Hoppa yfir valmynd
9. desember 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 11040114

Þann 3. nóvember 2011 er kveðinn upp í umhverfisráðuneytinu svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

Ráðuneytinu barst þann 26. apríl 2011 kæra Hjalta Björnssonar vegna tafa á afgreiðslu Umhverfisstofnunar á umsókn um starfsleyfi til að gerast leiðsögumaður með hreindýraveiðum. Kæruheimild er í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

I. Kæruatriði og umsögn Umhverfisstofnunar.

Í kærunni kemur fram að kærandi hafi sent Umhverfisstofnun umsókn um starfsleyfi til að gerast leiðsögumaður með hreindýraveiðum. Með umsókninni hafi verið send gögn sem kærandi taldi að þyrftu að fylgja til að fullnægja skilyrðum reglugerðar. Sendi kærandi ítrekunarbréf til Umhverfisstofnunar vegna umsóknarinnar og hringdi einnig í framhaldi af því bréfi þegar ekki barst svar við umsókninni. Í því símtali var honum tjáð að umsóknin hafi ekki verið tekin til afgreiðslu.

Í umsögn Umhverfisstofnunar dags. 18. október sl. kemur fram að stofnuninni hafi þann 20. febrúar 2011 borist erindi kæranda, dagsett 12. febrúar 2011, þar sem sótt hafi verið um starfsleyfi til leiðsagnar við hreindýraveiðar. Hafi kærandi ítrekaði erindi sitt skriflega með erindi dagsettu 23. mars 2011. Þann 13. maí 2011 hafi Umhverfisstofnun sent erindi kæranda til umsagnar Hreindýraráðs og hafi umsögn ráðsins borist 20. maí 2011 en í henni hafi ráðið lagst gegn veitingu leyfis til umsækjanda um að gerast leiðsögumaður með hreindýraveiðum. Þann 17. október sl. hafi Umhverfisstofnun sent kæranda bréf þar sem óskað sé frekari gagna varðandi umsókn hans og í bréfinu komi fram að berist stofnuninni fullnægjandi gögn megi búast við að afgreiðslu erindisins verði lokið innan viku frá því að gögn berist. Fram kemur að ljóst sé að verulegar tafir hafa orðið á afgreiðslu Umhverfisstofnunar á erindi umsækjanda og verði einkum bent á tvo þætti sem leitt hafi til tafa. Í fyrsta lagi hafi álag í málaflokknum verið mjög mikið en á vordögum hafi tekið gildi ný lög um veitingu leiðsöguréttinda við hreindýraveiðar. Þá hafi einnig verið, í fyrsta sinn í allmörg ár, haldið námskeið fyrir verðandi leiðsögumenn og í kjölfar þess hafi borist á fjórða tug umsókna um leiðsöguréttindi og leysa hafi þurft úr ýmsum álitamálum við meðferð þeirra umsókna. Fram kemur að kærandi sæki um leyfi til leiðsagnar án þess að hafa lokið námskeiði á vegum Umhverfisstofnunar en byggi á því að hafa lokið sambærilegu námi annars staðar. Afgreiðsla slíkra umsókna kalli á umfangsmeiri yfirferð en umsóknir frá þeim aðilum sem sótt hafa námskeið stofnunarinnar. Einnig sé nauðsynlegt að taka afstöðu til umsagnar Hreindýraráðs. Jafnframt segir í umsögn Umhverfisstofnunar að stofnunin harmi það að meðferð umsóknar kæranda hafi dregist þegar álag í málaflokknum hafi orðið sem mest og að það muni veita afgreiðslu erindisins forgang þegar umbeðin viðbótargögn hafa borist stofnuninni.

II. Forsendur og niðurstaða ráðuneytisins.

Í framhaldi af kæru Hjalta Björnssonar sendi ráðuneytið þann 12. maí sl. fyrirspurn með tölvupósti til Umhverfisstofnunar þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort að búið væri að svara umræddri umsókn og ef svo væri ekki þá var þess óskað að upplýsinga yrðu veittar um hvað liði afgreiðslu umsóknarinnar. Þann 13. maí sl. barst ráðuneytinu svar með tölvupósti frá Umhverfisstofnun þar sem fram kom að umsóknin væri til umsagnar hjá Hreindýraráði og að upplýsingar um þann tíma sem áætlað væri að tæki að svara umsókninni yrði sendar ráðuneytinu. Þær upplýsingar bárust ekki og þann 23. maí sl. sendi ráðuneytið bréf til Umhverfisstofnunar þar sem óskað var eftir umsögn um framkomna kæru og að umsögnin yrði send ráðuneytinu eigi síðar en 3. júní nk, var afrit af bréfi þessu sent kæranda. Þann 26. maí sl. barst ráðuneytinu tölvupóstur frá Umhverfisstofnun þar sem fram kom að umsögn hreindýraráðs lægi fyrir í málinu og verið væri að semja svar við umsókninni ásamt tveimur öðrum umsóknum. Fram kom að áætlað væri að svar þetta lægi fyrir samdægurs eða daginn eftir. Þann 22. júlí sl. sendi ráðuneytið bréf til Umhverfisstofnun þar sem beiðni um umsögn var ítrekuð og að umsögnin yrði send ráðuneytinu eigi síðar en 5. ágúst. Þann 5. ágúst sl. barst ráðuneytinu bréf frá Umhverfisstofnun þar sem óskað var eftir fresti til 12. ágúst til að afgreiða erindið. Þann 13. september sl. sendi ráðuneytið tölvupóst til Umhverfisstofnunar þar sem óskað var upplýsinga um hvort að búið væri að svara umsókn kæranda og ef svo væri ekki þá var þess óskað að upplýsinga yrðu veittar um hvað liði afgreiðslu umsóknarinnar. Engin svör bárust. Þann 11. október sl. sendi ráðuneytið tölvupóst til Umhverfisstofnunar þar sem óskað var upplýsinga um hvar málið væri statt og jafnframt var þess beiðst að umsókn kæranda yrði svarað í síðasta lagi 14. október sl. Þann 18. október sl. barst ráðuneytinu afrit af svari Umhverfisstofnunar við umsókn kæranda dags. 17. október sl. og þann 19. október barst ráðuneytinu umsögn stofnunarinnar vegna stjórnsýslukæru dags. 18. október sl.

Umhverfisstofnun barst þann 20. febrúar 2011 umsókn kæranda um starfsleyfi til að gerast leiðsögumaður með hreindýraveiðum.Um starfsleyfi til að gerast leiðsögumaður með hreindýraveiðum gilda lög nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Með lögum nr. 63/2011 voru gerðar breytingar á 14. gr. laga nr. 64/1994 sem fjallar um hreindýraveiðar en með lögunum voru m.a. gerðar breytingar á skilyrðum þeim sem umsækjendur þurfa að uppfylla til að gerast leiðsögumenn með hreindýraveiðum. Þær breytingar sem um ræðir tóku gildi þann 15. júní sl. og því gilda lög nr. 64/1994 eins og þau voru fyrir gildistöku laga nr. 63/2011 um afgreiðslu umsóknar kæranda um starfsleyfi sem hér um ræðir. Í 9. mgr. 14. gr. laga nr. 64/1994 segir að enginn geti tekið að sér leiðsögn með hreindýraveiðum nema hann hafi til þess leyfi Umhverfisstofnunar. Í 12. gr. reglugerðar nr. 486/2003 um stjórn hreindýraveiða kemur fram að enginn geti gerst leiðsögumaður með hreindýraveiðum nema hann hafi hlotið starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Starfsleyfi skuli veitt að fenginni umsögn Hreindýraráðs til allt að 4 ára í senn og miðist við tiltekin veiðisvæði. Til að geta hlotið starfsleyfi sem leiðsögumaður þurfi umsækjandi að uppfylla skilyrði meðal annars varðandi skotvopnaleyfi, þekkingu og reynslu af veiðum, fláningu og meðferð afurða hreindýra, hafa staðfestingu á þátttöku í ýmsum námskeiðum eins og líffræði, vistfræði og náttúruvernd, leiðsögn, meðferð skotvopna, siðfræði og fleira.

Hvorki í lögum nr. 64/1994 né reglugerð nr. 486/2003 er kveðið á um þá tímafresti sem Umhverfisstofnun hefur til að afgreiða umsókn um leyfi til að gerast leiðsögumaður með hreindýraveiðum. Eins og áður segir barst Umhverfisstofnun umsókn kæranda þann 20. febrúar 2011 og svaraði stofnunin umsókn kæranda fyrst með bréfi dags. 17. október sl. þar sem óskað er frekari gagna varðandi umsókn hans eða tæpum átta mánuðum eftir að umsókn kæranda barst stofnuninni. Þar kemur einnig fram að skýringar á töfum þeim sem orðið hafa sé um að kenna annars vegar mannlegum mistökum en hins vegar miklu álagi í málaflokknum undanfarna mánuði. Í umsögn Umhverfisstofnunar frá 18. október sl. til ráðuneytisins kemur fram að svar við umsókn kæranda hafi tafist vegna mikils álags á málaflokknum og að afgreiðsla á umsókn kæranda hafi kallað á umfangsmeiri yfirferð vegna þess að kærandi hafi ekki lokið námskeiði á vegum Umhverfisstofnunar heldur hafi byggt umsókn sína á því að hafa lokið sambærilegu námi annars staðar. Einnig kemur fram að nauðsynlegt hafi verið að taka afstöðu til umsagnar Hreindýraráðs.

Í 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að ákvarðanir í málum skuli teknar eins fljótt sem unnt er en í því felst að stjórnvöldum ber almennt að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa. Ef fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber stjórnvöldum að skýra málsaðila frá því, en með töfum er átt við það þegar afgreiðsla máls hefur dregist nokkuð fram yfir þann tíma sem venjulega tekur að afgreiða sambærileg mál. Samkvæmt framangreindu liðu um átta mánuðir frá því að umsókn kæranda barst og fimm mánuðir frá því að umsögn Hreindýraráðs barst þar til Umhverfisstofnun svaraði umsókninni og þrátt fyrir að ráðuneytið hafi ítrekað sent fyrirspurnir til Umhverfisstofnunar um stöðu á afgreiðslu umsóknarinnar. Telur ráðuneytið að þegar umsögn Hreindýraráðs barst þ.e. 20. maí sl. hafi Umhverfisstofnun haft nægjanleg gögn undir höndum til að bregðast við umsókninni eins og stofnunin gerði síðar með svari sínu til kæranda þann 17. október sl. Þrátt fyrir að umsókn kæranda hafi, að mati Umhverfisstofnunar, kallað á umfangsmeiri yfirferð vegna þess að kærandi hafi ekki lokið námskeiði á vegum Umhverfisstofnunar skýrir það ekki að mati ráðuneytisins þann langa tíma sem Umhverfisstofnun hefur tekið að svara umsókninni. Ennfremur er sú skýring gefin á töfunum í svari Umhverfisstofnunar til kæranda að um mannleg mistök sé að ræða en ekki kemur fram í hverju þau mistök séu fólgin. Að mati ráðuneytisins eru samkvæmt framangreindu ekki fyrir hendi í málinu nægjanlegar ástæður fyrir þeim töfum sem urðu á svari Umhverfisstofnunar við umsókn kæranda og ekki liggur fyrir að Umhverfisstofnun hafi skýrt kæranda frá því að slíkar tafir væru fyrirsjáanlegar eins og mælt er fyrir um í 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til framangreinds er það mat ráðuneytisins að óhæfilegar tafir hafi orðið á afgreiðslu umsóknar kæranda um starfsleyfi til að gerast leiðsögumaður með hreindýraveiðum og að afgreiðsla málsins hafi því farið í bága við ákvæði 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Úrskurðarorð:

Afgreiðsla Umhverfisstofnunar á umsókn kæranda dags. 12. febrúar 2011 um starfsleyfi til að gerast leiðsögumaður með hreindýraveiðum fór í bága við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrir hönd ráðherra

Magnús Jóhannesson

Íris Bjargmundsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum