Hoppa yfir valmynd
25. júlí 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 08040006

Þann 18 júlí 2008, var í umhverfisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi:

ÚRSKURÐUR

 

Með bréfi dagsettu 30. mars 2008 lagði Magnhildur Erla Halldórsdóttir fram stjórnsýslukæru vegna ákvörðunar heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis um að endurnýja starfsleyfi til handa Braga Sigurjónssyni, kt. 170636-7919, til geymslu og flokkunar jarðefna að Geirlandi í Kópavogi. Enn fremur barst sama erindi til úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sú kæra var réttilega framsend til ráðuneytisins og barst því þann 30. júní s.l. Kæruheimild er í 2. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

 

I. Málavextir og hin kærða ákvörðun

Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis ákvað á fundi sínum þann 21. janúar 2008 að veita Braga Sigurjónssyni starfsleyfi til geymslu og flokkunar jarðefna að Geirlandi í Kópavogi. Kæranda var tilkynnt um þessa ákvörðun með bréfi dags. 22. janúar 2008.

Kærandi, Magnhildur Erla Halldórsdóttir, er búsett í Litla Hvammi í landi Elliðakots við Suðurlandsveg. Hús hennar er í nálægð við umrædda starfsemi, sem hún telur valda sér óásættanlegum óþægindum vegna mengunar og hávaða.

Ráðuneytið sendi Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og Braga Sigurjónssyni fram komna kæru til umsagnar. Umsögn heilbrigðisnefndar barst ráðuneytinu þann 30. apríl 2008 og umsögn Ólafs Arnar Sveinssonar hrl., f.h. Braga Sigurjónssonar, barst þann 14. maí 2008. Kæranda var gefinn kostur á að koma að athugasemdum við fram komnar umsagnir og bárust þær athugasemdir þann 14. júlí 2008.

Fulltrúar ráðuneytisins fór á vettvang þann 11. júlí 2008.

 

II. Sjónarmið aðila

1. Kæruatriði

Magnhildur Erla Halldórsdóttir segir umrædda starfsemi vera í túnfætinum hjá sér, þar sem hún eigi lögheimili, með tilheyrandi óþægindum og telur að af því leiði að hún hljóti að hafa eitthvað um það að segja hvort starfsemin fái áframhaldandi starfsleyfi. Hún segir starfsemina bæði mengandi og hávaðasama og til óþæginda fyrir íbúa í hverfinu.

2. Umsagnir um kæruatriði

A. Umsögn starfsleyfishafa

Í umsögn Ólafs Arnar Svanssonar hrl., f.h. Braga Sigurjónssonar, um kæruna kemur fram að vinnsla af einhverju tagi hafi farið fram á Geirlandi allt frá árinu 1928. Lengst af hafi jarðefnavinnslan verið uppi á hlaði að Geirlandi en hún hafi verið færð fyrir um 10 árum nær Suðurlandsveginum, eða sem fjærst allri byggð, þ.m.t. hverfi því sem kærandi býr í. Auk þess hafi verið ákveðið að setja hljóðmön allt í kringum vinnsluna og hafi það verið gert í samráði við heilbrigðisfulltrúa. Gefið var út formlegt leyfi til vinnslunnar til þriggja ára árið 2004.

Leyfið frá 2004 gilti til 24. október 2007 og þann 19. september 2007 var sótt um endurnýjun leyfisins. Vísað er til bókunar þeirrar frá 21. janúar 2008, sem tilvitnuð er í kafla B hér á eftir, og bent á að í kjölfar hennar hafi Bragi Sigurjónsson hafist handa við að breyta hljóðmönum, hæð og ásýnd, í samráði við heilbrigðisfulltrúa.

Þeirri fullyrðingu kæranda að starfsemin sé mengandi, mjög hávaðasöm og valdi óþægindum í hverfinu er mótmælt. Starfsemin sé ekki mengandi þar sem unnið sé með malarefni, tækin sem notuð eru til vinnslunnar séu ný og af þeim stafi engin mengun, a.m.k. ekki meiri en af nærliggjandi bílaumferð. Hvað varði hljóðmengun hafi allt verið gert til að takmarka hávaða, þ.m.t. hafi búnaður verið endurnýjaður. Tilvísun til hávaðamengunar fyrir einhverjum árum, áður en búnaður var endurnýjaður og hljóðmönum breytt, geti því ekki haft þýðingu.

Bent er á að hin nýja flokkunarvél (harpa) er talsvert lægri en sú eldri, þ.m.t. flokkunarband og vél hörpunnar. Þannig sé hæsti punktur hörpunnar um 3-4 metrum lægri en á þeirri eldri auk þess sem flokkun efnis hafi farið fram á efsta punkti eldri hörpunnar eða við enda færibandsins en eiginleg flokkun á hinni nýju hörpu fari fram áður en efnið fer á færiböndin. Allt þetta leiði til þess að hljóðmanirnar nýtist í auknum mæli. Þá er efnið ekki lengur látið fara niður um járnrennur eins og áður heldur fer það beint af gúmmíböndum hörpunnar. Þá er því haldið fram að meiri hávaði sé frá umferð um Suðurlandsveg en af vinnslunni sjálfri sem fari fram innan hljóðmanar auk þess sem starfsleyfið sé takmarkað þannig að vinnsla sé óheimil eftir tiltekinn tíma á kvöldin og á sunnudögum.

Áréttað er að nú fari fram vinnsla við hljóðmanir í samvinnu við heilbrigðisfulltrúa en þegar því verði lokið verði grasi sáð í hljóðmanir þannig að þær falli inn í umhverfið. Núverandi útlit mananna geti því verið villandi.

Einnig er áréttað að þrátt fyrir fjölda sumarbústaða á svæðinu hafi kærandi einn gert athugasemdir við starfsleyfið til ráðuneytisins og af því megi gagnálykta að meirihlutinn geri ekki athugasemdir við starfsemina, enda hafi Braga Sigurjónssyni ávallt verið í mun að vera í sem bestu sambandi við nágranna sína en hann búi sjálfur á Geirlandi.

Að öðru leyti er í umsögn starfsleyfishafa vísað til athugasemda heilbrigðisnefndar.

B. Umsögn Heilbrigðisnefndar Kópavogs- og Hafnarfjarðarsvæðis.

Í umsögn heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, f.h. heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, er rakinn ferill málsins frá umsókn til ákvörðunar um veitingu starfsleyfis.

Þar kemur fram að heilbrigðisnefnd ákvað þann 15. október 2007 að auglýsa tillögu að tímabundnu starfsleyfi til þriggja ára. Auglýsing var birt í Morgunblaðinu þann 28. nóvember 2007 og á heimasíðum heilbrigðiseftirlitsins og Kópavogsbæjar. Kæranda var tilkynnt formlega um kynningu á starfsleyfi þann 28. nóvember 2007. Athugasemd við auglýsta tillögu barst frá þremur aðilum, kærandi var þeirra á meðal, þann 27. desember 2007. Þar var því mótmælt að starfsleyfið yrði endurnýjað og kvartað undan sjón- og hljóðmengun. Starfsleyfishafa voru kynntar fram komnar athugasemdir og lagði hann fram greinargerð dags. 19. jánúar 2008. Á fundi heilbrigðisnefndar þann 21. janúar 2008 var samþykkt að veita viðkomandi starfsleyfi til 13. október 2010 og eftirfarandi bókun gerð:

„Með takmörkunum á vinnslutíma og með hljóðmönum á að vera hægt að lágmarka hávaða frá starfseminni og að því marki að nágrannar verði við að una. Með því að bæta gerð og ásýnd mana dregur úr lýti sem er á svæðinu.

Heilbrigðisnefnd veitir umbeðið leyfi til 13. október 2010 með skilyrðum um að leyfishafi leggi fram fyrir 1. júní n.k. framkvæmdaáætlun samþykkta af Kópavogsbæ þar sem fram komi hvernig ásýnd jarðvegsmana eigi að vera á meðan vinnsla fer fram á svæðinu. Ákvæði leyfis verði eins og fram kom í auglýsingu nefndarinnar með þeim fyrirvara að heimild til vinnslu á laugardögum verður ekki veitt fyrr en fyrir liggur ofangreind staðfesting bæjarskipulags Kópavogs."

Í umsögn heilbrigðiseftirlits kemur enn fremur fram að það er afstaða heilbrigðisnefndar að leyfisveiting fyrir vinnslu jarðefna sé í höndum hennar, sbr. tl. 2.6. í fylgiskjali 2 með reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, nr. 785/1999 með síðari breytingum. Vísað er til markmiðs reglugerðarinnar og segir m.a. að það sé að „koma í veg fyrir eða draga úr mengun af völdum atvinnurekstrar sem getur haft í för með sér mengun, koma á samþættum mengunarvörnum og samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum." Vísað er og til þess að bæjarráð Kópavogs hafi tekið jákvæða afstöðu til framlengingar starfsleyfis þess sem hér um ræðir.

Að lokum telur heilbrigðisnefnd, með vísan til ofannefndra markmiða reglugerðar nr. 785/1999, að með starfsleyfinu sé verið að draga úr óþægindum af völdum hávaða í nálægri frístundahúsabyggð. Rekstaraðili hafi orðið sér út um nýja flokkunarvél sem eigi að vera hljóðlátari en sú fyrri, umfang rekstrarins sé ekki mikið og með hljóðmönum ásamt takmörkuðum vinnutíma um helgar sé verið að fullnægja lögum og reglum samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

3. Athugasemdir kæranda við fram komnar umsagnir

Kæranda var gefið færi á að koma að athugasemdum við framkomnar umsagnir. Athugasemdirnar bárust þann 14. júlí s.l. Þar kemur m.a. fram að ekki ekki sé búið að ganga frá hljóðmöninni sem snúi að húsi kæranda nema að hluta og telur kærandi það fara í bága við það skilyrði heilbrigðisnefndar að leyfishafi leggi fram fyrir 1. júní 2008 framkvæmdaáætlun samþykkta af Kópavogsbæ um ásýnd jarðvegsmana á svæðinu. Kærandi segist enn horfa inn á vinnslusvæðið frá sinni lóð og telur hávaðann óviðunandi.

Varðandi vinnutíma bendir kærandi á að í umræddu starfsleyfi sé veitt leyfi til vinnslu á laugardögum og það sé óásættanlegt, auk þess sem vinnusvæðið sé notað til einkanota á kvöldin og um helgar með tilheyrandi truflun.

Að lokum telur kærandi málinu alls óviðkomandi sá hávaði sem berist frá Suðurlandsvegi og því ekki rétt að vísa til hans í þessu sambandi.

 

III. Niðurstaða

Um starfsleyfi það sem stjórnsýslukæra þessi beinist að fer samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í 2. mgr. 6. gr. þeirra laga segir að heilbrigðisnefndir gefi út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun og ekki er upp talinn í fylgiskjali með lögunum. Um útgáfu þessara starfsleyfa fer nánar samkvæmt reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

Samkvæmt Fylgiskjali 2, lið 2.6., með reglugerð nr. 785/1999 veitir heilbrigðisnefnd starfsleyfi fyrir vinnslu jarðefna, þ.m.t. malar-, vikur- og grjótnám. Starfsleyfi það sem hér um ræðir er þvi réttilega gefið út af heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.

Ágreiningur í máli þessu snýst um hávaðamengun og sjónræn áhrif frá geymslu og flokkun jarðefna sem fram fer að Geirlandi við Suðurlandsveg. Kærandi telur bæði sjón- og hávaðamengun meiri en ásættanlegt sé að hún og aðrir íbúar þurfi að una við. Leyfishafi telur aftur á móti að hann hafi gert sitt besta til að draga úr bæði hávaða og sjónrænum áhrifum, bæði með endurnýjun búnaðar og byggingu hljóðmana umhverfis starfsemina.

Fulltrúar ráðuneytisins fóru á vettvang að Geirlandi þann 11. júlí s.l. Gengið var um vinnslusvæðið þar sem vinnsla var í gangi og að því loknu var farið í hverfið þar sem kærandi er búsett. Hljóðmanir hafa verið reistar umhverfis starfsemina, þannig að þær hylja að mestu leyti það sem fram fer auk þess sem þær hefta útbreiðslu hljóðs frá starfseminni. Þó var það þannig að þegar staðið var fyrir framan hús kæranda, sem er austast í hverfinu, og horft í átt að vinnslusvæðinu, þá náði mönin ekki nógu langt til austurs til að hylja malarhörpuna og malarbingi sem eru á vinnslusvæðinu. Að sama skapi virtist hávaði meiri þar en annars staðar í hverfinu.

Í tl. 3.10 í 3. gr. reglugerðar nr. 785/1999 er mengun skilgreind sem örverur, efni og efnasamband og eðlisfræðilegir þættir sem valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs og lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta. Það er því ljóst að hávaði telst til mengunar samkvæmt skilgreiningu reglugerðarinnar.

Samkvæmt 12. gr. reglugerðar nr. 785/1999 skulu í almennum skilyrðum starfsleyfa vera ákvæði sem tryggja að viðkomandi atvinnurekstur sé með þeim hætti að allar viðeigandi mengunarvarnir séu viðhafðar, og til þess sé beitt bestu fáanlegu tækni í þeim atvinnugreinum þar sem slíkt hefur verið skilgreint.

Enn fremur segir í 1. tl. 6. gr. reglugerðar nr. 933/1999 um hávaða að forráðamönnum fyrirtækja og stofnana sé skylt að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir óþægindi af völdum hávaða.

Eins og fram er komið var umrætt starfsleyfi veitt með því skilyrði að leyfishafi legði fram framkvæmdaáætlun, samþykkta af Kópavogsbæ, fyrir 1. júní 2008 þar sem fram kæmi hver ásýnd jarðvegsmana eigi að vera á meðan á vinnslu stendur. Þá er vinnslutími takmarkaður í starfsleyfinu, til þess að lágmarka ónæði frá starfseminni og ekki veitt leyfi til starfsemi á laugardögum fyrr en fyrir liggur framangreind framkvæmdaáætlun.

Af framansögðu er ljóst að heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hefur með því að binda starfsleyfið skilyrðum leitast við að tryggja að sem frekast sé dregið úr mengun og ónæði fyrir íbúa í nágrenninu. Það kom þó fram þegar farið var á vettvang að nokkuð vantar upp á að hljóðmön umhverfis starfsemina hylji malarhörpu og nálæga malarbingi þannig að allir íbúar viðkomandi hverfis njóti sömu verndar gegn hávaða af völdum starfseminnar. Framangreint skilyrði 12. gr. reglugerðar nr. 785/1999 telst því að þessu leyti ekki uppfyllt, né heldur framangreint ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 933/1999.

Í ljósi alls framangreinds er að það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri veitingu Heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis á starfsleyfi til handa Braga Sigurjónssyni til geymslu og flokkunar jarðefna að Geirlandi við Suðurlandsveg. Þó með því skilyrði að hljóðmön verði lengd til austurs þannig að íbúar að Litla Hvammi njóti sömu verndar gegn hávaða af völdum ummræddrar starfsemi og aðrir íbúar í hverfinu. Jafnframt að dregið verði þannig úr sjónrænum áhrifum starfseminnar. Lengingin og annar frágangur hljóðmanarinnar skal unnin í samráði við heilbrigðisfulltrúa Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og vera lokið eigí síðar en þann 1. október 2008. Með þessu, sem og takmörkuðum vinnslutíma, eins og kveðið er á um í starfsleyfi, telur ráðuneytið að uppfyllt verði skilyrði 12. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um að allar viðeigandi mengunarvarnir séu viðhafðar. Enn fremur verði með því uppfyllt framangreint ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 933/1999.

Hvað varðar þá málsástæðu kæranda að starfsemi fari fram á vinnslusvæðinu utan þess tíma sem leyfður er samkvæmt starfsleyfi, vísast til 13. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Samkvæmt þeirri grein ber heilbrigðisnefnd að sjá til þess að framfylgt sé ákvæðum laganna og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kjósarsvæðis frá 21. janúar 2008, um útgáfu starfsleyfis til handa Braga Sigurjónssyni, kt. 170636-7919, til að starfrækja aðstöðu til geymslu og flokkunar á jarðefnum að Geirlandi við Suðurlandsveg, Kópavogi, er staðfest með eftirfarandi breytingu: Við starfsleyfið bætist, á eftir skilyrðinu Almennar kröfur, nýtt skilyrði, Mengunarvarnir, svohljóðandi:

Starfsleyfishafi skal lengja hljóðmön umhverfis starfsemina, þannig að flokkunarvél og stærstu malarbingir verði hulin íbúum í nálægu hverfi í landi Elliðakots og hávaði takmarkist að sama skapi. Breytingar á hljóðmön og endanlegur frágangur skal unninn í samráði við heilbrigðisfulltrúa Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og vera lokið fyrir 1. október 2008.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum