Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 247 - Ofgreiddar bætur

A


gegn


Tryggingastofnun ríkisins



Ú r s k u r ð u r.


Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.


Með bréfi til úrskurðarnefndar almannatrygginga dags. 4. ágúst 2005 kærir B f.h. A, endurkröfu Trygginga­stofnunar ríkisins vegna ofgreiddra bóta ársins 2003.


Óskað er endurskoðunar og endurkrafa ofgreiddra bóta verði felld niður.


Málavextir eru þeir að kærandi fékk bréf frá Tryggingastofnun ríkisins dags. 29. nóvember 2004 þar sem henni var sent yfirlit yfir endurreikning á réttindum til tekjutengdra bóta á árinu 2003. Endurreikningnum var mótmælt af hálfu B f.h. kæranda en með bréfi dags. 4. maí 2005 var kæranda tilkynnt að niðurstaða endurreiknings stæði óbreytt og næmi ofgreiðsla kr. 103.100 en að frádreginni staðgreiðslu skatta væri krafa Tryggingastofnunar kr. 63.325.


Í rökstuðningi fyrir kæru segir:


„Tryggingastofnun segir launatekjur allt árið hafa verið sagðar 339.539. Slíkt stenst ekki þær tekjuáætlanir sem A gerði hjá stofnuninni. Á tekjuáætlun sem gerð er í febrúar 2003 gefur A upp að fyrir 1. febrúar hafi hún haft 262.000 kr., en að eftir það hafi hún engar tekjur. Þessu breytir hún á tekjuáætlun dagsettri 27. maí 2003 og gefur upp að eftir 1. febrúar hafi hún haft 364.316 kr. Jafnframt hafi hún fengið eingreiðslu vegna yfirvinnu 1. mars 2003 að upphæð 28.294 kr. Sé þetta lagt saman gera það 654.610 kr. á árinu. Af þeim sökum verður ekki séð hvernig sú upphæð sem Tryggingastofnun miðar við er fundin. Í raun er upphæðin 364.316 sett fram sem tekjur á mánuði og því hefði átt að margfalda hana með 11 mánuðum ef út í það er farið, en það sýnir að A hefur ekki fengið nægilega góðar leiðbeiningar frá starfsfólki stofnunarinnar við útfyllingu tekjuáætlananna. Einnig hefði það átt að leitast við að fá betri upplýsingar um tekjur A hafi áætlunin verið óljós, sbr. 4. mgr. 47. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993. Að sama skapi hefur Tryggingastofnun allar heimildir til að leita upplýsinga um tekjur hjá nánar tilgreindum aðilum, en um slíkar heimildir er nánar fjallað í samantekt þeirri sem B sendi úrskurðarnefnd almanna­trygginga og er dagsett 30. maí 2005.


Þá segir Tryggingastofnun að fyrstu átta mánuði ársins hafi verið gert ráð fyrir 700.000 kr. lífeyrissjóðstekjum á árinu. Það stenst samkvæmt tekjuáætluninni sem A gerði í febrúar 2003 þar sem hún gefur upp 70.000 kr. á mánuði frá 1. mars 2003. Á tekjuáætluninni sem hún gerir svo í maí breytir hún hins vegar tekjunum í 75.000 kr. á mánuði frá l. janúar 2003. Það gerir 900.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur á árinu. Því stenst ekki að segja að miðað hafi verið við 700.000 kr. fyrstu átta mánuðina, nýjar tekjur eru gefnar upp í maí. Þá er einnig rangt að miða við að síðustu fjóra mánuði ársins hafi verið sagt að tekjurnar væru 750.000 þar sem þær eru gefnar upp í maí sem 75.000 kr. frá 1. janúar 2003, en ekki 1. mars eins og áður var í áætlun­inni frá því í febrúar.


A gaf einnig upp sjúkradagpeninga á síðari tekjuyfirlýsingunni sem hún hafði fengið greidda fyrir þann tíma. Í kjölfar þeirrar tekjuyfirlýsingar endurreiknaði Tryggingastofnun líf­eyrisgreiðslur A fyrir tímabilið frá 1. janúar 2003 til 30. júní 2003, eins og fram kemur í bréfi dagsettu 2. júní 2003 til hennar, og var það gert upp. Því ætti það tímabil ekki að koma til frekari skerðingar.


Samkvæmt ofangreindu var A í góðri trú um greiðslurétt sinn og að hafa uppfyllt skyld­ur sínar gagnvart Tryggingastofnun. Stofnunin átti að hafa aðgang að öllum gögnum um fjár­mál hennar, sem og heimildina til að styðjast við þau, og A gaf upp tekjur sínar eftir bestu getu og kunnáttu. Þá virðist ljóst að um mistök hjá stofnuninni hefur verið að ræða.


Að öðru leyti vísast um rök, eftir því sem við á, í hina, almennu samantekt sem send var úrskurðarnefnd almannatrygginga og getið er hér að ofan.”


Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 8. ágúst 2005 eftir greinargerð Trygginga­stofnunar. Greinargerðin er dags. 9. september 2005. Þar segir:


Ástæða kröfunnar á hendur A er sú að við endurreikning bóta ársins 2003 komu til skerðingar hærri tekjur en gert var ráð fyrir við samtímaútreikning og greiðslu bóta á árinu.

Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. atl. er umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi er bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar sem verða á tekjum hans á yfirstandandi tekjuári.

Á umsóknareyðublaði um bætur, svo og á eyðublöðum fyrir tekjuyfirlýsingar, er texti sem umsækjendur og lífeyrisþegar undirrita, þar sem þeir ábyrgjast að láta Tryggingastofnun vita ef breytingar verða á tekjum þeirra. A skilaði slíku umsóknareyðublaði þann 11. nóvember 2002. Þegar umsókn hennar var afgreidd 6. febrúar 2003 var henni tilkynnt bréflega um mánaðarlegar greiðslur ásamt því að henni var sent eyðublað til útfyllingar vegna tekjubreytinga. Í bréfinu var henni sérstaklega bent á að láta vita, hefðu tekjur hennar breyst.


Tekjuyfirlýsing frá henni sem móttekin var 25. febrúar 2003 var á þá leið að launatekjur væru fallnar niður frá 1. febrúar 2003 með athugasemd um að greiðslu sumarorlofs að fjárhæð 262.000 kr. frá áramótum og að lífeyrissjóðstekjur frá C væru 70.000 kr. á mánuði frá 1. mars 2003. Í tekjuyfirlýsingu dags. 27. maí 2003 komu fram þær launatekjur að greitt hefði verið sumarfrí/orlof 1. febrúar 2003 að fjárhæð 364.326 kr. og greidd hefði verið eingreiðsla v/yfirvinnu 1. mars 2003 að fjárhæð 28.294 kr., að lífeyrissjóðstekjur næmu 75.000 kr. á mánuði frá 1. janúar 2003 og að greiðslur úr sjúkrasjóð væru fallnar frá 1. maí 2003 en hefðu verið 434.787 kr.

Í kjölfar seinni tekjuyfirlýsingarinnar var A með bréfi lífeyristrygginga­sviðs dags. 2. júní 2003 tilkynnt um ofgreiðslu fyrir tímabilið 1. janúar - 30. júní 2003 og jafnframt breytingu á mánaðargreiðslum frá l. júlí 2003.


Sú fullyrðing sem kemur fram í bréfi lífeyristryggingasviðs 4. maí 2005 um að fyrstu átta mánuði ársins hafi lífeyrissjóðstekjur verið sagðar 700.000 kr. á ári en seinustu fjóra mánuðina 750.000 kr. var þannig röng og er beðist velvirðingar á þeim mistökum sem þar hafa orðið. Það sem í rauninni var um að ræða var það að A lét vita af greiðslum úr Lífeyrissjóði J en ekki greiðslum frá þremur öðrum lífeyrissjóðum. Greiðslur til hennar úr lífeyrirssjóðum voru þannig 1.159 765 kr. á árinu 2003 eða 409.865 kr. hærri en gert var ráð fyrir við samtímaútreikning á greiðslum til hennar. Að auki reyndust launagreiðslur til hennar hafa verið 543. 589 kr. á árinu 2003 eða 150.969 kr. hærri en hún hafði tilkynnt um.


Til að auðvelda lífeyrisþegum að fylgjast með bótaútreikningi og meta hvort tilkynna þurfi breytingar hóf Tryggingastofnun í apríl 2003 að prenta gildandi tekjuáætlanir á bakhlið útsendra mánaðarlegra greiðslutilkynninga. A hefði því auðveldlega átt að geta greint það að Tryggingastofnun hafði ekki réttar tekjuupplýsingar við útreikning greiðslna hennar.“


Greinargerðin var send B með bréfi dags. 12. september 2005 og gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. B óskaði f.h. kæranda eftir fresti til 25. október 2005. Bárust athugasemdir þann 25. október 2005 og hafa þær verið kynntar Tryggingastofnun.


Úrskurðarnefndin beindi almennri fyrirspurn til Tryggingastofnunar um hvenær stofnunin hóf að prenta gildandi tekjuáætlanir á bakhliðar greiðsluseðla, þ.e. hvort verið gæti að það hefði ekki verið fyrr en í apríl 2004. Í svari stofnunarinnar kom fram að það hefði verið í apríl 2004, en ekki apríl 2003, og var beðist velvirðingar á röngu ártali í greinargerðum þar sem framangreindu var haldið fram af hálfu stofnunarinnar.



Niðurstaða úrskurðarnefndar:


Mál þetta varðar endurkröfu Tryggingastofnunar ríkisins á hendur kæranda vegna ofgreiddra bóta á árinu 2003.


Í kæru kemur fram að kærandi hafi skilað tekjuyfirlýsingum tvívegis á árinu 2003. Bent er á að hafi starfsfólki Tryggingastofnunar þótt tekjuyfirlýsingar óljósar hafi því borið að leita eftir betri upplýsingum í samræmi við 4. mgr. 47. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Einnig segir í kæru að óeðlilegt hafi verið að miða við að lífeyrissjóðstekjur kæranda yrðu kr. 750.000 á árinu 2003 þar sem kærandi hafi gefið þær upplýsingar í tekjuyfirlýsingu, dags. 27. maí 2003, að frá 1. janúar 2003 væru lífeyrissjóðstekjur á mánuði kr. 75.000 sem samtals næmi kr. 900.000 á árinu.


Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að ástæða kröfu á hendur kæranda sé að við endurreikning bóta ársins 2003 hafi komið til skerðingar hærri tekjur en gert hafi verið ráð fyrir við samtímaútreikning og greiðslu bóta á árinu. Vísað er til 2. mgr. 47. gr. laga nr. 177/1993 um almannatryggingar sem mæli fyrir um upplýsingaskyldu bótaþega. Kemur einnig fram að greiðslur til kæranda frá lífeyrissjóðum hafi verið kr. 1.159.765 á árinu 2003 eða kr. 409.865 hærri en gert hafði verið ráð fyrir við samtímaútreikning og greiðslu bóta. Einnig hafi launagreiðslur til hennar verið kr. 543.589 á árinu 2003 eða kr. 150.969 hærri en hún hafi tilkynnt um.


Úrskurðarnefnd almannatrygginga horfir til þess almennt í málum sem varða endurkröfu vegna ofgreiddra bóta, að skýr og fortakslaus ákvæði eru í 4. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga um útreikning bóta lífeyristrygginga. Þannig liggur fyrir að um tekjutengdar bætur er að ræða sem eru áætlaðar á grundvelli nýjustu upplýsinga skv. 2. mgr. 47. gr. laganna og vega þar þyngst upplýsingar frá bótaþega sjálfum. Síðar þegar endanlegar upplýsingar liggja fyrir um tekjur bótagreiðsluársins við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum fer fram endurreikningur. Hafi greiðslur verið ofgreiddar skal bótaþegi endurgreiða það sem ofgreitt hefur verið, skv. 50. gr. almannatryggingalaga. Loks liggur almennt fyrir í málum sem varða lífeyri, að umsækjandi hefur undirritað sérstaka yfirlýsingu þar sem hann skuldbindur sig til að tilkynna Tryggingastofnun sérstaklega ef breytingar verða á högum hans t.d. að því er varðar tekjur.


Það er grundvallarregla að bótaþegi fái þær bætur sem honum ber en fái hann meira skal hann í samræmi við meginreglu kröfuréttarins endurgreiða það sem ofgreitt er. Verið getur að atvik í einstökum málum séu svo sérstök að endurkröfuréttur hafi ekki stofnast eða falli niður. Getur þetta átt við ef endurkrafan er óeðlileg og sérstaklega íþyngjandi fyrir bótaþegann miðað við aðstæður allar og huglæga afstöðu bótaþegans til móttöku greiðslunnar. Að endurkröfuréttur ofgreiddra bóta falli niður er undantekning frá skýrum og fortakslausum ákvæðum almannatryggingalaga og meginreglu kröfuréttarins sem skýra ber þröngt skv. almennum lögskýringarreglum.


Loks liggja að mati nefndarinnar málefnaleg sjónarmið að baki endurgreiðslu ofgreiddra bóta enda brýnt að allir séu jafnir fyrir lögunum og fái bætur í samræmi við lögbundinn rétt sinn.


Við mat á endurkröfu verður einnig að líta til þess að bætur almannatrygginga eru félagslegs eðlis og lúta að því að tryggja ákveðnar lágmarksbætur sem löggjafinn hefur ákveðið að greiddar skuli að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ennfremur að opinberri stofnun, Tryggingastofnun ríkisins, er falið að lögum að tryggja að bótaréttur nái fram að ganga í samræmi við lög. Eðli málsins samkvæmt ber að gera ríkar kröfur til stjórnvalds við gæslu þeirra hagsmuna sem lögin kveða á um.


Skoða verður hvert mál sérstaklega og meta rétt til endurkröfu í ljósi atvika hverju sinni. Það mál sem hér er til úrlausnar lýtur að endurreikningi bóta ársins 2003.


Kærandi tilkynnti um tekjur frá styrktarsjóði D (sjúkrasjóður), Lífeyrissjóði J og launatekjur frá E. Kæranda tilkynnti hins vegar ekki um greiðslur frá Greiðslustofu lífeyrissjóða vegna réttinda í Lífeyrissjóðnum F. Var um að ræða eingreiðslu í júlí fyrir tímabilið febrúar til júní 2003 og jafnar greiðslur eftir það. Einnig fékk kærandi greiðslur frá Lífeyrissjóði G á árinu 2003 sem hún tilkynnti ekki um. Kærandi fékk fyrstu greiðslu þaðan í mars 2003. Mánaðarlegar greiðslur úr eftirlaunasjóði H hófust til kæranda í apríl 2003 en þær voru ekki tilkynntar til Tryggingastofnunar. Ennfremur var svo um að ræða að kærandi fékk þann 31. júlí 2003 greiddan viðbótarlífeyris­sparnað sem hún tilkynnti ekki um.


Úrskurðarnefndin hefur aflað upplýsinga um greiðslur til kæranda frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og Lífeyrissjóði G. Ljóst er að Greiðslustofan tilkynnti á árinu 2003 um nýja greiðsluþega til Tryggingastofnunar. Lífeyrissjóður G tilkynnti einnig um greiðslur til nýrra lífeyrisþega til Tryggingastofnunar á árinu og liggur fyrir afrit þeirrar tilkynningar sem send var Tryggingastofnun í mars 2003.


Ljóst er af gögnum málsins að tekjuskráning þann 28. maí 2003, þegar færð var inn breyting samkvæmt tekjuyfirlýsingu kæranda dags. 27. maí 2003, var ekki rétt. Samkvæmt tekjuskráningu eru lífeyrissjóðsgreiðslur á mánuði eftir breytingu sagðar kr. 62.500 í stað kr. 75.000 eins og kærandi upplýsir um í tekjuyfirlýsingunni. Samtals lífeyrissjóðsgreiðslur eru samkvæmt tekjuskráningu kr. 750.000 á árinu 2003 en rétt fjárhæð hefði verið kr. 900.000 ef farið hefði verið eftir áðurnefndri tekjuyfirlýsingu. Er því ljóst að mistök áttu sér stað hjá Tryggingastofnun við innfærslu upplýsinga þegar tekjuyfirlýsing, dags. 27. maí 2003, lá fyrir. Að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga verður Tryggingastofnun að bera ábyrgð á þeim mistökum sem urðu við skráningu upplýsinga frá kæranda um tekjur.


Verður fyrst vikið að áhrifum þess á endurkröfu að kærandi fékk greiðslur úr eftirlaunasjóði H, greiðsla viðbótarlífeyrissparnaðar fór fram og launatekjur reyndust hærri en reiknað var með við samtímaútreikning og greiðslu bóta.


Kærandi samþykkti, með undirritun umsóknar um örorkubætur, að láta Tryggingastofnun vita ef breytingar yrðu m.a. á tekjum. Hún telur sig hafa uppfyllt skyldur sínar gagnvart Tryggingastofnun með því að veita stofnuninni leyfi til að afla upplýsinga um tekjur sínar. Samkvæmt 2. ml. 2. mgr. 47. gr. almannatryggingalaga er Tryggingastofnun heimilt, að fengnu samþykki bótaþega, að afla upplýsinga um tekjur. Ekki eru lagðar skyldur á stofnunina í þá veru enda er ljóst að endanleg ábyrgð á upplýsingagjöf um tekjur er hjá bótaþegum, sbr. 7. málsl. 2. mgr. 47. gr. sömu laga.


Kæranda bar að fylgjast með því að Tryggingastofnun hefði réttar upplýsingar um tekjur hennar, sbr. 2. mgr. 47. gr. almannatryggingalaga. Verður hún því að bera ábyrgð á þeim hluta endurkröfu ofgreiddra bóta sem stafar af þeim misbresti á upplýsingaskyldu. Endurkrafa Tryggingastofnunar vegna þess þáttar er viðurkennd með þeirri aðferð að draga ofgreiðslu frá tekjutengdum bótum sem hún öðlast síðar rétt til, sbr. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar.


Verður þá vikið að áhrifum þess á endurkröfu að ekki var reiknað með lífeyrissjóðsgreiðslum annars vegar frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og hins vegar frá Lífeyrissjóði G á árinu 2003.


Með bréfi úrskurðarnefndar almannatrygginga til Tryggingastofnunar dags. 23. september 2005 er leitað upplýsinga um það hvort yfirlit um greiðslur frá lífeyrissjóðum hafi legið fyrir í málum einstakra bótaþega og hvert hafi verið upphaf þess að umrædd yfirlit bárust stofnuninni. Ennfremur var kallað eftir mati Tryggingastofnunar á því hvort og þá hvaða réttaráhrif yfirlitin hefðu við ákvörðun endurkröfu vegna ofgreiddra bóta. Svarbréf Tryggingastofnunar dags. 6. október 2005 liggur fyrir. Þar kemur m.a. fram að upphaflega hafi starfsmaður stofnunarinnar kallað eftir yfirlitunum en þau hafi ekki verið notuð frá áramótum 2002/2003. Segir ennfremur að því verði ekki mótmælt gegn staðhæfingu viðkomandi bótaþega og lífeyrissjóðs að yfirlitin hafi verið send þó svo þau liggi ekki fyrir í einstökum málum er varða endurkröfu vegna ofgreiddra bóta. Loks kemur fram það mat stofnunarinnar, að yfirlitin eigi ekki að hafa nein áhrif á endurkröfuna.


Í málinu vegast á tvö sjónarmið. Annars vegar skylda kæranda til að leggja grunn að réttri ákvörðun bóta sér til handa með réttum upplýsingum um tekjur. Hins vegar skylda Tryggingastofnunar sem stjórnvalds að fara rétt með upplýsingar um tekjur bótaþega sem liggja fyrir. Nefndin lítur til þess að skylda kæranda til upplýsingagjafar sé ótvíræð og fellst ekki á að skilja megi erindi frá Tryggingastofnun þannig að kærandi hafi ekki átt að tilkynna um greiðslur frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og Lífeyrissjóði G á árinu 2003. Hins vegar verður ekki framhjá því litið að stofnunin brást ekki við er upplýsingar bárust frá þriðja aðila, þ.e. Greiðslustofu lífeyrissjóða og Lífeyrissjóði G. Nefndin telur óeðlilegt að Tryggingastofnun taki við upplýsingum frá þriðja aðila sem áhrif geta haft á bótarétt bótaþega ef hún tekur þær ekki til skoðunar. Eðlilegra sé þá að hafna viðtöku slíkra upplýsinga sem annars geti skapað óvissu um hvort tilkynningarskyldu bótaþega samkvæmt almannatryggingalögum hafi verið fullnægt.


Ágreiningslaust er í máli þessu að bætur voru ofgreiddar til kæranda vegna ársins 2003 m.a. vegna greiðslna frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og Lífeyrissjóði G. Samkvæmt fortakslausu ákvæði 2. ml. 1. mgr. 50. gr. almannatryggingalaga á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum þegar þannig háttar til. Telur úrskurðarnefndin að endurkröfuréttur sé fyrir hendi gagnvart kæranda og fellst ekki á að hann hafi fallið niður. Að mati nefndarinnar var kærandi ekki í góðri trú um bótagreiðslur þar sem hún fékk lífeyrisgreiðslur á árinu 2003 frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og Lífeyrissjóði I sem hún hefði mátt vita að hefðu áhrif á bótarétt. Hins vegar telur nefndin að lagaskilyrði til að beita skuldajafnaðarheimild 2. mgr. 50. gr. laga 117/1993 um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. 50. gr. séu ekki fyrir hendi hvað þennan þátt varðar. Í 2. málsl. 2. mgr. 50. gr. segir:


Þetta á eingöngu við [þ.e. réttur til að skuldajafna endurkröfunni við framtíðarbætur bótaþega] ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna, sbr. 47. gr.“


Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að skýra skuldajafnaðarheimild Tryggingastofnunar þröngt enda felur hún í sér sérreglu sem heimilar stjórnvaldi að skerða lögbundinn bótarétt lífeyrisþegans til framtíðar en slíkt er verulega íþyngjandi og varðar grundvallarréttindi til bóta. Úrskurðarnefnd almannatrygginga leggur til grundvallar við úrlausn málsins, að tilkynningar um lífeyrissjóðsgreiðslur á árinu 2003 hafi borist Tryggingastofnun þó svo að þær hafi ekki stafað frá kæranda sjálfri. Þegar þannig háttar stafar ofgreiðslan ekki af því að upplýsingar lágu ekki fyrir um réttan grundvöll bótaútreiknings, en nefndin lítur svo á að skv. tilvitnuðu ákvæði sé það skilyrði þess að skuldajöfnuði verði beitt.


Skilyrði er því ekki fyrir hendi skv. 2. mgr. 50. gr. almannatryggingalaga til að draga þennan hluta endurkröfu frá bótum sem kærandi síðar kann að öðlast, heldur verður Tryggingastofnun að beina kröfu að kæranda skv. almennum reglum.


Mistök urðu við skráningu upplýsinga um tekjur samkvæmt tekjuyfirlýsingu, dags. 27. maí 2003, hjá Tryggingastofnun þann 28. maí 2003. Skráð var lægri fjárhæð áætlaðra lífeyrissjóðstekna en kærandi hafði gefið upplýsingar um og sú fjárhæð lögð til grundvallar við útreikning bóta. Að mati úrskurðarnefndar ber Tryggingastofnun ábyrgð á þessum mistökum, eins og áður greinir.


Í ljósi alls framangreinds verður að vísa málinu aftur til Tryggingastofnunar.


Ú R S K UR Ð A R O R Ð:


Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurkröfu að fjárhæð kr. 63.325 á hendur A, vegna ofgreiddra bóta ársins 2003 er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til Tryggingastofnunar til nýs endurreiknings, að teknu tilliti til mistaka við skráningu tekjuupplýsinga frá kæranda þann 28. maí 2003, og nýrrar ákvörðunar um tilhögun endurgreiðslu ofgreiddra bóta ársins 2003.



F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga



____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum