Hoppa yfir valmynd
22. desember 2000 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 00060206

Ráðuneytinu hefur borist kæra LOGOS - lögmannsþjónustu, dags. 3. ágúst 2000, fyrir hönd eigenda og íbúa í húsum nr. 1, 3, 16, 18, 19, 20, 21, 23, 24, 25, 26, 27, 28, 29, 30, 32, 33, 34, 36, 37, 38, 39, 41, 43, 45, 47, 49, 51, 53 og 55 við Garðhús i Reykjavík vegna úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins frá 28. júní 2000 um mat á umhverfisáhrifum tveggja akreina Hallsvegar frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi.

I. Hinn kærði úrskurður

Skipulagsstjóri felldi úrskurð sinn þann 28. júní 2000 vegna mats á umhverfisáhrifum Hallsvegar frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi samkvæmt lögum nr. 63/1993 og er fallist á fyrirhugaða lagningu tveggja akreina Hallsvegar frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi eins og henni er lýst í framlagðri frummatsskýrslu með eftirfarandi skilyrði:

"Tryggt verði með mótvægisaðgerðum að hljóðstig frá umferð um Hallsveg verði undir 55 dB(A) við íbúðarhús við Garðhús. Haft verði samráð um mótvægisaðgerðirnar við eigendur þeirra fasteigna sem þær miðast við."

II. Málsatvik

Komið hefur fram að kærendur og umsagnaraðilar á vegum Reykjavíkurborgar eru ekki á einu máli um málsatvik, hvað varðar hvort gert hafi verið ráð fyrir því frá upphafi að Vetrarbraut gæti orðið fjögurra akreina vegur.

Í umsögn framkvæmdaraðila segir að Hallsvegur, áður Vetrarbraut, hafi ekki verið innan þess skipulagssvæðis sem skilmálar fyrir Grafarvog III, Húsahverfi og deiliskipulag húsahverfis frá 1988 náðu til og þar sem hönnun nyrðri akreinar götunnar og lóðamörk Gufuneskirkjugarðs lágu ekki fyrir hefðu eingöngu syðri akreinar götunnar verið sýndar á uppdráttunum. Í athugasemdum kærenda vegna fram kominna umsagna kemur hins vegar fram að ekki verði annað ráðið af skipulagsskilmálum sem lágu fyrir Grafarvog III, Húsahverfi en að Vetrarbraut hafi verið innan þess skipulagssvæðis sem skilmálar fyrir Grafarvog III, Húsahverfi tóku til. Einnig segir að ráða megi af umsögnum framkvæmdaraðila og erindi Vegagerðarinnar til Skipulagsstofnunar, dagsettu 20 júní 2000, að hugmyndir um breytingu á götunni hafi legið fyrir hjá þessum aðilum um einhvern tíma án þess að kærendur hafi fengið vitneskju um það. Kærendur vísa í því efni til bréfs deiliskipulagshöfunda frá 6. ágúst 1991 (að mati ráðuneytisins bréf Borgarverkfræðings í Reykjavík) þar sem segir m.a.:

"Eins og að ofan greinir hefur ávallt verið gert ráð fyrir fjórum akreinum á Hallsvegi, þó að slíkt komi hvorki fram á deiliskipulagsuppdrætti né öðrum gögnum, sem lóðarhafar hafa fengið í té. Hins vegar kemur það fram á uppdrætti (Grafarvogur, svæði III, drög að deiliskipulagi, 15/6 1987), sem lagður var fyrir skipulagsnefnd. Í sambandi við rétt íbúa er vert að undirstrika, að Hallsvegur (áður Vetrarbraut) er sýndur utan skipulagssvæðis á hinum samþykkta deiliskipulagsuppdrætti."

Samkvæmt framansögðu þykir ljóst að íbúar hafi mátt búast við að lagður yrði vegur þar sem nú er áformað að leggja Hallsveg milli Fjallkonuvegar og Víkurvegar. Hins vegar hefur hvorki á deiliskipulagsuppdrætti né öðrum gögnum sem aðgengileg hafa verið íbúum komið fram að umræddur vegur yrði fjórar akreinar.

III. Kröfur og málsástæður kærenda

Aðalkrafa kærenda er að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og umhverfisráðherra mæli svo fyrir að framkvæmdin skuli sett í frekara mat samkvæmt lögum nr. 63/1993. Kærendur telja að frummatsskýrsla framkvæmdaraðila uppfylli ekki skilyrði laga um mat á umhverfisáhrifum samanber einnig tilskipun 85/337 EBE. Skýrslan sé takmörkuð og byggi á röngum forsendum og staðhæfingum sem ekki eigi sér stoð í gögnum málsins. Miklir hagsmunir séu í húfi fyrir kærendur. Gera verði þá kröfu að sýnt sé fram á hvort og hvernig framkvæmdaraðili geti staðið við þau skilyrði, sem sett eru og jafnframt að metin verði öll áhrif þess á umhverfið. Kærendur fara fram á að átta tiltekin atriði verði tekin til athugunar.

1.

Farið er fram á að Hallsvegur verði skoðaður sem ein heild það er fjögurra akreina vegur frá fyrirhugaðri Sundabraut að Vesturlandsvegi. Í kærunni segir að í frummatsskýrslu komi fram að Hallsvegur eigi að tengjast Vesturlandsvegi. Framkvæmdir við eystri og vestari hluta Hallsvegar séu því forsenda fyrir lagningu Hallsvegar frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi. Skipulagsstjóri fallist á að taka aðeins til mats tveggja akreina stofnbraut frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi, þrátt fyrir að allar forsendur framkvæmdarinnar gangi út frá fjögurra akreina stofnbraut frá fyrirhugaðri Sundabraut að Vesturlandsvegi.

2.

Farið er fram á að gerð verði úttekt á þeim möguleika að leggja Hallsveg í stokk. Kærendur telja að til þess að unnt sé að leggja raunhæft mat á þá framkvæmd, sem til skoðunar er, verði að taka til skoðunar þann möguleika að leggja veginn í stokk. Ekki verði séð hvernig hægt sé að koma fyrir fjögurra akreina stofnbraut á því 60 metra svæði sem til ráðstöfunar sé. Ljóst sé að með því móti yrði komið í veg fyrir flest þau vandkvæði sem fylgja lagningu umræddrar stofnbrautar.

3.

Farið er fram á að hljóðstig vegna umferðar verði reiknað á hverri hæð fyrir sig á fasteignunum við Garðhús. Kærendur telja það nauðsynlegt en það sé ekki gert í frummatsskýrslu.

4.

Farið er fram á að sérstaklega verði gerð grein fyrir og metin samlegðaráhrif hávaða frá Víkurvegi, Hallsvegi og stórra gatnamóta. Ef það hefði verið gert væri ljóst að hljóðstig er mun hærra en gert er ráð fyrir í skýrslunni.

5.

Kærendur krefjast þess að sérstaklega verði gerð grein fyrir hvernig unnt sé að uppfylla kröfur hávaðareglugerðar nr. 933/1999, bæði innan og utanhúss og þær ráðstafanir verði metnar sem nauðsynlegar eru til þess og áhrif þeirra á umhverfið.

Kærendur telja að mesta hljóðstig við húsvegg á jarðhæð og utan við opnanlega glugga skuli aldrei fara upp fyrir leiðbeiningargildi samkvæmt tilgreindri reglugerð 45 dB(A) og mesta hljóðstig innanhúss fari aldrei upp fyrir 30 dB(A). Miða skuli við leiðbeiningargildi samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar. Ekki sé nægilegt að miða við 55 (dB) eins og gerð er krafa um í úrskurði skipulagsstjóra. Ekki sé heldur fjallað um hljóðstig innanhúss í úrskurði skipulagsstjóra. Kærendur telja annmarka á að framfylgja skilyrði skipulagsstjóra um hámark hljóðstigs vegarins. Vísað er til fundar fulltrúa kærenda með gatnamálastjóra, verkfræðingi hjá VST og aðstoðarmanni Borgarverkfræðings. Fram hafi komið hjá aðstoðarmanni Borgarverkfræðings að reisa þyrfti 3 til 3.5 metra háar manir meðfram Hallsvegi. Hækka þyrfti manir, sem fyrir eru, við norðanvert Garðhús. Auk þess þurfi að byggja um 1,5 metra háan vegg ofan á mön við Garðhús við hús nr. 3 og láta mön og vegg sveigja til suðurs fyrir húsið. Ennfremur hafi komið fram á fundinum að halli manar yrði 2:1. Ekki hafi verið lögð fram gögn á fundinum sem stutt gætu þessi mál að þann halla sem bent hafi verið á. Af þessu sé hins vegar ljóst að nauðsynlegt sé að framkvæmdin verði tekin til frekara mats. Kærendur telja einnig að framkvæmdin muni skerða útsýni verulega frá þeim húsum sem standa næst Hallsvegi. Halli manar muni skapa slysahættu og gjörbreyta öllu umhverfi á svæðinu, auka snjósöfnun og raska þeim forsendum sem lagðar voru til grundvallar við hönnun húsa við neðanverð Garðhús. Einnig telja kærendur nauðsynlegt að meta sjónræn áhrif hljóðmanar.

6.

Kærendur fara fram á að gerð verði úttekt á sjónrænum áhrifum vegna hljóðmanar auk annarra áhrifa fyrir umhverfið og afstaða hljóðmanar og hæð hennar sýnd með tilliti til þeirra krafna sem settar eru í reglugerð nr. 933/1999 um hávaða.

7.

Kærendur fara fram á að útreikningar á dreifingu mengunarefna og hávaða frá umferð á Hallsvegi verði byggðir á vindrós fyrir Grafarvog. Kærendur telja ekki unnt að fallast á að unnt sé að byggja á vindrós fyrir Bústaðaveg við útreikning á dreifingu mengunarefna og hávaða í Grafarvogi. Telja kærendur að ríkjandi vindátt á framkvæmdarsvæði geri það að verkum að hávaði flytjist að fasteignum við Garðhús en ekki frá þeim eins og tilgreind vindrós geri ráð fyrir.

8.

Kærendur fara fram á að gerð verði grein fyrir því hvernig lýsingu verði háttað við Hallsveg og áhrif birtu fyrir íbúa nærliggjandi húsa. Það sé grundvallaratriði í ljósi þeirrar staðreyndar að svefnherbergi og stofur húsa við Garðhús snúa til norðurs. Hvorki sé fjallað um þetta í skýrslu framkvæmdaraðila né úrskurði skipulagsstjóra ríkisins.

9.

Kærendur telja ýmsa annmarka á framkvæmd matsins.

a. Ítrekað sé vísað til samkomulags við íbúa og lóðarhafa í skýrslu framkvæmdaraðila. Þannig hafi framkvæmdin verið kynnt þeim sem gefinn var kostur á að veita umsagnir og framkvæmdaraðila hafi ekki þótt tilefni til að meta sjónræn áhrif framkvæmdarinnar með vísan til þess. Kærendur kannist hins vegar ekki við að neitt samkomulag hafi verið gert.

b. Kærendur telja skýringarteikningar í frummatsskýrslu ófullnægjandi. Glögglega megi sjá brot og vöntun í 60 dB(A) línunni.

c. Kærendur telja vanta mælingar og útreikninga um hljóðstig umferðar í dag á umræddu svæði. Ekki sé því til neinn samanburður á því hvernig staðan er í dag og því hvernig hún myndi verða. Forsendur ökuhraða, sem framkvæmdaraðili byggir á, við útreikning dreifingu mengunarefna sé ekki raunhæfur. Raunverulegur hraði á stofnbraut sé nær 90 km/klst. Forsendur við umferðaspá séu ekki réttar. Í skýrslu framkvæmdaraðila sé því haldið fram að tilgreind framkvæmd sé nauðsynleg til að létta á umferð um Gagnveg í gegnum íbúðahverfi og koma þannig í veg fyrir aukinn óþarf gegnumakstur þar með tilheyrandi slysahættu. Hins vegar hafi engin könnun farið fram á umferð við Gagnveg né Hallsveg og því ekkert vitað um hversu mikil umferð fer þar um í dag. Í ljósi þess beri líka að skoða útreikninga á slysatíðni í skýrslunni. Þá er dregið í efa að tölur um síðari aukningu umferðar á Hallsveg frá Úlfarsdal í Mosfellsbæ séu réttar. Einnig eru gerðar athugasemdir við arðsemismat framkvæmdarinnar.

d. Kærendur telja veghelgunarsvæði vegarins ná langt inn í Gufuneskirkjugarð eins og mörk hans eru nú. Lóðarmörk kirkjugarðsins hafi verið færð nær Garðhúsum. Fjögurra akreina vegur komist því ekki fyrir á svæðinu þar sem tveggja akreina vegur sé á ystu mörkum þess að bera þá umferð sem spár framkvæmdaraðila gera ráð fyrir. Ráða hafi mátt af skýringum framkvæmdaraðila á fundi 23. maí síðastliðinn að ekki væri pláss fyrir stofnbrautina nema með verulegum breytingum. Slíkar breytingar myndu hugsanlega fela í sér uppsetningu á vegg meðfram stofnbraut og lóðarmörkum kirkjugarðsins en slík framkvæmd mundi aftur á móti endurkasta umferðarhávaða í átt að eignum kærenda.

e. Í kærunni segir að í skýrslu framkvæmdaraðila séu ekki sýndar fjarlægðir frá götubrún. Einnig telja kærendur að fyrirhuguð framkvæmd fari í bága við 33. gr. vegalaga nr. 45/1994 um fjarlægð mannvirkja frá miðlínu vegar. Þá segir að hús kærenda verði mun nærri hinni áformuðu stofnbraut en önnur hús sem standa í nágrenni Hallsvegar. Sú skerðing á eignum, sem af lagningu Hallsvegar leiðir, bitni því mun harðar á kærendum en öðrum fasteignareigendum í nágrenninu. Með slíku sé brotið gegn þeirri jafnræðisreglu sem stjórnvöldum beri að gæta í störfum sínum.

f. Kærendur telja formgalla hafa verið á boðun framkvæmdaraðila á kynningarfund vegna framkvæmdarinnar þar sem íbúum við Garðhús 3 hafi ekki verið boðið.

g. Kærendur telja að Skipulagsstjóri ríkisins hafi ekki rannsakað málið sjálfstætt og kannað sérstaklega svör framkvæmdaraðila. Skipulagsstjóri hafi þannig brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar.

Varðandi varakröfu vísa kærendur til fyrri athugasemda sinna. Telja kærendur fjögurra akreina stofnbraut ekki komast fyrir á þessu svæði. Einnig sé mikilvægt að meta þennan valkost þar sem hann kæmi í veg fyrir að raskað yrði því náttúrulega umhverfi, sem enn er að finna í holtinu norðan við húsin nr. 43 til 49 við Garðhús.

Um þrautavarakröfu segja kærendur að óvíst sé hvort þörf verði á breikkun Hallsvegar í fjórar akreinar í framtíðinni. Fyrst svo sé, sé eðlilegt að íbúar við Garðhús njóti vafans þannig að nyrðri brautin verði fyrst byggð, ef vegurinn verður ekki lagður í stokk. Við það myndi braut og hljóðmön færast frá húsunum. Kærendur draga í efa skoðun umferðarsérfræðinga sem vísað er til í skýrslu framkvæmdaraðila um að lega vegarins fjær Garðhúsum myndi hvorki minnka sjónræn áhrif né hávaða af völdum Hallsvegar. Sú skoðun sé í ósamræmi við það sem fram komi í frummatsskýrslunni um að breikkun vegar til norðurs sé kostur fyrir byggðina. Tilgreind skoðun umferðasérfræðinga hafi aldrei verið kynnt íbúunum sem sé ekki í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993. Einnig kemur fram að kærendur telja skipulagsstjóra ríkisins ekki hafa heimild til að víkja frá leiðbeiningargildum um hljóðstig.

IV. Umsagnir og athugasemdir

Með bréfum dagsettum 11. ágúst 2000 óskaði ráðuneytið eftir umsögnum Skipulagsstofnunar, Hollustuverndar ríkisins, Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar um kæruna. Umsögn Skipulagsstofnunar barst með bréfi dagsettu 19. september 2000, umsögn Hollustuverndar ríkisins barst með bréfi dagsettu 31. ágúst 2000, umsögn Vegagerðarinnar barst með bréfi dagsettu 28. ágúst 2000 og umsögn Reykjavíkurborgar barst með bréfi dagsettu 29. ágúst 2000.

Í umsögn Reykjavíkurborgar segir:

"Sjá upphaf bréfs framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar, dags. 20.6.2000, þar sem ferill skipulags á umræddu svæði er rakinn. Meginatriði málsins eru þau að frá upphafi var samkvæmt höfundum skipulags gert ráð fyrir að gatan norðan við Garðhús, nú Hallsvegur sem hét í upphafi Vetrarbraut, gæti orðið fjórar akreinar og svæði til þess var því tekið frá. Gatan var ekki innan þess skipulagssvæðis sem skilmálar fyrir Grafavarvog III, Húsahverfi og deiliskipulag Húsahverfis frá 1988 náðu til og þar sem hönnun nyrðri akreina götunnar og lóðamörk Gufuneskirkjugarðar lágu ekki fyrir voru eingöngu syðri akreinar götunnar sýndar á þessum uppdráttum. Alltaf var gert ráð fyrir að töluverð umferð gæti orðið um Hallsveg miðað við skilgreiningu hans sem tengibraut á þeim tíma og ekki ljóst hvaðan fullyrðingar Logos um annað eru komnar.

...

Það markmið að Hallsvegur eigi í framtíðinni að tengjast Sundabraut í austri og Vesturlandsvegi í vestri gerir kafla Hallsvegar frá Sundabraut að Strandvegi annars vegar og frá Víkurvegi að Vesturlandsvegi hins vegar ekki að forsendum fyrir kaflanum frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi eins og Logos heldur fram. Hallsvegur, tveggja akreina vegur frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi er sjálfstæð framkvæmd sem miðar að því að létta umferð af Gagnvegi og draga þannig úr akstri í gegnum íbúahverfi, m.a. til að auka öryggi gangandi vegfarenda. Arðsemisreikningar sem birtir voru í fylgiskjali með frummatsskýrslu miðast við byggingu þessa vegarkafla sérstaklega.

Vísað er í fyrri svör framkvæmdaraðila varðandi það hvers vegna umræddur kafli Hallsvegar er nú tekinn sérstaklega til mats á umhverfisáhrifum, sjá bréf til Skipulagsstofnunar, dags. 20.6.2000 lið a), þar sem vísað er til bréfs til sama aðila dags. 31.5.2000. Meginreglan er þó sú að taka stærri hluta vegaframkvæmda til mats á umhverfisáhrifum í einu en í þessu tilviki var talið [að] takmarka þyrfti umfang þeirra framkvæmdar sem fjallað var um m.a. vegna óvissu um legu fyrirhugaðrar Sundabrautar. Rétt er að benda aftur á að í frummatsskýrslu Hallsvegar, tveggja akreina vegar frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi, voru kynntar niðurstöður kannana á áhrifum fjögurra akreina vegar með áætlaðri umferð miðað við að búið væri að tengja veginn Sundabraut vestan megin og við framtíðar íbúahverfi handan Vesturlandsvegar austan megin, hvað varðar hljóð og loftmengun. Heildarmat á áhrifum á umræddum kafla liggur því í raun fyrir, til upplýsingar um þær framkvæmdir sem stefnt er að í framtíðinni, á meðan að jákvæður úrskurður skipulagsstjóra veitir hins vegar einungis leyfi fyrir tveggja akreina vegi frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi. Aðrir hlutar vegarins verða settir í mat á umhverfisáhrifum þegar nær dregur þeim framkvæmdum.

...

b.

Á uppdrætti 99.231-0.03 í frummatsskýrslu eru fjórar akreinar Hallsvegar frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi sýndar og því má ljóst vera að þær komast fyrir.

Ljóst er einnig að ef hægt væri að réttlæta lagningu Hallsvegar í stokk þyrfti sömuleiðis að huga að því að leggja mest allt stofnbrautakerfi höfuðborgarsvæðisins á sama máta, sem er með öllu óraunhæft vegna kostnaðar. Reykjavíkurborg og Vegagerðin hafa á undanförnum árum með aðstoð ýmissa ráðgjafa skoðað lagningu vega í stokka og er því vel kunnugt um stærðargráðu kostnaðar slíkrar framkvæmdar. Þessum hugleiðingum kæranda er því alfarið vísað frá.

c.

Sjá svar í bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 20.6.2000, í lið d).

Í svari framkvæmdaraðila í lið d) í bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 20.6.2000, eru sýndar niðurstöður hljóðstigsreikninga fyrir norðvesturhorn Garðhúsa 3 fyrir þrjár hæðir en þar er eina íbúðin á þriðju hæð við norðanverð Garðhús sem snýr út að Hallsvegi. Þar voru einnig sýndar niðurstöður útreikninga fyrir báðar hæðir Garðhúss 47, sem er það hús sem stendur næst fyrirhuguðum vegi.

...

e.

Tryggt verður að jafngildishljóðstig við húshlið í Garðhúsum verði undir 55 dB(A) samkvæmt úrskurði skipulagsstjóra. Eins og kemur fram í tilvitnun Logos í viðauka með reglugerð um hávaða, nr. 933/1999 er jafngildishljóðstig 45 dB(A) leiðbeiningargildi sem ákjósanlegt er að uppfylla eða stefna að því að uppfylla sem langtímamarkmið en ekki krafa. Þá þarf einnig að tryggja að hljóðstig innanhúss fari ekki yfir 30 dB(A) samkvæmt sömu reglugerð. Samanber meðfylgjandi minnisblað frá VST er tiltölulega auðvelt að ná 30 dB(A) hljóðstigi innanhúss við 55 dB(A) jafngildishljóðstig utan við vegg, jafnvel þegar gluggafletir eru mjög stórir.

Rétt er að til að tryggja að hljóðstig við húshlið sé undir 55 dB(A) fyrir öll þau tilvik sem skoðuð voru m.t.t. hljóðs, allt til ársins 2027, þarf að hækka fyrirhugaða hljóðmön við Garðhús frá því sem áður hafði verið kynnt í frummatsskýrslu og af því leiðir skerðing á útsýni frá 1. hæðum húsa. Við Garðhús 3 þarf að auki að lengja hljóðmönina þannig að hún nái út fyrir horn hússins og að setja um 1,5 m háan vegg ofan á mönina. Slíkur veggur gæti verið úr hertu gleri, sem myndi minnka sjónræn áhrif hans til muna.

Fyrirhugaður halli mana, sem eru 3-3,5 m háar og kynntar voru á samráðsfundi með íbúum þann 20. júlí 2000, er 1:2 (lóðrétt:lárétt) sem er dæmigerður halli á slíkri mön. Frá fæti manar verður 0,5 m fjarlægð í 3 m breiðan göngustíg utan við lóðir húsanna við norðanverð Garðhús. Fullyrðingar um aukna slysahættu vegna þeirrar jarðvegsmanar sem hér er lýst eiga engan rétt á sér.

...

II.

...

d.

Sjá svar í lið o) í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 20.6.2000 og ljósrit af uppdrætti frá Landmótun ehf. dags. 18.02.2000, þar sem rakin er þróun lóðamarka Gufuneskirkjugarðs. Þar má sjá að fullyrðingar í bréfi Logos um færslu lóðarmarka kirkjugarðsins eru rangar. Lóðarmörkum Gufuneskirkjugarðs næst Garðhúsum virðist hafa verið breytt árið 1988 úr bogalínu í beina línu samsíða fyrirhuguðum Hallsvegi og við það hafa þau færst nær Garðhúsum. Árið 1999 var svo lóðarmörkunum breytt aftur og lína samsíða Hallsvegi færð um 10 [m] norðar, fjær Garðhúsum.

...

f.

Þau leiðu mistök urðu að íbúar við Garðhús 3 fengu ekki fundarboð til kynningarfundar þann 23. maí 2000. Íbúar þessa húss voru hins vegar boðaðir til þeirra samráðsfunda sem haldnir voru með íbúum eftir að úrskurður skipulagsstjóra lá fyrir. Ljóst er þó af bréfi Logos, dags. 5. júní 2000 að íbúar Garðhúsa 3 voru upplýstir um framkvæmdanna (sic) þar sem bréf lögmannsins er skrifað í umboði þeirra."

Í umsögn Hollustuverndar segir:

"a) Aðalkrafa um frekara mat þar sem fjallað verði um eftirfarandi þætti.

1. að Hallsvegur verði skoðaður sem fjögurra akreina vegur frá Sundabraut að Vesturlandsvegi.

Umsögn Hvr) Áhrif fjögurra akreina vegar frá Sundabraut að Vesturlandsvegi geta orðið mun meiri en áhrif tveggja akreina lengingar frá núverandi vegi að Víkurvegi. Slíkur vegur býður upp á meiri umferð með tilheyrandi meiri umferðarmengun. Ef landrými er takmarkað verða áhrif á nálæga íbúðabyggð þeim mun meiri. Lausnir sem þyrftu vegna slíks fjögurra akreina vegar gætu orðið erfiðari ef eingöngu er hugsað fyrir Hallsvegi milli Fjallkonuvegar og Víkurvegar. Mat á umhverfisáhrifum í samræmi við þessa kröfu gæti því veitt viðbótarupplýsingar sem þyrfti að taka tillit til.

2. Lagning Hallsvegar í stokk

Umsögn Hvr) Lagning í stokk myndi vissulega geta dregið verulega úr hávaðamengun og breytt dreifingu loftmengunar. Lagning í stokk getur orðið mun erfiðari ef áður er búið að leggja tveggja akreina veg á yfirborðinu. Þetta gæti því verið kostur sem vert væri að skoða sérstaklega ef verið er að meta fjögurra akreina veg frá Sundabraut að Vesturlandsvegi.

3. Hljóðstig vegna umferðar á hverri hæð.

Umsögn Hvr) Skermun vegna hávaða minnkar eftir því sem farið er hærra frá yfirborði. Á móti kemur að fjarlægð frá hljóðuppsprettu eykst. Ef skermun á t.d. annarri hæð er umtalsverð þá verður hljóðstig á þriðju hæð hærra en á annarri hæð. Ef skermun er lítil eða engin á annarri hæð þá lækkar hljóðstig á næstu hæð fyrir ofan. Ef meta á áhrif breytinga á hljóðmön þá er mikilvægt að meta hljóðstig á hverri hæð fyrir sig.

4. Samlegðaráhrif hávaða frá Víkurvegi og Hallsvegi og stórra gatnamóta.

Umsögn Hvr) Við mat á hljóðstigi er það stærsta uppsprettan sem skiptir lang mestu máli. Viðbótaráhrif annarrar uppsprettu hljóða eru lítil nema uppsprettan sé að sambærilegri stærð. Ef viðbótaruppsprettan hefur áhrif á áður kyrrlátar hliðar þá er líklegt að áhrifin verði meiri. Ef farið er í frekara mat ætti einnig að skoða þennan þátt.

5. Kröfur reglugerðar 933/1999

Umsögn Hvr) Sjálfsagt er að tryggja að jafnaðarhljóðstig innanhúss geti verið undir 30 miðað við lokaða glugga og eðlilegt viðhald þeirra. Leiðbeiningargildið er til leiðbeiningar og skal leitast við að uppfylla það eftir því sem kostur er. Fram kemur í kærunni að umtalsverðar manir og veggi þurfi til að ná hljóðstigi undir viðmiðunarmörk. Ef jafnframt þarf að fara út í viðbótarframkvæmdir á gluggum til að tryggja að hljóðstig inni verði undir 30 þar sem hús, stórir gluggar og herbergjaskipan voru hönnuð í upphafi miðað við kyrrlátara svæði en nú er gert ráð fyrir, þá er spurning hvort ekki sé heppilegra að meta framkvæmdina frekar með tilliti til þessara þátta.

6. Útreikningur á dreifingu mengunarefna og hávaða.

Umsögn Hvr) Dreifing loftmengunarefna er skal meta, miðað við vindáttir og vindstyrk (vindrós) á hverjum stað. Ef nægilegur munur er á vindrós milli staða verður vissulega munur á niðurstöðum slíkra reikninga. Hollustuvernd ríkisins hefur ekki tök á því að meta hve mikill munur er á vindáttum milli staða í Reykjavík, en bendir á að fá umsögn Veðurstofu Íslands um það, ef farið er í frekara mat. Hins vegar eru líkur á að styrkur mengunarefna sé mjög lágur þannig að ekki er líklegt að styrkur fari yfir viðmiðunarmörk. Hvað varðar dreifingu hávaða þá er Hollustuvernd ríkisins ekki kunnugt um að til séu hávaðareiknilíkön, sem kominn eru í notkun og geti reiknað með áhrifum veðurfars. Þau reiknilíkön sem hér eru viðurkennd til að reikna umferðarhávaða miða við núllvind. Hins vegar er ljóst að ef ríkjandi vindátt er frá hljóðuppsprettu að móttakara, þá verður meðalhljóðstig þar hærra en annars hefði orðið. Ef ástæða er til að ætla að vindrós hafi eindregnar ríkjandi áttir er nauðsynlegt að hafa þær til hliðsjónar til að meta hvort líklegt sé að hljóðreikningar séu að gefa of hátt eða of lágt gildi. Eðlilegt væri að fá umsögn Veðurstofu á því hvort að vindrós sé með þeim hætti.

...

(1) Niðurstaða Hollustuverndar ríkisins er sú að kröfur kærenda séu vel grundaðar, bendi á atriði sem máli skipta, og æskilegt sé að taka til frekari skoðunar sérstaklega í ljósi þess að lausnir sem hafa verið kynntar kæranda til að uppfylla kröfur úrskurðar Skipulagsstjórnar m.a. vegna hávaðavarna virðast erfiðar í framkvæmd. Jafnframt virðist, að æskilegt sé að leggja fram betri gögn um ýmis atriði er varða framkvæmdina. Þess vegna styður Hollustuvernd ríkisins aðalkröfu kæranda um að framkvæmd verði úrskurðuð í frekara mat á umhverfisáhrifum."

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir:

"Umsögn Skipulagsstofnunar

Um að Hallsvegur frá Strandvegi að Vesturlandsvegi sé ein framkvæmd og að meta beri umhverfisáhrif hennar sameiginlega.

Eins og fram kemur á bls. 14 í hinum kærða úrskurði hefði að mati skipulagsstjóra ríkisins verið æskilegra og gefið betri heildarmynd að skoða Hallsveg í heild, þ. e. fjögurra akreina vega frá fyrirhugaðri Sundabraut að Vesturlandsvegi. Framkvæmdaraðili taldi hins vegar, eins og einnig kemur fram á bls. 14 í úrskurðinum, fyrirhugaða vegarlagningu frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi, vera sjálfstæða framkvæmd óháða frekari vegagerð á svæðinu. Því taldi skipulagsstjóri ríkisins ekki unnt að gera það skilyrði að umhverfisáhrif annarra framkvæmda eða verkáfanga yrðu metin um leið.

Um að leggja beri Hallsveg í stokk.

Eins og fram kemur á bls. 5. í hinum kærða úrskurði gerðu íbúar við Garðhús á athugasemdatíma athugasemd við að ekki væri metinn sá möguleiki að leggja stofnbraut í stokk. Í svörum framkvæmdaraðila koma (sic) fram að það væri ekki raunhæfur kostur vegna margfalds kostnaðar. Vegna afstöðu framkvæmdaraðila taldi skipulagsstjóri ríkisins ekki vera ástæða (sic) til að athuga þann kost frekar.

Um hljóðstig vegna umferðar, samlegðaráhrif hávaða og hljóðvistarkröfur skv. reglugerð nr. 933/1999.

Í niðurstöðu skipulagsstjóra ríkisins á bls. 15 í hinum kærða úrskurði segir m.a.:

"Skipulagsstjóri ríkisins tekur undir álit Hollustuverndar ríkisins og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að ekki sé ásættanlegt að miða eingöngu við frávikstilvikið "veruleg breyting á umferðaræð í byggð sem fyrir er" og að í samræmi við það miðað við að hljóðstig verði undir 65 dB(A). Bæði byggðin og umferðaræðin eru eins og gert var ráð fyrir í skipulagi og því eðlilegt að miða við viðmiðunarmörk hljóðstigs í íbúðarbyggð í nýskipulagi sem samkvæmt 5. gr. reglugerðar um hávaða nr. 933/1999 skal vera 55 dB(A) fyrir utan opnanlega glugga íbúðarhúsnæðis. Samkvæmt reglugerðinni skal einnig leitast við að uppfylla leiðbeiningagildið 45 dB(A) eftir því sem kostur er. Þessi ákvæði eru óbreytt frá mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, en í forvera hennar, mengunarvarnareglugerð nr. 389/1990, voru ákvæði um viðmiðunarmörk jafngildishávaða heldur strangari.

[...]

Fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir uppfylla ekki nema að mjög litlu leyti ofannefnd ákvæði reglugerðar nr. 933/1999 um hávaða í íbúðarbyggð í nýskipulagi. Skipulagsstjóri ríkisins gerir því þá kröfu að tryggt verði með mótvægisaðgerðum að hljóðstig frá umferð um Hallsveg verði undir 55 dB(A) við íbúðarhús við Garðhús. Nauðsynlegt er að haft verði samráð um mótvægisaðgerðirnar við eigendur þeirra

fasteigna sem þær miðast við. Jafnframt verði kannaðir möguleikar á að koma við hljóðvörn við þær íbúðir í Garðhúsum sem snúa að Víkurvegi, þannig að hljóðvarnir er skýla Garðhúsum frá hávaða frá Hallsvegi og Víkurvegi myndi eina heild."

Skipulagsstofnun telur að með þeim kröfum sem gerðar eru til framkvæmdaraðila um að hljóðvarnir vegna hávaða frá umferð um Hallsveg og Víkurveg myndi eina heild, auk kröfu um að samráð verði haft við íbúa um mótvægisaðgerðir séu í samræmi við kröfur kærenda.

Skipulagsstofnun telur að í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum sé ekki unnt að gera afdráttarlausa kröfu um annað en lágmarksgildi skv. reglugerð nr. 933/1999. Hins vegar gildi leiðbeiningargildi reglugerðarinnar og að hafa beri hliðsjón af þeim þó að það sé ekki tekið sérstaklega fram í niðurstöðu úrskurðar.

Um útreikning á dreifingu mengunarefna og hávaða

Á bls. 15 í hinum kærða úrskurði segir m.a.:

"Að mati skipulagsstjóra ríkisins er nægjanleg grein gerð fyrir umhverfisáhrifum loftmengunar í frummatsskýrslu og svörum framkvæmdaraðila. Skipulagsstjóri ríkisins bendir þó á ákveðið ósamræmi í frummatsskýrslu þar sem við útreikning dreifingar mengunarefna í lofti (þ.e. kolmónoxíðs (CO), köfnunarefnisdíoxíðs (NO2), brennisteinsdíoxíðs (SO2) og blýs (Pb) ) er miðað við 50 km/klst umferðarhraða en útreikningur á hljóðstigi miðast hins vegar við 60 km/klst. Í báðum tilvikum er e.t.v.

um að ræða of lítinn hraða miðað við stofnbraut. Samkvæmt munnlegum upplýsingum framkvæmdaraðila verður skiltaður hraði á Hallsvegi milli Fjallkonuvegar og Víkurvegar 50 km/klst.

Skipulagsstjóri ríkisins telur að unnt sé að byggja niðurstöður loftdreifingarspár á vindrós Veðurstofunnar við Bústaðaveg enda hafi það verið gert við sambærilegar loftdreifingarspár víðsvegar um borgina t.d. við breikkun Gullinbrúar, eins og fram kemur í svörum framkvæmdaraðila. Vegna þess hve útreiknuð gildi á styrk mengunarefna í lofti eru miklu lægri en kröfur reglugerða kveða á um, eru ekki taldar líkur á að staðbundin veðuráhrif geti orðið til þess að styrkur mengunarefnanna

geti nálgast umhverfismörk."

Kærandi bendir á að niðurstöður hávaðadreifingar hljóti að vera byggðar á sömu vindrós og niðurstöður loftdreifingarspár. Kærendur telja það gefa alranga mynd af hávaðastigi við Garðhús. Bent er á að það hafi augljóslega áhrif á allar forsendur fyrir framkvæmdinni hvernig niðurstöður hávaðadreifingar séu fengnar.

Á bls. 12 í hinum kærða úrskurði kemur eftirfarandi fram um svör framkvæmdaraðila við athugsemd kærenda um aðferðir við útreikninga á dreifingu hávaða:

"Í svörum framkvæmdaraðila kemur fram að við útreikninga á hljóðstigi hafi verið notaður hæðarlínugrunnur unninn upp úr loftmynd af svæðinu. Hljóðstig við fyrstu hæð húsa er reiknað í 2 m hæð yfir jörðu sem er sú lágmarkshæð yfir yfirborði sem reikniaðferðin gildir fyrir. Þar sem talað er um aðra hæð húsa er miðað við 4,5 m hæð yfir jörðu. Ein íbúð á þriðju hæð í Garðhúsum 3 snýr út að Hallsvegi, en önnur hús sem snúa út að fyrirhuguðum vegi eru á tveimur hæðum. Til að taka af allan vafa var sérstaklega reiknað hljóðstig við svalir á norðvesturhorni hússins í þremur mismunandi hæðum yfir yfirborði lands, þ.e. í 2 m hæð (fyrsta hæð), í 4,5 m hæð (önnur hæð) og í 7 m hæð (þriðja hæð). Niðurstöður hljóðstigsreikninganna í dB(A) séu þær að hljóðstig við Garðhús 3 verði alls staðar undir mörkum reglugerðar."

Skipulagsstofnun telur að þær aðferðir sem notaðar voru við útreikninga hljóðstigs í mati á umhverfisáhrifum Hallsvegar hafi verið fullnægjandi.

Meint brot Skipulagsstjóra ríkisins gegn rannsóknarskyldu

Í kæru er því haldið fram að skipulagsstjóri ríkisins hafi brotið gegn rannsóknarskyldu sinni með því að skýrsla framkvæmdaraðila hafi verið talin fullnægjandi, en skort hafi á að hann rannsakaði málið sjálfstætt. Talið er að annmarkinn eigi að leiða til ógildingar hinnar kærðu niðurstöðu.

Í 12. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum nr. 179/1994 segir að í frumathugun skuli skipulagsstjóri ríkisins kanna tilkynningu og fylgigögn framkvæmdaraðila með tilliti til þeirra þátta sem taldir eru upp í 5. gr. Ennfremur skuli hann meta umsagnir og athugasemdir sem borist hafa. Eins og fram kemur í niðurstöðum 5. kafla á bls. 16 og 6. kafla á bls. 17 í hinum kærða úrskurði var niðurstaða skipulagsstjóra í hinu kærða tilviki byggð á gögnum sem lögð voru fram af hálfu framkvæmdaraðila við tilkynningu ásamt umsögnum, athugasemdum og svörum framkvæmdaraðila við þeim.

Skipulagsstofnun telur að við mat á umhverfisáhrifum Hallsvegar hafi skipulagsstjóri ríkisins gætt rannsóknarskyldu sinnar í hvívetna og umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar verið ljós við úrskurð skipulagsstjóra ríkisins þann 28. júní 2000."

Í athugasemdum kærenda vegna umsagna segir, að brýnt sé að sjá framkvæmdina í heild sinni en ekki einstaka hluta hennar, enda yrði að öðrum kosti búið að setja framhaldinu ákveðnar skorður, sem ekki væri unnt að hnika við. Gerð er athugasemd við að framkvæmdaraðili vísi til álits ráðgjafa varðandi kostnað við að leggja stofnbraut í stokk. Ekki hafi hins vegar verið upplýst hver áætlaður kostnaður sé við slíka framkvæmd, né lögð fram sérfræðiálit þar að lútandi. Gerð er athugasemd við að ekki sé gerð grein fyrir hljóðstigi á hverri hæð við Garðhús í frummatsskýrslu, heldur einungis svörum framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar. Segir einnig að ekki liggi fyrir hvernig endanleg hljóðmön eigi að vera. Varðandi möguleika framkvæmdaraðila á að uppfylla skilyrði skipulagsstjóra ríkisins, segir að framkvæmdaraðili vísi til minnisblaðs frá verkfræðistofunni VST. Það skjal sé hins vegar ekki hluti af matsskýrslu framkvæmdaraðila og skipulagsstjóri hafi ekki kallað eftir því. Varðandi raflýsingu segir í athugasemdum kærenda að ef fjögurra akreina stofnbraut verði að veruleika, þá sé nauðsynlegt að setja upp lýsingu beggja vegna vegarins en ekki eingöngu sunnan megin eins og fram komi í umsögn framkvæmdaraðila.

V. Niðurstaða

Kærendur gera þær kröfur aðallega að hinn kærði úrskurður verið feldur úr gildi og umhverfisráðherra mæli svo fyrir að framkvæmdin skuli sett í frekara mat. Gerð er krafa um að átta tiltekin atriði verði skoðuð í frekara mati. Mun ráðuneytið fara yfir hvern lið kröfunnar fyrir sig.

1.

Í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins um Hallsveg í Reykjavík, tveggja akreina veg frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi segir að Hallsvegur sé mikilvægur hlekkur í stofnbrautakerfi Reykjavíkur til framtíðar og muni í endanlegri gerð, fjórar akreinar, tengja saman Sundabraut og Vesturlandsveg. Í frummatsskýrslu kemur fram að megintilgangur og framtíðarmarkmið með endanlegum Hallsvegi sé að tengja fyrirhugaða Sundabraut og Vesturlandsveg og þaðan í Hamrahlíðarlönd. Í skýrslunni kemur einnig fram að jafnvel sé alls óvíst hvort þörf fyrir breikkun brautarinnar verði nokkurn tíma fyrir hendi. Í umsögn framkvæmdaraðila segir að meginreglan sé sú, að taka stærri hluta vegaframkvæmda til mats á umhverfisáhrifum í einu en gert er í þessu tilviki. Talið var að takmarka þyrfti umfang þeirrar framkvæmdar sem fjallað var um meðal annars vegna óvissu um legu fyrirhugaðrar Sundabrautar. Í svörum framkvæmdaraðila til skipulagsstjóra ríkisins kemur einnig fram að Hallsvegur frá Strandvegi að Fjallkonuvegi og frá Víkurvegi að Vesturlandsvegi hafi ekki verið hannaður heldur einungis farið fram skoðun á mögulegu vegstæði. Að mati skipulagsstjóra ríkisins hefði verið æskilegra og gefið betri mynd að skoða Hallsveg í heild það er fjögurra akreina veg frá fyrirhugaðri Sundabraut að Vesturlandsvegi. Í umsögn Hollustuverndar ríkisins segir að nauðsynlegar lausnir vegna fjögurra akreina vegar frá Sundabraut að Vesturlandsvegi gæti orðið erfiðari en ef eingöngu er hugsað fyrir Hallsvegi milli Fjallkomuvegar og Víkurvegar. Í frummatsskýrslu kemur fram að þær tvær akreinar sem lýst er í frummatsskýrslu séu staðsettar syðst á veghelgunarsvæði fyrirhugaðs Hallsvegar.

2.

Í umsögn Hollustuverndar ríkisins kemur fram sú skoðun að lagning í stokk geti orðið mun erfiðari ef áður er búið að leggja tveggja akreina veg á yfirborðinu og að lagning í stokk gæti verið kostur sem vert væri að skoða sérstaklega ef verið er að meta fjögurra akreina veg frá Sundabraut að Vesturlandsvegi. Í umsögn framkvæmdaraðila segir varðandi þessa kröfu að ef hægt væri að réttlæta lagningu Hallsvegar í stokk þyrfti sömuleiðis að huga að því að leggja mest allt stofnbrautakerfi höfuðborgarsvæðisins á sama máta sem að mati framkvæmdaraðila er með öllu óraunhæft vegna kostnaðar. Ennfremur segir í umsögninni að Reykjavíkurborg og Vegagerðin hafi á undanförnum árum með aðstoð ýmissa ráðgjafa skoðað lagningu vega í stokka og er því vel kunnugt um stærðargráðu kostnaðar slíkrar framkvæmdar. Þessum hugleiðingum kærenda sé því alfarið vísað frá.

3.

Í hinum kærða úrskurði kafla 4.3 er gerð grein fyrir hljóðstigi á hverri hæð. Framkvæmdar-

aðili hefur því gert grein fyrir því atriði þrátt fyrir að það hafi ekki verið gert í frummatsskýrslu. Hollustuvernd ríkisins telur mikilvægt að meta hljóðstig á hverri hæð fyrir sig ef meta á áhrif breytinga á hljóðmön.

4.

Í hinum kærða úrskurði segir að í svörum framkvæmdaraðila komi fram að reiknuð hafi verið samlegðaráhrif umferðar á Hallsvegi og Víkurvegi samkvæmt viðurkenndum aðferðum. Niðurstöður sýni að tilkoma Hallsvegar hafi hverfandi áhrif á hljóðstig við hús nr. 51, 53 og 55 við Garðhús. Þá hafi í útreikningum ekki verið reiknað með hljóðmöninni sem búið er að koma fyrir meðfram Víkurvegi og því hafi áætlað hljóðstig við þessi hús verið ofmetið. Í umsögn framkvæmdaraðila er vísað til bréfs þeirra til skipulagsstofnunar, frá 20. júní 2000, um þetta atriði. Í umsögn Hollustuverndar ríkisins segir að við mat á hljóðstigi sé það stærsta uppsprettan sem skipti lang mestu máli. Viðbótaráhrif annarrar uppsprettu hljóða séu lítil nema uppsprettan sé að sambærilegri stærð. Ef viðbótaruppsprettan hafi áhrif á áður kyrrlátar hliðar þá sé líklegt að áhrifin verði meiri. Leggur stofnunin til að verði farið í frekara mat ætti einnig að skoða þennan þátt.

5.

Í frummatsskýrslu eru fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir miðaðar við að nægilegt sé að uppfylla fráviksviðmiðið 65 dB(A) hljóðstig sem tilgreint er í 5. tl. viðauka við hávaðareglugerð nr. 933/1999. Í úrskurði skipulagsstjóra segir að fyrirhuguð lagning Hallsvegar muni hafa í för með sér umtalsverð áhrif á hljóðstig í íbúðarbyggð við Garðhús og töluverð í Gufuneskirkjugarði. Því sé sett það skilyrði fyrir framkvæmdum að tryggt verði að jafngildishljóðstig fari ekki yfir 55 dB(A) í íbúðarbyggð við Garðhús og reynt verði að ná leiðbeiningargildi 45 dB(A).

Í frummatsskýrslu segir að miðað við áætlaða umferð 2008 til 2027 sé hljóðmön nauðsynleg til að uppfylla skilyrði reglugerðar. Í umsögn framkvæmdaraðila segir að til að til að tryggja að hljóðstig við húshlið sé undir 55 dB(A) þurfi að hækka fyrirhugaða hljóðmön við Garðhús frá því sem áður hafði verið kynnt í frummatsskýrslu og af því leiði skerðing á útsýni frá 1. hæðum húsa. Fram kemur að mönin þyrfti að vera 3 til 3,5 metra há. Við Garðhús 3 þurfi að auki að lengja hljóðmönina þannig að hún nái út fyrir horn hússins og að setja um 1,5 metra háan vegg ofan á mönina. Slíkur veggur gæti verið úr hertu gleri. Varðandi hljóðstig innanhúss vísar framkvæmdaraðili til minnisblaðs verkfræðistofunnar VST sem dagsett er eftir að skipulagsstjóri felldi úrskurð sinn.

Í umsögn Hollustuverndar segir að umtalsverðar manir og veggi þurfi til að ná hljóðstigi undir viðmiðunarmörkum og ef jafnframt þurfi að fara út í viðbótarframkvæmdir á gluggum til að tryggja að hljóðstig inni verði undir 30 db þar sem hús, stórir gluggar og herbergjaskipan voru hönnuð í upphafi miðað við kyrrlátara svæði en nú er gert ráð fyrir, þá sé spurning hvort ekki sé heppilegra að meta framkvæmdina frekar með tilliti til þeirra þátta.

6.

Í úrskurði skipulagsstjóra segir um áætlaða hljóðmön að hún sé áætluð 2-3 m há úr jarðvegi fyrir framan húsin við Garðhús 1-51. Hljóðmönin verði miðuð við að skilyrði reglugerðar um hávaða 65 dB(A) verði uppfyllt miðað við endanlegan Hallsveg með fjórum akreinum. Í umsögn framkvæmdaraðila segir að til að til að tryggja að hljóðstig við húshlið sé undir 55 dB(A) þurfi að hækka fyrirhugaða hljóðmön við Garðhús frá því sem áður hafði verið kynnt í frummatsskýrslu og af því leiði skerðing á útsýni frá 1. hæðum húsa. Fram kemur að mönin þyrfti að vera 3 til 3,5 metra há. Við Garðhús 3 þurfi að auki að lengja hljóðmönina þannig að hún nái út fyrir horn hússins og að setja um 1,5 metra háan vegg ofan á mönina. Slíkur veggur gæti verið úr hertu gleri.

7.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að vegna þess hve útreiknuð gildi á styrk mengunarefna í lofti eru miklu lægri en kröfur reglugerðar kveða á um séu ekki taldar líkur á að staðbundin veðuráhrif geti orðið til þess að styrkur mengunarefna geti nálgast viðmiðunarmörk. Jafnframt kemur fram í hinum kærða úrskurði að við útreikninga á hljóðstigi hafi verið notaður hæðarlínugrunnur unninn upp úr loftmynd af svæðinu. Hollustuvernd ríkisins telur að ef nægilegur munur er á vindrós milli staða, verði vissulega munur á niðurstöðum útreikninga á dreifingu mengunarefna og hávaða frá umferð. Bendir stofnunin að rétt sé að fá umsögn Veðurstofu Íslands um það ef farið verði í frekara mat.

8.

Í umsögn Framkvæmdaraðila segir að hefðbundin götulýsing verði við fyrirhugaðan Hallsveg. Muni ljósastaurar við veginn standa sunnan hans og beina ljósinu í norður frá Garðhúsum. Við götustíg handan hljóðmanar verði raflýsing í samræmi við lýsingu við aðra göngustíga borgarinnar með lágum staurum. Kærendur telja að ef fjögurra akreina stofnbraut verði að veruleika þá sé nauðsynlegt að setja upp lýsingu beggja vegna vegarins en ekki eingöngu sunnan megin eins og fram komi í umsögn framkvæmdaraðila.

9.

Í umsögn framkvæmdaraðila segir að í frummatskýrslu vegna Hallsvegar hafi verið kynntar niðurstöður kannana á áhrifum fjögurra akreina vegar með áætlaðri umferð miðað við að búið væri að tengja veginn við Sundabraut vestan megin og við framtíðar íbúðarhverfi handan Vesturlandsvegar austan megin hvað varðar hljóð og loftmengun. Því liggi heildarmat á áhrifum umræddum kafla í raun fyrir, til upplýsingar um þær framkvæmdir sem stefnt er að í framtíðinni. Í frummatsskýrslu kemur hins vegar fram að lagt sé mat áhrif framkvæmda við Hallsveg í Reykjavík, tveggja akreina, frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi en áætlanir geri ráð fyrir að Hallsvegur verði með fjórum akreinum þegar hann verður fullbyggður. Skýrslan og matsferill hjá skipulagsstjóra ríkisins byggja á því að aðeins sé verið að meta tvær akreinar. Fellst ráðuneytið því ekki á að heildarmat á áhrifum Hallsvegar í endanlegri gerð liggi fyrir.

Ráðuneytið felst á sjónarmið framkvæmdaraðila um að ekki sé unnt að setja Hallsveg sem fjögurra akreina veg frá Sundabraut að Vesturlandsvegi í mat á umhverfisáhrifum. Óvissa er um legu fyrirhugaðrar Sundabrautar og vegtenging frá Víkurvegi að Vesturlandsvegi hefur ekki verið hönnuð. Þær vegtengingar eru ekki forsendur fyrir Hallsvegi frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi enda er markmið fyrirhugaðrar framkvæmdar að bæta samgöngur til og frá Grafarvogshverfum, létta á umferð um Gagnveg og koma í veg fyrir óþarfa gegnumakstur. Ráðuneytið felst hins vegar ekki á að út frá því sé nægilegt að meta aðeins tveggja akreina veg frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi þar sem það kemur fram í frummatsskýrslu og umsögnum framkvæmdaraðila að áætlað sé að fara út í fjögurra akreina veg á þessum vegarkafla.

Framkvæmdaraðili hefur ekki gert grein fyrir þeim kostnaðarmun sem hann vísar til varðandi möguleika á því að leggja Hallsveg í stokk. Einnig þykir ljóst af gögnum málsins að landsvæði til framkvæmda er takmarkað. Fullnægjandi útfærsla mótvægisaðgerða liggur ekki fyrir. Þykir ráðuneytinu því rétt að í frekara mati verði gerð grein fyrir kostnaði og tæknilegum möguleikum varðandi það að leggja Hallsveg í stokk.

Frummatsskýrsla framkvæmdaraðila gerir ráð fyrir að nægilegt sé að uppfylla fráviksviðmið reglugerðar um hávaða. Fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir miða við það. Heimilt er að víkja frá meginreglu reglugerðar um hávaða ef um verulega breytingu er að ræða á umferðaræð í byggð sem fyrir er. Fyrirhuguð framkvæmd er nýlagning vegar og því er ekki heimilt að miða við tilgreint frávik eins og nánar er gert grein fyrir í úrskurði skipulagsstóra ríkisins. Eins og fram kemur í viðaukanum með reglugerðinni er viðmiðunargildi það gildi sem verður að uppfylla til þess að ástandið geti talist viðunandi en leiðbeiningargildi viðmið sem ákjósanlegt er að uppfylla eða stefna að því að uppfylla sem langtímamarkmið.

Ekki liggja fyrir hljóðstigsútreikningar miðað við þá lausn sem fyrst kemur fram í umsögn framkvæmdaraðila um kæru íbúa við Garðhús. Ljóst er að breyta þarf hljóðmön frá því sem gerð er grein fyrir í frummatsskýrslu auk þess sem talið er að grípa þurfi til sérstakra ráðstafana við Garðhús 3. Fullnægjandi útfærsla þessarar lausnar liggur því ekki fyrir. Íbúðir við Garðhús eru staðsettar norðarlega í byggingarreit lóðanna og svefnherbergi eru staðsett norðan megin í íbúðunum. Nauðsynlegt er að tryggja að hljóðstig fari að minnsta kosti ekki upp fyrir 55 dB(A) utan húss jafnframt sem nauðsynlegt er að tryggja að hljóðstig fari ekki upp fyrir 30 dB(A) innan húss.

Í athugasemdum varðandi framkvæmd matsins kemur fram að kærendur telja meðal annars að forsendur ökuhraða, sem framkvæmdaraðili byggir á, við útreikning á dreifingu mengunarefna sé ekki raunhæfur. Raunverulegur hraði á stofnbrauð sé nær 90 km/klst. Ráðuneytið telur vegna þessa rétt að taka fram að ekki er unnt að miða mælingar við ólöglegan umferðarhraða.

Eins og segir í úrskurði skipulagsstjóra hefur framkvæmdin umtalsverð áhrif á hljóðstig í íbúðarbyggð við Garðhús. Ráðuneytið telur að ekki sé gerð fullnægjandi grein fyrir mótvægisaðgerðum vegna framkvæmdarinnar. Í frummatsskýrslu kemur fram að áætlað er að tvöfalda Hallsveg úr tveimur akreinum í fjórar en ekki sé þó ljóst að nokkurn tíma verði þörf á því. Kærendur eru íbúar í 30 húsum við Garðhús. Ráðuneytið telur þegar af þessum ástæðum nauðsynlegt að frekara mat fari fram á fyrirhugaðri framkvæmd og er úrskurður skipulagsstjóra því felldur úr gildi.

Í frekara mati skal:

1. kanna frekar þörf á breikkun Hallsvegar í fjórar akreinar,

2. gera grein fyrir heildaráhrifum framkvæmdarinnar á hljóðstig við Garðhús,

3. gera grein fyrir mótvægisaðgerðum sem miði að því að hljóðstig utan húss fari a.m.k. ekki upp fyrir 55 dB(A) og 30 dB(A) innanhúss miðað við endanlega gerð vegarins,

4. gera grein fyrir hugsanlegum neikvæðum áhrifum mótvægisaðgerða,

5. gera grein fyrir hljóðstigi á hverri hæð fyrir sig,

6. afla álits Veðurstofu Íslands á áhrifum ríkjandi vindátta á framkvæmdasvæði á dreifingu mengunarefna og hávaða,

7. gera grein fyrir möguleikum á því að leggja Hallsveg í stokk.

Úrskurðarorð:

Úrskurður skipulagsstjóra ríkisins frá 28. júní 2000 um mat á umhverfisáhrifum Hallsvegar frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi er úr gildi feldur. Fara skal fram frekara mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í frekara mati skal:

1. kanna frekar þörf á breikkun Hallsvegar í fjórar akreinar,

2. gera grein fyrir heildaráhrifum framkvæmdarinnar á hljóðstig við Garðhús,

3. gera grein fyrir mótvægisaðgerðum sem miði að því að hljóðstig utan húss fari a.m.k. ekki upp fyrir 55 dB(A) og 30 dB(A) innanhúss miðað við endanlega gerð vegarins,

4. gera grein fyrir hugsanlegum neikvæðum áhrifum mótvægisaðgerða,

5. gera grein fyrir hljóðstigi á hverri hæð fyrir sig,

6. afla álits Veðurstofu Íslands á áhrifum ríkjandi vindátta á framkvæmdasvæði á dreifingu mengunarefna og hávaða,

7. gera grein fyrir möguleikum á því að leggja Hallsveg í stokk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum