar tekjur eru kannaðar með tilliti til útreiknings tekjutengdra bóta. Séreign maka hefur fyrst og fremst áhrif við slit hjúskapar eða ákvörðun erfðaréttar. Þegar litið er til framfærslu hefur hún hins vegar engin áhrif.

Samkvæmt þessari niðurstöðu er ekki grundvöllur til að beita 3. gr. reglugerðar 860/2004 vegna endurreiknings bóta árið 2004 fyrr en frá gildistöku hennar 29. október 2004. Er því nauðsynlegt að vísa málinu aftur til Tryggingastofnunar ríkisins til endurútreiknings bóta vegna ársins 2004 og til endurákvörðunar endurkröfu hafi bætur verið ofgreiddar það ár.

 

Í kæru er sett fram krafa um kærumálskostnað. Engin heimild er í almannatryggingalögum nr. 117/1993 með síðari breytingum til þess að greiða kærumálskostnað og er þeirri kröfu því vísað frá.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Endurkrafa Tryggingarstofnunar ríkisins á hendur kæranda vegna ársins 2004 er felld niður. Málinu er vísað aftur til Tryggingastofnunar til endurútreiknings og eftir atvikum til að taka nýja ákvörðun um endurkröfu vegna ofgreiddra bóta 2004. Kröfu um kærumálskostnað er vísað frá.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga 

____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum