Hoppa yfir valmynd
9. mars 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 09070115

Þann 2. mars 2010 var í umhverfisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi :

Úrskurður:

 

Ráðuneytinu bárust þann 27. júlí 2009 stjórnsýslukærur frá Kristbjörgu Eyvindardóttur, f.h. eigenda og ábúenda Auðholtshjáleigu og Grænhóli í Ölfusi, Trausta Þóri Guðmundssyni svo og Andrési Sigurbergssyni og Dís Aðalsteinsdóttur vegna ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 13. júlí 2009 um útgáfu starfsleyfis til handa Sorpstöð Suðurlands bs., til að urða allt að 30.000 tonn af almennum óvirkum úrgangi á ári í landi Kirkjuferjuhjáleigu í Sveitarfélaginu Ölfusi. Kæruheimild er í 2. mgr. 32. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

 

I. Málavextir

 

Sorpstöð Suðurlands bs. lagði inn umsókn til Umhverfisstofnunar, dags. 6. október 2008, um endurnýjun starfsleyfis frá 2004 fyrir urðunarstað að Kirkjuferjuhjáleigu í sveitarfélaginu Ölfusi. Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að nýju starfsleyfi á tímabilinu 14. apríl – 12. júní 2009 og bárust átta athugasemdir við tillöguna en þar af voru fimm samhljóða undirskriftalistar. Umhverfisstofnun sendi þeim sem gerðu athugasemdir við auglýsta starfsleyfistillögu fyrir Sorpstöð Suðurlands bs. greinargerð þann 13. júlí 2009. Umhverfisstofnun gaf svo út starfsleyfi til handa Sorpstöð Suðurlands bs. þann 13. júlí 2009 í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerðar nr. 738/2003 um urðun úrgangs og gildir starfsleyfið til 13. júlí 2025.

 

 

Af hálfu ráðuneytisins var aflað umsagna frá Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og Sorpstöð Suðurlands bs. með bréfum dags. 28. júlí 2009. Umsagnir bárust frá Sorpstöð Suðurlands bs. þ. 19. ágúst 2009, Heilbrigðiseftirliti Suðurlands þ. 17. ágúst 2009, og frá Umhverfisstofnun þ. 17. september 2009. Voru kærendum sendar umræddar umsagnir til athugasemda með bréfum dags. 18. september 2009 en engar athugasemdir bárust frá kærendum.

 

 

II. Einstakar málsástæður kærenda og umsagnir um þær.

 

Allir kærendur kæra útgáfu Umhverfisstofnunar á starfsleyfi til handa Sorpstöðvar Suðurlands bs.

 

 

1. Kæra Kristbjargar Eyvindardóttur, f.h. eigenda og ábúenda Auðholtshjáleigu og Grænhóli Ölfusi.

 

Af hálfu kæranda, Kristbjargar Eyvindardóttur, f.h. eigenda og ábúenda Auðholtshjáleigu og Grænhóli Ölfusi, er byggt á því að Sorpstöð Suðurlands bs. hafi ekki farið að lögum í starfsemi sinni þar sem deiliskipulag hafi ekki verið virt. Telur kærandi, með hliðsjón af þessu, óeðlilegt að Umhverfisstofnun hafi gefið út starfsleyfi fyrir hinni kærðu starfsemi. Komi það fram í greinargerð Umhverfisstofnunar vegna athugasemda frá íbúum í nágrenni Kirkjuferjuhjáleigu, að Umhverfisstofnun þurfi einungis að líta til þess hvort deiliskipulag fylgi starfsleyfisumsókn en stofnunin telji sig ekki þurfa að leggja mat á það hvort deiliskipulag rúmi það magn úrgangs sem fyrirhugað sé að urða á svæðinu. Í ljósi þess að umhverfisráðherra fari með skipulags- og byggingarmál sem og umhverfismál vilja kærendur að ráðuneytið skeri úr um hvort um eðlileg vinnubrögð sé að ræða af hálfu Umhverfisstofnunar enda hafi deiliskipulag ekki verið virt.

 

Í umsögn Umhverfisstofnunar bendir stofnunin á greinargerð sína vegna athugasemda sem bárust vegna tillögu að starfsleyfi Sorpstöðvar Suðurlands bs. Í greinargerðinni komi m.a. fram að skv. skipulags- og byggingarlögum sé það Skipulagsstofnun sem hafi eftirlit með framkvæmd laga og reglugerða sem settar séu skv. lögunum og sé Umhverfisstofnun ekki stjórnvald í skipulags- og byggingarmálum. Því komi stofnunin ekki að ákvarðanatöku né eftirliti í slíkum málum. Þetta þýði jafnframt að mögulegt sé að breyta skipulagi á viðkomandi urðunarstað á gildistíma starfsleyfis án þess að Umhverfisstofnun hafi ákvörðunarvald í þeim efnum. Þá segir enn fremur í tilvitnaðri greinargerð Umhverfisstofnunar: „Í tilfelli Sorpstöðvar Suðurlands heimilar Umhverfisstofnun með útgáfu starfsleyfis að urða allt að 30 þúsund tonn á ári, enda geti staðurinn með góðu móti annað því árlega magni án þess að mengun fari yfir þau umhverfismörk sem sett eru. En það er skipulag svæðisins sem setur mörk varðandi heildarmóttöku þess, eins og fram kemur hér að ofan þá er það ekki Umhverfisstofnunar að hafa eftirlit með því eða að taka tillit til þess við útgáfu starfsleyfis“.

 

Í umsögn starfsleyfishafa, Sorpstöðvarinnar, kemur fram að hér sé um óskyld mál að ræða og bent er á fyrri úrskurði umhverfisráðherra í því sambandi þar sem reynt hafi á skörun skipulagsmála og skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfis af hálfu Umhverfisstofnunar. Bendir Sorpstöðin jafnframt á að urðunarsvæðið sé starfrækt skv. samningi við Sveitarfélagið Ölfus og hafi takmarkaðan gildistíma. Sé nú leitað varanlegra lausna fyrir fyrirkomulag sorpurðunar á svæðinu. Telur Sorpstöðin að öll skilyrði sem sett séu fyrir útgáfu starfsleyfis fyrir urðunarstað að Kirkjuferjuhjáleigu séu uppfyllt af hálfu fyrirtækisins.

 

Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands kemur fram það álit að ákvörðun um útgáfu starfsleyfis hafi verið byggð á réttum valdheimildum og að heilbrigðiseftirlitið taki jafnframt undir þau sjónarmið sem fram komi í greinargerð Umhverfisstofnunar frá 13. ágúst 2009. Hafi skipulags- og byggingarnefndir sveitarfélaga enda aðrar valdheimildir en Umhverfisstofnun til að fylgja málum sínum eftir. Er m.a. tekið undir það að starfsleyfi og skilyrði þess sé einungis hluti þeirra krafna sem fyrirtæki þurfi að uppfylla. Geti önnur skilyrði til starfsemi fyrirtækja verið margvísleg. Sé hlutverk Umhverfisstofnunar, með útgáfu starfsleyfis, að tryggja að fyrirtæki fari eftir þeim kröfum og reglum sem séu sett til að framfylgja umhverfis- og mengunarvörnum. Því geti hlutverk Umhverfisstofnunar ekki verið að framfylgja atriðum sem varði skipulagsmál enda fjalli um þau atriði annað stjórnvald.

 

 

2. Kæra Andrésar Sigurbergssonar og Dísar Aðalsteinsdóttur.

 

Kærendur, Andrés Sigurbergsson og Dís Aðalsteinsdóttir segja að þau hafi keypt land út úr Kirkjuferjuhjáleigu og stofnað lögbýli í nóvember 2007. Hafi ein af forsendum þeirra fyrir því að fjárfesta í landinu verið sú vissa að Sorpstöð Suðurlands bs. myndi hætta starfsemi sinni í Kirkjuferjuhjáleigu í desember 2008. Hafi leyfi Sorpstöðvarinnar þó verið framlengt um eitt ár eða til desember 2009. Telja kærendur að ef Sorpstöð Suðurlands bs. fái áfram að starfa við að urða úrgang í Kirjuferjuhjáleigu sé fjárfesting þeirra sett í uppnám en íbúðarhús fjölskyldunnar sé um 550 metrum frá urðunarstaðnum og samsíða vegi að Sorpstöðinni. Fylgi þessu lyktarmengun og önnur óþægindi. Krefjast kærendur þess að Sorpstöð Suðurlands bs. fái ekki áframhaldandi starfsleyfi til að urða á landi Kirkjuferjuhjáleigu.

 

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að stofnunin komi ekki að ákvörðun um staðarval á starfsemi sem stofnunin gefi út starfsleyfi fyrir eins og áður hafi verið bent á.

 

 

3. Kæra Trausta Þórs Guðmundssonar.

 

Kærandi, Trausti Þór Guðmundsson, eigandi lands við urðunarsvæðið, byggir mál sitt á því að mikil mengun stafi af starfsemi Sorpstöðvar Suðurlands bs. að Kirkjuferjuhjáleigu og að mjög mengað frárennsli renni út í Ölfusá en áin sé ferjuleið nytjafiska, m.a. upp í Hvítá og Sogn. Kærandi telur mikla sjónmengun til staðar þar sem starfsemin hafi brotið þá hæðarpunkta sem settir hafi verið samkvæmt deiliskipulagi og einnig sé til staðar sprengihætta þar sem hafi orðið sjálfsíkveikja í tvígang. Mikla og vonda lykt leggi af haugnum og mikið af vargfugli fylgi urðunarstaðnum en fuglinn beri með sér smit sem sé hættulegt ungum hrossum. Að auki liggi land kæranda niður að ánni og niður fyrir urðunarstaðinn og geri starfsemin það að verkum að ekki sé hægt að nýta stóra hluta landsins vegna fyrrgreindrar mengunar. Að lokum bendir kærandi á að vegur að urðunarstaðnum liggi í gegnum þéttbýli. Telur kærandi þar viðgangast hraðakstur manna sem virðist aka rusli í „akkorðsvinnu“. Telur kærandi að falla eigi frá því að gefa út starfsleyfi til Sorpstöðvar Suðurlands bs. til næstu 16 ára.

 

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að stofnunin gefi út starfsleyfi fyrir starfssemi á tilteknum stað en að stofnunin komi ekki að ákvörðun um staðarval fyrir þá starfssemi sem starfsleyfi sé gefið út fyrir. Hvað varðar staðhæfingu kærenda um mengun frá Sorpstöðinni, þ.e. að plast og annar úrgangur fjúki um og að mikla lykt leggi frá urðunarstaðnum bendir Umhverfistofnun á að í hinu nýútgefna starfsleyfi beri skv. gr. 2.1. í starfsleyfinu að tryggja að meðhöndlun úrgangs valdi hvergi óþrifnaði eða ónæði, s.s. foki úrgangsefna. Séu sömuleiðis í gr. 4.3 og 3.1 gerðar kröfur um aðgerðir gegn þeirri mengun sem kærandi talar um. Séu kröfurnar í samræmi við ákvæði reglugerðar um urðun úrgangs nr. 738/2003 og telji Umhverfisstofnun þær fullnægjandi til að lágmarka ónæði frá urðunarstaðnum. Hafi Sorpstöðin nú þegar sett upp girðingar til að hefta fok og hafi þær reynst vel. Hafi stofnunin þar að auki ekki þurft að gera alvarlegar athugasemdir við starfsemi Sorpstöðvarinnar á eftirlitsferðum sínum á síðustu 5 árum. Hafi engar athugasemdir verið gerðar af hálfu Umhverfisstofnunar í síðustu tveimur eftirlitsferðum. Hvað varðar athugasemdir kæranda um mengað frárennsli bendir Umhverfisstofnun á að mælingar á efnasamsetningu frárennslis sé hluti af reglubundnu eftirliti og vöktun staðarins. Stofnunin sjái ekki um þessar mælingar heldur sé það Sorpstöðvarinnar að fá til þess hæfan aðila sem Umhverfisstofnun samþykki. Umhverfisstofnun fái síðan sendar niðurstöður úr þessum mælingum, sem stofnunin fer yfir og metur hvort aðgerða sé þörf. Það sé rétt að í sigvatninu sem rennur undan urðunarstaðnum, séu ýmis efni og efnasambönd sem geti mengað ef þau berist í umhverfið í of miklu magni. Það sé af þessum sökum sem þess sé krafist í starfsleyfi að sigvatnið sé hreinsað í hreinsivirki áður en það sé leitt í viðtaka, þ.e. Ölfusá, sbr. gr. 5.2. Hafi verið tekin reglubundin sýni úr Ölfusá og engin aukning mælst á styrk þungmálma neðan við innrennsli sigvatns. Hafi ammóníum (NH4) verið eini efnisþátturinn sem hafi stundum mælst í hærra lagi en væri tekið mið af styrk ammóníums í óþynntu, hreinsuðu sigvatni frá urðunarstaðnum mætti fastlega gera ráð fyrir að eftir fulla blöndun við Ölfusá yrði styrkur efnasambandsins lágur og vel innan þeirra umhverfismarka sem settu séu í reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Bendi niðurstöður efnagreininga á sýnum úr Ölfusá ekki til þess að lífríki árinnar stafi hætta af mengun frá staðnum.

 

Í umsögn sinni bendir Umhverfisstofnun á hvað sjónmengun varðar og brot á ákvæðum deiliskipulags um hæðarpunkta á mönum, sem sett hafi verið samkvæmt skipulagi, að stofnunin hafi ekki með höndum eftirlit með því að framkvæmdir séu í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997. Hvað varðar athugasemdir kæranda um sjálfsíkveikju á urðunarstaðnum kveðst Umhverfisstofnun ekki hafa undir höndum gögn um þessi atvik en þau beri eigi að síður að taka alvarlega. Beri Sorpstöðinni skv. gr. 2.6 í nýútgefnu starfsleyfi að tilkynna Umhverfistofnun og viðkomandi heilbrigðiseftirliti um óhöpp eða slys þar sem hætta sé á bráðamengun eða umhverfisáhrifum á umhverfið. Flokkist eldur á urðunarstað sem slíkt tilfelli og ætlist stofnunin til þess að fá tilkynningar um slíkt héðan í frá. Bendir Umhverfisstofnun að auki á að tekið sé á þeim þáttum sem auki á eldhættu á urðunarstaðnum í nýútgefnu starfsleyfi. Séu ákvæðin öll í samræmi við reglugerð um urðun úrgangs nr. 738/2003. Hvað varði athugasemdir um vargfugl þá sé Sorpstöðinni gert að hindra aðgang meindýra að úrganginum með því að birgja hann daglega, sbr. gr. 3.4 í starfsleyfinu. Sé að auki kveðið á um í sömu grein að séð verði til þess að meindýr hafist ekki við eða taki sér bólfestu á urðunarstaðnum. Sé þó ljóst að vargfuglar sæki í æti á urðunarstöðum og því sé mikilvægt að Sorpstöðin sjái til þess að þeir hafi ekki aðgang að úrgangnum með því að fylgja ákvæðum gr. 3.4 í starfsleyfinu. Það sé þó einnig ljóst að vargfugl hafi verið til staðar áður en starfsemi urðunarstaðarins hófst. Hvað varði athugasemdir kæranda um að stór hluti lands sé ónýtanlegur vegna mengunar bendir Umhverfisstofnun á að fullyrðingar þessar séu ekki studdar rökstuðningi né niðurstöðum mælinga. Verði mengunarmælingar á þann veg að umrætt land reynist mengað séu ákvæði í hinu nýútgefna starfsleyfi sem heimili stofnuninni að krefjast Sorpstöðina um úrbætur, sbr. m.a. gr. 2.5. í starfsleyfinu. Umhverfisstofnun bendir jafnframt á hvað varðar hraðakstur í þéttbýli á veginum sem liggi að Kirkjuferjuhjáleigu að ekki sé hægt að halda því fram að vegurinn að urðunarstaðnum liggi í gegnum þéttbýli.

 

Sorpstöð Suðurlands bs. bendir í umsögn sinni á að urðun á blönduðu sorpi hafi farið fram á urðunarstaðnum að Kirkjuferjuhjáleigu frá árinu 1995. Hafi Sorpstöðin á þeim tíma rekið urðunarstaðinn skv. starfsleyfi og ávallt kappkostað að uppfylla ströngustu skilyrði sem starfseminni séu sett á hverjum tíma. Þó sé ljóst að starfsemi Sorpstöðvarinnar að Kirkjuferjuhjáleigu sé með þeim hætti að óhjákvæmilegt sé að vart verði við hana í nærumhverfi, t.d. hvað varði umferð og sjónræn áhrif, jafnvel þó Sorpstöðin reyni að takmarka þau áhrif sem frekast sé unnt. Hvað varði mengun og óþrifnað vegna foks bendir Sorpstöðin á að skjólbelti og girðingar séu umhverfis allt urðunarsvæðið og að auki sé ekki tekið við úrgangi sem hætt sé við að geti fokið. Sé svæðið hreinsað jafn óðum. Hvað varði frárennsli og sigvatn bendir starfsleyfishafi á að allt sigvatn sé hreinsað áður en því sé veitt í Ölfusá og sé að auki vatnsþéttur dúkur undir öllu urðunarsvæðinu. Staðfesti niðurstöður úr reglulegum sýnatökum Umhverfisstofnunar að ekkert bendi til þess að umhverfinu stafi hætta af sigvatni. Hvað sjónmengun varðar bendir starfsleyfishafi á að öll atvinnustarfsemi hafi áhrif á nærumhverfi. Hins vegar hafnar Sorpstöðin því að starfsemin hafi í för með sér sjónmengun. Sorpstöðin bendir í umsögninni á að allur lyktarmengandi úrgangur á urðunarstaðnum sé þakinn jafn óðum með þekjuefni. Sé auk þess reynt að taka ekki við slíkum úrgangi þegar vindátt standi af svæðinu til næstu nágranna. Sé vinnusvæðið á hverjum tíma takmarkað og haft sem minnst og einnig þakið með þekjuefni í lok hvers dags til að takmarka lyktmengun. Þetta verklag stuðli auk þess að því að halda vargfugli við urðunarsvæðið í skefjum. Sé auk þess ýmsum aðferðum beitt við að halda fugli frá svæðinu. Starfsleyfishafi bendir einnig á hvað umferð varðar að umferð sé óhjákvæmileg en hún sé ekki meiri en búast megi við almennt þegar um atvinnustarfsemi sé að ræða.

 

Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands kemur fram að heilbrigðiseftirlitið telji að þörf sé á að endurnýja starfsleyfi urðunarstaðarins, sérstaklega í því ljósi að ekki séu í sjónmáli aðrar lausnir fyrir íbúa, fyrirtæki og sveitarfélög á Suðurlandi hvað förgun á úrgangi varði. Sé það mat heilbrigðiseftirlitsins að þeir þættir sem varði umhverfis- og mengunarvarnir séu í góðu lagi og að umgengni á og við urðunarstaðinn sé góð. Með hliðsjón af þessu sé það mat Heilbrigðiseftirlits Suðurlands að ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis til handa Sorpstöð Suðurlands bs. hafi verið réttmæt þó svo að ljóst sé að hún tryggi ekki rekstrarforsendur starfseminnar til næstu 16 ára enda komi þar til ákvæði annarra stjórnvalda og valdsvið þeirra gagnvart Sorpstöð Suðurlands bs.

 

 

III. Forsendur og niðurstaða ráðuneytisins.

 

Sorpstöð Suðurlands bs. lagði inn umsókn til Umhverfisstofnunar, dags. 6. október 2008, um endurnýjun starfsleyfis frá 2004 fyrir urðunarstað að Kirkjuferjuhjáleigu í sveitarfélaginu Ölfuss. Umhverfisstofnun gaf út starfsleyfi til Sorpstöðvar Suðurlands bs. þann 13. júlí 2009 í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerðar nr. 738/2003 um urðun úrgangs. Starfsleyfið gildir til 13. júlí 2025 og nær til urðunar á allt að 30.000 tonnum af almennum og óvirkum úrgangi á ári.

 

Sorpstöð Suðurlands bs. og Sveitarfélagið Ölfus gerðu með sér samkomulag þann 3. nóvember 2004 um að urðun yrði hætt í Kirkjuferjuhjáleigu í síðasta lagi 1. desember 2008. Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur liggur fyrir að urðun úrgangs var hætt í Kirkjuferjuhjáleigu frá og með 1. desember 2009 sl. á grundvelli framangreinds samkomulags.

 

1. Mengun af starfsemi Sorpstöðvarinnar.

 

Hvað varðar kæruatriði Trausta Þórs Guðmundssonar sem lúta að mikilli mengun sem stafi af starfsemi Sorpstöðvarinnar bs. þ. á m. sjónmengun, menguðu frárennsli, sprengihættu og lyktarmengun tekur ráðuneytið undir með umsögn Umhverfisstofnunar. Hér má m.a. benda á að skv. gr. 2.1 í starfsleyfinu ber starfsleyfishafa að tryggja að meðhöndlun úrgangs á svæðinu valdi ekki óþrifnaði né ónæði. Þá skal fara með allan úrgang þannig að hann valdi hvergi óþrifnaði eða ónæði, svo sem foki úrgangsefna, ryki, ólykt eða hávaða. Þá er í gr. 4.3 gerð krafa um að úrgangur sem hefur verið lagður í urðunarrein sé birgður samdægurs með þekjuefni sem komi í veg fyrir fok, ónæði lykt, hættu og aðgang meindýra. Í gr. 3.1 er gerð krafa um að komið sé í veg fyrir fok úrgangsefna frá urðunarstaðnum, t.d. með uppsetningu girðinga eða skjólbelta. Þá hafa, skv. umsögn Umhverfisstofnunar, verið settar upp girðingar til að hefta fok. Hvað varðar mengað frárennsli bendir ráðuneytið á að skv. umsögn Umhverfistofnunar benda niðurstöður efnagreininga á sýnum úr Ölfusá ekki til þess að lífríki árinnar stafi hætta af mengun á staðnum. Er að auki gerð sú krafa skv. gr. 5.2 í starfsleyfinu að sigvatnið sé hreinsað í hreinsivirki áður en það er leitt í viðtaka, þ.e. Ölfusá. Varðandi kæruatriði sem lúta að sjálfsíkveikju þá ber skv. gr. 2.6 í hinu nýja starfsleyfi að tilkynna Umhverfisstofnun og viðkomandi heilbrigðiseftirliti um tilfelli sé hætta á bráðamengun eða umtalsverðum áhrifum á umhverfið. Þó bendir Umhverfisstofnun á að affarasælast sé að viðhafa tiltekna starfshætti við urðun, þ. á m. að hafa aldrei opinn eld á staðnum, safna hauggasi á öruggan hátt, takmarka aðgang almennings að urðunarstaðnum til að koma í veg fyrir eftirlitslausa losun úrgangs, urða ekki virk spilliefni, hafa eftirlit með úrgangsförmum sem koma inn á svæðið sem og að þekja urðaðan úrgang daglega. Er í starfsleyfinu tekið tillit til þessara þátta, sbr. m.a. gr. 1.2 og 4.2 sem banna brennslu úrgangs og urðun virkra spilliefna, gr. 3.4 sem tekur á öruggri söfnun hauggass, gr. 2.1 um takmörkun aðgangs almennings og lokun svæðis þegar stafsemi er ekki í gangi, gr. 4.1 um móttöku úrgangs og gr. 4.3 um daglegan frágang urðunarreina. Um kæruatriði sem lúta að vargfugli þá er Sorpstöðinni, líkt og Umhverfisstofnun bendir á, gert að hindra aðgang meindýra að úrganginum með því að birgja hann daglega, sbr. gr. 4.3 í starfsleyfinu. Þá er þess ennfremur krafist skv. sömu grein að verði vart við meindýr skuli sjá til þess að þau hafist ekki við eða taki sér bólfestu á athafnasvæði rekstraraðila.

 

Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið að ákvæði starfsleyfisins hvað varðar mengunarvarnir séu fullnægjandi og að starfsemi Sorpstöðvar Suðurlands bs. sé í samræmi við þær kröfur sem fram koma í lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerð nr. 738/2003 um urðun úrgangs. Ráðuneytið bendir á að Umhverfisstofnun fer skv. lögum nr. 7/1998 og lögum nr. 55/2003 með eftirlit með starfsemi urðunarstaða, þ.m.t. framfylgni starfsleyfisskilyrða. Telji kærendur að ákvæðum starfsleyfisins sé ekki framfylgt geta þeir sent Umhverfisstofnun athugasemdir sínar.

 

 

 

2. Brot á ákvæðum deiliskipulags.

 

Önnur kæruatriði lúta að því að Umhverfisstofnun hafi ekki átt að gefa út starfsleyfi þar sem deiliskipulag á svæðinu hafi ekki verið virt. Í máli sínu vísa kærendur m.a. til úrskurðar Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingamála sem kveðinn var upp 6. nóvember 2008 en í úrskurðinum var felld úr gildi samþykkt bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss frá 21. desember 2006, um deiliskipulag sorpurðunarsvæðis Sorpstöðvar Suðurlands bs. í landi Kirkjuferjuhjáleigu. Í umræddum úrskurði Úrskurðarnefndar kom fram að svonefndir hæðarpunktar væru hluti af deiliskipulagi svæðisins en á sniðmynd sem fylgdi skipulaginu á sínum tíma voru m.a. tilgreindar hæðir urðunarreina, þ.e. hinir svokölluðu hæðarpunktar. Hæðarpunktarnir marka því þau hæðarmörk urðunarreina sem leyfileg eru skv. deiliskipulagi. Í úrskurðinum kom jafnframt fram að hæð urðunarreina væri orðin hærri en miðað væri við skv. deilskipulaginu og að Skipulagsstofnun teldi að lækka yrði hæð urðunarreinanna til að þær samræmdust gildandi deiliskipulagi. Hins vegar hefði Umhverfisstofnun ekki talið að hægt væri að lækka hæð urðunarreinanna þar sem ákvæði í starfsleyfi sorpstöðvarinnar gerðu það óheimilt að hrófla við úrgangi sem búið væri að urða á urðunarsvæðinu. Teldi Umhverfisstofnun því að lækkun urðunarreinanna myndi brjóta í bága við ákvæði starfsleyfisins. Úrskurðarnefndin taldi því ljóst að framkvæmdir við urðun sorps á sorpurðunarsvæði stöðvarinnar væru í andstöðu við eldra deiliskipulag svæðisins enda hefðu ekki verið virt ákvæði skipulagsins um hámarkshæð urðunarreina en á deiliskipulagsuppdrætti svæðisins hefði verið gerð grein fyrir leyfilegri hæð reinanna. Þá taldi úrskurðarnefndin að bæjarstjórn hefði skv. 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga verið óheimilt að samþykkja hið nýja deiliskipulag og breyta þannig skipulagi svæðisins. Réttaráhrif úrskurðarins eru því þau að eldra deiliskipulag svæðisins sem staðfest var 11. apríl 1994 er í gildi.

 

Umhverfisstofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfisráðherra samkvæmt lögum nr. 90/2002, um Umhverfisstofnun. Hlutverk hennar er að stuðla að velferð almennings með því að beita sér fyrir heilnæmu umhverfi, öruggum neysluvörum og verndun og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Umhverfisstofnunin annast m.a. verkefni á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003 og gefur stofnunin út starfsleyfi fyrir ýmsa starfsemi sem getur haft í för með sér mengun þ.á.m. sorpurðun. Umhverfisstofnun hefur þannig það lögbundna hlutverk að veita sorpurðunarstöðvum starfsleyfi. Umsóknaraðili þarf m.a. að skila inn til Umhverfisstofnunar afriti af staðfestu deiluskipulagi af þeim stað þar sem starfsemin á að fara fram sbr. gr. 10.2 reglugerðar nr. 785/1999. Deiluskipulag nær til einstakra svæða innan sveitarfélags og er þar að finna nánari ákvæði um notkun og nýtingu svæða og einstakra lóða sbr. skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

 

Líkt og fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar og greinargerð stofnunarinnar frá 13. júlí 2009 er starfsleyfi fyrir urðun úrgangs gefið út í samræmi við 5. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs og 6. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Útgáfa starfsleyfa fyrir urðun úrgangs byggir jafnframt á ákvæðum reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerðar nr. 738/2003 um urðun úrgangs. Fram kemur í reglugerð um útgáfu starfsleyfis nr. 785/1999 að staðfest afrit af deiluskipulagi skuli fylgja starfsleyfisumsókn, sbr. gr. 10.2 í reglugerðinni. Þá segir í 5. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs að umsókn um starfsleyfi skuli fylgja upplýsingar um stöðu skipulags á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Eru samkvæmt þessu ekki aðrar kröfur gerðar til Umhverfisstofnunar við útgáfu starfsleyfis en að kanna hvort deiliskipulag liggi fyrir þar sem gert er ráð fyrir slíkri starfsemi.

 

Ráðuneytið vill benda á í þessu samhengi að Skipulagsstofnun hefur eftirlit með framkvæmd skipulags- og byggingarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 73/1997. Sé ásigkomulag, frágangur, notkun, umhverfi eða viðhald mannvirkis ábótavant eða stafi af því hætta eða sé ekki gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum og byggingarlýsingum eru eftirlit og heimildir til inngripa í höndum byggingarfulltrúa, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulags og byggingarlaga. Þá vísar ráðuneytið einnig til 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga þar sem fram kemur að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni og hún brýtur í bága við skipulag eða framkvæmd ber byggingarfulltrúa að stöðva framkvæmdir tafarlaust og síðan skal hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Ráðuneytið tekur því fram að það er sveitarfélaga að sjá til þess að ákvæði deiliskipulags séu virt, sbr. einnig 2. mgr. 3. gr. skipulags- og byggingarlaga. Í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála var það niðurstaðan eins og áður sagði að bæjarstjórn hefði skv. 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga verið óheimilt að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir sorpurðunarsvæði Sorpstöðvar Suðurlands í landi Kirkjuferjuhjáleigu og breyta þannig skipulagi svæðisins og var því fellt úr gildi.

 

Með vísan til framangreindra lagaákvæði er það sveitarstjórn sem er valdbært stjórnvald í skipulags- og byggingarmálum og Umhverfisstofnun kemur þannig ekki að ákvarðanatöku eða eftirliti um það hvort hæðartakmörk í deiliskipulagi hafi verið virt eða ekki. Eins og fram kemur í áðurnefndri greinargerð Umhverfisstofnunar þá er með útgáfu starfsleyfis heimilað að urða allt að 30 þúsund tonn á ári, enda geti urðunarstaðurinn með góðu móti annað því magni án þess að mengun fari yfir þau mörk sem starfsleyfið setur. Hins vegar er það deiliskipulag svæðisins sem setur mörk er varða heildarmóttökugetu þess, m.a. með því að setja mörk varðandi hæð urðunarreina.

 

Ráðuneytið bendir á að í hinu kærða starfsleyfi Sorpstöðvar Suðurlands bs. er ekki kveðið á um hæð urðunarreina heldur er þar kveðið á um þætti sem varða mengunarvarnir á borð við magn úrgangs sem urða má, starfshætti, mengunarvarnir, móttöku og urðun úrgangs sem og innra eftirlit rekstraraðila, sbr. einnig ákvæði 16. gr. reglugerðar nr. 738/2003 um urðun úrgangs. Um deiliskipulagið var fjallað í áðurnefndum úrskurði Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála þar sem tekin var afstaða til lögmætis þess. Um það verður því ekki frekar fjallað hér. Ráðuneytið telur hins vegar ljóst að starfsemi Sorpstöðvarinnar þarf auk þeirra krafna sem fram koma í starfsleyfi fyrir starfsemina einnig að uppfylla ýmis önnur skilyrði til þess að Sorpstöð Suðurlands bs. teljist starfa á lögmætan hátt, þ.m.t. skilyrði deiliskipulags fyrir svæðið. Bent er á að í starfsleyfinu er í gr. 1.1 tekið fram að rekstraraðila beri að uppfylla gildandi lög og reglugerðir á starfsviði sínu. Ráðuneytið telur rétt, í ljósi þess að slík starfsemi þarf að uppfylla kröfur deiliskipulags, að sérstaklega verði tekið fram í starfsleyfinu að starfsemin skuli uppfylla skilyrði deiliskipulags. Í ljósi þess er eftirfarandi breyting gerð á starfsleyfinu: Rekstraraðila ber að uppfylla gildandi lög og reglugerðir á starfsviði sínu og haga starfsemi og frágangi í samræmi við gildandi deiliskipulag.

 

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 13. júlí 2009, um að gefa út starfsleyfi til Sorpstöðvar Suðurlands bs. til að urða allt að 30.000 tonnum af almennum og óvirkum úrgangi á ári í landi Kirkjuferjuhjáleigu er staðfest með eftirfarandi breytingum:

 

Eftirfarandi málsliður kemur í stað 4. málsliðar í skilyrði 1.1 í hinu kærða starfsleyfi, svohljóðandi:

Rekstraraðila ber að uppfylla gildandi lög og reglugerðir á starfssviði sínu og haga starfsemi og frágangi í samræmi við gildandi deiliskipulag.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum