Hoppa yfir valmynd
27. maí 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 335/2004 - Ferðakostnaður innanbæjar

335/2004 – ferðakostnaður innanbæjar.

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r.

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Ludvig Guðmundsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með bréfi dags. 15. nóvember 2004 kærir A til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu kostnaðar vegna ferða með leigubíl í Reykjavík.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn dags. 25. júní 2004 sótti kærandi um greiðslu ferðakostnaðar vegna ferða milli íbúðar á B og vökudeildar Landspítala. Í læknisvottorði vegna umsóknar segir:

„ 32 ára kona sem fæddi fyrirbura við 35v. sem þurfti innlögn á vökudeild. Konan er slöpp e. fæðinguna og treystir sér ekki til að ganga ein á spítala.

…..

Barn á Vökudeild 20/6 – 6/7´04."

Umsókninni var synjað með bréfi dags. 25. ágúst 2004.

Í kæru segir:

„ Efni þessa bréfs er kæra vegna synjunar á ferðakostnaði milli Barnaspítala Hringsins og B. Vegna fyrirburafæðingar dóttur minnar þurfti hún að dveljast á Vökudeild Barnaspítala Hringsins í um tuttugu daga. Mér og eiginmanni mínum var úthlutað íbúð af Landsspítalanum á B. Þegar ég var útskrifuð af fæðingardeildinni þann 250604 skrifaði læknir af kvennadeildinni upp á læknisvottorð. Hann ráðlagði mér að hafa hægt um mig þar til legið hefði jafnað sig eftir fæðinguna og að ég skyldi ferðast á bíl upp á Vökudeildina til að sinna barninu. Félagsráðgjafi á kvennadeildinni sagði að við skyldum taka leigubíl þar sem við værum utan af landi og bíllaus því Tryggingarstofnun mundi greiða kostnaðinn til baka með því að við myndum sína fram á kvittanir á ferðum okkar. Það er því krafa mín að fá þennan ferðarkostnað endurgreiddan því ég hafði ekki annan valkost og félagsráðgjafi taldi víst að Tryggingarstofnun samþykkti þetta."

Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi dags. 19. nóvember 2004. Barst greinargerð dags. 29. nóvember 2004. Þar segir:

„ Samkvæmt reglum um ferðakostnað er heimilt að taka þátt í kostnaði við stuttar og ítrekaðar ferðir vegna alvarlegra sjúkdóma, þ.e. illkynja sjúkdóma, nýrnabilunar, alvarlegra augnsjúkdóma, brýnna lýtalækninga, bæklunarlækninga barna og tannréttingar í ákveðnum tilvikum auk sambærilegra sjúkdóma, alvarlegra vandamála á meðgöngu og glasafrjóvgunarmeðferðar.

Ekki varð séð að þetta skilyrði ætti við um A og því var synjað um þátttöku í ferðakostnaði.

Niðurstaðan varð því sú að umsókn kæranda var synjað."

Greinargerðin var send kæranda með bréfi dags. 2. desember 2004 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar um greiðsluþátttöku í kostnaði kæranda vegna ferða innanbæjar í Reykjavík þ.e. með leigubíl milli B og Landspítala.

Kærandi fæddi barn á fæðingadeild Landspítalans 20. júní 2004 eftir 35 vikna meðgöngu. Barnið var á vökudeild u.þ.b. 20 daga. Á meðan dvaldi móðir í íbúð að B og fór á milli með leigubíl.

Í rökstuðningi með kæru segir að læknir hafi ráðlagt kæranda að hafa hægt um sig þar til hún hefði jafnað sig eftir fæðinguna og fara á milli í bíl. Félagsráðgjafi á Landspítalanum hefði sagt að Tryggingastofnun myndi borga leigubílakostnað.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að ekki sé heimilt samkvæmt gildandi ferðakostnaðarreglum að samþykkja kostnað vegna ferða með leigubíl í tilviki kæranda.

Heimild til greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í ferðakostnaði innanlands er í i.lið 1. mgr. 36. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993. Þar segir að sjúkratryggingar skuli veita eftirfarandi hjálp:

„ Óhjákvæmilegan ferðakostnað með takmörkunum og eftir ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setur fyrir sjúkratryggða sem þarfnast ítrekaðrar meðferðar hjá lækni eða í sjúkrahúsi með eða án innlagningar."

Reglur um ferðakostnað sjúkratryggðra sjúklinga og aðstandenda þeirra nr. 213/1999 hafa verið settar með lögformlegum hætti.

Um þátttöku vegna stuttra og ítrekaðra ferða er fjallað í 4. grein reglna nr. 213/1999. Þar segir:

,,Þegar um er að ræða nauðsynlegar ítrekaðar ferðir sjúklings vegna meðferðar á þeim alvarlegu sjúkdómum sem taldir eru upp í 2. mgr. 3. gr. endurgreiðir Tryggingastofnun ¾ hluta ferðakostnaðar með leigubifreið milli aðseturs sjúklings og meðferðarstaðar samkvæmt framlögðum kvittunum þótt vegalengd sé skemmri en 20 km, enda sé sjúklingur ekki fær um að ferðast með áætlunarbifreið eða almenningsvagni."

Eina heimild Tryggingastofnunar til þess að greiða ferðakostnað vegna ferða innanbæjar er þegar um er að ræða tiltekna alvarlega sjúkdóma þ.e. illkynja sjúkdóma, nýrnabilun, alvarlega augnsjúkdóma, brýnar lýtalækningar, bæklunarlækningar barna og meiri háttar tannréttingar. Ennfremur er á sama hátt heimilt að endurgreiða vegna annarra sambærilegra sjúkdóma, alvarlegra vandamála í meðgöngu og vegna glasafrjóvgunarmeðferðar.

Í læknisvottorði dags. 25. júní 2004 segir að kærandi hafi verið slöpp eftir fæðinguna og ekki treyst sér til að ganga ein á spítalann en ekki var um alvarleg veikindi að ræða.

Af vottorðinu sést að kærandi þurfti ekki vegna alvarlegs sjúkdóms að ferðast með bíl milli B og Landspítala. Greiðsluþátttaka er því ekki heimil samkvæmt reglum nr. 213/1999 og er synjun Tryggingastofnunar staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Umsókn frá því í júní 2004 um þátttöku í ferðakostnaði A innanbæjar í Reykjavík er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

_________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum