Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 07050187

ÚRSKURÐUR:

Ráðuneytinu hefur borist kæra X, dags. 25. maí 2007 vegna ákvörðunar Umhverfisstofnunar, frá 4. apríl 2007, um að synja honum um leiðsögumannaréttindi með hreindýraveiðum.

I. Málsatvik og málsmeðferð.

X, óskaði með bréfi, dags. 7. mars 2007, eftir að fá útgefin réttindi til leiðsögu með hreindýraveiðum. Með umsókn X fylgdi yfirlit yfir nám og starfsreynslu. Með bréfi, dags. 4. apríl 2007, synjaði Umhverfisstofnun beiðni X með vísun til þess að hann hafði ekki sótt námskeið skv. 3. tl. 2. mgr. 12. gr. reglugerðar um stjórn hreindýraveiða, nr. 486/2003.

Ráðuneytið sendi fram komna kæru til umsagnar Umhverfisstofnunar þann 4. júní 2007. Umsögn Umhverfisstofnunar barst þann 20. júní 2007. Umsögn Umhverfisstofnunar var send til athugasemda kæranda. Athugasemdir kæranda bárust þann 3. júlí 2007.

II. Kæruatriði og umsagnir.

Kærandi telur sig hafa áunnið sér tilskilin réttindi til að fá að þreyta próf í staðháttum til ákveðinna svæða. Hann hafi sannanlega áunnið sér til þekkingu með menntun sinni sem landfræðingur, leiðsögumaður, veiðikorthafi, skotvopnaleyfishafi og stúdent svo að hann sé bær til staðháttaprófs þó svo að þekkingin sé ekki til komin á námskeiði fyrir nýja leiðsögumenn sem Umhverfisstofnun hafi aldrei staðið fyrir síðan stofnunin var sett á laggirnar. Kærandi vísar til þess að í reglugerð um stjórn hreindýraveiða sé talað um námskeið í fleirtölu. Telur hann því námskeið Umhverfisstofnunar ekki vera eina námskeiðið sem til greina komi. Námskeið til hreindýraveiða (sic) sé samsett úr nokkrum flokkum þar sem til þess bær kennari komi og kenni tiltekin sérsvið.

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að stofnunin telur kæranda ekki uppfylla skilyrði reglugerðar um stjórn hreindýraveiða, nr. 486/2003, til að hljóta réttindi til leiðsögu með hreindýraveiðum þar sem hann hefur ekki sótt námskeið stofnunarinnar þar um. Stofnunin geti ekki fallist á að unnt sé að túlka ákvæði 3. tl. 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar þannig að unnt sé að leggja að jöfnu áunna þekkingu á ýmsum sviðum við það námskeið sem kveðið sé á um í umræddri reglugerð að haldið skuli sérstaklega fyrir tilvonandi leiðsögumenn með hreindýraveiðum.

III. Niðurstaða.

Samkvæmt 8. mgr. 14. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, má enginn stunda hreindýraveiðar nema hann hafi til þess veiðileyfi og sé í fylgd með leiðsögumanni.

Enginn getur tekið að sér leiðsögn með hreindýraveiðum nema hann hafi til þess leyfi Umhverfisstofnunar skv. 2. ml. 8. mgr. 14. gr. laganna. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um réttindi og skyldur leiðsögumanna með hreindýraveiðum að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og hreindýrarráðs. Samkvæmt framansögðu er um að ræða atvinnuréttindi í skilningi 75. gr. stjórnarskrárinnar.

Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. reglugerðar um stjórn hreindýraveiða, nr. 486/2003, skal starfsleyfi veitt til 4 ára í senn og miðast við tiltekin veiðisvæði. Ennfremur segir:

„Til að geta hlotið starfsleyfi sem leiðsögumaður þarf umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

1. Skotvopnaleyfi í samræmi við 10. gr.

2. Hafa þekkingu og reynslu af veiðum, fláningu og meðferð afurða hreindýra.

3. Staðfestingu á þátttöku í námskeiðum í (a) líffræði, vistfræði og náttúruvernd með sérstöku tilliti til hreindýra, (b) náttúruverndarlögum, lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, reglugerð um hreindýraveiðar og öðrum lögum sem máli skipta, (c) leiðsögn, (d) meðferð skotvopna, (e) meðferð og notkun áttavita og GPS staðsetningartækja, (f) veiði villtra dýra og siðfræði og siðareglum veiðimanna.

4. Umsækjandi skal sýna fram á hæfni sína í skyndihjálp.

Umhverfisstofnun, í samráði við hreindýraráð, heldur námskeið skv. 3. tl. Umhverfisstofnun skal að jafnaði á fjögurra ára fresti kanna þörf á að haldin verði slík námskeið."

Kærandi telur að með orðalagi ofangreinds reglugerðarákvæðis um námskeið í fleirtölu sé gert ráð fyrir að umsækjendur geti aflað sér þeirrar þekkingar sem gerð er krafa um í 3. tl. 2. mgr. 12. gr. með öðrum hætti en námskeiði Umhverfisstofnunar. Í eldri reglugerð um stjórn hreindýraveiða, nr. 452/2000 voru sams konar kröfur. Um námskeið sagði í 12. gr. þeirrar reglugerðar: „Ef þurfa þykir hlutast hreindýraráð um að námskeið skv. 3. tl. verði haldin." Nokkur munur er á hinu eldra reglugerðarákvæði og hinu yngra. Ljóst er að í gildandi ákvæði er lögð ríkari áhersla á hið sérsniðna námskeið Umhverfisstofnunar sem grunn til öflunar réttinda til að gerast leiðsögumaður með hreindýraveiðum.

Ekki er fjallað sérstaklega um framangreint námskeið í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994. Í ljósi þess og miðað við orðalag ákvæðisins telur ráðuneytið ekki unnt að útiloka að umsækjendur geti aflað sér þeirrar þekkingar sem um getur í 3. tl. 2. mgr. 12. gr. reglugerðar um stjórn hreindýraveiða, nr. 486/2003 með öðrum hætti. Ráðuneytið telur því að Umhverfisstofnun og ráðuneytinu, í máli þessu, sé skylt að taka til skoðunar gögn um önnur námskeið sem umsækjandi kann að hafa sótt leggi hann fram gögn þar um.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gaf ráðuneytið umsækjandi kost á að leggja fram frekari gögn og eða upplýsingar um námskeið sem hann hefur sótt og kynnu að uppfylla kröfur reglugerðar um stjórn hreindýraveiða, nr. 486/2003 einkum 3. tl.12. gr.

Samkvæmt viðbótargögnum kæranda lauk hann tveimur áföngum, samtals 9 einingum í líffræði við Menntaskólann á Egilsstöðum sem hluta af stúdentsprófi. Fjallaði seinni áfangi líffræðinnar um íslensk spendýr með áherslu á hreindýr. Í öðru lagi lauk kærandi 4 eininga námskeiði við Landbúnaðarháskóla Íslands í vistfræði, heimspeki og náttúrunýtingum. Telur ráðuneytið þar með að kærandi uppfylli skilyrði (a) liðar 3. tl. 12. gr. um námskeið í líffræði, vistfræði og náttúruvernd með sérstöku tilliti til hreindýra.

Í (b)-lið 3. tl. 2. mgr. 12. gr. framangreindrar reglugerðar segir að umsækjandi skuli hafa staðfestingu á þátttöku í námskeiði um náttúruverndarlög, lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, reglugerð um hreindýraveiðar og öðrum lögum sem máli skipta. Um þetta atriði vísar kærandi til þess að hann hafi setið námskeið til undirbúnings hæfnisprófi veiðimanna. Samkvæmt gögnum málsins hefur hann fengið útgefið veiðikort fyrir tímabilið 2007-2008 og hefur verið veiðikorthafi síðan árið 1999. Samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar sótti kærandi veiðikortanámskeið árið 1997. Gert er ráð fyrir því í 1. tl. 2. mgr. 12. gr. reglugerðar um stjórn hreindýraveiða að leiðsögumaður hafi veiðikort sbr. orðalag ákvæðisins: „skotvopnaleyfi sbr. 10. gr." en í 10. gr. reglugerðarinnar er fjallað um veiðikort. Krafa (b)-liðar 3. tl. 2. mgr. 12. gr. um námskeið í þar til greindum lögum og reglugerðum er því sjálfstætt skilyrði samkvæmt reglugerðinni. Ljóst er hins vegar að kærandi lauk námskeiði í lögum á sviði náttúruverndar, dýraverndar o.fl. árið 1997. Umrætt námskeið var haldið á grundvelli reglugerðar um veiðikort og hæfnispróf veiðimanna, nr. 291/1995. Um hæfniskröfur veiðimanna segir í 9. gr. þeirrar reglugerðar m.a. að könnuð skuli þekking manna á undirstöðuatriðum í stofnvistfræði, náttúruvernd, dýravernd, greiningu fugla og spendýra, hlunnindanýtingu, veiðisiðfræði, þekkingu manna á meðferð veiðitækja, sem og í lögum og reglum um framanngreind atriði. Ráðuneytið telur að námskeiðslýsing hvað þennan þátt varðar sé sambærileg í reglugerð um veiðikort og hæfnispróf veiðimanna, nr. 291/1995 og reglugerð um stjórn hreindýraveiða, nr. 486/2003. Kærandi sótti námsskeiðið eftir að framangreind lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994 tóku gildi. Eins og fram hefur komið er ekki fjallað sérstaklega um námskeið fyrir leiðsögumenn í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994. Telur ráðuneytið því að kærandi verði að teljast uppfylla skilyrði (b)-lið liðar 3. tl. 2. mgr. 12. gr. reglugerðar um stjórn hreindýraveiða.

Samkvæmt (c)-lið 3. tl. 2. mgr. 12. gr. framangreindrar reglugerðar skal umsækjandi hafa staðfestingu á þátttöku í námskeiði um leiðsögn. Samkvæmt viðbótargögnum kæranda útskrifaðist hann sem svæðisleiðsögumaður á Austurlandi frá leiðsöguskóla, Menntaskólans í Kópavogi í maí árið 2000. Telur ráðuneytið því að hann uppfylli skilyrði framangreinds (c)-liðar.

Samkvæmt (d)-lið 3. tl. 2. mgr. 12. gr. framangreindrar reglugerðar skal umsækjandi hafa staðfestingu á þátttöku í námskeiði um meðferð skotvopna. Umsækjandi hefur skotvopnaleyfi og lauk veiðikortanámskeiði þar sem m.a. var fjallað um meðferð veiðitækja. Með vísun til umfjöllunar um námslýsingu á námskeiði um veiðikort hér að framan og niðurstöðu um (b)-lið hér að framan telur ráðuneytið umsækjanda uppfylla skilyrði framangreinds (d)-liðar.

Samkvæmt (e)-lið 3. tl. 2. mgr. 12. gr. framangreindrar reglugerðar skal umsækjandi hafa staðfestingu á þátttöku í námskeiði í meðferð og notkun áttavita og GPS-staðsetningartækja. Kærandi lauk B.S. námi í landafræði frá Háskóla Íslands árið 19. júní 2004. Vísar hann til námskeiða í kortagerð, loftmyndatúlkun og landræðilegum upplýsingakerfum varðandi framangreinda kröfu reglugerðarinnar. Ráðuneytið kannaði námskeiðslýsingu framangreindra námskeiða í landafræði. Einnig bárust ráðuneytinu upplýsingar frá kennara í framangreindu námskeiði í loftmyndatúlkun. Samkvæmt þeim upplýsingum var kennsla í meðferð og notkun áttavita og GPS-staðsetningartækja innifalin í námskeiðinu. Telur ráðuneytið kæranda því uppfylla skilyrði framangreinds (e)-liðar.

Samkvæmt (f)-lið 3. tl. 2. mgr. 12. gr. framangreindrar reglugerðar skal umsækjandi hafa staðfestingu á þátttöku í námskeiði í veiði villtra dýra og siðfræði og siðareglum veiðimanna. Með vísun til umfjöllunar um námslýsingu á námskeiði um veiðikort hér að framan og niðurstöðu um (b) og (d)-liði og með hliðstjón af því að kærandi hefur lokið 4 eininga námskeiði við Landbúnaðarháskóla Íslands í vistfræði, heimspeki og náttúrunýtingum telur ráðuneytið að kærandi uppfylli skilyrði framangreinds (f)-liðar.

Ekki er deilt sérstaklega um í máli þessu hvort umsækjandi uppfylli skilyrði 1., 2. og 4. liðar 2. mgr. 12. gr. reglugerðar um stjórn hreindýraveiða. Ráðuneytið telur þó nauðsynlegt að fjalla um þá liði m.t.t. heildarniðurstöðu málsins. Samkvæmt 1. tl. skal umsækjandi hafa skotvopnaleyfi samkvæmt 10. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt framlögðum gögnum kæranda hefur hann skotvopnaleyfi í gildi og veiðikort útgefið af Umhverfisstofnun. Samkvæmt 2. tl. skal umsækjandi hafa þekkingu og reynslu af veiðum, fláningu og meðferð afurða hreindýra. Kærandi segir í kæru að hann hafi fellt 4 hreindýr og vísar til veiðiskýrslna Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun hefur staðfest þær upplýsingar. Samkvæmt 4. tl. skal umsækjandi sýna fram á hæfni sína í skyndihjálp. Samkvæmt viðbótargögnum kæranda lauk hann þann 5. júní 2007 upprifjunarnámskeiði í skyndihjálp fyrir leiðsögumenn með hreindýraveiðum. Telur ráðuneytið kæranda því uppfylla skilyrði framangreinds 4. tl.

Samkvæmt framansögðu telur ráðuneytið kæranda uppfylla skilyrði til að fá útgefið leyfi til að taka að sér leiðsögn með hreindýraveiðum sbr. 8. mgr. 14. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, 64/1994. Er því ákvörðun Umhverfisstofnunar, frá 4. apríl 2007, felld úr gildi. Lagt er fyrir Umhverfisstofnun að gefa út leyfi til að stunda leiðsögn með hreindýraveiðum fyrir kæranda X.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Umhverfisstofnunar, frá 4. apríl 2007, um að synja X, um að fá útgefið leyfi til leiðsögu með hreindýraveiðum, er felld úr gildi. Lagt er fyrir Umhverfisstofnun að gefa út umbeðið leyfi í samræmi við umsókn X þar um.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum