Hoppa yfir valmynd
9. mars 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 9 - Skertar bætur

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú r s k u r ð u r.


Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.


Með kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga dags. 6. janúar 2006 kærir A skerðingu Tryggingstofnunar ríkisins á bótagreiðslum til hennar frá og með 1. janúar 2006.


Óskað er endurskoðunar.


Málavextir eru þeir að kæranda sem er örorkulífeyrisþegi barst bréf Tryggingastofnunar ríkisins dags. 8. nóvember 2005. Þar sagði m.a.:


Samkvæmt lögum um almannatryggingar gilda ólíkar reglur um greiðslu bóta eftir því hvort viðtakandi þeirra er einhleypur eða í hjúskap/sambúð. Almennt er litið til skráningar á hjúskaparstöðu í þjóðskrá Hagstofu Íslands þegar bótaréttur er ákveðinn. Í þjóðskrá hefur þú skráninguna 7 - hjón ekki samvistum. Svo virðist sem þessi skráning hafi valdið því að bætur þínar hafi verið reiknaðar líkt og um einhleyping væri að ræða, þrátt fyrir að þú teljist í hjúskap lögum samkvæmt.

Tryggingastofnun hyggst breyta útreikningi greiðslna til þín þannig að hann verði réttur. Breytingin mun eiga sér stað þann 1. janúar nk. Frá og með þeim tíma miðast greiðslur til þín við að þú sért í hjúskap, nema skráningu hjúskaparstöðu þinnar verði breytt hjá þjóðskrá. Ekki verða gerðar afturvirkar breytingar á greiðslum.


Þessi breyting getur haft þau áhrif að greiðslur til þín lækki. Bætur verða reiknaðar út miðað við þínar eigin tekjur og eftir atvikum sameiginlegar fjármagnstekjur þínar og maka þíns. Bætur sem einungis er heimilt að greiða einhleypum verða stöðvaðar. Í lok desember nk. verður þér send áætlun um mánaðarlegar greiðslur næsta árs.”


Rökstuðningur kæranda kemur fram í tölvupósti kæranda til starfsmanns Trygginga­stofnunar dags. 6. janúar 2006. Þar segir m.a.:


Málið er þannig vaxið að nú um áramót fékk ég einungis greiddar kr. 16.817.- frá Tryggingastofnun í stað þess að greiðslu sem miðast við 75% örorku eins og verið hefur. Þjónustufulltrúi sem ég hef talað við tvívegis kann enga skýringu á þessu nema ef vera skyldi að hjónaskilnaður sé enn ekki genginn í gegn. Skilnaðarmálið hefur nú tekið hátt á þriðja ár þar sem maðurinn sinnir engu, hvorki kvaðningum né áskorunum. Í sumar sneri ég mér til sýslumanns og óskaði eftir því að gengið yrði frá skilnaði þar sem meir en tvö ár voru þá liðin síðan ég fór af heimilinu. Ég hafði samband við sýslumann nú og fékk þau svör að skilnaðurinn væri ekki genginn í gegn vegna þess að maðurinn hefði hringt í nóvembermánuði (!) og sagt að málið væri í höndum lögfræðinga. Í ljósi þess fór hann fram á “nokkurra vikna” frest og fékk hann.

Ég þarf ekki að orðlengja hvað þetta er bagalegt fyrir mig. Það er sífellt verið að draga af mér þær litlu greiðslur sem ég hef upp á að hlaupa vegna skulda mannsins. Td. fæ ég ekki greiddar húsnæðisbætur þar sem þær eru teknar upp í skattaskuldir hans.

Þjónustufulltrúinn hjá TR sagði að skattakort mitt væri ekki hjá stofnuninni. Það kom á óvart en ég hafði samband við Lífeyrissjóð B og fékk þau svör að 56% skattkortsins væru hjá sjóðnum. Þá komst þjónustufulltrúi TR að raun um að 44% skattkortsins væru í fórum stofnunarinnar.

Ef eitthvað er sem ég get gert frekar til að greiða úr þessu þætti mér vænt um að þú létir mig vita um það, en satt að segja geri ég mér vonir um að hægt sé að leiðrétta þetta sem allra fyrst því að ég er í stökustu vandræðum.”


Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 9. janúar 2006 eftir greinargerð Trygginga­stofnunar. Greinargerðin er dags. 16. janúar 2006. Þar segir m.a.:


Í þjóðskrá er hjúskaparstaða kæranda skráð “hjón ekki samvistum.” Samkvæmt þeirri skráningu er kærandi því í hjúskap lögum samkvæmt. Kæranda var því sent hjálagt bréf Tryggingastofnunar, dags. 8. nóvember 2005, þar sem henni var tilkynnt um að greiðslur til hennar yrðu leiðréttar með hliðsjón af skráðri hjúskaparstöðu hennar í þjóðskrá. Greiðslurnar myndu því frá og með janúar 2006 miðast við að kærandi væri í hjúskap, í stað þess að vera reiknaðar út eins og um einhleyping væri að ræða. Sú ákvörðun leiddi til skerðingar á bótum til kæranda.

Samkvæmt lögum um almannatryggingar nr. 117/1993, með síðari breytingum, gilda ólíkar reglur um greiðslu bóta eftir því hvort bótaþegi er einhleypur eða í hjúskap/sambúð. Fjárhæð tekjutryggingar og tekjutryggingar­auka er þannig tekjutengd, eins og fram kemur í 17. gr. laganna.

Þá er það skilyrði samkvæmt 9. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 118/1993, með síðari breytingum, að bótaþegi sé einhleypingur svo til greiðslu heimilisuppbótar geti komið.

Tryggingastofnun telur því að bætur til kæranda, sbr. hjálagða greiðsluáætlun, séu í fullu samræmi við hjúskaparstöðu kæranda, eins og hún er nú skráð í þjóðskrá, og fyrrgreind lagaákvæði. Tryggingastofnun telur ekki heimilt að greiða kæranda bætur eins og hún væri einhleyp og líta þannig fram hjá skráningu hjúskaparstöðu hennar í þjóðskrá, og þeim lagaákvæðum sem skerðing bóta til kæranda fellur undir.”


Greinargerðin var send kæranda með bréfi dgs. 17. janúar 2006 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.


Málið var tekið fyrir á fundi úrskurðarnefndar þann 8. febrúar sl. Ákveðið var að skrifa kæranda og gefa henni kost á að leggja fram gögn til stuðnings þeirri staðhæfingu að skilnaðarmál hafi dregist um árabil vegna mannsins. Þá var ákveðið að skrifa Tryggingastofnun og óska upplýsinga um hvort bótaþegar með skráningu 7 skv. þjóðskrá hafi fram til janúar 2006 fengið bætur sem einhleypir og þá hvers vegna. Ennfremur hvernig standi á breyttri framkvæmd og hvaða lagaheimildir liggi til grundvallar. Frá kæranda barst þann 13. febrúar 2006 úrskurður um opinber skipti til fjárslita. Svar Tryggingastofnunar er dags. 13. febrúar 2006. Kæranda og Tryggingastofnun voru kynnt viðbótargögn.



Niðurstaða úrskurðarnefndar:


Mál þetta varðar skerðingu Tryggingastofnunar ríkisins á bótagreiðslum til kæranda frá og með 1. janúar 2006 vegna hjúskaparstöðu hennar. Kærandi sem hafði hjúskaparstöðu 7 í þjóðskrá, þ.e. hjón ekki samvistum, hafði fengið bótagreiðslur frá Tryggingastofnun sem einhleyp. Með bréfi stofnunarinnar til kæranda dags. 8. nóvember 2005 var tilkynnt að frá og með 1. janúar 2006 yrði útreikningur bóta miðaður við hjúskaparstöðu samkvæmt þjóðskrá.


Í rökstuðningi vísar kærandi til þess að hjónaskilnaður sé ekki genginn í gegn. Skilnaðarmálið hafi tekið hátt á þriðja ár þar sem maðurinn sinni hvorki kvaðningum né áskorunum. Kærandi segist síðastliðið sumar hafa farið fram á það við sýslumann að gengið yrði frá skilnaðinum þar sem meir en tvö ár voru þá frá því hún fór af hemilinu.


Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að samkvæmt lögum nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, gildi ólíkar reglur um greiðslu bóta eftir því hvort bótaþegi er einhleypur eða í hjúskap/sambúð. Fjárhæð tekjutryggingar og tekjutryggingarauka sé tekjutengd á þann hátt sem segir í 17. gr. laganna. Þá sé það skilyrði skv. 9. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð að bótaþegi sé einhleypur svo til greiðslu heimilisuppbótar geti komið. Tryggingastofnun telur bætur til kæranda vera í samræmi við hjúskaparstöðu hennar í þjóðskrá og ekki sé heimilt að greiða bætur til hennar sem einhleyp væri.


Í máli þessu hefur kærandi lagt fram úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. ágúst 2005 í máli nr. D-54/2003 þar sem tekin var fyrir beiðni um opinber skipti til fjárslita milli A og C. Í úrskurðinum kemur fram að aðilar hafi gengið í hjúskap 11. ágúst 2000 en hafi slitið samvistir í ágúst 2003. Konan hafi farið fram á skilnað að borði og sæng hjá sýslumanninum í Reykjavík 11. júlí 2003 og hafi maðurinn samþykkt skilnaðarkröfuna þegar hann mætti hjá Sýslumanninum í Reykjavík 31. júlí það ár. Hann hafi á hinn bóginn ekki viljað ræða fjárskipti aðila og ekki mætt til sýslumanns í því skyni þrátt fyrir boðun. Fallist var á kröfu konunnar um opinber skipti.


Þá hefur kærandi lagt fram leyfisbréf til skilnaðar að borði og sæng, dags. 28. febrúar 2006, milli hjónanna A og C.


Við ákvörðun hinna ýmsu bótaflokka samkvæmt lögum nr. 117/1993 um almannatryggingar og lögum nr. 118/1993 um félagslega aðstoð skiptir máli hvort bótaþegi er einhleypur eða í hjúskap/sambúð. Meginreglan er sú við ákvörðun framangreindra bótaskilyrða að fylgt er opinberri skráningu þjóðskrár. Samkvæmt opinberri skráningu hafði kærandi hjúskaparstöðuna 7, þ.e. hjón ekki samvistum, í þjóðskrá fram til 28. febrúar 2006 en frá þeim tíma 5 en sú tala stendur fyrir skilnað að borði og sæng. Þar sem skilnaður að borði og sæng nægir til þess hjá Tryggingastofnun að bótaþegi fái bætur sem einhleypur varðar mál þetta einungis mánuðina janúar og febrúar 2006 þegar bætur til kæranda voru reiknaðar miðað við hjúskaparstöðu þjóðskrár.


Kærandi fór fram á skilnað hjá Sýslumanninum í Reykjavík 11. júlí 2003. Þann 26. ágúst 2003 flutti hún af heimili þeirra að D að E þar sem hún hefur búið síðan, samkvæmt þjóðskrá. Maðurinn samþykkti skilnaðarkröfuna 31. júlí 2003. Hann hefur ekki viljað ræða fjárskipti aðila og ekki mætt til sýslumanns í því skyni. Þann 28. febrúar sl. gaf Sýslumaðurinn í Reykjavík út leyfisbréf til skilnaðar að borði og sæng milli hjónanna.


Tryggingastofnun ákvarðaði bætur til kæranda sem einhleyp væri út desember 2005, þar sem ljóst var að hjón voru ekki samvistum. Breytingar við ákvörðun bóta til kæranda tengdust því að nýtt tölvukerfi var tekið í notkun hjá stofnuninni. Sú ákvörðun var tekin að allir með hjúskaparmerkinguna 7 skyldu afgreiddir með sama hætti og vera eins settir. Um er að ræða íþyngjandi ákvörðun fyrir kæranda. Ákvörðun sem að mati úrskurðarnefndar er ekki reist á málefnalegum forsendum. Eins og máli þessu er háttað, að skilnaður dregst um langan tíma af ástæðum sem ekki verða raktar til kæranda, að um raunveruleg samvistarslit voru að ræða milli hjónanna og að Tryggingastofnun tók þá málsástæðu gilda uns verklagi var breytt vegna nýs tölvukerfis, er það mat úrskurðarnefndarinnar að bætur til kæranda skuli reiknast sem einhleyp væri mánuðina janúar og febrúar 2006.



Ú R S K U R Ð A R O R Ð:


Bætur til A skulu reiknast sem einhleyp væri mánuðina janúar og febrúar 2006.



F. h. úrskurðarnefndar almannatrygginga



_________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum