Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 70 - Uppbót/styrkur til bifreiðakaupa

A


gegn


Tryggingastofnun ríkisins



Ú r s k u r ð u r.


Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.


Með bréfi dags. 23. febrúar 2006 kærir A til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Trygginga­stofnunar ríkisins um uppbót/styrk til bifreiðakaupa.


Óskað er endurskoðunar.


Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn dags. 16. nóvember 2005 sótti kærandi um uppbót/styrk til bifreiðakaupa. Umsókninni var synjað með bréfi dags. 27. janúar 2006, þar sem ekki væru liðin 5 ár frá því að kærandi fékk úthlutað uppbót til bifreiðakaupa.


Í rökstuðningi með kæru segir:


„ Samkvæmt skilyrðum sem sett voru er ég fékk bílastyrk að upphæð 250.000 var gildistími 4 ár.

Finnst mér undarlegt að ríkisstofnun standi ekki við settar reglur, sem settar voru þegar styrkurinn var veittur.

Sem ljóst má vera að bifreið í þessum verðflokki endist ekki svona lengi.

Ég fer því fram á að staðið verði við setta skilmála og ég geti sótt um bílastyrk og afnema þinglýstum skilyrðum á núverandi bifreið samkvæmt skilmálum sem sett voru.”


Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi dags. 2. mars 2006. Barst greinargerð dags. 23. mars 2006. Þar segir:


„Kærð er synjun á greiðslu uppbótar vegna kaupa á bifreið á grundvelli þess að þegar hann fékk styrk vegna bifreiðakaupa á árinu 2001 hafi gildistími verið fjögur ár.

Kveðið er á um skilyrði fyrir uppbót vegna kaupa á bifreið skv. l. mgr. 11. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 118/1993 í 4. gr. reglugerðar nr. 752/2002. Í 2. ml. 5. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 752/2002, sbr. b-lið 2. gr. breytinga­reglugerðar nr. 462/2004 er kveðið á um að uppbót sé heimilt að veita á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Skilyrðið var þannig lengt með reglugerðarbreytingu úr fjórum árum í fimm á árinu 2004.

Í 4. gr. reglugerðar 462/2004 er sérstaklega tekið fram að að breyting þessi taki jafnframt til þeirra einstaklinga sem hafa fengið styrki eða uppbætur greiddar af Tryggingastofnun ríkisins í tíð eldri reglna fyrir gildistöku breytingareglugerðarinnar.


Kærandi sótti um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa með umsókn dags. 16. nóvember 2005 og móttekinni 17. nóvember 2005. Honum var með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 27. janúar 2006 synjað að svo stöddu um greiðslu uppbótar til kaupa á bifreið á grundvelli þess að umsóknin væri ótímabær. Hann fékk styrk til kaupa á bifreið 1. mars 2002 og eru fimm ár því ekki liðin.”


Greinargerðin var send kæranda með bréfi dags. 24. mars 2006 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt hefur ekki borist.



Niðurstaða úrskurðarnefndar:


Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um uppbót vegna kaupa á bifreið.


Í rökstuðningi fyrir kæru segir að samkvæmt skilyrðum sem sett voru er kærandi fékk úthlutað uppbót til bifreiðakaupa að upphæð 250.000 krónur hafi gildistími verið 4 ár. Segir kærandi að sér finnist undarlegt að ríkisstofnun standi ekki við settar reglur, sem giltu er hann fékk uppbótina. Kærandi segir ljóst vera að bifreið í þessum verðflokki endist ekki svona lengi.


Vegna ummæla kæranda um að bifreið í þessum verðflokki endist ekki svona lengi skal tekið fram að uppbót/styrk til bifreiðakaupa er ætlað að auðvelda umsækjanda kaup á bifreið en ekki að standa undir bifreiðakaupum að fullu og öllu leyti.


Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að með reglugerð nr. 462/2004 hafi reglugerð nr. 752/2002 verið breytt á þann veg að heimilt sé að veita uppbót til sama einstaklings á fimm ára fresti. Í 4. gr. breytingarreglugerðarinnar sé tekið fram að breyting þessi taki jafnframt til einstaklinga sem hafi fengið styrki eða uppbætur greiddar af Tryggingastofnun í tíð eldri reglna fyrir gildistöku breytingar­reglugerðarinnar.


Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar til kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsynlegt að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi kemst ekki af án uppbótarinnar er í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 118/1993.


Gildandi reglugerð um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða er nr. 752/2002.

Fram kemur í 4. gr. reglugerðar nr. 752/2002 eins og henni var breytt með reglugerð nr. 462/2004 frá 26. maí 2004 að ekki er heimilt að veita uppbót vegna kaupa á bifreið oftar en á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Hér er um gildandi rétt að ræða á þeim tíma er umsókn kæranda barst Tryggingastofnun og var afgreidd. Fram að gildistöku breytingarreglugerðarinnar var heimilt að veita uppbót á fjögurra ára fresti. Í 4. gr. reglugerðar nr. 462/2004 segir að breyting úr fjórum árum í fimm taki jafnframt til þeirra einstaklinga sem hafa fengið uppbætur greiddar af Tryggingastofnun í tíð eldri reglna fyrir gildistöku reglugerðar 462/2004.


11. gr. laga 118/1993 um félagslega aðstoð er samkvæmt orðanna hljóðan heimildarákvæði um greiðslu uppbótar vegna bifreiðakaupa að uppfylltu skilyrði um nauðsyn vegna hreyfihömlunar. Þá er stjórnvöldum heimilt samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laganna að setja nánari reglur um framkvæmd laganna. Það hafa stjórnvöld gert með reglugerð 752/2002 með síðari breytingum. Að mati úrskurðarnefndarinnar er það á málefnalegum sjónarmiðum reist, að takmarka greiðslu uppbótar við ákveðna tímafresti, enda er takmörkuðu fé á ári hverju varið til þessa málaflokks af almannafé. Telur nefndin að núgildandi regla um að uppbót sé heimilt að veita á fimm ára fresti til sama einstaklings, sé ekki óeðlileg, þar sem bifreiðar endast almennt svo lengi. Þegar tekin er afstaða til umsókna um bætur félagslegrar aðstoðar og almannatrygginga ber að fara að gildandi reglum hverju sinni.


Það er því ótvírætt samkvæmt gildandi rétti að fimm ára ákvæðið á við í tilviki kæranda. Sá tími var ekki liðinn í máli þessu og á hann af þeirri ástæðu ekki rétt á uppbót til bifreiðakaupa nú.


Afgreiðsla Tryggingastofnunar er því staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð:


Synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. janúar 2006 á umsókn A um uppbót til kaupa á bifreið er staðfest.



F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga



_____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson

formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum