Hoppa yfir valmynd
12. október 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 257 - Slysatrygging

A


gegn


Tryggingastofnun ríkisins


Ú r s k u r ð u r.


Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.


Með bréfi dags. 16. ágúst 2005 kærir X, hdl. f.h. A til úrskurðarnefndar almanna­trygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins um bótaskyldu vegna slyss.


Óskað er endurskoðunar og að réttur kæranda til slysabóta úr slysatryggingu almannatrygginga verði viðurkenndur.


Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi varð fyrir slysi á Ybraut er hann var á leið til P til vinnu 12. apríl 2004. Kærandi ók bifreið sinni á ljósastaur og kvartaði um sama kvöld um eymsli í hálsi. Slysið var tilkynnt til Tryggingastofnunar ríkisins sem synjaði bótaskyldu með bréfi dags. 12. júlí 2005.


Í rökstuðningi fyrir kæru segir m.a.:


„Að kvöldi 12. apríl 2004 var kærandi á leið til vinnu sinnar sem háseti um borð í H. Skipið var þá statt við bryggju í P en það sigldi út til veiða þá um kvöldið. Kærandi ók bifreið sinni suður Ybraut á leið til P umrætt kvöld og þegar klukkan var u.þ.b. 20.20, missti hann stjórn á bifreið sinni og hafnaði á ljósastaur. Missti kærandi vegna þessa af veiðiferðinni og hefur frá slysdegi verið mikið frá vinnu vegna afleiðinga slyss hans. Um afleiðingar slyssins, nánari málavaxtalýsingu o.fl. vísast til meðfylgjandi málsgagna, einkum læknisvottorða, lögregluskýrslu og vottorðs C, skipstjóra á H.


Þann 1. júlí sl. sótti kærandi um slysabætur hjá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. III. kafli laga nr. 117/1993. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins dags. 12. júlí sl. var erindi kæranda hafnað, með þeim rökum að ekki væri að sjá að um hafi verið að ræða beina leið milli heimilis og skips, sbr. b. liður 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993, þar sem skipið var við bryggju í P.


Kærandi mótmælir ofangreindri túlkun Tryggingastofnunar og krefst þess að ákvörðuninni verði hnekkt. Bendir kærandi á eftirfarandi, máli sínu til stuðnings:


-Á þeim tíma er kærandi slasaðist var hann í sambúð með B, en hún bjó þá í íbúð í R. B er nú búsett að S. B getur staðfest framangreint, telji úrskurðar­nefndin þörf á slíkri staðfestingu. Kærandi var umrætt kvöld á leið frá B, frá þáverandi búsetustað og heimili sínu í R, á leið til vinnu sinnar í P. Kærandi hafði á þeim tíma er hér er til umfjöllunar ekki sjálfur yfir að ráða eigin íbúð í P eða annars staðar. Er því ekki hægt að líta öðruvísi á en svo að kærandi hafi verið búsettur í R. Breytir engu hér þó svo að kærandi hafi átt skráð lögheimili í P, enda er það ekki skilyrði samkvæmt 22. gr. laga nr. 117/1993 að hinn slasaði hafi verið á leið frá lögheimili til vinnu, enda er í lögunum einvörðungu fjallað um heimili eða matstað.


-Bent er á að kærandi var sannanlega á leið til vinnu sinnar, sbr. meðfylgjandi tilkynning C, skipstjóra, til Tryggingastofnunar ríkisins. -Fráleitt er að hafna kæranda um slysabætur, með þeim rökum er Tryggingastofnun gerir, þ.e. að kærandi hafi ekki verið á beinni leið milli heimilis og skips. Með sömu rökum mætti hafna umsækjanda um slysabætur, sem komið hafi við í sjoppu á leið til skips, en slasast á leið til skips frá sjoppunni, um bæturnar, með þeim rökum að hann hafi ekki verið á “beinni leið milli heimilis og skips”. Það blasir við að rök sem þessi ganga ekki upp.


Með vísan til framanrakins, og meðfylgjandi gagna, telur kærandi einsýnt að hann hafi verið á leið “frá heimili til skips” umrætt kvöld og verði því að fallast á kröfur hans og viðurkenna rétt hans til greiðslu slysabóta úr slysatryggingu almannatrygginga, sbr. III. kafli laga nr. 117/1993.“


Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi dags. 19. ágúst 2005. Barst greinargerð dags. 22. ágúst 2005. Þar segir:


„Þann 1. júlí 1005 barst Tryggingastofnun ríkisins tilkynning um slys er kærandi varð fyrir 12. apríl 2004. Kærandi mun hafa lent í umferðarslysi á leið til P frá R. Þegar slysið varð átti kærandi lögheimili í P. Umsókninni var hafnað með bréfi slysatryggingadeildar dags. 12. júlí 2005 þar sem kærandi var ekki á beinni leið frá heimili til vinnu og málið var auk þess fyrnt.


Í 23. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 kemur fram að verði slys sem ætla megi bótaskylt samkvæmt lögunum skuli tilkynna um slysið tafarlaust og í síðasta lagi innan árs frá því slysið bar að höndum. Atvinnurekanda ber að tilkynna um slysið en hinum slasaða ber að fylgjast með því að tilkynningaskyldunni sé fullnægt. Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. er þó heimilt að greiða bætur samkvæmt nánari reglum sem tryggingaráð setur þótt liðið sé ár frá því að slys bar að höndum ef atvik eru svo ljós að drátturinn torveldar ekki gagnaöflun um atriði er máli skipta. Skilyrði er að fyrir liggi læknisfræðilegt mat á orsakasambandi, þ.e. að unnt sé að meta orsakasamband slyssins og heilsutjóns hins slasaða. Kærandi lenti í umræddu slysi í apríl 2004 en það er ekki tilkynnt til Tryggingastofnunar fyrr en í júlí 2005 og er því 1 árs fresturinn liðinn.


Launþegar eru slysatryggðir við vinnu sína samkvæmt III. kafla laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laganna telst maður vera við vinnu:

a. þegar hann er á vinnustað á þeim tíma sem honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar og kaffitímum.

b. í sendiferð í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar eru samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Sama gildir um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.

Ennfremur er talið að tildrög slyss verði að hafa verið viðkomandi því starfi sem launþegi sinnir og tryggingagjöld eru greidd vegna.


Slysatrygging skv. 22. gr. nær þannig til nauðsynlegra ferða launþega á milli vinnustaðar og heimilis. Ákvæðið hefur ávallt verið túlkað þannig að með nauðsynlegum ferðum til vinnu sé átt við beina leið milli heimilis og vinnustaðar. Með heimili er átt við lögheimili og/eða skráðan dvalarstað. Litið er svo á að ferð til og frá vinnu sé nauðsynlegur þáttur í rækslu starfans. Það verða að því að vera tengsl ferða við vinnuna og framkvæmd hennar. Frávik frá beinni leið hafa talist falla undir einkaerindi viðkomandi og falla því ekki undir vinnuslysatryggingu almannatryggingalaga.


Vinnustaður kæranda var í P og skráð heimili einnig. Slys varð hins vegar á Ybraut er kærandi var á leið frá R til P. Hér var því greinilega um veruleg frávik frá beinni leið að ræða og er því ekki fallist á að um sé að ræða beina leið frá vinnu og til heimilis í skilningi almannatryggingalaganna.


Í kæru er vísað til þess að kærandi hafi búið í R er slys varð og því hafi hann verið á beinni leið til vinnu. Hvergi kemur fram í gögnum málsins að kærandi hafi búið í R heldur þvert á móti, öll gögn í málinu, svo sem slysatilkynningin, dagbókarúrdráttur útgerðar, tvö læknisvottorð, launaseðlar og síðast en ekki síst lögregluskýrsla vísa til heimilis að P.


Ekki er því talið að sýnt hafi verið fram á að umrætt slys falli undir vinnuslys í skilningi almannatryggingalaga heldur ber að telja akstur kæranda frá R til P til einkaerinda er falla utan slysatrygginga almannatrygginga. Ég leyfi mér að benda á úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 178/2001 frá 3. október 2001 og nr. 89/2002 frá 26. júní 2002.


Í ljósi framangreinds var umsókninni um greiðslu bóta úr slysatryggingum almannatrygginga synjað.“


Greinargerðin var send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi dags. 24. ágúst 2005 og var gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir lögmanns kæranda bárust 2. september sl. Á fundi úrskurðarnefndar þann 14. september sl. var ákveðið að gefa kæranda kost á að leggja fram gögn til staðfestingar því að hann hafi átt heimili í R 12. apríl 2004 og að hann hafi verið á leið frá heimili til vinnustaðar þegar slysið varð. Viðbótargögn frá kæranda bárust með bréfi lögmanns dags. 29. september 2005. Gögnin hafa verið kynnt Trygginga­stofnun.


Niðurstaða úrskurðarnefndar:


Kærandi sem var á leið frá R til vinnu sinnar í P varð fyrir slysi á Ybraut þann 12. apríl 2004. Hann kvartaði í framhaldinu um eymsli í hálsi. Slysið var tilkynnt Tryggingastofnun sem synjaði bótaskyldu.


Í rökstuðningi fyrir kæru segir að kærandi hafi þegar slysið varð verið á leið frá þáverandi búsetustað sínum í R til vinnu í P. Það séu ekki skilyrði samkvæmt 22. gr. laga nr. 117/1993 að kærandi hafi verið á leið frá lögheimili til vinnu.


Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að hvergi komi fram í gögnum málsins að kærandi hafi búið í R heldur hafi hann verið með skráð heimili í P þar sem vinnustaður hans var. Með heimili sé átt við lögheimili og/eða skráðan dvalarstað. Slysið hafi hinsvegar orðið á Ybraut þegar kærandi var á leið frá R til P. Því sé ekki fallist á að um hafi verið að ræða beina leið frá heimili til vinnu í skilningi almannatryggingalaga.


Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar taka slysa­tryggingar laganna til slysa við vinnu.


Í 2. mgr. 22. gr. segir:


„ Maður telst vera við vinnu:

a. þegar hann er á vinnustað á þeim tíma sem honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar- og kaffitímum.

b. í sendiferðum í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar eru samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Sama gildir um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.”


Í 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 kemur fram að launþegi er tryggður í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, og er þá litið svo á að ferð til og frá vinnustað sé nauðsynlegur þáttur í rækslu starfans. Úrskurðarnefndin telur að ætlan löggjafans hafi verið sú að tryggingavernd næði til þeirrar slysahættu sem fylgir þeim ferðum sem starfsmaður verður að takast á hendur til að sinna vinnunni. Hefur í framkvæmd verið litið svo á að launþegi sé tryggður á beinni og eðlilegri leið milli heimilis og vinnustaðar.


Úrskurðarnefndin telur að megintilgangur slysatryggingar sé að tryggja starfsmenn fyrir þeim hættum sem bundnar eru við framkvæmd vinnu og að við beitingu lagaákvæðis verði að áskilja a.m.k. nokkur tengsl ferða við vinnu og framkvæmd hennar. Þetta megininntak slysatryggingar mæli almennt gegn því að beitt sé lögskýringarkostum sem leiða til rýmkunar gildissviðs tryggingarinnar fram yfir atvik er eiga sér stað í vinnutíma eða standa að öðru leyti í nánum tengslum við framkvæmd vinnu.


Úrskurðarnefndin lítur svo á að með heimili í b. lið 2. mgr. 22. gr. atl. sé átt við lögheimili eins það er skilgreint skv. lögum um lögheimili nr. 21/1990. Lögheimili kæranda samkvæmt þjóðskrá var á slysdegi að P. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að þar hafi hann að jafnaði haft bækistöð sína og heimilismuni og dvalið í tómstundum.


Í kæru er því haldið fram að heimili kæranda hafi á slysdegi verið að R. Þáverandi kærasta kæranda hafði á þeim tíma húsnæði á leigu í R. Í yfirlýsingu C skipstjóra og föður kæranda segir að kærandi hafi verið í sambúðarhugleiðingum og ýmist búið hjá kærustunni í R eða í foreldrahúsum í P. Daginn sem slysið varð vissi C að kærandi hafði verið hjá kærustunni. Í yfirlýsingu B dags. 22. september 2005 segir að á þeim tíma sem slysið varð hafi kærandi búið að mestu hjá B þar sem hún leigði í R. Einnig hafi þau oft verið í foreldrahúsum kæranda.


Úrskurðarnefndin dregur ekki í efa að það sem fram kemur í yfirlýsingunum sé rétt, að kærandi hafi dvalið hjá kærustu í leiguhúsnæði hennar í R og verið á leið þaðan til vinnu þegar slysið varð. Ekki var um skráða sambúð að ræða og kærandi hafði ekki flutt heimilisfang sitt til hennar. Aftur á móti var kærandi samkvæmt lögreglu­skýrslum sem hann sjálfur undirritaði á slysdegi sagður til heimilis að P. Að mati nefndarinnar hafa ekki verið færð fram rök sem styðja það að heimili kæranda hafi verið í R enda þó hann hafi stundum haft þar dvalarstað. Fyrirliggjandi gögn benda ekki til annars en að heimili kæranda hafi verið á sama stað og skráð lögheimili hans að P.


Tryggingavernd nær yfir ferðir kæranda milli heimilis og vinnustaðar innan P, en ekki yfir ferð frá leiguhúsnæði þáverandi kærustu í R til vinnustaðar í P. Bótaskyldu er synjað þar sem skilyrði 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 eru ekki uppfyllt.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð:


Bótaskyldu vegna slyss sem A varð fyrir 12. apríl 2004 er hafnað.



F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga



_______________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum