Hoppa yfir valmynd
11. september 2002 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 02050017


Með bréfi, dags 29. apríl 2002, kærði Stefanía Katrín Karlsdóttir, einn eigenda jarðarinnar Eiríksstaða og Gnýstaða í Vopnafjarðarhreppi úthlutun á hreindýraarði fyrir árin 2000 og 2001 í Norður-Héraði og Vopnafjarðarhreppi.



I. Málsatvik og hin kærða ákvörðun



Samkvæmt 14. gr. laga um vernd friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1997, er það hlutverk hreindýraráðs að skipta arði af sölu veiðileyfa og afurða felldra dýra. Samkvæmt 1. gr. reglugerðar um skiptingu arðs af hreindýrum, nr. 454/2000 úthlutar hreindýraráð arði innan hvers sveitarfélags.



Ofangreind kæra varðar úthlutun á hreindýraarði í tveimur sveitarfélögum: Norður-Héraði og Vopnafjarðarhreppi. Tilkynnt var um úthlutun hreindýraarðs fyrir árið 2001 og endurúthlutun hreindýraarðs í Norður-Héraði með bréfi til sveitarfélaga á Austurlandi, dags. 3. apríl 2002 og með auglýsingu í Dagskránni" héraðsfréttablaði á Austurlandi þann 10. apríl 2002 þar sem fram kom að skrár með upplýsingum um arðinn liggi frammi hjá sveitar- og bæjarfélögum til skoðunar í einn mánuð.



Samkvæmt upplýsingum Hreindýraráðs var úthlutun hreindýraarðs fyrir árið 2000 í Vopnafjarðarhreppi lokið þann 19. desember 2000. Samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 73/1997, skal kæra borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Samkvæmt 28. gr. sömu laga skal vísa kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila skal kæru þó ekki sinnt. Framangreind kæra barst ráðuneytinu 2. maí 2002 eða rúmum sextán mánuðum eftir að úthlutun í Vopnafjarðarhreppi fyrir árið 2000 var lokið samkvæmt upplýsingum hreindýraráðs. Með bréfi, dags. 20. ágúst 2002, var kæranda kynnt sú afstaða ráðuneytisins að ráðuneytið teldi rétt að vísa þeim hluta kærunnar frá er varðar úthlutun á hreindýraarði fyrir árið 2000 vegna Gnýstaða í Vopnaafjarðarhreppi.



II. Kröfur og málsástæður kæranda



Kærandi fer fram á að hreindýraarður verði greiddur til jarðeigenda Eiríksstaða. Í kæru segir að fyrrverandi ábúandi á Eiríksstöðum I sem hætt hafi búskap fyrir mörgum árum fái greiddan arð. Kærandi tilgreinir nokkrar jarðir á Jökuldal þar sem hún telur að jarðeigandi en ekki ábúandi hafi fengið greiddan arð og þar sem hún telur að um eyðijarðir sé að ræða og jarðeigandi fái greiddan arð.



Kærandi fer einnig fram á hreindýraarð vegna Gnýstaða í Vopnafirði.



III. Umsagnir, athugasemdir og önnur gögn



Með bréfum, dags. 4. júní 2002, var ofangreind kæra send til umsagnar Hreindýraráðs, Náttúrustofu Austurlands og Norður-Héraðs. Með bréfi, dags. 2. september var jarðanefnd Vopnafjarðarhrepps einnig send kæran til umsagnar að því er varðar not jarðarinns Gnýstaða í Vopnafjarðarhreppi.



Í umsögn Hreindýraráðs, dags. 16. júní 2002, segir:





Úthlutun arðs byggist á upplýsingum sem fegnar eru úr Landskrá fasteigna hjá Fasteignamati ríkisins, þ.e. Fasteignamat ríkisins lætur hreindýraráði í té yfirlit yfir alla eigendur jarða á Austurlandi, ásamt þeim upplýsingum sem fram koma í skránni um eigendur, ábúendur og eignarhlutföll, auk upplýsinga um fasteignamat lands, sem er hluti af útreikningi við úthlutun arðs. Þetta yfirlit er endurskoðað árlega og lagfært í samræmi við breytingar sem orðið hafa á skrá yfir eigendur jarða og breytingar á fasteignamati lands.


Sækja þarf um rétt til þess að nota skrár Fasteignamatsins í hvert skipti sem úthlutað er og upphaflega var fengið samþykki Tölvunefndar til að mega nota þessar upplýsingar.



Hreindýraráð hefur ekki aðgang að neinum nákvæmari eða nýrri upplýsingum um eigendur jarða eða ábúendur þeirra. Vegna staðþekkingar þeirra sem annast mat og útreikninga, þ.e. fulltrúa Náttúrustofu Austurlands og starfsmanns og ráðsmanna í hreindýraráði er af fremsta megni reynt að skrá inn nýja ábúendur eða eigendur jarða, þótt breytingarnar hafi ekki enn náð inn í skrár Fasteignamatsins, en á hverju ári eru dæmi um slíkar breytingar.


Notkun þessara upplýsinga byggir á ákvæðum í lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, en þar segir m.a. í 4. grein:" Skráning skv. 1. gr. á fasteignum skv. 3. gr. skal fela í sér nýjustu upplýsingar, sem á hverjum tíma eru tiltækar og fasteignina varða, auk nauðsynlegra greinitalna hverrar fasteignar." Einnig er byggt á reglugerð nr. 406/1978 um fasteignaskráningu og fasteignamat, þar segir m.a. í 1. grein: Skráning á fasteignum skal fela í sér nýjustu upplýsingar sem tiltækar eru um eftirtalin atriði, sem fasteign varðar, auk nauðsynlegra greinitalna hverrar fasteignar:..... 4. Sérgreindar upplýsingar um bújarðir. Nafngreina skal eiganda jarðar og ábúanda. Einnig skal tilgreina nöfn eigenda annarra réttinda yfir hinni skráðu eign ásamt nafnnúmeri eða fyrirtækisnúmeri. Að auki skulu skráðar upplýsingar, sem varða búskaparstöðu og legu gagnvart þjónustu, eftir því sem henta þykir."


Grundvallarregla sem gegnið er út frá við arðsúthlutun er að úthluta arði til ábúanda jarðar, jafnvel þótt hann sé ekki eigandi jarðar, enda er litið svo á að ábúandi nýti jörðina ásamt gögnum hennar og gæðum. Er þetta gert hvort sem um er að ræða jörð í einkaeign eða jörð í eigu ríkisins. Ef eitthvað sérstakt samkomulag er milli jarðeiganda og ábúanda, sem gæti breytt þessu er nauðsynlegt að viðkomandi leysi það mál sjálfir eða komi þeim upplýsingum til hreindýraráðs, sem gæti þá úthlutað í samræmi við það samkomulag.


Vegna þeirra dæma sem Stefanía nefnir er rétt að fram komi að dæmin sem hún nefnir standast ekki og er í því sambandi vísað til aðskrár fyrir N-Hérað fyrir árin 2000 og 2001.



............


Skv. fasteignamati er Björgvin Geirsson skráður ábúandi (101) á Eiríksstöðum I árin 2000 og 2001, auk þessa hefur Björgvin sjálfur staðfest við starfsmann hreindýraráðs að hann sé ábúandi jarðarinnar. Hann fær því arð þessara ára, Sigurjón Guðmundsson er skráður ábúandi (101) á Eiríksstöðum II árið 2000 en seldi jörðina á miðju ári 2001. Hann fær því arðinn fyrir árið 2000 og helming arðs fyrir árið 2001, hinn helminginn fær Bragi S. Björgvinsson en hann tók við búi á Eiríksstöðum II 1. júlí 2001. Í fasteignaskrá kemur ekki fram að Stefanía K. Karlsdóttir eigi hlut í Eiríksstöðum, en faðir hennar er Karl Jakobsson, einn eigenda Eiríksstaða I. "



Þá segir að vegna úthlutunar á Hákonarstöðum I og II hafi verið gerð breyting fyrir árið 2001, þar sem ekki var talið eðlilegt að úthlutun færi í fjóra staði eins og árið áður þar sem aðeins væri um tvo ábúendur að ræða. Svo segir




Við eftirgrennslan kom í ljós að Gréta Dröfn Þórðardóttir ábúandi á Hákonarstöðum I nytjaði land Breiðalækjar, föður síns sem ekki bjó lengur. Sama er að segja um jörð Ragnars Sigvaldasonar Arnórsstaði 3 en þá jörð nytjar sonur hans Sigvaldi H. Ragnarsson ábúandi að Hákonarstöðum II. Við úthlutun arðs fyrir árið 2001 var landstærð og fasteignamati umræddra jarða bætt við jarðir Hákonarstaða I og II eins og vaninn er.



4. Arnórsstaðir:




Jarðareigandi á Arnórsstöðum, sem er eyðijörð fær greiddan arð. Sama gildir um jarðeiganda Laugavalla og aðra eigendur eyðijarða. Ljóst er að ekki er heimilt að mismuna jarðeigendum varðandi arðgreiðslur, eftir því hvort jörð er í byggð eða er í eyði, þess vegna fá allir eigendur eyðijarða greiddan arð í samræmi við úthlutunarreglur sem unnið er eftir, þ.e. reglugerð nr 454/2000.




5. Gnýstaðir, Vopnafirði:



FM LS HG LS HG Samt.



















Gnýstaðir


Eyðijörð, nytjað


Alexander Árnason


100,00


001


52


15%


10%


0


964


2064


11168





Skv. fasteignamatsskrá er Alexander Árnason eigandi jarðarinnar Gnýstaða í Vopnafirði og fær hann því greiddan allan arðinn, sem er kr. 14.195,- fyrir árið 2001."



..........



Úthlutun arðs hefur verið í höndum hreindýraráðs í tvö ár, þ.e. frá því að ný lög tóku gildi árið 2000, þ.e. lög nr. 100/2000. Eldri úthlutanir eru ráðinu óviðkomandi, en ekki verður séð að hægt sé að kæra úthlutanir mörg ára aftur í tíman. Það er mat hreindýraráðs, að kærufrestur vegna úthlutunar fyrir árið 2000 sé liðinn.



Ekki er hægt að útiloka að unnt sé að finna einhverja hnökra á úthlutun, enda er verið að skipta arði niður á u.þ.b. 530 jarðir á Austurlandi. Þess vegna var sett inn ákvæði í reglugerð um stjórn hreindýraveiða nr. 452/2000 sem segir: "Endurskoða skal reglugerð þessa með hliðsjón af fenginni reynslu og skal því lokið eigi síðar en 1. júlí 2003."


Hreindýraráð hafnar þeirri túlkun Stefaníu Katrínar Karlsdóttur, að mikið misræmi sé í því hvaða einstaklinger eru að fá greiddan arð. Þvert á móti fullyrðir ráðið að fyllstu sanngirni sé gætt við úthlutun og að þeir sem að útreikningi koma leggi sig alla fram um að úthluta arði í samræmi við reglugerð nr. 454/2000 og nýti staðþekkingu sína til að leiðrétta þær breytingar, sem ekki hafa verið fluttar inn í fasteignaskrá milli ára.



Auk þessa er arðskrá lögð fram til kynningar og skoðunar í öllum sveitarfélögum þar sem arði er úthlutað og beinlínis óskað eftir athugasemdum, ef einhverjar eru.


Kæra Stefaníu K. Karlsdóttur er þannig eina formlega athugasemdin, sem hefur borist vegna arðsúthlutunar fyrir árið 2001.


Vegna þeirra dæma sem Stefanía nefnir er rétt að fram komi að dæmin sem hún nefnir standast ekki og er í því sambandi vísað til arðskrár fyrir N-Hérað fyrir árin 2000 og 2001.


Hreindýraráð leggur því til að öllum liðum í kæru Stefaníu K. Karlsdóttur verði hafnað."




Í umsögn sveitarstjórnar Norður-Héraðs, dags. 18. júní 2002, segir m.a. að Björgvin Geirsson hafi haft ábúð á hluta jarðarinnar Eiríksstaða á Norður-Héraði án byggingarbréfs í yfir 30 ár og nytjað þann hluta áfram eftir að hann flutti búsetu af jörðinni.



Í umsögn Náttúrustofu Austurlands, dags. 13. júní 2002, segir að stofan telji kæruna ekki snerta starfssvið sitt þar sem hún varði ekki ágang hreindýra á umræddar jarðir.



Með bréfi, dags. 21. júní 2002, óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum sýslumannsins á Seyðisfirði um þinglýsta eigendur jarðanna Eiríksstaða á Norður-Héraði og Gnýstaða í Vopnafjarðarhreppi. Í bréfi sýslumannsins á Seyðisfirði, dags. 14. ágúst 2002, er gerð grein fyrir þinglýstum eigendum og eignarheimildum.



Með bréfi, dags. 24. júní 2002, var Björgvini Geirssyni, Eiríksstöðum, gefinn kostur á að gera athugasemdir við fram komna kæru. Í athugasemdum hans, dags. 2. júlí 2002, segir að hann og eiginkona hans Sigrún Jóhannsdóttir hafi stundað búskap á Eiríksstöðum frá árinu 1975 en síðan 1996 hafi þau verið talsvert á Egilsstöðum vegna vinnu sinnar. Þau eigi allar framkvæmdir á jörðinni og hafi ávallt séð um fjallskil á henni. Engin hafi til þessa gert athugasemd við ábúð þeirra á jörðinni síðustu árin. Jafnframt vísa þau til 2. mgr. 4. gr. og 24. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976.



Með bréfi, dags. 24. júní 2002, var Alexander Árnasyni gefinn kostur á að gera athugasemdir við fram komna kæru. Engar athugasemdir bárust



Erindi ráðuneytisins til jarðanefndar Vopnafjarðarhrepps var framsent til landbúnaðarnefndar Vopnafjarðarhrepps. Landbúnaðarnefnd svaraði ráðuneytinu með bréfi dags. 5. september 2002 að höfðu samráði við sveitarstjóra Vopnafjarðarhrepps og viðtali við Alexander Árnason. Í umsögninni segir að ekki hafi verið búið á jörðinni Gnýstöðum síðan 1945. Landið sé ógirt og því gangi þar þó nokkurt fé og fjallskilasjóður annist fjallskil af jörðinni.



IV. Niðurstaða



1. Úthlutun á jörðina Eiríksstaði, Norður-Héraði


Samkvæmt upplýsingum hreindýraráðs var hreindýraarður fyrir árið 2000 greiddur Björgvini Geirssyni og Sigurjóni Guðmundssyni vegna Eiríksstaða á Norður-Héraði og fyrir árið 2001 sömu aðilum auk Braga S. Björgvinssonar sem keypti hlut Sigurjóns Guðmundssonar í jörðinni.



Í bréfi sýslumannsins á Seyðisfirði, dags. 14. ágúst 2002, kemur fram að Björgvin Geirsson er ekki þinglýstur eigandi að jörðinni Eiríksstöðum en kærandi er talinn eiga 2,5% jarðarinnar. Samkvæmt upplýsingum sýslumannsins á Seyðisfirði sbr. og umsögn sveitarstjórnar Norður-Héraðs hefur ekki verið útbúið byggingarbréf vegna ábúðar Björgvins Geirssonar.



Í 1. gr. reglugerðar um skiptingu arðs af hreindýraveiðum, nr. 454/2000 segir:




Skulu eingöngu þeir sem fyrir ágangi hreindýra verða á lönd sín njóta arðsins. Af hverju felldu dýri fari kr. 4.000 til ábúanda eða umráðanda, eftir atvikum þeirrar jarðar sem dýr er fellt á. Eftirstöðvar skiptast sem hér segir:....."



Samkvæmt umsögn hreindýraraðs hefur sú verklagsregla verið viðhöfð að úthluta arði til ábúanda þeirra jarða sem eru í ábúð þegar ábúandi er annar en eigandi.



Samkvæmt 2. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976, skal hver sá, sem á jörð og rekur ekki bú á henni sjálfur skyldur að byggja hana hæfum umsækjanda að dómi jarðanefndar. Í 6. gr. ábúðarlaga segir hins vegar:




Nú hefur landsdrottinn vanrækt að gera byggingarbréf fyrir jörð, og skal þá svo telja. að hún hafi verið byggð lífstíð leigutaka og eftirgjald skal ákveðið af jarðanefnd nema um annað semjist."



Í 21. gr. sömu laga segir:


Skylt er leiguliða að eiga lögheimili á ábúðarjörð sinni, nytja hana og reka þar bú, nema sveitarstjórn og landsdrottinn samþykki annað."



Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976 teljast til leiguliðaafnota öll hús, mannvirki, ræktun, svo og hlunnindi, er jörðinni fylgja, svo sem lax- og silungsveiði, sellátur, eggver og annað, sem leiguliðaafnotum hefur fylgt að fornri landsvenju, nema sérstakur samningur sé um annað, sbr. 2. gr. laga um lax- og silungsveiði.



Í 2. mgr. 4. gr. segir:



Undanskilin leiguliðaafnotum eru vatnsréttindi, þar með talið jarðhiti, námur, byggingarefni, svo sem sand- og malarnámur og önnur jarðefni, sem ekki geta talist til venjulegra leiguliðanota af jörð, einnig land til nauðsynlegra bygginga, til þess að eigandi geti hagnýtt þessi efni. Þó á leiguliði rétt á vatni til áveitu og heimilisrafstöðvar og til upphitunar á húsum jarðar, þar með talin gróðurhús til eigin atvinnurekstrar, svo og byggingarefni til búsþarfa. Leiguliði á rétt á bótum fyrir jarðrask og átroðning, sem leiðir af virkjun vatns eða starfrækslu þvílíkra fyrirtækja."



Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár á Björgvin Geirsson lögheimili að Eiríksstöðum. Fasteignamat tilgreinir Björgvin ábúanda. Jafnframt er hann tilgreindur eigandi að íbúðarhúsi og fjósi en samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hefur þeim eignum ekki verið þinglýst. Í umsögn sveitarstjórnar Norður-Héraðs og athugasemdum Björgvins Geirssonar og Sigrúnar Jóhannsdóttur segir að þau hjón hafi haft ábúð á jörðinni undanfarin ár.



Með vísan til þess sem að framan segir telur ráðuneytið rétt að líta svo á að Björgvin Geirsson sé ábúandi að Eiríksstöðum í skilningi 1. gr. reglugerðar um skiptingu arðs af hreindýraveiðum.



Ráðuneytið telur arð af hreindýraveiðum eðlileg leiguliðaafnot sbr. þær meginreglur sem fram koma í ofangreindum ákvæðum og að verklagsregla hreindýraráðs, að úthluta arði til ábúanda þeirra jarða sem eru í ábúð þegar ábúandi er annar en eigandi, samræmast reglugerð um skiptingu arðs af hreindýrum.



Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár átti Sigurjón Guðmundsson lögheimili á Eiríksstöðum frá árinu 1985 til 22. júní 2001. Samkvæmt upplýsingum sýslumannsins á Seyðisfirði var Sigurjón þinglýstur eigandi að hluta Eiríksstaða til miðs árs 2001 er hann seldi Norður-Héraði hlut sinn. Samkvæmt sömu upplýsingum Þjóðskrár hefur Bragi S. Björgvinsson átt lögheimili að Eiríksstöðum síðan 16. maí 2000 en þann 5. júlí 2001 afsalaði Norður-Hérað honum þeim þeim hlut er sveitarfélagið hafði keypt af Sigurjóni Guðmundssyni.



Með vísan til þess að Sigurjón Guðmundsson og Bragi S. Björgvinsson voru eigendur og þar með umráðendur hluta jarðarinnar Eiríksstaða og jafnframt með lögheimili á jörðinni þann tíma sem úthlutun hreindýraarðs til þeirra nær yfir telur ráðuneytið þá ábúendur á jörðinni í skilningi 1. gr. reglugerðar um skiptingu arðs af hreindýraveiðum.



Ráðuneytið staðfestir því greiðslur hreindýraarðs til ofangreindra aðila vegna Eiríksstaða fyrir árin 2000 og 2001 og er kröfum kæranda að þessu leyti því hafnað.



2. Úthlutun á jörðina Gnýstaði, Vopnafjarðarhreppi


Hreindýraráð hefur úthlutað hreindýraarði frá árinu 2000. Samkvæmt upplýsingum ráðsins hafa upplýsingar úr fasteignamati frá Fasteignamati ríkisins verið notaðar sem grunnupplýsingar um jarðir og rétthafa hreindýararðs. Sótt er um aðgang að upplýsingum Fasteignamats ríkisins árlega. Áður en úthlutað var fyrir árið 2000 var listi yfir væntanlega rétthafa arðgreiðslna, sendur viðkomandi sveitarfélögum til athugasemda. Þegar nær leið úthlutun voru drög að arðskrá einnig send sveitarfélögunum. Ekki komu samkvæmt upplýsingum ráðsins fram athugasemdir við tilgreiningu Alexanders Árnasonar sem umráðanda jarðarinnar.



Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár á Alexander Árnason lögheimili að Þverholti 10 en enginn er skráður til heimilis að Gnýstöðum. Samkvæmt upplýsingum sýslumannsins á Seyðisfirði er Alexander eigandi 1/7 jarðarinnar en kærandi 1/63 hennar. Jarðeigendur eru alls 17 talsins samkvæmt upplýsingum embættisins.



Í svari landbúnaðarnefndar Vopnafjarðarhrepps til ráðuneytisins, dags. 5. september 2002, segir að ekki hafi verið búið á jörðinni Gnýstöðum síðan 1945. Landið sé ógirt og því gangi þar þó nokkurt fé og fjallskilasjóður annist fjallskil af jörðinni.



Þar sem Alexander Árnason á ekki lögheimili að Gnýstöðum og fyrirliggjandi upplýsingar benda ekki til þess að hann nýti jörðina umfram aðra eigendur telur ráðuneytið ekki unnt að líta svo á að hann sé ábúandi né einn umráðandi jarðarinnar.



Samkvæmt upplýsingum sýslumannsins á Seyðisfirði var hluta jarðarinnar Gnýstaða afsalað til kæranda þann 1. ágúst 2001. Ráðuneytið telur því að kæranda beri greiðsla hreindýraarðs sem samsvarar eignarhlut hennar í jörðinni



Ráðuneytið fellst því á kröfu kæranda um að henni verði greiddur hreindýraarður vegna jarðarinnar Gnýstaða fyrir tímabilið ágúst til og með desember 2001 að því er varðar eignarhlut hennar.



3. Niðurstaða


Þar sem í máli þessu er ekki deilt um fjárhæð arðs á viðkomandi jarðir heldur einungis hverjum beri að greiða þann arð sem fellur á viðkomandi jörð telur ráðuneytið ekki forsendur til að fjalla um efnislegan grundvöll úthlutunar hreindýraarðs í viðkomandi sveitarfélögum. Ráðuneytið telur því að framangreind niðurstaða 2. liðar varði ekki ógildingu úthlutunarinnar í viðkomandi sveitarfélögum.




V. Úrskurðarorð



Kröfum kæranda um að hreindýraarður fyrir árin 2000 og 2001 verði greiddur til jarðeigenda Eiríksstaða Norður-Héraði er hafnað. Fallist er á kröfu kæranda um greiðslu hreindýraarðs vegna jarðarinnar Gnýstaða fyrir tímabilið ágúst til og með desember 2001 að því er varðar eignarhlut hennar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum