Hoppa yfir valmynd
3. desember 2001 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 01080064 


Ráðuneytinu hefur borist kæra frá LOGOS lögmannsþjónustu, f.h. Niðursuðuverksmiðjunnar Ora ehf. vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 16. júlí 2001 um að fyrirhuguð landfylling við Kársnes í Kópavogi, á vegum Björgunar ehf. og Bygg ehf., sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.



I. Hin kærða ákvörðun og málsatvik


Þann 15. júní 2001 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Björgun ehf. og Bygg ehf. um fyrirhugaða landfyllingu við Kársnes í Kópavogi, en framkvæmdin er tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og h. lið 10. tölul. 2. viðauka laganna, og metur stofnunin hvort framkvæmdin skuli háð mati samkvæmt lögunum. Um er að ræða fyrirhugaða gerð 6 ha landfyllingar í sjó meðfram norðurströnd Kársness í Kópavogi, um 400 m að lengd frá austri til vesturs og um 150 m í sjó fram til norðurs. Tilgangur framkvæmdarinnar er að skapa rými fyrir byggingu nýs íbúðahverfis á norðurströnd Kársness.


Að fengnum umsögnum Kópavogsbæjar, Flugmálastjórnar, Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Hollustuverndar ríkisins, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og Náttúruverndar ríkisins taldi Skipulagsstofnun að gerð landfyllingarinnar væri ekki líkleg til að raska leirum eða grunnsævi eða hafa umtalsverð áhrif á fuglalíf. Stofnunin tók fram að gerð grjótvarnargarðs framan við miðlínusendi norður-suðurbrautar Reykjavíkurflugvallar myndi hafa truflandi áhrif á geisla sendisins og því væri mikilvægt að staðið væri að framkvæmdunum í samráði við Flugmálastjórn. Jafnframt var tekið fram að um hugsanleg umhverfisáhrif byggðar á landfyllingunni skyldi fjallað við gerð skipulagsáætlana fyrir svæðið og féllu þau því utan gildissviðs laga um mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun tæki því ekki mið af þeim í ákvörðun sinni um matskyldu. Niðurstaða Skipulagsstofnunar var sú að landfylling við Kársnes í Kópavogi væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.



II. Kröfur og málsástæður kæranda


Kærandi gerir þá kröfu að umhverfisráðherra felli úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar og kveði á um að fyrirhuguð landfylling og bygging bryggjuhverfis við Kársnes í Kópavogi sé háð mati á umhverfisáhrifum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.


Kærandi bendir á að samkvæmt 1. mgr. 6. gr. skuli framkvæmdir þær sem tilgreindar eru í 2. viðauka laganna háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal Skipulagsstofnun, þegar hún tekur ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar, m.a. líta til sjónarmiða sem lúta að stærð og umfangi framkvæmdar, auk mengunar og ónæðis sem af henni leiðir, sbr. i. og v. lið 1. tölul. 3. viðauka laganna. Kærandi telur að á grundvelli þessara sjónarmiða hefði niðurstaða Skipulagsstofnunar átt að vera sú að framkvæmdin væri matsskyld.


Þessu til stuðnings bendir kærandi á að Ora ehf., sem staðsett er að Vesturvör 10 og 12, beint fyrir framan fyrirhugaða landfyllingu, hafi leyfi heilbrigðisnefndar Kópavogsbæjar og Fiskistofu til framleiðslu matvæla á innlendan og erlendan markað, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli. Gildir um starfsemi fyrirtækisins m.a. reglugerð nr. 522/1994, um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla. Samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar skal gæta fyllstu hollustuhátta við framleiðslu og dreifingu matvæla og fara að þeim ákvæðum sem sett eru í viðaukum 1.-9. Vekur kærandi sérstaka athygli á 1. málsl. 2. tölul. 3. viðauka, en þar segir, að matvælafyrirtæki megi ekki vera í beinu sambandi við óskyldan atvinnurekstur eða íbúð og skuli eigi staðsett nálægt atvinnurekstri sem geti haft mengandi áhrif á starfsemina. Telur kærandi að i. lið 1. tölul. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum beri að skýra til samræmis við greint ákvæði og framkvæmdin því matsskyld vegna þeirrar mengunar og ónæðis, sem af henni starfar. Er í því sambandi vísað til þess, að í 1. gr. laga um matvæli segi, að tilgangur laganna sé, að tryggja svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla. Bendir kærandi á að nauðsynlegt sé að mat á umhverfisáhrifum fari fram til þess að metin verði þau mengunaráhrif sem af framkvæmdinni stafa og eins verði greint hvaða mótvægisaðgerða gripið verði til.


Kærandi gagnrýnir að Ora ehf. hafi ekki verið gefinn kostur á að koma á framfæri áliti vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar, eins og hann telur að Skipulagsstofnun hafi verið skylt að gera, skv. 4. málsl. 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, áður en ákvörðun um matsskyldu var tekin. Þessu til stuðnings vísar kærandi til ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um andmælarétt, sbr. 13. og 14. gr. laganna. Kærandi telur ótvírætt að hann njóti stöðu aðila eins og aðilahugtakið hafi verið skilgreint í stjórnsýslurétti. Í almennum athugasemdum við frumvarp til stjórnsýslulaga komi fram að hugtakið "aðili máls" beri að skýra rúmt þannig að ekki sé einungis átt við þá sem beina aðild eiga að máli, heldur einnig þá sem hafa óbeinna hagsmuna að gæta, svo sem nágrannar. Jafnframt bendir kærandi á að í fyrrnefndum athugasemdum komi fram að skýring hugtaksins fari eftir því um hvaða svið stjórnsýslunnar er að ræða og að viðurkennt sé af fræðimönnum, að aðilahugtakið beri að skýra rúmt á sviði umhverfisréttar. Síðan bendir kærandi á að skv. 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga haldi ákvæði annarra laga, sem hafi að geyma strangari málsmeðferðarreglur en lögin mæli fyrir um, gildi sínu. Því sé ljóst að fyrirmæli 4. málsl. 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum verði ekki skýrð með þeim hætti, að þau veiti Ora ehf. minni rétt en kveðið er á um í stjórnsýslulögum.


Þá telur kærandi að rökstuðningur Skipulagsstofnunar fyrir ákvörðuninni sé ekki í samræmi við 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga, þar sem segir, að þar sem ákvörðun byggist á mati skuli í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Hafi Skipulagsstofnun því borið að taka til úrlausnar þau sjónarmið, sem leiða má af 1. tölul. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum og reifuð hafa verið hér að framan.





III. Umsagnir og athugasemdir


Með bréfum dags. 20. ágúst 2001 óskaði ráðuneytið eftir umsögnum frá Hollustuvernd ríkisins, Björgun ehf., Kópavogsbæ og Skipulagsstofnun um framangreinda kæru. Með bréfi dags. 21. ágúst 2001 var jafnframt óskað eftir umsögn Bygg ehf. um kæruna. Umsögn Hollustuverndar barst með bréfi dags. 10. september 2001, umsögn Björgunar ehf. og Bygg ehf. með bréfi dags. 3. september 2001, umsögn Skipulagsstofnunar með bréfi dags. 12. september 2001 og umsögn Kópavogsbæjar með bréfi dags. 18. október 2001.


Hollustuvernd ríkisins telur líkur á því að ryk geti myndast á ákveðnu tímabili framkvæmda, t.d. þegar ekki er lengur hægt að sigla með efni inn á fyrirhugaða landfyllingu. Stofnunin treystir sér hins vegar ekki til að meta hvort fyrirtæki kæranda yrði tímabundið óstarfhæft af þessum völdum. Hollustuvernd ríkisins telur ekki að slík áhrif teldust til umtalsverðra umhverfisáhrifa skv. 2. og 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum og leggur því til að úrskurður Skipulagsstofnunar verði staðfestur. Jafnframt telur Hollustuvernd ríkisins að fyrirhugaðar framkvæmdir falli ekki undir ákvæði reglugerðar nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla.


Í umsögn Kópavogsbæjar segir m.a.:



"Það er mat bæjaryfirvalda í Kópavogi að þær tillögur að landfyllingu, sem fyrirhugaðar eru í utanverðum Fossvogi og vísað er til í erindi ráðuneytisins, muni ekki leiða til þess að ORA þurfi að flytja starfsemi sína frá núverandi stað, verði þessar tillögur að raunveruleika. Til að byrja með er rétt að undirstrika að enn hafa engar endanlegar ákvarðanir verið teknar um skipulag svæðisins, hvað þá framkvæmdir við svokallað bryggjuhverfi á umræddu svæði.


En verði umræddar tillögur að bryggjuhverfi að veruleika, þá er rétt að taka eftirfarandi fram. Landfylling er tímabundin framkvæmd sem lýkur um leið og uppfyllingu er lokið. Eftir það yrði gengið frá íbúðarhverfinu með hefðbundnum hætti, þ.e. götur og stígar malbikaðir/hellulagðir, gengið frá opnum svæðum o.fl., þannig að rykmengun yrði í lágmarki. Á meðan á framkvæmdum við landfyllingu stendur má búast við óverulegu svifi rykagna í einstökum tilvikum. Í því sambandi vilja bæjaryfirvöld benda á að í umhverfi ORA í dag er væntanlega svifryk frá t.d. umferð bíla, frá strönd við Fossvog og eflaust frá fleiri stöðum í nágrenninu. Svipað gildir væntanlega um flestar ef ekki allar aðrar matvælaverksmiðjur á landinu. Það er því mat bæjaryfirvalda að rykmengun í nágrenni verksmiðjunnar verði ekki meiri en við megi búast almennt í nágrenni matvælaverksmiðja."


Síðan tekur Kópavogsbær það fram að fari svo að ráðist verði í uppbyggingu bryggjuhverfis á norðanverðu Kársnesi þá verði það skipulagt og framkvæmt í samráði við Ora ehf. sem og önnur fyrirtæki í næsta nágrenni.


Í umsögn Skipulagsstofnunar segir m.a.:



"...Þrátt fyrir að tilgangur framkvæmdarinnar sé að skapa rými fyrir uppbyggingu íbúðarhverfis á landfyllingunni falla framkvæmdir við það ekki undir ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum og þar með ákvörðun stofnunarinnar um matsskyldu framkvæmdarinnar. Ákvarðanataka um heimildir til landnotkunar á fyllingunni er í höndum sveitarstjórnar í skipulagsáætlunum. Af tilvísun í ákvæði reglugerðar um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla virðast hagsmunir kæranda aðallega tengjast þeirri starfsemi sem kann að verða heimiluð á fyrirhugaðri landfyllingu. Skipulagsstofnun bendir á að kæranda mun gefast kostur á að gæta hagsmuna sinna á athugasemdatíma í kjölfar auglýsinga vegna tillagna um breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulag svæðisins."


Síðan segir í umsögn Skipulagsstofnunar:



"...Varðandi landfyllinguna sjálfa var á grundvelli umsagna talið að umhverfisáhrif hennar vörðuðu helst fuglalíf í voginum, en þau ekki talin umtalsverð. Telur Skipulagsstofnun rökstuðning ákvörðunarinnar nægjanlegan og uppfylla ákvæði 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stofnunin telur að þrátt fyrir að henni sé skv. 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum gert að fara eftir viðmiðum í 3. viðauka við lögin, sé henni ekki skylt í ákvörðunum skv. 6. gr. að taka efnislega afstöðu til allra ákvæða viðaukans við ákvörðun um matsskyldu hverrar framkvæmdar um sig, heldur beri að hafa hliðsjón af viðmiðunum og fjalla um þau eftir atvikum hverju sinni."


Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum ber Skipulagsstofnun að leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls áður en tekin er ákvörðun um matsskyldu. Að mati Skipulagsstofnunar eru þannig leyfisveitendur og framkvæmdaraðili þeir einu sem skylt er að leita álits hjá áður en ákvörðunin er tekin. Skipulagsstofnun telur kæranda ekki til aðila máls vegna ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar, en bendir á að skv. 4. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, beri sveitarstjórn að leita eftir sjónarmiðum hans og tillögum vegna undirbúnings skipulagsáætlana, þar sem hann á hagsmuna að gæta vegna þeirra.


Skipulagsstofnun telur því að ekkert það hafi komið fram í kæru sem breyta eigi ákvörðun stofnunarinnar frá 16. júlí 2001 um matsskyldu landfyllingar við Kársnes í Kópavogi.


Framkvæmdaraðilar, Björgun ehf. og Bygg ehf. skiluðu sameiginlegri umsögn með bréfi dags. 3. september. Í umsögninni kemur fram að framkvæmdaraðilar telji að búast megi við óverulegu svifi rykagna frá framkvæmdum við landfyllingu í Kársnesi. Einungis lítill hluti uppfyllingarefnisins sé það fíngerður að hann geti þyrlast upp og svifið burtu á vindasömum dögum. Framkvæmdaraðilar benda á skilja megi sem svo í kæru Ora ehf. að ekki séu neinar rykagnir í andrúmslofti í nánd við verksmiðjuna eins og staðan er í dag. Benda framkvæmdaraðilar á að ryk geti borist víða að í umhverfi verksmiðjunnar og nægi þar að nefna svifryk frá umferð bíla þarna um, salt frá aðliggjandi hafsvæði og sand og svifryk frá ströndu við Nauthólsvík handan við Fossvog. Einnig sé og hafi verið um skeið unnið að endurbótum Reykjavíkurflugvallar. Efnið sem þar er notað er sjódælt og í líkingu við það efni sem notað verður í fyrirhugaða landfyllingu. Stórum hluta efnisins sem notað var við endurbætur Reykjavíkurflugvallar hafi verið komið fyrir í haugum hinum megin í Fossvogi, til móts við verksmiðju Ora ehf.


Þá benda framkvæmdaraðilar á að samkvæmt 5. tölul. 3. viðauka reglugerðar nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla, skuli loftræsting á athafnasvæðum matvælafyrirtækja vera fullnægjandi og þannig hönnuð að auðveldlega megi skipta um og þrífa síur og annan búnað sem fylgir kerfinu. Jafnframt sé í 4. viðauka sömu reglugerðar fjallað um sérstakar kröfur sem gerðar eru til húsakynna matvælafyrirtækja. Þar sé í 1. tölul. d. liðar kveðið á um að gluggar og önnur op skuli vera þannig frágengin að óhreinindi safnist ekki fyrir, skordýranet fyrir opnanlegum gluggum og ef að hætta sé á að óhreinindi eða mengun geti borist inn um opnanlega glugga, skuli þeir hafðir lokaðir á meðan á framleiðslu stendur. Framkvæmdaraðilar telja því líklegt að nú þegar sé verksmiðja Ora ehf. búin loftræstibúnaði til að verja hana utanaðkomandi rykmengun. Af því leiði að þó svo að ryk myndi í einhverjum tilvikum berast frá framkvæmdum við landfyllinguna, þá myndi það ekki hafa áhrif á starfsemi verksmiðjunnar. Hugsanleg mengunaráhrif framkvæmdarinnar séu því ekki þess eðlis að þau falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum.


Síðan segir í umsögn Bygg ehf. og Björgunar ehf.:



"...Framkvæmdaraðili bendir á að 10. gr. 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 fjallar um framkvæmdir á grunnvirkjum. Samkvæmt eðli þeirra framkvæmda sem heyra undir þennan lið og sér í lagi tilvísun reglugerðar í mögulega staðsetningu þeirra s.s. á verndarsvæðum, telur framkvæmdaraðili að ástæða þess að framkvæmdir falli undir þennan lið vera þær að gerð verði grein fyrir þeim varanlegu breytingum sem þessar framkvæmdir gætu haft á náttúru og lífríki á svæðum sem talin eru þess verð að vernda vegna þessara þátta. Framkvæmdaraðili telur að í greinargerð vegna fyrirspurnar um matsskyldu hafi verið skýrt frá því að fyrirhuguð landfylling muni ekki raska svæði sem er á náttúruminjaskrá eða hafi náttúrulega þætti sem vert er að vernda. Allsstaðar sem framkvæmdir og uppbygging eiga sér stað verður vart hjá því komist að rykmyndun verði á meðan á jarðvegsvinnu stendur og verða eigendur matvælafyrirtækja sem og annarra fyrirtækja og híbýla að lifa við það. Það eitt, að aukin rykmyndun eigi sér stað, gefur þó ekki tilefni til að mat á umhverfisáhrifum framkvæmda þurfi að fara fram."


Í umsögn Bygg ehf. og Björgunar ehf. er gerð athugasemd við tilvitnun kæranda í 6. gr. reglugerðar um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla, þar sem segir að matvælafyrirtæki megi ekki vera í beinu sambandi við óskyldan atvinnurekstur eða íbúð og skuli eigi staðsett nálægt atvinnurekstri sem geti haft mengandi áhrif á starfsemina. Í umsögninni segir að fyrirhuguð landfylling sé tímabundin framkvæmd og geti ekki flokkast sem atvinnurekstur í skilningi reglugerðarinnar.


Framangreindar umsagnir voru sendar til kæranda til athugasemda með bréfi ráðuneytisins, dags. 22. október 2001 og bárust athugasemdir hans með bréfi dags. 14. nóvember 2001.


Í athugasemdum kæranda er vakin athygli á að Hollustuvernd ríkisins telji að líkur séu á því að ryk geti myndast á ákveðnu tímabili framkvæmda, t.d. þegar ekki sé lengur hægt að sigla með efni inn á fyrirhugaða landfyllingu. Hins vegar treysti stofnunin sér ekki til að meta hvort fyrirtæki kæranda yrði óstarfhæft af þeim völdum. Kærandi telur ótvírætt að þetta skjóti stoðum undir kæru hans og er ósammála því mati Hollustuverndar ríkisins að slík áhrif geti ekki talist til umtalsverðra umhverfisáhrifa.


Að því er varðar umsögn Björgunar ehf. og Bygg ehf. vill kærandi taka fram, að starfsemi hans uppfylli í hvívetna ákvæði reglugerðar nr. 522/1994, um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla. Telur kærandi að þrátt fyrir þá staðreynd geti fyrirhuguð landfylling haft svo veruleg áhrif, að fyrirtæki hans verði óstarfhæft og krefst þess vegna, að fram fari mat á umhverfisáhrifum. Einnig vill kærandi taka fram að hann telur ekki unnt að bera saman umhverfisáhrif vegna vinnu við endurbætur á Reykjavíkurflugvelli, sem er hinum megin í voginum, við fyrirhugaða landfyllingu, sem verður í þriggja metra fjarlægð frá fyrirtæki kæranda.



IV. Niðurstaða


Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Skipulagsstofnunar verði felld úr gildi og að fram fari mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar landfyllingar og byggingar bryggjuhverfis við Kársnes í Kópavogi.


1.


Ráðuneytið tekur undir sjónarmið Skipulagsstofnunar um að umhverfisáhrif fyrirhugaðrar íbúðabyggðar á landfyllingunni falli utan gildissviðs laga um mat á umhverfisáhrifum og þar með utan ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matskyldu framkvæmdar. Umfjöllun um áhrif íbúðabyggðar á umhverfið fer fram við gerð skipulagsáætlana sveitarfélaga og breytinga á þeim skv. skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, og er í því ferli gert ráð fyrir að þeir sem hagsmuna hafa að gæta, geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri, sbr. 4. mgr. 9. gr. laganna.


2.


Framkvæmdir sem falla undir 2. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum skulu, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Fyrirhuguð landfylling við Kársnes í Kópavogi fellur undir h. lið 10. tölul. 2. viðauka. Samkvæmt l. lið 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, eru umtalsverð umhverfisáhrif skilgreind sem: "Veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum."


Kærandi telur að framkvæmdir við fyrirhugaða landfyllingu muni hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því skuli hún háð mati á umhverfisáhrifum. Vísar kærandi til þess að samkvæmt 3. viðauka laganna skuli m.a. líta til sjónarmiða er lúta að stærð og umfangi framkvæmdar, mengunar og ónæðis, þegar metið er hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. i. og v. lið 1. tölul. 3. viðauka. Telur kærandi að framkvæmdir við landfyllinguna muni skapa mikið ryk í norðan- og vestanátt, sem er ríkjandi á svæðinu. Óttast kærandi að fyrirtækið, sem stundar matvælaframleiðslu, verði óstarfhæft af þessum sökum og geti ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru til matvælafyrirtækja í reglugerð nr. 522/1994, um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla.


Skilgreiningu á hugtakinu mengun er að finna í 5. mgr. 3. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þar segir: "Með mengun er átt við það þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta." Að mati ráðuneytisins er ryk sem hugsanlega mun fjúka upp og berast um nágrenni fyrirhugaðrar landfyllingar, ekki mengun í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum. Hins vegar má flokka það sem ónæði, sbr. v. lið 1. tölul. 3. viðauka laganna.


Hollustuvernd ríkisins telur líkur á því að ryk geti myndast á ákveðnu tímabili framkvæmda en treystir sér ekki til að meta hvort fyrirtæki kæranda yrði tímabundið óstarfhæft af þeim sökum. Að mati Hollustuverndar teljast áhrif þessi ekki til umtalsverðra umhverfisáhrifa skv. 2. og 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Í umsögn Björgunar ehf. og Bygg ehf. kemur fram að búast megi við óverulegu svifi rykagna frá framkvæmdum við landfyllinguna í einstökum tilvikum, en það verði tímabundið ástand. Umsögn Kópavogsbæjar er á sömu leið.


Meðal þeirra viðmiða sem líta má til við mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar er umfang umhverfisáhrifa, þ.e. þess svæðis og fjölda fólks sem ætla má að verði fyrir áhrifum og tímalengd áhrifa, sbr. i. og iv. lið 3. tölul. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Óþægindi eða ónæði sem kærandi mun hugsanlega verða fyrir af völdum ryks frá framkvæmdum við landfyllinguna eru tímabundið ástand, sem ljúka mun þegar framkvæmdum lýkur. Jafnframt verður að telja að svæði það sem rykið gæti dreifst yfir verði ekki mjög stórt. Fyrirtæki kæranda er staðsett í þéttbýli þar sem má búast við ryki í lofti frá nánasta umhverfi, t.d. vegna umferðar, frá strönd Fossvogs eða vegna framkvæmda. Ljóst er að fyrirtæki sem stunda matvælaframleiðslu eru viðkvæm fyrir utanaðkomandi ryki og óhreinindum. Að mati ráðuneytisins geta þó tímabundin óþægindi á borð við þau sem kunna að verða vegna framkvæmda við landfyllinguna við Kársnes, hvorki talist veruleg óafturkræf umhverfisáhrif né veruleg spjöll á umhverfinu í skilningi l. liðar 3. gr. laganna. Fellst ráðuneytið því ekki á að framkvæmdir við fyrirhugaða landfyllingu við Kársnes í Kópavogi muni hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.


Ráðuneytið tekur undir það með Hollustuvernd ríkisins að fyrirhugaðar framkvæmdir falli ekki undir ákvæði 1. málsl. 2. tölul. 3. viðauka reglugerðar nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla. Þar segir: "Matvælafyrirtæki mega ekki vera í beinu sambandi við óskyldan atvinnurekstur eða íbúð og skulu eigi staðsett nálægt atvinnurekstri sem getur haft mengandi áhrif á starfsemina." Telur ráðuneytið að slíkar tímabundnar framkvæmdir geti ekki talist atvinnurekstur í skilningi ákvæðisins. Jafnframt vísar ráðuneytið til þess sem að framan greinir um að ryk af þessari gerð geti ekki talist mengun í skilningi laga.



3.


Kærandi telur að Skipulagsstofnun hefði, skv. 4. málsl. 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, átt að gefa kæranda kost á að koma á framfæri áliti vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar, áður en ákvörðun um matskyldu var tekin. Vísar kærandi jafnframt til reglna stjórnsýslulaga um andmælarétt, enda hafi hann átt að teljast aðili málsins eins og það hugtak hefur verið skýrt í stjórnsýslurétti.


Fyrirtæki kæranda er staðsett í nágrenni fyrirhugaðra framkvæmda og hefur því hagsmuna að gæta í málinu. Það leiðir þó ekki sjálfkrafa til þess að hann eða aðrir nágrannar teljist aðilar máls þegar ákvörðun er tekin um matskyldu, enda hvergi kveðið á um slíkt í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Frumkvæðið að þessu leyti verður að koma frá kæranda. Hins vegar er í lögunum gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun kynni niðurstöðu sína um matskyldu fyrir almenningi, sbr. 5. málsl. 2. mgr. 6. gr., og getur almenningur kært ákvarðanir Skipulagsstofnunar skv. 2. og 3. mgr. 6. gr., til umhverfisráðherra, sbr. 4. mgr. 6. gr. Það er mat ráðuneytisins að markmið framangreindra ákvæða sé fyrst og fremst að gefa þeim sem telja sig hafa hagsmuna að gæta, þ.á m. nágrönnum, kost á að gæta þeirra hagsmuna með kæru til æðra stjórnvalds.


Ákvæði 4. málsl. 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, kveður á um það hverjir eru lögbundnir umsagnaraðilar þegar Skipulagsstofnun tekur ákvörðun um matsskyldu. Samkvæmt ákvæðinu eru það leyfisveitendur, framkvæmdaraðilar og aðrir eftir eðli máls hverju sinni. Skipulagsstofnun getur, samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins, metið í hverju tilviki fyrir sig hvort óskað er eftir umsögn annarra en leyfisveitanda og framkvæmdaraðila.


Ráðuneytið fellst því ekki á þá röksemd kæranda að Skipulagsstofnun hefði átt að gefa honum kost á að tjá sig áður en ákvörðun um matskyldu var tekin, hvorki á grundvelli reglna stjórnsýslulaga um andmælarétt né ákvæðis 4. málsl. 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.



4.


Kærandi telur jafnframt að rökstuðningur Skipulagsstofnunar fyrir ákvörðun sinni um matskyldu sé ekki í samræmi við 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga og hafi stofnuninni borið að taka til úrlausnar þau sjónarmið sem leiða má af 1. tölul. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum og reifuð hafa verið hér að framan.


Ráðuneytið tekur undir það með Skipulagsstofnun að það fari eftir atvikum hverju sinni hver af sjónarmiðum 3. viðauka laganna höfð eru til hliðsjónar við ákvörðun um matskyldu. Í því máli sem hér um ræðir var ekki nauðsynlegt að taka efnislega afstöðu til þeirra allra. Að mati umsagnaraðila voru einkum tveir þættir sem landfyllingin var talin geta haft áhrif á, þ.e. fuglalíf og miðlínusendi Reykjavíkurflugvallar. Beinist rökstuðningur Skipulagsstofnunar að þessum þáttum. Ráðuneytið fellst því ekki á að rökstuðningur Skipulagsstofnunar hafi verið ófullnægjandi.


Með vísan til framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki beri að taka til greina kröfu kæranda um að fram fari mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar. Ákvörðun skipulagsstjóra frá 16. júlí 2001 skal því óbreytt standa.



Úrskurðarorð


Ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. júlí 2001 skal óbreytt standa.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum